Game of Thrones endurlesin (Þriðja bók – A Storm of Swords)

Þá er komið að Bókinni. Með stóra b-inu og skáletrinu. Bókinni sem skilur Song of Ice and Fire frá öðrum fantasíum, bókinni sem ég (bókstaflega) kastaði í vegg þegar ég las frægasta atriðið. Bókin þar sem lesenda verður endanlega ljóst að engin mun lifa hamingjusamur til æviloka. Það er komið að Storm of Swords.

Bókin sjálf.

Það er erfitt að horfa framhjá hversu þykk bókin er. Flestar útgáfur eru um í 1200 blaðsíður og henni hefur oft verið skipt upp í prentun í tvær eða jafnvel fleiri bækur. Franska þýðing bókarinnar var gefin út í fjórum bindum, sem er kannski full mikið af því góða. Spurning hvort útgefandinn hafi þurft að fjölga seldum eintökum vegna fjárhagsörðuleika.

Eina bókin í seríunni sem er lengri er Dance with Dragons. Það er samt mikilvægur munur á. Í Storm of Swords eru ekki nema 10 sjónarhornspersónur, í Dance eru þær 16(!). Storm of Swords er mun þéttari og hraðari bók en maður hefði búist við miðað við stærð.

Sagan skiptist í þrennt, en í fyrsta sinn í seríunni þá flakka persónur á milli sviða. Lungað í bókinni gerist í suðrinu og segir frá hápunkti fimm konunga stríðsins. Í norðrinu nær stríð Jon Snow við villimennina hápunkti sínum og þegar bókinni lýkur er því stríði lokið og nýja ógn komin almennilega í ljós. Þættirnir stóðu sig mjög vel í að byggja upp yfirnáttúrulega óvinarins, í bókunum er auðvelt að gleyma tilveru þeirra, þangað til í Storm of Swords.

 Í austri nær breytir Deanyris um stefnu og krýnir sig drottningu borgarríkis eftir blóðuga orrustu. Bókinni lýkur og allt virðist vera með nokkuð kyrrum kjörum, en glóðir loga undir yfirborðinu sem við munum fara í þegar kemur að og Dance with Dragons.

Persónurnar.

Í þessari bók verður ljóst að sögu Deanerys og Jon mun ekki ljúka fyrr en serían klárast. Þau fá að ljúka bókinni á ákveðnum hápunkti, Jon sem leiðtoginn á veggnum með úlfinn sér við hlið og óvin að nálgast. Deanerys ákveður að taka sér pásu, æfa sig í að stjórna og reyna að skilja ekki endalausa sviðna jörð. Við vitum sem lesendur að vegurinn verður grýttur fyrir þau, en að sama skapi er næstum hægt að tala um að þau séu komin á fjallstind hér. Ef seríunni lyki hér, myndum við tala um að þau hefðu sigrað eins og í ævintýri.

Þrátt fyrir alla spennuna fyrir austan og norðan þá eru stjörnur bókarinnar Lannister bræðurnir Jaime og Tyrion. Sá síðarnefndi vaknar eftir orrustna um Kings Landing og uppgötvar að það er búið að senda bandamenn hans í burtu, pabba hans er búin að taka starf hans og já, öllum er drullusama um að hann bjargaði borginni. Eftir að hafa eytt allri síðustu bók í að byggja upp vald sitt er það rifið af honum. Sem „verðlaun“ fyrir vel unninn störf er honum skipað að giftast Sönsu Stark, 14 ára ungling sem kennir honum um dauða fjölskyldu sinnar. Svo fer líf hans versnandi.

Myndaniðurstaða fyrir tyrion and jaime lannister artwork
Þættirnir gerðu flest rétt, en Peter Dinklage er töluvert myndarlegri en bókin lýsir.

