Game of Thrones endurlesin (fjórða bók – Feast for Crows)

Myndaniðurstaða fyrir feast for crows original cover

Frá útgáfu Storm of Swords til útgáfu Feast for Crows liðu fimm löng ár. Það hljómar kannski ekki langt í dag. Ekki eftir að sex ára bið eftir Dance with Dragons og svo átta ára bið eftir sjöttu bók í seríunni. Bið sem lengist á hverjum degi. Lesendur Song of Ice and Fire höfðu ekki vanist biðtímanum. Í dag er hann nánast brandari, þá var hann spennuþrungin.

Biðin og það að Feast fylgdi í fótspor bestu bókar seríunnar sprengdi væntingarnar upp úr öllu valdi. Því miður var bókin ekki meistaraverkið sem fólk taldi sig eiga rétt á. Feast for Crows er hæg, uppáhaldspersónur flestra eru hvergi sjáanlegar og þess vegna töldu margir hana vera áberandi verstu bókina í seríunni. En á sú gagnrýni rétt á sér? Af öllum fimm bókunum í þessum endurlestri fannst mér skoðun mín á Feast breytast mest.

Fimm ára biðin, hvað gerðist?

Höfundurinn hefur verið mjög opin með ástæðu þess að það liðu fimm ára milli bóka. Þegar hann hóf að skrifa Song of Ice and Fire átti að vera umtalsvert bil í innri tíma sögurnar milli bókana Storm of Swords og næstu, sem, sem þá átti að heita Winds of Winter (sem er áætlaður titill sjöttu bókarinnar). Ástæða bilsins var meðal annars að leyfa ákveðnum persónum að þroskast og vaxa úr grasi. Líklegast hafa það verið eftirlifandi Stark börnin, kannski Deanerys og kannski einhverjir fleiri. Einni hefði verið forvitnilegt að sjá í hvaða aðstæður Lannister bræðurnir og Varys hefðu verið komnir. En þegar hann hóf skrifin þá fannst honum að of margir viðburðir úr stökkinu skiptu máli og hann var farin að brasa við ýmsar leiðir til að koma því til skila. Eftir nokkuð langar tilraunir með þetta ákvað hann að byrja upp á nýtt.

Þá kom næsta vandamál: Sagan var orðin allt of víðferm og persónurnar sem skiptu máli nánast hlægilega margar.Lauslega talið eru í Feast for Crows og Dragons samtals átta sögusvið og samanlagt tuttugu þrjár mismunandi sjónarhornspersónur! Að troða allri þessari sögu í eina bók hefði verið þýtt að hún hefði þurft að vera eins og þrjár hringadrottinssögur að lengd. Þannig að hann tók aftur ákvörðun um að breyta til, skipti sögunni gróflega eftir sögusviðum og lét Feast For Crows og langa kafla Dance With Dragons gerast samtímis.

Augljósa spurningin er: Hefði mátt klippa eitthvað út? Hjá mér vakna blendnar tilfinningar um það. Það má færa góð rök fyrir að stórir hlutar Feast for Crows mættu missa sín. Sagan sem slík þarf ekki endilega á tíu köflum Brienne að halda, bara sem dæmi. Það má lýsa þeim köflum sem „Brienne fer í göngutúr, lendir í veseni og finnur ekki það sem hún leitar að.“ Meira um hana síðar. Að sama skapi eru hlutarnir sem væri auðveldast að skera sumir að uppáhalds köflum mínum í bókinni. Stundum er gerður greinarmunur á bókum (eða kvikmyndum) þar sem sagan er drifkrafturinn og bókum þar sem persónurnar eru það. Þessir kaflar eru ástæðan fyrir að Song of Ice and Fire fellur fyrst og fremst í seinni flokkinn.

Tveggja kvenna tal

Það er Cersei og Brienne sem eiga flesta sjónarhornskafla í Feast for Crows. Ég er ekki viss um að hægt sé að finna tvær ólíkari aðalpersónur en þær. Brienne sór eið undir lok síðustu bókar, hún sór að finna Sönsu Stark og vernda hana á meðan Cersei er búin að fá það sem hún vildi öllu framar: Vald.

Saga Brienne í þessari bók hefur hvað mest verið gagnrýnd af efni bókarinnar. Hún hálf asnast frá einum stað til annars, er ekki beint færasti leitarhundurinn og hittir á ferðum sínum hina og þessa minni spámenn Westeros. Hún kemur sér líka í hrottaleg vandræði inn á milli og hittir að lokum Lafði Steinhjarta, persónu sem því miður var klippt út fyrir þættina.

Það sem er frábært við þessa kafla er að í fyrsta sinn í Song of Ice and Fire fáum við að kynnast manninum á götunni. Fantasíur hafa alltaf verið gjarnar á að fjalla fyrst og fremst um hetjurnar, konungana og heljarmenni. Stríð sem leggja hálft meginland í rúst virðast of oft hafa nær engar afleiðingar. Í þessum köflum fáum við að sjá áhrifin sem stríð undanfarinna bóka hefur haft. Það er ekki laust við að maður klóri sér í hausnum og spyr sig „fagnaði ég ekki þegar þetta stríð hófst fyrir nokkrum bókum?“  Þessir kaflar innihalda líka eina eftirminnilegustu einræðu seríunnar, þegar prestur einn minnir Brienne á hver upplifun allra þeirra sem eru ekki riddarar er af stríði. Martin tekst í allri seríunni að blanda saman barnslegri spennu yfir riddurum og hetjudáðum, og svo þekkingu á það hvað slíkir hlutir þýða í raun og veru. Hvergi tekst það betur en í þessari bók.

