Örsögur úr ódýrri íbúð: Gagnrýnandinn

Síðasta árið í London fékk ég vinnu sem leikhúsgagnrýnandi fyrir litla vefsíðu. Starfið var ekki borgað en ég fékk að fara frítt í leikhús í það minnsta vikulega og sá fjöldann allan af sýningum sem mér hefði aldrei dottið í hug að fara á. Líkurnar á að ég hefði borgað fimmtán þúsund krónur til að sjá Michael Jackson söngleikinn eru nákvæmlega engar, hvað þá að ég myndi fara ítrekað á danssýningar í hæsta gæðaflokki eða eytt hverju kvöldi í heila viku í földu leikhúsi undir lestarstöð.

Eftir langan dag í dýragarðinum er ég á leið í pöbbaleikhús og veit ekkert hvaða sýningu ég er að fara á, man varla nafnið á henni. Ég er bæði þreyttur og sveittur eftir daginn. Föt til skiptanna gleymdust svo ég er klæddur í leðurjakkann minn, þvala skyrtu og alltof stórar jakkafatabuxur sem voru skylda í veisluþjónustunni. Stærðin var ekki skilyrði, ég kann bara ekki að versla föt. Á tánum eru stórir, ónýtir Air Max, hárið er komið í rugl.

Ég sest niður með bjór, eftir að hafa uppgötvað að vinkona mín er að sviðsstýra. Hún býðst til að kynna mig fyrir leikstjóranum eftir sýningu og ég hlakka til. Ljósin slokkna. Leikkonan stígur á svið og í ljós kemur að sýningin fjallar um heimilislausa stúlku sem vingast við efristéttar strák sem á daglega leið hjá henni á leið í skólann. Sýningin er hjartnæm og fyndin, ég er hrifinn af henni (og leikkonunni).

Svo kemur fyrsta atriðið þar sem hún talar beint við áhorfendur. Nánar til tekið betlar hún af þeim. Allir sem hafa komið til stórborgar þekkja óþægindatilfinninguna þegar ókunnugur reyna að sníkja nokkrar þarfar krónur. Það er ógeðslega ljótt en langflestir, ég sjálfur þar með talinn, setja upp ósýnilegan skjöld ef einhver betlar af þeim.

Ég bregst við betli á sviði á sama hátt og á götunni, hristi höfuðið ákveðið. Nema ég get ekki gengið í burtu og hún starir í augun á mér þangað til samviskubitið er orðið yfirþyrmandi. Ég gef mig ekki og hún leikur vel að vera í uppnámi. Hún snýr sér loks að næsta manni, ég er mjög fegin. Maðurinn er mjög almennilegur en neitar að gefa henni fé. Þá segir hún:

– Ekkert mál, þú ert allavega kurteis. Ólíkt sumum, bætir hún við og horfir hvasst á mig. Ég skælbrosi og áhorfendur hlæja vandræðalega. Sumum finnst ekkert óþægilegra en þegar leikarar ávarpa þá, mér finnst það frábært. Tengist mögulegri athyglissýki og löngun til að vera sviðinu ekki neitt, ég lofa.

Sýningin heldur áfram, strákurinn og stelpan kynnast betur og þegar sýningin fer aftur af stað eftir hlé eru þau að fylgjast með Lundúnabúum ganga framhjá. Það er útfært á skemmtilegan hátt, með því að þau benda á fólk í salnum og segja eitthvað um það. Ég veit ekki hvort leikarinn var að fylgjast með fyrir hlé en hann bendir á mig og segir:

– Þessi lítur út fyrir að vera á leið á stefnumót.

Leikkonan sér á hvern hann er að benda og leiðréttir: 

– Nei, hann lítur út eins og hann sé á leið að láta dömpa sér.

Mér finnst eins og hún sé að mana mig í að vera ósáttur, en ég spring úr hlátri.

Sýningin klárast og ég klappa, ákveðinn í að skrifa jákvæðan dóm um sýninguna. Vinkona mín kynnir mig fyrir leikstjóranum. Hann segir að leikkonan hafi aldrei gengið jafn langt í að hrauna yfir áhorfanda. Áður en ég næ að svara spyr hann mig hvernig ég hafi frétt af sýningunni.

Ég set upp sakleysisbrosið og segi:

– Ég? Ég er gagnrýnandinn.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s