Örsögur úr ódýrri íbúð: Burt með þig

Við Bóndinn stígum syngjandi út af ballinu og hefjum markvissa leit að krá til að halda kvöldinu áfram. Hið fyrrnefnda er reyndar góð vísbending um að hið síðarnefnda sé slæm hugmynd, þegar við byrjum að syngja saman var líklega svona klukkutími síðan við hefðum átt að halda heim. En við erum glaðir og leitum að næsta bjór eins og hann sé falinn fjársjóður.

Bóndinn er góður vinur og skólabróðir frá Íslandi. Hann hefur þann eina stóra ókost að verða stundum sveitaballafullur. Þegar hann kemst á það stig er best að syngja með og vona að hann muni ekki móðgast yfir einhverju smáatriði. Það gat haft ýmsar afleiðingar: Reiðöskur, partíslútt eða hnefahögg.

Sú staðreynd að ég er búinn með hálfa brennivín á tóman maga gæti tengst því eitthvað að ég vilji ólmur halda áfram að djamma. Eftir stutta göngu finnum við álitlega krá. Við ákveðum að hún sé fullkomin fyrir einn bjór sem mun líklega enda sem saga. Þú þekkir þá sögu, hún hefst eins og allar bestu djammsögurnar á orðunum: Sko, við ætluðum bara að fá okkur einn en …

Þessi tilvonandi bjór er fjársjóðurinn okkar en í veginum er Dreki. Maðurinn í dyrunum er tveir metrar á hæð, sköllóttur og með vöðvabyggingu sem staðhæfir að hann kæmist ekki í gegnum lyfjapróf. Hann hefur gríðargóð tök á varðhundasvipnum sem allir góðir dyraverðir æfa sig í heima, svipnum sem segir: Ekki fokka í mér, ég kann að komast upp með ýmislegt.

Til þess að hetjan nái í fjársjóðinn þarf hún að ganga óttalaus að Drekanum, sem ég geri. Ég heilsa, hann segir strax að Bóndinn sé of fullur. Ég lýg að við séum að bíða eftir fari og langi bara að fá okkur einn bjór á meðan við bíðum. Ég brosi mínu blíðasta. Bóndinn virðist skilja hvað sé í húfi og verður skyndilega rólegri. Kannski voru það jakkafötin sem við vorum í, kannski var það brosið en Drekinn hleypir okkur inn. Ég verð að lofa að Bóndinn hegði sér, sem ég geri þótt ég eigi að vita betur

Við Bóndinn skerum okkur aðeins úr hópnum á barnum. Viðskiptavinirnir eru unga og svala liðið í London. Þau standa teinrétt, ræða stjórnmál og hagkerfið. Við Bóndinn vorum á balli, þannig að við erum að sjálfsögðu vel klæddir en íslenski hreimurinn passar ekki hér og hvað þá ölvunarstigið. Mér er sama, er kominn með fjársjóð, gullinn bjór í glasi.

Hópur ungra manna tekur eftir mér og biður mig um að vera dómari. Það eru tvö lið í hópnum, bankastarfsmenn og lögfræðingar. Þeir eru að rífast um hvor stéttin lendir í ósanngjarnari umfjöllun. Ég segi lögfræðingar, þar sem bankamenn hafi valdið bankahruninu sé slæma umtalið um þá verðskuldað. Ég býst við að vera rekinn á brott en þeim finnst þessi óviðeigandi hreinskilni fyndin og við byrjum fljótlega að ræða fótbolta. Stóri kosturinn við boltann er að hægt er að ræða hann við alla sem hafa áhuga á honum, sama hvort það er pólskur rútubílstjóri, breskur lögfræðingur eða brasilískur listamaður. Enski boltinn jafnar alla í samtali.

Eftir að fjársjóðnum er náð er viðeigandi að leita sér að prinsessu. Ég kveð nýju vinina og gef mig á tal við stelpu. Ég tek eftir að Bóndinn er líka að eignast nýja vini. Þetta var á því ömurlega tímabili þegar ég hélt að lykillinn að velgengni með kvenfólki væri gervisjálfstraust og hroki. Ég segi brandara um eigin snilli, stríði henni og læt almennt eins og ég sé guðs gjöf til kvenna.

Nema þetta kvöld er sjálfstraustið ekta, enda knúið áfram af því að hafa sigrað Drekann og unnið jakkafatamennina á mitt band. Kannski fannst henni ég bara sætur, kannski náði ég að hitta á einhverja töfrabrandara en við erum fljótt farin að hlæja saman. Ég lýg því að síminn minn sé týndur og fæ hana til að hringja í mig og þykist sigri hrósandi yfir að hafa náð númerinu hennar. Eins og slíkt sé einhver sigur og ekki tvær manneskjur að ákveða að þær vilji kynnast betur.

Ég er farinn að sjá fyrir mér stefnumót þegar ég heyri skarkala. Bóndinn og einhver Breti eru komnir í öskurrifrildi, með hnefunum. Í ljós kemur að ekki allir eru jafn tilbúnir í sveitaballadrykkjuna hans. Ég blóta, legg frá mér bjórinn og stekk á milli þeirra, gríp um hálsmálið á Bóndanum og ýti honum frá. Svo sný ég mér að hinum gaurnum og af einhverri ástæðu bendi ég mjög fast á hann.

Það er svo óvænt að hann dettur úr hamnum. En skaðinn er skeður. Ég sé Drekann koma hlaupandi. Ég á allt eins von á að hann grípi okkur báða og ég fái loksins að upplifa að vera bókstaflega kastað út. Sem hefði verið skemmtilegra en það sem gerðist.

