Góðar spurningar, svari betri

Góð spurning er svari betri. Svar er endanlegt, stoppar vöxt hugsunarinnar. Þegar við teljum okkur hafa svarið hættum við að leita af betri svörum, betri þekkingu. Svör verða aldrei betri en spurningin, ef spurningin er klikkuð verður svarið klikkað. Góð spurning leiðir okkur niður nýja ganga þekkingar, flettir upp svörum sem okkur hefði aldrei dottið í hug.

Myndaniðurstaða fyrir winnie the pooh thinking
Vanmetin hugsuður, sífellt að spyrja.

Af hverju skiptir þetta mál? Betri spurningarnar eru skilvirk og hröð leið til að bæta hugsun. Rétt spurning sker í gegnum vandamálin, finnur betri hugsun. Skýr og góð hugsun er ekki sjálfsögð. Menning okkar er fjandsamleg því að stoppa og hugsa. Að finna sér ró og spyrja sig erfiðra, en góðra, er leið til að bæta hugsun sína.

Ég hef alltaf haft áhuga á góðum spurningum og reynt að safna þeim. Summar þessara spurninga hafa leitt til stórra ákvarðana, hjálpað mér að finna skemmtilegar sögur og oft gefið mér hugrekki til að keyra á eitthvað sem ég var hræddur við. Til dæmis að stofna þessa litlu síðu, uppsetningu leikverka og flutninga milli landa.

Það er mikilvægt að svara spurningunum, sérstaklega þessum þyngri, á blaði. Við þekkjum öll þessa skrýtnu tilfinningu þegar hugsanir okkar virðast hlaupa í hringi, endurtaka sig í sífellu án þess að komast að niðurstöðu. Pappírinn hefur þann eiginleika að fanga hugsanir, sýna okkur hvar þær eru óskýrar og hvar þær endurtaka sig. Með öðrum orðum: Að skrifa er góða leiðin til að hugsa upphátt.

-Hvað er það versta sem gæti gerst og hvernig myndi ég laga það.

Þessa er gott að nota þegar maður stendur frammi fyrir stóri ákvörðun. Oft notum við „hvað er það versta sem gæti skeð“ til að keyra í okkur hugrekki. En stundum er óttinn réttlætanlegur. Stundum er það versta sem gæti skeð eitthvað virkilega slæmt. Þá er gott að vera með plan, sjá fyrir sér hvernig maður myndi komast aftur á þann stað sem maður er á. Oft minnkar óttinn við það eða við sjáum að það sem við óttumst er einfaldlega ekki það mikið mál.

-Hvað ef ég hefði tíu sinnum meiri pening? Helmingi minni tíma?

Ég heyrði þessa í samhengi við ferðalög, en hún hjálpaði mér meðal annars við uppsetningu leiksýningar. Tilgangurinn er ekki að láta sig dreyma um miklu meiri aur, eða að gera hlutina miklu hraðar. En þegar við veltum þessum fyrir okkur og skrifum þetta niður kemur oft í ljós að það sem við höldum að taki svakalega upphæð er hægt að gera nokkuð auðveldlega með smá skapandi hugsun.

Tilgangurinn með tíma spurningunni er að grafa sig niður mikilvægasta þættinum í verkinu. Svona spurningar er gott að taka alvarlega á meðan þeim er svarað. Líklega verða einhver svaranna gagnslaus, en inn á milli leynist oft mjög nytsamlegt svar.

 -Hvað er fyndið við þetta?

Við gerum öll mistök, við skömmumst okkur öll fyrir eitthvað. Að finna fyndnina við þau er þægileg aðferð til að fá eitthvað gott úr mistökunum. Tala nú ekki um þetta er eitthvað sem við skömmumst okkur fyrir, hlátur drepur skömm hratt og örruglega. mun betra ef við náum að læra af þeim líka.

-Hvað fengi mig til að skipta um skoðun á X?

Við höfum sterkar skoðanir á mörgu: Mataræði, stjórnmálaflokkum, listamönnum og fleira og fleira. Það er hollt að spyrja sig hvað þyrfti til þess að maður skipti um skoðun. Vegna þess að ef svarið er ekkert, hefur maður líklega ekki hugsað djúpt um téð mál. Ef þú getur orðað mótrökin gegn eigin skoðunum betur en þeir sem eru ósamála þér, ertu í góðum málum.

-Hvað meina ég með þessu X?

Hefurðu einhvern tímann orðið vitni að rifrildi, þar sem er alveg ljóst að fólkið er að rífast um algjörlega sitthvorn hlutinn? Trú, hollt, harka, jafnrétti, sanngirni, frelsi, femínismi, réttlæti, guð. Þetta eru allt stór hugtök sem við notum mikið, en vitum við hvað við meinum með þessum orðum? Ef við erum ekki einu sinni viss um okkar eigin skilgreiningu, hvernig getum við rætt þessa hluti við aðra, sem hafa líklega sína eigin skilgreiningu.

-Hvað er jákvæðasta ástæða þess að hann er ósammála mér?

Þetta á sérstaklega við um stjórnmál. Allt of oft gerum við ráð fyrir að hin hliðin sé ill, heimsk eða fáviss. En kannski er forgangsröðun þeirra bara önnur, kannski er reynsla þeirra önnur, kannski vita þeir eitthvað sem við vitum ekki. Það má nefna þetta jákvæðni prinsippið: Ekki gera ráð fyrir illsku nema þú hafir sterk rök fyrir því.

-Hvað vil ég að fólk segi í jarðarförinni minni? Hvað myndi fólk segja ef hún væri á morgun?

Það er ekki endilega niðurdrepandi að hugsa til eigin dauða. Það gefur manni einbeitingu, það minnir mann á að við höfum bara ákveðið marga daga á þessari jörðu og við ættum að nýta þá. En það getur verið hollt að hugsa um það sem kemur næst. Hvernig viltu láta minnast þín? Ertu að gera það sem verðskuldar slíkar minningar? Ef ekki, hvers vegna ekki?

-Hvaða sögu er ég að segja sjálfum mér?

Þessi er mér sérstaklega hugleikinn. Ég er að reyna að verða atvinnupenni, ég elska sögur meira en flestir. Sögur hafa mátt, en sögur eru ekki raunveruleikinn. Heimurinn skuldar okkur ekki hamingjusaman endi, né getum við séð fyrir því hvernig okkar eigin saga endar. Að segja sjálfum sér sögu getur verið nytsamlegt, en hún getur líka orðið fjötur, jafnvel sjálfsblekking.

Átt þú þér einhverja uppáhaldsspurningu, eitthvað sem þú spyrð þig regluleg og finnst það hjálpa þér? Endilega deildu ef svo er.

Game of Thrones endurlesin – Stutt uppgjör

Myndaniðurstaða fyrir song of ice and fire
Eintökin mín líta sirka svona út

Þegar sjónvarpsþáttaröðin Game of Thrones var að klárast ákvað ég nota það sem spark í rassinn og endurlesa bækurnar. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég les þær allar, fyrstu þrjár er ég líklega búin að lesa á tveggja til þriggja ára fresti síðan 2007. En þetta er í fyrsta sinn sem ég tek einbeitta skorpu og les þær sem eina heild.

Auðvitað gerði ég þetta fyrst og fremst vegna þess að þetta eru spennandi bækur. Ef Martin tekst að klára síðustu tvær í sama gæðaflokki mun Song of Ice and Fire vera minnst sem áhrifamestu fantasíu seríu síðan Hringadrottinssaga kom út.

En ég var líka forvitinn að sjá hvernig upplifuninn af bókunum hafði breyst, sjá hvort það væru enn þá faldir gullmolar sem ég hafði ekki tekið eftir (svarið: já) og hvað ég gæti lært af bókunum. Eitt sem breytist í mann þegar maður verður ritlistamaður er að maður les öðruvísi. Maður fer að reyna greina tæknina bakvið textann (reyndar alla list) og átta sig á hvernig höfundur fer að því sem hann gerir.

Myndaniðurstaða fyrir song of ice and fire
Þessi mynd er ótengd efni greinarinnar, en getur einhver reddað mér svona?

Endurlesturinn.

Að skrifa greinarnar var leið til að fanga hugsanir mínar um bækurnar og vonandi hefur einhver haft gaman að því að lesa þá. Satt besta að segja er ég ekki sáttur með hvernig þessar greinar heppnuðust. Það vantar eitthvað hryggstykki í þær, án þess að ég sé viss um hvað það ætti að vera. En ég er að þessari síðu til að æfa mig sem penni, kem til með að kryfja þetta í rólegheitum og læra.

