Guide to Guiding: Að setja upp einleik með engum pening og takmörkuðum tíma

Sjötta júlí 2020 stóð ég á litla sviðinu í Secret Cellar og fór með einleikinn Guide to Guiding. Þetta kvöld var hápunktur ferli sem stóð yfir í ár, þar sem Guide to Guiding fór úr því að vera fyndin hugmynd, í klárað verk. Það er erfitt að lýsa tilfinningunum á svona stund. Stolt er ein, óstjórnarleg gleði yfir að verkið gangi yfir höfuð upp, þakklæti til þeirra sem hjálpuðu og sigurvíma. Heljarinnar blanda.

Hálft sviðið sést á myndinni, var ekki nema þrisvar næstum dottinn af því

Eitt sem ég lærði snemma í ferlinu er að það er merkilega lítið efni til um hvernig svona verk verða til. Reyndar er bara merkilega lítið til um hvernig leiksýningar verða til á netinu. Það er eins og við sem vinnum í leikhúsinu viljum að það sé einhver dularfull blæja yfir því sem við gerum. Eða kannski átta aðrir sig á því sem ég mun uppgötva við skrif þessarar greinar: Að þetta ferli er ekkert sérstaklega spennandi. Kannski. En sjáum til.

Ég mun gera mitt allra besta til að skrifa um ferlið eins og það gerðist en það er náttúrulega sá hængur á að ég veit hvernig þetta fór allt saman, þannig að hætta er á að maður lýti til baka og sjái hlutina í öðru ljósi.

Að fá hugmynd og ákveða að framkvæma hana.

Rithöfundar grínast oft með það að það sé stranglega bannað að spyrja þá hvar þeir fá hugmyndir. Fyrir mörgum er sköpunarferlið ögn heilagt, eitthvað sem menn vilja vernda og eru hræddir um að ef þeir fara ofan í kjölinn á því skemmist það.

Hugmyndir eru að því ég best veit frekar einfalt ferli: Heilinn sér tengingu milli tveggja áður ótengdra fyrirbrigða og búmm, það er komin hugmynd. Ef maður les mikið, og lifir áhugaverðu lífi fær maður hugmyndir. Svo æfist maður í að taka eftir þeim. Stundum malla þær í undirmeðvitundinni lengi og mótast, flestar gleymast sem betur fer jafnóðum því að 99 prósent allra hugmynda eru slæmar.

Ég er í alvörunni ekki viss hvað er í gangi hérna

Guide to Guiding er ein af fáum hugmyndum sem ég hef fengið sem ég get rakið mjög nákvæmlega. Örsögur úr ódýrri íbúð var upphafið. Á meðan ég skrifaði það safn var ég líka í fullri vinnu í ferðaþjónustunni og fór að taka eftir mörgum atvikum, einstaklingum og dögum sem gátu klárlega haldið uppi lítilli smásögu, eða í sumum tilvikum stórri smásögu. Eftir að ég kláraði örsögurnar byrjaði ég að fikta við þessa hugmynd, Örsögur að framlínu ferðaþjónusturnar var titillinn sem hafði í huga. Ég vissi að það var eitthvað þarna svo í dundaði mér við að skrifa fyrstu uppköst af tveimur sagnanna (og efni úr báðum enduðu í leikritinu) og gerði langan lista yfir viðburði sem gætu orðið sögur.

En svo kom töfra augnablikið. Allir sem hafa unnið við skapandi vinnu í einhvern tíma hafa átt þetta augnablik, en þau eru ofboðslega sjaldgæf. Reykjavík Fringe Festival hátíð sem haldin hefur verið árlega síðan 2018 og ég get ekki sagt nógu margt gott um þessa hátíð. Hún er stórskemmtileg, hægt að sjá ótrúlega blöndu af list og leikhúsi, framkvæmd og unninn af fólki í sjálfboðastarfi, knúið af engu nema ástinni.

Fyrstu tvö árin tók ég þátt í fjölleikahúsi sem nefnist Rauða Skáldahúsið á hátíðinni og á laugardeginum var ég á leiðinni heim úr lokapartíinu þegar einn af skipuleggjendunum segir við mig (hún man ekki eftir að hafa sagt þetta): „Svo verður þú með eigin sýningu á næsta ári, er það ekki?“

Tveir hlutir smullu saman og búmm, ég vissi að ég ætlaði að skrifa Guide to Guiding. Það var eins og rafmagn færi um mig allan, ég sá fyrir mér sviðið og efnistökin. Ég held meira að segja að mér hafi dottið titillinn í hug á leiðinni í bílinn. Reyndar var fyrsti titilinn sem ég íhugaði Guide to Iceland, en áhugi minn að keppa við stórfyrirtæki um Google pláss er nákvæmlega engin, fyrir utan að ég hafði ekki áhuga á að fá bréf sem í stóð: Þú ert að nota vörumerkið okkar, vinsamlegast hættu því eða…

Það var samt ein ákvörðun sem varð að taka strax og ég byrjaði: Á að hafa þetta á ensku eða íslensku. Eins og þið hafið kannski giskað að titlinum varð enskan fyrir valinu. Hugsuninn á bakvið það var að ég vildi að sýningin gæti gengið fyrir túrista á sama hátt og How to become Icelandic in 60 minutes gerir.

Það er ákveðin fórnarkostnaður við að nota enskuna. Til dæmis pirrar mig óstjórnarlega að amma muni líklega ekki sjá sýninguna. En markmiðið varð fljótt að eftir að Fringe hátíðin kláraðist myndi Guide to Guiding gæti gengið á litlu sviði í Reykjavík og trekkt að túrista sem langar að sjá gott leikhús. Förum meira út í það seinna í þessari ritgerð.

Hin ástæðan fyrir að ég vildi hafa þetta á ensku er að mig langaði að frumsýna á Reykjavík Fringe Festival. Hátíðin hefur alþjóðablæ og ég vildi að ef hún byrjaði þar myndi hún geta trekkt að sem flesta. En það voru líka praktískar ástæður fyrir að ég vildi sýna á hátíðinni.

Í fyrsta lagi myndi vera ákveðin áhorfenda hópur frétta af sýningunni í gegnum hátíðina. Í öðru lagi þá gaf þetta mér tímapunkt: Þennan dag verður sýningin að verða tilbúin, eða ég þarf að hætta við sem væri vandræðalegt og óþægilegt (hópþrýstingur sem þessi er vanmetið afl).

Í þriðja lagi þá fengi ég frían aðgang að sviði. Þetta síðast er ekki beint sexí ástæða. En hagfræði þess að setja upp litlar sýningar er þannig að rými er verðmæt og takmörkuð auðlind. Bæði æfingar og sýningarrými. Það er auðvitað hægt að leigja sal eða komast að á litlum sviðum, en þá þarftu að vera helvíti öruggur með góða aðsókn til að reikni dæmið gangi upp. Förum líka aðeins meira í þessa hagfræði hér fyrir neðan.

 Fyrsta uppkast

Ég ætla ekki að ljúga því að ég hafi farið beint í að skrifa einleikinn um leið og vaknaði daginn eftir lokapartíið. Nei. Ég var að vinna í einhverju öðru og er búin að læra sú lexíu að maður getur bara unnið í einu stóru verki í einu. En hugmyndin var byrjuð að grassera, ég dundaði mér við að  punkta niður hitt og þetta og svo nokkrum mánuðum seinna settist ég niður og byrjaði á fyrsta uppkasti.

Fyrsta síðan

Ég þurfti að glíma við töluvert óöryggi þegar ég byrjaði á þessu fyrsta uppkasti. Ég var að vinna í verki sem átti að vera komedía og í því efni er ég almennt mjög óöruggir. Ég sagði við sjálfan mig það sem ég segi alltaf við sjálfan mig í fyrsta uppkasti: „Það mun engin lesa þetta nema þú.“ Ég trúi að ritstífla sé ekkert annað en sviðsskrekkur, ef þú segir þér að það séu engir áhorfendur hjálpar það.

Hitt sem ég gerði til að koma mér í gríngírinn var að horfa á öll uppistönd Christopher Titus, á tveim dögum. Hann er eftirlætis starfandi uppistandarinn minn og mér fannst þetta hjálpa við að koma heilanum á réttan. Eini ókosturinn við þetta var að í fyrstu 3-4 uppköstunum voru þó nokkrir brandarar sem voru klárlega ekki mín rödd, heldur hans að skína í gegn.

Besta ákvörðun ferlisins.

Það tók nokkrar vikur að skrifa þetta fyrsta uppkast í stílabók og ég held ég hafi skrifað eitt uppkast í viðbót (þau urðu að endingu 10, þar af þrjú sem voru merkt „Loka uppkast“) og þá þurfti að taka nokkrar ákvarðanir.

Fyrsta var: Vildi ég leika þetta sjálfur? Ég var engan vegin viss um það. Ég hef gaman af því að leika á sviði og koma fram en ólíkt því að skrifa klæjar mig ekki í neinn vöðva ef ég leik ekki í langan tíma. Ég gældi mikið við að skrifa og leikstýra verkinu sjálfur, sem kitlaði aðeins egóið í mér. En sama hvort ég myndi leika eða leikstýra þurfti ég mann með mér og ég vissi hver ég vildi að það væri. Haustið 2019 hringdi ég þess vegna í Tryggva Rafnsson og sagði honum að ég væri með hugmynd sem ég vildi ræða við hann.

Tryggvi er frændi minn, fór í sama leiklistarskóla og ég (nokkrum árum fyrr) og við höfðum áður byrjað saman á verki sem ekkert varð úr. Hann er líka, að öðrum ólöstuðum, skemmtilegasti maður sem ég þekki. Við fórum yfir uppkastið að handritinu eins og það var þá, hann var strax harður á að ég myndi leika karakterinn. Ég sagði honum sumar sögurnar sem ég var að hugsa um að nota og við vorum sammála um eitt: Þetta verk átti fyrst og fremst að vera skemmtilegt.

Vel sáttir á frumsýningarkvöldi

Svo var önnur stór ákvörðun. Í fyrsta uppkasti handritsins hét persónan bara Ingimar Bjarni Sverrisson. Það hefur ákveðna kosti að skrifa persónu sem er bara þú en líka ákveðna galla. Ef þetta er eigið nafn muni gestir líklega trúa að allt sem sagt er sé satt og skoðanir séu allar raunverulegar. Gallinn er auðvitað að þá þarftu siðferðislega að standa undir því.

Að lokum ákváðum við að þetta væri karakter, Ríkarður Snæbjörn Snorrason og það gaf okkur töluvert meira frelsi til að ýkja, segja hluti sem ég er kannski ekki alveg sammála og svo framvegis. Þegar ég lýt til baka var þetta fyrsta dæmið um vandamál sem fylgdi verkinu alla leið (og var í raun aldrei 100% leyst), togstreitan milli þess að skrifa sýningu sem er uppistand og leiksýning.

Að finna tíma

Þetta var eins og ég sagði um haustið og þá fór vinnan að stað fyrir alvöru. Ég glímdi samt við sama vandamál og öll skáld sem hafa ekki enn þá ná að gera skrifin að fullri vinnu: Að finna tíma. Ég var í fullri vinnu, sem takmarkar þá klukkutíma í deginum sem geta farið í skrif. Ég er líka þannig týpa að ég á erfitt með að taka stóra daga. Sum skáld geta tekið frá einn dag í viku og legið yfir textanum í átta klukkutíma þann dag. Ég er bara ekki þannig.

Lausnin var einföld: Ég byrjaði að vakna það snemma að ég hafði klukkutíma að skrifa á hverjum morgni. Þegar ég var í vinnunni þýddi það bara þessi klukkutími, þegar ég var heima ílengdisttk ég oft við skrifin. Hægt og rólega fór ég að breytast í hálfgerðan morgunhana, komin í rúmmið 10 og vaknaður 6. Fyrir mig var þetta risabreyting sem gekk ekki til baka (þessi orð eru skrifuð 6:25, rétt áður en ég bruna í vinnu).

Ferlið að skrifa svona handrit er í raun sáraeinfalt. Ég vann eitt uppkast, fór og las það fyrir Tryggva og við ræddum málið fram og til baka. Hann var sérstaklega góður að koma auga á lítil augnablik sem gátu orðið stærri og skemmtilegri og að benda á hvar handritið var full „pirrað.“ Leiðsögumaðurinn sem verkið fjallar um er búin að gera það sem hann gerir allt of oft en það er fín lína milli þessa að skrifa þreyttan og pirraðan karakter og að skrifa þreytt og pirrað og neikvætt verk, sem við vildum ekki gera. Þannig að þó nokkrum sinnum benti Tryggvi á að „hann hljómar svolítið reiður þarna“ og það var leiðrétt jafn óðum.

Umsókn á Fringe.

