Flottir frasar, til gamans (og gagns?)

Eitt af skemmtilegri orðum íslenskunar er hagyrðingur. Bæði fallegur hljómburður og að það lýsir fullkomlega því sem það á við um. Maður eða kona sem kemst vel að orði og er hagkvæm í orðavali sínu. Eins og mörg góð orð lýsir það skilmerkilega einhverju sem annars þarf setningar, jafnvel málsgreinar, til að koma orði að. Svona eins og þessi málsgrein. Orð sem eiga heima á sömu hillu eru til dæmi hrútskýring, ljósmóðir eða vágestur. Þessi orð eiga það til að vinna orð ársins hjá RÚV og þau leynast víða í tungumálinu.

Eins skemmtileg og þessi orð eru þá eru fullkomnir frasar skemmtilegri. Málshættir eru augljósasta dæmi, nánast listform út af fyrir sig, sex orða sögur eru annað dæmi, mottó og aðrar fleygar setningar. Þegar einhverjum tekst að kjarna eitthvað fullkomlega í nokkrum orðum. Brandarar eru annað dæmi um slíka frasa. Það er nauðsynlegt að auðvelt sé að muna frasann. Þeir bestu eiga það til að hreiðra um sig innra með okkur og skjótast fram í hugann á réttri stundu.

Ég hef alltaf borið óttablandna virðingu fyrir svona frösum, haft gaman af þeim en líka velt fyrir mér hvort þeir séu endilega af því góða. Ef gagnlegur og skemmtilegur frasi kemur að notum á góðri stund, gæti þá slæmur frasi verið skaðlegur?

Tökum dæmið „maður lifir bara einu sinni.“ Við vissar kringumstæður er þetta auðvitað frábær leið til að keyra í sig hugrekki og láta vaða á eitthvað. En oft segir maður þetta bara við sig til þess að réttlæta áttunda bjórinn (þegar fimmti var líklega mistök).

Þetta er allt inngangur að því að fjalla um frasa sem eru mér sérstaklega hugleiknir. Ég ætla að leyfa mér sú tilgerð að vera með einn á latínu og pælingarnar bakvið hann.

Memento mori.

Róm, árið eitthvað fyrir Krist. Hershöfðingi hefur unnið sigur og fær sem verðlaun skrúðgöngu í gegnum borgina þar sem allir syngja hans lofa. Í einn dag fær hann á táknrænan hátt að þykjast vera guð meðal manna. En bakvið hann stendur einn þræll sem hvíslar sífellt að honum „memento mori.“ Mundu að þú ert dauðlegur.

Hvort þessi frasi hafi hafist á þennan dramatíska hátt eða sprottið upp einhvern veginn í félagsneti Rómar er ómögulegt að segja. Kannski bara uppspuni sagnfræðinga fyrri alda. En stóuspekingarnir gerðu hann að einum að hornsteinum speki sinnar. Orðin eru einföld tilmæli: Mundu að þú ert dauðlegur.

Ísland-Frakkland:Mynd Raggi Th.
Nútímaútgáfa af því að heilla hetjur

Sumir kunnu að finnast það niðurdrepandi að hugsa reglulega um dauðleika sinn en ég hef alltaf upplifað það sem velkomið spark í afturendann. Tími okkar á þessari jörð er takmarkaður og stundum gleymir maður því. Pældu í hversu skrýtið markmið það er að „drepa tíman.“ Eina auðlindinn sem við vitum að er 100% takmörkuð er tíminn, mér finnst gott að minna mig á það áður en ég hverf niður í þriggja tíma twitter holu (sem ég er klárlega sekur um reglulega).

Að sama skapi fyrir skapstóran mann getur þetta verið leið til að minna sig á þessi litli hlutur sem er svo sturlað pirrandi mun líða hjá og í stór samhenginu skipta engu máli. Líka að muna að njóta vindsins í hárinu, stunda með fjölskyldunni og þess að liggja með bók. Andartökin tifa.

Til sölu. Barnaskór. Ónotaðir. (Á frummálinu: For sale: Baby shoes. Never Worn.)

Ég lærði á sínum tíma að Hemingway hefði skrifað þessa sex orða sögu, en það er víst ekki rétt. Flest verður samt betra ef maður ímyndar sér Hemingway sem þátttakanda í því. Fyrir mér er hún fullkominn. Tragísk, en það fattast ekki fyrr en í loka orðinu. Hvert einasta orð skiptir máli og í öðru hverju orði er maður breytist upplifun mann af því sem maður er að lesa. Þegar ég las hana í fyrsta sinn var það einn af þessum listrænu jarðskjálftum sem maður upplifir stundum. Að sjá hversu ótrúlega mikið er hægt að gera með nánast engu og velta fyrir sér hvort maður muni nokkur tímann skrifa eitthvað jafn fullkomið.

Maður er manns gaman.

Málshættir eru áhugaverðir. Ég veit ekki betur en að flest tungumál eigi einhverja málsháttahefð og hver man ekki eftir basli í menntaskóla þegar það var nauðsynlegt að þýða málshátt með öðrum málshætti. Við Íslendingar erum kannski sér á báti með að troða þessum gullkornum í súkkulaði til að koma þeim ofan í börnin (ekki bókstaflega).

Þessi málsháttur reynir ekki að vera sniðugur. Hann segir bara mjög einfaldan sannleik á eins skýran máta og mögulegt er. En hann er líka málsháttur sem hægt er að kafa ofan í. Við erum í grunninn ofur félagslyndir apar, ein grimmasta pynting sem þekkist er algjör einangrun. Við lifum á tímum þar sem hægt er að blekkja sig í að maður upplifi samneyti við aðra gegnum samfélagsmiðla, en líka hefur aldrei verið auðveldara að halda sambandi við fólk víðs vegar um heiminn, þarf ekki nema síma eða nettenginu.

Svo er vert að spyrja sig, ef forfeður okkar smíðuðu þennan málshátt (og gerðu gestum hátt undir höfuð), hvers vegna upphefjum við þann sem stendur einn jafn mikið og við gerum?

Góð saga skal ei sannleikans gjalda.

Þessi hefur verið mér hugleikinn síðan í menntó. Málið er að fáar sögur eru eins skemmtilegar eins og sögur af honum „Einar frænda.“ Tröllasögur, ýktar djammsögur, sögur af vandræðalegum fyrstu stefnumótum og svo framvegis. Hverjum er ekki sama hvort það sé satt eða ekki að einhver hafi verið settur í gifs í steggjun og ekki verið sagt að hann væri í raun heill fyrr en eftir brúðkaupið? Venjulega skiptir samhengi svo miklu máli, þegar við erum að hlægja saman af óförum hvors annars, er það beinlínis skaðlegt.

Að lokum…

Þetta er auðvitað dropi í hafið. Mögulega geri ég þessar færslur að reglulegu innslagi hér. En mig langar að spyrja hvort það eru einhverjir svona frasar sem eru ykkur sérstaklega hugleiknir?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s