Leiðin að Laugarvegi 2024: Upplýsingaofgnótt og skapsveiflur

Þessi pistill er annar í seríu sem um ferðalagið og undirbúning fyrir Laugavegshlaupið 2024. Ef þú vilt meira samhengi þá má finna fyrsta hluta hér.

Þegar ég skrifaði síðasta pistil var næst á dagskrá að gera alvöru áætlun fyrir næstu fjóra mánuði og finna jafnvægi milli hlaupaæfinga, ju-jitsu og lífsins.

Örlögin kváðu að vandamál jafnvægis í æfingum skyldi leyst tímabundið. Í annað sinn í vetur blossaði upp væg húðsýking hjá mér og þurfti ég því að taka mér smá pásu frá glímunni, þar sem smitandi húðsýkingar fara illa saman við íþrótt sem mætti lýsa sem árásargjörnu knúsi. Þetta fór vissulega í taugarnar á mér en ég bjóst að jafna mig hratt. Hjálpaði að í þetta sinn var sýkingin lítill blettur og ekki „versta sýking sem ég hef séð,“ eins og þjálfarinn minn orðaði það pent. 

Að semja æfingarplan

Fyrir fjórtán árum hljóp ég maraþon og rétt eins og þá reyndi ég núna að finna mér gott æfingarplan á veraldarvefnum. Þá fann ég einn sérfræðing, Hal Higdon. Ef ég man rétt þá mældi vinur mömmu með honum.Það gæti vel verið að hann hafi verið sá eini sem var með svona plön gefins á þeim tíma. Þetta var áður en samkeppnin um athygli var slík að ein áhrifaríkasta leiðin til að fanga viðskipti er að gefa helling af góðu (eða lélegu) efni. Svo er ekki lengur.

Full margar niðurstöður(?)

Eftir um það bil klukkutíma leit að góðu hlaupaplani árið 2024 var ég hér um bil að missa vitið. Möguleikarnir voru ekki nokkrir heldur hundruð. Myndböndin voru nánast óteljandi og þau töluðu þvers á kruss við hvort annað. Ofan á þau bættust bloggfærslur og hlaðvörp. Hver var rauði þráðurinn? Bara það að maður skyldi hlaupa helling, helst lengi í einu. Örfá plön mældu meira að sé gegn því, eða skilgreindu hugtakið „hlaupa mikið“ skringilega.

Það er skiljanlegt að það ríki ákveðin upplýsingaóreiða á þessu. Ultra-hlaup eru fremur ung íþrótt. Það virðist líka vera ákveðin eðlismunur á „styttri“ ultra-hlaupum annars vegar, sem eru í kringum 50 kílómetra og svo hins vegar þeim hlaupum sem eru norðan við hundrað kílómetrana. Mér fannst kómískt að sumir vilja að hlaup í kringum 50 kílómetra að séu skilgreind sem létt-ultra. Í þessum svokölluðu létt-ultra hlaupum geta þeir bestu keyrt á nær fullu gasi allan tíman á meðan „alvöru“ ultra eru mun hægari. Um allt er víst hægt að rífast á netinu, en þetta er útúrdúr.

Að lokum fann ég fínan mann á Youtube sem virtist traustvekjandi. Eins og flestir aðrir lagði hann áherslu á að ná heildar kílómetrafjöldanum upp og hann sýndi vel hvernig ætti að reikna út heildarfjöldan fyrir hverja viku, hversu mikið ætti að hvíla og svo framvegis. Það höfðaði til mín að hann var meira að kenna manni að gera eigin plan en að setja upp plan fyrir alla. Svo hljómaði hann skynsamur og skír, við sjáum til eftir nokkra mánuði hvort dómgreind mín hafi verið rétt.

Ég fyllti samviskusamlega út Excel skjalið, fjölgaði vikulegu hlaupum úr tveim í þrjú, nýtti tíman á meðan ég komst ekki glímu í styrktaræfingar og meiddi mig tveimur vikum seinna. Meira um það hér fyrir neðan.