Á meðan á þessu stóð þurftum við að skrifa umsókn til að vera með sýningu á Fringe. Það reyndist pínu kúnst, því jú verkið var ekki tilbúið. Í fyrstu uppköstunum átti eitt af aðal grínum verksins að vera að Ríkarður væri með skjávarpa á sviði sem væri að „hjálpa“ honum að segja frá ferðamennsku. Þetta átti að vera ægilega fyndið og mikið ofboðslega er ég feginn að við hurfum frá þessu, bara upp á tæknivesenið ef ekkert annað. En þetta er eitt af þó nokkru sem var í umsókninni sem við síðan slepptum. En þegar umsóknin var farin varð ekki aftur snúið, sem var gott.

Það að skrifa umsóknina neyddi mig líka til að koma orðum að því sem ég var að reyna að gera og, ef ég man rétt, þurfti ég að skila með henni logoi og plaggati. Hér koma greiða hagkerfið sterkt inn. Ég er svo heppinn að eiga frábæran vin sem er grafískur hönnuður sem er alltaf til í að búa til eitthvað skemmtilegt fyrir biluðu hugmyndirnar mínar. 

Covid nálgast.

Ég held við munum öll eftir augnabliki þar sem við hugsuðum „fokk, þetta er að fara að vera stórt dæmi“ í samhengi við Covid. Hjá okkur sem vinnum í ferðaþjónustu kom það fyrr en hjá flestum, af augljósum ástæðum.

Fyrir mig var það á Keflavíkurflugvelli. Ég var á leiðinni á EM í handbolta og þar sem ég sat með vini mínum fékk hann e-mail: Kína búið að banna hópferðir úr landi. Hann vinnur hjá stóru ferðaþjónustufyrirtæki og við sögðum báðir: Fokk.

Allt í einu hljómaði hugmyndinn „skrifum einleik fyrir túrista“ ekki jafn frábærlega. Á sama tíma barst svar við umsókninni og það var staðfest, við yrðum á Reykjavík Fringe. Ég hafði ekki miklar áhyggjur af því að umsókninni yrði hafnað en samt, smá. Tk mostwonderful

Ferbrúar og mars liðu og okkur fannst við vera á ná handritinu á réttan stað. Okkur datt ekki til hugar að það væri tilbúið en það var að komast á þann stað að við þurftum að fá utanaðkomandi til að hlusta á samlestur. Ég hafði sent svona sirka annað hvert uppkast á yfirlesara til að fá punkta, sem hjálpaði mikið og er ég þeim öllum mjög þakklátur. Ég veit ekki hvort aðrir listamenn glíma við þetta en pennar eru ofboðslega háðir yfirlesurum til að sjá verkin okkar í réttu ljósi.

Um þetta leiti varð ljóst að það stefndi í samkomubann á Íslandi. Túristar voru um það bil að hverfa alveg sem þýddi að það var lítið að gera í vinnunni og líkt og eftir að WOW féll þá var alltaf ákveðin spenna yfir farþegalistum. Ég skil vel að fólk sé ekki beint að pæla í að aflýsa öllum túrum þegar það er að reyna að sleppa úr landi, en síðustu vikur fyrir samkomubann vissi maður aldrei hversu margir myndu mæta í túrinn. Man eftir einni ferð þar sem 20 voru bókaðir… og ekki einn einasti maður mætti. Svo fann maður líka að fólki leið ekkert endilega vel í kringum hvort annað, var spurður í síðustu norðurljósaferðinni minni: Hvað ætlarðu að gera ef einhver hóstar? Ég hafði ekkert svar.

Samkomubann, hlutabótaleið, verður hátíðin?

Reykjavík Fringe sendi frá sér yfirlýsingu á einhverjum tímapunkti: „Hátíðinni er ekki aflýst, en…“ Hún yrði augljóslega með mjög minnkuðu sniði í ár. Engum erlendum yrði boðið, mögulega yrðu engir áhorfendur. Allir myndu geta streymt sýningunum sínum. Við Tryggvi ræddum þetta mjög stutt og ákváðum að við myndum halda okkar striki. Augljóslega yrði ekkert úr því að halda sýningunni gangandi strax eftir hátíðina en við ætluðum að vera með hana klára. Mér fannst tilhugsunin að streyma úr tómum sal ekkert sérstaklega sexí, en hún þýddi að við höfðum enn þá þessa „verður að klárast fyrir“ dagsetningu.

Um það leiti sem það var verið að loka og læsa Íslandi áttum við eina af stóru, mikilvægu, stundunum í ferlinu. Sveinn Óskar og Bjartmar Þórðarson komu og hlustuðu á mig lesa handritið og gáfu nótur. Þeir voru frábærir og bentu á nokkra stóra hnúta sem þurfti að leysa. Til dæmis var verkið allt og langt (minnir að ég hafi verið 1:45 að lesa verkið) og það voru fullt af atriðum sem bara pössuðu ekki inní. En stóra vandamálið, eins og Bjartmar orðaði það svo vel: Hver er vélin í verkinu? Hvað lætur verkið halda áfram. Við Tryggvi vissum hvað við vildum að hún væri, en það kom bara ekki nógu skýrt fram á þessum tímapunkti. Þetta átti að vera leiðsögumaður að enduruppgötva gleðina við vinnuna.

Við tók fyrri stóri niðurskurðurinn, nokkrar síður skornar út og nýjum tengingum bætt við til að bæta flæðið. Það var líka alls konar leikur í textanum sem við þurftum að geta réttlæta, allavega fyrir sjálfum okkur. Til dæmis á þessum tímapunkti var hugmyndin að vera með heilt pub quiz í miðju klukkutíma leikriti, sem hefði verið heljarinnar vesen. Quizið var að lokum skorið niður í nokkrar spurningar og þeim ekki svarað á blaði. Annað sem fór (líklega sem betur fer) á þessum tímapunkti var heil blaðsíða um hnattræna hlýnun. Það skrýtna er að þegar ég lýt til baka var ég alveg handviss um að þetta yrði að vera þarna inni, þó ég hefði ekki neitt sérstakan áhuga á þessu. Nú þegar ég lýt til baka var engin söknuður af þessari senu.

Við ræddum líka tímaáætlun. Við vildum hefja venjulegar æfingar um fyrsta maí og ég vildi vera komin með handritið í kollinn fyrsta júlí. Hvorugt varð að veruleika en við höfðum nægan slaka í planinu til þess að allt gekk upp.

Svo gerðist apríl. Fyrir okkur sem unnum í ferðamennsku á þessum tíma var þetta ógleymanlegur vetur Óvissan hékk yfir okkur og við áttum öll hálf von á að missa vinnuna á morgun eða hinn. Mörg misstu vinnuna og ég var að lokum (þegar ríkisstjórnin kynnti úrræðið) settur á hlutabótarleiðina.

Fyrir mig varð hlutbótarmánuðurinn hálfgerð snilld. Að vera með mánuð þar sem ég hafði í raun ekkert að gera nema skrifa virkaði mjög vel og ég held ég hafi aldrei afkastað jafn miklu í orðum talið og þennan mánuð. En svo gerði ríkisstjórninn það fjárhagslega óábyrgt fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu að halda starfsfólki og þar sem ég vann var öllum sagt upp. Var ég reiður og fúll? Ekkert smá. En það kom í ljós að það var gott að ég var með var með verkið fyrir framan mig. Ég gat sökkt mér í það og vissi að sama hvað gerðist, gat ég allavega hlakkað til að sýna þessa sýningu.  

Maí og júní: Aftur og aftur

Maí var svo ofboðslega skrýtin mánuðir. Fyrirtækið sem ég vann hjá vildi fá fulla mætingu frá öllum starfsmönnum þó engir gestir væri á staðnum og því var ráðist í alls konar viðhaldsframkvæmdir á vinnustaðnum. Ég vildi ég gæti sagt að ég hefði brugðist við því að þurfa að mæta í fulla vinnu aftur með ró og þroska en þetta pirraði mig mikið, því ég vildi vera að einbeita mér að sýningunni. Sem betur fer höfðum við Tryggvi unnið vel í Guide to Guiding á meðan við höfðum allt of mikinn frítíma þannig að við þurftum ekki að fara í neina risavinnudaga. Nú var líka spennandi parturinn að byrja: Sjálfar æfingarnar.

Ég sagði hér að ofan að rými væri ein af lykilbreytunum í að setja svona verk upp. Einn af stóru kostunum við að setja upp einleik er að það þarf ekki mikið pláss til að æfa hann. Neyðarplanið mitt var að gera það í stofunni heima og ég var með leyfi frá stjórn húsfélagsins hér til að gera það í herbergi í kjallaranum. En það kom í ljós að bílskúrinn hjá Tryggva var fullkominn. Nei reyndar ekki fullkominn á neinn hátt, en hann var rými og við gátum notað hann.

Við rákum okkur á skemmtilegan menningarmun. Þó við hefðum lært í sama leiklistarskóla þá vorum við á mismunandi brautum með mismunandi áherslum. Hjá mér var textavinnu í algjörum forgangi, vera með hvert einasta orð og atkvæði rétt. Hans braut lagði ekki sömu áherslu á þetta og því kom upp sú staða að leikarinn var miklu stressaðri og harðari á því að vera með hvert orð rétt en leikstjórinn. Þessi dýnamík var mein holl. Mér fannst hann aldrei vera að þrýsta á mig með þetta en vildi samt vera með allt rétt.

Ég gerði hins vegar sömu mistök og allt of oft áður með texta vinnslu. Það gekk nefnilega svo sjúklega vel fyrstu vikuna að læra textann að ég slakaði aðeins á. Í stað þess að reyna að læra hálfa síðu eða meira á dag lét ég mér stundum nægja eina setningu eða hálfa málsgrein þegar ég var að vinna löngu dagana upp á hálendinu. Svo voru allt í einu bara nokkrir dagar í dagsetninguna sem ég hafði sett sjálfum mér og hálft handritið eftir. Tryggvi stríddi mér aðeins með þetta en þetta gekk að lokum, ekki nema viku seinn.

Að læra texta er einn af þessum hlutum sem fólk spyr eitthvað í áttina að „hvernig ferðu að þessu?“ Það fyndna er að innan leikhúsheimsins er þetta ekki álitið neitt merkilegt, að geta munað texta er jú skilyrði fyrir að standa á sviði. Ég er viss um að aðrir heimar eiga sína útgáfu af þessu, eitthvað sem allir gera svo oft innan heimsins að það er bara sjálfsagt en fólk utan hans klóra sér í hausnum yfir. En svarið „maður gerir þetta bara“ er bæði pínu hrokafullt og hjálpar ekki neitt.

Það eru margar aðferðir við læra texta. Ég þekki leikara sem hlusta á sjálfan sig lesa textann aftur og aftur, sumir tengja setningar saman á einhvern hátt í huganum og aðrir æfa alltaf með einhverjum öðrum (algengari í verki sem er ekki einleikur). Það sem ég geri er að ég brýt textann niður í litlar einingar, ein setning er venjulega nóg. Svo endurtek ég hana nokkrum sinnum. Svo bætir maður við næstu og næstu. Þegar einingin er orðin ákveðið stór fer maður yfir hana nokkrum sinnum og svo endurtekur maður ferlið, aftur og aftur og aftur. Eins og með að endurskrifa handrit þá er ekkert sexí eða spennandi við þetta ferli, þetta eru bara endurtekningar. Það eru takmörk hvað maður getur náð miklu á dag, í þessu verki var góður dagur sirka ein síða af texta. Ég segi í þessu verki því mér gekk töluvert betur að læra þennan texta en flesta aðra sem ég hef lært, mögulega hjálpaði að þetta var bara ein löng einræða. Líklega hjálpaði líka að hafa legið yfir textanum og skrifað hann mánuðum saman.

Við æfingar ferlið byrjaði að við fórum einu til tvisvar sinnum yfir hvert atrið fyrir sig. Það hjálpaði hversu mikið Tryggvi hafði tekið þátt í skrif ferlinu, leikstjórinn vissi meira eða minna hvað hann vildi úr hverju atriði. Okkur til mikillar skemmtunar í fyrsta rennsli þá föttuðum við að ein af stærri senum verksins hafði hreinlega gleymst þannig að í fyrsta rennsli þá var sú sena áberandi (og skiljanlega) svolítið út um allt. En frá miðjum maí til miðs júní var vinnan bara þannig að við renndum verkinu aftur og aftur. Hlutir slípuðust til, urðu mýkri og við vorum bara nokkuð sáttir við stöðuna. Við vissum samt báðir að þetta væri ekki jafn gott og þetta gat verið. Hér vorum við aftur komnir í sama bobba og áður, við vorum búnir að sjá (og framkvæma) hlutina svo oft að við vorum gjörsamlega ófærir um að sjá verkið eins og áhorfandi myndi sjá þá. Þannig að aftur fengum við mann inn til að horfa á, einn besta leikstjóra/leiklistarskaparatk á Íslandi, Kára Viðarson.

