Game of Thrones endurlesin (Önnur bók – Clash of Kings)

Myndaniðurstaða fyrir clash of kings book cover

Ég gerði pínulítil mistök við skrif fyrstu greinarinnar. Þetta mun ekki pirra marga en innra nördið er samt ekki sátt. Þessi bókasería heitir A Song of Ice and Fire, ekki Game of Thrones en sjónvarpið hefur víst smitað mig af því að fyrsta bókin sé titill allrar seríunnar. Ef þetta fer í þig, huggaðu þig við að þetta fer líka í mig. Ef þú tókst varla eftir þessu, líttu á þessa málsgrein sem innsýn í hugarheim ofurbókanörda.

Clash of Kings er önnur bókin í seríunni og hálfgert olnbogabarn. Það er engin augnablik sem gera lesendur kjaftstopp eins og aftakan í fyrstu bókinni og brúðkaupin í þriðju. Það er orrusta, sú stærsta hingað til en mest allur hasarinn gerist milli kafla eða í fjarska. En sviðinu er stillt upp fyrir Storm of Swords og sviðsuppsetning er næstum jafn spennandi og leikritið sjálft.

Ég skoðaði nýlega hvernig lesendur raða bókum seríunnar almennt upp, eftir hver er best/uppáhalds. Eftir að hafa skoðað tíu svoleiðis lista áttaði ég mig á að Clash of Kings er einskins manns uppáhald. Sem segir ekki alla söguna. Storm of Swords er nefnilega alltaf í fyrsta. Það kom mér svo sem ekki á óvart, en Clash of Kings er svolítið á reiki. Á eldri listum er hún oft í öðru (þá fyrir ofan fyrstu bókina) en á nýrri listum dettur hún stundum niður fyrir Dance with Dragons og jafnvel en neðar. Af hverju er það?

Einkenni.

Það fyrsta sem lesandi tekur eftir er að sagan komin út um allt. Aðal söguhetjan, ef einhver er, er Tyrion. Hann og Sansa eru einu persónurnar í kringum höfuðborgina. Arya er í sínu eigin ævintýri og Catelyn ferðast um hálft meginland. Þær hitta samt fáar persónur með eigið sjónarhorn. Jon og Dany ferðast lengra frá aðalsögunni, en við hittum í fyrsta sinn laukriddarann og fleiri persónur sem eru ekki bein tengdur Stark og Lannister ættunum.

Í samanburði við fyrstu bókina, þar sem nánast allt gerðist í Kings Landing er sagan í Clash of Kings miklu stærri. Í þessari bók sjáum við sjaldan sama viðburðinn frá mörg. Samt er bókin hrikalega þétt. Eins og í Game of Thrones er tilfinningin að það sé verið að segja eina stóra sögu, sagan hefur bara vaxið um helming.

Eitt af því sem Martin hefur alltaf haft gaman af er að taka klassísk minni og breyta þeim. Það er fjöldinn allur af þeim í þessari bók, sem hjálpar með tilfinninguna að þetta sé venjuleg fantasía. En svo áttar maður sig á hversu hrottalegar útgáfur Martins er. Arya fær þrjár óskir, ekki ósvipað Aladin, nema óskirnar eru morð. Theon Greyjoy býst við að snúa heim eins og hetja úr ævintýri og uppgötvar sér til hryllings að engin þar þarf sérstaklega á honum að halda, né treystir honum. Töframenn koma við sögu en þeir eru ógeðslegir gamlir kallar sem eru búnir að missa mest allan mátt sinn.

Myndaniðurstaða fyrir jaqen h'ghar art

Svo eru það drekarnir. Í flestum sögum eru drekar gjöreyðingarvopn, þeir eru loka vondi karlinn. Í þessari eru þeir ósjálfbjarga hvolpar, sem stefna eigandanum í stórhættu. Allir vilja eignast þá, en Dany getur ekki notað þá til að verja sig (en þá). Þeir eru meira hótun en raunveruleg ógn, sem mun auðvitað breytast.

Ein af ástæðum fyrir að endurlestur er jafn yndislegur og raun ber vitni er að maður tekur eftir litlu hlutunum sem höfundur gerir. Strax í þessari bók byrjar Martin að undirbúa jarðveginn fyrir Rauða Brúðkaupið. Augljósi undirbúningurinn er að persónurnar fara að heyra orðróma um að Robb hafi móðgað Frey fjölskylduna á einhvern rosalegan hátt. Hitt er lúmskara. Oftar en einu sinni tala persónur um heilög réttindi gesta, friðhelgina sem þeir njóta. Hversu meðvitaður lesandi er um þetta þegar kemur að brúðkaupinu fræga er líklega mismunandi. En þetta smýgur inn í mann og hefur sín áhrif.

Valdið

“So power is a mummer’s trick?”
“A shadow on the wall, yet shadows can kill. And ofttimes a very small man can cast a very large shadow.”

Varys í samtali við Tyrion

Ef hægt er að niðurnjörva Song of Ice and Fire í eitt þema, er þemað vald.  Hvort sem um ræðir beint eða óbeint vald, vald stríðsmanna eða presta, vald innan fjölskyldna eða á þegna. Flestar persónur þrá vald á einn eða annan hátt, eða þrá eitthvað sem vald og hefðir halda þeim frá. Vald tekur margar birtingarmyndir: Virðing, auður, herir, hefðir en alltaf er vald það sama: Að geta fengið aðra til að gera eitthvað sem þau vilja ekki gera. Við sjáum það best í gegnum kóngana fjóra (sá fimmti er krýndur í næstu bók).

Í þessari bók meira en hinum kemur í ljós ein af grunnhugmyndum höfundar um vald: Þeir sem þrá vald eða telja sig eiga það skilið, ættu ekki að fá það. Joffrey hefur frá blautu barnsbeði verið alin upp til að trúa að hann eigi skilið að vera konungur, því hann er jú konungborin. En hann er hrottalegur konungur og valsar úr hverju ógeðinu í annað.

