Örsögur úr ódýrri íbúð – Bæjardjamm (og kynning)

Ég ætla að birta hér á síðunni næstu vikur smásögurnar Örsögur úr ódýrri íbúð. Þetta var lokaverkefnið mitt í ritlistinni og ég hef viljað gera eitthvað með þær síðan ég skrifaði þær en ekki fundið rétta vettfanginn.

Markmiðið með þessum sögum er fyrst og fremst að fá ykkur til að hlægja, allir viðburðir sem sagt er frá gerðust en nöfnum hefur verið breytt og persónur sameinaðar til að virða friðhelgi fólks, sem er í flestum tilfellum vinir mínir. Skemmtið ykkur vel:

Bæjardjamm

Það er er ekki daglegt brauð að djamma í miðborg London en þegar það gerist er það hrikalega skemmtilegt. Það er eitthvað við að vera í hjarta stórborgarinnar sem kemur manni í gírinn, svo ekki talað um bjóranna þónokkuð mörgu sem við erum þegar búin að þamba. Við erum einhverstaðar rétt fyrir norðan ánna Thames, sviplíkar göturnar liggja í allar áttir og auðvelt að villast. Á göngu hér finnst alltaf eitthvað töff, hvort sem það er ævaforn stytta eða nýopnaður bar. Eins og þessi bar, sem virðist vera fullkomnunin uppmáluð.

Við erum nýbyrjuð saman í leiklistarskóla, framundan eru þrjú ár af nánu samstarfi, ævintýrum og skemmtilegum kvöldum. Hópurinn er fjölbreyttur, þverskurður af leikhúsáhugamönnum Bretlandseyja og svo ég, einn fjölda Íslendinga sem lærir leiklist í skólanum Rose Bruford. Þetta er í fyrsta skipti sem hópurinn fer saman á djammið og þau sem eru frá London vilja ólm sýna okkur hinum höfuðborgina. Ekkert þeirra hafði heyrt um þennan bar fyrir þetta kvöld en þau vissu á hvaða svæði væri gott að ráfa.

Dyraverðirnir eru vinalegir, sem er jafn sjaldgæft hér og heima. Þeir hleypa okkur inn með bros á vör, brosið er svo óvænt að það er óþægilegt. Nýju vinir mínir stefna út í horn að lausu borði en ég tek eftir lausum barþjóni. Best að grípa gæsina.

Því miður fengu fjórtán aðrir sömu hugmynd og ég enda aftast í langri röð hjá grey þjóninum. Hann er hvorki að farast úr þjónustulund né skilvirkni. Á andlitinu er svipur sem bara barþjónar mega fá að nota þjónustustörfum, svipurinn sem segir að hann vilji gera hvað sem er nema að afgreiða þig.

Hvergi í heiminum líður tíminn jafn hægt og aftast í röð við bar, nema kannski á biðstofu kynsjúkdómalæknis. Ég tala nú ekki um þegar þig langar bara í einn helvítis bjór. Þá er lögmálið að allir á undan þér panti flókna drykki sem þarf að blanda frá grunni, fara með forna töfraþulu, bíða eftir að hvert hráefni fái að anda í þrjátíu og átta sekúndur og svo að lokum þarf að hræra nákvæmlega tólf sinnum, réttsælis.

Af hverju er aldrei sér röð fyrir þá sem vilja bara einn bjór?

Þegar röðin er loksins komin að mér er ég rúmlega árinu eldri, komin með grá hár og þarf að raka mig. Ég panta bjór og er spurður um skilríki. Það pirrar mig. Drykkjualdurinn hér er átján og fólk er venjulega komið í síder við fermingu. Ég rétti samt fram ökuskírteinið mitt með bros á vör, ef ég er heppinn mun barþjóninum finnast kúl að ég sé Íslendingur. En hann lætur ekki þannig smáatriði gleðja sig, tilkynnir að það þurfi bresk skilríki til að panta við barinn og snýr sér að þeim næsta í röðinni.

Hægt er að bregðast við svona á ýmsan hátt. Þú getur brosað og reynt að sannfæra barþjóninn um að líta framhjá reglunum. Þú getur farið til vina þinna og beðið þau um að kaupa bjór fyrir þig. Þú getur jafnvel áttað þig á að þú sért búinn með fleiri drykki en er skynsamlegt og hætt að drekka þessa nótt. Eða þú getur baðað þig í réttsýnni reiði, blótað barþjóninum, gleymt því að vinir þínir séu á staðnum og strunsað á dyr. Ég vel síðastnefnda kostinn.