Ég renndi verkinu fyrir Kára og svo tók við mjög erfiður hálftími þar sem hann benti á hvern einasta galla. Ef hann hefði ekki verið að tala um verk sem ég hafði skrifað og var að leika hefði ég líklega dáðst að því hvernig leikhúsheilinn í honum virkar, því hann er magnaður. En það er aldrei gaman að heyra verkin manns rifin í tætlur, sama þó Tryggvi hefði hringd í hann vegna þess að hann vissi að verkið yrði rifið í tætlur. Vandamálið var svo sem ekki gæði efnisins. En það var alltof mikið efni og við höfðum aðeins misst þráðinn um hvaða listform við vorum að vinna með.

Fyrr í greininni minntist ég á að ég hefði horft á mikið uppistand til að koma mér í gírinn. En sýninginn átti að vera einleikur ekki uppistand og handritið endurspeglaði það ekki nógu vel. Listformin eru öðruvísi og ég kann annað þeirra og hitt (þeas uppistand) ekki. Vissulega hefði efnið sem við vorum með getað orðið grunnurinn af uppistandi en það hefði aldrei verið jafn gott, ja nema kannski ef ég hefði tekið mig á og æft efnið sem slíkt.

Hinn stóri gallinn var uppröðuninn á efninu. Það var (og er) ekki mikið sem viðkemur innri manni Ríkarðs í sýningunni og það var mjög aftarlega í sýningunni. Þetta olli því að fyrri hluti sýningarinnar virkaði hann sem bara töffari og asni, ekki persóna sem áhorfendi vildi kynnast.

Lausnin var að nú var komið að Tryggva að taka upp hnífinn og skera úr og endurraða. Þetta var síðasta stóra breytingin á handritinu, þrem vikum frumsýningu og það var heljarinnar áskorun að læra handritið „upp á nýtt.“ En þarna náðist nánast öll fita úr því, eftir þetta var mjög lítið ef nokkuð sem mátti skera út. Sem er góður staður fyrir handrit að vera.

Markaðsetning.

Þegar það leit út fyrir að sýningunni yrði bara streymt ákváðum við að vera ekki með mikla markaðsetningu. En við gerðum samt plan. Hér er vesenið með að markaðsetja litla sýningu með engum pening: Þetta er lítil sýning sem þú hefur engan pening til að auglýsa. Uppistandarinn Jono Duffy orðaði vesenið við að markaðsetja sýningu í þessum stærðarflokki meistaralega: Þetta er eins og að halda partí sem engin bað um og biðja fólkið sem mætir að borga.

Ef við myndum prenta þetta sem póstkort, væri áhugi fyrir að kaupa?

Besta lausninn var að okkar mati að reyna að byggja upp Facebook síðu og reyna að trekkja þar inn. En hvernig? Myndbönd fá mesta dreifingu í dag í dularfullum forritum Mark Zuckerberg en til að gera gott myndband þarftu reynslu og þekkingu, sem við höfðum ekki. Fringe vildi fá trailer frá okkur sem ég byrjaði að gera en kláraði ekki. Ætla ekki að koma með neina afsökun, gaf mér bara ekki nægan tíma í þetta.

Eftir nokkrar rökræður ákváðum við að taka röð af myndum sem litu út eins og póstkort með hlutum sem tengdust sýningunni. Hugmyndin að útlitið myndi minna fólk á sýninguna, að þeir sem hefðu áhuga myndu ýta á „Líkar“ takkann og svo gæti sú síða orðið grunnur að frekari markaðsetningu. Svo heppnir vorum við að pabbi er með myndadellu og einn frábær vinur minn er grafískur hönnuður sem er alltaf til í að hjálpa.  Við vorum með bíl fullan af skrýtnu dóti upp í bláfjöll (þar sem við gátum fundið snjó) og tókum myndirnar, sem var virkilega skemmtilegur dagur. Svo bjó Júlli til rammana um þær og vann myndirnar aðeins. Síðasta mánuðinn fyrir sýningu birtum við þessar myndir einu til þrisvar sinnum í viku og þær fengu alltaf svipaða dreifingu. Reyndar fengu þær grunnsamlega svipaða dreifingu.

Tvennt annað gerðum við. Facebook leikir hafa ógurlegan mátt og við vildum reyna að nýta það. Mér tókst að fá eitt gjafabréf sem við gerðum að verðlaunum og sá póstur fékk hörkudreifingu (hefur líka hjálpað að ég póstaði honum inn á vinnustaðahópa) og ég er viss um að það hefur hjálpað.

Hitt var svo að ég tók að mér að framleiða Reykjavík Fringe Festival hlaðvarpið. Ég gerði þetta ekki bara til að auglýsa sýninguna, mig langaði að gera þetta almennt til að sjá hvort mér líkaði vel við hlaðvarp gerð. En það hjálpaði að geta sagt í byrjun hvers þáttar að ég væri með Guide to Guiding. Síðan vorum við svo heppnir að Reykjavík Grapevine fjallaði um hátíðina og við vorum ein af þeim sýningum sem þeir tóku viðtal fyrir. Svo skrifuðum við líka báðir langa pósta um sýninguna á eigin Facebook veggi sem hefur klárlega hjálpað eitthvað.

Hvað af þessu virkaði best? Ekki hugmynd. Henry Ford sagði eitt sinn um markaðsetningu að Ford Motor gæti líklega sleppt helmingnum af því sem þeir gerðu, þeir vissu bara ekki hvorum helmingnum. Þegar við setjum sýninguna upp aftur verður margt af þessu endurtekið (og við getum svo sannarlega ekki kvartað yfir mætingu á sýninguna) og sumu bætt við. En þetta var góð lexía um hversu mikið er hægt að gera með nánast ekkert í höndunum.

Síðustu vikurnar – frumsýning.

Síðustu 10 dagana fyrir sýningu var ég í fríi frá vinnu og við gátum æft að fullum krafti. Þessi hluti ferilsins snerist bara um fínpússun, að finna rétt viðhorfið til að labba inn á svið með. Fjórum dögum fyrir sýningu vorum við en og aftur komnir á þennan stað sem ég hef lýst tvisvar fyrir ofan: Verkið þurfti ferska áhorfendur. Svo við létum það gerast. General prufan, lokaæfingin, var haldinn á sviðinu í Secret Cellar á föstudeginum, hátíðin var sett á laugardegi og við frumsýndum á mánudegi.

En það var eitt smá mál þarna á milli. Á sunnudeginum var kvöld þar sem allar sýningarnar fengu að sýna tveggja mínútna innslag fyrir aðra þátttakendur og fjölmiðla. Þetta hafði nokkuð óvænt áhrif, eins og að fara í bólusetningu fyrir frumsýningar stressinu. Ég var nánast grár að stressi á leiðinni upp að taka vel valdar tvær mínútur. Um leið og ég steig upp á sviðið og náði að taka fyrstu setninguna án vesens hvarf það eins og dögg fyrir sólu. Þetta gekk mjög vel.

Daginn eftir var svo frumsýning. Ég er mjög rútíneraður á frumsýningardag: sofa út, fara í ræktina og sund, fara á staðinn svona einum og hálfum tíma fyrir sýningu, hita upp og mæta á staðinn. Ég ætla ekki að ljúga öðru en að ég hafi verið skíthræddur þarna, en á sama tíma hef ég oft verið verri. Held að mínúturnar tvær kvöldið áður hafi hjálpað mikið.

Frumsýningin gekk síðan frábærlega. Það er vanmetið hversu mikil áhrif áhorfendur hafa á sýningar í litlum sal og við fengum góðan hóp sem hló í raun miklu meira en við bjuggumst við. En á engri stund þá kláraðist þetta og víman tók við, spennufallið og sigurtilfinningin að hafa klárað ferli sem hófst næstum ári áður. Við skáluðum ítrekað með góðum kunningjum og héldum heim, brosandi eyrnanna á milli.

Seinni sýningar og framhaldið.

Það var pínu fyndið að finna muninn milli sýninga. Fyrir fyrstu sýningu var maður taugabúnt, númer tvö þá var maður smá stressaður. Þriðju þá mætti ég, horfði á aðra sýningu og fór svo beint upp á svið. Allar þrjár gengu vel, líklega var þriðja best svona ef ég reyni að vera hlutlaus. Óvænt gleði fyrir mig var að eftir allar sýningarnar komu leiðsögumenn sem sögðust hafa haft gaman af og tengt mikið við efnið. Á öllum var líka fullt af fólki sem ég þekkti ekki neitt og margir góðir vinir mættu líka.

Hvað tekur við? Nú fer Guide to Guiding í dvala í nokkra mánuði. Við ætlum að reyna að láta hana ganga fyrir ferðamenn á einhverjum tímapunkti en það er einhverjir mánuðir í að það verði mögulegt. Þangað til er bara að bíða, gera næsta markaðplan og vonandi komið þið öll og sjáið litla barnið okkar, við erum mjög stoltir af því.

Örsögur úr ódýrri íbúð: Ferðalok(og Eftirmáli)

Ferðalok

Aðeins viku fyrir heimferð kemur besti vinur minn, Vöðvabúnt, loksins í heimsókn. Fyndið þetta með vinina heima, maður býr erlendis í fjögur ár og sumir eru alveg á leiðinni í heimsókn allan tímann en mæta svo viku fyrir heimferð.

 Við njótum þess að ferðast um London, ég kynni hann fyrir bresku vinunum og tala um hversu helvíti fínt það verður að komast heim í Hafnarfjörð. Ég segi honum sögur af því að búa með litríku fólki, Mikka ref, mörgæsalygum og gamaldags ræktinni í Sidcup, frá því að flengja yfirmann á fyllerí, rífa mig úr að ofan á miðju djammi og neita að tala ensku það sem eftir lifði kvölds, að vakna á svölum eftir partí og að vera kallaður rasisti fyrir taka ekki eftir stelpu á lestarstöð. Flestar sögurnar enduðu á hlátri og honum að spyrja:

– Og þetta finnst þér bara eðlilegt?

Það eina sem við gerum af okkur er að stríða ákaflega þreytandi sölumanni. Hann er að reyna að selja okkur rándýra bátsferð niður litla á í Norður-London, nálægt dýragarðinum. Þegar við losnum ekki við hann með kurteisi gerum við okkur upp áhuga og spyrjum spurninga í ætt við:

– Verða sætar stelpur?

– Nei en ég get lofað að …

– Vodka? Þú getur lofað vodka?

– Sko, þið megið koma með …

– En hvað með heitar gellur? Við komum ef það eru heitar gellur!

– Hver veit, kannski, en …

– BRENNIVÍN! Þú ert með brennivín í bátnum!

Svona hélt þetta áfram hring eftir hring þangað til hann gafst loksins upp. Við snerum okkur aftur að því að sleikja sólina og fylgdumst með honum halda áfram að ganga um og reyna að selja túristum ferðina sína.

Seinasta kvöldið mitt í bænum býð ég nokkrum félögum á kunnuglegan bar, í þetta sinn voru engir sjóræningjar. Við eigum einfalt og gott kvöld. Spaðinn, Skáldkonan og Leikstjórinn mæta en ég bauð ekki með nema þriggja vikna fyrirvara þannig að Lávarðurinn er með annað á prjónunum. Engillinn og Boltastrákurinn eru flutt heim, Töffarinn og Rósin eru að vinna. Vöðvabúntið spyr hvort við eigum ekki bara að mæta til þeirra, ég þykist ekki vita hvar vinnustaðurinn er.

Um mitt kvöld spyr hann upp úr þurru:

– Jæja, hvernig var þetta allt saman? Leiklistarskólinn, djammið, þessir félagar, að búa með strippurum, reyna að harka það hérna?

– Ja. Það var aldrei nokkurn tímann leiðinlegt.

Eftirmáli. (Nokkrum árum seinna)

Það er spes að renna í gegnum þessar sögur fimm til átta árum eftir að atburðir þeirra gerðust og þremur árum eftir að þær væru skrifaðar. Án þess að fara í einhverja ógurlega naflaskoðun þá var ég augljóslega ekki sama manneskja og ég er í dag. Myndi ég gera margt öðruvísi í dag? Auðvitað. En hefði ég lært það sem ég lærði án þess að gera sum mistökin sem ég gerði? Auðvitað.

Hugmyndin á bakvið þessar sögur var alltaf að skemmta fólki. Þær voru skrifaðar sem lokaverkefni í ritlist í HÍ. Mig langar að þakka leiðbeinanda mínum Sigþrúði Silju Gunnarsdóttir og öllum yfirlesurunum fyrir þeirra framlag. Eins og með allar góðar bækur er aldrei hægt að þakka fólkinu bakvið tjöldin nóg.  