Í stað þess að grípa til teiknimyndaofbeldis horfir hann beint á mig. Manstu þegar þú gerðir eitthvað ömurlegt í æsku og hélst að kennarinn yrði brjálaður en í staðinn hristi hann bara höfuðið og sagði að þú yllir honum vonbrigðum. Það var svipurinn. Tveggja metra hái Drekinn er raunverulega sár á svipinn þegar hann sér að ég hef svikið loforðið og mér líður eins og skíthæl.

Ég bíð ekki boðanna, þótt ég hafi svikið Drekann ætla ég ekki að gera vinnuna hans erfiðari.  Ég dreg Bóndann út. Stelpan hristir höfuðið í átt að mér. Drekinn rekur á eftir okkur. Bóndinn, eins og oft þegar hann gerði eitthvað svona, er reiðari út í sjálfan sig en nokkurn annan. Við Bóndinn komum okkur heim og ég hugsa leiður um stefnumótið sem ekki verður og fjársjóðinn sem stendur enn þá ódrukkinn á borðinu.

Örsögur úr ódýrri íbúð: Grasið græna

Undir venjulegum kringumstæðum myndi sjóða á mér þegar manneskjan á undan mér eyðir hálfri ævi í að velja á milli Big Mac og Big Mac með osti. En við Spaðinn erum hvort eð er nýbúnir að missa af lestinni og þar að auki var sýningin sem við vorum á frábær þannig að skapið helst gott.

Við erum staddir á Waterloo-lestarstöðinni, nýkomnir af einum besta einleik sem ég hef séð. Við erum glorsoltnir og pínu drukknir. Við þessar aðstæður er lestarstöðva-McDonalds ekki bara viðeigandi, hann er skylda.

 McDonalds-staðirnir á lestarstöðvum í London er allir svipaðir, sérstaklega eftir klukkan tíu á kvöldin þegar hópar af djammklæddu fólki á leið heim mætir til að gera síðustu mistök kvöldsins. Þeir hafa samt hver sín einkenni. Þessi hjá Kings Cross verður svo troðinn að þeir loka salnum klukkan tíu og þú verður að skófla í þig matnum fyrir utan, á meðan þú dáist að því hversu léttklæddir Englendingar geta verið í næturkuldanum. Þessi hjá Charring Cross er svo stór að maður fær víðáttubrjálæði og getur ekki annað en tekið eftir að fólkið í kringum mann er klætt í jakkaföt, nýkomið úr partíi hjá einhverjum banka. Það er eitthvað við bæði jakkaföt og eldra fólk á McDonalds, maður fyllist depurð við að sjá það. Eins og að horfa á glæsilegan örn borða rusl.

Waterloo-staðurinn er pínulítill, til þess að finna sæti þarf maður að ráðast á þau eins og rándýr og vera undir það búinn að miðaldra kona á fimmta prosseco-glasi haldi langa ræðu um virðingarleysi yngri kynslóðarinnar. Samúð er mistök við þessar aðstæður.

Við Spaðinn pöntum fjöldaframleidda hamborgara og laukhringi og stökkvum á laus sæti. Við hlið okkar er maður sem passar ekki alveg inn á staðinn á þessari stundu. Hann er til dæmis augljóslega edrú. Við Spaðinn ræðum sýninguna og síðan mögulega áheyrnaprufu, eða öllu heldur skortinn á þeim. Eftir smá stund spyr gaurinn um hvern fjandann við séum að tala. Við útskýrum að við séum leikarar á milli gigga, vinnum fyrir okkur með því að þjóna í dýragarði og séum að reyna að búa til sjálfstæðar sýningar. Svarið hans er óvænt.

– Vá. Þvílíkt snilldarlíf.

Hann segist vinna á auglýsingastofu, mæti á hverjum degi um átta og vinni allt of mikið.

– Eins og við? Nema með betra kaup?

– Já, en ég fæ ekki einu sinni að láta mig dreyma um það ókomna, þið eruð allavega að skemmta ykkur í kvöld.

Svo snýr hann sér aftur að borgaranum, klárar hann í tveimur risavöxnum bitum og lætur sig hverfa. Spaðinn brýtur ísinn.

– Var hann … öfundsjúkur … út í okkur?

Í stað þess að svara ákveð ég að einbeitta mér að laukhring. Ég er ekki beint að njóta London í botn og sú tilhugsun að fullorðinn maður í fastri vinnu sjái það sem við erum að gera sem betri kost en sitt líf er of mikið. Sérstaklega þar sem McDonalds með vini eftir leiksýningu er hápunktur mánaðarins hjá mér.

Örsögur úr ódýrri íbúð: Dýralíf II – Tvær plánetur

20! stendur á þriggja metra háa rósakransinum og mig langar að skella upp úr, en það væri líklega ekki fagmennska. Þessi listgjörningur er það ljótasta sem ég hef séð og það sem verra er, móðir eigandans er að rifna úr stolti á meðan kransinn er afhjúpaður. Fyrir henni var þetta hápunktur kvöldsins, hún geislar af móðurást og ég skammast mín hálfpartinn fyrir að hlæja að henni. Það er tvítugsafmæli í dýragarðinum, fyrir tvö hundruð manna nemendahóp úr Oxford.

Þegar ég varð tvítugur fóru foreldrar mínir til Hvergerðis og vinir mínir þöktu stofugólfið heima hjá mér með bíópoppi. Þegar þessi gaur varð tvítugur leigði pabbi hans stóra salinn í dýragarðinum (5000 pund), bauð 200 krökkum úr Oxford að mæta í jakkafötum og Arsenal-rauðu í þriggja rétta máltíð (150 pund á haus) og pantaði opinn bar (sem endaði í 7000 punda reikningi). Það voru ekki krakkarnir sem báðu um meira áfengi, gamli var kominn vel í glas löngu fyrir miðnætti og fannst ekkert tiltökumál að hækka drykkjareikninginn nokkrum sinnum.