Endurlesturinn tók styttri tími en ég bjóst við. Munaði þar miklu um að liggja veikur heima í fjóra daga í honum miðjum. Það var ógurlega kósý að hafa afsökun til að liggja upp í sófa í nokkra sólarhringa og éta upp eina og hálfa bók í einum rykk. Sem unglingur gerði maður þetta reglulega, auðvitað ætti maður að skipuleggja sig þannig að maður gæti gert þetta oftar. Lesturinn verður dýpri og ánægjan af honum meiri.

Þegar maður les bækurnar er ljóst að þættirnir hafa breytt væntingum manns til þeirra. Eftir þættina býst maður við blóðugu ofbeldi eða kynlífi í öðrum hverjum kafla. Það er hellingur af báðu í bókunum, en það eru líka tugir og aftur tugir kafla sem snúast bara um tvær persónur að tala saman, reyna að púsla saman hvað er í gangi, hvað skal gera næst. Stórar orrustur eru fáar og þegar þær gerast fer mikill tími í að gera upp afleiðingarnar.

Mín kenning er að Martin velur af miklu gaumgæfi hvenær hann notar þessi verkfæri en í þáttunum hafi verið reynt að troða þessu í hvern einasta þátt, til að halda spennunni uppi. Fyrir handritshöfund sjónvarpsþátta þarf mikið sjálfsöryggi til að reiða sig á samtöl, svo ekki sé talað um gífurlega færni. Ég er ekki að segja að handritshöfundarnir hafi ekki verið góðir. Ég held bara að þeir hafi bara notað ofbeldi og kynlíf sem hækju full mikið.

Annað kom í ljós við endurlesturinn, sem kann að hljóma augljóst. Þessar bækur eru ein heild. Ef þú eyðir nægum tíma á netinu er hægt að finna nóg af fólki að drulla yfir Feast For Crows og Dance With Dragons. Stór hluti þeirrar gagnrýni snýst um að ekki gerist nóg í þeim. En þegar serían er lesin sem heild, þá virka þær bara sem sviðuppstilling, meistaraleg sviðsuppstilling. Satt besta segja fannst mér fínt að fá eins og eina bók á hægum bruna eftir brjálæðið í lok Storm of Swords. Svona eins og að fá að setjast í heitan pott eftir langa og erfiða æfinga. Þetta þýðir líka að við verðum að bíða seinustu bókanna áður en lokadómur fellur um seríuna.

Framtíðinn.

Þó næsta bók komi ekki út fyrr en 2035 mun ég mæta á miðnæturopnun í Nexus og kaupa hana. Það er ákveðin hópur á netinu sem er sannfærður um að Martin muni aldrei klára seríuna. Hann sé orðin of gamall og þjakaður af fullkomnunaráráttu til að klára hana nokkur tímann, hann sé saddur peningunum og frægðinni sem hann fékk eftir þættina. Hann hefur viðurkennt í viðtölum að hann hafi hægt á skrifunum vegna þáttanna. Samt hef ég enga trú á öðru en hann klári þessa seríu. Hún mun vera arfleið hans, það sem hann verður minnst fyrir, líklega löngu eftir að þættirnir gleymast. Það hlýtur að vera drulluerfitt að skrifa bækur, vitandi að þær verða lesnar af milljónum og þær þurfa að vera því til næst fullkomnar til að vera ekki dæmdar glataðar.

Myndaniðurstaða fyrir george r.r. martin
Hvern drep ég næst?

Það er nett ógeðslegt hversu mikið er skrifað og talað um að hann sé orðin hrútgamall og nánast með aðra löppina í gröfinni. Já, hann er ekki ungur. En ég held að ungur maður gæti ekki skrifað þessar bækur. Vonandi klárar hann þetta á næsta ári. En ég vil frekar að hann taki auka árin í þetta og þær verði eins góðar og mögulegt er. Ég sá síðustu seríuna af þáttunum, þar sáum við ansi vel hvað gerist þegar enda á svona verki er flýtt.

Það eru ákveðnar bækur sem maður les reglulega. Það fer eftir þér hverjar þær bækur eru. Fyrir milljónir eru Song of Ice and Fire þær bækur. Martin skapaði heim sem manni dauðlangar að heimsækja í gegnum blaðsíðurnar á fimm til tíu ára fresti, sjá hvernig maður sjálfur hefur breyst með því að taka eftir því hvernig upplifun manns af bókunum breytist með árunum. Bara ekki neyða mig til að búa Westeros, held að ég myndi ekki lifa af vikuna.

Game of Thrones endurlesin (Fyrsta bók)

Game of Thrones endurlesin (Önnur bók)

Game of Thrones endurlesin (Þriðja bók)

Game of Thrones endurlesin (Fjórða bók)

Game of Thrones endurlesin (Fimmta bók)

Tíu þúsund kallinn gildir – Hvernig margt smátt verður að einu stóru.

Máltækið segir að margt smátt geri eitt stórt, en hvernig virkar það ná?

Það er eins með þennan málshátt og fleiri. Við vitum að það er einhver viska í honum og látum þar kyrrt við liggja. Þessi grein mun fara í saumana á því hvers vegna forfeður okkar smíðuðu þennan málshátt og hvernig er hægt að nýta hann í lífinu.

Greinin mun á yfirborðinu fjalla um húsnæðislán og regluna sem segir að tíu þúsund kallinn gildi. En hægt er að taka þessa reglu og nýta hana í ólíklegustu hluti, við förum í það í lokin.

Það er augljós spurning sem þarf að afgreiða: Hvaða rétt hef ég til að gefa fjárhagsráð?

Ein af ástæðunum fyrir þessari vefsíðu er að skrifa það sem ég hefði viljað vita fyrir tíu árum (hvort ég hefði hlustað eða skilið er annað mál). Í fyrra keypti ég mína fyrstu íbúð. Bæði fyrir það og síðan þá hef ég eytt ótal stundum í að lesa mér til og pæla í fjármálum. Draumurinn er að þurfa ekki að pæla í peningum þegar fram líða stundir og er ég tilbúin að leggja á mig töluverða vinnu til að komast á þann stað.

Í því grúski og í samtölum við snjalla vini, rakst ég á regluna sem þessi grein fjallar um: tíu þúsund kallinn gildir. Reglan er útfærsla á máltækinu að margt smátt geri eitt stórt. Ástæða þess að hér er talað um tíu þúsund kall er að það er fjárhæð sem flestir gætu séð af mánaðarlega án þess að finna ógurlega fyrir því. Ég ætla að færa rök fyrir að sá tíu þúsund kall geti á lengri tíma sparað stórar risastórar fjárhæðir og verið lykill að þægilegra lífi. Reglan byggir á tveimur atriðum: Hegðun vaxta og að það sé betra að gera litla góða hluti oft en að reyna að gera stóra hluti sjaldan. Skoðum þetta.

Tíu þúsund kallinn gildir

Við tökum flest húsnæðislán. Að ætla að safna sér upp í heila íbúð er óraunhæft og Íslendingar búa ekki við þann lúxus að vera með heilbrigðan leigumarkað. Ég ætla ekki að dýfa mér í umræðuna um verðtryggð og óverðtryggð lán hér. En mig langar að fjalla um góða leið til þess að hugsa þegar lánið er komið í höfn og áratugir af mánaðarlegum afborgunum eru framundan.

Það er þess virði að skoða örstutt hvað lán og vextir eru, svo við séum á sömu blaðsíðu. Lán er peningar sem einn aðili lætur öðrum í hendur, í skiptum fyrir loforð um að fá meira til baka. Upphæðin sem er lánuð er kölluð höfuðstólinn og viðbótinn er kölluð vextir. Um hver mánaðar borgum við ákveðna upphæð af höfuðstólnum og ákveðið magn af vöxtum. Eftir því sem höfuðstólinn lækkar, því lægri er upphæðin sem ber vexti. Það gefur auga leið að lengri tími jafngildir hærri vöxtum sem og að því hraðar sem höfuðstóllinn lækkar því minna ávaxtar hann sér.

Við viljum auðvitað að borga sem minnsta vexti og til þess þarf að borga lánið niður eins hratt og við getum. Styttri lán eru alltaf ódýrari en lengri á sömu vöxtum en sá fylgifiskur er á að mánaðarleg afborgun er hærri. Einn tilgangur greiðslumats er að bankinn vill ekki lána okkur pening með svo hárri greiðslubyrgði að ólíklegt er að við getum borgað til baka.

