Leiðin að Laugarvegi 2024: Þriðji hluti – Sumarið er tíminn

Þessi pistill er sá þriðji í röð pistla sem ég er að skrifa um ferðalagið að Laugavegshlaupinu 2024. Þann fyrsta má finna hér og annan hér.

Leiðindameiðsli.

Þó ég hefði ekki farið til læknis um það leyti sem ég skrifaði síðasta pistil var nokkuð ljóst að einhverskonar álagsmeiðsli voru að myndast undir ilinni á mér. Eins og ég skrifaði um síðast fór þetta illa í skapið á mér og skelfilega með æfingarplanið mitt. Ég gerði nokkrar breytingar til að reyna að vinna með þetta. Ég keypti mér innlegg í skóna sem virtust hjálpa slatta, ég hætti að ganga í vinnuna, fór á hjólinu flesta daga í stað þess að ganga og snarminnkaði hlaupin. Gott fyrir ilina en á engan hátt kjörundirbúningur fyrir ofurhlaup. 

Í maí virtist verkurinn vera að hverfa hægt or rólega. Þá var ég varla búin að hlaupa í tvær vikur og hafði þungar áhyggjur. Ef verkurinn kæmi aftur strax og ég byrjaði að hlaupa á fullu sá ég ekki fram á að geta æft að viti fyrir Laugaveginn. Ég er ansi mikið fyrir að halda áfram þó mig verki, en það eru takmörk fyrir hvað er skynsamlegt.

Um þetta leyti ákvað ég að Akfrafjall hlaupið yrði prófsteinn. Ef ég væri að drepast í ilinni eftir það myndi ég kanna hvort ég gæti selt miðan minn í Laugaveginn, eða frestað hlaupinu um ár. Ef engin verkur gerði vart við sig myndi ég gleyma þessu helvíti, æfa eins og ég gæti síðustu átta vikurnar fram að hlaupi og keyra á dæmið.

Akrafjall Ultra 2024

Vikuna fyrir hlaupið var ég upp og niður. Gallinn við að fylgjast vel með hvort einhver verkur sé að gera vart við sig, er að einbeitingin er gífurleg og maður tekur eftir hverju einasta smátriði þar sem verkurinn ætti að vera. Einn daginn fann ég ekki fyrir neinu, annan var ég stífur og slæmur. En síðustu daga fyrir Akrafjallið var ég allt í lagi.

Kannski vita reyndir hlauparar hvernig kjörið kvöld fyrir hlaup er. Ekki veit ég það. En líklega er kjörin undirbúningur ekki afmælistónleikar XXX Rottweiler. Viðburðurinn var gargandi snilld, en ég og félagi minn mættum allt of snemma á staðinn og enduðum á að standa í tvo-þrjá tíma fyrir tónleikana og svo í gegnum allt þriggja tíma settið sem Erpur og Bent buðu upp á. Stórfenglegir tónleikar, en fæturnir voru vel þreyttir þegar ég kom heim, töluvert eftir áætlaðan svefn tíma.

Aksturinn upp á Akranes var þægilegur og góður og við gátum ekki verið mikið heppnari með veður. Skipuleggjendur höfðu ákveðið að hefja leik við Ultraform stöðina og klára við ÍA völlinn. Ég áttaði mig engan vegin á hversu langt væri þarna á milli en grunaði að það væri betra að ganga vegalengdina fyrir hlaupið en eftir það. Ég var óvart mættur löngu fyrir rástíma, hafði tíma til grípa kaffi á leiðinni niður að Ultraform, fylgjast með hægfara jeppa missa dekkið undan sér og svo sjá fólkið í 27 kílómetra hlaupinu ræsa. Það reyndist happ að mæta svona allt of snemma, þar sem ég óhjákvæmilega gleymdi einhverju í bílnum og þurfti að endurtaka gönguna.

Ég verð að hrósa fólkinu sem skipulagði hlaupið. Þegar maður mætir á íþróttaviðburði er alltaf orka í loftinu. Það er erfitt að lýsa henni, hún er aldrei eins og örruglega eru hún að miklu leyti í höfðinu á manni. Maður skynjar það þegar skipulagið er gott, þegar þáttakendur eru upp til hópa í góðu skapi og maður veit að ekkert óvænt er líklegt til að gerast. Bara smáatriði eins og að það væru auka kamrar fyrir við rásmarkið og það var augljóst hvar maður gæti fyllt á vatnsbrúsa, þetta skiptir hellings máli. Þetta eru smáatriðin sem greina milli góðrar upplifunar og slæmrar.

