
Ákvörðun var tekin eftir leik Íslands og Rússlands að skella sér til Malmö á Ísland-Svíþjóð í lokaleik milliriðla á EM. Lóló og Spagla vour ferðafélagarnir, rétt eins og á EM í fótbolta. Lóló kæmi með frá Íslandi, Spagli myndi hitta okkur í Malmö. Síðasti leikurinn var sá eini sem ég gat náð vegna vinnu, þetta yrði stutt ferð. Út á miðvikudegi, leikur um kvöldið og heim daginn eftir.
Það plan fór beint út um gluggann þegar verð á flugi voru skoðuð. Ég veit að það eru ógurlegir útreikningar á því hvernig flugverð eru reiknuð út. Mig langar bara að skilja hvernig það0 munaði rúmum 45.000 krónum á flugi á fimmtudegi og föstudegi, föstudag í vil. Þar sem við vorum að fá hótelið á um 8.000 nóttina var það auðveld ákvörðun að taka einn leti dag í Köben. Lóló varð að komast heim á fimmtudeginum, en var að lokum fegin að við höfðum herbergið í tvær nætur.
Áhættan við að panta flug á lokaleik milliriðla er augljós: Hvað ef það er ekkert í húfi þegar að þeim kemur. Væntingavísitala landsliðsins fór í hæstu hæðir eftir frábæra leiki gegn Danmörku og Rússlandi. Hún hrundi á kunnuglegar slóðir í hörmungar seinni hálfleik gegn Ungverjum. Eftir Noregsleikinn var stemningin orðin „ó jæja, þetta verður allavega gaman.“
Við sem elskum íþróttir erum frek. Við viljum að liðin okkar vinni, alltaf, og ef þau tapa verðum við reið og pirruð. Ég reyni að minna mig á að þetta er ekki sanngjörn krafa, að íþróttamenn eru sjaldan jafn lélegir og þeir líta út á verstu stundunum og sjaldan jafn góðir og þeir líta út á þeim bestu. Eina krafan sem mér finnst sanngjörn er að leikmenn og þjálfarar líti út fyrir að nenna því sem þeir eru að keppa í. Þess vegna voru fyrstu tíu gegn Noregi svona mikil hörmung og seinni hálfleikur jafn frábær og raun bar vitni. Unga kynslóðin hjá íslenska landsliðinu virðist brenna fyrir þjóðsöngnum og voru hársbreidd frá að stela stigi eða stigum gegn einu besta liði heims, eftir að Norðmenn fengu 7 mörk í forgjöf. En við fögnum slíkum endurkomum vegna þess að þær gerast nánast aldrei.
Þannig að þegar bróðir minn skutlaði okkur út á völl var ljóst að Ísland hafði að engu að keppa. Já, hægt var að búa til einhverja röð draumaúrslita þar sem Slóvenar yrðu Evrópumeistarar og Íslendingar fengu sæti í umspili um Ólympíuleikana. En maður vissi að það var ekki að fara gerast, leyfði sér samt að vona. Það var komið í ljós áður en leikurinn við Svía hófst að þetta var endanlega dauður draumur.
Ferðin út var óspennandi og leiðinleg, eins og flugferðir eiga að vera. Spagli býr í Osló og eins allir Íslendingar sem búa erlendis, þarf að fá skammt af íslensku nammi reglulega. Hann hafði beðið okkur að koma með einn poka af djúpum. Við ákváðum að taka með okkur minnsta pokann og éta helminginn úr honum. Síðan var planið að rétta Spagla pokann og þegar hann væri búin að komast yfir sjokkið gefa honum hafa hin kílóinn þrjú sem við keyptum.
Við supum smá bjór, kjöftuðum um túrisma á Íslandi og eitt og annað. Þegar við komust á áfangastað kom hótelið á óvart. Virkilega á óvart. Lóló sá um bókunina og sagði mér að þetta væri hostel. Ég sá fyrir mér kojur, sturtu í sameiginlegu rými og líklegast grasreykjandi grikkja í næsta herbergi. Síðast þegar ég fór á hostel hugsaði ég: Ok, ég er orðin of gamall til að nenna þessu. Eina ástæðan fyrir að ég samþykkti þetta hostel var að það var hræódýrt.
Í staðinn fyrir raunverulegt farfuglaheimili vorum við á fínu hótelherbergi, með sturtu og öllum græjum. Þetta var í raun fullkomið og næst þegar ég fer til Köben verður þetta fyrsti staður sem ég skoða. Næst var það heilög stund: Kebab. Að vera orðin mátulega svangur og kjamsa ógreinanlegri kjöttegund með einhverri sósu og grænmeti á síðasta söludegi er ekkert annað en himneskt. Verst að það er aldrei seldur öl á svona stöðum.
Svo upp í lestina og yfir til Malmö. Manni brá við að vera heilsað af vopnuðum lögreglu mönnum við landamæri Svíþjóðar. Ég segi heilsa, ég meina að fá illt augnaráð og þurft að rétta fram vegabréf. Hugsjóninn um landamæralausa Evrópu er falleg en virðist eiga erfitt uppdráttar þessa dagana.
Eftir komuna til Malmö (og einn eða svo Nocco) fundum við barinn þar sem stuðningsmenn Íslendinga, Norðmanna og Svía hittust. Eini viðburðurinn sem ég hef komið á sem var sambærilegur þessum leik var EM í fótbolta, í París. Það var allt annar heimur. Hér voru stuðningsmenn þriggja landa að hittast á einum bar, allir brosandi og kjaftandi. Það var ekki sama „nei, þú hér“ stemning og auðvitað færra fólk. Ef leikurinn hefði skipt máli hefðu líklega verið fullt hús Íslendinga en mér sýndist að flestir voru skynssamir og farið á fyrstu leikina.
