Þessi pistill er fjórðií seríu sem um ferðalagið og undirbúning fyrir Laugavegshlaupið 2024. Ef þú vilt meira samhengi þá má finna fyrsta hluta hér, annan hér og þriðja hér.
Vikurnar fyrir
Þegar ég kom heim frá Eistlandi var komin tími á klára undirbúning og heimsækja bæði Úlfarsfell og Esjuna nokkrum sinnum. Ég náði mest að hlaupa 55 kílómetra í einni viku, vissulega ekki jafn mikið og ég hefði viljað, en góður slatti enga síður. Inn í þeirri viku var gott Esjuhlaup.
Úlfarsfell og Esjan gáfu mér töluverðan eldmóð. Í Esjunni Ultra II í fyrra fór ég tvisvar í röð upp að Steini. Vissulega fór ég bara einu sinni upp í þetta sinn, en núna leið mér vel á leiðinni niður og var nánast alveg góður í löppunum daginn eftir. Ferðirnar upp og niður Úlfarsfell voru hressandi, ekki jafn erfiðar og ég bjóst við.
Heilt yfir þá leið mér vel. Mig grunar að sama hversu vel undirbúin maður upplifir sig, þá veit maður ekki fyrr en á keppnisdag hvort maður sé tilbúin. Nánar tiltekið þegar hlaupið er vel rúmlega hálfnað.
Ef einhver hefði boðið mér að hlaupa Laugaveginn fyrr, á hér um bil hvaða degi vikurnar fyrir hlaup hefði ég þegið það. Eftir síðasta langa hlaupið mitt, tveim vikum fyrir keppnisdag, þá langaði mig bara að fara að koma mér af stað. Koma mér af stað og að klára. Þetta var búið að vera í undirbúningi í heilt ár og ég vissi að það var voða fátt til að gera síðustu tvær vikurnar annað en að hvílast og skokka, ef líkaminn væri ekki tilbúin núna væri fátt sem hægt að gera.
Fyrirlestur í Sportvörum um hlaupaleiðina og næringu í henni reyndist afar gagnlegur, bæði til að læra ný atriði og til að fá staðfestingu á að sumt sem maður var að hugsa væri rétt. Sömuleiðis þáttur Út að hlaupa strákana með næringarfræðingi. Aðeins eitt atriði í þessum kennslustofum fékk mig til að hugsa „ó, ó nei,“ þegar fyrirlesarinn sagði að við hefðum átt að vera að toppa í æfingum tveimur vikum fyrr, en fyrirlesturinn var kvöldið eftir síðasta langa hlaupið mitt.
Flesta daga þessar vikur var ég bara að naga neglurnar og bíða eftir að komast af stað. Ég vildi ekki dæla í mig of miklum upplýsingum svona rétt fyrir hlaup, baslaði við að gera ekkert og beið átekta.
Dagarnir fyrir
Helgina fyrir hlaup naut ég þess að fljúga ásamt góðum vinum til Þýskalands í brúðkaup. Partíið var frábært, aldrei þessu vant fannst moskítóflugum svæðisins ég ekki girnilegasti útlendingurinn og ég náði að stimpla mig andlega frá undirbúningi. Það er að segja eftir að ég tók stutt morgunhlaup á brúðkaupsdeginum og taldi mig þá full undirbúin. Eftir þetta litla hlaup var ég líka extra þakklátur fyrir að Laugavegsleiðinni yrði merkt, svona víst að ég náði að villast í þýskum smábæ.
Síðustu dagana fyrir hlaup var ég stressaður. Ég skoðaði lagalistann aftur og aftur og hæðakortið sömuleiðis. Aftur og aftur endurtók ég planið í hausnum, teygði duglega og svo framvegis. Á þriðjudeginum fór ég á glímuæfingu og fattaði strax að ég var ekki að glíma, ég var bara að passa mig á að meiðast ekki. Reif reyndar helling af skinni af stóru tá á æfingunni, mæli ekki með. Ég hefði séð spaugilegu hliðina á því ef þetta sár hefði háð mér í hlaupinu, á endanum alla vega.
