Leiðin að Laugarvegi 2024 – Forsaga og upphaf.

Það eru um tvö ár síðan hugmyndin að hlaupa Laugaveginn fór að grafa sig í höfuðið á mér. Í fyrstu reyndi ég að kasta hugmyndinni til hliðar, sem tókst ekki. Fyrir fimmtán árum tók ég þátt í Reykjavíkurmaraþoninu, deginum fyrir tvítugsafmælið. Það var skemmtilegur og frábær dagur og mettaði mig svo af hlaupum að ég hljóp ekki meira en fimm kílómetra í mörg ár.

 Af hverju er ég að þessu?

Ég byrjaði aftur að hlaupa reglulega þegar ég starfaði í Húsafelli, mörg verri svæði til að hlaupa um og mikill skortur á líkamsræktarstöðvum til að lyfta í. Í veirufárinu var það svo annað hvort hlaup í Elliðarárdalnum eða líkamsæfingar heima til að halda sér við. Ég fór að hafa aftur gaman af hlaupum, þó einkum utan malbiks. Þegar ég hóf að æfa glímu eftir Covid, fór ég líka að vilja hlaupa til að auka þolið og fannst það góð tilbreyting við sveittar glímur að skokka einn í rólegheitum.   

En það er stórt skref að fara úr mér finnst gaman að hlaupa 5-10 kílómetra, yfir í mig langar að hlaupa 55 kílómetra upp á hálendi. Hvernig gerðist það? Það réði miklu að í rúmt ár var ég að vinna með mörgum sem ýmist höfðu farið Laugaveginn margoft eða voru að fara hann reglulega yfir sumarið sem leiðsögumenn. Samtölin við þetta fólk sveipuðu leiðina rómantískum hjúp sem kallaði meira og meira í mig. Ævintýrasögur af bæði frábærum og skelfilegum ferðum þarna yfir með ferðamenn juku áhugann enn þá meira. Þegar ég fór sjálfur út að hlaupa þá fór ég að sjá Þórsmörk fyrir mér og líka staðina sem ég hef aldrei heimsótt: Emstrur, jökultungurnar og Álftavatn.

Ef ég er hreinskilinn við mig þá var egó líka þáttur í þessu. Að hlaupa á hálfum degi það sem flestir taka á tveim til fjórum hljómaði geggjað. Erfitt, en geggjað. Ein lífsspeki er að gjörðir séu góðar í hlutfalli við hversu erfiðir þeir eru, ekki þrátt fyrir að þeir séu erfiðir heldur af því að þeir eru erfiðir. Ég trúi þessu kannski ekki alveg 100 prósent, en allavega 70 prósent.

Síðasta sumar (2023), var hugmyndin um að taka þetta hlaup búin að bögga mig í að verða ár og ég ákvað að skoða hvort þetta væri bara heimskuleg hugmynd eða eitthvað sem ég vildi fara í af alvöru. Ég skráði mig í 10 kílómetra Mýrdalshlaup í byrjun sumars til að prufa utanvegahlaup.

Líklega skrifa ég meira um þetta algjörlega frábæra hlaup seinna. Í bili er nóg að segja að ég kolféll fyrir hlaupinu og fyrir sportinu. Það er efni í heilan pistil að mæra Mýrdalshlaupið eins og það á skilið, en um leið og ég kom upp á Reynisfjall og sá Suðurland blasa við mér var ég viss um að ég vildi taka þátt í fleiri svona hlaupum.

Photo credit: Ferdalag.is

Sem betur fer fyrir mig, þá var allt of seint að skrá sig í Laugaveginn 2023. Þetta kom mér á óvart, þar sem ég hélt í einfeldni að hægt væri að skrá sig nokkrum vikum fyrir hlaupið. Mér datt ekki í hug að það gæti orðið uppselt. Ég segi „sem betur fer“ því miðað við hvernig skrokkurinn var eftir hálf-maraþon utanvegahlaup í fyrra, átti ég ekkert erindi að fara heilan Laugaveg síðasta júlí. En ég hefði mögulega verið nógu vitlaus til að skrá mig. Á þessum tímapunkti vissi ég ekki heldur hvað ITRA stig voru (ELO stig fyrir utanvegahlaup sem nokkurn vegin segja hversu góður þú ert) og ég þurfti að ná í nokkur svoleiðis til að geta yfir höfuð skrá mig í Laugavegshlaupið mikla.

Algjörlega ótengt draumnum um að hlaupa þetta mikla hlaup fór ég líka tvisvar í Þórsmörk síðasta sumar, í fyrsta sinn síðan í grunnskóla. Báðir dagar voru algjörir paradísadagar og létu mig hlakka til að koma í mark að ári liðnu.

