Stundum í sögugrúski rekst maður á hluti sem fá mann til að segja: Ha? Ekki endilega viðburðir sem skipta miklu máli, bara litlir fletir sem fá mann til að klóra sér í hausnum. Gerðist þetta í alvöru? Af hverju í ósköpunum sagði viðkomandi þetta? Hvað vakti fyrir?
Eitt slíkt atvik er í The Second World War eftir Winston Churchill. Bókin er sex binda þrekvirki og stórmerkilegt rit. Hún er saga Seinni Heimstyrjaldarinnar, skrifuð af og frá sjónarhorni eins af mikilvægustu leiðtogum stríðsins. Hún er líka pínu hættuleg, bók skrifuð af starfandi pólitíkus sem er langt því frá hlutlaus og hefur allan hag af því að hlutirnir séu séðir á ákveðin hátt.
En fyrir Íslending er eitt augnablik í bókinni, í raun ekki nema hálf síða, sem fær mann til að lyfta augabrún. Churchill er nákvæmur í lýsingum sínum á viðburðum og segir meðal annars frá stuttri heimsókn sinni til Reykjavíkur. Þar talar hann fallega um land og þjóð frá en segir líka:
“…I found the time to see the new airfields we were making, and also to visit the wonderful hot springs and the glasshouses they are made to serve. I thought immediately that they should also be used to heat Reykjavik and tried to further this plan even during the war. I am glad that it has now been carried out.”
Með öðrum orðum: Winston Churchill þykist hafa átt hugmyndina af hitaveitukerfi Reykjavíkur. Ha?

Í bók þar sem hann segir frá valdatöku nasista, eigin hetjusögu (uppfullri af Breskri hógværð eins og hún gerist best), bók sem segir frá stærstu og dramatískustu viðburðum síðustu aldar. Í þeirri bók finnur hann tímann til að þykjast hafa átt hugmyndina af því að Íslendingar hiti húsin sín með heita vatninu sem streymir upp úr jörðinni. Af hverju í ósköpunum?
Magnús Erlendsson kom með nokkuð áhugaverða kenningu um þetta í viðtali við Winstonchurchill.org. Hann segir eftirfarandi
„During 1934 Churchill went through a lot of trouble and had to dig deep into his pockets to get heating installed for the outdoor pool at Chartwell, his country home in Kent. So when he saw the hot springs at Reykir during his visit to Iceland, all he could see was “free” hot water welling up from the ground—something for which he had had to pay a lot of hard-earned money.“
Sem sagt, fyrir stríð var Churchill í svo miklu basli með að hita húsið sitt að hann þróaði með sér áhuga á hitaveitum og áttaði sig á að á Íslandi var möguleikinn á því að koma á frábæru kerfi fyrir það.

Mín persónulega kenning (hef nákvæmlega ekkert fyrir mér) er að lyktin af hverunum hafi verið svo minnistæð að Winston bara varð að koma þessu frá sér þegar hann skrifaði frá Íslandsheimsókn sinni. Hver svo sem ástæðan er var skemmtilegt að reka augun í þessa staðhæfingu Churchills. Kitlar egóið í Íslendingnum að í þessari risa bók hans finni hann ástæðu til að tala um hveri Reykjavíkur.