Stannis er karakter sem mótast algjörlega að járnklæddri réttlætiskennd sinni. Hann heldur því statt og stöðugt fram að hann vilji ekki krúnuna en það er vísbendingar í textanum að hann sé að ljúga að sjálfum sér. Manni hryllir við tilhugsunina um hann sem alvald. Stannis tilbiður lögin, vill að þau séu úr járni og fyrir sitt litla líf skilur ekki af hverju allir aðrir eru ekki jafn sammála honum.

Renly tekur ákveðin Makievelli á þetta: Hann getur orðið kóngur og hví ekki að verða það, hann væri líklega ekki (vitum það samt ekki) verri en hver annar. Skuggi stóra bróðursins Robert hangir yfir honum og maður getur ekki annað en ímyndað sér að valdatíð Renly yrði svipuð og Róberts: Friðsæl með hræðilegar afleiðingar.  Renly er ógurlega vinsæl, fær fólk til að fylgja sér auðveldlega en að lokum hverfur hann úr sögunni hratt og blóðugt.

Svo er það Ungi Úlfurinn, Robb Stark. Það er eiginlega magnað hversu lítið hann er í þessari bók. Öll hans miklu ævintýri og stríð gerast í fjarska, við heyrum um þau í gegnum orðróma og hvíslu leiki. Hann virðist ekki neitt sérstaklega vilja kórónu. Hann fer í stríð til að frelsa og svo hefna Ned Stark, reynist frábær herforingi og laðar til sín hollustu erfiðra manna sem ákveða að krýna hann kóng. En í lok dags er gaurinn fjórtan ára (börnin eru öll nokkrum árum yngri í bókunum en þáttunum) og mistökin í þessari bók enda á að kosta hann allt, en um það fjöllum við í næstu bók.

En í ljós kemur að það eru ekki endilega kóngarnir sem hafa allt valdið. Það er líklega ekki tilviljun að hvergi í Song of Ice and Fire er kafli frá sjónarhorni krýnds konungs (nema við teljum Dany í seinni bókunum sem kóng). Í stað þess fylgjumst við með fólkinu í bakherbergjunum: Tyrion, Catelyn, Davos og Theon. Þau reyna að byggja upp vald sitt gagnvart alvöldunum, sem gengur misvel. Lesandi verður líka meðvitaður um hversu mikið er í höndum persóna sem varla sjást: Tywin, Balon, Boltonarnir, Mellisandre. Maður veltir fyrir sér hversu vel þetta endurspeglar heiminn okkar. Hversu mikið sem gerist er í höndum ráðgjafa, skugga og afla sem við vitum ekkert um.

Tyrion Lannister.

Þegar þetta er skrifað er búið gefa út fimm af sjö bókum í seríunni Song of Ice and Fire. Af öllum tugum aðalpersóna í seríunni, er Tyrion sú eftirminnilegasta. Húmoristi, kjaftaskur, dvergur. Ef kaflar aðalpersóna eru taldir saman á Tyrion lang flesta: 47. Jon Snow kemur næst með 42, næsta persóna á eftir með 34. Geturðu giskað á hver þriðja er?

Clash of Kings er bókin þar sem Tyrion virkilega fær að njóta sýn. Ferðalag hans í Clash endurspeglar að miklu leyti ferðalag Eddard Stark í fyrstu bókinni: Báðir koma til höfuðborgarinnar til að sjá um rekstur ríkisins, báðir þurfa finna fótfesta í blóðugri pólitík borgarinnar, byggja upp vald sitt, vinna bandamenn á sitt band og ákveða hverjum er hægt að treysta (spoiler: nánast engum). Helsti sýnilegi andstæðingur beggja er meira segja sá sami: Cercei Lannister.

Ólíkt Ned, stendur Tyrion sig vel. Allavega ef við dæmum eins og Makievelli hefði gert og ekki samkvæmt neinu siðferði. Hann vinnur þónokkra á sitt band, á skilið stóran hluta heiðursins fyrir að bjarga borginni frá Stannis. Hann uppsker að launum öxi í andlitið og hatur almennings. Sem lesandi heldur maður með honum. Samt þarf að hugsa aðeins út í hvað hann gerir, hann drepur og pyntar fólk, rænir litla frænda sínum og hótar að pína hann til dauða.

Ég held að Clash of Kings sé í síðasta skiptið sem við sjáum Tyrion almennilega hamingjusaman, síðasta skiptið þar sem hann er að takast á við vandamál sem hann nýtur og er að vinna í það minnsta litla sigra. Sagan sem bíður hans í Storm of Swords og Dance With Dragons er mun harmþrungnari en ljúfa lífið hans eins og er.

Niðurlag: Hryllingur og lausir endar

Eitt af því marga sem Song of Ice and Fire gerir vel er að fanga báðar hliðar stríðs. Við viljum kannski ekki viðurkenna það, en það er eitthvað dýrðlegt við stríð eitthvað sem hefur fylgt manninum frá örófi alda. En það er bara brot af stríði og bara fyrir sigurvegarann. Fyrir flesta er stríð ógeðslegt, sérstaklega þá sem verður undir hjólum stríðsins. Í þessari bók byrjar Martin að skrifa um litla fólkið sem krúnuleikarnir snerta, söguþema sem nær hápunkti sínum tveimur bókum seinna.

Clash of Kings út er virkilega góð bók. En hún er bara svo óheppinn að bókin sem á eftir kemur er miklu eftirminnilegri. Margt af því sem gerir næstu bók jafn frábæra og raun ber vitni er í Clash of Kings. Hún er miðjubók þríleiksins, ekki endilega best en svo ofboðslega mikilvæg. Hér er Martin búin að losa um alla enda, sem hann byrjar svo að hnýta saman í næstu bók.