Það svíður smá að sjá krakka um tvítugt brenna árslaunum þínum í partí. Það er ekki að ég haldi að líf þeirra sé endilega betra en mitt. Líkurnar á að allavega einn þarna endi sem breskur þingmaður eru nánast 100%, en líka líkurnar á að nokkur þeirra upplifi ljóta skilnaði, einhver verði alki, einhver misnoti tækifærið sem Oxford býður og endi miðaldra og bitur. Það er samt erfitt að hafa svoleiðis samhengi í huga þegar þú horfir á skólakrakka skemmta sér konunglega og þú mátt bara brosa og rétta næsta bjór.

– Hvert eru þessir að fara? spyr Spaðinn, sem var nýbyrjaður að vinna á staðnum og bendir mér á tvo stráka sem eru komnir úr salnum og út í garðinn.

– Í átt að mörgæsunum, segi ég og hleyp af stað eins og hasarmyndastjarna. Dýragarðurinn umbar veisluþjónustuna af því að tekjurnar af henni voru fáránlegar en það var algjört skilyrði að dýrin væru ekki trufluð. Næturverðirnir áttu að slútta veislum ef þeir mátu að partíið hefði áhrif á dýrin og þurftu ekki að útskýra slíka ákvörðun.

Þegar ég næ strákunum eru þeir komnir hálfa leið upp grindverkið hjá fiðurfénu og ég öskra á þá að drulla sér niður. Þetta eru líka mörgæsirnar! Hvers konar skrímsli ætlar að eyðileggja nætursvefninn þeirra?

– Fyrirgefðu, segir annar þeirra, við ætluðum að finna tígrisdýrin.

Ég hefði mögulega leyft þeim að klifra þar inn. Sumt er svo vitlaust að maður verður bara að leyfa náttúrunni að sjá um sitt. Ég er að grínast! Held ég.

Það er önnur veisla í gangi hinum megin í garðinum og það var víst búið að biðja mig að sækja glös þangað. Dýragarðurinn er yndislegur á nóttunni. Stöku fugl starir á mig úr búri en annars eru jafnt Simbi, Tímon og Púmba sofandi. Svona friður var sjaldgæfur í stórborginni. Það er sumt sem þú fattar ekki að þú munir sakna þegar þú flytur frá Hafnarfirði til London, til dæmis friðsemdar.

Þegar ég geng hjá tígrisdýrabúrinu bið ég tignarlegar skepnurnar afsökunar á að hafa haft af þeim máltíð, þau hrjóta bara áfram.

Hin veislan gæti ekki verið ólíkari tvítugsafmælinu. Pínulítið og sætt brúðkaup þar sem brúðhjónin eru klædd í strigaskó og salurinn var það eina sem þau áttu fyrir. Þau eru ekki einu sinni með opinn bar, sem þau hálfskammast sín fyrir, þau borguðu meira að segja fyrir eigin drykki á barnum. Veislustjórinn sýnir mér vagninn sem ég á að fara með og réttir mér staup. Við skálum fyrir kvöldinu og verðum vandræðalegir þegar við sjáum að brúðgauminn starir á okkur.

– Eruð þið að taka skot? spyr hann og við reynum að neita.

– Ég ætla að fá átta sambuca-skot, segir hann svo. Við hellum í þau í hvelli. Okkur að óvörum kallar hann í hina þjónana og heimtar að við tökum skot með sér.

– Í dag er besti dagur lífs míns, segir hann, takk fyrir að vera hluti af honum, skál!

Við tökum skotin og ég ýti kerrunni til baka, örlítið meyr. Þegar ég er hálfnaður aftur í Oxford-partíið rifjast upp að við gleymdum að rukka brúðgumann, það var alveg óvart. Alveg gjörsamlega óvart. 

Ég kem með kerruna inn í eldhús og Uppvaskarinn öskrar á mig að raða rétt og vera ekki svona seinn. Ég brosi bara. Uppvaskarinn er einstaklega leiðinlegur maður en hefur þann stóra kost að vera með dugnað manns sem heldur uppi stórri fjölskyldu í heimalandinu. Hann á reyndar til að öskra á þjóna, sérstaklega þá sem voru hjá okkur tímabundið, og svo mætti hann oft í vinnu eldsnemma á frídegi, stimplaði sig inn og fékk einhvern félaga til að stimpla sig út um kvöldið. Þetta komst upp þegar launadeildin sendi ábendingu um að einn í uppvaskinu hefði fengið meira útborgað en yfirkokkurinn. En yfirkokkurinn vildi ekki heyra á það minnst að reka besta starfskraftinn sinn. Ég hef kokkinn grunaðan um að finnast þetta fyndið.

Kvöldið er að klárast þegar ég finn sofandi par við lyftuna á starfsmannaganginum. Ég íhuga að skilja þau eftir en hef bara ekki þann kvikindisskap í mér. Ég vek þau með því að hósta hátt, þau hrökkva á fætur og rölta á brott.

Þegar lyftan opnast verður parið í henni töluvert vandræðalegra, hann er búinn að hneppa frá skyrtunni og hún er að leika það eftir. Hann sendir mér vongott augnaráð um hvort ég geti hundsað þetta, ég segi annars hugar:

– Jæja …

Þau klæða sig í hvelli og ég tek eftir að þau kveðja engan á leiðinni að útidyrahurðinni. Voru líklega með önnur plön fyrir eftirpartí.

Við útskýrum að lokum fyrir pabbanum að það þurfi slútta. Hann skilur ekki alveg og býðst til að borga laun starfsmanna áfram. Við bendum á að bjórinn sé að verða búinn, hann kaupir restina og nokkur skot, sem ég skrifa samviskusamlega á reikninginn. Spaðinn stingur síðasta símanúmerinu sem hann fékk í vasann og við höldum heim til okkar.