Við vitum öll að það er skynsamlegt að borga lánið niður hratt, þá hefur höfuðstóllinn minni tíma til að ávaxta sér og við borgum minna í heildina. En hvernig lítur þetta út í krónum?

Vextir og vesen

Algeng setning þegar spjallað er um lán (sem gerist oft þegar einhleypir menn vilja forðast umræðu um börn í partíum) er: „Ég get ekki borgað nóg inn á lánið til að það skipti máli.“ Oft er næsta setning: „Bráðum ætla ég að spara góða fjárhæð og leggja inn á.“

Í samhengi við tíu milljón króna lán hljómar tíu þúsund krónur ekki eins og upphæð sem ætti að skipta máli. Til að vera nákvæmur er tíu þúsund kall núll komma eitt prósent af láninu. En þökk sé mætti vaxta gildir hann helling. Sérstaklega ef hann er endurtekin mánaðarlega.

Þá komum við að reglu 69.3. Ef þú villt reikna út ávöxtun er þumalputta regla að deila 69.3 með vaxtatölunni og þá færðu út hversu lengi upphæðin er að tvöfalda sig í árum (73 ef ekki er um vaxtavexti er að ræða). Segjum að ég eigi milljón inn á bankabók með 5% vöxtum. 69.3/5 eru 13.86 þannig að eftir rétt tæplega 14 ár á ég tvær milljónir. Að því gefnu að ég taki peninginn ekki út er upphæðin orðin fjórar eftir 28 og átta eftir 42 ár. Þessi flýtileið er flott til að þess að fá góða mynd af hegðun vaxta en ef þú er seðlabankastjóri á leið á fund með fjármálaráðherra myndi ég nota nákvæmari formúlur.

Ef þú leggur auka tíuþúsund kall inn á lánið með fyrstu afborgun þá ertu búin að tryggja að þær tíu þúsund krónur af láninu ávaxti sér aldrei.  Næsti tíu þúsund kall sömuleiðis ávaxtar sér aðeins í mánuð og svo framvegis og framvegis. Eftir eitt-tvö ár þá ertu komin með góða upphæð af láninu sem er horfin og ferð að sjá muninn í afborgunum þínum og heildar upphæðinni. Við skulum skoða hvernig það myndi þróast með meiri nákvæmni:

Dæmi – Tíu milljón króna lánið

Á heimasíðu Excel má finna nokkur nördaleg og skemmtileg skjöl þar sem hægt er að reikna út gróflega hvað lánin okkar kosta á ýmsa vegu og með ýmsum skilyrðum. Þar getur maður séð hvernig góð nýting á tíu þúsund kalla reglunni getur sparað okkur fúlgufjár þegar upp er staðið. (Tekið skal fram að myndirnar eru gerðar í öðru forriti, sem kallast “R”).

Stillum upp tveimur eins lánum, A og B. Þau eru bæði lán upp á tíu milljónir króna, þau eru bæði verðtryggð, og bæði á 3.5% vöxtum. Það þarf að velja inn eitthvað mat á verðbólgu, notumst við 2.5% á ári. Það er aðeins hærra en verðbólga hefur verið síðustu ár. Verðbólga hefur í raun ekki áhrif á hvort 10-þúsund-kalla reglan virkar eða ekki, hún endar alltaf með sparnaði. Við miðum við 40 ára jafngreiðslulán með mánaðarlegum afborgunum. Þessar er ekki ætlað að endurspegla meðal húsnæðislán heldur eru þær valdar til þæginda og til að sýna hvernig reglan virkar. 

Lánin eru því alveg eins en munurinn liggur í hvernig við borgum af þeim. Afborgunum verður hagað svona:

Lán A: Borgum venjulega af þessu láni í hverjum mánuði í 40 ár, ekkert aukalega og ekkert minna en kemur fram í greiðsluáætlun. 

Lán B: Borgum venjulega af þessu láni eins og fyrir lán A en beitum líka tíu þúsund kalla reglunni og borgum 10 þúsund krónur aukalega inn á lánið í hverjum mánuði þangað til lánið er fullgreitt. 

Nú getum við notað excel skjalið til þess að draga fram áhugaverðan mun á þessum tveimur nálgunum. Í fyrsta lagi, þá mun lán A enda með að kosta okkur 31.756.073 þegar allar greiðslur eru lagðar saman. Ef við leggjum saman allar greiðslur og aukagreiðslur fyrir lán B á sama hátt þá mun það kosta um 27.462.562 krónur. Það er munur upp á næstum 4.3 milljónir þegar upp er staðið. 

Hér einnig mikilvægt að átta sig á að 10-þúsund kallinn sem maður leggur inn aukalega er ekki tapaður. Þú hefðir þurft að borga hann hvort eð er, bara seinna. Þetta verður enn ljósara þegar við skoðum hvernig afborganir þróast fyrir lánin. 

Hér sjáum við (vinstra megin) að þó svo að lán A kallist “jafngreiðslulán” þá verða þetta ekki jafnar greiðslur að neinu leyti. Greiðslurnar byrja í rétt rúmlega 38 þúsund krónum og hækka síðan, þremur árum seinna eru þær orðnar rétt tæplega 42 þúsund. Þegar 5 ár eru eftir þá eru greiðslurnar í kringum 93 þúsund og síðustu greiðslurnar eru rúmlega 100 þúsund. Ástæðan fyrir þessu er verðbólga.  

Gagnstætt við þessa hegðun, þá er lán B (hægra megin) miklu líkara því sem við myndum halda að jafngreiðslulán ætti að vera. Það er ekki fullkomið, en það er betra.  Afborgarnir byrja í rétt rúmlega 48 þúsund (sem er 38 þúsund + 10 þúsund auka) og hækka síðan lítilega. Hæsta afborgun á láni B verður eftir um það bil 32 ár og er upp á 63.530 krónur. Á sama tíma þyrftum við að sætta okkur við afborgun upp á sirka 85.000 af láni A. Eftir þennan hápunkt eftir 32 ár fara síðan afborganir af láni B að minnka aftur þegar endamarkið nálgast (afborganir af láni A halda áfram að hækka alveg þangað til síðasta afborgun er greidd). 

Ég nefndi áðan að við spörum okkur tæplega 4.3 milljónir ef við byrjum að nota 10-þúsund kalla regluna strax. Hvað ef við höfum ekki haft tök á því, en getum gert það núna nokkrum árum eftir að lánið var tekið? Hér má sjá hversu mikið er sparað eftir því hversu snemma við byrjum að beita reglunni.

Það er óhætt að segja að það sé ekki of seint að beita reglunni þó einhver tími sé liðinn frá því að við tókum lánið. Ef við byrjum eftir 1 ár sparast rétt rúmlega 4 milljónir, ef við byrjum eftir 2 ár þá sparast uþb 3.8 milljónir og svo framvegis. Eina tilfellið sem mætti teljast of seint til þess að byrja að beita reglunni er ef það er bókstaflega ein greiðsla eftir, þeas ef 39 ár og 11 mánuðir eru liðnir. 

Að lokum þá skulum við skoða stuttlega hver munurinn er á að greiða 10 þúsund inn reglulega eða safna þeim peningum saman og greiða meira á t.d. eins árs fresti. Ef við greiðum 10 þúsund aukalega í hverjum mánuði þá kostar lánið samtals 27.462.562 krónur eins og kom fram áðan. Ef við núna skiptum um aðferð og borgum frekar 120 þúsund hver áramót þá mun slíkt lán kosta 27.581.775 krónur, sem er meira 140 þúsund krónum meira.

Lífið og vaninn.

Væri betra að leggja fimmtán þúsund kall inn? Auðvitað. Tuttugu? Þeim mun betra. En það er ástæða fyrir að við tölum um tíu þúsund kall í þessari grein. Ef markmiðið er að halda áfram að borga mánaðarlega, gera það að vana (sumir bankar bjóða þér að gera þetta sjálfvirkt) þá er best að velja upphæð sem þú tekur nánast ekki eftir. Það er þá hægt að hækka hana síðar, ef fjárhagurinn vænkar.

Flestir geta fundið í byrjun mánaðar tíu þúsund krónur til að borga inn á lánið, án þess að það hafi teljandi áhrif. Það er mikilvægt þegar við ætlum að temja okkur svona ávana að byrja smátt, ef í ljós kemur að upphæðin gæti verið hærri er alltaf hægt að bæta við seinna.