Game of Thrones endurlesin (Fyrsta bók)

Þegar lokaþáttur sjónvarpsþáttanna Game of Thrones fór í loftið lauk 9 ára nær samfelldri sigurgöngu.  Sitt fannst hverjum um endapunkt sögurnar, en það er auðvelt að gleyma hversu ólíklegt var að þáttaröðin kæmist í loftið, hvað þá að hún myndi yfir höfuð klárast. Bókaserían var lengi talin, meðal annars af höfundinum, of stór og flókin fyrir annað listform en bækur. Sama hvernig endaði, þá hafa þáttargerðarmennirnir gert eitt sem höfundi hefur ekki tekist: Að ljúka sögunni

Fimm bókana eru komnar út. Nú þegar sjónvarpsþættinum er lokið er kannski vert að staldra við og lýta til baka, skoða af hverju það þótti svo magnað að það væri yfir höfuð verið að framleiða þættina og hvað það er við heim George R.R. Martin sem hefur fangað lesendur og áhorfendur í áranna rás. Ef þú hefur ekki lesið bækurnar eða séð þættina ættirðu að hætta að lesa hér.

Bók 1 – Game of thrones.

Myndaniðurstaða fyrir game of thrones first edition art

Bókin Game of Thrones kom út fyrsta ágúst 1996. Höfundurinn, George R.R. Martin, var nýbúin að ljúka áratuga vinnu sem handritshöfundur í sjónvarpi og það er rosalega freistandi að túlka seríunnar sem eina stóra löngutöng á sjónvarpið sem miðil.

Til að skilja af hverju bókin, í raun serían, náði jafn svakalegum vinsældum og raun bara vitni er nauðsynlegt að skoða stað hennar í fantasíubókmenntum. Þær höfðu í marga áratugi þar á undan verið undirlagðar af áhrifum Tolkien og Hringadrottinssögu hans. Þá er ég sérstaklega að tala um sú grein fantasíunar sem er innblásin af miðöldum. Oftar en ekki voru riddarar, orkar og dvergar í stórum hlutverkum, góðu kallarnir klæddust oftar en ekki hvítu, það var alltaf galdramaður í stóru hlutverki og flestar ef ekki allir góðu kallarnir lifðu af. Frábærir höfundar eins og R.A. Salvatore og Michael Moorcock skrifuðu tugi bóka, margar hverjar frábærar, innan þessara hamla. Greinin þreifst vel, en sögurnar voru oftar en ekki frekar fyrirsjáanlegar.

Það er ekki að segja að ekkert annað hafi verið í gangi, sérstaklega þegar leið á tuttugustu öldina hófu höfundar að brjóta sig úr þessum viðjum. Terry Pratchett gerði það nánast að ævistarfi að gera grín að þessu öllu saman, en það er áhugavert að taka eftir að suður ameríska töfra raunsæið var aldrei markaðsett sem fantasíur, né flest verk Stephen King. Árið 1990 gaf Robert Jordan út fyrstu Wheel of Times bókina, sem breytti fantasíum að því leyti að menn hófu að skrifa miklu stærri seríur og 1988 kom Tad Williams með sú nýjung að segja söguna frá mörgum mismunandi sjónarhornum, sem ætti að vera lesendum Game of Thrones kunnugt.

Þannig var heimurinn sem Martin greinin sem Martin gaf út Game of Thrones í. Það er ekki ofsögum sagt að hann hafi breytt þeim heimi til hins betra. Það væri líka hægt að segja að hann hefði sprengt þennan heim í tætlut. En hvernig fór hann að því.

Bókin sjálf – Endurlesin.

Magic has to handled carefully. It‘s like salt in a stew. Add a little salt and it makes the stew taste better. Add to much and all you can taste is the salt.

George R.R. Martin í samtali við John Hodgman

Martin hefur sagt að uppbygging sögurnar sé fengin úr Hringadrottinssögu. Þegar sagan hefst eru allar aðalpersónurnar (nema Dany) á sama litla staðnum og eftir sem á lýður tvístrast þau meira og meira. Margir kenningasmiðir hafa lesið ýmislegt í þessi orð Martin um framtíð sögurnar, en ég læt vera að leggja lóðar mínar á þær vogaskálar. Ég vil bara benda á að þó bókin sé að mikla leyti svar við Tolkien, þá skín ást Martin á enska skáldinu í gegn, meðal annars í því að hann meðvitað tekur uppbyggingu Hringadrottinssögu á láni.

Augljóslega breytir önnur lesning bók. En það er ekki margar bækur sem breytast jafn mikið og þessi á öðrum eða þriðja lestri, sérstaklega ef búið er að lesa framhöldin. Ástæðan er meðal annars að hjarta bókarinnar er tvær ráðgátur: Hver drap persónuna Jon Arryn og hvers vegna. Svarið við seinni spurningunni er eiginlega svarað í lok Game of Thrones.  Svarið við þeirri fyrri kemur ekki ljós fyrr en nokkuð þúsund síðum seinna í lok bókar þrjú. En þegar bókin er endurlesin eru vísbendingarnar við ráðgátunum tveim svo öskrandi augljósar að maður vill slá sig fyrir að hafa ekki séð þær fyrr.

Bækurnar eru meðal annars frægar fyrir sagnastílinn sem Martin fékk lánaðan frá Tad Williams. Það er að segja að hver kafli er sagður frá sjónarhorni mismunandi persónu. Í fyrstu bókinni er hún sögð frá sjónarhóli níu aðalpersónana, en í hverjum kafla vitum við bara það sem persónan veit. Þetta leyfir Martin að leika sér með mismundi sjónarhorn á sömu viðburði. Hann passar sig líka á hvaða persónur eru sjónarhornspersónu, almennt þær sem vita minnst um hvað er í gangi. Eins hrikalega skemmtilegar persónur og Varys og Littlefinger eru, þá myndi einn kafli frá þeirra sjónarhorni eyðileggja heildina. Þetta virkar í báðar áttir, stundum myndast spenna vegna þess að lesandinn veit meira en hver persóna gerir.

Í endurlestrinum kom mér á óvart hversu þéttskrifuð bókin er.  Tilfinningin er að ekki sé hægt að klippa eina setningu úr henni, þó bókin sé löng er ekki arða af fitu á beinunum. Martin hefur sjálfur sagt að hann hafi lært þetta í sjónvarpinu, miðli þar sem hver sekúnda og lína verður að skipta máli. Allavega ef þátturinn á að vera góður.