Vekjaraklukkan vekur mig allt of snemma daginn eftir. Í einhverjum hálfvitaskap, nú eða peningagræðgi, hafði ég samþykkt að mæta til vinnu klukkan tíu til að sjá um barnaafmæli. Ég mun elska börnin mín en ég efa að ég muni skilja að sumu fólki finnist nauðsynlegt að eyða milljón íslenskra króna í afmæli fyrir ómálga barn. Það læðist að mér grunur að það verði jakkaföt og opinn bar í tvítugsafmæli þessa barns líka.

Mér leiðist reyndar ekki að spjalla við leikkonurnar þrjár sem eru mættar í prinsessubúningi. Við getum tuðað endalaust yfir því hversu langt frá draumum okkar þessi dagur er. Ég veit ekki hvað ég væri að gera ef ég hefði farið strax heim til Íslands en mig grunar að ég væri ekki að vinna í barnaafmæli fyrir slikk.

Feðgarnir mæta svo upp úr hádegi, gegnsæir af þynnku báðir tveir. Móðirin hafði ekki tekið í mál að fína þriggja metra blómakransinum yrði hent svo þeir voru sendir að sækja hann.

Ég spyr hvernig þeir hafi það, þeir muldra óljósar óskir um svefn eða afréttara. Þótt þeir séu svona moldríkir fá þeir samt ekki að sofa almennilega út, greyin.

Örsögur úr ódýrri íbúð: Gagnrýnandinn

Síðasta árið í London fékk ég vinnu sem leikhúsgagnrýnandi fyrir litla vefsíðu. Starfið var ekki borgað en ég fékk að fara frítt í leikhús í það minnsta vikulega og sá fjöldann allan af sýningum sem mér hefði aldrei dottið í hug að fara á. Líkurnar á að ég hefði borgað fimmtán þúsund krónur til að sjá Michael Jackson söngleikinn eru nákvæmlega engar, hvað þá að ég myndi fara ítrekað á danssýningar í hæsta gæðaflokki eða eytt hverju kvöldi í heila viku í földu leikhúsi undir lestarstöð.

Eftir langan dag í dýragarðinum er ég á leið í pöbbaleikhús og veit ekkert hvaða sýningu ég er að fara á, man varla nafnið á henni. Ég er bæði þreyttur og sveittur eftir daginn. Föt til skiptanna gleymdust svo ég er klæddur í leðurjakkann minn, þvala skyrtu og alltof stórar jakkafatabuxur sem voru skylda í veisluþjónustunni. Stærðin var ekki skilyrði, ég kann bara ekki að versla föt. Á tánum eru stórir, ónýtir Air Max, hárið er komið í rugl.

Ég sest niður með bjór, eftir að hafa uppgötvað að vinkona mín er að sviðsstýra. Hún býðst til að kynna mig fyrir leikstjóranum eftir sýningu og ég hlakka til. Ljósin slokkna. Leikkonan stígur á svið og í ljós kemur að sýningin fjallar um heimilislausa stúlku sem vingast við efristéttar strák sem á daglega leið hjá henni á leið í skólann. Sýningin er hjartnæm og fyndin, ég er hrifinn af henni (og leikkonunni).

Svo kemur fyrsta atriðið þar sem hún talar beint við áhorfendur. Nánar til tekið betlar hún af þeim. Allir sem hafa komið til stórborgar þekkja óþægindatilfinninguna þegar ókunnugur reyna að sníkja nokkrar þarfar krónur. Það er ógeðslega ljótt en langflestir, ég sjálfur þar með talinn, setja upp ósýnilegan skjöld ef einhver betlar af þeim.

Ég bregst við betli á sviði á sama hátt og á götunni, hristi höfuðið ákveðið. Nema ég get ekki gengið í burtu og hún starir í augun á mér þangað til samviskubitið er orðið yfirþyrmandi. Ég gef mig ekki og hún leikur vel að vera í uppnámi. Hún snýr sér loks að næsta manni, ég er mjög fegin. Maðurinn er mjög almennilegur en neitar að gefa henni fé. Þá segir hún:

– Ekkert mál, þú ert allavega kurteis. Ólíkt sumum, bætir hún við og horfir hvasst á mig. Ég skælbrosi og áhorfendur hlæja vandræðalega. Sumum finnst ekkert óþægilegra en þegar leikarar ávarpa þá, mér finnst það frábært. Tengist mögulegri athyglissýki og löngun til að vera sviðinu ekki neitt, ég lofa.

Sýningin heldur áfram, strákurinn og stelpan kynnast betur og þegar sýningin fer aftur af stað eftir hlé eru þau að fylgjast með Lundúnabúum ganga framhjá. Það er útfært á skemmtilegan hátt, með því að þau benda á fólk í salnum og segja eitthvað um það. Ég veit ekki hvort leikarinn var að fylgjast með fyrir hlé en hann bendir á mig og segir:

– Þessi lítur út fyrir að vera á leið á stefnumót.

Leikkonan sér á hvern hann er að benda og leiðréttir: 

– Nei, hann lítur út eins og hann sé á leið að láta dömpa sér.

Mér finnst eins og hún sé að mana mig í að vera ósáttur, en ég spring úr hlátri.

Sýningin klárast og ég klappa, ákveðinn í að skrifa jákvæðan dóm um sýninguna. Vinkona mín kynnir mig fyrir leikstjóranum. Hann segir að leikkonan hafi aldrei gengið jafn langt í að hrauna yfir áhorfanda. Áður en ég næ að svara spyr hann mig hvernig ég hafi frétt af sýningunni.

Ég set upp sakleysisbrosið og segi:

– Ég? Ég er gagnrýnandinn.

