Game of Thrones endurlesin (Fyrsta bók)

Þegar lokaþáttur sjónvarpsþáttanna Game of Thrones fór í loftið lauk 9 ára nær samfelldri sigurgöngu.  Sitt fannst hverjum um endapunkt sögurnar, en það er auðvelt að gleyma hversu ólíklegt var að þáttaröðin kæmist í loftið, hvað þá að hún myndi yfir höfuð klárast. Bókaserían var lengi talin, meðal annars af höfundinum, of stór og flókin fyrir annað listform en bækur. Sama hvernig endaði, þá hafa þáttargerðarmennirnir gert eitt sem höfundi hefur ekki tekist: Að ljúka sögunni

Fimm bókana eru komnar út. Nú þegar sjónvarpsþættinum er lokið er kannski vert að staldra við og lýta til baka, skoða af hverju það þótti svo magnað að það væri yfir höfuð verið að framleiða þættina og hvað það er við heim George R.R. Martin sem hefur fangað lesendur og áhorfendur í áranna rás. Ef þú hefur ekki lesið bækurnar eða séð þættina ættirðu að hætta að lesa hér.

Bók 1 – Game of thrones.

Myndaniðurstaða fyrir game of thrones first edition art

Bókin Game of Thrones kom út fyrsta ágúst 1996. Höfundurinn, George R.R. Martin, var nýbúin að ljúka áratuga vinnu sem handritshöfundur í sjónvarpi og það er rosalega freistandi að túlka seríunnar sem eina stóra löngutöng á sjónvarpið sem miðil.

Til að skilja af hverju bókin, í raun serían, náði jafn svakalegum vinsældum og raun bara vitni er nauðsynlegt að skoða stað hennar í fantasíubókmenntum. Þær höfðu í marga áratugi þar á undan verið undirlagðar af áhrifum Tolkien og Hringadrottinssögu hans. Þá er ég sérstaklega að tala um sú grein fantasíunar sem er innblásin af miðöldum. Oftar en ekki voru riddarar, orkar og dvergar í stórum hlutverkum, góðu kallarnir klæddust oftar en ekki hvítu, það var alltaf galdramaður í stóru hlutverki og flestar ef ekki allir góðu kallarnir lifðu af. Frábærir höfundar eins og R.A. Salvatore og Michael Moorcock skrifuðu tugi bóka, margar hverjar frábærar, innan þessara hamla. Greinin þreifst vel, en sögurnar voru oftar en ekki frekar fyrirsjáanlegar.

Það er ekki að segja að ekkert annað hafi verið í gangi, sérstaklega þegar leið á tuttugustu öldina hófu höfundar að brjóta sig úr þessum viðjum. Terry Pratchett gerði það nánast að ævistarfi að gera grín að þessu öllu saman, en það er áhugavert að taka eftir að suður ameríska töfra raunsæið var aldrei markaðsett sem fantasíur, né flest verk Stephen King. Árið 1990 gaf Robert Jordan út fyrstu Wheel of Times bókina, sem breytti fantasíum að því leyti að menn hófu að skrifa miklu stærri seríur og 1988 kom Tad Williams með sú nýjung að segja söguna frá mörgum mismunandi sjónarhornum, sem ætti að vera lesendum Game of Thrones kunnugt.

Þannig var heimurinn sem Martin greinin sem Martin gaf út Game of Thrones í. Það er ekki ofsögum sagt að hann hafi breytt þeim heimi til hins betra. Það væri líka hægt að segja að hann hefði sprengt þennan heim í tætlut. En hvernig fór hann að því.

Bókin sjálf – Endurlesin.

Magic has to handled carefully. It‘s like salt in a stew. Add a little salt and it makes the stew taste better. Add to much and all you can taste is the salt.

