
Já árið líður og þá lítur maður ósjálfrátt til baka. Voru síðustu tólf mánuðir góðir? Slæmir? Hvað mátti fara betur? Hvað hefði getað verið verra? Ég á það til að sjá bara það sem betur mátti fara en er að reyna að venja mig á muna líka það sem vel fór. Það sem ég er að reyna að gera meira en nokkuð er að gera skrif að vinnunni minni þannig að ég ákvað að fara yfir 2019 og fara yfir það sem ég hef skrifað. Vonandi verður þetta árlegt og greinin lengist á hverju ári.
Það er bara ein vonbrigði í ár: Náði ekki að finna útgefanda fyrir Örsögur úr ódýrri íbúð. 2018 var árið sem ég skrifaði handritið en ég einfaldlega sparkaði ekki í rassinn á mér nóg til að senda það á alla mögulega útgefundur. Ég fékk nei frá einum og þrúgandi þögn frá öðrum. Ég hefði átt að senda á fleiri. Það er eitt af stóru málum 2020, ég er tilbúin að takast á við nei frá öllum útgefendum landsins, það segir mér að bókin er ekki nógu góð fyrir þá. Það pirrar mig að hafa bara ekki sent handritið nógu víða.
Ég tók þátt í einu Rauðu Skáldahúsi á árinu, á Reykjavík Fringe Festival. Þessi kvöld eru alltaf skemmtileg og gaman að hitta allt fólkið á þeim. Að lesa ljóð fyrir bara eina manneskju í einu og alltaf jafn magnað, kannski það nánast sem maður gerir með ljóðin. Reykjavík Fringe Festival er líka frábær hátíð, myndi gráta það hátt að geta ekki tekið þátt í henni á neinn hátt.
Í haust fékk ég svo smásögu útgefna í Skandala. Ég náði ekki að taka þátt í útgáfuhófinu og ég enduruppgötvaði eina stærstu reglu skrifa: Besta leiðin til að finna innsláttarvillu er að gefa út og opna söguna. Þú finnur villuna, strax, í síðustu setningunni. Var ég smá pirraður? Já. Var ég sáttur að sjá sögu eftir mig í fyrsta sinn í prenti, valin af fólki sem þekkir mig ekki? Ólýsanlega.
Ef ég mæli orðum skrifuðum, þá fór stærstur hluti ritstarfa minna 2019 í Liverpool og FH.. Fyrir þessa tvo miðla endaði ég með um það bil þrjátíu skýrslur og upphitanir og nokkra stærri pistla. Lang skemmtilegast var að skrifa um sigur FH í Bikarnum. Ég brunaði úr Húsafelli til Reykjavíkur eftir vinnu til að vera viðstaddur undanúrslitaleikinn og dauðsá svo eftir að hafa ekki verið búin að redda mér fríi daginn eftir fyrir úrslitaleikinn, sem ég horfði á í stofunni í Húsafelli. Hin greinin sem stendur upp úr er risa upphitun sem ég skrifaði fyrir leik Liverpool og Flamengo. Að fá tækifæri til að skrifa um Brasilíu á þessum vettvangi var geggjað.
Ég tók líka á skarið á tveimur verkefnum sem mig hefur lengi langað að framkvæma. Annað er þessi síða hér, sem hefði auðvitað mátt vera virkari og verður það 2020. Markmiðið er samt ekki að byggja upp fjölmiðil heldur CV á henni og það tikkar áfram. Ég er sérstaklega ánægður með greinina um píanó. Hitt er svo póstlistinn. Það er búin að vera unun að setjast niður mánaðarlega og skrifa það bréf, svo ekki sé talað um að fá svörin við bréfunum. Það er eitt þriðja verkefni sem mun tilheyra 2020, meira um það seinna.
Það voru líka tvö verk, skáldsaga og ljóðabálkur, sem ég skrifaði á árinu en fór ekki lengra en annað uppkast. Skáldsagan þarf ég að endurskrifa frá grunni, mun vonandi gera það seinni hluta þessa árs.
Árið kláraðist á einu litlu og skemmtilegur ritverki. Vinur minn bað mig að skrifa jólaljóð um kærustuna hans, í stíl jólasveinakvæða Jóhannes úr Kötlum. 13 ferskeytlur á ensku, vissulega mikið púsluspil en gaman að takast á við þetta.
Þetta er staðan árið 2019-20. Vonandi verður þessi grein helmingi lengri að ári.
Gleðilegt ár og takk fyrir lesturinn. Núna ætla ég að fara og sprengja flugelda.