Ég geng út. Það er heimskuleg ákvörðun.

Síminn minn er dauður þannig að ég get ekki látið vini mína vita að ég sé farinn. Til að bæta gráu ofan á svart hleypir barinn fólki ekki inn tvisvar sama kvöld, væntanlega til að koma í veg fyrir að nískupúkar laumist út á milli dansspora og helli í sig víni úr næsta stórmarkaði. Það sem verra er, það eru nokkrir útgangar á staðnum. EF ég bíð við aðaldyrnar eru fínustu líkur á að vinirnir fari út annars staðar.

Svo er það ein óþægileg staðreynd, sem ég hefði kannski átt að pæla í fyrir eins og einu reiðiskasti. Ég er í borgarhluta sem ég þekki ekki, fjarri nýju heimili mínu í hverfinu Sidcup og já alveg rétt, það er ekkert reiðufé í veskinu. Leigubílastjórar í London hafa engan áhuga á veseni eins og að taka við korti og ég hef ekki hugmynd um hvar hraðbanka er að finna.

Þegar ég pæli í því, þá veit ég ekki heldur hvar næsta leigubílastöð er.

Það hlýtur að vera einhver lausn. Næturstrætó, besti vinur djammara í London, er möguleiki. Því miður er ég svo nýfluttur til borgarinnar að ég veit ekki hvaða stoppistöðvar eru nálægt heimili mínu. Svo ekki sé talað um hvaðan vagnarnir fara.

Næsti augljósi kostur eru lestirnar en þær byrja ekki að ganga fyrr en eftir nokkra klukkutíma. Þar að auki þyrfti ég að finna lestarstöð. Þar gæti ég beðið fram á morgun, tekið fyrstu lest á London Bridge stöðina og komið mér heim þaðan. En eftir sólsetur eru stöðvarnar morandi í heimilislausu fólki, mig vantar aðeins upp á hugrekkið til að kynnast þeim betur.

Hvað með að finna stelpu til að heilla upp úr skónum? Nýta ljósa hárið og ýktan íslenskan hreim sem ég  er bara með í glasi. Ná að breyta mér í draumaprins. Sú tilhugsun hljómar vel í næstum því sekúndu, áður en ég man að drukkinn maður úti á götu í miðborg London er engrar konu draumaprins.

Hvar í andskotanum er ég annars? Það væri fínt að fá það á hreint. Þetta er þröng gata, húsin í kring eldgömul og öll ljós slökkt. Ekkert af þessu segir mér neitt, þetta á við annað hvert hverfi borgarinnar. Það er smá þoka, engin kennileiti sýnileg. Gatan liggur niður brekku. Brekkur í London hljóta að liggja nokkurn veginn að Thames-ánni. Er ekki áin neðsti punkturinn í borginni? Jú, vatn leitar alltaf niður. Einhvers staðar við hana er lestarstöðin London Bridge. Hugmynd er að mótast og mér líst allavega ekki illa á hana.

Allar lestir til Sidcup fara í gegnum London Bridge, ég hef allavega áttað mig á því á stuttum tíma í borginni. Hjá London Bridge get ég kannski fundið lestarteinana sem liggja til Sidcup, heimilis míns næstu ár. Þetta yrði löng ganga en líklega ekki mikið lengri en úr 101 í Hafnarfjörð. Fyrsta skrefið er að finna stærstu á Englands. Við fórum ekki svo langt norður fyrir hana þegar við mættum á djammið, hún er hérna einhvers staðar. Þetta er hægt og hey, fokk it þetta verður fyndin saga á morgun.

Ferðin hefst. Það væri snilld að finna lestarstöð, þar eru alltaf kort. Ef slíkt finnst ekki væri næstbesti kostur kunnugleg bygging sem hægt væri að nýta sem vegvísi. Í hliðargötu blasir við minnisvarði um konung í fjarlægu landi, sem réð ríkjum nokkur þúsund árum áður en einhverjum datt í hug að það væri góð hugmynd að búa á Íslandi. Styttan er vissulega kennileiti en maður þarf víst að vita hverju það er nálægt til að það vísi til vegar, sem ég geri ekki.

