Stundum veit maður ekki að eitthvað er ráðgáta fyrr en internetið bendir manni á það. Vissuð þið að þangað til nýlega var mikil óvissa um það hvernig meltingarfæri risaeðlna virkuðu? Ástæðan er nokkuð augljós þegar maður pælir í því: Hold rotnar. Nánast allt sem við vitum, eða þykjumst vita, um hvernig risaeðlur er byggt á beinum þeirra. Þau eru mun líklegri til að varðveitast í jörðu og þess vegna höfum við fundið mun fleiri bein en vefi.

En það eru ákveðnar aðstæður sem varðveita risaeðluhold. Í stuttu máli þarf heimurinn að gera dýrið að múmíu. Ein risaeðla sem eitt sinn vafraði um jörðina var Psittacosaurus, um eins og hálfs metra löng kvikindi sem lifðu í Asíu fyrir um 100-125 milljón árum. Af einhverri ástæðu hafa fundist þó nokkrar múmíur af þessum verum. Sem er ástæðan fyrir að litirnir í myndinni hér fyrir ofan er ekki ágiskanir eins og oftast, lík af einni svona fannst sem var svo vel varveitt að liturinn sást.
Nú nýlega fannst svo múmía sem var með varðveittan rass. Sú uppgötvun staðfestir það sem risaeðlufræðingum hefur lengi grunað: Að meltingarfæri risaeðlna voru svipuð og í fuglum. Næsta stóra ráðgáta er hvort þær hafi fjölgað sér eins og fuglar, en til þess að það sé staðfest þarf að finna grey sem er jafn vel varðveitt að framan og það síðasta var að aftan.
Annars hvet ég ykkur til að lesa fréttina um þetta, ég næ engan vegin utan um húmorinn og þekkinguna í henni.