George R.R. Martin í samtali við John Hodgman

Martin hefur sagt að uppbygging sögurnar sé fengin úr Hringadrottinssögu. Þegar sagan hefst eru allar aðalpersónurnar (nema Dany) á sama litla staðnum og eftir sem á lýður tvístrast þau meira og meira. Margir kenningasmiðir hafa lesið ýmislegt í þessi orð Martin um framtíð sögurnar, en ég læt vera að leggja lóðar mínar á þær vogaskálar. Ég vil bara benda á að þó bókin sé að mikla leyti svar við Tolkien, þá skín ást Martin á enska skáldinu í gegn, meðal annars í því að hann meðvitað tekur uppbyggingu Hringadrottinssögu á láni.

Augljóslega breytir önnur lesning bók. En það er ekki margar bækur sem breytast jafn mikið og þessi á öðrum eða þriðja lestri, sérstaklega ef búið er að lesa framhöldin. Ástæðan er meðal annars að hjarta bókarinnar er tvær ráðgátur: Hver drap persónuna Jon Arryn og hvers vegna. Svarið við seinni spurningunni er eiginlega svarað í lok Game of Thrones.  Svarið við þeirri fyrri kemur ekki ljós fyrr en nokkuð þúsund síðum seinna í lok bókar þrjú. En þegar bókin er endurlesin eru vísbendingarnar við ráðgátunum tveim svo öskrandi augljósar að maður vill slá sig fyrir að hafa ekki séð þær fyrr.

Bækurnar eru meðal annars frægar fyrir sagnastílinn sem Martin fékk lánaðan frá Tad Williams. Það er að segja að hver kafli er sagður frá sjónarhorni mismunandi persónu. Í fyrstu bókinni er hún sögð frá sjónarhóli níu aðalpersónana, en í hverjum kafla vitum við bara það sem persónan veit. Þetta leyfir Martin að leika sér með mismundi sjónarhorn á sömu viðburði. Hann passar sig líka á hvaða persónur eru sjónarhornspersónu, almennt þær sem vita minnst um hvað er í gangi. Eins hrikalega skemmtilegar persónur og Varys og Littlefinger eru, þá myndi einn kafli frá þeirra sjónarhorni eyðileggja heildina. Þetta virkar í báðar áttir, stundum myndast spenna vegna þess að lesandinn veit meira en hver persóna gerir.

Í endurlestrinum kom mér á óvart hversu þéttskrifuð bókin er.  Tilfinningin er að ekki sé hægt að klippa eina setningu úr henni, þó bókin sé löng er ekki arða af fitu á beinunum. Martin hefur sjálfur sagt að hann hafi lært þetta í sjónvarpinu, miðli þar sem hver sekúnda og lína verður að skipta máli. Allavega ef þátturinn á að vera góður.

Spennandi söguþráður getur ekki verið betri en persónur bókar leyfa. Catelyn, Ned, Bran, Tyrion, Jon Snow, systurnar Arya og Sansa eru mikilvægastar enda sjáum við heiminn með þeirra augum. List Martins er meðal annars að persónurnar gera hrikaleg mistök, og taka afleiðingum þeirra, en rétt á meðan mistökin eru gerð þá skiljum við sem lesendi hvers vegna þau eru gerð. Þetta er hluti af því sem gerir söguna svo öfluga. Bæði samkenndin sem við finnum með persónunum rétt á meðan þær gera mistökin og svo hversu óhjákvæmilegar afleiðingarnar virðast. Að því leyti má líkja sögunni við grískan harmleik, við vitum að endirinn verði blóðugur og slæmur, en viljum samt sjá hvernig hann verður að veruleika.

Talandi um blóð. Önnur af frægustu senum seríunnar gerist í fyrstu bókinni, þegar fótunum er kippt undan lesendum og höfðinu er kippt af Ned Stark. Þessa sena er kannski ekki jafn öflug á öðrum lestri og þeim fyrsta, en hún er öflug á annan hátt. Í stað þessar að vera sjokkerandi viðsnúningur, er hún skelfilega óhjákvæmileg.

