Game of Thrones endurlesin (Önnur bók – Clash of Kings)

Myndaniðurstaða fyrir clash of kings book cover

Ég gerði pínulítil mistök við skrif fyrstu greinarinnar. Þetta mun ekki pirra marga en innra nördið er samt ekki sátt. Þessi bókasería heitir A Song of Ice and Fire, ekki Game of Thrones en sjónvarpið hefur víst smitað mig af því að fyrsta bókin sé titill allrar seríunnar. Ef þetta fer í þig, huggaðu þig við að þetta fer líka í mig. Ef þú tókst varla eftir þessu, líttu á þessa málsgrein sem innsýn í hugarheim ofurbókanörda.

Clash of Kings er önnur bókin í seríunni og hálfgert olnbogabarn. Það er engin augnablik sem gera lesendur kjaftstopp eins og aftakan í fyrstu bókinni og brúðkaupin í þriðju. Það er orrusta, sú stærsta hingað til en mest allur hasarinn gerist milli kafla eða í fjarska. En sviðinu er stillt upp fyrir Storm of Swords og sviðsuppsetning er næstum jafn spennandi og leikritið sjálft.

Ég skoðaði nýlega hvernig lesendur raða bókum seríunnar almennt upp, eftir hver er best/uppáhalds. Eftir að hafa skoðað tíu svoleiðis lista áttaði ég mig á að Clash of Kings er einskins manns uppáhald. Sem segir ekki alla söguna. Storm of Swords er nefnilega alltaf í fyrsta. Það kom mér svo sem ekki á óvart, en Clash of Kings er svolítið á reiki. Á eldri listum er hún oft í öðru (þá fyrir ofan fyrstu bókina) en á nýrri listum dettur hún stundum niður fyrir Dance with Dragons og jafnvel en neðar. Af hverju er það?

Einkenni.

Það fyrsta sem lesandi tekur eftir er að sagan komin út um allt. Aðal söguhetjan, ef einhver er, er Tyrion. Hann og Sansa eru einu persónurnar í kringum höfuðborgina. Arya er í sínu eigin ævintýri og Catelyn ferðast um hálft meginland. Þær hitta samt fáar persónur með eigið sjónarhorn. Jon og Dany ferðast lengra frá aðalsögunni, en við hittum í fyrsta sinn laukriddarann og fleiri persónur sem eru ekki bein tengdur Stark og Lannister ættunum.

Í samanburði við fyrstu bókina, þar sem nánast allt gerðist í Kings Landing er sagan í Clash of Kings miklu stærri. Í þessari bók sjáum við sjaldan sama viðburðinn frá mörg. Samt er bókin hrikalega þétt. Eins og í Game of Thrones er tilfinningin að það sé verið að segja eina stóra sögu, sagan hefur bara vaxið um helming.

Eitt af því sem Martin hefur alltaf haft gaman af er að taka klassísk minni og breyta þeim. Það er fjöldinn allur af þeim í þessari bók, sem hjálpar með tilfinninguna að þetta sé venjuleg fantasía. En svo áttar maður sig á hversu hrottalegar útgáfur Martins er. Arya fær þrjár óskir, ekki ósvipað Aladin, nema óskirnar eru morð. Theon Greyjoy býst við að snúa heim eins og hetja úr ævintýri og uppgötvar sér til hryllings að engin þar þarf sérstaklega á honum að halda, né treystir honum. Töframenn koma við sögu en þeir eru ógeðslegir gamlir kallar sem eru búnir að missa mest allan mátt sinn.

Myndaniðurstaða fyrir jaqen h'ghar art

Svo eru það drekarnir. Í flestum sögum eru drekar gjöreyðingarvopn, þeir eru loka vondi karlinn. Í þessari eru þeir ósjálfbjarga hvolpar, sem stefna eigandanum í stórhættu. Allir vilja eignast þá, en Dany getur ekki notað þá til að verja sig (en þá). Þeir eru meira hótun en raunveruleg ógn, sem mun auðvitað breytast.