Það er ekkert leyndarmál að mig langaði að fá þetta útgefið sem bók og sú löngun minnkaði ekkert við að birta þetta á netinu. En eftir ár af höfnunum frá útgefendum missti ég þolinmæðina og ákvað að henda þessu bara á netið. Kannski var það (eins og svo margt sem ég gerði í sögunum) full mikil skyndiákvörðun, ég var með alls konar hugmyndir sem ég nennti ekki að framkvæma því ég vildi bara koma þessu fyrir augu lesenda.

Hugsuninn var samt að vonandi fengi þetta einhverja lesningu (og að þeir sem læsu yrðu spenntir fyrir næstu verkefnum mínum, hvort sem það væri Guide to Guiding eða fyrsta bókin mín, hvenær sem hún svo kemur út)  og ég myndi læra eitt og annað um útgáfu efnis á netinu. Það tókst svo sannarlega og planið er að nýta þessar lexíur í framtíðinni. Kannski það stærsta sem ég lærði: Það er ekki hollt að skoða lesningartölur fyrir efni á netinu átta sinnum á dag, bara ekki á neinn hátt.

Einn daginn verða svo þessar sögur bundnar í fallega litla bók, það kemur að því. En nóg komið að lokaorðum. Til allra sem kíktu á þessar sögur síðustu mánuði: Takk fyrir lesturinn, vonandi skemmtuð þið ykkur vel.

Örsögur úr ódýrri íbúð: Iðavellir Anfield

Ég vaknaði alltof snemma til að ná ódýrri rútu og svaf á meðan hún skrölti yfir England. Mig hefur dreymt um þetta ferðalag hálfa ævina. Áfangastaðurinn: Liverpool. Síðan ég var ellefu ára og fékk Michael Owen-treyju í afmælisgjöf hef ég séð fyrir mér ferð á Anfield, viljað heyra sönginn úr Kop-stúkunni og fagnað með þegar rauðklædd hetja skorar sigurmark.

Fyrirheitna borginn skartar sínu fegursta en fótboltaleikur er ekki á dagskrá, þeim mun betra: Ég er á leið í áheyrnarprufu fyrir atvinnuleikhóp og ég er vægast sagt bjartsýnn. Kjánalega bjartsýnn.

Írskur leikhópur hafði nýlega samband og bauðst til að borga fyrir mig ferð til Liverpool fyrir prufu. Sýningin verður sett á svið víðsvegar á Norður-Englandi, en þau vilja ekki segja mér hvert hlutverkið er. Óvenjulegt en ekki óheyrt.

Ég er brattur á að rúlla þessu upp, fyrst þau höfðu samband við mig að fyrra bragði. Smá stressaður en ekki óbærilega. Ekkert nema eðlilegt, hver treystir leikara sem segist ekki fá sviðsskrekk?

Þetta gæti verið frábært fyrsta skref á leiklistarferlinum. Það hefur ekki gengið sem skyldi að bóka prufur, þær hafa verið fáar og mér gengið illa. Ég er án umboðsmanns en þetta gæti verið tækifæri til að laga það. Að ég nái góðu hlutverki án slíks hlýtur að vera jákvætt skref.

Fundarstaðurinn er lítil krá í verslunarmiðstöð. Hún er svalandi myrk eftir steikjandi hitann úti. Ég íhuga að fá mér bjór til að róa taugarnar en kannski er ekki sniðugt að vera með bjór við hönd þegar ég er að reyna að hrífa mögulegan vinnuveitanda.

Ég panta kaffi, sem ruglar barþjóninn en að lokum framreiðir hann þetta líka frábæra vonda kaffi. Minnir á kaffi í skólamötuneyti, sterkt, bragðmikið og algjörlega laust við að metnaður hafi verið settur í að laga það. Ég sest og bíð heila eilífð, eða korter. Tíminn hagar sér furðulega á svona stundum.

Inn koma tveir nýir gestir, Nornin og Sonurinn. Undan oddmjóum hatti Nornarinnar flæða svartar krullur og hún er í allt of stórum kjól. Á andlitinu er vinalegt bros, á bak við það hryllilega illa hirtar tennur. Sonurinn er andstæða hennar á allan hátt, hávaxinn og slánalegur og með augu sem illgjarnari höfundur en ég myndi kalla flóttaleg. Veit annars einhver hvað það þýðir? Hann forðast allavega augnsamband og kippist við hvað eftir annað. Þetta eru spes mæðgin en ég er ýmsu vanur. 

Þau segjast fara fyrir leikhópnum. Við spjöllum kurteislega í stutta stund og þau hlæja að öllu sem ég segi. Hugsanlega eru þau kvíðnari en ég fyrir þessari prufu, sem róar mig. Þau vilja líklega að mér takist vel til. Þau höfðu samband við mig og halda með mér í prufunni, ég þarf bara að klúðra ekki hrikalega og þá er hlutverkið mitt.

Hann fer afsíðis. Fas hennar breytist samstundis. Brosið og hláturinn hverfur. Hún segir við mig, grafalvarleg:

– Svona er áheyrnaprufan þín. Okkur langar að sjá hvernig þú bregst við óvæntum aðstæðum. Sonur minn er einhverfur en hann rekur lítið verkstæði sem selur leikmuni. Hann heldur að þú sért kvikmyndaleikstjóri að koma að versla við hann, það er hlutverk þitt næstu mínútur. Gjörðu svo vel.

Finnst þér þetta skrýtið? Mér líka.

Fyrsta hlutverkið á ég að innsigla með því að ljúga að strákræfli. Af því að mamma hans sagði mér að gera það. Kannski væri best að segja henni að fokka sér, þetta er ljótt. En mig langar í hlutverkið og siðferði mitt fær ekki að þvælast fyrir því.

Hann birtist aftur rétt eftir að ég hugsa með sjálfum mér: Þetta er svo sem ekki skrýtnasta áheyrnaprufa sem ég hef heyrt um. Eða jú. Þetta er það.

 Norninn brosir með eftirvæntingu í augunum. Ég byrja:

– Svona standa mál, ég tek góðar pásur og tala hægt, ég og dálítið teymi erum að hefja framleiðslu byggða á Íslendingasögunni Njálu, þekkið þið hana?

Þau hrista höfuðið og ég geri mér upp vanþóknun.

– Njála er frægasta Íslendingasagan, gerist á söguöld, svipar til Game of Thrones. Þess vegna erum við búin að fá Hafþór Júlíusson til að leika Njál. Það er fyrsta skrefið í því sem við erum að reyna að gera, hrista aðeins upp í þessu.

Já. Það fyrsta sem mér dettur í hug er að við höfum fengið tveggja metra háan kraftlyftingarmann til að leika vitringinn í sögunni stundum kem ég engum meira á óvart en sjálfum mér.

– Hann er gamli maðurinn sem lætur tannhjólin snúast og okkur langar að koma á óvart, ekki síst upp á markaðsetninguna. Fyrir hann er þetta tækifæri til að sýna að hann geti leikið annað en tröllkalla, svipað og grínleikarar gera þegar þeir vilja skyndilega ekki vera þekktir sem fyndni gaurinn. Þá birtast þeir í grafalvarlegu hlutverki og fá fullt af verðlaunum, það er markmiðið hans í þessu.

Þau kinka kolli og ég held áfram

– Næsti hluti af útlitinu ert mögulega þú.

Ég geri mér upp að ég sé að vega hann og meta.

– Okkur langar að nota vopn sem eru ekki þessi drepleiðinlega víkingaklisja, það er búið að gera hundrað sinnum. Það er kominn tími til að fara í aðra átt og ég hef heyrt góða hluti um þig. Ertu ekki með sýnishorn?

Mig kitlar í aðra höndina, hún veit að stór vindill væri viðeigandi. Ég er að beisla anda allra Hollywood-framleiðenda, þykist algjör stórlax. Fjandinn hafi það, þetta er skemmtilegt.

Hann dregur fram poka og ég skoða gripina. Þetta er dót sem kallast larp-búnaður. Vopn notuð í leiknum hlutverkaspilum, stundum í Öskjuhlíð. Ég vann í Nexus árum saman og þekki þennan heim betur en flestir sem eru ekki hluti af honum. Eru örlögin að brosa til mín?

Í miðjunni er hörð stöng en mestallt vopnið er gert úr frauðplasti. Með mikilli vinnu er hægt að láta þetta líta út eins og fínasta handverk. Sú vinna hefur ekki farið í þessa gripi sem er ekki diss. Þetta er í raun eins gott og flestir nota. Fáir kaupa svona búnað á því verði sem hann kostar í hæsta gæðaflokki. Þess í stað eru notaðar ódýrari græjur. Þær eiga það til að virka teiknimyndalegar sem eykur ef eitthvað er barnslegu leikgleðina sem fylgir þessu. Ekki láta þér detta í hug að þetta sé bara hrikalega kjánalegt nörda-hobbý, þetta er hrikalega skemmtilegt, kjánalegt nörda-hobbý.

– Þetta er fínn grunnur, mér líst ágætlega á þetta. Við þyrftum að fara yfir útlitið og styrkja kjarnann, þetta þarf að þola að vera í tökum við erfiðar aðstæður.

Hann kinkar kolli og ljómar allur við að fara yfir smíðaferlið. Flestir skína eins og stjörnur þegar þeir lýsa einhverju sem þeir hafa einlægan áhuga á, það á enn frekar við um þá sem eru á einhverfurófinu.

Bulldælan gengur í næstum klukkutíma. Við ætlum að skjóta á Englandi og Íslandi til að hafa aðgang að styrktarsjóðum í báðum löndum. Við munum selja myndina sem nýja sýn á klassískt efni, svipað og leikhópar gera allt of oft með Shakespeare. Vonandi verði myndin vinæl á Íslandi en markmiðið er hinn enskumælandi heimur. Andskotinn hafi það, ég er næstum farinn að trúa á verkefnið. Er þetta kannski einhver pæling?

– Allt í lagi, giggið er þitt! hrópar Nornin hæstánægð þegar ég er kominn á fullt að tala um mögulegar útfærslur á brennunni. Hún útskýrir fyrir Syninum að þetta verkefni sé ekki til og ég sé að koma að vinna fyrir leikhópinn þeirra. Hann virðist dálítið sár en jafnar sig fljótt. Mig grunar allt í einu að þetta sé ekki fyrsta svona prufan.

Innra með mér gjósa upp tilfinningar. Fyrst og fremst gleði. Ég er búinn að landa fyrsta alvöru hlutverkinu! LOKSINS!

Það virðist ætla að borga sig að hafa ákveðið að búa áfram í London. Hverju er ég svo sem búinn að fórna? Einu ári til að harka á harðasta leikaramarkaði í heimi. Kannski er ég ekki alvitlaus, kannski mun þetta virka. Árið er að verða búið en hér er sterk vísbending um að þolinmæðin borgi sig og ég sé á réttri leið. Fyrsta hlutverkið er erfiðast, næsta á að vera auðveldara, kannski ég gefi þessu annað ár.

Svo kemur smá tilhlökkun eftir að kynnast þessum stórfurðulega leikhópi og vinna með þeim. Sama hvernig sýningarnar ganga veit ég að úr þessu verða góðar og skemmtilegar sögur. Mig hefur alltaf langað í sýningarferðalag, bara til að prófa ævintýrið.

Að lokum er smákvíði, ég þarf að standa mig í þessu og ná að nýta það sem einhvers konar stökkpall. Það þýðir ekki að landa fyrsta gigginu og klúðra því. Nú er að fara heim og drekka í mig handritið. Ætla að mæta fullkomlega undirbúinn á fyrstu æfingu.

Ég vildi að ég gæti klárað söguna hérna, skælbrosandi í Liverpoolsólinni á leið að skoða Evrópubikarinn á Anfield. Í einhverjum alheimi er útgáfa af mér þar sem þetta gekk upp eins og ég sá fyrir mér. Leikhópurinn reyndist vera óslípaður demantur, sýningin fór um Norður-England og varð upphafið að farsælum ferli á sviðinu í London. Mig langar að hitta þá útgáfu af mér, fá mér bjór með honum og bera saman bækur okkar. Við myndum samt líklega enda á að tala bara um íþróttir og Grant Morrison.

Í mínum raunveruleika heldur sagan áfram. Ég tek lestina heim til London og fljótlega fara rauðu fánarnir að láta á sér kræla. Ekki Liverpoolrauðir fánar heldur eldrauðir viðvörunarfánar.

Ég fæ sent handrit en þau vilja ekki að ég komi á æfingar, ég á bara að mæta undirbúinn á sýningardag. Spes, en ókei, áskorun. Persónan er ekkert ógurlega spennandi, illur hermaður í stríði sem gengur ekki einu sinni af göflunum. Í náminu lék ég ekkert nema vonda kalla, ýmist hermenn, nasista, drauga eða klámmyndaleikstjóra. Ég gæti gert það í svefni, en maður verður víst að þekkja styrkleika sína. Er leikritið gott? Nei, fullkomin meðalmennska, en það er allavega ekki leiðinlegt. Á þessum stað á ferlinum biður maður ekki um meira en það.