Það er þess virði að skoða af hverju þessi sena varð jafn fræg og raun bar vitni. Fyrsta ástæðan er augljósust: Alla fyrstu bókina teljum við sem lesendur að Ned sé aðalpersóna sögunar og heil ævi af lestri ásamt árþúsunda bókmenntahefð, sérstaklega í fantasíu bókmenntum, segir okkur að aðalpersónur drepast ekki í fyrstu bók af sjö. Með þessu morði leggur Martin áherslu á að hann er ekki að segja sögu einnar manneskju, hann er að segja mun stærri og flóknari sögu en það. Það er eitthvað kvikmyndalegt við að það þurfi að vera ein ákveðin aðalpersóna og Martin sýnir hér að hann er að vinna í öðru listformi en kvikmyndum.

Hin ástæðan fyrir að drápið stuðar okkur svona rosalega er að samkvæmt öllum vísbendingum í köflunum á undan þá er Ned að fara að sleppa. En snilldin við hinn geðbilaða Joffrey er að ákvörðuninn kemur eins og þruma úr heiðskýru lofti og en passar samt alveg inn í söguna. Eðli valds er viðfangsefni alla seríuna og sjaldan er það þema jafn borðliggjandi og í þessu atriði. Allar valdamestu persónurnar í sögunni á þessum tímapunkti vildu að Ned lifði en það kom í ljós að í andartakinu voru þær alveg máttlausar.

Það vill falla í skuggann af aftökunni, en fyrsta aðalpersónan í bókinni er næstum drepinn í upphafi sögurnar. Bran er ýtt út um glugga (ólíkt þáttunum er það ekki ljóst í fyrstu hver ýtti, nokkuð sem er öskrandi augljóst í endurlestri) snemma í bókinni en við vitum að hann lifir af þó lamaður sé. Þegar maður les bókina fyrst er þetta stuðandi augnablik en eftir á að hyggja virkar það meira eins og verkfæri til að koma sögunni í gír. Sama má segja um dauða Khal Drogo. Stríðsmaðurinn mikli er kannski eina persónan í sögunni sem minnkar við endurlestur, það að vita að hann deyr gerir það ljóst að hann er bara aukapersóna í sögu Dany, á meðan Jorah Mormont verður meira áberandi þegar vitað er í hvað stefnir hjá honum og Dany.

Eitt að lokum, það eru miklu færri orrustur en manni minnti. Ofbeldi er risastór hluti sögurnar, en orrustur eru fáar. Ein er sögð frá sjónarhorni Tyrion og hin er frá sjónarhóli Catelyn. Hann er ekki beint stríðshetja og hún situr hjá og fylgist með í fjarska. Af þessum ástæðum er engin upphafning stríðs í Game of Thrones. Án þess að skrifa klisjukenndan friðarboðskap, tekst Martin að tæta í sundur sú hugmynd að stríð sé staður dýrðar og hetjuskapar. Kannski er það ástæða þess hversu margar sögur persónurnar segja hvor öðru, hversu mikilvægar goðsagnir og hetjusögur heimsins eru í frásögninni. Ómeðvitað ber lesandinn (og sumar persónurnar) saman frægðarsögurnar og raunveruleikann sem blasir við þeim.

Síðast en ekki síst verður að minnast á notkun töfra í Game of Thrones eða öllu heldur skortinn á þeim. Í fyrsta kaflanum er smá yfirnáttúra og úlfarnir eru engar venjulegar skepnur. Þess fyrir utan eru engir töfrar fyrr en í blálok bókarinnar. Flestar persónurnar trúa ekki einu sinni á töfra. Þetta magnar auðvitað áhrifin af þeim þegar þeir byrja að taka sinn sess í sögunni. Einn skitin uppvakningur skelfir lesandann inn að beini og í mörgum fantasíum hefðu drekarnir þrír þótt fremur ómerkilegir og máttlitlir. Þegar Dany eignast þá í lok bókarinnar veit lesandinn að það er verið að afhenda henni ígildi gjöreyðingarvopns. Rétt eins og með orrustunnar þá magnar skorturinn á töfrum áhrifin þegar þeir koma í  ljós.

