Skjálftabækur

Rithöfundurinn Tyler Cowen nefndi ákveðnar bækur skjálftabækur (quake books). Meinti hann bækur sem varanlega, jafnvel á einu andartaki, breyta heimsýn og hugsunarhætti okkar. Ef þú hugsar til baka manstu líklega eftir slíkum bókum. Ólíkt flestum bókaflokkum eru skjálftabækur einstaklingsmiðaður. Það fer eftir hver við erum og hvenær við lesum þær hvort bækur eru okkar skjálftabækur, en það eru leiðir til að fjölga slíkum bókum í lestrarlífi okkar.

Við erum bara með einn haus og hann á það til að vilja staðfesta þær skoðanir sem fyrir eru. Með því að elta uppi réttu bækurnar náum við að sjá heiminn frá fleiri sjónarhornum, sem þroskar okkur og eikur samkennd með öðrum.  Er það ekki einn tilgangur listar? Að víka heimsýnina, bæta ákvarðanir og læra að samkennd með öðru?

Dæmi

En hvaða bækur eru skjálftabækur. Eins og áður sagði er það einstaklingsmiðað. Ég get nefnt þær bækur sem hafa verið það fyrir mig. Fyrsta og skírasta dæmið fyrir mig er Benjamín Dúfa. Ég las hana í níunda bekk (minnir mig) og hef ekki lesið hana aftur, en það var ein lína í bókinni sem bókstaflega breytti lífi mínu.

Samhengið er að það var mjög, mjög, auðvelt að pirra mig þegar ég var hormónasprengdur unglingur. Gaur sem var með mér í handbolta hafði tekið eftir að ef ég var kallaður Ingó (ég held reyndar að hann hafi meint það vel) varð ég mjög pirraður, sem öðrum fannst skiljanlega fyndið. Á einhverri blaðsíðunni í Benjamín dúfu eru aðalpersónurnar að tala um uppnefnið Róland riddari og Róland útskýrir að „ef þú gerir nafnið að þínu eigin, getur engin notað það gegn þér.“

Ég man eftir að hafa lesið þetta og liðið eins og einhver hefði slegið mig. Auðvitað gat ég ákveðið að láta svona einfaldan hlut ekki fara í taugarnar á mér. Ég hóf að taka nafninu með bros á vör, sem ég geri enn í dag. Mér leið eins og ég hefði öðlast ofurkraft, ögn betri stjórn á annars stóru skapi.

Þetta er auðvitað bara lítið og ögn kjánalegt dæmi. Aðrar bækur hafa haft svipuð áhrif á mig. God no eftir Penn Jillete er ein. Average is Over eftir áðurnefndan Tyler Cowen er önnur og svo gæti ég lengi haldið áfram. Án þessara bóka myndi ég hugsa öðruvísi en ég geri í dag. Það gerist ekki jafn oft í dag og það gerði á skólaárunum að bækur hristi svona upp í mér en það kemur betur fer öðru hverju fyrir.

Athugið að skjálftabækur eru ekki endilega bestu bækurnar sem við lesum. Name of the Wind er ein  flottasta fantasía sem ég hef lesið, en hún breytti ekki hugsunarhætti mínum. Sama gildir um Sapiens eftir Yuval Noah Harrari. Sú síðarnefnda hefði líklega verið skjálftabók fyrir mig ef ég hefði lesið hana fyrr en þegar ég komst í hana þekkti ég flestar hugmyndirnar í henni, þó hún hafi soðið þær hugmyndir frábærlega saman.

Hvernig finnum við skjálftabækur?

Það hafa milljónir bóka verið skrifaðar og líkurnar á ramba á slíkar bækur óvart eru tölfræðilega takmarkaðar. Ein leið er að spyrja. Ef það er einhver í lífi þínu sem þú lítur upp til að er einfalt mál að spyrja hvort einhverjar bækur hafi mótað viðkomandi.

Önnur leið er að finna bækurnar hjá fólkinu sem við dáumst að úr fjarska. Spurninginn er nánast klisja í viðtölum við frægt fólk, sérstaklega rithöfunda, og lítið mál að fletta því upp á netinu. Ef bók hefur hrist eina manneskju inn að beini, eru allar líkur á að hún muni gera það sama fyrir einhvern annan. Ef þú lest nokkrar bækur á ári sem hafa verið skjálftabækur fyrir aðra, eru allar líkur á að þú hittir á þú hittir á eina sem fer þannig með þig.

Það eru líka bækur sem hafa verið skjálftabækur fyrir marga og einfalt að veðja á. Hlustaðu á hvernig sumir tala um Sölku Völku eða Sjálfstætt fólk. Það þarf samt að taka vinsældum með örlitum fyrirvara, sérstaklega ef vinsældirnar eru miklar en hverfa hratt. En þegar bókin hefur verið vinsæl áratugum eða jafnvel öldum saman er það ákveðin gæðastimpill. Tíminn á það til að sía út þær sögur og rit sem eru frábær. Það er ekki að segja að allar gamlar bækur séu góðar eða að nýjar séu lélegar. En ef fólk er búið að finna ástæðu til að lesa sama verkið í nokkur þúsund ár, eru ágætis líkur á að það sé gott verk.

Lesturinn sjálfur.

Það er eitt að lesa, annað að glíma við bókina. Ein hættan við að eltast við erfiðar bækur er að það verður auðvelt að renna bara í gegnum þær án þess að meðtaka þær. Maður má ekki heldur gleypa þekkinguna án þess að spyrja spurninga. Bækur Ayn Rand hafa mótað huga þúsunda, ég myndi setja spurningarmerki við að leyfa henni að móta líf manns. Þetta er dásamleg þversögn. Til að leyfa bókum að breyta manni og bæta verður maður að lesa með opnun hug, en líka ráðast á hugmyndirnar og glíma við þær.

Hví lesum við?

Af hverju ættum við að eltast við bækur sem hrista upp í höfðinu á okkur. Lestur er nokkuð einstakt form töfra, eins mikil klisja og það er. Menn hafa verið að liggja yfir og skrifa skruddur nokkurn vegin jafn lengi og siðmenning hefur verið til. Það má jafnvel færa ágætis rök fyrir að siðmenning sé til vegna þess að menn lærðu að skrifa og lesa. Það eru ekki mörg vandamál sem við glímum við í dag sem að einhver annar hefur ekki glímt við og leyst, oftar en ekki hafa þeir skrifað lausnina niður.

Að elta uppi góðar bækur er hluti af gleðinni við að lesa mikið. Það er vissulega hægt að gera það með því að renna yfir bókahillur í næstu bókabúð, leika sér að því að velja flottar kápur og fína höfunda. En það er líka gleði í að reyna markvisst að finna ódauðlegar bækur, bækur sem hrista upp í okkur og láta okkur skjálfa inn að beini.

Ekki allar bækur eru skjálftabækur, eðli málsins samkvæmt. Það er pirrandi að lesa pistla sem láta eins og lestur sé kvöð, skylda manns í nafni þess að verða snjallari og menntaðri. Lestur þarf ekki að vera neitt nema þægileg, slakandi, afþreying. En við höfum öll gott af því öðru hverju að dýfa tánni í djúpu laugina, allavega nokkrum sinnum á ári.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s