Það var sjokk þegar kom í ljós að Jaime væri sjónarhornspersóna í þessari bók. Það er auðvelt að gleyma því hversu mikið lesandi fyrirlítur hann fyrstu tvær bækurnar. Eitt stærsta afrek Martins sem rithöfunds er að snúa því við og gera hann að hetju í augum lesandans. Í þessari bók er sjálfsmynd Jaime rifin í sundur þegar hann missir höndina sem hann sveiflar sverðinu með. Þetta er ákvðið minni í Song of Ice and Fire, persónur skilgreina sig út frá einhverju ákveðnu sem er rifið frá þeim. Þegar sagan sem persónurnar segja sjálfum sér er oðrin lygi, þá uppgötvum við hvaða mann þau hafa að geyma. Í tilfelli Jaime kemur í ljós að undir töffaranum er almennilegur gaur sem trúir á heiður og hetjuskap.

Á sama hátt er missir Tyrion þegar tæpa tengingu við fjölskylduna sem hann hafði skilgreint sig út frá. Arya telur sig hafa misst alla fjölskylduna, Sansa missir drauminn um gott hjónabönd og sögu. Það kemur í ljós síðar hvað við finnum undir yfirborðinu hjá þeim.

Það er erfitt að lesa Aryu og Catelyn kaflana í þessari bók. Þær skilgreina sig báðar mikið út frá fjölskyldunni sinni, sem er svo gott sem þurrkuð út. Í tilfelli Aryu er það svo sárt að endurlesa hversu nálægt hún virðist að komast í öruggt skjól og aftur og aftur er það rifið frá henni. Í lok bókarinnar segir hún bless við heimaland sitt og hefur nýja sögu fjarri því, sem mun vonandi vera aðeins sársaukaminni. Saga Catelyn lýkur líka, í frægustu senu seríunar. En hún snýr aftur í lok bókarinnar, því til næst óþekkjanleg eftir þrjá daga handan móðurnar miklu.

Brúðkaup er hættulegri en orrustur.

Það eru fleiri í þessari bók en orrustur. Það er ekki að segja að stríðið sé ekki á fullu, en persónurnar sem Martin kýs að fylgja eru ekki þær sem eru í fremstu víglínu, nema Jon fyrir norðan og Dany fyrir austan. Þetta er bara eitt af mörkum merkjum þess að Song of Ice and Fire er fyrst og fremst pólitísk saga.

Fyrsta brúðkaupið er brúðkaup Sönsu og Tyrion, hjónabands sem gleymist oft þegar sagan er rædd. Hún er fórnarlamb í þessu og Tyrion þráir ekkert meira en að hún læri að elska hans þrátt fyrir galla hans og ættarnafn. Sem hún mun aldrei gera og nokkur hundruð síðum seinna er hún horfin á brott og hann komin í fangelsi.

Næst er rauða brúðkaupið. Kannski eftirminnilegasta sena í seríunni. Við endurlestur tekur maður eftir öllum vísbendingunum sem Martin kryddar textann með. Hvað eftir annað er minnst á rétt gesta til verndar, þegar Catelyn fær mesta skítseiði bókarinnar Walder Frey til að gefa þeim brauð og salt líður lesanda eins og þau séu örugg. Kemur í ljós að Walder Frey og Roose Bolton er nokkuð sama og fornar hefðir og kjósa að skipta um lið. Það sem kom mér á óvart er hversu stuttan tíma þetta tekur allt saman. Arya er á staðnum og hún og Catelyn fá samtals þrjá kafla til að upplifa þetta allt saman frá upphafi til blóðugs enda. Bara sí svona er Robb, Catelyn og hálfur tugur aukapersóna úr sögunni og endanlega ljóst að sigurvegari stríðsins verður Lannister fjölskyldan.

Mynd eftir Gustavo Pelssari

Þriðja brúðkaupið er svo brúðkaup Joffrey og Margaery. Það eru nokkrar persónur sem urðu mun stærri í sjónvarpsþáttunum en bókinni, ein þeirra er Margaery og amma hennar Þyrnidrottningin. Í bókunum sjáum við þetta brúðkaup frá sjónarhorni Jaime, Tyrions og Sönsu. Í lok veislurnar er Joffrey dáinn og Tyrion ásakaður um morðið. Það er aldrei alveg ljóst hver eitraði fyrir konungnum en vísbendingar um að Þyrnidrottningin og Littlefinger hafi drepið hann.