Þegar ég loksins fór og náði í dótið toppaði spennan. Ég át eins og skepna alla vikuna, pasta og kartöflur ofan á venjulegt mataræði, innyflum mínum til lítillar hrifningar. Þegar ég stoppaði við í apóteki sá ég þar þrúgusykur og ákvað að grípa með mér í vestið, sem átti eftir að reynast vel. Á föstudagskvöld var svo komin tími til að misheppnast fullkomlega að sofna, púlsinn var vel yfir meðaltali þar sem ég lá upp í rúmi klukkutímum saman og beið þess að vakna daginn eftir.
Keppnisdagur
Rétt eins og fyrir flug var maður pínu stressaður á að sofa yfir sig þennan blauta laugardagsmorgun. Ég hafði gert allt klárt daginn áður svo ég gat drifið mig í fötin, svolgrað hálfan kaffi í rólegheitum og lesið veðurkortin í rólegheitum áður en ég lagði af stað. Ekkert í veðurspánni vakti svo sem athygli, leit út fyrir að vera bara allt í lagi veður. Meira um það síðar.
Þetta er loksins að byrja hugsaði ég.
Leiðin upp í Hrauneyjar steinsvaf ég, nema fimm mínútur á Selfossi þar sem einhverjum dreng sem hafði komist drukkinn í rútuna var kastað út. Ekki beint það sem ég átti von á að sjá, vona að það hann hafi skilað sér heill til byggða. Í Hrauneyjum var stoppað í morgunverðarhlaðborð, aldrei þessu vant í rútuferð voru allir komnir aftur um borð á réttum tíma og við keyrðum sátt inn í Landmannalaugar.
Það var rafmagnað andrúmsloft í náttúruperlunni. Hundruð hlaupara, tugir aðstandanda og einhver fjöldi af furðu lostnum ferðamönnum blönduðust undir fjöllunum. Það var ögn vindur en ekkert alvarlegt. Ég ákvað að halda mig við stuttermabolinn, passaði mig rosalega á að slíta ekki reim þegar ég fór í skónna og fékk þessa (allt of borubröttu) mynd tekna af mér, þambaði annan kaffi og kom mér í starthollið.

Þegar í hólfið var komið ákvað ég viljandi að vera aftarlega í hópnum. Hugsunin var svo að þetta væri fólk sem vildi vera á svipuðu róli og ég tímalega og flest þeirra væru reyndari ég. Þar með væri sniðugt að hafa þau fyrir framan mig að bremsa óhjákvæmilegt ofurkapp mitt.
Flautan gall. Við brunuðum af stað í heila 50 metra þar sem við komum að pínulítilli brú og flöskuháls myndaðist. Það að vera aftast hópnum var ekki jafn góð hugmynd og fyrir mínútu. En ég hló og sagði mér að þetta væri nú ástæðan fyrir að ég hefði ákveðið að vera aftast.
Á leiðinni upp í Hrafntinnusker leið mér frábærlega. Ég gekk rösklega upp flestar brekkur og í hvert sinn sem ég gerði það datt púlsinn duglega niður. Ég virtist geta gengið brekkurnar hraðar en flestir í kringum mig og naut þess að taka fram úr einum og einum á hverjum kílómetra, en fór mér þó ekki óðslega. Útsýnið var eins og úr öðrum heimi, eins og hlaupararnir þekkja flestir.
Kæri lesandi, þó þú hlaupir þessa leið aldrei get ég ekki mælt nógu sterkt með að ganga allavega að Hrafntinnuskeri, helst Álftavatni. Ef heimurinn var skapaður, þá nostraði skaparinn við þetta svæði.
Á leiðinni upp eftir var einn náungi sem fór óstjórnlega í taugarnar á mér. Ég bregst venjulega ekki illa við ókunnu fólki, en það var eitthvað við þennan eina hlaupara sem ég ákvað að væri gerpislegt. Ég sór við sjálfan mig að klára á undan þessum gæja. Fyrir mitt litla líf get ég útskýrt hvað kom yfir mig þarna og ég ber manninum enga kala, en keppnisskap mitt ákvað að hann væri erkióvinurinn.
Eftir um klukkutíma eða svo vorum við komin hátt upp í fjöllin og þoka skall á. Ég hugsaði með mér að líklega hefði ég átt að vita að í kringum Hrafntinnusker væri mikið af hrafntinnu, steinarnir glitruðu eins og svartir rýtingar allt í kringum hlaupaleiðina. Gullfallegt. Það var slatti af snjó þarna en hann var að mestu þéttur og góður, þó ég hefði á nokkrum stöðum þurft að stíga varlega til að forðast bláan krapa.