Einnig hvernig er brugðist við þegar maður biður um hjálp, þó sú beiðni hafi verið fáranleg. Þegar ég var byrjaður að hita upp tókst mér að slíta reimina á skónum mínum. Ég hef aldrei lent í þessu áður og ótrúlegt en satt er lítið um búðir við strandgötu á Akranesi þar sem maður getur gripið reim. Ég spurði við skráningarborðið hvort þeir ættu reimar. Þeir bentu mér á skipuleggjanda, sem gerði sér lítið fyrir og kippti reim úr eigin skó og lét mig hafa. Ótrúlega þakklátur fyrir svona viðbragð (og fyrirgefðu að reimin komst ekki til skila eftir hlaupið, ég lét sjálfboðaliða hafa hana).

Svo var komið að hlaupinu sjálfu. Ein af hetjunum úr bakgarðshlaupinu mikla ræsti okkur af stað. Hann deildi með okkur möntrunni sinni „this is what I trained for, this is what I came for.“ Svo sagði hann orðin sem ómuðu í hausnum á mér út hlaupið: „Muniði þetta þegar þið eruð að drepast á eftir og TUSSISTI ÁFRAM.“ Ég hugsaði mikið um þetta næstu tvo og hálfa tíma.

Byssan gall. Ég reyndi eftir fremsta megni ekki að hugsa um hlauparana í kringum mig, reyndi að halda jöfnum og fínum hraða sem mér leið eins og ég gæti keyrt á í sirka 2-3 tíma. Hlaupaleiðin í þessu hlaupi var frábær. Langur beinn og jafn kafli (eða eins beinn og utanvegahlaup verða), áður en hlaupið var upp á hól í miðri skórækt og svo að Akrafjalli sjálfum.

Eftir tíu mínútur fór ég að finna fyrir ilinni sjálfri. Ég ákvað að njóta þess að hlaupa, ef fóturinn ákveddi að gefa sig eftir þetta hlaup yrði þetta líklega eina stóra hlaupið mitt í sumar og þá væri eins gott að hafa gaman. En þegar leið á hlaupið hvarf þessi verkur alveg og ég hef ekki fundið fyrir honum síðan. Þannig að mögulega ofhugsaði ég þetta eða kannski þurfti ég þessa pásu sem ég tók. Hver veit.

Eftir um það bil tíu flata kílómetra var komið að því að klífa Akrafjall. Það var steikjandi hiti í sólinni og ég þambaði um það bil tvöfalt magn af drykkjum miðað við venjulega. Í fyrstu hlaupunum í mínum í fyrra gerði ég sú mistök að reyna að keyra upp svona brekkur. Ég er orðin aðeins vitrari og reyndi að fara upp þetta fallega fjall á jöfnum og áreynslulausum hraða. Ég var nokkuð sáttur með hvernig gekk upp (og þakklátur fyrir björgunarsveitarkappana sem stóðu rólegir við eina tæpa staðinn á leiðinni, fylgdi mikil ró að vita af þeim). Þegar á brúnina var komið var útsýnið stórfenglegt og freistandi að standa bara og njóta útsýnisins.

Mynd tekin af Akranesidag.wordpress.com

Það eina sem ég get kvartað yfir í þessu hlaupi er að þurfa hlaupa niður sömu leið og tugir manna eru að koma upp. Lang flestir voru vel vakandi og þegar við mættumst var eiginlega alltaf þægileg leið til að fara framhjá en þetta var enga síður böggandi. Ég hef ekki ennþá náð tökum á listinni að fara niður svona langar brekkur, eins og á leiðinni upp reyni ég að gera þetta eins áreynslulaust og ég get, án þess að bremsa og auðvitað aðal málið að detta ekki. Mér leið ansi vel þegar ég kom niður fjallið, tróð í mig nassli á drykkjastöðinni og lagði af stað í átt að bænum.

Leiðin niður að ÍA vellinum var ansi góð, þó ég hafi verið komin á þennan skrýtna stað sem gerist í lok allra hlaupa: Að vilja keyra á fullu gasi, en vilja ekki klára mig of snemma, að reyna að njóta síðustu kílómetrana en ekki þrá neitt nema að ljúka þessu af. Í Tindahlaupinu í fyrra sprakk ég gjörsamlega síðustu þrjá kílómetrana, í þetta sinn leið mér eins og ég gæti vel haldið áfram á góðum hraða. Hjálpar að síðustu fimm voru svo til flatir.

Þegar ÍA heimilið kom í ljós glotti ég upp að eyrum og lauk á fínum tíma. Mér fannst pínu skrýtið að klára inn í æfingarhúsinu en var ánægður með að ljúka á þeim tíma sem ég náði og afar, afar glaður að komast í sturtu í sundlauginni áður en ég keyrði heim með sóló plötuna hans Bent á fóninum.

Næstu vikur og frí erlendis.