Varstu búin að gleyma fjórða brúðkaupinu? Ég steingleymdi því. Eftir dauða Joffrey sleppur Sansa með hjálp Littlefinger og þau halda í dalinn. Þar er einni stærstu ráðgátu Game of Thrones svarað, hver myrti Jon Arryn og kom allri sögunni af stað. Kemur í ljós að það var konan hans þökk sé afskiptasemi Littlefinger. Þau eiga sér langa og flókna sögu og í lok Storm of Swords eru þau hjón og að lokum myrðir hann hana. Næstu tvær bækur er hann og Sansa með litla hliðarsögu en allt bendir til að þau verði í risa hlutverki þegar fram líða stundir.

Lisa Arryn sjálf er ákaflega pirrandi persóna. Satt besta að segja er hún svo geðsjúk og sturluð að manni finnst hún varla vera manneskja, ein af fáum persónum í sögunni sem hægt að segja það um. Senurnar á milli hennar og Littlefinger eru ögn bjánalegar, hún er svo sturluð af ást á honum en hann vill augljóslega ekkert með hana hafa en er meira en tilbúin að leika á tilfinningar hennar eins og fiðlu.

Þessi fjögur brúðkaup eru vélin sem knýr Storm of Swords áfram. Fyrir utan það sem gerist í öðrum heimshlutum snýst allt í sögunni um að koma persónum í þessi brúðkaup og að takast á við afleiðingarnar. Að byggja fantasíu upp á þennan hátt, þar sem stóru viðburðirnir eru brúðkaup og réttarhöld (meira um það eftir smá stund) er ekki einstakt en mjög sjaldgæft. Þessi áhersla Martin á hlutina sem valda stríðinu frekar en stríðið sjálft er að hluta til það sem gerði seríuna jafn magnaða og raun ber vitni.

Stormurinn.

Game of Thrones, Clash of Kings og fyrri helmingur Storm of Swords ná risi sínu um miðja þessa bók. Í seinni helmingi hennar er nánast stanslaus hasar á öllum vígstöðvum. Jon fer úr að vera njósnari í að vera nefndur svikari og svo hetja og leiðtogi. Dany uppgötvar svik Jorah, sendir hann í burtu og tekur sér sæti í hásæti Meereen. Tyrion virðist ætla að koma sér í burtu frá höfuðborginni og er ásakaður um konungsmorð, virðist ætla að sleppa eins og hann gerði tveim bókum fyrr og tapar, sleppur en uppgötvar að bróðir hans og pabbi hafa logið að honum í 20 ár um eðli fyrsta hjónabands hans og myrðir föður sinn. Sansa sleppur frá höfuðborginni. Arya sleppur frá Westeros. Bran Stark sleppur í öruggt skjól norðan veggsins. Stannis fer norður og snýr öllu á hvolf. Theon Greyjoy þykist hafa framið hrottalegan glæp og er refsað fyrir það. Ramsay Snow og Roose Bolton eru allt í einu orðnir stærstu kallarnir í norðrinu. Ég er ekki einu sinni búin að minnast á fólkið frá Dorne og það sem er í gangi á Járneyjunum.

Þessi stormur er það sem gerir seríuna jafn vinsæla og raun ber vitni. Hann er hápunktur um það bil 2000 blaðsíðna uppbyggingar. Ráðgátur frá fyrstu köflum Game of Thrones eru leystar og stríðinu svo gott sem lýkur eftir tvær og hálfa bók af átökum. Maður skilur vel að Martin hafi upphaflega ætlað að láta nokkur ár líða í sögunni. Í lok Storm of Swords langar manni ekkert meira en að fá smá pásu frá hasarnum. En þannig virkaði sagan ekki og maður lætur sig dreyma um að þegar Winds of Winter kemur loksins út verði annar álíka stormur í henni.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s