Ég fletti hópnum upp á netinu, hefði líklega átt að gera það fyrir prufuna. Þau eru með heimasíðu en það var ekki eitt einasta verk á henni, bara háleit markmið og draumar um framtíðarsýningar. Hæ, viðvörunarbjalla, ertu búin að vera að klingja lengi? Tók bara ekki eftir þér.

Svona atriði hrannast upp. Þau sögðust ætla að borga mér miðana sem ég hafði keypt til Liverpool, það frestast og frestast. Furðulegast af öllu er að þegar ég er í bjór með vinum mínum rekst ég á mann sem hafði búið í smábænum þar sem fyrsta sýningin á að vera. Hann blótar því skítapleisi í sand og ösku, segir mér að forðast staðinn eins og heitan eldinn, þar sé ekki einu sinni pöbba-leikhús. Ég spyr Nornina út í sýningarstaðinn, svarið er loðið.

Sýningardagur breytist, túrnum er frestað og í staðinn gerður að nokkrum sýningum með löngum pásum á milli. Ég ætti að ganga frá borði en langar allt of mikið að þetta gangi upp. Ég ákveð að gefa þessu séns fram að frumsýningu.

Ég segi Norninni að hún þurfi að leggja út fyrir lestarmiðum svo ég komist á frumsýninguna. Hún segir að það sé sjálfsagt að þau borgi miðana, hún muni annaðhvort millifæra á mig eða bara senda mér þá með tölvupósti. Ég minni á að því fyrr sem hún borgi, því betra. Verð á lestarmiðum hækkar þegar nær dregur ferðadegi. Hún segist ætla að ganga frá þessu á morgun. Svo daginn eftir það. Svo daginn fyrir sýninguna. Svo á sýningardag …

Hann rennur upp, ég er búinn að redda mér fríi í vinnunni, sem dýragarðurinn er ekki hrifinn af.

Geturðu þóst vera hissa á að hvorki miðarnir né peningur fyrir þeim barst? Ekkert lengi, bara í smástund, það lætur mér líða betur. Takk.

Þegar ég opna heimabankann að morgni sýningardags sé ég að ekkert fé hefur borist og pósthólfið er tómt. Engir miðar þar.

Ég bókstaflega kýli vegg. Ekki til að vera með töffarastæla, reiðin blossar bara upp og ég verð annað hvort að kasta fartölvunni í gólfið eða slá frá mér. Hljóðið glymur í litla herberginu mínu og sársaukinn er yndislegur. Réttsýn reiði flæðir um mig allan og satt best að segja nýt ég þess að leyfa henni að flæða um mig.

Þau lugu að mér, þau gerðu mig að fífli. Mig langar að öskra á einhvern, taka þetta út á bara einhverjum. Sem betur fer er enginn nálægur.

Ég tek lyklana mína og fer í langan göngutúr, það eina sem mér dettur í hug að gera áður en ég hringi í Dýragarðinn og segist geta tekið aukavakt. Það sýður enn þá á mér daginn eftir þegar ég mæti til vinnu.

Það sem verra er, það berst ekki svo mikið sem tölvupóstur með útskýringu og afsökunarbeiðni. Eftir nokkra daga fer reiðin að beinast inn á við. Það var nóg af viðvörunum, ég hefði aldrei átt að leyfa þessu að ganga svona langt. Hvað var ég að pæla að láta þetta skipta mig svona miklu máli?

Útskýring berst að lokum og hún er kjaftæði. Það tekur á að bæla niður löngunina til að senda fúkyrði til baka. Þegar maður er virkilega reiður og hefur góða ástæðu til, þá langar mann að hella sér yfir einhvern. Skrifa póst eða öskra framan í þann sem braut á manni. Ég bæli þetta viðbragði niður , vitandi að ekkert gott komi af því. Nornin fær aldrei svar frá mér, þótt mér hefði liðið betur við að skrifa það.

Að lokum rennur mér reiðin og ég fer að sjá spaugilegu hliðina. Ég hélt sem sagt í alvöru að kveikjan að farsælum leiklistarferil yrði að ljúga einhverfum gaur á bar í Liverpool. Ég hélt að ég væri sniðugur að geta reddað mér á erfiðasta leikaramarkað Evrópu á engu nema meðalmiklum sjarma. Ég hélt að umboðsmenn væru óþarfir. Ég hélt að ég gæti verið í stanslausu partíi og tækifærin myndu detta í hendurnar mér, þannig er lífið víst ekki. Það eina sem ég hef afrekað síðustu mánuði er að skrifa gagnrýni, rækta yfirdráttinn og byggja upp bjórbumbu.

Ég held að ég hafi aðeins ofmetið sjálfan mig. Kannski væri sniðugast að fara að huga almennilega að heimferð ef ekkert stórt kemur upp á borð. London er og verður frábær en hún er ekki staðurinn fyrir mig.

Á meðan þessar pælingar eru í gangi biður vinkona mig að leikstýra sér í litlum einleik. Hann er stuttur, fyndinn og það er æðislegt að vinna með henni. Hann gæti verið nóg til að réttlæta veru mína í borginni. Verkefnið fer hratt af stað og svo enn þá hraðar ofan í dýpstu skúffu. Þessa í skrifborði Þjóðleikhúss himnaríkis fyrir leiksýningar sem aldrei komast á svið.

Mér fer að líða eins og ég sé á göngu í stórri borg, viti ekki hvert ég stefni. Ég leita að kennileiti en göturnar eru allar litlar og svipaðar og þokan færist í aukana. Það var rétt ákvörðun að vera í þessari borg í ár, sjá hvernig það gengi og finna takmörk sín. Það ár er liðið, næsta ár væru mistökin.

Ég held að það sé kominn tími á að finna leigubíl og fara í hraðbanka þegar ég kem heim, í stóra smábænum við fjörðinn.

Örsögur úr ódýrri íbúð: Burt með þig

Við Bóndinn stígum syngjandi út af ballinu og hefjum markvissa leit að krá til að halda kvöldinu áfram. Hið fyrrnefnda er reyndar góð vísbending um að hið síðarnefnda sé slæm hugmynd, þegar við byrjum að syngja saman var líklega svona klukkutími síðan við hefðum átt að halda heim. En við erum glaðir og leitum að næsta bjór eins og hann sé falinn fjársjóður.

Bóndinn er góður vinur og skólabróðir frá Íslandi. Hann hefur þann eina stóra ókost að verða stundum sveitaballafullur. Þegar hann kemst á það stig er best að syngja með og vona að hann muni ekki móðgast yfir einhverju smáatriði. Það gat haft ýmsar afleiðingar: Reiðöskur, partíslútt eða hnefahögg.

Sú staðreynd að ég er búinn með hálfa brennivín á tóman maga gæti tengst því eitthvað að ég vilji ólmur halda áfram að djamma. Eftir stutta göngu finnum við álitlega krá. Við ákveðum að hún sé fullkomin fyrir einn bjór sem mun líklega enda sem saga. Þú þekkir þá sögu, hún hefst eins og allar bestu djammsögurnar á orðunum: Sko, við ætluðum bara að fá okkur einn en …

Þessi tilvonandi bjór er fjársjóðurinn okkar en í veginum er Dreki. Maðurinn í dyrunum er tveir metrar á hæð, sköllóttur og með vöðvabyggingu sem staðhæfir að hann kæmist ekki í gegnum lyfjapróf. Hann hefur gríðargóð tök á varðhundasvipnum sem allir góðir dyraverðir æfa sig í heima, svipnum sem segir: Ekki fokka í mér, ég kann að komast upp með ýmislegt.

Til þess að hetjan nái í fjársjóðinn þarf hún að ganga óttalaus að Drekanum, sem ég geri. Ég heilsa, hann segir strax að Bóndinn sé of fullur. Ég lýg að við séum að bíða eftir fari og langi bara að fá okkur einn bjór á meðan við bíðum. Ég brosi mínu blíðasta. Bóndinn virðist skilja hvað sé í húfi og verður skyndilega rólegri. Kannski voru það jakkafötin sem við vorum í, kannski var það brosið en Drekinn hleypir okkur inn. Ég verð að lofa að Bóndinn hegði sér, sem ég geri þótt ég eigi að vita betur

Við Bóndinn skerum okkur aðeins úr hópnum á barnum. Viðskiptavinirnir eru unga og svala liðið í London. Þau standa teinrétt, ræða stjórnmál og hagkerfið. Við Bóndinn vorum á balli, þannig að við erum að sjálfsögðu vel klæddir en íslenski hreimurinn passar ekki hér og hvað þá ölvunarstigið. Mér er sama, er kominn með fjársjóð, gullinn bjór í glasi.

Hópur ungra manna tekur eftir mér og biður mig um að vera dómari. Það eru tvö lið í hópnum, bankastarfsmenn og lögfræðingar. Þeir eru að rífast um hvor stéttin lendir í ósanngjarnari umfjöllun. Ég segi lögfræðingar, þar sem bankamenn hafi valdið bankahruninu sé slæma umtalið um þá verðskuldað. Ég býst við að vera rekinn á brott en þeim finnst þessi óviðeigandi hreinskilni fyndin og við byrjum fljótlega að ræða fótbolta. Stóri kosturinn við boltann er að hægt er að ræða hann við alla sem hafa áhuga á honum, sama hvort það er pólskur rútubílstjóri, breskur lögfræðingur eða brasilískur listamaður. Enski boltinn jafnar alla í samtali.

Eftir að fjársjóðnum er náð er viðeigandi að leita sér að prinsessu. Ég kveð nýju vinina og gef mig á tal við stelpu. Ég tek eftir að Bóndinn er líka að eignast nýja vini. Þetta var á því ömurlega tímabili þegar ég hélt að lykillinn að velgengni með kvenfólki væri gervisjálfstraust og hroki. Ég segi brandara um eigin snilli, stríði henni og læt almennt eins og ég sé guðs gjöf til kvenna.

Nema þetta kvöld er sjálfstraustið ekta, enda knúið áfram af því að hafa sigrað Drekann og unnið jakkafatamennina á mitt band. Kannski fannst henni ég bara sætur, kannski náði ég að hitta á einhverja töfrabrandara en við erum fljótt farin að hlæja saman. Ég lýg því að síminn minn sé týndur og fæ hana til að hringja í mig og þykist sigri hrósandi yfir að hafa náð númerinu hennar. Eins og slíkt sé einhver sigur og ekki tvær manneskjur að ákveða að þær vilji kynnast betur.

Ég er farinn að sjá fyrir mér stefnumót þegar ég heyri skarkala. Bóndinn og einhver Breti eru komnir í öskurrifrildi, með hnefunum. Í ljós kemur að ekki allir eru jafn tilbúnir í sveitaballadrykkjuna hans. Ég blóta, legg frá mér bjórinn og stekk á milli þeirra, gríp um hálsmálið á Bóndanum og ýti honum frá. Svo sný ég mér að hinum gaurnum og af einhverri ástæðu bendi ég mjög fast á hann.

Það er svo óvænt að hann dettur úr hamnum. En skaðinn er skeður. Ég sé Drekann koma hlaupandi. Ég á allt eins von á að hann grípi okkur báða og ég fái loksins að upplifa að vera bókstaflega kastað út. Sem hefði verið skemmtilegra en það sem gerðist.

Í stað þess að grípa til teiknimyndaofbeldis horfir hann beint á mig. Manstu þegar þú gerðir eitthvað ömurlegt í æsku og hélst að kennarinn yrði brjálaður en í staðinn hristi hann bara höfuðið og sagði að þú yllir honum vonbrigðum. Það var svipurinn. Tveggja metra hái Drekinn er raunverulega sár á svipinn þegar hann sér að ég hef svikið loforðið og mér líður eins og skíthæl.

Ég bíð ekki boðanna, þótt ég hafi svikið Drekann ætla ég ekki að gera vinnuna hans erfiðari.  Ég dreg Bóndann út. Stelpan hristir höfuðið í átt að mér. Drekinn rekur á eftir okkur. Bóndinn, eins og oft þegar hann gerði eitthvað svona, er reiðari út í sjálfan sig en nokkurn annan. Við Bóndinn komum okkur heim og ég hugsa leiður um stefnumótið sem ekki verður og fjársjóðinn sem stendur enn þá ódrukkinn á borðinu.

Örsögur úr ódýrri íbúð: Grasið græna

Undir venjulegum kringumstæðum myndi sjóða á mér þegar manneskjan á undan mér eyðir hálfri ævi í að velja á milli Big Mac og Big Mac með osti. En við Spaðinn erum hvort eð er nýbúnir að missa af lestinni og þar að auki var sýningin sem við vorum á frábær þannig að skapið helst gott.