Þegar upp á fjallið var komið og ég fyllti á brúsan leið mér frábærlega. Mér fannst ég hafa nánast engri orku eytt, ég var ekki nema fimm mínútum frá þeim tíma sem ég vildi vera á. Mínar einu áhyggjur á þessum tímapunkti voru að hafa mögulega misst af hliðinu hjá drykkjastöðinni, sem mér datt í hug að yllu konunni minni og foreldrum heima áhyggjum.
Næsti kafli var meira af því sama. Þokan drap auðvitað nautnina af náttúrunni aðeins, ég sá ekki mikið lengra en í rassinn á næsta manni. Þangað til að við komum að Jökultungunum yfir Álftavatni.
Þið sem hafið ekki farið leiðinni, sjáið fyrir ykkur að veggur opnist fyrir framan ykkur. Handan veggsins, eftir klukkutíma í hvítu myrkri, er stöðuvatn sem glitrar fagurblátt, fjöll sem geyma rómantík hálendisisins og þú veist að erfiðasti hjallinn er að baki. Þessi skyndilega fegurð var svo óvænt og mögnuð að ég hreinlega flissaði.

Sama hvað kemur næst, þá var þetta þess virði fyrir þetta augnablik, hugsaði ég. Djöfull vissi ég ekki hvað ég var í vændum.
Allir, ég meina allir, sem ég talaði við um þetta hlaup vöruðu mig við að fara of hratt af stað upp að Hrafntinnuskeri og að fara of hratt niður Jökultungurnar. Án þess að vera viss þá held ég að tungurnar séu svona 2 kílómetrar, kannski styttra, af bröttum stíg sem liggur fram og til baka niður fjallið. Ég ofpeppaðist. Á undan mér var skynsamur karl sem sem dempaði hraðan minn til að byrja með (væntanlega án þess að hafa hugmynd um að ég væri þarna). Eftir svona hálfa leiðinni sá ég smá útskot og baunaði fram úr honum. Mér fannst ég vera að fara afar létt og áreynslulaust niður, en líklega hef ég brennt lærin mín meira en ég gerði mér grein fyrir. En ég glotti í aðra tönn þegar ég kom aftur á jafnsléttu, allt of góður með mig. Ég taldi mig hafa framkvæmt hlaupið fullkomlega fram að þessu.
Svo byrjaði vindurinn. Í spánni sem við fengum senda daginn áður stóð að veðrið yrði hæglátt. Ég hef mikla samkennd með þeim sendu út þann tölvupóst. Að spá fyrir um vinda á hálendinu er nánast ógjörningur og veðurguðirnir ákváðu að færa veðrið bara aðeins, sem þýddi að á tug kílómetra kafla vorum við með vindinn beint í smettið. Það, auk alls þess sem á undan gekk, þýddi að það fór að draga af mér.
Í Álftavatni fann ég að gleðin og spennan í mér fór minnkandi og kollurinn fór að verða til vandræða. Nú fylgdi hverju einasta skrefi smá sársauki. Ekki mikill, en smá. Lögin í eyrunum, sem höfðu glatt mig svo mikið á leiðinni upp fjöllin höfðu ekki sömu áhrif. Það var líka lígjandi að líta á úrið á því sem ég hélt að væri þægilegur skokk hraði og sjá að þökk sé vindinum var ég nánast að ganga. Kannski hefði verið skynsamlegast að taka kraftgöngu í versta rokinu, frekar en að djöflast við að reyna að hlaupa. Ég ríghélt í eina hugsun: Ekki. Fokking. Stoppa.
Frá Álftavatni að Bláfjallahvísl eru að ég held tíu kílómetrar. Vindurinn var í trýnið, þetta var erfitt. En það var enn þá smá kraftur í mér. En ég fann hann þverra með hverju skrefinu sem leið. Í versta sandfokinu var eins og að lenda í hagléli á stuttermabol. Ég frestaði því allt of lengi að fara í regnjakka að því að ég laug að sjálfum mér að mér að þetta væri alveg að skána. Einhvers staðar þarna stoppaði ég óvart úrið mitt. Ég veit ekki hversu lengi, allavega tvo kílómetra. Það sem eftir var hlaupsins hafði ég eiginlega ekki hugmynd um hvað ég ætti mikið eftir, né hversu lengi ég hafði hlaupið. Þegar ég fór fram hjá Bláfjallahvísl hugsaði ég: hálfnaður, jess, ég er hálfnaður.