Þættirnir.

Myndaniðurstaða fyrir game of thrones

Það er ekki hægt að skrifa um endurlestur þessarar bókar án þess að minnast á þættina sem sigruðu heiminn. Það er falleg hringrás í sögu George R.R. Martin í kringum Hollywood. Hann skrifaði í rúmlega áratug fyrir sjónvarp. Hvað eftir annað lenti hann í því að hugmyndir hans voru of stórar fyrir þann miðil. Hann gafst upp og hófst handa við að skrifa bækur á ný. Bækur hafa stóra kost að höfundar þurfa ekki að pæla í neinu öðru en að segja söguna. Árum saman sagði hann nei við tilboðum upp á háar fjárhæðir í kvikmyndarétt bókanna, þangað til að sjónvarpsmiðilinn byrjaði að breytast með tilkomu þátta eins og The Wire, Breaking Bad og fleiri. Þá loksins komu til hans menn sem honum leyst á og nokkrum árum seinna var hann orðin eitt stærsta nafnið í Hollywood. Þegar ævi hans verður kvikmynduð, verður ris myndarinnar þegar ljóst er að Game of Thrones sé orðin að vinsælasta sjónvarpsþátt í heimi.

Ef þátturinn hefur gert eitthvað fyrir bókina er það kannski helst að fá mann til meta smáatriðin betur. Eins vel og HBO stóð sig í að segja söguna á skjánum, þá eru óteljandi smáatriði sem töpuðust. Dýptin í bókunum er meiri, persónurnar fleiri, meira að segja sum sverðin mætti telja sem aukapersónur í bókinni. Þetta er ekki hægt á skjánum, nema að þættirnir verði þúsund klukkutíma og þar að leiðandi drep leiðinlegir.

Að sama skapi eru ákveðnir hlutir sem eru bara betri í þáttunum. Sumum leikurunum tókst að ljá persónum sínum dýpt sem var ekki til staðar í fyrstu bókinni, til að mynda Mark Addy sem Róbert konungur og Lena Heady sem Cersei Lannister. Það hefur líka sín takmörk að segja söguna bara frá sjónarhóli X aðalpersónu, samskipti milli persóna sem eru ekki þær eru ekki til staðar í bókinni.

Eru bækurnar betri en þættirnir út af þessu? Nei, ekki endilega. Í fyrstu bókinni og fyrstu þáttaröðinni er verið að segja sömu sögu á annan hátt, með öðrum áherslum í mismunandi miðlum. Hvort að það sé satt um seinni bækurnar er svo allt annað mál.

Niðurlag

Game of Thrones var ein vinsælasta fantasía heims áður en þættirnir komu til sögurnar og mun vera það áfram nú þegar þáttunum er lokið. Það er þess virði að vinsældir bókanna fóru ekki á flug fyrr en þriðja bókinn kom út, serían hafði haft mörg ár til að ganga lesenda á milli. Bókin er miklu hægari miðill en sjónvarp, á fleiri veg en einn. En grunnurinn af vinsældum seríunnar og þáttanna var lagður í þessari bók. Það er ekki eiginlegt ris í henni, en í lok hennar erum við lesendur komin í kafi í flókin og töfrandi hugarheim Martins og stríðið getur hafist af áfergju. Það er vel þess virði að lesa þessa bók aftur, en þú munt vilja taka Clash of Kings upp strax að lestri loknum. Ég varaði þig við.

Ef þér fannst þessi lesning áhugaverð langar mig að benda þér á póstlistan Andskoti góðar bækur, þar sem ég sendi mánaðarlega út umfjöllun um frábærar bækur sem allir ættu að lesa.

Ein athugasemd á “Game of Thrones endurlesin (Fyrsta bók)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s