Örsögur úr ódýrri íbúð: Burt með þig

Við Bóndinn stígum syngjandi út af ballinu og hefjum markvissa leit að krá til að halda kvöldinu áfram. Hið fyrrnefnda er reyndar góð vísbending um að hið síðarnefnda sé slæm hugmynd, þegar við byrjum að syngja saman var líklega svona klukkutími síðan við hefðum átt að halda heim. En við erum glaðir og leitum að næsta bjór eins og hann sé falinn fjársjóður.

Bóndinn er góður vinur og skólabróðir frá Íslandi. Hann hefur þann eina stóra ókost að verða stundum sveitaballafullur. Þegar hann kemst á það stig er best að syngja með og vona að hann muni ekki móðgast yfir einhverju smáatriði. Það gat haft ýmsar afleiðingar: Reiðöskur, partíslútt eða hnefahögg.

Sú staðreynd að ég er búinn með hálfa brennivín á tóman maga gæti tengst því eitthvað að ég vilji ólmur halda áfram að djamma. Eftir stutta göngu finnum við álitlega krá. Við ákveðum að hún sé fullkomin fyrir einn bjór sem mun líklega enda sem saga. Þú þekkir þá sögu, hún hefst eins og allar bestu djammsögurnar á orðunum: Sko, við ætluðum bara að fá okkur einn en …

Þessi tilvonandi bjór er fjársjóðurinn okkar en í veginum er Dreki. Maðurinn í dyrunum er tveir metrar á hæð, sköllóttur og með vöðvabyggingu sem staðhæfir að hann kæmist ekki í gegnum lyfjapróf. Hann hefur gríðargóð tök á varðhundasvipnum sem allir góðir dyraverðir æfa sig í heima, svipnum sem segir: Ekki fokka í mér, ég kann að komast upp með ýmislegt.

Til þess að hetjan nái í fjársjóðinn þarf hún að ganga óttalaus að Drekanum, sem ég geri. Ég heilsa, hann segir strax að Bóndinn sé of fullur. Ég lýg að við séum að bíða eftir fari og langi bara að fá okkur einn bjór á meðan við bíðum. Ég brosi mínu blíðasta. Bóndinn virðist skilja hvað sé í húfi og verður skyndilega rólegri. Kannski voru það jakkafötin sem við vorum í, kannski var það brosið en Drekinn hleypir okkur inn. Ég verð að lofa að Bóndinn hegði sér, sem ég geri þótt ég eigi að vita betur

Við Bóndinn skerum okkur aðeins úr hópnum á barnum. Viðskiptavinirnir eru unga og svala liðið í London. Þau standa teinrétt, ræða stjórnmál og hagkerfið. Við Bóndinn vorum á balli, þannig að við erum að sjálfsögðu vel klæddir en íslenski hreimurinn passar ekki hér og hvað þá ölvunarstigið. Mér er sama, er kominn með fjársjóð, gullinn bjór í glasi.

Hópur ungra manna tekur eftir mér og biður mig um að vera dómari. Það eru tvö lið í hópnum, bankastarfsmenn og lögfræðingar. Þeir eru að rífast um hvor stéttin lendir í ósanngjarnari umfjöllun. Ég segi lögfræðingar, þar sem bankamenn hafi valdið bankahruninu sé slæma umtalið um þá verðskuldað. Ég býst við að vera rekinn á brott en þeim finnst þessi óviðeigandi hreinskilni fyndin og við byrjum fljótlega að ræða fótbolta. Stóri kosturinn við boltann er að hægt er að ræða hann við alla sem hafa áhuga á honum, sama hvort það er pólskur rútubílstjóri, breskur lögfræðingur eða brasilískur listamaður. Enski boltinn jafnar alla í samtali.

Eftir að fjársjóðnum er náð er viðeigandi að leita sér að prinsessu. Ég kveð nýju vinina og gef mig á tal við stelpu. Ég tek eftir að Bóndinn er líka að eignast nýja vini. Þetta var á því ömurlega tímabili þegar ég hélt að lykillinn að velgengni með kvenfólki væri gervisjálfstraust og hroki. Ég segi brandara um eigin snilli, stríði henni og læt almennt eins og ég sé guðs gjöf til kvenna.

Nema þetta kvöld er sjálfstraustið ekta, enda knúið áfram af því að hafa sigrað Drekann og unnið jakkafatamennina á mitt band. Kannski fannst henni ég bara sætur, kannski náði ég að hitta á einhverja töfrabrandara en við erum fljótt farin að hlæja saman. Ég lýg því að síminn minn sé týndur og fæ hana til að hringja í mig og þykist sigri hrósandi yfir að hafa náð númerinu hennar. Eins og slíkt sé einhver sigur og ekki tvær manneskjur að ákveða að þær vilji kynnast betur.

Ég er farinn að sjá fyrir mér stefnumót þegar ég heyri skarkala. Bóndinn og einhver Breti eru komnir í öskurrifrildi, með hnefunum. Í ljós kemur að ekki allir eru jafn tilbúnir í sveitaballadrykkjuna hans. Ég blóta, legg frá mér bjórinn og stekk á milli þeirra, gríp um hálsmálið á Bóndanum og ýti honum frá. Svo sný ég mér að hinum gaurnum og af einhverri ástæðu bendi ég mjög fast á hann.

Það er svo óvænt að hann dettur úr hamnum. En skaðinn er skeður. Ég sé Drekann koma hlaupandi. Ég á allt eins von á að hann grípi okkur báða og ég fái loksins að upplifa að vera bókstaflega kastað út. Sem hefði verið skemmtilegra en það sem gerðist.

Í stað þess að grípa til teiknimyndaofbeldis horfir hann beint á mig. Manstu þegar þú gerðir eitthvað ömurlegt í æsku og hélst að kennarinn yrði brjálaður en í staðinn hristi hann bara höfuðið og sagði að þú yllir honum vonbrigðum. Það var svipurinn. Tveggja metra hái Drekinn er raunverulega sár á svipinn þegar hann sér að ég hef svikið loforðið og mér líður eins og skíthæl.

Ég bíð ekki boðanna, þótt ég hafi svikið Drekann ætla ég ekki að gera vinnuna hans erfiðari.  Ég dreg Bóndann út. Stelpan hristir höfuðið í átt að mér. Drekinn rekur á eftir okkur. Bóndinn, eins og oft þegar hann gerði eitthvað svona, er reiðari út í sjálfan sig en nokkurn annan. Við Bóndinn komum okkur heim og ég hugsa leiður um stefnumótið sem ekki verður og fjársjóðinn sem stendur enn þá ódrukkinn á borðinu.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s