Þessi bók minnir mann líka á að Cersei í bókunum er ekki sama Cersei og í þáttunum. Hér, loksins, í fjórðu bókinni fáum við að sjá heiminn með hennar augum. Niðurstaðan er ákveðin vonbrigði. Málið er að hún er ekki nærri því jafn snjöll, ekki nærri því jafn elskuð og ekki nærri því jafn hættuleg og hún sjálf heldur. Niðurstaðan er röð mistaka, sem sum eru lesendanum svo augljós að það er nánást pínlegt. Henni tekst á mettíma að fæla frá sér alla bandamenn, sleppa lausri plágu trúarofstækismanna og skapa hættulega nýja óvini. Ekki amalegt á tíu köflum.

Myndaniðurstaða fyrir cersei book and show

Undir lokin er hún fangi kirkjunnar, fær ekki að tala við bandamenn sína og er niðurlægð aftur og aftur af nunnunum sem gæta hennar. Allt vald hennar er gufað upp. Þá setur hún niður síðasta tromp sitt: grátbiður Jamie um hjálp. Hún trúir því að hann muni koma ríðandi til baka og bjarga henni með einvígi fyrir augum guðanna. Það hvarflar ekki að henni að handaleysi hans stöðvi hann. Ekki hvarflar heldur að hann hundsi beiðni hennar, sem hann gerir. Kaflarnir þeirra tveggja, þar sem lesandinn fær innsýn í tilfinningalíf þeirra og að hvers vegna sambandi þeirra virðist lokið, eru átakanlegir. Því þó ást þeirra sé ógeðfeld er hún samt ást, ekki satt?

Brautir beggja liggja niður á við og enda á að þær eru komnar í gífurlega klemmu, sem þær gætu ekki komist úr hjálparlaust. Það verður að bíða seinna bóka að fá niðurstöðu í ævintýri þeirra. Eins og reyndar flestra í seríunni.

Skuggarnir

Strax í Game of Thrones var Martin farin að leika sú list að kynna persónur löngu áður en þær stigu fram á sviðið. Tywin, Roose Bolton og Stannis voru lesendum kunnugir í gegnum orð annarra löngu áður en þeir birtust í fyrsta sinn. Í Feast for Crows snýr Martin þessu við. Persónur sem eru horfnar af sviðinu, kannski tímabundið, gegna lykilhlutverki í innra lífi sjónarhornspersóna bókarinnar.

Augljósasta dæmið er Tyrion. Jamie er haldin ógurlegu samviskubiti, enda var það hann sem gerði Tyrion kleift að myrða föður þeirra. Cersei hatar litla bróðir sinn af öllum lífsins sálar kröftum og ákvarðanir hennar litast óhjákvæmilega af því. Lesandinn veit ekki fyrr en eftir Dance With Dragons hvað Tyrion er að bralla, en forvitninn um ævintýri hans eykst gífurlega.

Annar stór skuggi er Tywin Lannister. Börnin hans uppgötva sér til hryllings hversu gapandi tóm gamli skyldi eftir sig og þurfa að reyna að feta í risa fótspor hans. Mig grunar, rétt eins og með Eddard Stark, þá munum við sjá afleiðingar dauða Tywins þangað til sagan er á enda.

Önnur persóna hvarf í lok Storm of Swords. Varys kemur aldrei fyrir í Feast og birtist í raun ekki aftur fyrr en í eftirmálanum fyrir Dance with Dragons. Engin saknar njósnarans en samt kemur í ljós að hann var töluvert mikilvægari en fólk eins og Cersei vildi halda. Litlir hlutir gerast í bókinni sem manni grunar að Varys beri ábyrgð á, en eins og oft áður með hann þá er engin leið að vera viss.

En samt gerist eiginlega ekki neitt…

Sama hversu heillandi persónurnar eru og sama hversu vel tekst til við að skapa heim bókana þá er ekki hægt að lýta fram hjá hversu lítið gerist í bókinni. Það eru engar risaorrustur, það eru fá sjokkerandi dauðsföll og pólitíkinn verður aftur að aðalviðfangsefninu. Eins og ég sagði að ofan þá enda báðir stærstu söguþræðirnir á bóka útgáfu „sjáumst í næsta þætti.“ Ég á ekki erfitt með að skilja að lesendur hafi verið pirraðir. Svona álíka pirraðir og Cersei þegar hún kemst að því að Bronn hafi skýrt son sinn Tyrion, án nokkurs vafa fyndnasta augnablik bókarinnar.

Von mín er að við munum, þegar seinustu bækurnar koma út, sjá þessa bók eins og Clash of Kings. Það er að segja nauðsynleg til að bombur næstu bókar virki. Næsta bók heldur reyndar ekki áfram þar sem frá var horfið, heldur gerist á sama tíma, en öðrum sögusviðum. Það er auðvitað Dance With Dragons, sem ég ætla að fjalla um næst í þessari seríu.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s