Ein af ástæðum fyrir að endurlestur er jafn yndislegur og raun ber vitni er að maður tekur eftir litlu hlutunum sem höfundur gerir. Strax í þessari bók byrjar Martin að undirbúa jarðveginn fyrir Rauða Brúðkaupið. Augljósi undirbúningurinn er að persónurnar fara að heyra orðróma um að Robb hafi móðgað Frey fjölskylduna á einhvern rosalegan hátt. Hitt er lúmskara. Oftar en einu sinni tala persónur um heilög réttindi gesta, friðhelgina sem þeir njóta. Hversu meðvitaður lesandi er um þetta þegar kemur að brúðkaupinu fræga er líklega mismunandi. En þetta smýgur inn í mann og hefur sín áhrif.

Valdið

“So power is a mummer’s trick?”
“A shadow on the wall, yet shadows can kill. And ofttimes a very small man can cast a very large shadow.”

Varys í samtali við Tyrion

Ef hægt er að niðurnjörva Song of Ice and Fire í eitt þema, er þemað vald.  Hvort sem um ræðir beint eða óbeint vald, vald stríðsmanna eða presta, vald innan fjölskyldna eða á þegna. Flestar persónur þrá vald á einn eða annan hátt, eða þrá eitthvað sem vald og hefðir halda þeim frá. Vald tekur margar birtingarmyndir: Virðing, auður, herir, hefðir en alltaf er vald það sama: Að geta fengið aðra til að gera eitthvað sem þau vilja ekki gera. Við sjáum það best í gegnum kóngana fjóra (sá fimmti er krýndur í næstu bók).

Í þessari bók meira en hinum kemur í ljós ein af grunnhugmyndum höfundar um vald: Þeir sem þrá vald eða telja sig eiga það skilið, ættu ekki að fá það. Joffrey hefur frá blautu barnsbeði verið alin upp til að trúa að hann eigi skilið að vera konungur, því hann er jú konungborin. En hann er hrottalegur konungur og valsar úr hverju ógeðinu í annað.

Stannis er karakter sem mótast algjörlega að járnklæddri réttlætiskennd sinni. Hann heldur því statt og stöðugt fram að hann vilji ekki krúnuna en það er vísbendingar í textanum að hann sé að ljúga að sjálfum sér. Manni hryllir við tilhugsunina um hann sem alvald. Stannis tilbiður lögin, vill að þau séu úr járni og fyrir sitt litla líf skilur ekki af hverju allir aðrir eru ekki jafn sammála honum.

Renly tekur ákveðin Makievelli á þetta: Hann getur orðið kóngur og hví ekki að verða það, hann væri líklega ekki (vitum það samt ekki) verri en hver annar. Skuggi stóra bróðursins Robert hangir yfir honum og maður getur ekki annað en ímyndað sér að valdatíð Renly yrði svipuð og Róberts: Friðsæl með hræðilegar afleiðingar.  Renly er ógurlega vinsæl, fær fólk til að fylgja sér auðveldlega en að lokum hverfur hann úr sögunni hratt og blóðugt.

Svo er það Ungi Úlfurinn, Robb Stark. Það er eiginlega magnað hversu lítið hann er í þessari bók. Öll hans miklu ævintýri og stríð gerast í fjarska, við heyrum um þau í gegnum orðróma og hvíslu leiki. Hann virðist ekki neitt sérstaklega vilja kórónu. Hann fer í stríð til að frelsa og svo hefna Ned Stark, reynist frábær herforingi og laðar til sín hollustu erfiðra manna sem ákveða að krýna hann kóng. En í lok dags er gaurinn fjórtan ára (börnin eru öll nokkrum árum yngri í bókunum en þáttunum) og mistökin í þessari bók enda á að kosta hann allt, en um það fjöllum við í næstu bók.