Örsögur úr ódýrri íbúð: Heimferðin endalausa

01:00: Vaktinni og eftir-vaktar-drykknum er lokið. Í bakpokann fer slatti af bjór, ég skipti um föt og læsi skápnum með lykli. Það væri hræðilegt ef vafasamur aðili stæli fimmtán hundruð króna Primark-skónum úr honum.

01:10: Ég tékka hvort ég sé ekki örugglega með símann og veskið, kveð og stíg upp í leigubílinn sem mun skutla mér að strætóstöðinni. Vinnan borgar leigubíl mestalla leið heim en ég þarf að taka næturstrætó síðasta spölinn. Leigubílstjórinn hneykslast á því að ég vinni svona langt frá heimilinu, segir nautheimskt að eyða svona miklum tíma í samgöngur. Sumu er erfitt að mótmæla.

02:10: Hann skilur mig eftir á röngum stað. Annar næturstrætó bætist við ferð sem var of löng fyrir. Biðin er sem betur fer í styttri kantinum, ekki nema tuttugu mínútur. Ef þú þekkir næturstrætó London veistu að það er kraftaverk.

02:30: Um borð í fyrri strætónum er drukkinn, miðaldra rastafari að reyna við glæsilega, ljóshærða konu. Ég segi reyna við, ég meina áreita. Einhver ætti að vera góður gaur og losa hana við hann. Ætlar í alvöru enginn að segja neitt? Ég geri það þá. Það eina sem mér dettur í hug er að hefja samtal við hana á íslensku til að rugla gaurinn. Hún fattar strax og svarar mér á máli sem er enn þá skrýtnara en mitt eigið. Við tölum saman hvort á sínu málinu þangað til rastafarinn gefst upp og fer að tala við mann nær honum í aldri og kyni.

02:35: Við stelpan skiptum yfir í ensku, hún segist vera lettnesk. Ég spyr hana brosandi hvers vegna hún hafi hafnað svo álitlitlegum manni svo hún fer yfir hans helstu kosti. Talar sérstaklega um þessa fallegu blöndu af svita og graslykt sem stóð af honum og að hann hafi verið nær afa hennar en pabba í aldri, þvílíkur draumprins.

02:45: Við kveðjumst brosandi, mér dettur í hug að spyrja um númerið hennar en hún er stigin út áður en ég næ því. Rastafarinn lítur á mig, skilur ekkert og að lokum öskrar hann með nánást óskiljanlegum jamæskum hreimi:

– The fuck is wrong with you, mate!? She was looking for A BLOODCLOT HUSBAND.

Hann er hreinlega móðgaður, hrópar að ég muni deyja einn, að ég kunni ekki að nýta tækfæri og að ég sé karlkyninu til skammar. Þegar hann er farinn að útlista hvernig allar konur séu að leita að eiginmanni, hvort sem þær viðurkenni það eða ekki, horfi ég beint í augun á honum og set á mig heyrnartól. Það hægir ekki einu sinni á honum og ég heyri hann tuða í gegnum tónlistina þangað til ég slepp út úr vagninum. Ég er vitlaus, en ekki nógu vitlaus til að hlusta á þennan gæja.

03:00: Ég er kominn á rétta strætóstöð, bara einn vagn enn. Ég sest upp á vegg og sötra bjór á meðan ég bíð. Mér er virkilega mál að pissa en það eru aðeins of margir á ferli til að bregða sér á bak við tré. Hópur sótölvaðra enskra stelpna gengur framhjá. Ein þeirra klórar mér á hausnum, segist elska ljóst hár. Ég er of hissa til að svara með einhverju sniðugra en að ég sé íslenskur. Þær eru hrifnar af þeirri staðreynd en halda áfram göngunni. Þegar þær eru næstum komnar fyrir hornið hvíslar vinkona drukknu stelpunnar í áttina að mér …

– Threesome?

Freistandi en ég er of þreyttur og ekki alveg nógu vitlaus til slást í för með þeim. Mín önnur stóru mistök þessa nótt. Ég veit ekki ennþá af þeim fyrstu. Vagninn minn birtist, þetta er næstum komið.

03:15-03:30: Ipodinn minn er batteríslaus, ég þarf virkilega að pissa og það er fólk að hætta saman í næstu sætaröð. Þau gráta bæði og játa syndir sínar  á milli þess sem þau hrauna yfir hvort annað. Mig langar smá að snúa mér við og öskra á þau að vera þakklát fyrir að hafa fundið einhvern, sumir hafi ekkert til að hlakka til við heimkomu nema kodda. Ég stilli mig. Ég er farinn að sjá fyrir endann á ferðinni svo ég opna síðasta bjórinn. Það væri kannski skynsamlegra að geyma hann, svona fyrst mér er mál að pissa, en nei, svo sniðugur er ég ekki.

03:35: Frá síðustu stoppistöð og heim er tíu mínútna labb. Ég sé koddann í hillingum. Síðasti bjórinn reyndist, alveg óvænt, vera mistök og þrýstingurinn í þvagblöðrunni er orðinn óbærilegur. Ég er hræddur um að pissa á mig svo ég teygi mig eftir lyklunum og eyk gönguhraðann.

03:36: Lyklarnir eru í dýragarðinum. Mín fyrstu stóru mistök voru sem sagt að skilja þá eftir í vinnunni. Fokk.

03:37: Þrýstingurinn er kominn yfir hættumörk og ég get varla hugsað fyrir sársauka.

03:38: Refur fylgist með mér merkja svæðið mitt í nálægum almenningsgarði. Ég er ekki stoltur af því sem ég er að gera en finnst eins og hann skilji mig.

