
Það eru tveir dagar á árinu þar sem maður endar alltaf á að pæla í lífinu og förnum veg. Áramótunum og afmælinu manns. Það er samt skrýtið að verða 29. Þetta er engin áfangi, markar engin tímamót. Maður er bara einum degi eldri en í gær, árinu eldri en í fyrra.
Í viðleitni minna við að stela góðum hugmyndum Ryan Holiday datt mér í hug að setja saman þennan lista. Það eru líkur á að eitthvað hér verði greinar á næstu mánuðum, þannig að ef eitthvað vekur áhuga þætti mér gaman að heyra af því. Röðin er handahófskennd og mér finnst ástæða til að rökstyðja sumt en margt ekki.
- Það er skítlétt að vinna yfir sig. Ég vil ekki vita hvað ég hef unnið mikið á árinu. Ég vil ekki vita hversu mörgum fleiri nóttum ég hef eytt í Húsafelli en íbúðinni minni. Það var rétt í smá stund að ofkeyra sig en kostnaður fylgir og hann ber vexti.
- Svefn er, gróflega áætlað, þúsund sinnum mikilvægari en við viljum viðurkenna.
- Tíu þússarinn gildir. Borga tíuþúsund kall auka á mánuði inn á lánin. Munar hratt um það.
- Sama gildir um tíu mínútna hreyfingu á dag.
- Góðir hlutir gerast mjög, mjög hægt. Vona að ég bæti við að ári: og svo rosalega hratt.
- Það er eitthvað við að eiga vini sem maður hittir reglulega sem hóp. Sami hópur með svipað erindi aftur og aftur.
- Námskeið eru snilld. Fór á Jöklu 0 í ár og er á leið í meirapróf. Vonandi fleiri svona helgar á næsta ári.
- Gufa, hugleiðing og ísböð eru snilld, sérstaklega ef iðkað er reglulega.
- Samfélagsmiðlar eru samfélagseitur. Áhrif þeirra fara síst skánandi.
- Rútína er góð, sérstaklega þegar kemur að hlutum sem eru erfiðir en þarfir.
- Það er ekkert samasemmerki milli þess að einhver sé ósammála þér og hann sér vondur. En opinber umræða snýst sífellt meira um að útskýra af hverju hinn hliðin er beinlínis Satan.
- Umhverfisverndarhreyfingin þarf að taka kjarnorku í sátt. Með áhugaverðari pælingum sem ég hef rekist á undanfarið, en á eftir að lesa mér til um þessa hugmynd
- Ástæðan fyrir Trump, Brexit og Sigmundi Davíð er nánast aldrei mannvonska/heimska.
- Öfgar eru vandamál í báðar áttir stjórnmála, en okkur vantar líka nothæfa skilgreiningu á öfgum.
- Skali skiptir máli. Sömu aðferðir ganga ekki fyrir Hafnarfjörð og ESB.
- Það er nánast ekkert orsakasamband milli þess að vita mikið og vera góður leiðsögumaður.
- Túrismi er löngu komin til að vera, en hann verður líklega aldrei virtur.
- Fljótasta leiðin til að finna klaufamistök í texta er að birta hann og líta svo hratt yfir hann. Augun sogast að svona 18 vandræðalegum villum samtímis. Hæga aðferðin er að fá aðra til að lesa yfir fyrir sig. Hæga aðferðin er betri.
- Þegar fólk segir að einhver líti út fyrir að vera yngri en hann er, meinar það grennri en jafnaldrar hans.
- Fólk sem eru ógurlega visst með allt, hræðir mig meira með hverju ári sem líður. Alltaf þegar ég sé fólk staðhæfa hvað stjórnmála menn vilja, nákvæmlega hvernig heimurinn virkar eða hvernig samfélagið ætti að breytast hugsa ég: Hvernig eruð þið svona viss? Hvað ef þú hefur rangt fyrir þér.
- Því færri hlutir og stefnur sem eru hluti af sjálfsmynd manns, því betra.
- Maður ofmetur stórlega hvað maður getur gert á degi, meira það sem maður getur á ári. En vanmetur stórlega það sem er hægt á fimm árum.
- Besti dagurinn er planaður daginn áður. Jafnvel fyrr.
- Ég veit núna hvernig minn fullkomni (venjulegi) dagur er. Það er frelsandi og skemmtilegt. Næsta skref er að endurtaka hann ítrekað.
- Að halda vináttuböndum sterkum verður erfiðara með árunum. Líka mikilvægara.
- Það er erfitt að halda góðum vana gangandi og halda áfram að gera svipaða hluti aðeins betur. Samt ekki jafn erfitt og að byrja.
- Ég efast um bannið við steranotkun í atvinnuíþróttum. Hver er tilgangurinn með reglu sem við vitum að þúsundir brjóta. En ef við samþykkjum sú rök, hvað segir það um stríðið gegn fíkniefnum.
- Lífið er alltof stutt fyrir leiðinlegar bækur. Nýlega kláraði ég bók á þrjóskunni einni saman í fyrsta sinn síðan í menntó. Það voru mistök.
- Það er geggjuð tilfinning að láta vaða. Þessi síða er eitt af nokkrum verkefnum sem ég hef verið að velta fyrir mér allt of lengi. Var stressaður, leið kjánalega með þessa hugmynd. Síðan fer hægt af stað. Hingað til hefur engin greinanna verið nákvæmlega eins og ég vildi. Þær hafa ekki heldur verið jafn margar og ég vildi. Mér sama. Síðan er komin fjórum mánuðum lengra en ef ég hefði ekki látið vaða. Eftir ár verður hún komin 16 mánuðum lengra.
Þetta er það sem hefur verið að veltast upp í hausnum á mér síðustu viku eða svo. Hver veit hvort ég hafi rétt fyrir mér með eitthvað af þessu. Ég varpa þessu fram til að losna við þetta úr höfðinu á mér í bili, vonandi skemmtir þetta þér eða fær þig til að spyrja þig áhugaverðra spurninga.
Væri til í að lesa grein um pælinguna: „Því færri hlutir og stefnur sem eru hluti af sjálfsmynd manns, því betra.“
Líkar viðLíkar við
Gaman að heyra. Lofa ekki hvenær, en fer ofarlega á verkefnalistann. Takk fyrir lesturinn.
Líkar viðLíkar við