En í ljós kemur að það eru ekki endilega kóngarnir sem hafa allt valdið. Það er líklega ekki tilviljun að hvergi í Song of Ice and Fire er kafli frá sjónarhorni krýnds konungs (nema við teljum Dany í seinni bókunum sem kóng). Í stað þess fylgjumst við með fólkinu í bakherbergjunum: Tyrion, Catelyn, Davos og Theon. Þau reyna að byggja upp vald sitt gagnvart alvöldunum, sem gengur misvel. Lesandi verður líka meðvitaður um hversu mikið er í höndum persóna sem varla sjást: Tywin, Balon, Boltonarnir, Mellisandre. Maður veltir fyrir sér hversu vel þetta endurspeglar heiminn okkar. Hversu mikið sem gerist er í höndum ráðgjafa, skugga og afla sem við vitum ekkert um.

Tyrion Lannister.

Þegar þetta er skrifað er búið gefa út fimm af sjö bókum í seríunni Song of Ice and Fire. Af öllum tugum aðalpersóna í seríunni, er Tyrion sú eftirminnilegasta. Húmoristi, kjaftaskur, dvergur. Ef kaflar aðalpersóna eru taldir saman á Tyrion lang flesta: 47. Jon Snow kemur næst með 42, næsta persóna á eftir með 34. Geturðu giskað á hver þriðja er?

Clash of Kings er bókin þar sem Tyrion virkilega fær að njóta sýn. Ferðalag hans í Clash endurspeglar að miklu leyti ferðalag Eddard Stark í fyrstu bókinni: Báðir koma til höfuðborgarinnar til að sjá um rekstur ríkisins, báðir þurfa finna fótfesta í blóðugri pólitík borgarinnar, byggja upp vald sitt, vinna bandamenn á sitt band og ákveða hverjum er hægt að treysta (spoiler: nánast engum). Helsti sýnilegi andstæðingur beggja er meira segja sá sami: Cercei Lannister.

Ólíkt Ned, stendur Tyrion sig vel. Allavega ef við dæmum eins og Makievelli hefði gert og ekki samkvæmt neinu siðferði. Hann vinnur þónokkra á sitt band, á skilið stóran hluta heiðursins fyrir að bjarga borginni frá Stannis. Hann uppsker að launum öxi í andlitið og hatur almennings. Sem lesandi heldur maður með honum. Samt þarf að hugsa aðeins út í hvað hann gerir, hann drepur og pyntar fólk, rænir litla frænda sínum og hótar að pína hann til dauða.

Ég held að Clash of Kings sé í síðasta skiptið sem við sjáum Tyrion almennilega hamingjusaman, síðasta skiptið þar sem hann er að takast á við vandamál sem hann nýtur og er að vinna í það minnsta litla sigra. Sagan sem bíður hans í Storm of Swords og Dance With Dragons er mun harmþrungnari en ljúfa lífið hans eins og er.

Niðurlag: Hryllingur og lausir endar

Eitt af því marga sem Song of Ice and Fire gerir vel er að fanga báðar hliðar stríðs. Við viljum kannski ekki viðurkenna það, en það er eitthvað dýrðlegt við stríð eitthvað sem hefur fylgt manninum frá örófi alda. En það er bara brot af stríði og bara fyrir sigurvegarann. Fyrir flesta er stríð ógeðslegt, sérstaklega þá sem verður undir hjólum stríðsins. Í þessari bók byrjar Martin að skrifa um litla fólkið sem krúnuleikarnir snerta, söguþema sem nær hápunkti sínum tveimur bókum seinna.

Clash of Kings út er virkilega góð bók. En hún er bara svo óheppinn að bókin sem á eftir kemur er miklu eftirminnilegri. Margt af því sem gerir næstu bók jafn frábæra og raun ber vitni er í Clash of Kings. Hún er miðjubók þríleiksins, ekki endilega best en svo ofboðslega mikilvæg. Hér er Martin búin að losa um alla enda, sem hann byrjar svo að hnýta saman í næstu bók.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s