Örsögur úr ódýrri íbúð: Heimferðin endalausa

01:00: Vaktinni og eftir-vaktar-drykknum er lokið. Í bakpokann fer slatti af bjór, ég skipti um föt og læsi skápnum með lykli. Það væri hræðilegt ef vafasamur aðili stæli fimmtán hundruð króna Primark-skónum úr honum.

01:10: Ég tékka hvort ég sé ekki örugglega með símann og veskið, kveð og stíg upp í leigubílinn sem mun skutla mér að strætóstöðinni. Vinnan borgar leigubíl mestalla leið heim en ég þarf að taka næturstrætó síðasta spölinn. Leigubílstjórinn hneykslast á því að ég vinni svona langt frá heimilinu, segir nautheimskt að eyða svona miklum tíma í samgöngur. Sumu er erfitt að mótmæla.

02:10: Hann skilur mig eftir á röngum stað. Annar næturstrætó bætist við ferð sem var of löng fyrir. Biðin er sem betur fer í styttri kantinum, ekki nema tuttugu mínútur. Ef þú þekkir næturstrætó London veistu að það er kraftaverk.

02:30: Um borð í fyrri strætónum er drukkinn, miðaldra rastafari að reyna við glæsilega, ljóshærða konu. Ég segi reyna við, ég meina áreita. Einhver ætti að vera góður gaur og losa hana við hann. Ætlar í alvöru enginn að segja neitt? Ég geri það þá. Það eina sem mér dettur í hug er að hefja samtal við hana á íslensku til að rugla gaurinn. Hún fattar strax og svarar mér á máli sem er enn þá skrýtnara en mitt eigið. Við tölum saman hvort á sínu málinu þangað til rastafarinn gefst upp og fer að tala við mann nær honum í aldri og kyni.

02:35: Við stelpan skiptum yfir í ensku, hún segist vera lettnesk. Ég spyr hana brosandi hvers vegna hún hafi hafnað svo álitlitlegum manni svo hún fer yfir hans helstu kosti. Talar sérstaklega um þessa fallegu blöndu af svita og graslykt sem stóð af honum og að hann hafi verið nær afa hennar en pabba í aldri, þvílíkur draumprins.

02:45: Við kveðjumst brosandi, mér dettur í hug að spyrja um númerið hennar en hún er stigin út áður en ég næ því. Rastafarinn lítur á mig, skilur ekkert og að lokum öskrar hann með nánást óskiljanlegum jamæskum hreimi:

– The fuck is wrong with you, mate!? She was looking for A BLOODCLOT HUSBAND.

Hann er hreinlega móðgaður, hrópar að ég muni deyja einn, að ég kunni ekki að nýta tækfæri og að ég sé karlkyninu til skammar. Þegar hann er farinn að útlista hvernig allar konur séu að leita að eiginmanni, hvort sem þær viðurkenni það eða ekki, horfi ég beint í augun á honum og set á mig heyrnartól. Það hægir ekki einu sinni á honum og ég heyri hann tuða í gegnum tónlistina þangað til ég slepp út úr vagninum. Ég er vitlaus, en ekki nógu vitlaus til að hlusta á þennan gæja.

03:00: Ég er kominn á rétta strætóstöð, bara einn vagn enn. Ég sest upp á vegg og sötra bjór á meðan ég bíð. Mér er virkilega mál að pissa en það eru aðeins of margir á ferli til að bregða sér á bak við tré. Hópur sótölvaðra enskra stelpna gengur framhjá. Ein þeirra klórar mér á hausnum, segist elska ljóst hár. Ég er of hissa til að svara með einhverju sniðugra en að ég sé íslenskur. Þær eru hrifnar af þeirri staðreynd en halda áfram göngunni. Þegar þær eru næstum komnar fyrir hornið hvíslar vinkona drukknu stelpunnar í áttina að mér …

– Threesome?

Freistandi en ég er of þreyttur og ekki alveg nógu vitlaus til slást í för með þeim. Mín önnur stóru mistök þessa nótt. Ég veit ekki ennþá af þeim fyrstu. Vagninn minn birtist, þetta er næstum komið.

