Undir venjulegum kringumstæðum myndi sjóða á mér þegar manneskjan á undan mér eyðir hálfri ævi í að velja á milli Big Mac og Big Mac með osti. En við Spaðinn erum hvort eð er nýbúnir að missa af lestinni og þar að auki var sýningin sem við vorum á frábær þannig að skapið helst gott.
Við erum staddir á Waterloo-lestarstöðinni, nýkomnir af einum besta einleik sem ég hef séð. Við erum glorsoltnir og pínu drukknir. Við þessar aðstæður er lestarstöðva-McDonalds ekki bara viðeigandi, hann er skylda.
McDonalds-staðirnir á lestarstöðvum í London er allir svipaðir, sérstaklega eftir klukkan tíu á kvöldin þegar hópar af djammklæddu fólki á leið heim mætir til að gera síðustu mistök kvöldsins. Þeir hafa samt hver sín einkenni. Þessi hjá Kings Cross verður svo troðinn að þeir loka salnum klukkan tíu og þú verður að skófla í þig matnum fyrir utan, á meðan þú dáist að því hversu léttklæddir Englendingar geta verið í næturkuldanum. Þessi hjá Charring Cross er svo stór að maður fær víðáttubrjálæði og getur ekki annað en tekið eftir að fólkið í kringum mann er klætt í jakkaföt, nýkomið úr partíi hjá einhverjum banka. Það er eitthvað við bæði jakkaföt og eldra fólk á McDonalds, maður fyllist depurð við að sjá það. Eins og að horfa á glæsilegan örn borða rusl.
Waterloo-staðurinn er pínulítill, til þess að finna sæti þarf maður að ráðast á þau eins og rándýr og vera undir það búinn að miðaldra kona á fimmta prosseco-glasi haldi langa ræðu um virðingarleysi yngri kynslóðarinnar. Samúð er mistök við þessar aðstæður.
Við Spaðinn pöntum fjöldaframleidda hamborgara og laukhringi og stökkvum á laus sæti. Við hlið okkar er maður sem passar ekki alveg inn á staðinn á þessari stundu. Hann er til dæmis augljóslega edrú. Við Spaðinn ræðum sýninguna og síðan mögulega áheyrnaprufu, eða öllu heldur skortinn á þeim. Eftir smá stund spyr gaurinn um hvern fjandann við séum að tala. Við útskýrum að við séum leikarar á milli gigga, vinnum fyrir okkur með því að þjóna í dýragarði og séum að reyna að búa til sjálfstæðar sýningar. Svarið hans er óvænt.
– Vá. Þvílíkt snilldarlíf.
Hann segist vinna á auglýsingastofu, mæti á hverjum degi um átta og vinni allt of mikið.
– Eins og við? Nema með betra kaup?
– Já, en ég fæ ekki einu sinni að láta mig dreyma um það ókomna, þið eruð allavega að skemmta ykkur í kvöld.
Svo snýr hann sér aftur að borgaranum, klárar hann í tveimur risavöxnum bitum og lætur sig hverfa. Spaðinn brýtur ísinn.
– Var hann … öfundsjúkur … út í okkur?
Í stað þess að svara ákveð ég að einbeitta mér að laukhring. Ég er ekki beint að njóta London í botn og sú tilhugsun að fullorðinn maður í fastri vinnu sjái það sem við erum að gera sem betri kost en sitt líf er of mikið. Sérstaklega þar sem McDonalds með vini eftir leiksýningu er hápunktur mánaðarins hjá mér.