Spennandi söguþráður getur ekki verið betri en persónur bókar leyfa. Catelyn, Ned, Bran, Tyrion, Jon Snow, systurnar Arya og Sansa eru mikilvægastar enda sjáum við heiminn með þeirra augum. List Martins er meðal annars að persónurnar gera hrikaleg mistök, og taka afleiðingum þeirra, en rétt á meðan mistökin eru gerð þá skiljum við sem lesendi hvers vegna þau eru gerð. Þetta er hluti af því sem gerir söguna svo öfluga. Bæði samkenndin sem við finnum með persónunum rétt á meðan þær gera mistökin og svo hversu óhjákvæmilegar afleiðingarnar virðast. Að því leyti má líkja sögunni við grískan harmleik, við vitum að endirinn verði blóðugur og slæmur, en viljum samt sjá hvernig hann verður að veruleika.

Talandi um blóð. Önnur af frægustu senum seríunnar gerist í fyrstu bókinni, þegar fótunum er kippt undan lesendum og höfðinu er kippt af Ned Stark. Þessa sena er kannski ekki jafn öflug á öðrum lestri og þeim fyrsta, en hún er öflug á annan hátt. Í stað þessar að vera sjokkerandi viðsnúningur, er hún skelfilega óhjákvæmileg.

Það er þess virði að skoða af hverju þessi sena varð jafn fræg og raun bar vitni. Fyrsta ástæðan er augljósust: Alla fyrstu bókina teljum við sem lesendur að Ned sé aðalpersóna sögunar og heil ævi af lestri ásamt árþúsunda bókmenntahefð, sérstaklega í fantasíu bókmenntum, segir okkur að aðalpersónur drepast ekki í fyrstu bók af sjö. Með þessu morði leggur Martin áherslu á að hann er ekki að segja sögu einnar manneskju, hann er að segja mun stærri og flóknari sögu en það. Það er eitthvað kvikmyndalegt við að það þurfi að vera ein ákveðin aðalpersóna og Martin sýnir hér að hann er að vinna í öðru listformi en kvikmyndum.

Hin ástæðan fyrir að drápið stuðar okkur svona rosalega er að samkvæmt öllum vísbendingum í köflunum á undan þá er Ned að fara að sleppa. En snilldin við hinn geðbilaða Joffrey er að ákvörðuninn kemur eins og þruma úr heiðskýru lofti og en passar samt alveg inn í söguna. Eðli valds er viðfangsefni alla seríuna og sjaldan er það þema jafn borðliggjandi og í þessu atriði. Allar valdamestu persónurnar í sögunni á þessum tímapunkti vildu að Ned lifði en það kom í ljós að í andartakinu voru þær alveg máttlausar.

Það vill falla í skuggann af aftökunni, en fyrsta aðalpersónan í bókinni er næstum drepinn í upphafi sögurnar. Bran er ýtt út um glugga (ólíkt þáttunum er það ekki ljóst í fyrstu hver ýtti, nokkuð sem er öskrandi augljóst í endurlestri) snemma í bókinni en við vitum að hann lifir af þó lamaður sé. Þegar maður les bókina fyrst er þetta stuðandi augnablik en eftir á að hyggja virkar það meira eins og verkfæri til að koma sögunni í gír. Sama má segja um dauða Khal Drogo. Stríðsmaðurinn mikli er kannski eina persónan í sögunni sem minnkar við endurlestur, það að vita að hann deyr gerir það ljóst að hann er bara aukapersóna í sögu Dany, á meðan Jorah Mormont verður meira áberandi þegar vitað er í hvað stefnir hjá honum og Dany.

Eitt að lokum, það eru miklu færri orrustur en manni minnti. Ofbeldi er risastór hluti sögurnar, en orrustur eru fáar. Ein er sögð frá sjónarhorni Tyrion og hin er frá sjónarhóli Catelyn. Hann er ekki beint stríðshetja og hún situr hjá og fylgist með í fjarska. Af þessum ástæðum er engin upphafning stríðs í Game of Thrones. Án þess að skrifa klisjukenndan friðarboðskap, tekst Martin að tæta í sundur sú hugmynd að stríð sé staður dýrðar og hetjuskapar. Kannski er það ástæða þess hversu margar sögur persónurnar segja hvor öðru, hversu mikilvægar goðsagnir og hetjusögur heimsins eru í frásögninni. Ómeðvitað ber lesandinn (og sumar persónurnar) saman frægðarsögurnar og raunveruleikann sem blasir við þeim.

Síðast en ekki síst verður að minnast á notkun töfra í Game of Thrones eða öllu heldur skortinn á þeim. Í fyrsta kaflanum er smá yfirnáttúra og úlfarnir eru engar venjulegar skepnur. Þess fyrir utan eru engir töfrar fyrr en í blálok bókarinnar. Flestar persónurnar trúa ekki einu sinni á töfra. Þetta magnar auðvitað áhrifin af þeim þegar þeir byrja að taka sinn sess í sögunni. Einn skitin uppvakningur skelfir lesandann inn að beini og í mörgum fantasíum hefðu drekarnir þrír þótt fremur ómerkilegir og máttlitlir. Þegar Dany eignast þá í lok bókarinnar veit lesandinn að það er verið að afhenda henni ígildi gjöreyðingarvopns. Rétt eins og með orrustunnar þá magnar skorturinn á töfrum áhrifin þegar þeir koma í  ljós.

Þættirnir.

Myndaniðurstaða fyrir game of thrones

Það er ekki hægt að skrifa um endurlestur þessarar bókar án þess að minnast á þættina sem sigruðu heiminn. Það er falleg hringrás í sögu George R.R. Martin í kringum Hollywood. Hann skrifaði í rúmlega áratug fyrir sjónvarp. Hvað eftir annað lenti hann í því að hugmyndir hans voru of stórar fyrir þann miðil. Hann gafst upp og hófst handa við að skrifa bækur á ný. Bækur hafa stóra kost að höfundar þurfa ekki að pæla í neinu öðru en að segja söguna. Árum saman sagði hann nei við tilboðum upp á háar fjárhæðir í kvikmyndarétt bókanna, þangað til að sjónvarpsmiðilinn byrjaði að breytast með tilkomu þátta eins og The Wire, Breaking Bad og fleiri. Þá loksins komu til hans menn sem honum leyst á og nokkrum árum seinna var hann orðin eitt stærsta nafnið í Hollywood. Þegar ævi hans verður kvikmynduð, verður ris myndarinnar þegar ljóst er að Game of Thrones sé orðin að vinsælasta sjónvarpsþátt í heimi.