Í lok sumars hafði í hlaupið fjögur hlaup við mismunandi aðstæður og var mis vel á mig komin eftir þau. Ansi margir lærdómar voru dregnir af þessum hlaupum og eftir síðasta hlaupið, þriggja tinda Tindahlaup, var ég mátulega bjartsýnn að ég gæti komið mér í stand til að klára það stóra. Um miðjan nóvember var það svo staðfest að ég hefði fengið miða og alvaran tók við.

Af hverju er ég að skrifa um þetta? Að skrifa hjálpar til við að hugsa skýrt og það er von mín að með því að skrifa um æfingarferlið sjái ég betur hvað ég er að gera vel og illa. Þeim mun betra ef reynslumeira fólk les eitthvað af þessu og bendir mér á þær kjánalegu villur sem ég er að gera og með því að hafa skrifin opinber þá get ég sett jákvæða pressu á sjálfan mig. Ef vel gengur að skrifa verð ég með einskonar dagbók eftir hlaupið og vonandi hafa einhverjir gagn af henni, ef ekki gagn þá gaman.

Eins og þú sérð kæri lesandi er ég byrjandi í þessu sporti og kannski verð ég aldrei meira en það. Það fer líklega eftir hvernig mér líður þegar ég kem í mark þrettánda júli. Ég er mikið fyrir að búast við því versta í svona stórum verkefnum, en fjárinn hafi það ég ætla að gera ráð fyrir að ég komist allavega í mark. Kannski er einhver sem er í sömu stöðu og ég var fyrir ári og vonandi getur lesturinn hjálpað þeim.

Þar að auki er ég að byrja frá grunni í svo löngum hlaup og það mun vonandi hjálpa mér að sjá hvar hugsun mín er léleg að sjá hana á „prenti.“ Ef einhver reyndari hlaupari er að lesa þetta og sér barnalegar rangfærslur í hugmyndum mínum um hvernig á að æfa, tek ég allri gagnrýni opnum örmum.

Veturinn

Það var ekki þannig að ég væri með nákvæmt plan fyrir æfingar yfir veturinn. Ég er þeim ókosti búin að ef æfingaráætlun er of nákvæm og ströng hætti ég að nenna að sinna henni, hratt. Í byrjun september voru tíu mánuðir í hlaupið. Það er langur tími til að æfa, en líka langur tíma til að missa áhugann. Ekki að ég héldi að ég myndi missa löngunina til að hlaupa hlaupið, heldur bara að æfa fyrir það, sem væri mun verra.

Ég ákvað að æfa eftir eftirfarandi prinsippum:

A)      Æfa þannig að ég hlakkaði alltaf til næstu æfingar.

B)      Langt hlaup (hér um bil) hverja helgi. Eins og ég skil það sem ég hef lesið mér til um þessar æfingar er langa hlaupið um helga það mikilvægasta í æfingum fyrir lengri vegalengdir. Ég byrjaði í að fara 12-16 kílómetra hverja helgi og jók vegalengdina hægt og rólega. Á ákveðnum tímapunkti las ég töluvert magn af efni um Zone 2 þjálfun og í framhaldinu hægði ég mjög á þessum hlaupum. Nú eru þau að á bilinu 20-25 kílómetrar og ég held púlsinum um 145 slög á mínútu. Líkaminn virðist ráða við að hreinsa mjólkursýrurnar við þessa ákefð og ég er ekki frá því að ég sé að bætingu laumast inn.  

C)     Nóg af styrktaræfingum fyrir lappirnar. Eitt besta hlaðvarpið sem ég hlustaði á í undirbúningnum var Villi í Steve Dagskrá að gera upp sitt Laugavegshlaup í þættinum Út að hlaupa. Flestir sem nenna að framleiða efni um langhlaup eru fólk sem lifir fyrir þau (skiljanlega). Villi var mun nær mér í getustigi þegar hann tók Laugaveginn fyrir nokkrum árum, það er að segja í fínu formi en ekki langhlaupari. Þátturinn þar sem hann lýsir hvernig það gekk er sprenghlægilegur og afar lærdómsríkur. Eftir að hafa hlustað á þáttinn (og eftir að hafa tekið þátt í Esjan Ultra hlaupinu) var ég sannfærðum um að það væri nánast ekki hægt að setja of mikla vinnu í að styrkja lappirnar.