Við erum staddir á Waterloo-lestarstöðinni, nýkomnir af einum besta einleik sem ég hef séð. Við erum glorsoltnir og pínu drukknir. Við þessar aðstæður er lestarstöðva-McDonalds ekki bara viðeigandi, hann er skylda.

 McDonalds-staðirnir á lestarstöðvum í London er allir svipaðir, sérstaklega eftir klukkan tíu á kvöldin þegar hópar af djammklæddu fólki á leið heim mætir til að gera síðustu mistök kvöldsins. Þeir hafa samt hver sín einkenni. Þessi hjá Kings Cross verður svo troðinn að þeir loka salnum klukkan tíu og þú verður að skófla í þig matnum fyrir utan, á meðan þú dáist að því hversu léttklæddir Englendingar geta verið í næturkuldanum. Þessi hjá Charring Cross er svo stór að maður fær víðáttubrjálæði og getur ekki annað en tekið eftir að fólkið í kringum mann er klætt í jakkaföt, nýkomið úr partíi hjá einhverjum banka. Það er eitthvað við bæði jakkaföt og eldra fólk á McDonalds, maður fyllist depurð við að sjá það. Eins og að horfa á glæsilegan örn borða rusl.

Waterloo-staðurinn er pínulítill, til þess að finna sæti þarf maður að ráðast á þau eins og rándýr og vera undir það búinn að miðaldra kona á fimmta prosseco-glasi haldi langa ræðu um virðingarleysi yngri kynslóðarinnar. Samúð er mistök við þessar aðstæður.

Við Spaðinn pöntum fjöldaframleidda hamborgara og laukhringi og stökkvum á laus sæti. Við hlið okkar er maður sem passar ekki alveg inn á staðinn á þessari stundu. Hann er til dæmis augljóslega edrú. Við Spaðinn ræðum sýninguna og síðan mögulega áheyrnaprufu, eða öllu heldur skortinn á þeim. Eftir smá stund spyr gaurinn um hvern fjandann við séum að tala. Við útskýrum að við séum leikarar á milli gigga, vinnum fyrir okkur með því að þjóna í dýragarði og séum að reyna að búa til sjálfstæðar sýningar. Svarið hans er óvænt.

– Vá. Þvílíkt snilldarlíf.

Hann segist vinna á auglýsingastofu, mæti á hverjum degi um átta og vinni allt of mikið.

– Eins og við? Nema með betra kaup?

– Já, en ég fæ ekki einu sinni að láta mig dreyma um það ókomna, þið eruð allavega að skemmta ykkur í kvöld.

Svo snýr hann sér aftur að borgaranum, klárar hann í tveimur risavöxnum bitum og lætur sig hverfa. Spaðinn brýtur ísinn.

– Var hann … öfundsjúkur … út í okkur?

Í stað þess að svara ákveð ég að einbeitta mér að laukhring. Ég er ekki beint að njóta London í botn og sú tilhugsun að fullorðinn maður í fastri vinnu sjái það sem við erum að gera sem betri kost en sitt líf er of mikið. Sérstaklega þar sem McDonalds með vini eftir leiksýningu er hápunktur mánaðarins hjá mér.

Örsögur úr ódýrri íbúð: Dýralíf II – Tvær plánetur

20! stendur á þriggja metra háa rósakransinum og mig langar að skella upp úr, en það væri líklega ekki fagmennska. Þessi listgjörningur er það ljótasta sem ég hef séð og það sem verra er, móðir eigandans er að rifna úr stolti á meðan kransinn er afhjúpaður. Fyrir henni var þetta hápunktur kvöldsins, hún geislar af móðurást og ég skammast mín hálfpartinn fyrir að hlæja að henni. Það er tvítugsafmæli í dýragarðinum, fyrir tvö hundruð manna nemendahóp úr Oxford.

Þegar ég varð tvítugur fóru foreldrar mínir til Hvergerðis og vinir mínir þöktu stofugólfið heima hjá mér með bíópoppi. Þegar þessi gaur varð tvítugur leigði pabbi hans stóra salinn í dýragarðinum (5000 pund), bauð 200 krökkum úr Oxford að mæta í jakkafötum og Arsenal-rauðu í þriggja rétta máltíð (150 pund á haus) og pantaði opinn bar (sem endaði í 7000 punda reikningi). Það voru ekki krakkarnir sem báðu um meira áfengi, gamli var kominn vel í glas löngu fyrir miðnætti og fannst ekkert tiltökumál að hækka drykkjareikninginn nokkrum sinnum.

Það svíður smá að sjá krakka um tvítugt brenna árslaunum þínum í partí. Það er ekki að ég haldi að líf þeirra sé endilega betra en mitt. Líkurnar á að allavega einn þarna endi sem breskur þingmaður eru nánast 100%, en líka líkurnar á að nokkur þeirra upplifi ljóta skilnaði, einhver verði alki, einhver misnoti tækifærið sem Oxford býður og endi miðaldra og bitur. Það er samt erfitt að hafa svoleiðis samhengi í huga þegar þú horfir á skólakrakka skemmta sér konunglega og þú mátt bara brosa og rétta næsta bjór.

– Hvert eru þessir að fara? spyr Spaðinn, sem var nýbyrjaður að vinna á staðnum og bendir mér á tvo stráka sem eru komnir úr salnum og út í garðinn.

– Í átt að mörgæsunum, segi ég og hleyp af stað eins og hasarmyndastjarna. Dýragarðurinn umbar veisluþjónustuna af því að tekjurnar af henni voru fáránlegar en það var algjört skilyrði að dýrin væru ekki trufluð. Næturverðirnir áttu að slútta veislum ef þeir mátu að partíið hefði áhrif á dýrin og þurftu ekki að útskýra slíka ákvörðun.

Þegar ég næ strákunum eru þeir komnir hálfa leið upp grindverkið hjá fiðurfénu og ég öskra á þá að drulla sér niður. Þetta eru líka mörgæsirnar! Hvers konar skrímsli ætlar að eyðileggja nætursvefninn þeirra?

– Fyrirgefðu, segir annar þeirra, við ætluðum að finna tígrisdýrin.

Ég hefði mögulega leyft þeim að klifra þar inn. Sumt er svo vitlaust að maður verður bara að leyfa náttúrunni að sjá um sitt. Ég er að grínast! Held ég.

Það er önnur veisla í gangi hinum megin í garðinum og það var víst búið að biðja mig að sækja glös þangað. Dýragarðurinn er yndislegur á nóttunni. Stöku fugl starir á mig úr búri en annars eru jafnt Simbi, Tímon og Púmba sofandi. Svona friður var sjaldgæfur í stórborginni. Það er sumt sem þú fattar ekki að þú munir sakna þegar þú flytur frá Hafnarfirði til London, til dæmis friðsemdar.

Þegar ég geng hjá tígrisdýrabúrinu bið ég tignarlegar skepnurnar afsökunar á að hafa haft af þeim máltíð, þau hrjóta bara áfram.

Hin veislan gæti ekki verið ólíkari tvítugsafmælinu. Pínulítið og sætt brúðkaup þar sem brúðhjónin eru klædd í strigaskó og salurinn var það eina sem þau áttu fyrir. Þau eru ekki einu sinni með opinn bar, sem þau hálfskammast sín fyrir, þau borguðu meira að segja fyrir eigin drykki á barnum. Veislustjórinn sýnir mér vagninn sem ég á að fara með og réttir mér staup. Við skálum fyrir kvöldinu og verðum vandræðalegir þegar við sjáum að brúðgauminn starir á okkur.

– Eruð þið að taka skot? spyr hann og við reynum að neita.

– Ég ætla að fá átta sambuca-skot, segir hann svo. Við hellum í þau í hvelli. Okkur að óvörum kallar hann í hina þjónana og heimtar að við tökum skot með sér.

– Í dag er besti dagur lífs míns, segir hann, takk fyrir að vera hluti af honum, skál!

Við tökum skotin og ég ýti kerrunni til baka, örlítið meyr. Þegar ég er hálfnaður aftur í Oxford-partíið rifjast upp að við gleymdum að rukka brúðgumann, það var alveg óvart. Alveg gjörsamlega óvart. 

Ég kem með kerruna inn í eldhús og Uppvaskarinn öskrar á mig að raða rétt og vera ekki svona seinn. Ég brosi bara. Uppvaskarinn er einstaklega leiðinlegur maður en hefur þann stóra kost að vera með dugnað manns sem heldur uppi stórri fjölskyldu í heimalandinu. Hann á reyndar til að öskra á þjóna, sérstaklega þá sem voru hjá okkur tímabundið, og svo mætti hann oft í vinnu eldsnemma á frídegi, stimplaði sig inn og fékk einhvern félaga til að stimpla sig út um kvöldið. Þetta komst upp þegar launadeildin sendi ábendingu um að einn í uppvaskinu hefði fengið meira útborgað en yfirkokkurinn. En yfirkokkurinn vildi ekki heyra á það minnst að reka besta starfskraftinn sinn. Ég hef kokkinn grunaðan um að finnast þetta fyndið.

Kvöldið er að klárast þegar ég finn sofandi par við lyftuna á starfsmannaganginum. Ég íhuga að skilja þau eftir en hef bara ekki þann kvikindisskap í mér. Ég vek þau með því að hósta hátt, þau hrökkva á fætur og rölta á brott.

Þegar lyftan opnast verður parið í henni töluvert vandræðalegra, hann er búinn að hneppa frá skyrtunni og hún er að leika það eftir. Hann sendir mér vongott augnaráð um hvort ég geti hundsað þetta, ég segi annars hugar:

– Jæja …

Þau klæða sig í hvelli og ég tek eftir að þau kveðja engan á leiðinni að útidyrahurðinni. Voru líklega með önnur plön fyrir eftirpartí.

Við útskýrum að lokum fyrir pabbanum að það þurfi slútta. Hann skilur ekki alveg og býðst til að borga laun starfsmanna áfram. Við bendum á að bjórinn sé að verða búinn, hann kaupir restina og nokkur skot, sem ég skrifa samviskusamlega á reikninginn. Spaðinn stingur síðasta símanúmerinu sem hann fékk í vasann og við höldum heim til okkar.

Vekjaraklukkan vekur mig allt of snemma daginn eftir. Í einhverjum hálfvitaskap, nú eða peningagræðgi, hafði ég samþykkt að mæta til vinnu klukkan tíu til að sjá um barnaafmæli. Ég mun elska börnin mín en ég efa að ég muni skilja að sumu fólki finnist nauðsynlegt að eyða milljón íslenskra króna í afmæli fyrir ómálga barn. Það læðist að mér grunur að það verði jakkaföt og opinn bar í tvítugsafmæli þessa barns líka.

Mér leiðist reyndar ekki að spjalla við leikkonurnar þrjár sem eru mættar í prinsessubúningi. Við getum tuðað endalaust yfir því hversu langt frá draumum okkar þessi dagur er. Ég veit ekki hvað ég væri að gera ef ég hefði farið strax heim til Íslands en mig grunar að ég væri ekki að vinna í barnaafmæli fyrir slikk.

Feðgarnir mæta svo upp úr hádegi, gegnsæir af þynnku báðir tveir. Móðirin hafði ekki tekið í mál að fína þriggja metra blómakransinum yrði hent svo þeir voru sendir að sækja hann.

Ég spyr hvernig þeir hafi það, þeir muldra óljósar óskir um svefn eða afréttara. Þótt þeir séu svona moldríkir fá þeir samt ekki að sofa almennilega út, greyin.

Örsögur úr ódýrri íbúð: Gagnrýnandinn

Síðasta árið í London fékk ég vinnu sem leikhúsgagnrýnandi fyrir litla vefsíðu. Starfið var ekki borgað en ég fékk að fara frítt í leikhús í það minnsta vikulega og sá fjöldann allan af sýningum sem mér hefði aldrei dottið í hug að fara á. Líkurnar á að ég hefði borgað fimmtán þúsund krónur til að sjá Michael Jackson söngleikinn eru nákvæmlega engar, hvað þá að ég myndi fara ítrekað á danssýningar í hæsta gæðaflokki eða eytt hverju kvöldi í heila viku í földu leikhúsi undir lestarstöð.

Eftir langan dag í dýragarðinum er ég á leið í pöbbaleikhús og veit ekkert hvaða sýningu ég er að fara á, man varla nafnið á henni. Ég er bæði þreyttur og sveittur eftir daginn. Föt til skiptanna gleymdust svo ég er klæddur í leðurjakkann minn, þvala skyrtu og alltof stórar jakkafatabuxur sem voru skylda í veisluþjónustunni. Stærðin var ekki skilyrði, ég kann bara ekki að versla föt. Á tánum eru stórir, ónýtir Air Max, hárið er komið í rugl.