Svo má spyrja sig hvar annars staðar í lífinu er hægt að finna tíu þúsund kalla. Það er að segja litla hluti sem hægt er að gera reglulega en vinda upp á sig og vaxa í mikinn gróða. 10 armbeygjur á hverjum morgni? Læra á hljóðfæri? Fimm mínútna hugleiðsla? Að leggja þúsund kall til hliðar daglega til að spara sér fyrir einhverju sturluðu fríi? Eða taka frá korter á hverjum einasta degi til að liggja með bók og læra eitthvað nýtt?

Við eigum það öll til að láta okkur dreyma um eitthvað stórt sem við ætlum að gera í óljósri framtíð. Í lok desember tölum við hlæjandi um áramótaheitinn okkar, lyklana að nýju lífi. Við hlæjum auðvitað vegna þess að við vitum að engin stendur við sú heit, prófaðu að kíkja í World Class Laugum fimmta janúar og svo fimmta mars til að sjá hversu mörg stór markmið haldast. Það er auðveldara og raunhæfara að setja sér lítil markmið, gera þau að vana og bæta svo við nýjum vana.

Það eru til þúsund greinar, myndbönd og greinar á netinu sem segja þér hvernig á að gera hlutina hratt. En ég legg til að við reynum frekar að gera hlutina hægt, byggjum einn múrstein í einu og njótum þess að sjá húsið sem verður til við það.

Eitt að lokum: Mig langar að þakka Ólafi Birgi Davíðssyni sérstaklega fyrir hjálpina við tölu hlutan á þessari grein, sem hann endurskrifaði því til næst frá grunni.

Fyrir þá sem vilja kynna sér þetta frekar mæli ég með bókunum Slight Edge og Power of Habit.

Game of Thrones endurlesin (Fimmta bók – A Dance with Dragons)

Myndaniðurstaða fyrir dance with dragons cover

Þá er komið að Dance with Dragons, síðustu bókinni sem Martin kláraði í þessari seríu. Hún hefur ákveðin sess í lesturhjarta mínu. Þetta var fyrsta Song of Ice and Fire bókin sem ég keypti á útgáfudegi, á fögru sumarmiðnætti árið 2011. Ég hringdi mig inn veikan í vinnu daginn eftir og át bókina upp á einum sólarhring. Fannst hún frábær þá, varð pirraðri á henni þegar ég fór að pæla í henni og varð síðan aftur ástfangin við endurlesturin. Ég hef líka haft fyrir því að fletta upp á vandræðalega mörgum ritgerðum um hana, það er magnað hversu mikla vinnu menn hafa í fjalla um þessa bók.

Skoðanir á bókinni eru skiptari en á Feast for Crows. Er hún klúður eða misskilið meistaraverk? Er hún hröð og spennandi eða heil bók af opnunarleikjum í skák, á þess að við komust inn í endataflið?

Yfirnátturan tekur yfir

Í flestum fantasíum fara töfrar ýmist hverfandi (Hringadrottinssaga) eða þeir eru að fæðast aftur inn í heiminn (The Stormlight Archives). Alla seríuna Song of Ice and Fire fara áhrif töfra stigvaxandi og þegar hér er komið við sögu eru þeir komnir í lykilhlutverk í sögunni. Drekarnir eru næstum fullvaxta, máttur rauðu prestana og alkemista hafa vaxið og hinir dauðu eru á leiðinni suður.

Manni hlakkar til að sjá hvernig persónur eins og Cersei, Jamie og aðrir íbúar Kings Landing bregðast við komu dreka og uppvakninga. Það er líka töluvert auðveldara að halda með persónunum eins og Jon Snow, sem er með virkilega vondan kall til að berjast. Meira um Jon okkar síðar.

Það er ekkert leyndarmál að drekarnir í Game of Thrones eru aðferð Martin til að skrifa óbeint um gjöreyðingarvopn. Þeir gefa Dany þann möguleika á að vinna hvaða orrustu sem er, ef hún er tilbúin að drepa þúsundir manna. Hvenær sem er getur hún valið að vinna hvað það stríð sem hún fer í, en hún verður drottning ösku og elda. Hvers virði er slíkur sigur? Getur hún ríkt í landi þar sem ógninn er það eina sem heldur henni við völd? Er hún tilbúin til þess? Lok þessarar bókar benda til þess.

Í Dance with Dragons (og reyndar Feast for Crows) fáum við líka vísbendingar um að það sé annað töfra afl á stjá, eða öllu heldur and-töfra afl. Allar bækurnar hafa Maesterarnir verið að grúska í bakgrunninum, upp til hópa vinalegir karlar sem þjóna og ráðleggja aðalpersónunum. Í Feast for Crows var ýjað að því að þeir bæru ábyrgð á að drekarnir hefðu dáið fyrir tíma bókana. Í Dance with Dragons kynnumst við svo Lafði Dustin. Hún er einstaklega bitur íbúi norðursins sem hefur þetta að segja um Maesterana:

„If I were queen, the first thing I would do would be to kill all those grey rats. They scurry everywhere, living on the leavings of the lords, chittering to one another, whispering in the ears of their masters. But who are the masters and who are the servants, truly?

„Every great lord has his maester, ever lesser lord aspires to one. If you do not have a maester, it is taken to mean that you are of little consequence. The grey rats read and write our letters, even for such lords as cannot read themselves, and who can say for a certainty that they are not twisting the words for their own ends? What good are they, I ask you?“

Hún heldur áfram og vill meina að það hafi verið þessum mönnum að kenna að stríðið braust út á sínum tíma. Við hreinlega vitum ekki þegar Dance with Dragons lýkur hvort eitthvað sé til í þessu. En heimili þeirra er Oldtown, einn af stöðunum þar sem aðalpersónur eru að hópast saman þegar bókinni lýkur, það er auðvelt að sjá fyrir sér að þar verði eitthvað uppgjör í Winds of Winter, mögulega uppgjör sem mun segja okkur meira um töfra í þessum heimi.

Sagan dregst saman: Það var mikið.

Í byrjun fyrstu bókar Game of Thrones voru allar sjónarhornspersónurnar, nema Deanerys, á einum stað: Winterfell. Fyrst fór lítill hópur norður (Tyrion, Jon), annar hópur var kjurr (Bran, Catelyn) og stór hópur fór suður til Kings Landing. Catelyn fór suður á eftir eiginmanni sínum, endaði á að fara inn í Dalinn og svo flæktist sagan. Persónur ferðuðust þvers og kruss um Westeros og á tímabili (segjum miðbik Feast for Crows/byrjun Dance with Dragons) virtist sem hver einasta persóna eða svo gott sem væri á sínum stað í sínu eigin ævintýri.

Um miðbik Dance with Dragons virðist sem betur fer sem sögurnar séu að dragast saman. Fyrir norðan eru Jon, Stannis, Theon, Asha Greyjoy og nokkrir minni spámenn. Fyrir austan dragast persónur að Dany eins og flugur að eld. Litlir hópar stefna á Oldtown, King Landing og Dorne. Vissulega eru þetta en fimm, kannski sjö sögusvið eftir því hvernig þú dregur línurnar. Fyrir lesanda er samt alveg frábært að við fáum aftur að sjá sjónarhornspersónur hittast og eiga samleið. Vekur hjá manni von um að þessi risa saga muni einhvern tímann klárast.

Upp úr þurru: Jon Connington.

Í Dance with Dragons er einn óvæntasti viðsnúningur bókanna. Hann er ekki óvæntur á sama hátt og dauðar Ned og Robb, þar sem lesandi trúði ekki að þetta gæti gerst. Hann er óvæntur af því að það er nánast engar vísbendingar í textanum um að hann sé að fara að gerast: Koma Jon Connington og Young Griff inn í söguna. Ég veit ekki til þess að einn einasti maður hafi séð þetta fyrir.

Tyrion Lannister slapp frá að missa höfuðið í lok Storm of Swords með hjálp Varys. Sá síðarnefndi hefur verið ráðgáta alla seríuna, hvað vill hann? Hvað er hann að gera. Í Dance kemur í ljós að hann hefur verið viðrini við samsæri frá því löngu áður en sagan hófst. Samsærið gengur út á að koma syni fyrri konungs aftur á hásætið. Upphaflega ætla þeir að ganga til liðs við Daenerys en Tyrion sannfærir unga manninn um að ráðast frekar beint á konungsríkin sjö og bíða hennar þar.

Dvergnum er svo rænt og innrásin hefst í lok bókarinnar. Það eru vísbendingar um að Young Griff sé ekki sá sem hann virðist vera, en í lok dags skiptir það ekki máli. Hann er með her, hann er tilbúin í stríð þó andstæðingar hans viti ekki einu sinni af því og hann er tilbúin að berjast.