Mér til ómældrar gleði fann ég ekkert til í ilinni daginn eftir Akrafjalls hlaupið. Vissulega harðsperrur á þriðja stigi, en engin iljaverkur. Sú gleði breyttist hratt í blöndu af stressi og tilhlökkun. Núna var engin afsökun til að mæta ekki til leiks. Þegar maður setur stór markmið er alltaf einhver rödd sem hvíslar að manni að þetta sé slæm hugmynd og óskar þess að maður þurfi ekki að gera erfiða partinn, sem sagt að klára helvítið. Þessi rödd verður oft hærri þegar maður fer að tala um það sem maður ætlar að gera. En nú þurfti þessi blessaða rödd að gjörusvovel að þegja.

Næstu tvær vikur vann ég vikulega kílómetrafjöldan aftur upp, ásamt afar gleðilegu glímu móti og að fá bláa beltið í jitsi. Í athöfninni þurfti ég að glíma í næstum klukkutíma viðstöðulaust við andstæðinga og vini sem skiptust á að pína mig. Ég mun hafa verstu mínúturnar í athöfninni þegar ég er að bugast í hlaupinu, sama hversu vont hlaupið er efa ég að það verði verra en að vera með hnéið á nítíu kílóa kick-box þjálfara á maganum (ég veit, fleyg lokaorð).

Á síðasta degi maí flugum við í frí til Eistlands. Tvær vikur af engu að gera nema að borða, njóta og hlaupa. Fullkomin tími til að ná að koma fullt af kílómetrum í lappirnir og vonandi vinna upp aðeins af töpuðum tíma.  Ilin var svo gott til friðs allan tíman, mér til áframhaldandi gleði.

Í öryggisleitinni í Keflavík afrekaði ég að gleyma úrinu mínu á bakkanum. Ég vona að hver sá sem stakk úrinu í vasann njóti þess að eiga þetta úr. Nema náttúrulega að það sitji enn þá á botni bakkans sem ég setti það í og fari hring eftir hring í öryggisleitinni, dag eftir dag og vonar að eigandinn snúi aftur.

Þó ég sé ágætlega kunnugur staðháttum í Eistlandi ákvað ég að skynsmalegast væri að hlaupa bara í beina línu fram og til baka og nota símann til að halda utan um hlaupinn. Það reyndist afar sterkur leikur, því í eina skiptið sem ég hljóp á svæði sem ég þekkti ekki og reyndi að hlaupa hring, þá missti ég af afleggjara og áður en ég vissi af var ég komin að einhverjum akri, á vegi sem ég þekkti ekki. Gerði hlaupið þeim ennþá skemmtilegra að í fyrsta sinn klikkaði GPS-ið á símanum og mér tókst samkvæmt símanum að ferðast kílómeter á 90 sekúndum. Leyfi ykkur að dæma mig fyrir þetta ofurhlaup:

Að hlaupa án úrsins var furðu frelsandi. Ég hef hlaupið mikið eftir púlsi síðustu mánuði en ég gerði mér enga grein fyrir hversu oft ég var farin að kíkja á púlsinn til að sjá hvernig ég væri. Með símann fastann í rassvasanum hljóp ég bara eftir tilfinningunni, vissulega alltaf aðeins hraðar en ég hefði átt að gera en leið oft mun betur en ég hefði haldið. Þetta var næstum eins og hlaupa útgáfa af því að skilja símann eftir heima þegar maður fer í göngutúr, bara það að möguleikinn á truflun væri á ekki á úlliðnum jók góðu tilfinninguna og fókusinn.

Það hjálpar líka núvitund að hlaupa í svona umhverfi, þó hitinn hafi verið mun meiri en ég vil venjast.

Lokametrarnir – Fjórar vikur í hlaup

Þegar þetta er skrifað er mánuður í stóra hlaupið. Ég er afar stressaður, þar sem undirbúningur hefur ekki verið jafn góður og ég hefði viljað. En það er eins og það er, MMA strákarnir sem ég æfi með segja oft að engin fari inn í búrið á keppnisdag eins góður og hann vill vera, verð að taka mér það til fyrirmyndar.

Ég skráði áætlaðan lokatíma 7 klukkutíma, kemur í ljós hvort það var gífurleg bjartsýni eða ekki. Markmiðið er enn þá að koma brosandi í mark.

Næstu þrjár vikur er bara að hlaupa og hlaupa og svo verður síðasta vikan tekin rólega fyrir aðalhlaupið. Ég hugsa að ég láti vera að skrifa annan svona pistil fyrir hlaupið, skrifa frekar um þennan mánuð rétt fyrir hlaupið og láti það svo fylgja þegar ég geri hlaupið upp.

Færðu inn athugasemd