Ég sest niður með bjór, eftir að hafa uppgötvað að vinkona mín er að sviðsstýra. Hún býðst til að kynna mig fyrir leikstjóranum eftir sýningu og ég hlakka til. Ljósin slokkna. Leikkonan stígur á svið og í ljós kemur að sýningin fjallar um heimilislausa stúlku sem vingast við efristéttar strák sem á daglega leið hjá henni á leið í skólann. Sýningin er hjartnæm og fyndin, ég er hrifinn af henni (og leikkonunni).

Svo kemur fyrsta atriðið þar sem hún talar beint við áhorfendur. Nánar til tekið betlar hún af þeim. Allir sem hafa komið til stórborgar þekkja óþægindatilfinninguna þegar ókunnugur reyna að sníkja nokkrar þarfar krónur. Það er ógeðslega ljótt en langflestir, ég sjálfur þar með talinn, setja upp ósýnilegan skjöld ef einhver betlar af þeim.

Ég bregst við betli á sviði á sama hátt og á götunni, hristi höfuðið ákveðið. Nema ég get ekki gengið í burtu og hún starir í augun á mér þangað til samviskubitið er orðið yfirþyrmandi. Ég gef mig ekki og hún leikur vel að vera í uppnámi. Hún snýr sér loks að næsta manni, ég er mjög fegin. Maðurinn er mjög almennilegur en neitar að gefa henni fé. Þá segir hún:

– Ekkert mál, þú ert allavega kurteis. Ólíkt sumum, bætir hún við og horfir hvasst á mig. Ég skælbrosi og áhorfendur hlæja vandræðalega. Sumum finnst ekkert óþægilegra en þegar leikarar ávarpa þá, mér finnst það frábært. Tengist mögulegri athyglissýki og löngun til að vera sviðinu ekki neitt, ég lofa.

Sýningin heldur áfram, strákurinn og stelpan kynnast betur og þegar sýningin fer aftur af stað eftir hlé eru þau að fylgjast með Lundúnabúum ganga framhjá. Það er útfært á skemmtilegan hátt, með því að þau benda á fólk í salnum og segja eitthvað um það. Ég veit ekki hvort leikarinn var að fylgjast með fyrir hlé en hann bendir á mig og segir:

– Þessi lítur út fyrir að vera á leið á stefnumót.

Leikkonan sér á hvern hann er að benda og leiðréttir: 

– Nei, hann lítur út eins og hann sé á leið að láta dömpa sér.

Mér finnst eins og hún sé að mana mig í að vera ósáttur, en ég spring úr hlátri.

Sýningin klárast og ég klappa, ákveðinn í að skrifa jákvæðan dóm um sýninguna. Vinkona mín kynnir mig fyrir leikstjóranum. Hann segir að leikkonan hafi aldrei gengið jafn langt í að hrauna yfir áhorfanda. Áður en ég næ að svara spyr hann mig hvernig ég hafi frétt af sýningunni.

Ég set upp sakleysisbrosið og segi:

– Ég? Ég er gagnrýnandinn.

Örsögur úr ódýrri íbúð: Heimferðin endalausa

01:00: Vaktinni og eftir-vaktar-drykknum er lokið. Í bakpokann fer slatti af bjór, ég skipti um föt og læsi skápnum með lykli. Það væri hræðilegt ef vafasamur aðili stæli fimmtán hundruð króna Primark-skónum úr honum.

01:10: Ég tékka hvort ég sé ekki örugglega með símann og veskið, kveð og stíg upp í leigubílinn sem mun skutla mér að strætóstöðinni. Vinnan borgar leigubíl mestalla leið heim en ég þarf að taka næturstrætó síðasta spölinn. Leigubílstjórinn hneykslast á því að ég vinni svona langt frá heimilinu, segir nautheimskt að eyða svona miklum tíma í samgöngur. Sumu er erfitt að mótmæla.

02:10: Hann skilur mig eftir á röngum stað. Annar næturstrætó bætist við ferð sem var of löng fyrir. Biðin er sem betur fer í styttri kantinum, ekki nema tuttugu mínútur. Ef þú þekkir næturstrætó London veistu að það er kraftaverk.

02:30: Um borð í fyrri strætónum er drukkinn, miðaldra rastafari að reyna við glæsilega, ljóshærða konu. Ég segi reyna við, ég meina áreita. Einhver ætti að vera góður gaur og losa hana við hann. Ætlar í alvöru enginn að segja neitt? Ég geri það þá. Það eina sem mér dettur í hug er að hefja samtal við hana á íslensku til að rugla gaurinn. Hún fattar strax og svarar mér á máli sem er enn þá skrýtnara en mitt eigið. Við tölum saman hvort á sínu málinu þangað til rastafarinn gefst upp og fer að tala við mann nær honum í aldri og kyni.

02:35: Við stelpan skiptum yfir í ensku, hún segist vera lettnesk. Ég spyr hana brosandi hvers vegna hún hafi hafnað svo álitlitlegum manni svo hún fer yfir hans helstu kosti. Talar sérstaklega um þessa fallegu blöndu af svita og graslykt sem stóð af honum og að hann hafi verið nær afa hennar en pabba í aldri, þvílíkur draumprins.

02:45: Við kveðjumst brosandi, mér dettur í hug að spyrja um númerið hennar en hún er stigin út áður en ég næ því. Rastafarinn lítur á mig, skilur ekkert og að lokum öskrar hann með nánást óskiljanlegum jamæskum hreimi:

– The fuck is wrong with you, mate!? She was looking for A BLOODCLOT HUSBAND.

Hann er hreinlega móðgaður, hrópar að ég muni deyja einn, að ég kunni ekki að nýta tækfæri og að ég sé karlkyninu til skammar. Þegar hann er farinn að útlista hvernig allar konur séu að leita að eiginmanni, hvort sem þær viðurkenni það eða ekki, horfi ég beint í augun á honum og set á mig heyrnartól. Það hægir ekki einu sinni á honum og ég heyri hann tuða í gegnum tónlistina þangað til ég slepp út úr vagninum. Ég er vitlaus, en ekki nógu vitlaus til að hlusta á þennan gæja.

03:00: Ég er kominn á rétta strætóstöð, bara einn vagn enn. Ég sest upp á vegg og sötra bjór á meðan ég bíð. Mér er virkilega mál að pissa en það eru aðeins of margir á ferli til að bregða sér á bak við tré. Hópur sótölvaðra enskra stelpna gengur framhjá. Ein þeirra klórar mér á hausnum, segist elska ljóst hár. Ég er of hissa til að svara með einhverju sniðugra en að ég sé íslenskur. Þær eru hrifnar af þeirri staðreynd en halda áfram göngunni. Þegar þær eru næstum komnar fyrir hornið hvíslar vinkona drukknu stelpunnar í áttina að mér …

– Threesome?

Freistandi en ég er of þreyttur og ekki alveg nógu vitlaus til slást í för með þeim. Mín önnur stóru mistök þessa nótt. Ég veit ekki ennþá af þeim fyrstu. Vagninn minn birtist, þetta er næstum komið.

03:15-03:30: Ipodinn minn er batteríslaus, ég þarf virkilega að pissa og það er fólk að hætta saman í næstu sætaröð. Þau gráta bæði og játa syndir sínar  á milli þess sem þau hrauna yfir hvort annað. Mig langar smá að snúa mér við og öskra á þau að vera þakklát fyrir að hafa fundið einhvern, sumir hafi ekkert til að hlakka til við heimkomu nema kodda. Ég stilli mig. Ég er farinn að sjá fyrir endann á ferðinni svo ég opna síðasta bjórinn. Það væri kannski skynsamlegra að geyma hann, svona fyrst mér er mál að pissa, en nei, svo sniðugur er ég ekki.

03:35: Frá síðustu stoppistöð og heim er tíu mínútna labb. Ég sé koddann í hillingum. Síðasti bjórinn reyndist, alveg óvænt, vera mistök og þrýstingurinn í þvagblöðrunni er orðinn óbærilegur. Ég er hræddur um að pissa á mig svo ég teygi mig eftir lyklunum og eyk gönguhraðann.

03:36: Lyklarnir eru í dýragarðinum. Mín fyrstu stóru mistök voru sem sagt að skilja þá eftir í vinnunni. Fokk.

03:37: Þrýstingurinn er kominn yfir hættumörk og ég get varla hugsað fyrir sársauka.

03:38: Refur fylgist með mér merkja svæðið mitt í nálægum almenningsgarði. Ég er ekki stoltur af því sem ég er að gera en finnst eins og hann skilji mig.

03:40: Góðu fréttirnar eru að það er ekki búið að laga lásinn að stigaganginum svo ég er allavega ekki fastur úti á götu. Slæmu fréttirnar eru að fjórtán tíma vinnudagurinn og bjórinn er farinn að segja til sín, augnlokin síga ískyggilega. Enn verri fréttir eru að meðleigjendurnir voru á svakalegu djammi svo að líkurnar á að þau vakni við bank eru engar. Næstu klukkutíma ber ég á hurðina, hringi í alla ítrekað, heimsæki refinn aftur, reyni svaladyrnar, endurhugsa líf mitt, hræði líftóruna úr nágranna mínum sem er að koma heim af djamminu og uppgötvar mig hálfsofandi í stigaganginum, sendi sms og skilaboð á Facebook.

06:45: Lestirnar eru loksins byrjaðar að ganga og það er nánast runnið af mér. En lestir ganga hægt og sjaldan á sunnudagsmorgnum. Líklega vegna þess að enginn heilvita maður er á ferðinni í London fyrir hádegi á sunnudegi. Flestir sem eru á ferðinni eru hamingjusamt, hresst fólk sem brosir og er ekki grátt af ölvun. Djammviskubit án þess að hafa farið á djamm er mér ný tilfinning. Þegar ég sé spegilmynd mína í glugga bregður mér, ég er fölur, með dökka bauga, skyrtan er þvöl og hárið stendur í átta mismunandi áttir.

08:00: Gæinn í móttökunni í dýragarðinum hlær að mér þegar hann sér mig. Lyklarnir eru nákvæmlega þar sem ég skildi þá eftir, í lásnum á skápnum. Ég ríf þá úr og nenni ekki að athuga hvort Primark-skórnir séu á sínum stað.

10:00: Koddinn tekur á móti mér, ég gæti grátið af gleði. Ég sofna á hálfri sekúndu.

10:05: Meðleigjandi vekur mig.

– Ingimar, hvað gerðist? Var að sjá allt frá þér á símanum.

Hún er í smá sjokki og ég er varla með meðvitund. Ég safna allri orku sem ég á eftir og svara. Ég man skýrt eftir að hafa sagt: Segi þér það á eftir, leyfðu mér að sofa. En ég hef áreiðanlegar heimildir fyrir að ég hafi í raun sagt: SGfgre þr þá erir lfu mr ð ofa.

Örsögur úr ódýrri íbúð – Beðmál í bænum – Blindur fær sýn

Allir ættu að eiga vin eins og Æskuvininn, sem flestir gera reyndar því hann virðist þekkja alla. Mögulega var það þess vegna sem hann var í smábasli þegar hann flutti til London, fyrir gæja sem var vanur að vera með risavaxið félagslegt net var skrýtið að flytja til borgar þar sem hann þekkti engan nema mig.

Það var gott að fá gamlan vin til London, ég hjálpaði eins og hægt var, benti honum á mögulegt vesen í breska kerfinu og bauð honum á djömm með vinum mínum til að hann kynntist nýju fólki. Þetta föstudagskvöld er slíkt á dagskrá: Nokkrir vinir, góður bar og ef þér finnst það ekki bara fínasta plan er ég ekki viss um að við getum skilið hvor annan.

Kvöldið fer rólega af stað. Hittingurinn er heima hjá Skáldkonunni, í hverfinu Greenwich. Við Æskuvinurinn mætum til hennar og fljótt verður ljóst að þeim leiðist ekki hvort annað. Gott og blessað. Svo kemur vinahópur Skáldkonunar á staðinn og ég tek eftir að vinkona hennar, Dísin, er í hópnum. Mér leiðist hún ekki.

Ég hafði fyrst tekið eftir Dísinni í upphafi skólagöngunar. Hún var brjálæðislega snjöll, kraftmikil og afskaplega sæt. Ég hafði fyrir löngu ákveðið að hún væri alltof nett til að ég ætti séns í hana. Félagar mínir voru pirrandi sammála mér.

Það líður á kvöldið og við gerum okkur ferð á nálægan bar. Staðurinn er fullur af drukknum Írum í sjóræningjabúningum. Þetta hefði kannski verið eðlilegt í Greenwich árið 1716, en 2014 vakti þetta furðu. Sumir þeirra syngja og dansa en flestir virðast ekki vera í partístuði. Milli bjóra spyr ég einn þeirra hver fjandinn sé í gangi.

– Vinur okkar dó nýlega. Hér var steggjunin hans og við ætlum að koma hingað árlega til að heiðra minningu hans. Þessi grátandi í horninu er ekkjan hans.