03:15-03:30: Ipodinn minn er batteríslaus, ég þarf virkilega að pissa og það er fólk að hætta saman í næstu sætaröð. Þau gráta bæði og játa syndir sínar  á milli þess sem þau hrauna yfir hvort annað. Mig langar smá að snúa mér við og öskra á þau að vera þakklát fyrir að hafa fundið einhvern, sumir hafi ekkert til að hlakka til við heimkomu nema kodda. Ég stilli mig. Ég er farinn að sjá fyrir endann á ferðinni svo ég opna síðasta bjórinn. Það væri kannski skynsamlegra að geyma hann, svona fyrst mér er mál að pissa, en nei, svo sniðugur er ég ekki.

03:35: Frá síðustu stoppistöð og heim er tíu mínútna labb. Ég sé koddann í hillingum. Síðasti bjórinn reyndist, alveg óvænt, vera mistök og þrýstingurinn í þvagblöðrunni er orðinn óbærilegur. Ég er hræddur um að pissa á mig svo ég teygi mig eftir lyklunum og eyk gönguhraðann.

03:36: Lyklarnir eru í dýragarðinum. Mín fyrstu stóru mistök voru sem sagt að skilja þá eftir í vinnunni. Fokk.

03:37: Þrýstingurinn er kominn yfir hættumörk og ég get varla hugsað fyrir sársauka.

03:38: Refur fylgist með mér merkja svæðið mitt í nálægum almenningsgarði. Ég er ekki stoltur af því sem ég er að gera en finnst eins og hann skilji mig.

03:40: Góðu fréttirnar eru að það er ekki búið að laga lásinn að stigaganginum svo ég er allavega ekki fastur úti á götu. Slæmu fréttirnar eru að fjórtán tíma vinnudagurinn og bjórinn er farinn að segja til sín, augnlokin síga ískyggilega. Enn verri fréttir eru að meðleigjendurnir voru á svakalegu djammi svo að líkurnar á að þau vakni við bank eru engar. Næstu klukkutíma ber ég á hurðina, hringi í alla ítrekað, heimsæki refinn aftur, reyni svaladyrnar, endurhugsa líf mitt, hræði líftóruna úr nágranna mínum sem er að koma heim af djamminu og uppgötvar mig hálfsofandi í stigaganginum, sendi sms og skilaboð á Facebook.

06:45: Lestirnar eru loksins byrjaðar að ganga og það er nánast runnið af mér. En lestir ganga hægt og sjaldan á sunnudagsmorgnum. Líklega vegna þess að enginn heilvita maður er á ferðinni í London fyrir hádegi á sunnudegi. Flestir sem eru á ferðinni eru hamingjusamt, hresst fólk sem brosir og er ekki grátt af ölvun. Djammviskubit án þess að hafa farið á djamm er mér ný tilfinning. Þegar ég sé spegilmynd mína í glugga bregður mér, ég er fölur, með dökka bauga, skyrtan er þvöl og hárið stendur í átta mismunandi áttir.

08:00: Gæinn í móttökunni í dýragarðinum hlær að mér þegar hann sér mig. Lyklarnir eru nákvæmlega þar sem ég skildi þá eftir, í lásnum á skápnum. Ég ríf þá úr og nenni ekki að athuga hvort Primark-skórnir séu á sínum stað.

10:00: Koddinn tekur á móti mér, ég gæti grátið af gleði. Ég sofna á hálfri sekúndu.

10:05: Meðleigjandi vekur mig.

– Ingimar, hvað gerðist? Var að sjá allt frá þér á símanum.

Hún er í smá sjokki og ég er varla með meðvitund. Ég safna allri orku sem ég á eftir og svara. Ég man skýrt eftir að hafa sagt: Segi þér það á eftir, leyfðu mér að sofa. En ég hef áreiðanlegar heimildir fyrir að ég hafi í raun sagt: SGfgre þr þá erir lfu mr ð ofa.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s