Aftur og aftur í þessari seríu höfum við séð mann með réttlætiskennd og vald koma atburðum af stað, hringrás sem virðist aftur vera að fara af stað hér. Það verður að bíða Winds of Winter að sjá hvaða hlutverk þeir Jon og Griff hafa, en mig grunar að þeir verði táknmynd þess hvernig við gjöldum fyrir glæpi fortíðar.

Tyrion, Jon og Dany – Inn í myrkrið

I’ve always agreed with William Faulkner—he said that the human heart in conflict with itself is the only thing worth writing about. I’ve always taken that as my guiding principle, and the rest is just set dressing.

George R.R. Martin

Í lok Storm of Swords voru þrjár vinsælustu persónurnar komnar á ákveðna endastöð. Jon Snow var ekki lengur olnbogabarn, hann var orðin hershöfðingi. Dany var ekki lengur útlagi, hún var drottning. Tyrion var ekki lengur einn valdamesti maður heimsins, heldur flóttamaður og föðurmorðingi. Í Dance with Dragons byrjar höfundur að skoða hvaða áhrif þetta hefur á þau.

Fyrstu bækurnar var Jon sífellt setur í þær aðstæður að þurfa milli rétts og rangs. Hann kaus nánast alltaf það rétta. Núna þarf hann að velja milli þessa rétta og minna rétta. Að vera hetja eða vera ábyrgur. Að gera allt sem hann getur til að hjálpa óbeint, eða einbeita sér að ógninni að handan.

Hann kolfellur á prófinu. Það sem meira er, maður fagnar því að sjá hann falla á prófinu. Hann beygir reglur, hann blandar sér í stríðið fyrir sunnan og borgar fyrir það með lífi sínu.

Það gerir fallið pínlegra að þegar hann einbeitir sér að ógninni að handan þá er hann frábær foringi. En hann er í hjarta sínu hetja og hann fórnar miklu til að bjarga óbreyttum (fyrrum) óvinum sínum og tekur gífurlega áhættu til að bjarga (að hann heldur) systur sinni. Í lok bókarinnar ætlar hann að bjarga norðrinu frá Bolton ættinni. En til að gera það þarf hann að fórna heiðri sínum og Næturvaktarinnar. Menn hans stoppa hann, með sautján eða svo hnífstungum.

Það er reyndar alveg morgunljóst að hann mun lifna við í næstu bók. Margoft í bókinni er talað um að vargar geti lifað af í dýrinu sínu, það er rauður prestur við vegginn og þeir hafa nokkrum sinnum lífgað persónur aftur til lífsins. Sú staðreynd dregur smá úr högginu við að missa hann.

Dany gerir sitt allra besta til að vera góð drottning. En hún virðist ekki skilja af hverju fólk virðist ekki vera að missa sig úr þakklæti. Hún gerir það sem hún þarf til að tryggja friðin, en tilfinningin  er að það sé verið að leika á hana. Þegar hún virðist alveg að vera að ná tökum á stöðunni birtist drekinn hennar á hringleikum og allt fer til andskotans. Hún velur drekann.

Tengd mynd

Þættirnir voru mikið og réttilega gagnrýndir fyrir að Dany fór á korteri úr því að vera engill með dreka í að vera fjöldamorðingi og stríðsglæpamaður. Ef maður les Dance, vitandi að líklega verði hún skrýmsli, þá er umbreyting nokkuð augljós. Hún velur í loka bókarinnar eld og blóð, verður gaman að sjá hvernig saga hennar endar.

Svo er það Tyrion. Ef Jon og Dany eru að sigla hægt og rólega að myrkari vötnum, þá er Tyrion á hraðbát á leið inn í myrkrið. Kaflarnir hans lesast eins og hryllingsbók. Þegar Song of Ice and Fire hófst virkaði hann sem nokkuð heiðarlegur dvergur, sem var fórnarlamb fjölskyldu sinnar. Þegar Dance with Dragons lýkur er hann orðin að djöfulegum nýhilista sem virðist þrá það heitast að brenna heiminn.

Og hann er að nálgast Dany, að því virðist til að verða ráðgjafi hennar. Ef Martin tekst að breyta honum í aðalillmennið í sögunni, illmenni sem við mundum öll hafa samúð með, væri það eitt af hans stærstu afrekum sem penni.

Tengd mynd

Lokin

Það er ekki vandamál hvernig Dance With Dragons endar, heldur hvenær. Martin endar á að kíkja við hjá Cersei, Aryu og Jamie, bara staðfesta að þau séu á lífi. Jon endar með hnífin í bakinu, Dany útí óbyggðum umkringd Dothraki og Tyrion er búin að kaupa sé lítinn her. Á sama tíma stefna þónokkrir minni spámenn á höfuðvígi Dany: Meereene. Já og foringjar hennar byrja borgarastríð inni í borginni, sem þýðir að ein stór orrusta er að fara í gang. Já og plágan er komin á fullt í borginni. Já og það stefnir í risaorrustu í kringum Winterfell.

Tilfinningin er að það vanti svona fjórðung aftan á bókina. Það eru risaviðburðir að skella á, en þeir verða að bíða Winds og Winter. Sú bið slagar í heilan áratug, en hver veit, kannski gerast kraftaverk á næsta ári. Dance with Dragons er virkilega fín bók og við endurlesturinn koma kostirnir í bersýnilega í ljós. Það er bara böggandi að fá ekki að sjá ris sögurnar.

Það var sönn ánægja að endurlesa þessa bækur og skrifa um þær. Ég vona að þið hafið notið þess að lesa, ég ætla að skrifa einn pistil í viðbót og gera upp seríuna. Þangað til, lesið heil.

Game of Thrones endurlesin (fjórða bók – Feast for Crows)

Myndaniðurstaða fyrir feast for crows original cover

Frá útgáfu Storm of Swords til útgáfu Feast for Crows liðu fimm löng ár. Það hljómar kannski ekki langt í dag. Ekki eftir að sex ára bið eftir Dance with Dragons og svo átta ára bið eftir sjöttu bók í seríunni. Bið sem lengist á hverjum degi. Lesendur Song of Ice and Fire höfðu ekki vanist biðtímanum. Í dag er hann nánast brandari, þá var hann spennuþrungin.

Biðin og það að Feast fylgdi í fótspor bestu bókar seríunnar sprengdi væntingarnar upp úr öllu valdi. Því miður var bókin ekki meistaraverkið sem fólk taldi sig eiga rétt á. Feast for Crows er hæg, uppáhaldspersónur flestra eru hvergi sjáanlegar og þess vegna töldu margir hana vera áberandi verstu bókina í seríunni. En á sú gagnrýni rétt á sér? Af öllum fimm bókunum í þessum endurlestri fannst mér skoðun mín á Feast breytast mest.

Fimm ára biðin, hvað gerðist?

Höfundurinn hefur verið mjög opin með ástæðu þess að það liðu fimm ára milli bóka. Þegar hann hóf að skrifa Song of Ice and Fire átti að vera umtalsvert bil í innri tíma sögurnar milli bókana Storm of Swords og næstu, sem, sem þá átti að heita Winds of Winter (sem er áætlaður titill sjöttu bókarinnar). Ástæða bilsins var meðal annars að leyfa ákveðnum persónum að þroskast og vaxa úr grasi. Líklegast hafa það verið eftirlifandi Stark börnin, kannski Deanerys og kannski einhverjir fleiri. Einni hefði verið forvitnilegt að sjá í hvaða aðstæður Lannister bræðurnir og Varys hefðu verið komnir. En þegar hann hóf skrifin þá fannst honum að of margir viðburðir úr stökkinu skiptu máli og hann var farin að brasa við ýmsar leiðir til að koma því til skila. Eftir nokkuð langar tilraunir með þetta ákvað hann að byrja upp á nýtt.

Þá kom næsta vandamál: Sagan var orðin allt of víðferm og persónurnar sem skiptu máli nánast hlægilega margar.Lauslega talið eru í Feast for Crows og Dragons samtals átta sögusvið og samanlagt tuttugu þrjár mismunandi sjónarhornspersónur! Að troða allri þessari sögu í eina bók hefði verið þýtt að hún hefði þurft að vera eins og þrjár hringadrottinssögur að lengd. Þannig að hann tók aftur ákvörðun um að breyta til, skipti sögunni gróflega eftir sögusviðum og lét Feast For Crows og langa kafla Dance With Dragons gerast samtímis.