Ég votta þeim samúð og forðast sjóræningjana það sem eftir er kvöldsins. Þetta er mjög fallegt en ekki stuðið sem ég er að leita að. Við eitt borðið eru Æskuvinurinn og Skáldkonan komin á trúnó en þegar þau taka eftir að ég er einn kalla þau á mig. Dísin sest hjá okkur og við hlæjum saman að vinkonu okkar sem er að kynnast einum sjóræningjanum, mjög náið. Þetta sem þú ert að hugsa er á réttri leið en ekki nógu gróft.

Barinn lokar og við höldum heim til Skáldkonunar eftir stutta leit að stelpunni með sjóræningjanum. Hún fannst daginn eftir, í góðu stuði með ögn særða sjálfsvirðingu en fína sögu að segja. Við erum núna bara fjögur, súpandi rauðvín og borðandi eitthvað sem engum hefði dottið í hug að elda edrú. Frábær félagsskapur og yndisleg samtöl, hvað gæti farið úrskeiðis?

Ég er farinn að hugsa til heimferðar, sérstaklega þar sem ég er ekki með linsubox á mér og er farið að svíða ögn í augun. Ég er nýbyrjaður að ganga með linsur og ekki búinn að venjast þeim. Þar að auki voru þær drulludýrar og ég þurfti að koma þeim í vökva, annars myndu þær skemmast.

En við Dísin höldum áfram að spjalla, um Mad Max, feminisma og sambandið sem hún var að hætta í. Við hlæjum að öllu hvort hjá öðru og skoðanir hennar eru sterkar, skýrar og áhugaverðar. Eitt andartak dettur mér í hug að hún sé að daðra en ég er fljótur að kæfa þá hugsun. Hún er alltof of kúl fyrir mig.

Að lokum fer ég og held í átt að strætóstöðinni. Æskuvinurinn ætlar að gista. Ekki mínútu eftir að ég kveð fæ ég sms frá honum: Vá þú ert blindur. Ég íhuga að snúa við en þrjóskan, kannski með votti af skömm, tekur yfir. Ég ætla að sofa í eigin rúmi í kvöld.

Eftir hálftímalabb þar sem ég blóta sjálfum mér nær linnulaust uppgötva ég að næturstrætó ætti að vera kallaður síðla-kvölds strætó. Helvítið er hætt að ganga. Það væri möguleiki að ganga heim, en nei annars, svoleiðis mistök geri ég ekki aftur.

Þegar ég kem aftur til Skáldkonunar hlæja þau öll að mér, mikið og verðskuldað. Ég reyni að finna aftur stundina með Dísinni en hún er skiljanlega ekki alveg jafn til eftir eina klunnalega höfnun. Linsurnar enda í skotglasi og ég á sófanum, einn og pirraður út í sjálfan mig.

Daginn eftir gerum við Æskuvinurinn okkur klára í heimför á meðan stelpurnar spjalla. Linsurnar eru búnar að þorna í skotglasinu en mig minnir að sjóðandi vatni dugi til að hreinsa þær. Ég er þunnur og ekki alveg að pæla, þannig að rétt áður en við förum sýð ég vatn í hraðsuðukatli, kem annarri linsunni fyrir í lófanum á mér og helli smá vatni á hana. Sérðu gallann við þetta?

Sjóðandi vatnið er alveg sjóðandi heitt og ég öskra af sársauka. Ég skelli hendinni undir kalt vatn og finn sex augu borast í bakið á mér. Mér til varnar þá … nei veistu, ég ætla ekki einu sinni að reyna. Ég veit hversu vitlaus ég er þegar Æskuvinurinn gerir ekki einu sinni grín að því. Skáldkonan og Dísin hrista bara höfuðið. Öll eru þau kjaftstopp yfir þessu og ég óska einskis heitar en að jörðin gleypi mig. Brunablaðran í lófanum var lengi að gróa en svo kurteis að skilja ekki eftir ör.

Örsögur úr ódýrri íbúð: Dýralíf I – Apaspil

Það var skyndiákvörðun að búa áfram í London. Ég var ekki búinn að skipuleggja neitt mánuði fyrir útskrift. Allt í einu fannst mér eins og ég þyrfti að sanna eitthvað í borginni, eins og ég yrði að gera tilraun til að meika það fyrir heimferð. Annars væri að eilífu þessi óþolandi spurning: Hvað ef?

Einhver skynsemisrödd hvíslaði að þetta væri kannski ekki ákvörðun til að taka í flýti, alveg laus við sparifé, ekki með umboðsmann og þar að auki ekki í vinnu. Ég sagði þeirri rödd að þetta myndi reddast, yrði smá hark til að byrja með en þannig væri það hjá öllum leikurum. Ég taldi mig líka hafa svo frábæran skilning á bransanum að ég gæti nælt í hlutverk fljótlega, með eða án umboðsmanns.

Að vinna hjá leigumiðlun fyrir þjóna var kannski ekki það sem ég sá fyrir mér, hvað þá að fara þaðan í Dýragarðinn. Ekki sem sýningargripur heldur starfsmaður í veisluþjónustunni. Starfsfólkið var skemmtilegt og launin nokkrum prósentum yfir lágmarkslaunum. Stóri gallinn var staðsetningin, lestarferðirnar í og úr vinnu tóku lágmark klukkutími hvora leið. Ég komst í gegnum margar bækur í illa loftræstum, troðnum lestarvögnum.

Vinnudagarnir í dýragarðinum voru auðveldir en oftast langir og einhæfir. Það besta við að vinna þarna var fríi bjórinn í lok kvöldvaktar og að sjálfsögðu að umgangast dýrin. Allt frá sjaldgæfum fiðrildum til tignarlegra tígrisdýra og uppáhaldanna minna: hressra mörgæsa sem ég fékk því miður aldrei að kasta.

Þetta kvöld er árshátíð dýragarðsvarðanna. Dags daglega er þetta rólegt fólk, manneskjur sem er svo annt um velferð dýra að þau gera hana að ævistarfi sínu, vilja helst bara vera í kringum dýr og hjálpa þeim að eiga sem best líf.  En núna eru verðirnir að tínast inn úr fyrirpartíum og eru búnir að fá sér fordrykk(i). Líklega gleymdu flestir að fá sér mat áður en drykkjan hófst. Ölvunin er allavega að nálgast stig slæmrar Þjóðhátíðar á methraða.

Það er leiðindahlutverk en einhver þarf að vera sá drukknasti á staðnum. Gullfalleg stelpa í rauðum kjól hefur tekið það að sér. Hún labbar engan vegin þráðbeint að barborðinu sem ég stend við. Þrisvar sinnum er hún næstum búin að hrasa, ég geri mig tilbúinn að stökkva til og hjálpa henni á fætur eins og sannur herramaður. En hún nær að klára gönguna að barnum. Í stað þess að teygja sig eftir bjór, teygir hún sig yfir borðið og grípur um axlirnar á mér.

Hún starir í augun á mér, það er skemmtileg sjón. Svo ropar hún hátt og hikstar því upp að hún hafi sprengt glas. Ég tek eftir að önnur höndin er rauðari en kjóllinn. Við að segja þetta er eins og það losni um stíflu, hún tárast og hrópar á mig að hjálpa sér. Ég bendi henni að koma á bak við barinn, þríf til sjúkratösku en er umsvifalaust rekinn burt af samstarfsmönnum. Það er meira en nóg að gera á bak við barinn og ekki pláss fyrir tilraun til riddaramennsku.

Við finnum stað og ég þurrka af hendinni. Í ljós kemur að skurðurinn er varla sentimetri á lengd og rauði vökvinn er húsvínið. Hún þakkar mér hvað eftir annað á meðan. Ég set plástur á sárið, hún biður mig að kyssa á bágtið. Ég veit ekki hvort það er í mínum verkahring en ég læt mig hafa það og segi henni að það sé í lagi með hana.

Orð geta gert ótrúlegustu hluti, við að heyra mig segja þetta kemur partíandinn aftur yfir hana. Hún hleypur út á dansgólf og heldur áfram að skemmta sér. Ég fer aftur að sinna vinnunni. Félagarnir segjast sífellt vera sárþjáðir og biðja riddarann að kyssa ímynduð svöðusár. Mér er sama, aldrei þessu vant líður mér eins og ég hafi gert góðverk.

Meðan á þessu stendur er partíið virkilega að fara úr böndunum. Ein af köngulóarkonunum er víst fyrrverandi mannsins sem sér um lamadýrin og hann er byrjaður með einni stelpunni sem sér um apana. Köngulóarkonunni finnst viðeigandi svar að berja apastelpuna, í andlitið, með rauðvínsglasi. Ég hvet þig til að lesa þessar setningar aftur. Svo einu sinni í viðbót. Nærðu þessu? Því ég geri það varla. Skurðirnir voru ekki litlir og krúttlegir, þetta endaði sem lögreglumál og á forsíðum blaða. Dýragarðsverðirnir fá ekki lengur frítt áfengi í veislum.

Fyrir utan smáatriði eins og fólskulega líkamsárás fer veislan vel fram, þangað til kemur að því að slútta henni. Fólk er almennt ekki hrifið af því að vera rekið út af vinnustaðnum sínum, sama hversu vel þjónarnir leika að vera kurteisir og skilningsríkir.

Sumir gestanna eru með háværar yfirlýsingar um að þeir fari þegar þeir vilji fara, aðrir reyna að prútta um lengri tíma og einn og einn býður okkur í eftirpartí. Það tekur langa stund að koma gestunum burt, að endingu byrjum við þjónarnir bara að pakka saman í kringum þá sem eftir eru. Nóg er af verkum, bæði að hreinsa upp eftir þessa veislu og að undirbúa þá sem er á morgun.

Þegar glittir í vaktarlok verð ég var við hreyfingu óþægilega nálægt mér. Ég hrekk við. Nánast upp við mig er stelpan í rauða kjólnum. Hún er á sneplunum, að hún haldist upprétt er magnað. Hvernig í ósköpunum komst hún svona nálægt mér án þess að ég tæki eftir henni? Kannski er hún vön að nálgast dýr af varfærni.

Við störum hvort á annað andartak. Hvern fjandann á ég að segja? Hún verður fyrri til, spurningin kemur vægast sagt flatt upp á mig. Svo sannarlega ekki spurning sem maður á von á í starfsmannapartíi, sérstaklega ekki þegar maður er nýi gaurinn á staðnum og spyrjandi er kona sem hefur verið hér árum saman:      

– Hvar er útgangurinn?

Það er bara ein hurð í salnum! Ég bendi henni á dyrnar, hún tekur smástund í að hugsa sig vandlega um, kinkar kolli og gengur á brott. Af hverju líður mér eins og það sé eitthvað sem ég er ekki að fatta. Gæti verið að hún vilji eitthvað annað en útganginn? Drukkið fólk er skrýtið. Félagar mínir flissa.  

Aftur heyri ég þrusk, aftur hrekk ég við, aftur stendur hún alveg upp við mig.

– Þessi hurð fer ekki út … segir hún.

– Nei, útgangurinn er fyrir neðan stigann.

– Er stigi? Ég sá hann ekki, segir hún.

Það er pínulítið erfitt að vera ekki dónalegur. Stiginn er heilum metra frá hurðinni. Ég býðst, í nafni þess að losna við hana og þess að halda áfram að vera herramaður, til að fylgja henni út.

Það þarf að styðja hana niður tröppurnar og hún misstígur sig í sífellu, tvisvar er hún á leið niður stigann með andlitið á undan þegar ég næ að grípa hana. Kannski ætti ég hreinlega að bera hana niður en það væri líklega of langt gengið. Þegar hún sér útidyrahurðina ljómar hún, hún virðist hafa haldið að hún væri föst í völundarhúsi. Það sem meira er, við útidyrnar eru tveir vinir hennar, þó að þeir séu vant við látnir.

Þau eru í líflegasta sleik sem ég hef séð. Allir heimsins busaballssleikir virðast komnir saman í þessari áras tveggja einstaklinga á andlit hvor annars. Ef þau hefðu ekki bæði verið jafn brjálæðislega áköf héldi ég að þetta væri líkamsárás. Ef hægt er að fá marbletti á munninn, verða þau með þá á morgun.

Ég ræski mig hátt og segi þeim (ekkert sérstaklega) kurteislega að koma sér út. Þau blóta og taka stefnuna á eftirpartí í næsta húsi. Stelpan í kjólnum gerir sig líklega til að elta og fyrst gangan er bara einn stígur geri ég ráð fyrir að hún nái ekki að fara sér að voða. Áður en hún stígur út grípur hún um mig og segir:

 – Þú ert næs.

Svo kyssir hún mig á kinnina og ég roðna alla leið niður í hæla. Þó að ég sé ekki kominn í hlutverk riddara á sviði líður mér eins og ég hafi verið að bjarga prinsessu og það er ljúf tilfinning.