Ef þátturinn hefur gert eitthvað fyrir bókina er það kannski helst að fá mann til meta smáatriðin betur. Eins vel og HBO stóð sig í að segja söguna á skjánum, þá eru óteljandi smáatriði sem töpuðust. Dýptin í bókunum er meiri, persónurnar fleiri, meira að segja sum sverðin mætti telja sem aukapersónur í bókinni. Þetta er ekki hægt á skjánum, nema að þættirnir verði þúsund klukkutíma og þar að leiðandi drep leiðinlegir.

Að sama skapi eru ákveðnir hlutir sem eru bara betri í þáttunum. Sumum leikurunum tókst að ljá persónum sínum dýpt sem var ekki til staðar í fyrstu bókinni, til að mynda Mark Addy sem Róbert konungur og Lena Heady sem Cersei Lannister. Það hefur líka sín takmörk að segja söguna bara frá sjónarhóli X aðalpersónu, samskipti milli persóna sem eru ekki þær eru ekki til staðar í bókinni.

Eru bækurnar betri en þættirnir út af þessu? Nei, ekki endilega. Í fyrstu bókinni og fyrstu þáttaröðinni er verið að segja sömu sögu á annan hátt, með öðrum áherslum í mismunandi miðlum. Hvort að það sé satt um seinni bækurnar er svo allt annað mál.

Niðurlag

Game of Thrones var ein vinsælasta fantasía heims áður en þættirnir komu til sögurnar og mun vera það áfram nú þegar þáttunum er lokið. Það er þess virði að vinsældir bókanna fóru ekki á flug fyrr en þriðja bókinn kom út, serían hafði haft mörg ár til að ganga lesenda á milli. Bókin er miklu hægari miðill en sjónvarp, á fleiri veg en einn. En grunnurinn af vinsældum seríunnar og þáttanna var lagður í þessari bók. Það er ekki eiginlegt ris í henni, en í lok hennar erum við lesendur komin í kafi í flókin og töfrandi hugarheim Martins og stríðið getur hafist af áfergju. Það er vel þess virði að lesa þessa bók aftur, en þú munt vilja taka Clash of Kings upp strax að lestri loknum. Ég varaði þig við.

Ef þér fannst þessi lesning áhugaverð langar mig að benda þér á póstlistan Andskoti góðar bækur, þar sem ég sendi mánaðarlega út umfjöllun um frábærar bækur sem allir ættu að lesa.

Að byrja að læra á píanó fullorðin (og afhverju ég er enn frekar dapur píanóleikari)

All my life I wanted to become musical, but I always assumed that I never had a chance. My ears are dodgy, my fingers too clumsy. I have no natural sense of rhythm and a lousy sense of pitch. I have always loved music but could never sing, let alone play an instrument; in school I came to believe that I was destined to be a spectator, rather than a participant, no matter how hard I tried.

Gary Marcus í bókinni Guitar Zero

Með þessum orðum hefur Gary Marcus, sálfræðingur, bók sína Guitar Zero. En hann gæti alveg eins hafa verið að lýsa mér og sambandi mínu við tónlist frá fæðingu og þar til í ágúst 2016. Í bók sinni segir Marcus frá því hvernig hann lærði á gítar um fertugt og hvað það ferli kenndi honum um bæði tónlist og mannskepnuna. Að lesa ferli hans var það sem loksins gaf mér hugrekkið til að byrja að læra á píano, eftir að hafa dreymt um það í áratug.

Markmið mín voru hógvær: mig langaði að geta sagst kunna á píanó og í leiðinni læra að meta tónlist á sama hátt og tónlistarmenn gera. Nú eru þrjú ár og ég er enn fremur slappur píanóleikari. Samt sem áður er ég komin yfir ákveðin hjalla og sé hvernig ég get orðið betri. Útsýnið héðan er stórfenglegt.

Flestir tónlistarmenn byrjuðu í námi sem börn. Við sjáum ekki fyrstu, erfiðu, skrefin. Þegar við heyrum lag í útvarpi er þar að baki þúsundir tíma af æfingu. Ósýnilegust er æfingin sem fer fram í æsku, þegar tónlistarmaðurinn er að reyna að púsla saman nokkrum hljómum í næstum því lag. Það er líka ákveðin trú, ég trúði þessu sjálfur, að tónlistarhæfileikar séu meðfæddir. Annaðhvort er maður með tónlistargenið eða ekki og ef maður byrjaði ekki námi ungur er engin séns fyrir mann.

Þetta er auðvitað kjaftæði. Kannski eru einhverjir meðfæddir hæfileikar, líklega jafnvel, en ef þú ert ekki atvinnumaður í tónlist er lítil hætta á að þú finnir muninn. Munurinn á þriðja besta og besta píanó leikara í heimi er kannski að annar er með örlítið betri beinabyggingu en ég held að við þurfum ekki að stressa okkur á því. Það getur verið fráhindrandi að sjá ungling fara létt með verk eða lag sem við ráðum varla við að hugsa um, en munurinn á honum og okkur er ekki einhver genítík, bara að hann byrjaði fyrr og er búin með fleiri tíma. Að segja að æfingin skapi meistarinn er óttaleg klisja, en hún er samt sönn.

Það er líka þannig að þú þarft ekki að verða heimsklassa í einhverju til þess að græða á að læra það. Rithöfundurinn komst ágætlega að orði í nýlegu hlaðvarpi þegar hann lýsti því að fara í örfáa söngtíma svona:

When you learn the basics of any skill – and I already know this, so I don’t know why I’ve been so blind to it with both singing and I think now coding – even if you never do anything with it per se, suddenly you hear everything – in the case of voice, you listen to every song you hear differently. And so, your enjoyment of that and your appreciation of it are ten-xed.