03:40: Góðu fréttirnar eru að það er ekki búið að laga lásinn að stigaganginum svo ég er allavega ekki fastur úti á götu. Slæmu fréttirnar eru að fjórtán tíma vinnudagurinn og bjórinn er farinn að segja til sín, augnlokin síga ískyggilega. Enn verri fréttir eru að meðleigjendurnir voru á svakalegu djammi svo að líkurnar á að þau vakni við bank eru engar. Næstu klukkutíma ber ég á hurðina, hringi í alla ítrekað, heimsæki refinn aftur, reyni svaladyrnar, endurhugsa líf mitt, hræði líftóruna úr nágranna mínum sem er að koma heim af djamminu og uppgötvar mig hálfsofandi í stigaganginum, sendi sms og skilaboð á Facebook.

06:45: Lestirnar eru loksins byrjaðar að ganga og það er nánast runnið af mér. En lestir ganga hægt og sjaldan á sunnudagsmorgnum. Líklega vegna þess að enginn heilvita maður er á ferðinni í London fyrir hádegi á sunnudegi. Flestir sem eru á ferðinni eru hamingjusamt, hresst fólk sem brosir og er ekki grátt af ölvun. Djammviskubit án þess að hafa farið á djamm er mér ný tilfinning. Þegar ég sé spegilmynd mína í glugga bregður mér, ég er fölur, með dökka bauga, skyrtan er þvöl og hárið stendur í átta mismunandi áttir.

08:00: Gæinn í móttökunni í dýragarðinum hlær að mér þegar hann sér mig. Lyklarnir eru nákvæmlega þar sem ég skildi þá eftir, í lásnum á skápnum. Ég ríf þá úr og nenni ekki að athuga hvort Primark-skórnir séu á sínum stað.

10:00: Koddinn tekur á móti mér, ég gæti grátið af gleði. Ég sofna á hálfri sekúndu.

10:05: Meðleigjandi vekur mig.

– Ingimar, hvað gerðist? Var að sjá allt frá þér á símanum.

Hún er í smá sjokki og ég er varla með meðvitund. Ég safna allri orku sem ég á eftir og svara. Ég man skýrt eftir að hafa sagt: Segi þér það á eftir, leyfðu mér að sofa. En ég hef áreiðanlegar heimildir fyrir að ég hafi í raun sagt: SGfgre þr þá erir lfu mr ð ofa.

Örsögur úr ódýrri íbúð – Beðmál í bænum – Blindur fær sýn

Allir ættu að eiga vin eins og Æskuvininn, sem flestir gera reyndar því hann virðist þekkja alla. Mögulega var það þess vegna sem hann var í smábasli þegar hann flutti til London, fyrir gæja sem var vanur að vera með risavaxið félagslegt net var skrýtið að flytja til borgar þar sem hann þekkti engan nema mig.

Það var gott að fá gamlan vin til London, ég hjálpaði eins og hægt var, benti honum á mögulegt vesen í breska kerfinu og bauð honum á djömm með vinum mínum til að hann kynntist nýju fólki. Þetta föstudagskvöld er slíkt á dagskrá: Nokkrir vinir, góður bar og ef þér finnst það ekki bara fínasta plan er ég ekki viss um að við getum skilið hvor annan.

Kvöldið fer rólega af stað. Hittingurinn er heima hjá Skáldkonunni, í hverfinu Greenwich. Við Æskuvinurinn mætum til hennar og fljótt verður ljóst að þeim leiðist ekki hvort annað. Gott og blessað. Svo kemur vinahópur Skáldkonunar á staðinn og ég tek eftir að vinkona hennar, Dísin, er í hópnum. Mér leiðist hún ekki.

Ég hafði fyrst tekið eftir Dísinni í upphafi skólagöngunar. Hún var brjálæðislega snjöll, kraftmikil og afskaplega sæt. Ég hafði fyrir löngu ákveðið að hún væri alltof nett til að ég ætti séns í hana. Félagar mínir voru pirrandi sammála mér.

Það líður á kvöldið og við gerum okkur ferð á nálægan bar. Staðurinn er fullur af drukknum Írum í sjóræningjabúningum. Þetta hefði kannski verið eðlilegt í Greenwich árið 1716, en 2014 vakti þetta furðu. Sumir þeirra syngja og dansa en flestir virðast ekki vera í partístuði. Milli bjóra spyr ég einn þeirra hver fjandinn sé í gangi.

– Vinur okkar dó nýlega. Hér var steggjunin hans og við ætlum að koma hingað árlega til að heiðra minningu hans. Þessi grátandi í horninu er ekkjan hans.

Ég votta þeim samúð og forðast sjóræningjana það sem eftir er kvöldsins. Þetta er mjög fallegt en ekki stuðið sem ég er að leita að. Við eitt borðið eru Æskuvinurinn og Skáldkonan komin á trúnó en þegar þau taka eftir að ég er einn kalla þau á mig. Dísin sest hjá okkur og við hlæjum saman að vinkonu okkar sem er að kynnast einum sjóræningjanum, mjög náið. Þetta sem þú ert að hugsa er á réttri leið en ekki nógu gróft.

Barinn lokar og við höldum heim til Skáldkonunar eftir stutta leit að stelpunni með sjóræningjanum. Hún fannst daginn eftir, í góðu stuði með ögn særða sjálfsvirðingu en fína sögu að segja. Við erum núna bara fjögur, súpandi rauðvín og borðandi eitthvað sem engum hefði dottið í hug að elda edrú. Frábær félagsskapur og yndisleg samtöl, hvað gæti farið úrskeiðis?

Ég er farinn að hugsa til heimferðar, sérstaklega þar sem ég er ekki með linsubox á mér og er farið að svíða ögn í augun. Ég er nýbyrjaður að ganga með linsur og ekki búinn að venjast þeim. Þar að auki voru þær drulludýrar og ég þurfti að koma þeim í vökva, annars myndu þær skemmast.