Svo hugsaði ég: Fokk. Ég er bara hálfnaður.
Næsti kafli hlaupsins leið í hálfgerði móki. Ég er ekki góður í að vera jákvæður við sjálfan mig. Á meðan lappirnar báru mig hægt og rólega áfram fór hausinn í niðurrifs gír. Hvað ertu að gera hérna? Afhverju ertu ekki heima með konunni í sófanum? Þetta er ekki einu sinni uppáhalds íþróttin þín! Þetta hentar þér ekki, þú átt að vera að lyfta og glíma, þú komst þér í þetta sjálfur! Hversu góður varstu með þig að halda þú gætir bara rúllað þessu hlaupi með ekki betri undirbúningi, af hverju æfðirðu ekki betur, aldrei aftur gera þetta og svo framvegis og framvegis. Svona fór hugsanir mínar hring eftir hring í örugglega tvo, kannski þrjá tíma. Kannski lengur. Ekki hjálpaði að hver hlauparinn á fætur öðrum tók fram úr mér, þar af margir sem ég hafði verið svo ánægður að marsera fram út snemma í hlaupinu.
Varúð. Ekki lesa þessa málsgrein með mat í hönd: Á þessum kafla var maginn farin að vera með smá vesen. Ég fann öðru hvoru hörku verki í honum og bætti nokkrum sinnum í vindinn bakvið mig ansi hressilega. Satt best að segja voru vindgusurnar aftan úr mér á einum stað slíkar að ég hélt ég hefði hreinlega skitið á mig. Sem betur fer var svo ekki og þrátt fyrir verkina gat ég borðað alveg jafn mikið og ég vildi og ég fór að dæla í mig þrúgusykri með matnum. Hver sem setti þrúgusykur á borðið í apótekinu í Suðurveri, þú ert snillingur.
Nokkrir hlutir náðu að draga mig úr þessu sjálfsvorkunargír. Á leiðinni upp brekku sagði einhver þjáningarbróðir eitthvað um að skórnir mínir væru stórir. Ég svaraði með brandara og fékk gaurinn til að glotta, sem gladdi mig aðeins. Í hægaganginum upp brekkurnar náði ég að hvílast andlega og líkamlega og eftir Emstrur fór ég að reyna að einbeita mér að næstu stiku og næstu stiku í stað þess að hugsa um endamarkið. Líklega var mikilvægast að einn karlinn sem fór fram úr mér spurði hvort ég væri góður og þegar ég laug því að svo væri, sagði hann mér að miðað við stað og stund gæti ég labbað restina af hlaupinu og samt klárað. Það sagði mér að þetta væri virkilega að styttast og bara það að hann athugaði með mér gaf mér einhverja hlýju í hjartað.
Þó maginn væri farin að kvarta hástöfum náði ég að troða í mig snúð og (helling af) þrúgusykri þegar ég kom að Kápunni frægu. Reyndar var ég búin að heyra svo margt um þetta litla fjall að það voru ákveðin vonbrigði þegar ég kom að því. Já það var viðbjóður að fara upp og niður það, en ég bjóst við verru.
Nú bar komið að loka metrunum. Ég óð yfir Þjórsá, eins og áður í hlaupinu fannst mér afar hressandi að finna ískalt vatnið renna um lappirnar. Við árbakkann skildi ég inn við bein að ég var alveg að verða búin, ég var komin í skóg. Ég bað um eina mynd af mér á leiðina upp brekku, vildi fanga hvernig mér leið áður en sigurvíma þess að klára kom yfir mig.
Svo hljóp erkióvinurinn úr upphafi hlaupsins fram hjá mér.
Ég hugsaði nei. Á leiðinni upp næstu brekku náði ég honum og svo þegar ég kom á „jafnsléttu“ tók ég á sprett. Það sem eftir lifði hlaups hljóp ég eins hratt og ég gat, knúin áfram af keppnisskapi, háværri rapptónlist, þrúgusykri og hvatningu frá þeim sem voru þarna í kring. Í smástund leið mér gjörsamlega frábærlega, hrópin og köllin frá fólkinu voru væn innspýting. Eins kjánalega og það hljómar taldi ég sekúndurnar frá því að fólk hvatti mig og þangað til ég heyrði þau fagna næsta manni. Ég ímyndaði mér að erkióvinurinn (sem hafði ekki hugmynd um að við værum í kappi) væri næsti maður og fagnaði að heyra bilið aukast. Þegar ég sá glitta í hellinn milli Húsadals og Bása brosti ég, komin á svæði sem ég þekkti, alveg að klárast.
