
Þegar sjónvarpsþáttaröðin Game of Thrones var að klárast ákvað ég nota það sem spark í rassinn og endurlesa bækurnar. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég les þær allar, fyrstu þrjár er ég líklega búin að lesa á tveggja til þriggja ára fresti síðan 2007. En þetta er í fyrsta sinn sem ég tek einbeitta skorpu og les þær sem eina heild.
Auðvitað gerði ég þetta fyrst og fremst vegna þess að þetta eru spennandi bækur. Ef Martin tekst að klára síðustu tvær í sama gæðaflokki mun Song of Ice and Fire vera minnst sem áhrifamestu fantasíu seríu síðan Hringadrottinssaga kom út.
En ég var líka forvitinn að sjá hvernig upplifuninn af bókunum hafði breyst, sjá hvort það væru enn þá faldir gullmolar sem ég hafði ekki tekið eftir (svarið: já) og hvað ég gæti lært af bókunum. Eitt sem breytist í mann þegar maður verður ritlistamaður er að maður les öðruvísi. Maður fer að reyna greina tæknina bakvið textann (reyndar alla list) og átta sig á hvernig höfundur fer að því sem hann gerir.

Endurlesturinn.
Að skrifa greinarnar var leið til að fanga hugsanir mínar um bækurnar og vonandi hefur einhver haft gaman að því að lesa þá. Satt besta að segja er ég ekki sáttur með hvernig þessar greinar heppnuðust. Það vantar eitthvað hryggstykki í þær, án þess að ég sé viss um hvað það ætti að vera. En ég er að þessari síðu til að æfa mig sem penni, kem til með að kryfja þetta í rólegheitum og læra.
Endurlesturinn tók styttri tími en ég bjóst við. Munaði þar miklu um að liggja veikur heima í fjóra daga í honum miðjum. Það var ógurlega kósý að hafa afsökun til að liggja upp í sófa í nokkra sólarhringa og éta upp eina og hálfa bók í einum rykk. Sem unglingur gerði maður þetta reglulega, auðvitað ætti maður að skipuleggja sig þannig að maður gæti gert þetta oftar. Lesturinn verður dýpri og ánægjan af honum meiri.
Þegar maður les bækurnar er ljóst að þættirnir hafa breytt væntingum manns til þeirra. Eftir þættina býst maður við blóðugu ofbeldi eða kynlífi í öðrum hverjum kafla. Það er hellingur af báðu í bókunum, en það eru líka tugir og aftur tugir kafla sem snúast bara um tvær persónur að tala saman, reyna að púsla saman hvað er í gangi, hvað skal gera næst. Stórar orrustur eru fáar og þegar þær gerast fer mikill tími í að gera upp afleiðingarnar.
Mín kenning er að Martin velur af miklu gaumgæfi hvenær hann notar þessi verkfæri en í þáttunum hafi verið reynt að troða þessu í hvern einasta þátt, til að halda spennunni uppi. Fyrir handritshöfund sjónvarpsþátta þarf mikið sjálfsöryggi til að reiða sig á samtöl, svo ekki sé talað um gífurlega færni. Ég er ekki að segja að handritshöfundarnir hafi ekki verið góðir. Ég held bara að þeir hafi bara notað ofbeldi og kynlíf sem hækju full mikið.
Annað kom í ljós við endurlesturinn, sem kann að hljóma augljóst. Þessar bækur eru ein heild. Ef þú eyðir nægum tíma á netinu er hægt að finna nóg af fólki að drulla yfir Feast For Crows og Dance With Dragons. Stór hluti þeirrar gagnrýni snýst um að ekki gerist nóg í þeim. En þegar serían er lesin sem heild, þá virka þær bara sem sviðuppstilling, meistaraleg sviðsuppstilling. Satt besta segja fannst mér fínt að fá eins og eina bók á hægum bruna eftir brjálæðið í lok Storm of Swords. Svona eins og að fá að setjast í heitan pott eftir langa og erfiða æfinga. Þetta þýðir líka að við verðum að bíða seinustu bókanna áður en lokadómur fellur um seríuna.
Framtíðinn.
Þó næsta bók komi ekki út fyrr en 2035 mun ég mæta á miðnæturopnun í Nexus og kaupa hana. Það er ákveðin hópur á netinu sem er sannfærður um að Martin muni aldrei klára seríuna. Hann sé orðin of gamall og þjakaður af fullkomnunaráráttu til að klára hana nokkur tímann, hann sé saddur peningunum og frægðinni sem hann fékk eftir þættina. Hann hefur viðurkennt í viðtölum að hann hafi hægt á skrifunum vegna þáttanna. Samt hef ég enga trú á öðru en hann klári þessa seríu. Hún mun vera arfleið hans, það sem hann verður minnst fyrir, líklega löngu eftir að þættirnir gleymast. Það hlýtur að vera drulluerfitt að skrifa bækur, vitandi að þær verða lesnar af milljónum og þær þurfa að vera því til næst fullkomnar til að vera ekki dæmdar glataðar.

Það er nett ógeðslegt hversu mikið er skrifað og talað um að hann sé orðin hrútgamall og nánast með aðra löppina í gröfinni. Já, hann er ekki ungur. En ég held að ungur maður gæti ekki skrifað þessar bækur. Vonandi klárar hann þetta á næsta ári. En ég vil frekar að hann taki auka árin í þetta og þær verði eins góðar og mögulegt er. Ég sá síðustu seríuna af þáttunum, þar sáum við ansi vel hvað gerist þegar enda á svona verki er flýtt.
Það eru ákveðnar bækur sem maður les reglulega. Það fer eftir þér hverjar þær bækur eru. Fyrir milljónir eru Song of Ice and Fire þær bækur. Martin skapaði heim sem manni dauðlangar að heimsækja í gegnum blaðsíðurnar á fimm til tíu ára fresti, sjá hvernig maður sjálfur hefur breyst með því að taka eftir því hvernig upplifun manns af bókunum breytist með árunum. Bara ekki neyða mig til að búa Westeros, held að ég myndi ekki lifa af vikuna.
Game of Thrones endurlesin (Fyrsta bók)
Game of Thrones endurlesin (Önnur bók)
Game of Thrones endurlesin (Þriðja bók)