Augljósa spurningin er: Hefði mátt klippa eitthvað út? Hjá mér vakna blendnar tilfinningar um það. Það má færa góð rök fyrir að stórir hlutar Feast for Crows mættu missa sín. Sagan sem slík þarf ekki endilega á tíu köflum Brienne að halda, bara sem dæmi. Það má lýsa þeim köflum sem „Brienne fer í göngutúr, lendir í veseni og finnur ekki það sem hún leitar að.“ Meira um hana síðar. Að sama skapi eru hlutarnir sem væri auðveldast að skera sumir að uppáhalds köflum mínum í bókinni. Stundum er gerður greinarmunur á bókum (eða kvikmyndum) þar sem sagan er drifkrafturinn og bókum þar sem persónurnar eru það. Þessir kaflar eru ástæðan fyrir að Song of Ice and Fire fellur fyrst og fremst í seinni flokkinn.

Tveggja kvenna tal

Það er Cersei og Brienne sem eiga flesta sjónarhornskafla í Feast for Crows. Ég er ekki viss um að hægt sé að finna tvær ólíkari aðalpersónur en þær. Brienne sór eið undir lok síðustu bókar, hún sór að finna Sönsu Stark og vernda hana á meðan Cersei er búin að fá það sem hún vildi öllu framar: Vald.

Saga Brienne í þessari bók hefur hvað mest verið gagnrýnd af efni bókarinnar. Hún hálf asnast frá einum stað til annars, er ekki beint færasti leitarhundurinn og hittir á ferðum sínum hina og þessa minni spámenn Westeros. Hún kemur sér líka í hrottaleg vandræði inn á milli og hittir að lokum Lafði Steinhjarta, persónu sem því miður var klippt út fyrir þættina.

Það sem er frábært við þessa kafla er að í fyrsta sinn í Song of Ice and Fire fáum við að kynnast manninum á götunni. Fantasíur hafa alltaf verið gjarnar á að fjalla fyrst og fremst um hetjurnar, konungana og heljarmenni. Stríð sem leggja hálft meginland í rúst virðast of oft hafa nær engar afleiðingar. Í þessum köflum fáum við að sjá áhrifin sem stríð undanfarinna bóka hefur haft. Það er ekki laust við að maður klóri sér í hausnum og spyr sig „fagnaði ég ekki þegar þetta stríð hófst fyrir nokkrum bókum?“  Þessir kaflar innihalda líka eina eftirminnilegustu einræðu seríunnar, þegar prestur einn minnir Brienne á hver upplifun allra þeirra sem eru ekki riddarar er af stríði. Martin tekst í allri seríunni að blanda saman barnslegri spennu yfir riddurum og hetjudáðum, og svo þekkingu á það hvað slíkir hlutir þýða í raun og veru. Hvergi tekst það betur en í þessari bók.

Þessi bók minnir mann líka á að Cersei í bókunum er ekki sama Cersei og í þáttunum. Hér, loksins, í fjórðu bókinni fáum við að sjá heiminn með hennar augum. Niðurstaðan er ákveðin vonbrigði. Málið er að hún er ekki nærri því jafn snjöll, ekki nærri því jafn elskuð og ekki nærri því jafn hættuleg og hún sjálf heldur. Niðurstaðan er röð mistaka, sem sum eru lesendanum svo augljós að það er nánást pínlegt. Henni tekst á mettíma að fæla frá sér alla bandamenn, sleppa lausri plágu trúarofstækismanna og skapa hættulega nýja óvini. Ekki amalegt á tíu köflum.

Myndaniðurstaða fyrir cersei book and show

Undir lokin er hún fangi kirkjunnar, fær ekki að tala við bandamenn sína og er niðurlægð aftur og aftur af nunnunum sem gæta hennar. Allt vald hennar er gufað upp. Þá setur hún niður síðasta tromp sitt: grátbiður Jamie um hjálp. Hún trúir því að hann muni koma ríðandi til baka og bjarga henni með einvígi fyrir augum guðanna. Það hvarflar ekki að henni að handaleysi hans stöðvi hann. Ekki hvarflar heldur að hann hundsi beiðni hennar, sem hann gerir. Kaflarnir þeirra tveggja, þar sem lesandinn fær innsýn í tilfinningalíf þeirra og að hvers vegna sambandi þeirra virðist lokið, eru átakanlegir. Því þó ást þeirra sé ógeðfeld er hún samt ást, ekki satt?

Brautir beggja liggja niður á við og enda á að þær eru komnar í gífurlega klemmu, sem þær gætu ekki komist úr hjálparlaust. Það verður að bíða seinna bóka að fá niðurstöðu í ævintýri þeirra. Eins og reyndar flestra í seríunni.

Skuggarnir

Strax í Game of Thrones var Martin farin að leika sú list að kynna persónur löngu áður en þær stigu fram á sviðið. Tywin, Roose Bolton og Stannis voru lesendum kunnugir í gegnum orð annarra löngu áður en þeir birtust í fyrsta sinn. Í Feast for Crows snýr Martin þessu við. Persónur sem eru horfnar af sviðinu, kannski tímabundið, gegna lykilhlutverki í innra lífi sjónarhornspersóna bókarinnar.

Augljósasta dæmið er Tyrion. Jamie er haldin ógurlegu samviskubiti, enda var það hann sem gerði Tyrion kleift að myrða föður þeirra. Cersei hatar litla bróðir sinn af öllum lífsins sálar kröftum og ákvarðanir hennar litast óhjákvæmilega af því. Lesandinn veit ekki fyrr en eftir Dance With Dragons hvað Tyrion er að bralla, en forvitninn um ævintýri hans eykst gífurlega.

Annar stór skuggi er Tywin Lannister. Börnin hans uppgötva sér til hryllings hversu gapandi tóm gamli skyldi eftir sig og þurfa að reyna að feta í risa fótspor hans. Mig grunar, rétt eins og með Eddard Stark, þá munum við sjá afleiðingar dauða Tywins þangað til sagan er á enda.

Önnur persóna hvarf í lok Storm of Swords. Varys kemur aldrei fyrir í Feast og birtist í raun ekki aftur fyrr en í eftirmálanum fyrir Dance with Dragons. Engin saknar njósnarans en samt kemur í ljós að hann var töluvert mikilvægari en fólk eins og Cersei vildi halda. Litlir hlutir gerast í bókinni sem manni grunar að Varys beri ábyrgð á, en eins og oft áður með hann þá er engin leið að vera viss.

En samt gerist eiginlega ekki neitt…

Sama hversu heillandi persónurnar eru og sama hversu vel tekst til við að skapa heim bókana þá er ekki hægt að lýta fram hjá hversu lítið gerist í bókinni. Það eru engar risaorrustur, það eru fá sjokkerandi dauðsföll og pólitíkinn verður aftur að aðalviðfangsefninu. Eins og ég sagði að ofan þá enda báðir stærstu söguþræðirnir á bóka útgáfu „sjáumst í næsta þætti.“ Ég á ekki erfitt með að skilja að lesendur hafi verið pirraðir. Svona álíka pirraðir og Cersei þegar hún kemst að því að Bronn hafi skýrt son sinn Tyrion, án nokkurs vafa fyndnasta augnablik bókarinnar.

Von mín er að við munum, þegar seinustu bækurnar koma út, sjá þessa bók eins og Clash of Kings. Það er að segja nauðsynleg til að bombur næstu bókar virki. Næsta bók heldur reyndar ekki áfram þar sem frá var horfið, heldur gerist á sama tíma, en öðrum sögusviðum. Það er auðvitað Dance With Dragons, sem ég ætla að fjalla um næst í þessari seríu.

Game of Thrones endurlesin (Þriðja bók – A Storm of Swords)

Þá er komið að Bókinni. Með stóra b-inu og skáletrinu. Bókinni sem skilur Song of Ice and Fire frá öðrum fantasíum, bókinni sem ég (bókstaflega) kastaði í vegg þegar ég las frægasta atriðið. Bókin þar sem lesenda verður endanlega ljóst að engin mun lifa hamingjusamur til æviloka. Það er komið að Storm of Swords.

Bókin sjálf.

Það er erfitt að horfa framhjá hversu þykk bókin er. Flestar útgáfur eru um í 1200 blaðsíður og henni hefur oft verið skipt upp í prentun í tvær eða jafnvel fleiri bækur. Franska þýðing bókarinnar var gefin út í fjórum bindum, sem er kannski full mikið af því góða. Spurning hvort útgefandinn hafi þurft að fjölga seldum eintökum vegna fjárhagsörðuleika.