D)     15-16 vikum fyrir Laugaveginn færi ég að taka hlaup alvarlega og fylgja einhverskonar plani sem ég þyrfti að finna. Sá tími er í þessari viku.

Þessu hef ég verið að æfa eftir í vetur og það gengið ágætlega. Ein áskorun var að fatta að ef ég vildi fara þessi löngu helgarhlaup var betra að klára þau á laugardagsmorgni, það er alltaf eitthvað meira spennandi að gera um helgar en að fara út að hlaupa í hálfan vinnudag. Fyrir utan að uppáhalds glímuæfingarnar mínar eru á mánudögum, að mæta þangað með lappir sem fóru á þriðja tug kílómetra daginn áður reyndist ekki skynsamlegt.

Hin áskorunin var líka að við búum á Íslandi og það veðrar ekki beint til útihlaupa alla daga. Þó hefur það bara einu sinni gerst að ég „þurfti“ að fara út í einhverju leiðinda veðri, en þessu vetur hefur verið blessunarlega mildari en sá sá síðasti.

Vandamál

Nokkrar áskoranir eru fyrirsjáanlegar og/eða hafa þegar gert vart um sig. Ég er ekki enn þá búin að finna út hversu mikið ég þarf og hversu mikið ég get innbyrt af næringu á svo löngu hlaupi. Það er skrýtið að segja það en eftir nokkuð mörg hlaup þar sem ég hef verið að borða aðeins meira af „mat“ í hverju hlaupi, þá er ég hálf farin að vonast eftir að fá verk í magan. Verkurinn myndi segja mér hvar mörkin mín eru. Síðan veit ég að það er eitt að fá sér x mikið af næringu á 25 kílómetra hlaupi, allt annað að fá sér 2 – 3 x í 50 kílómetrahlaupi.

Hitt er að hvað skrokkurinn, og lífið, leyfir manni að æfa mikið. Eftir löngu hlaupin hefur lítill verkur við í ökla oft gert var við sig, sem tekur 1-2 daga að jafna sig. Ég ég er nokkuð viss um að um vanþroskaða vöðva og/eða vöðvafestingu er að ræða, en það hefur gengið bölvanlega að þjálfa þessa tilteknu staði upp. Núna um helgina hafði ég samband við lækni sem ég þekki að reyna að fatta hvað nákvæmleg staðurinn heitir, vonandi get ég fundið leiðir til að styrkja hann í framhaldinu. Til langs tíma litið er þessi sami ökli veikasti punktur á líkamanum, væri líklega skynsamlegt að styrkja og liðka hann, hvað sem hlaupinu líður.

Hitt er að mér sýnist þurfa 8-12 klukkutíma á viku í hlaup þegar æfingaprógröm er að toppa, til þess að geta klárað af góðum krafti. Það er fjandi mikið, sérstaklega þegar æfingarnar sem mig hlakkar mest að fara á er glíman. Svo er maður líka í vinnu, vill sinna fjölskyldu og vinum og svo framvegis. Mér finnst ekki ólíklegt að ég reyni að nýta ferðina í og úr vinnu til að tikka kílómetrum í fæturna. Á einhverjum punkti þarf ég að minnka aðrar æfingar, en það geri ég á síðustu mögulegu stundu.

Þegar að kemur að hlaupdegi eru síðan heill her af áskorunum fyrirsjáanlegur. Ég hef lang mestar áhyggjur af því að ég fari of geyst af stað, væri ekki í fyrsta sinn. Fyrir mörgum árum hljóp ég eitt Reykjavíkurmaraþon og ég man hvernig var að skella á líkamlega veggnum fræga í kringum 35 kílómetra, hvernig ég höndla það á hálendinu í þeim mun lengra hlaupi veit ég ekki. En ég hlakka til að komast að því.

Næstu vikur.

Ég veit ekki hversu oft svona pistlar verða viðeigandi, því engin nennir að lesa „í þessari viku hljóp ég X kílómetra og það var fínt“ vikulega. En þegar andinn grípur mig mun ég grípa penna og þegar sumarið skellur á og keppnirnar fara að detta inn mun pistlunum fjölga. Næst ætla ég að taka fyrir hvað það æfingarplan sem ég lenda á og markmiðin fyrir Laugavegshlaupið.

Á morgun (þegar þetta er skrifað) eru sléttir fjórir mánuðir í hlaupið. Ég þessari viku ætla ég að finna prógramm sem ég get fylgt næstu mánuði og formlegur undirbúningur hefst. Ég er spenntur.

2 athugasemdir á “Leiðin að Laugarvegi 2024 – Forsaga og upphaf.

Færðu inn athugasemd