En við Dísin höldum áfram að spjalla, um Mad Max, feminisma og sambandið sem hún var að hætta í. Við hlæjum að öllu hvort hjá öðru og skoðanir hennar eru sterkar, skýrar og áhugaverðar. Eitt andartak dettur mér í hug að hún sé að daðra en ég er fljótur að kæfa þá hugsun. Hún er alltof of kúl fyrir mig.

Að lokum fer ég og held í átt að strætóstöðinni. Æskuvinurinn ætlar að gista. Ekki mínútu eftir að ég kveð fæ ég sms frá honum: Vá þú ert blindur. Ég íhuga að snúa við en þrjóskan, kannski með votti af skömm, tekur yfir. Ég ætla að sofa í eigin rúmi í kvöld.

Eftir hálftímalabb þar sem ég blóta sjálfum mér nær linnulaust uppgötva ég að næturstrætó ætti að vera kallaður síðla-kvölds strætó. Helvítið er hætt að ganga. Það væri möguleiki að ganga heim, en nei annars, svoleiðis mistök geri ég ekki aftur.

Þegar ég kem aftur til Skáldkonunar hlæja þau öll að mér, mikið og verðskuldað. Ég reyni að finna aftur stundina með Dísinni en hún er skiljanlega ekki alveg jafn til eftir eina klunnalega höfnun. Linsurnar enda í skotglasi og ég á sófanum, einn og pirraður út í sjálfan mig.

Daginn eftir gerum við Æskuvinurinn okkur klára í heimför á meðan stelpurnar spjalla. Linsurnar eru búnar að þorna í skotglasinu en mig minnir að sjóðandi vatni dugi til að hreinsa þær. Ég er þunnur og ekki alveg að pæla, þannig að rétt áður en við förum sýð ég vatn í hraðsuðukatli, kem annarri linsunni fyrir í lófanum á mér og helli smá vatni á hana. Sérðu gallann við þetta?

Sjóðandi vatnið er alveg sjóðandi heitt og ég öskra af sársauka. Ég skelli hendinni undir kalt vatn og finn sex augu borast í bakið á mér. Mér til varnar þá … nei veistu, ég ætla ekki einu sinni að reyna. Ég veit hversu vitlaus ég er þegar Æskuvinurinn gerir ekki einu sinni grín að því. Skáldkonan og Dísin hrista bara höfuðið. Öll eru þau kjaftstopp yfir þessu og ég óska einskis heitar en að jörðin gleypi mig. Brunablaðran í lófanum var lengi að gróa en svo kurteis að skilja ekki eftir ör.

Örsögur úr ódýrri íbúð: Dýralíf I – Apaspil

Það var skyndiákvörðun að búa áfram í London. Ég var ekki búinn að skipuleggja neitt mánuði fyrir útskrift. Allt í einu fannst mér eins og ég þyrfti að sanna eitthvað í borginni, eins og ég yrði að gera tilraun til að meika það fyrir heimferð. Annars væri að eilífu þessi óþolandi spurning: Hvað ef?

Einhver skynsemisrödd hvíslaði að þetta væri kannski ekki ákvörðun til að taka í flýti, alveg laus við sparifé, ekki með umboðsmann og þar að auki ekki í vinnu. Ég sagði þeirri rödd að þetta myndi reddast, yrði smá hark til að byrja með en þannig væri það hjá öllum leikurum. Ég taldi mig líka hafa svo frábæran skilning á bransanum að ég gæti nælt í hlutverk fljótlega, með eða án umboðsmanns.

Að vinna hjá leigumiðlun fyrir þjóna var kannski ekki það sem ég sá fyrir mér, hvað þá að fara þaðan í Dýragarðinn. Ekki sem sýningargripur heldur starfsmaður í veisluþjónustunni. Starfsfólkið var skemmtilegt og launin nokkrum prósentum yfir lágmarkslaunum. Stóri gallinn var staðsetningin, lestarferðirnar í og úr vinnu tóku lágmark klukkutími hvora leið. Ég komst í gegnum margar bækur í illa loftræstum, troðnum lestarvögnum.

Vinnudagarnir í dýragarðinum voru auðveldir en oftast langir og einhæfir. Það besta við að vinna þarna var fríi bjórinn í lok kvöldvaktar og að sjálfsögðu að umgangast dýrin. Allt frá sjaldgæfum fiðrildum til tignarlegra tígrisdýra og uppáhaldanna minna: hressra mörgæsa sem ég fékk því miður aldrei að kasta.

Þetta kvöld er árshátíð dýragarðsvarðanna. Dags daglega er þetta rólegt fólk, manneskjur sem er svo annt um velferð dýra að þau gera hana að ævistarfi sínu, vilja helst bara vera í kringum dýr og hjálpa þeim að eiga sem best líf.  En núna eru verðirnir að tínast inn úr fyrirpartíum og eru búnir að fá sér fordrykk(i). Líklega gleymdu flestir að fá sér mat áður en drykkjan hófst. Ölvunin er allavega að nálgast stig slæmrar Þjóðhátíðar á methraða.

Það er leiðindahlutverk en einhver þarf að vera sá drukknasti á staðnum. Gullfalleg stelpa í rauðum kjól hefur tekið það að sér. Hún labbar engan vegin þráðbeint að barborðinu sem ég stend við. Þrisvar sinnum er hún næstum búin að hrasa, ég geri mig tilbúinn að stökkva til og hjálpa henni á fætur eins og sannur herramaður. En hún nær að klára gönguna að barnum. Í stað þess að teygja sig eftir bjór, teygir hún sig yfir borðið og grípur um axlirnar á mér.

Hún starir í augun á mér, það er skemmtileg sjón. Svo ropar hún hátt og hikstar því upp að hún hafi sprengt glas. Ég tek eftir að önnur höndin er rauðari en kjóllinn. Við að segja þetta er eins og það losni um stíflu, hún tárast og hrópar á mig að hjálpa sér. Ég bendi henni að koma á bak við barinn, þríf til sjúkratösku en er umsvifalaust rekinn burt af samstarfsmönnum. Það er meira en nóg að gera á bak við barinn og ekki pláss fyrir tilraun til riddaramennsku.