Góður sprettur og langur dagur.

Síðan ég festi markmiðið um Laugavegshlaup í huga mér hef ég lítið hlaupið hratt. Líklega ekki oftar en á þriggja vikna fresti að meðaltali, kannski 10% af heildar kílómetrunum mínum hafa verið í stuttum, hröðum hlaupum. Nýlega gekk eitt langhlaupið mitt mun betur en venjulega. Þá meina ég allt við hlaupið, hraðinn var fínn, ég skemmti mér betur en oft og þegar ég kom heim langaði mig virkilega að halda áfram. Eitthvað kitlaði líka í mér, löngun til að prófa að fara styttri vegalengd og virkilega sjá hvað ég gæti komist hratt yfir. 

Nokkrum dögum seinna reimaði ég á mig skónna eftir vinnu og hitaði upp. Ég var búin að ákveða að setja á háværa tónlist, hundsa úrið og fara fimm kílómetra hring í kringum Öskjuhlíðina eins hratt og ég mögulega gæti. Ég ætlaði að reyna að líta sem minnst á úrið í hlaupinu og markmiðið var ekki að hlakka til að mæta næst, heldur að gjörsamlega klára mig.

Eftir fimm hundruð metra var mér aðeins illt í fætinum en ég sagði sjálfum mér að ef verkurinn versnaði á næsta kílómetra myndi ég hætta við, ef ekki héldi ég áfram. Við miðpunkt hlaupsins leið mér eins og hlypi á bleiku skýi. Þegar ég kom að ógeðslegu brekkunni upp Suðurhlíðina fann ég að ég ætti ekki mikið eftir í tankinum, hægði á mér eins og ég þurfti og hef örugglega litið skemmtilega fnæsandi út fyrir strákana sem voru að leika sér við götuna. Eftir brekkuna leyfði ég mér að líta á úrið og sá að ég átti bara nokkur hundruð metra eftir og var á betri tíma en ég þorði að vona.

Síðustu tvö hundruð metrana langaði mig að öskra á úrið að hristast til að segja mér að ég væri komin fimm kílómetra, sem það loksins gerði og ég leyfði mér að haltra móður að einhverju húsi, setjast og sjá árangurinn á úrinu. Ég trúði ekki mínum eigin augun.

Það kom mér svo sem ekki á óvart að ég hafði bætt eigið met í fimm kílómetrum, en að ég hefði bætt það um meira en mínútu, það var óvænt.

Auðvitað er fimm kílómetrar á 24 mínútum ekkert rosalegt afrek í stóra samhenginu en ég átti fyrr á dauða mínum von en að ég myndi hlaupa svo hratt. 25 mínútna múrinn alltaf verið stór í mínum huga, óyfirstíganlegur veggur sem bara alvöru hlauparar rjúfa.

Það sem mér finnst áhugaverðast er að ég hef ekkert sérstaklega verið að æfa upp á hraða. Lang flest hlaup mín síðustu mánuði hafa verið hæg. Það var gaman að sjá að hægu hlaupin geri mann hraðari, sem ég hef aldrei raunverulega trúað. Þetta hef ég kannski vitað, en ekki trúað. Sama hversu oft maður heyrir svona þá er ekkert eins og að finna það á eigin skinni.

Í kjölfarið fékk ég smá spennufall gagnvart hlaupum. Hálf fáránlegt í byrjun formlegra æfinga. Spennufallið náði hámarki helgina eftir þegar ég ákvað að taka langa hlaupið mitt út á Seltjarnarnes og í fyrsta sinn lengi dauðleiddist mér í hlaupinu.