Tim Ferris í hlaðvarpi með Karlie Kloss

En af hverju tónlist? Af hverju ekki nýtt tungumál eða að læra að forrita? Í bókinni This is Your Brain on Music, staðhæfir Daniel J Leveitin tvennt sem mér fannst magnað: Við vitum ekki um neina menningu í allri sögu mannsins sem spilaði ekki tónlist á einhvern hátt og það að hlusta á, spila eða semja tónlist ræsir næstum hvert einasta svæði heilans ásamt taugakerfisins sem tengist því.

Það er vitað að tónlist hefur fylgt manninum frá blautu barnsbeini hans. Við erum umlukin henni alla daga í öllu frá bílnum á leið í vinnuna og þangað til að sungið er í jarðarförinni þegar við klukkum út. Þegar við dönsum fram á rauða nótt í bænum, þegar við fögnum sigrum í fótboltaleikjum, þegar við giftum okkur og þegar við erum að horfa á sjónvarpið og leiðinleg auglýsing truflar þáttinn. Tónlist er alls staðar og meira segja við að læra örlítið á hljóðfæri og hljómfræði, þá dýpkar nautnin að því að heyra hana, við lærum að meta flóknari verk og áttum okkur betur á því hvers vegna hún er svona allsráðandi.

Aðferðin.

Ég hóf námið á augljósa staðnum, þar sem maður byrjar að reyna læra allt: Á youtube. Það er magnað hvað er hægt að finna þar. Ég fékk hljómborð lánað frá vini (meira um hann seinna), settist ég niður og byrjaði að æfa. Undirbúningurinn var takmarkaður, það sem skipti mig máli var að koma mér á stað. Þetta mætti kalla prufu stigið. Það sem skipti mig máli var að venjast því að æfa og venja mig á það að gera það daglega.

Ég vil benda á eitt: Fullkomnun er óvinur hins góða. Við eigum til að fresta þangað til að aðstæður eru fullkomnar, en það verða þær aldrei. Betra er að gera eitthvað fínt og bæta það svo smátt og smátt. Þetta gildir jafnt um að byrja tónlistarnám og breyta mataræði: litlar reglulegar breytingar eru líklegri til að skila árangri til langs tíma.

Þarf ekki að vera glæsilegt til að vinna verkið

Síðan að ég byrjaði hef ég lesið ótal greinar um hvernig það er best að læra á hljóðfæri, það eina sem þær eru allar sammála um er að það skiptir mestu að æfa sig daglega, sama hvernig gengur. Málið er að það tekur nokkra daga, jafnvel vikur, bara að ná undirstöðuatriðum. Svo ekki sé talað um að það þarf að læra að æfa. Það er nýbrunið hverfur er freistandi að segja: Sleppi að taka í dag, tek tvöfalt meira á morgun. Sem við vitum öll að er ekki að fara að gerast, ekki síst vegna þess að það þarf að safna þoli í að æfa í lengri tíma.

Hvort sem það er píanó eða annað hljóðfæri er gott að æfa grunnskala og þannig (til að byrja með leiðinlegar) æfingar. En þær eru líka frekar leiðinlegt. Á fyrsta stiginu er mikilvægt að læra grunninn, en líka að taka einhver ofur einföld verk (Gamli Nói til dæmis) og læra það. Ástæðan er ekki að slík verk kenna einhverja djúpa lexíu, heldur að sigur tilfinningin þegar maður nær í fyrsta sinn að spila slíkt er ólýsanleg. Þá er maður virkilega byrjaður að læra á hljóðfærið. Þá er maður líka búin að sanna fyrir sjálfum sér að þetta er hægt, restin er bara endurtekningar, endalausar endurtekningar.

Prufu stigið getur verið í nokkrar vikur eða nokkra mánuði, en það er skynsamlegt að leyfa því ekki að endast ekki of lengi. Það tekur um það bil mánuð að skapa nýjan ávana og ég myndi segja að mánuður sé nokkuð góður tími fyrir prufu stigið. Svo er komin tími á að fá einhvern færan til að hjálpa sér.

Maður getur kennt sér ýmislegt með youtube en góður kennari er gulli betri. Ég var svo heppinn að eiga slíkan í vinahópnum, en það er ekki erfitt að finna slíkan þó þú þekkir engan. Það er tvennt sem kennari getur hjálpað með mjög auðveldlega: Drepa slæma ávana (hjá mér fóru heilu tímarnir til að byrja með í að reyna að hætta að spennast allur upp) og að gefa manni strúktúr í námið. Maður er töluvert líklegri til að æfa verk í döðlur ef það er einhver að bíða eftir að heyra það, svo ekki sé talað um að góður kennari mun gefa þér heimanám sem hentar þér og þínum styrkleikum.

Eftir það er þetta bara spurning um tímanna sem maður setur inn, en á veginum eru margir fallegir staðir. Það er ótrúleg tilfinning í fyrsta sinn sem maður spilar verk í staðinn fyrir að fara með það, næstum jafn mögnuð tilfinning og þegar maður skilur muninn á þessu tvennu. Hjá mér var önnur tilfinning sem var ógleymanleg þegar ég var að spila verk sem ég hafði djöflast í mánuðum saman og í fyrsta sinn fór það að vekja upp allskonar tilfinningar innra með mér. Svo ekki sé talað um þegar maður heyrir eitthvað lag og sér það í alveg nýju ljósi.

Það fallega við þetta ferðalag er að það er engin endapunktur, bara endalaus vegur með sífellt fallegra og fallegra útsýni. Fólk getur og hefur eytt ævinni í að spila tónlist, ég kannast ekki við nokkur hafi sagt að þeir séu búnir með tónlistina. Ef ég vildi vera dramtúrkískur og bæta við enda stigi, væri það þetta: Á einhverjum tímapunkti hættir að vera ógnandi hversu óendanlega mikið er hægt að æfa og læra í faginu. Af því gefnu að þú hafir gaman að því að verða betri, er ótæmanlegur brunnur sem býður eftir manni.

Hvað ég græddi ég á þessu og þú gætir grætt líka.

