Góðar spurningar, svari betri

Góð spurning er svari betri. Svar er endanlegt, stoppar vöxt hugsunarinnar. Þegar við teljum okkur hafa svarið hættum við að leita af betri svörum, betri þekkingu. Svör verða aldrei betri en spurningin, ef spurningin er klikkuð verður svarið klikkað. Góð spurning leiðir okkur niður nýja ganga þekkingar, flettir upp svörum sem okkur hefði aldrei dottið í hug.

Myndaniðurstaða fyrir winnie the pooh thinking
Vanmetin hugsuður, sífellt að spyrja.

Af hverju skiptir þetta mál? Betri spurningarnar eru skilvirk og hröð leið til að bæta hugsun. Rétt spurning sker í gegnum vandamálin, finnur betri hugsun. Skýr og góð hugsun er ekki sjálfsögð. Menning okkar er fjandsamleg því að stoppa og hugsa. Að finna sér ró og spyrja sig erfiðra, en góðra, er leið til að bæta hugsun sína.

Ég hef alltaf haft áhuga á góðum spurningum og reynt að safna þeim. Summar þessara spurninga hafa leitt til stórra ákvarðana, hjálpað mér að finna skemmtilegar sögur og oft gefið mér hugrekki til að keyra á eitthvað sem ég var hræddur við. Til dæmis að stofna þessa litlu síðu, uppsetningu leikverka og flutninga milli landa.

Það er mikilvægt að svara spurningunum, sérstaklega þessum þyngri, á blaði. Við þekkjum öll þessa skrýtnu tilfinningu þegar hugsanir okkar virðast hlaupa í hringi, endurtaka sig í sífellu án þess að komast að niðurstöðu. Pappírinn hefur þann eiginleika að fanga hugsanir, sýna okkur hvar þær eru óskýrar og hvar þær endurtaka sig. Með öðrum orðum: Að skrifa er góða leiðin til að hugsa upphátt.

-Hvað er það versta sem gæti gerst og hvernig myndi ég laga það.

Þessa er gott að nota þegar maður stendur frammi fyrir stóri ákvörðun. Oft notum við „hvað er það versta sem gæti skeð“ til að keyra í okkur hugrekki. En stundum er óttinn réttlætanlegur. Stundum er það versta sem gæti skeð eitthvað virkilega slæmt. Þá er gott að vera með plan, sjá fyrir sér hvernig maður myndi komast aftur á þann stað sem maður er á. Oft minnkar óttinn við það eða við sjáum að það sem við óttumst er einfaldlega ekki það mikið mál.

-Hvað ef ég hefði tíu sinnum meiri pening? Helmingi minni tíma?

Ég heyrði þessa í samhengi við ferðalög, en hún hjálpaði mér meðal annars við uppsetningu leiksýningar. Tilgangurinn er ekki að láta sig dreyma um miklu meiri aur, eða að gera hlutina miklu hraðar. En þegar við veltum þessum fyrir okkur og skrifum þetta niður kemur oft í ljós að það sem við höldum að taki svakalega upphæð er hægt að gera nokkuð auðveldlega með smá skapandi hugsun.

Tilgangurinn með tíma spurningunni er að grafa sig niður mikilvægasta þættinum í verkinu. Svona spurningar er gott að taka alvarlega á meðan þeim er svarað. Líklega verða einhver svaranna gagnslaus, en inn á milli leynist oft mjög nytsamlegt svar.

 -Hvað er fyndið við þetta?

Við gerum öll mistök, við skömmumst okkur öll fyrir eitthvað. Að finna fyndnina við þau er þægileg aðferð til að fá eitthvað gott úr mistökunum. Tala nú ekki um þetta er eitthvað sem við skömmumst okkur fyrir, hlátur drepur skömm hratt og örruglega. mun betra ef við náum að læra af þeim líka.

-Hvað fengi mig til að skipta um skoðun á X?

Við höfum sterkar skoðanir á mörgu: Mataræði, stjórnmálaflokkum, listamönnum og fleira og fleira. Það er hollt að spyrja sig hvað þyrfti til þess að maður skipti um skoðun. Vegna þess að ef svarið er ekkert, hefur maður líklega ekki hugsað djúpt um téð mál. Ef þú getur orðað mótrökin gegn eigin skoðunum betur en þeir sem eru ósamála þér, ertu í góðum málum.

-Hvað meina ég með þessu X?

Hefurðu einhvern tímann orðið vitni að rifrildi, þar sem er alveg ljóst að fólkið er að rífast um algjörlega sitthvorn hlutinn? Trú, hollt, harka, jafnrétti, sanngirni, frelsi, femínismi, réttlæti, guð. Þetta eru allt stór hugtök sem við notum mikið, en vitum við hvað við meinum með þessum orðum? Ef við erum ekki einu sinni viss um okkar eigin skilgreiningu, hvernig getum við rætt þessa hluti við aðra, sem hafa líklega sína eigin skilgreiningu.

-Hvað er jákvæðasta ástæða þess að hann er ósammála mér?

Þetta á sérstaklega við um stjórnmál. Allt of oft gerum við ráð fyrir að hin hliðin sé ill, heimsk eða fáviss. En kannski er forgangsröðun þeirra bara önnur, kannski er reynsla þeirra önnur, kannski vita þeir eitthvað sem við vitum ekki. Það má nefna þetta jákvæðni prinsippið: Ekki gera ráð fyrir illsku nema þú hafir sterk rök fyrir því.

-Hvað vil ég að fólk segi í jarðarförinni minni? Hvað myndi fólk segja ef hún væri á morgun?

Það er ekki endilega niðurdrepandi að hugsa til eigin dauða. Það gefur manni einbeitingu, það minnir mann á að við höfum bara ákveðið marga daga á þessari jörðu og við ættum að nýta þá. En það getur verið hollt að hugsa um það sem kemur næst. Hvernig viltu láta minnast þín? Ertu að gera það sem verðskuldar slíkar minningar? Ef ekki, hvers vegna ekki?

-Hvaða sögu er ég að segja sjálfum mér?

Þessi er mér sérstaklega hugleikinn. Ég er að reyna að verða atvinnupenni, ég elska sögur meira en flestir. Sögur hafa mátt, en sögur eru ekki raunveruleikinn. Heimurinn skuldar okkur ekki hamingjusaman endi, né getum við séð fyrir því hvernig okkar eigin saga endar. Að segja sjálfum sér sögu getur verið nytsamlegt, en hún getur líka orðið fjötur, jafnvel sjálfsblekking.

Átt þú þér einhverja uppáhaldsspurningu, eitthvað sem þú spyrð þig regluleg og finnst það hjálpa þér? Endilega deildu ef svo er.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s