Eina bókin í seríunni sem er lengri er Dance with Dragons. Það er samt mikilvægur munur á. Í Storm of Swords eru ekki nema 10 sjónarhornspersónur, í Dance eru þær 16(!). Storm of Swords er mun þéttari og hraðari bók en maður hefði búist við miðað við stærð.

Sagan skiptist í þrennt, en í fyrsta sinn í seríunni þá flakka persónur á milli sviða. Lungað í bókinni gerist í suðrinu og segir frá hápunkti fimm konunga stríðsins. Í norðrinu nær stríð Jon Snow við villimennina hápunkti sínum og þegar bókinni lýkur er því stríði lokið og nýja ógn komin almennilega í ljós. Þættirnir stóðu sig mjög vel í að byggja upp yfirnáttúrulega óvinarins, í bókunum er auðvelt að gleyma tilveru þeirra, þangað til í Storm of Swords.

 Í austri nær breytir Deanyris um stefnu og krýnir sig drottningu borgarríkis eftir blóðuga orrustu. Bókinni lýkur og allt virðist vera með nokkuð kyrrum kjörum, en glóðir loga undir yfirborðinu sem við munum fara í þegar kemur að og Dance with Dragons.

Persónurnar.

Í þessari bók verður ljóst að sögu Deanerys og Jon mun ekki ljúka fyrr en serían klárast. Þau fá að ljúka bókinni á ákveðnum hápunkti, Jon sem leiðtoginn á veggnum með úlfinn sér við hlið og óvin að nálgast. Deanerys ákveður að taka sér pásu, æfa sig í að stjórna og reyna að skilja ekki endalausa sviðna jörð. Við vitum sem lesendur að vegurinn verður grýttur fyrir þau, en að sama skapi er næstum hægt að tala um að þau séu komin á fjallstind hér. Ef seríunni lyki hér, myndum við tala um að þau hefðu sigrað eins og í ævintýri.

Þrátt fyrir alla spennuna fyrir austan og norðan þá eru stjörnur bókarinnar Lannister bræðurnir Jaime og Tyrion. Sá síðarnefndi vaknar eftir orrustna um Kings Landing og uppgötvar að það er búið að senda bandamenn hans í burtu, pabba hans er búin að taka starf hans og já, öllum er drullusama um að hann bjargaði borginni. Eftir að hafa eytt allri síðustu bók í að byggja upp vald sitt er það rifið af honum. Sem „verðlaun“ fyrir vel unninn störf er honum skipað að giftast Sönsu Stark, 14 ára ungling sem kennir honum um dauða fjölskyldu sinnar. Svo fer líf hans versnandi.

Myndaniðurstaða fyrir tyrion and jaime lannister artwork
Þættirnir gerðu flest rétt, en Peter Dinklage er töluvert myndarlegri en bókin lýsir.

Það var sjokk þegar kom í ljós að Jaime væri sjónarhornspersóna í þessari bók. Það er auðvelt að gleyma því hversu mikið lesandi fyrirlítur hann fyrstu tvær bækurnar. Eitt stærsta afrek Martins sem rithöfunds er að snúa því við og gera hann að hetju í augum lesandans. Í þessari bók er sjálfsmynd Jaime rifin í sundur þegar hann missir höndina sem hann sveiflar sverðinu með. Þetta er ákvðið minni í Song of Ice and Fire, persónur skilgreina sig út frá einhverju ákveðnu sem er rifið frá þeim. Þegar sagan sem persónurnar segja sjálfum sér er oðrin lygi, þá uppgötvum við hvaða mann þau hafa að geyma. Í tilfelli Jaime kemur í ljós að undir töffaranum er almennilegur gaur sem trúir á heiður og hetjuskap.

Á sama hátt er missir Tyrion þegar tæpa tengingu við fjölskylduna sem hann hafði skilgreint sig út frá. Arya telur sig hafa misst alla fjölskylduna, Sansa missir drauminn um gott hjónabönd og sögu. Það kemur í ljós síðar hvað við finnum undir yfirborðinu hjá þeim.

Það er erfitt að lesa Aryu og Catelyn kaflana í þessari bók. Þær skilgreina sig báðar mikið út frá fjölskyldunni sinni, sem er svo gott sem þurrkuð út. Í tilfelli Aryu er það svo sárt að endurlesa hversu nálægt hún virðist að komast í öruggt skjól og aftur og aftur er það rifið frá henni. Í lok bókarinnar segir hún bless við heimaland sitt og hefur nýja sögu fjarri því, sem mun vonandi vera aðeins sársaukaminni. Saga Catelyn lýkur líka, í frægustu senu seríunar. En hún snýr aftur í lok bókarinnar, því til næst óþekkjanleg eftir þrjá daga handan móðurnar miklu.

Brúðkaup er hættulegri en orrustur.

Það eru fleiri í þessari bók en orrustur. Það er ekki að segja að stríðið sé ekki á fullu, en persónurnar sem Martin kýs að fylgja eru ekki þær sem eru í fremstu víglínu, nema Jon fyrir norðan og Dany fyrir austan. Þetta er bara eitt af mörkum merkjum þess að Song of Ice and Fire er fyrst og fremst pólitísk saga.

Fyrsta brúðkaupið er brúðkaup Sönsu og Tyrion, hjónabands sem gleymist oft þegar sagan er rædd. Hún er fórnarlamb í þessu og Tyrion þráir ekkert meira en að hún læri að elska hans þrátt fyrir galla hans og ættarnafn. Sem hún mun aldrei gera og nokkur hundruð síðum seinna er hún horfin á brott og hann komin í fangelsi.

Næst er rauða brúðkaupið. Kannski eftirminnilegasta sena í seríunni. Við endurlestur tekur maður eftir öllum vísbendingunum sem Martin kryddar textann með. Hvað eftir annað er minnst á rétt gesta til verndar, þegar Catelyn fær mesta skítseiði bókarinnar Walder Frey til að gefa þeim brauð og salt líður lesanda eins og þau séu örugg. Kemur í ljós að Walder Frey og Roose Bolton er nokkuð sama og fornar hefðir og kjósa að skipta um lið. Það sem kom mér á óvart er hversu stuttan tíma þetta tekur allt saman. Arya er á staðnum og hún og Catelyn fá samtals þrjá kafla til að upplifa þetta allt saman frá upphafi til blóðugs enda. Bara sí svona er Robb, Catelyn og hálfur tugur aukapersóna úr sögunni og endanlega ljóst að sigurvegari stríðsins verður Lannister fjölskyldan.

Mynd eftir Gustavo Pelssari

Þriðja brúðkaupið er svo brúðkaup Joffrey og Margaery. Það eru nokkrar persónur sem urðu mun stærri í sjónvarpsþáttunum en bókinni, ein þeirra er Margaery og amma hennar Þyrnidrottningin. Í bókunum sjáum við þetta brúðkaup frá sjónarhorni Jaime, Tyrions og Sönsu. Í lok veislurnar er Joffrey dáinn og Tyrion ásakaður um morðið. Það er aldrei alveg ljóst hver eitraði fyrir konungnum en vísbendingar um að Þyrnidrottningin og Littlefinger hafi drepið hann.

Varstu búin að gleyma fjórða brúðkaupinu? Ég steingleymdi því. Eftir dauða Joffrey sleppur Sansa með hjálp Littlefinger og þau halda í dalinn. Þar er einni stærstu ráðgátu Game of Thrones svarað, hver myrti Jon Arryn og kom allri sögunni af stað. Kemur í ljós að það var konan hans þökk sé afskiptasemi Littlefinger. Þau eiga sér langa og flókna sögu og í lok Storm of Swords eru þau hjón og að lokum myrðir hann hana. Næstu tvær bækur er hann og Sansa með litla hliðarsögu en allt bendir til að þau verði í risa hlutverki þegar fram líða stundir.

Lisa Arryn sjálf er ákaflega pirrandi persóna. Satt besta að segja er hún svo geðsjúk og sturluð að manni finnst hún varla vera manneskja, ein af fáum persónum í sögunni sem hægt að segja það um. Senurnar á milli hennar og Littlefinger eru ögn bjánalegar, hún er svo sturluð af ást á honum en hann vill augljóslega ekkert með hana hafa en er meira en tilbúin að leika á tilfinningar hennar eins og fiðlu.