Í fjarska sá ég glitta í græna hliðið. Alveg að verða búið, köllin í kringum mig breyttust úr einum og einum að hrópa í hávaða og læti. Ég heyrði nafnið mitt kallað og gleymdi mér gjörsamlega á sprettinum, fór í gegnum hliðið og hrundi niður. Ég var örmagna, en einhver setti medalíu um hálsinn á mér og spurði hvort ég væri í lagi. Ég svaraði nei og fjórar sterkar hendur studdu mig í sjúkratjaldið.
Þetta tókst.
Eftirmálar.
Eftir góða hvíld í sjúkrarýminu og langa setu (ótrúlegt hversu gott það getur verið að sitja) baðaði ég mig og hélt heim. Það kitlaði að sjá hamingjuóskir streyma inn á samfélagsmiðlum, að vita að heima beið heit máltíð og að eftir nokkra klukkutíma yrði ég steinsofnaður. Félagsskapurinn í rútunni var líka frábær og ég held að Sómasamlokan á Hvolsvelli verði seint toppuð.
Hvernig líður mér með þetta eftir á að hyggja? Auðvitað ótrúlega stoltur að hafa klárað, ánægður með að hafa aldrei stoppað og fúll yfir hvernig höfuðið brást mér á löngum kafla. Ég vissi að maður yrði að þjást í svona hlaupi en ég var greinilega ekki tilbúin í það, eða ég kunni ekki að takast á við það. Mér leið aðeins betur þegar ég sá á miðlunum að fólk eins og Mari ofurhlaupari kölluðu þetta hlaup ógeðslegt, kannski voru aðstæður ekki innan eðlilegra marka.
Eftir því sem dagarnir líða er ég ánægðari og ánægðari með hlaupið. Ég get pikkað út ýmislegt sem vel fór: Þó mig langaði af öllu hjarta að hætta þá vissi ég að það væri ekki að fara að gerast, mér leið vel í brekkunum (á uppleið) og ég náði að klára hálfbrosandi á hörku spretti. Ef maður er hreinskilinn þá hefur það hjálpað að fá viðbrögðin og athyglina frá öðru fólki. Ef ég geri þetta aftur mun ég æfa betur, sérstaklega niðurhlaupin og vonandi mun ég ná að halda höfðinu á betri stað.
Mæli ég með þessu? Klárlega. Allavega einu sinni. Virðing mín fyrir þeim sem stunda þetta hefur vaxið um helming og var hún mikil fyrir. Allir sem klára svona hlaup, hvort sem það er á fjórum tímum eða níu, þið eruð mögnuð.
En þá er spurningin, geri ég þetta aftur? Satt best að segja veit ég það ekki. Þó það hafi verið mögnuð tilfinning að ljúka hlaupinu og ótrúlega gaman fyrsta þriðjunginn, þá var vanlíðanin mikil á löngum kafla. Það pirrar mig samt að vita að ef ég geri þetta bara einu sinni þá hafi ég ekki notið mín betur, hvort sem það var vegna veðurs eða haussins. Var það veðrinu að kenna? Er þetta bara eðlilegur hluti af svona hlaupum? Ég ætla klárlega að taka mörg fleiri utanvegahlaup, en kannski eru þessar ultra vegalengdir ekki fyrir mig.
En nú er snúa sér að allt öðru stóru verkefni. Að hlaupa Laugaveginn var það erfiðasta sem ég hef gert Ég vona að þú hafir notið lestursins og að þú hafir jafnvel haft smá gagn af, sérstaklega ef þú ert í sömu sporum og ég var í fyrir ári og ert að íhuga að skella þér að ári. Mundu bara, sama hversu erfitt þú heldur að þetta verður, þá verður þetta erfiðara, sama hversu gaman þú heldur að þetta verði þá verður þetta skemmtilegra og sama hversu stoltur þú heldur að þú verður eftir hlaupið, þá verðurðu stoltari.
Sjáumst í brekkunum
Ingimar