Öll þessi hugsun tekur á og það virðist ekki vera að renna af mér. Eftir dágóðan spöl spyr kuldinn hvort ég ætli að taka eftir honum og hrollur fer um mig. Nei, ég er Íslendingur, okkur á ekki að verða kalt erlendis. Sú hugsun hjálpar ekki.

Skrefin þyngjast. Engin lestarstöð er sjáanleg, ekkert bólar á kennileiti og mögulega er þetta ekki góð hugmynd. Ég hélt ég væri rétt hjá Thames en það virðist ekkert bóla á ánni. Geta ár horfið?

Þá sé ég leigubíll og breyti planinu í flýti. Ég ríf upp farþegahurðina og útskýri að ég sé ekki með pening á mér en geti farið í hraðbanka í Sidcup. Sú staðreynd að ég er tilbúinn að borga háa upphæð, líklega meira en tíu þúsund, fyrir leigubíl segir eitthvað um hversu örvæntingafullur ég er og sú staðreynd að leigubílstjórinn segir mér að fara í rassgat segir mér að þetta sé líklega ekki leigubíll.

Ég biðst afsökunar, loka dyrunum varlega og held áfram að ganga.

Þetta er klemma, jafnvel mikil klemma. Ég er orðinn drullusyfjaður, mér er illt löppunum og kuldinn minnir mig sífellt á að það sé ekki hægt að hundsa hann að eilífu. Ef ég sé lestarstöð mun ég stoppa þar og gista, það hlýtur að vera öruggara en að sofna úti á götu. Hvað með þá heimililausu? Eitt í einu, finn út úr því þegar að því kemur.

Ég kem auga á annan leigubíl og vonarglæta blossar upp. Það sem meira er, hann stendur við leigubílastöð. Hann er líklega ekki saklaus borgari á næturrúnti. Í þetta sinn geng ég rólega að bílnum og banka. Ég segist hafa misreiknað eyðslu kvöldsins og geti ekki borgað nema hann stoppi við hraðbanka. Bílstjórinn er hress, miðaldra Írani og sem brosir sínu breiðasta og býður mér inn. Miðstöðinn er stillt í botn, hitinn smýgur inn í mig allan, himneskt.

Hann spyr mig út í nóttina, ég útskýri í grófum dráttum hvað hafi gerst og hann hlær að mér. Ég segist vera Íslendingur, það eina íslenska sem hann þekkir er Jón Páll og Magnús Ver. Við eyðum klukkutíma langri bílferðinni til Sidcup í að ræða muninn á írönskum og íslenskum kraftlyftingamönnum og skemmtum okkur konunglega.

Við stoppum, ég stekk út og geng að hraðbankanum. Hann virðist bilaður. Annaðhvort það eða ég man ekki hvernig hraðbankar virka, sem gæti tengst ástandinu á mér. Miðað við ákvarðanatökuna hingað til er það sterkur möguleiki. Ætti ég að hlaupa inn í garðinn og treysta á það að vera sneggri en miðaldra Írani? Nei, það væri ljótt, betra að reyna að útskýra málið. 

Höfuðverkur vekur mig morguninn eftir. Hvað gerðist í nótt? Ekki man ég rétt, það getur ekki verið að ég hafi gengið heim? Í dagsbirtunni hljómar það frekar heimskulega. Nei, það var leigubíll en hvernig borgaði ég?

Það er engu líkara en Íraninn hafi skynjað að ég væri að vakna því síminn hringir einmitt þegar ég neyði mig til að opna augun. Hann spyr mig í gegnum tólið hvort ég muni eftir honum, sem ég játa. Hann segist vera á leiðinni til Sidcup til að sækja peninginn. Hvernig komst ég heim ef ég borgaði ekki?

Ég rölti að hraðbankanum og tek út pening. Fyrir kraftaverk virkar hann nú þegar runnið er af mér. Þegar ég hef borgað bílstjóranum spyr hann hvort ég vilji ekki trygginguna. Best að minnast ekkert á að ég muni ekki eftir að hafa afhent slíkt. Hann réttir mér helvítis ökuskírteinið og kveður. Sólin skín, ég reikna út að líklega hefði göngutúrinn verið svipaður og úr Hafnarfirði að Esjunni. En innan um forljót húsin í Sidcup líður mér eins og ég sé kominn heim.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s