Hvort sem það var skortur á góðu hlaðvarpi, grátt veðrið, slæmur svefn, eða þetta var bara einn af þessum dögum, þá var ég farin um að hugsa um að hætta eftir fyrsta þriðjung af hlaupinu. Líklega er þetta eðlilegur hluti af ferlinu, blanda spennufalls og því að hafa ekki fengið fjölbreytni í gegnum glímuæfingar í nokkrar vikur. Svo meiddist ég.

Ég veit ekki hvort ilin á mér var búin að vera slæm og ég hundsaði hana eða hvort þetta gerðist bara. En á þriðjudeginum tók ég nokkuð harða styrktaræfingu, daginn eftir rólegt hlaup heim og um kvöldið var ég haltrandi af verki undir fætinum. Verkur sem rímaði ansi vel við meiðsli sem konan mín hefur glímt við í marga mánuði.

Þetta fór hroðalega í skapið á mér. Ekki hjálpaði að ég fann sérstaklega illa fyrir verknum eftir einn lélegasta handboltaleik sem ég hef farið á.  Satt best að segja panikkaði ég gjörsamlega. Um kvöldið sá ég fyrir mér margra vikna fjarveru frá hlaupum og jafnvel glímu og styrktaræfingum, og að þurfa að taka eitthvað prógram á síðustu stundu til að lifa af Laugarvegshlaupið og svo framvegis.

Mér fannst svo sem augljóst að skapið myndi batna daginn eftir, en ég var samt lafhræddur um að ég væri að horfa á alvöru leiðindarmeiðsli (leiðindarmeiðsli skilgreinist hér sem öll meiðsli sem læknast bara með hvíld). Þetta var eitt af þessum skiptum þar sem konan mín var frábær. Hún leyfði mér að taka þann tuð pistil sem ég þurfti, fór yfir hvað hún gerði vitlaust þegar hún fann fyrir þessum einkennum og hvatti mig til að hvíla mig í tvo-þrjá daga áður en ég færi yfir um.

Síðan þá eru nokkrir dagar liðnir. Ég fann fyrir smá verkjum daginn eftir að ég panikkaði, engan daginn eftir það og prufaði létta fjallgöngu með fjölskyldunni um páskahelgina. Á morgun (þegar þetta er skrifað) ætla ég að taka af varfærnislegt hlaup eftir vinnu, sjáum hvað setur með það. Ef ég finn engan verk ætti ég að geta náð mér upp á fyrri stað í hlaupamagni á svona tveim vikum, ef ég finn fyrir einkennum mun ég væntanlega þurfa að endurhanna planið frá grunni.  

Markmið sumarsins.

Það er nokkuð auðvelt að segja að stóra markmiðið sé að taka Laugaveginn á undir sex tímum og eða eitthvað slíkt. Málið er að ég hef ekkert fyrir mér í þessum málum. Ég átta mig engan vegin á hversu erfitt þetta er í samhengi við fyrri hlaupareynslu mína, ég átta mig heldur engan vegin á því hversu vel styrktar æfingar vetrarins hafa skilað sér, hvað þá hversu gott æfingarplanið mitt verðu.

Í bili er eina markmið mitt í stór hlaupinu að klára brosandi. Ég er búin að skrá mig í Akrafjall Ultra og mun líka skrá mig í Snæfellsneshlaupið. Í þessum tveimur hlaupum mun tek ég stöðuna á skrokknum, hvað ég þoli mikinn kraft og svo framvegis.

Sjáumst eftir mánuð kæra fjall.

Næstu skref.

Ég hélt að þessi tímapunktur myndi sá sem myndi auka vikulega kílómetrafjöldann og fyndi taktinn í æfingum. Næstu skref virðast frekar vera biðin eftir að fóturinn sé pottþétt í lagi og svo að vinna sig aftur upp í kílómetrafjölda. Pirrandi, en skárra en að vera alveg frá í margar vikur. Björtu hliðarnar og allt það…

1 athugasemd á “Leiðin að Laugarvegi 2024: Upplýsingaofgnótt og skapsveiflur

Færðu inn athugasemd