Þessi fjögur brúðkaup eru vélin sem knýr Storm of Swords áfram. Fyrir utan það sem gerist í öðrum heimshlutum snýst allt í sögunni um að koma persónum í þessi brúðkaup og að takast á við afleiðingarnar. Að byggja fantasíu upp á þennan hátt, þar sem stóru viðburðirnir eru brúðkaup og réttarhöld (meira um það eftir smá stund) er ekki einstakt en mjög sjaldgæft. Þessi áhersla Martin á hlutina sem valda stríðinu frekar en stríðið sjálft er að hluta til það sem gerði seríuna jafn magnaða og raun ber vitni.

Stormurinn.

Game of Thrones, Clash of Kings og fyrri helmingur Storm of Swords ná risi sínu um miðja þessa bók. Í seinni helmingi hennar er nánast stanslaus hasar á öllum vígstöðvum. Jon fer úr að vera njósnari í að vera nefndur svikari og svo hetja og leiðtogi. Dany uppgötvar svik Jorah, sendir hann í burtu og tekur sér sæti í hásæti Meereen. Tyrion virðist ætla að koma sér í burtu frá höfuðborginni og er ásakaður um konungsmorð, virðist ætla að sleppa eins og hann gerði tveim bókum fyrr og tapar, sleppur en uppgötvar að bróðir hans og pabbi hafa logið að honum í 20 ár um eðli fyrsta hjónabands hans og myrðir föður sinn. Sansa sleppur frá höfuðborginni. Arya sleppur frá Westeros. Bran Stark sleppur í öruggt skjól norðan veggsins. Stannis fer norður og snýr öllu á hvolf. Theon Greyjoy þykist hafa framið hrottalegan glæp og er refsað fyrir það. Ramsay Snow og Roose Bolton eru allt í einu orðnir stærstu kallarnir í norðrinu. Ég er ekki einu sinni búin að minnast á fólkið frá Dorne og það sem er í gangi á Járneyjunum.

Þessi stormur er það sem gerir seríuna jafn vinsæla og raun ber vitni. Hann er hápunktur um það bil 2000 blaðsíðna uppbyggingar. Ráðgátur frá fyrstu köflum Game of Thrones eru leystar og stríðinu svo gott sem lýkur eftir tvær og hálfa bók af átökum. Maður skilur vel að Martin hafi upphaflega ætlað að láta nokkur ár líða í sögunni. Í lok Storm of Swords langar manni ekkert meira en að fá smá pásu frá hasarnum. En þannig virkaði sagan ekki og maður lætur sig dreyma um að þegar Winds of Winter kemur loksins út verði annar álíka stormur í henni.

29 pælingar, lexíur og efasemdir á 29 ára afmælisdegi.

Myndaniðurstaða fyrir birthday cake one candle

Það eru tveir dagar á árinu þar sem maður endar alltaf á að pæla í lífinu og förnum veg. Áramótunum og afmælinu manns.  Það er samt skrýtið að verða 29. Þetta er engin áfangi, markar engin tímamót. Maður er bara einum degi eldri en í gær, árinu eldri en í fyrra.

Í viðleitni minna við að stela góðum hugmyndum Ryan Holiday datt mér í hug að setja saman þennan lista. Það eru líkur á að eitthvað hér verði greinar á næstu mánuðum, þannig að ef eitthvað vekur áhuga þætti mér gaman að heyra af því. Röðin er handahófskennd og mér finnst ástæða til að rökstyðja sumt en margt ekki.

 1. Það er skítlétt að vinna yfir sig. Ég vil ekki vita hvað ég hef unnið mikið á árinu. Ég vil ekki vita hversu mörgum fleiri nóttum ég hef eytt í Húsafelli en íbúðinni minni. Það var rétt í smá stund að ofkeyra sig en kostnaður fylgir og hann ber vexti.
 2. Svefn er, gróflega áætlað, þúsund sinnum mikilvægari en við viljum viðurkenna.
 3. Tíu þússarinn gildir. Borga tíuþúsund kall auka á mánuði inn á lánin. Munar hratt um það.
 4. Sama gildir um tíu mínútna hreyfingu á dag.
 5. Góðir hlutir gerast mjög, mjög hægt. Vona að ég bæti við að ári: og svo rosalega hratt.
 6. Það er eitthvað við að eiga vini sem maður hittir reglulega sem hóp. Sami hópur með svipað erindi aftur og aftur.
 7. Námskeið eru snilld. Fór á Jöklu 0 í ár og er á leið í meirapróf. Vonandi fleiri svona helgar á næsta ári.
 8. Gufa, hugleiðing og ísböð eru snilld, sérstaklega ef iðkað er reglulega.
 9. Samfélagsmiðlar eru samfélagseitur. Áhrif þeirra fara síst skánandi.
 10. Rútína er góð, sérstaklega þegar kemur að hlutum sem eru erfiðir en þarfir.
 11. Það er ekkert samasemmerki milli þess að einhver sé ósammála þér og hann sér vondur. En opinber umræða snýst sífellt meira um að útskýra af hverju hinn hliðin er beinlínis Satan.
 12. Umhverfisverndarhreyfingin þarf að taka kjarnorku í sátt. Með áhugaverðari pælingum sem ég hef rekist á undanfarið, en á eftir að lesa mér til um þessa hugmynd
 13. Ástæðan fyrir Trump, Brexit og Sigmundi Davíð er nánast aldrei mannvonska/heimska.
 14. Öfgar eru vandamál í báðar áttir stjórnmála, en okkur vantar líka nothæfa skilgreiningu á öfgum.
 15. Skali skiptir máli. Sömu aðferðir ganga ekki fyrir Hafnarfjörð og ESB.
 16. Það er nánast ekkert orsakasamband milli þess að vita mikið og vera góður leiðsögumaður.
 17. Túrismi er löngu komin til að vera, en hann verður líklega aldrei virtur.
 18. Fljótasta leiðin til að finna klaufamistök í texta er að birta hann og líta svo hratt yfir hann. Augun sogast að svona 18 vandræðalegum villum samtímis. Hæga aðferðin er að fá aðra til að lesa yfir fyrir sig. Hæga aðferðin er betri.
 19. Þegar fólk segir að einhver líti út fyrir að vera yngri en hann er, meinar það grennri en jafnaldrar hans.
 20. Fólk sem eru ógurlega visst með allt, hræðir mig meira með hverju ári sem líður. Alltaf þegar ég sé fólk staðhæfa hvað stjórnmála menn vilja, nákvæmlega hvernig heimurinn virkar eða hvernig samfélagið ætti að breytast hugsa ég: Hvernig eruð þið svona viss? Hvað ef þú hefur rangt fyrir þér.  
 21. Því færri hlutir og stefnur sem eru hluti af sjálfsmynd manns, því betra.
 22. Maður ofmetur stórlega hvað maður getur gert á degi, meira það sem maður getur á ári. En vanmetur stórlega það sem er hægt á fimm árum.
 23. Besti dagurinn er planaður daginn áður. Jafnvel fyrr.
 24. Ég veit núna hvernig minn fullkomni (venjulegi) dagur er. Það er frelsandi og skemmtilegt. Næsta skref er að endurtaka hann ítrekað.
 25. Að halda vináttuböndum sterkum verður erfiðara með árunum. Líka mikilvægara.
 26. Það er erfitt að halda góðum vana gangandi og halda áfram að gera svipaða hluti aðeins betur. Samt ekki jafn erfitt og að byrja.
 27. Ég efast um bannið við steranotkun í atvinnuíþróttum.  Hver er tilgangurinn með reglu sem við vitum að þúsundir brjóta. En ef við samþykkjum sú rök, hvað segir það um stríðið gegn fíkniefnum.
 28. Lífið er alltof stutt fyrir leiðinlegar bækur. Nýlega kláraði ég bók á þrjóskunni einni saman í fyrsta sinn síðan í menntó. Það voru mistök.
 29. Það er geggjuð tilfinning að láta vaða. Þessi síða er eitt af nokkrum verkefnum sem ég hef verið að velta fyrir mér allt of lengi. Var stressaður, leið kjánalega með þessa hugmynd. Síðan fer hægt af stað. Hingað til hefur engin greinanna verið nákvæmlega eins og ég vildi. Þær hafa ekki heldur verið jafn margar og ég vildi. Mér sama. Síðan er komin fjórum mánuðum lengra en ef ég hefði ekki látið vaða. Eftir ár verður hún komin 16 mánuðum lengra.

Þetta er það sem hefur verið að veltast upp í hausnum á mér síðustu viku eða svo. Hver veit hvort ég hafi rétt fyrir mér með eitthvað af þessu. Ég varpa þessu fram til að losna við þetta úr höfðinu á mér í bili, vonandi skemmtir þetta þér eða fær þig til að spyrja þig áhugaverðra spurninga.