Við finnum stað og ég þurrka af hendinni. Í ljós kemur að skurðurinn er varla sentimetri á lengd og rauði vökvinn er húsvínið. Hún þakkar mér hvað eftir annað á meðan. Ég set plástur á sárið, hún biður mig að kyssa á bágtið. Ég veit ekki hvort það er í mínum verkahring en ég læt mig hafa það og segi henni að það sé í lagi með hana.

Orð geta gert ótrúlegustu hluti, við að heyra mig segja þetta kemur partíandinn aftur yfir hana. Hún hleypur út á dansgólf og heldur áfram að skemmta sér. Ég fer aftur að sinna vinnunni. Félagarnir segjast sífellt vera sárþjáðir og biðja riddarann að kyssa ímynduð svöðusár. Mér er sama, aldrei þessu vant líður mér eins og ég hafi gert góðverk.

Meðan á þessu stendur er partíið virkilega að fara úr böndunum. Ein af köngulóarkonunum er víst fyrrverandi mannsins sem sér um lamadýrin og hann er byrjaður með einni stelpunni sem sér um apana. Köngulóarkonunni finnst viðeigandi svar að berja apastelpuna, í andlitið, með rauðvínsglasi. Ég hvet þig til að lesa þessar setningar aftur. Svo einu sinni í viðbót. Nærðu þessu? Því ég geri það varla. Skurðirnir voru ekki litlir og krúttlegir, þetta endaði sem lögreglumál og á forsíðum blaða. Dýragarðsverðirnir fá ekki lengur frítt áfengi í veislum.

Fyrir utan smáatriði eins og fólskulega líkamsárás fer veislan vel fram, þangað til kemur að því að slútta henni. Fólk er almennt ekki hrifið af því að vera rekið út af vinnustaðnum sínum, sama hversu vel þjónarnir leika að vera kurteisir og skilningsríkir.

Sumir gestanna eru með háværar yfirlýsingar um að þeir fari þegar þeir vilji fara, aðrir reyna að prútta um lengri tíma og einn og einn býður okkur í eftirpartí. Það tekur langa stund að koma gestunum burt, að endingu byrjum við þjónarnir bara að pakka saman í kringum þá sem eftir eru. Nóg er af verkum, bæði að hreinsa upp eftir þessa veislu og að undirbúa þá sem er á morgun.

Þegar glittir í vaktarlok verð ég var við hreyfingu óþægilega nálægt mér. Ég hrekk við. Nánast upp við mig er stelpan í rauða kjólnum. Hún er á sneplunum, að hún haldist upprétt er magnað. Hvernig í ósköpunum komst hún svona nálægt mér án þess að ég tæki eftir henni? Kannski er hún vön að nálgast dýr af varfærni.

Við störum hvort á annað andartak. Hvern fjandann á ég að segja? Hún verður fyrri til, spurningin kemur vægast sagt flatt upp á mig. Svo sannarlega ekki spurning sem maður á von á í starfsmannapartíi, sérstaklega ekki þegar maður er nýi gaurinn á staðnum og spyrjandi er kona sem hefur verið hér árum saman:      

– Hvar er útgangurinn?

Það er bara ein hurð í salnum! Ég bendi henni á dyrnar, hún tekur smástund í að hugsa sig vandlega um, kinkar kolli og gengur á brott. Af hverju líður mér eins og það sé eitthvað sem ég er ekki að fatta. Gæti verið að hún vilji eitthvað annað en útganginn? Drukkið fólk er skrýtið. Félagar mínir flissa.  

Aftur heyri ég þrusk, aftur hrekk ég við, aftur stendur hún alveg upp við mig.

– Þessi hurð fer ekki út … segir hún.

– Nei, útgangurinn er fyrir neðan stigann.

– Er stigi? Ég sá hann ekki, segir hún.

Það er pínulítið erfitt að vera ekki dónalegur. Stiginn er heilum metra frá hurðinni. Ég býðst, í nafni þess að losna við hana og þess að halda áfram að vera herramaður, til að fylgja henni út.

Það þarf að styðja hana niður tröppurnar og hún misstígur sig í sífellu, tvisvar er hún á leið niður stigann með andlitið á undan þegar ég næ að grípa hana. Kannski ætti ég hreinlega að bera hana niður en það væri líklega of langt gengið. Þegar hún sér útidyrahurðina ljómar hún, hún virðist hafa haldið að hún væri föst í völundarhúsi. Það sem meira er, við útidyrnar eru tveir vinir hennar, þó að þeir séu vant við látnir.

Þau eru í líflegasta sleik sem ég hef séð. Allir heimsins busaballssleikir virðast komnir saman í þessari áras tveggja einstaklinga á andlit hvor annars. Ef þau hefðu ekki bæði verið jafn brjálæðislega áköf héldi ég að þetta væri líkamsárás. Ef hægt er að fá marbletti á munninn, verða þau með þá á morgun.

Ég ræski mig hátt og segi þeim (ekkert sérstaklega) kurteislega að koma sér út. Þau blóta og taka stefnuna á eftirpartí í næsta húsi. Stelpan í kjólnum gerir sig líklega til að elta og fyrst gangan er bara einn stígur geri ég ráð fyrir að hún nái ekki að fara sér að voða. Áður en hún stígur út grípur hún um mig og segir:

 – Þú ert næs.

Svo kyssir hún mig á kinnina og ég roðna alla leið niður í hæla. Þó að ég sé ekki kominn í hlutverk riddara á sviði líður mér eins og ég hafi verið að bjarga prinsessu og það er ljúf tilfinning.