Einn Norðmaður stóð þó upp úr: Norske Kóngurinn. Karlinn var á miðjum aldri, með norska fánann á andlitinu, utan um axlirnar, á hattinum og gekk um með kúabjöllur. Hann var greinilega búin að fá sér nokkra bjóra fyrr um daginn og kannaðist við Spagla. Hann lýsti stoltur yfir að hann hefði skipað öllum fylgjendum sínum að „Áfram Ísland!“ og að Noregur yrði Evrópumeistarar. Ég sagði honum að við yrðum að halda með Slóveníu, þeir væru eina leið okkar á Ólympíuleikanna. Hann minnti mig á að hans lið væri komið á leikanna, ég sagði honum að hann væri að svindla: Hann héldi með liði sem væri gott í handbolta. Svo var hann víst fyrrum alþjóðadómari, fannst reyndar geggjað að svoleiðis reynslubolti væri að hjálpa til við að keyra upp stemninguna hjá Norðmönnum.
Við ákváðum að fara frekar á Noreg-Slóvenía en að hanga á barnum. Stemningin sem við vonuðumst eftir virtist ekki líkleg til að myndast. Sá leikur var þrusu skemmtun. Það er vanmetið að mæta á handbolta leiki þar sem maður er í raun hlutlaus. Maður nær að njóta leiksins á annan hátt, meta gæðin í báðum liðum og slaka á, nokkuð sem ég er nánast alveg ófær um að gera þegar FH eða Ísland eru að keppa.
Svo var það stund sannleikans. Eftir tvo bjóra í höllinni (og einn pilsner í blekkjandi umbúðum) þá var þjóðsöngur Íslands sunginn og stuðningsmennirnir tóku undir. Svo voru þjóðsöngur Svía sunginn við eilítið meiri undirtektir. Það var pínu sorglegt að sjá hversu mörg sæti voru tóm. Sagan segir að Danir hafi verið svo sigurvissir að þeir hafi verið búin að kaupa einhver þúsund miða sem voru ónotaðir. Sorglegt, en pínu fyndið.
Það er eitt að sjá liðið sitt tapa leik sem skiptir ekki máli, annað að sjá frá mínútu fimm að þeir eru að fara að tapa. Þvílíka hörmungin sem þessi leikur var. Það er fyrir meiri handboltamenn en mig að kryfja þetta mót, að tjá sig um fáránleika þess að tveir reynsluboltar í liðinu hafi farið að kvarta á samfélagsmiðlum strax eftir leik um að umræðan heima hafi verið of neikvæð og um það hvort framtíð liðsins er björt eða svört. Ég naut þess sjálfur að styðja liðið, að vera á útivelli þar sem 90% áhorfenda studdu hina og ég var brjálaður í skapinu eftir leik. Það er leyndarmálið við að vera sjúklega tapsár: Maður nýtur þess lúmskt að vera brjálaður eftir leiki.
Spagli ákvað að hoppa með okkur yfir til Kaupmannahafnar (ég steinsvaf í lestinni) því við höfðum gleymt djúpunum. Undir lok leiksins fékk Lóló tilkynningu um að fluginu hans hefði verið aflýst. Hann fékk nótabene ekki tilkynninguna frá SAS sem hann var að fljúga með, fékk hana frá google-frænda sem les alla tölvupóstana hans og tók eftir að hann átti miða í aflýst flug. Hann fékk að lokum tilkynningu um að hann væri komin með nýjan flugmiða frá SAS, tveimur tímum eftir að flugið átti að fari í loftið.
Spagli hló mikið af djúpu magninu, minn eftir að ég opnaði alla pokana og sturtaði úr þeim í fríhafnarpokann. Af hverju gerði ég það? Lóló sagði að það yrði fyndið og eftir að hafa sofið lítið og drukkið nóg framkvæmdi ég án hugsunar. Stóri gallinn við þetta var að nú var Spagli vopnaður þrem kílóum af litlum kúlum sem hann gat kastað í okkur Lóló, sem hann gerði. Áttum við það skilið? Já já, getum alveg viðurkennt það. Skömmu seinna var komin tími á þrettán tíma svefn.
Dagur tvö var viðburðalaus og þægilegur. Ég var örlítið hissa að sjá Lóló sofandi á hinu rúminu þegar ég vaknaði, hann var tvístiga um það kvöldið áður hvort hann færi upp á völl eða ekki. Að lokum svaf hann út og fékk miða heim á föstudeginum. Þegar við klæddum okkur uppgötvuðum við að: Spagli hafði troðið djúpum í alla vasa á yfirhöfnum okkar, aðrar lágu á víð og dreifð um gólfið og en aðrar höfðu verið undir okkur í rúminu. Við borðuðum skyndibita, drukkum bjór með félaga sem býr í Köben, blótuðum strákunum okkar og horfðum á Liverpool. Besti hluti dagsins var að fara á Bastard Cafe, borðspilabar í miðborginni sem ég er yfir mig hrifin af.
Fátt fleira er að segja frá í þessari ferð. Hún var ekkert sérstaklega viðburðarík, ekkert sérstakt fór úrskeiðis. Ég gleymdi meira að segja að taka myndir. Stundum eru ferðalög frábær út af ævintýrum, þetta frí var frábært vegna skorts á þeim. Eina slæma sem gerðist (fyrir mig) var að gleyma bakpoka á Bastard og skokka til baka tæpan kílómetra, já og að fluginu heim seinkaði um klukkutíma. Danir eru mikið að markaðsetja hygge þessa daganna. Þessi ferð var einmitt það: hygge. Hlátur með vinum, ömurlegur handboltaleikur og góðar stundir. Er hægt að biðja um meira þangað til næst?