Ég hef þegar minnst á það, en það er þessi virði að endurtaka: Að læra á hljóðfæri breytir því hvernig þú heyrir tónlist og opnar möguleikann á virkri hlustun. Áður en ég byrjaði þetta ferðalag þá hlustaði ég frekar hlutlaust á tónlist, það var helst textarnir sem ég rýndi í. Annars var lag bara gott eða ekki. Síðan ég byrjaði hef ég lært að meta píanóið sem hljóðfæri, sérstaklega klassísk verk. Ég er rétt farin að heyra almennilega muninn á mismunandi túlkunum á sömu verkunum og veit að það á bara eftir að aukast eftir því sem á lýður (af því gefnu að ég haldi áfram að æfa mig).

Hitt er kannski aðeins minna augljóst. Að læra á hljóðfæri var alltaf eins og einhver veggur fyrir mér. Það var sérstaklega satt eftir leiklistarnámið sem ég fór í. Í hvert sinn sem tónlist bara á góma leið mér eins og illa gerðum hlut þar, umkringdum fólki sem voru hæfileikaríkir og færir tónlistarmenn. Að taka skrefið og byrja að læra hafði sömu áhrif á mig og það að læra eitthvað erfitt hefur á alla: Aukið sjálfstraust og aukin trú á að ég geti tekist á við erfið verkefni. Það er svo margt sem væri gaman að læra en að læra á hljóðfæri var alltaf það sem ég hélt að yrði erfiðast. Hver veit hvað ég ræðst á næst.

Svo er það síðasta dæmið, að læra að æfa. Það að setjast niður og einbeita sér að einhverju er drullu erfitt. Í nútímanum erum við umkringd truflunum og freistingum, hvort sem það er síminn, sjónvarpið eða bara að skjótast í bakarí. Það að læra að og æfa sig í að blokka allt í smástund er verðmætur hæfileiki. Hann hefur komið mér að miklum notum við ritstörf og sama hvað við höldum, þá er hann langt því frá sjálfsagður. Mig langar að ljúka þessum hluta á tilvitnun í Nicholas Carr, höfund bókarinnar The Shallows – What the Internet is Doing to Our Brain. Hann er að tala um djúpan lestur en það sem hann segir á við um allt sem þarfnast alvöru einbeitingar:

Immersing myself in a book or a lengthy article used to be easy. My mind would get caught up in the narrative or the turns of the argument, and I’d spend hours strolling through long stretches of prose. That’s rarely the case anymore. Now my concentration often starts to drift after two or three pages. I get fidgety, lose the thread, begin looking for something else to do. I feel as if I’m always dragging my wayward brain back to the text. The deep reading that used to come naturally has become a struggle.

Nicholas Carr , The Shallows – What the Internet is Doing to Our Brain

Ég er ekki að segja að læra á hljóðfæri sé einhverskonar lækning við því hversu dreifhuga við erum öllum stundum. En ég er að segja að það hjálpi helling.

Gildrurnar – Lokahjallinn.

Þegar maður er búin að æfa í nokkra mánuði og farið að líða lengra á milli flottu augnablikanna er hætta á að maður hætti. Ég hef ekki hætt, en játa að ég hefði getað verið miklu duglegri. Fyrir því er margar ástæður, en stóra hefur einfaldlega verið leti.

Vinurinn sem ég skrifaði um áðan, sá sem reddaði mér hljóðborðinu, byrjaði að æfa nokkrum mánuðum á eftir mér. Í dag er hann miklu, miklu betri. Af hverju? Því hann hefur verið agaður og duglegur að æfa, hann hefur ekki tekið sér óvart nokkra vikna pásur inn á milli. Þegar ég var búin að æfa í nokkra mánuði vildi ég óska að ég hefði byrjað að æfa fyrr á lífsleiðinni, því í grunninn er þetta ekkert nema sjúklega gaman. Núna vildi ég óska að ég hefði verið duglegri. En það hjálpar ekkert að vorkenna sér, eina sem ég get er að nota það sem hvata til að vera duglegri í framtíðinni. Það er meðal annars ástæðan fyrir að ég skrifaði þennan pistil, til að minna sjálfan mig á að setjast niður og æfa.

Stærsti hjallinn við að læra á hljóðfæri þegar maður er orðin fullorðinn er sá fyrsti, það er svo drullu erfitt að koma sér af stað. Næsti hjallinn er miklu lúmskari, að leyfa sér ekki að nota afsakanir til að sleppa æfingum og að halda vananum gangandi þegar óteljandi hlutir í lífinu eru fyrir. En þegar maður kemur sér af stað, þá eru verðlaunin nær óendanleg, hvort sem það er sjálfstraustið sem hlýst að því að gera eitthvað sem maður hélt að maður gæti ekki eða að skilja innst inni af hverju fólk segist stundum lifa fyrir tónlist. Það skiptir ekki máli hvort það sé söngur, fiðla eða píanó (eða þegar út í þá sálma er farið franska, að læra að elda eða byrja í crossfit) í grunninn er ferðin eins. Ef þú hefur alltaf látið þig dreyma um þetta, sláðu til. Þú munt ekki sjá eftir því.

Skjálftabækur

Rithöfundurinn Tyler Cowen nefndi ákveðnar bækur skjálftabækur (quake books). Meinti hann bækur sem varanlega, jafnvel á einu andartaki, breyta heimsýn og hugsunarhætti okkar. Ef þú hugsar til baka manstu líklega eftir slíkum bókum. Ólíkt flestum bókaflokkum eru skjálftabækur einstaklingsmiðaður. Það fer eftir hver við erum og hvenær við lesum þær hvort bækur eru okkar skjálftabækur, en það eru leiðir til að fjölga slíkum bókum í lestrarlífi okkar.

Við erum bara með einn haus og hann á það til að vilja staðfesta þær skoðanir sem fyrir eru. Með því að elta uppi réttu bækurnar náum við að sjá heiminn frá fleiri sjónarhornum, sem þroskar okkur og eikur samkennd með öðrum.  Er það ekki einn tilgangur listar? Að víka heimsýnina, bæta ákvarðanir og læra að samkennd með öðru?

Dæmi

En hvaða bækur eru skjálftabækur. Eins og áður sagði er það einstaklingsmiðað. Ég get nefnt þær bækur sem hafa verið það fyrir mig. Fyrsta og skírasta dæmið fyrir mig er Benjamín Dúfa. Ég las hana í níunda bekk (minnir mig) og hef ekki lesið hana aftur, en það var ein lína í bókinni sem bókstaflega breytti lífi mínu.

Samhengið er að það var mjög, mjög, auðvelt að pirra mig þegar ég var hormónasprengdur unglingur. Gaur sem var með mér í handbolta hafði tekið eftir að ef ég var kallaður Ingó (ég held reyndar að hann hafi meint það vel) varð ég mjög pirraður, sem öðrum fannst skiljanlega fyndið. Á einhverri blaðsíðunni í Benjamín dúfu eru aðalpersónurnar að tala um uppnefnið Róland riddari og Róland útskýrir að „ef þú gerir nafnið að þínu eigin, getur engin notað það gegn þér.“

Ég man eftir að hafa lesið þetta og liðið eins og einhver hefði slegið mig. Auðvitað gat ég ákveðið að láta svona einfaldan hlut ekki fara í taugarnar á mér. Ég hóf að taka nafninu með bros á vör, sem ég geri enn í dag. Mér leið eins og ég hefði öðlast ofurkraft, ögn betri stjórn á annars stóru skapi.

Þetta er auðvitað bara lítið og ögn kjánalegt dæmi. Aðrar bækur hafa haft svipuð áhrif á mig. God no eftir Penn Jillete er ein. Average is Over eftir áðurnefndan Tyler Cowen er önnur og svo gæti ég lengi haldið áfram. Án þessara bóka myndi ég hugsa öðruvísi en ég geri í dag. Það gerist ekki jafn oft í dag og það gerði á skólaárunum að bækur hristi svona upp í mér en það kemur betur fer öðru hverju fyrir.

Athugið að skjálftabækur eru ekki endilega bestu bækurnar sem við lesum. Name of the Wind er ein  flottasta fantasía sem ég hef lesið, en hún breytti ekki hugsunarhætti mínum. Sama gildir um Sapiens eftir Yuval Noah Harrari. Sú síðarnefnda hefði líklega verið skjálftabók fyrir mig ef ég hefði lesið hana fyrr en þegar ég komst í hana þekkti ég flestar hugmyndirnar í henni, þó hún hafi soðið þær hugmyndir frábærlega saman.

Hvernig finnum við skjálftabækur?

Það hafa milljónir bóka verið skrifaðar og líkurnar á ramba á slíkar bækur óvart eru tölfræðilega takmarkaðar. Ein leið er að spyrja. Ef það er einhver í lífi þínu sem þú lítur upp til að er einfalt mál að spyrja hvort einhverjar bækur hafi mótað viðkomandi.

Önnur leið er að finna bækurnar hjá fólkinu sem við dáumst að úr fjarska. Spurninginn er nánast klisja í viðtölum við frægt fólk, sérstaklega rithöfunda, og lítið mál að fletta því upp á netinu. Ef bók hefur hrist eina manneskju inn að beini, eru allar líkur á að hún muni gera það sama fyrir einhvern annan. Ef þú lest nokkrar bækur á ári sem hafa verið skjálftabækur fyrir aðra, eru allar líkur á að þú hittir á þú hittir á eina sem fer þannig með þig.

Það eru líka bækur sem hafa verið skjálftabækur fyrir marga og einfalt að veðja á. Hlustaðu á hvernig sumir tala um Sölku Völku eða Sjálfstætt fólk. Það þarf samt að taka vinsældum með örlitum fyrirvara, sérstaklega ef vinsældirnar eru miklar en hverfa hratt. En þegar bókin hefur verið vinsæl áratugum eða jafnvel öldum saman er það ákveðin gæðastimpill. Tíminn á það til að sía út þær sögur og rit sem eru frábær. Það er ekki að segja að allar gamlar bækur séu góðar eða að nýjar séu lélegar. En ef fólk er búið að finna ástæðu til að lesa sama verkið í nokkur þúsund ár, eru ágætis líkur á að það sé gott verk.

Lesturinn sjálfur.

Það er eitt að lesa, annað að glíma við bókina. Ein hættan við að eltast við erfiðar bækur er að það verður auðvelt að renna bara í gegnum þær án þess að meðtaka þær. Maður má ekki heldur gleypa þekkinguna án þess að spyrja spurninga. Bækur Ayn Rand hafa mótað huga þúsunda, ég myndi setja spurningarmerki við að leyfa henni að móta líf manns. Þetta er dásamleg þversögn. Til að leyfa bókum að breyta manni og bæta verður maður að lesa með opnun hug, en líka ráðast á hugmyndirnar og glíma við þær.

Hví lesum við?

Af hverju ættum við að eltast við bækur sem hrista upp í höfðinu á okkur. Lestur er nokkuð einstakt form töfra, eins mikil klisja og það er. Menn hafa verið að liggja yfir og skrifa skruddur nokkurn vegin jafn lengi og siðmenning hefur verið til. Það má jafnvel færa ágætis rök fyrir að siðmenning sé til vegna þess að menn lærðu að skrifa og lesa. Það eru ekki mörg vandamál sem við glímum við í dag sem að einhver annar hefur ekki glímt við og leyst, oftar en ekki hafa þeir skrifað lausnina niður.

Að elta uppi góðar bækur er hluti af gleðinni við að lesa mikið. Það er vissulega hægt að gera það með því að renna yfir bókahillur í næstu bókabúð, leika sér að því að velja flottar kápur og fína höfunda. En það er líka gleði í að reyna markvisst að finna ódauðlegar bækur, bækur sem hrista upp í okkur og láta okkur skjálfa inn að beini.

Ekki allar bækur eru skjálftabækur, eðli málsins samkvæmt. Það er pirrandi að lesa pistla sem láta eins og lestur sé kvöð, skylda manns í nafni þess að verða snjallari og menntaðri. Lestur þarf ekki að vera neitt nema þægileg, slakandi, afþreying. En við höfum öll gott af því öðru hverju að dýfa tánni í djúpu laugina, allavega nokkrum sinnum á ári.