Örsögur úr ódýrri íbúð: Vonbrigði

Sambýli er drulluerfitt, sérstaklega þegar þarfir þeirra sem búa saman eru mismunandi, ég tala nú ekki um ef einn íbúanna á það til að vera ögn, bara ögn, tillitslaus. Þegar þú blandar saman Hafnfirðingi, Breta sem hefði átt að fæðast lávarður og strippara er ljóst að einhverjir árekstrar verða. Það var ekki mér að þakka að sambýlið með Lávarðinum og Töffaranum gekk jafn vel og það gerði.

Þegar við Lávarðurinn ákváðum, í fimmta bjór, að leigja saman setti hann ákveðin skilyrði. Við vorum saman í bekk, okkur samdi ágætlega en vorum ekki nánir félagar. Hann vildi að kærastinn hans mætti gista þegar hann vildi, bjóst að því virtist við að það yrði eitthvert mál, sem það var ekki. Annað skilyrði var að þriðja herbergið færi til bestu vinkonu hans, Töffarans.

Ég sagði að það væri sjálfsagt og hann benti mér á að hún ynni fyrir sér sem fatafella. Líklega hefur hann ekki fattað hvers konar ranghugmyndir vöknuðu hjá rúmlega tvítugum strák þegar hann sá fyrir sér að búa með strippara, en meira um hana seinna.

Málið með Lávarðinn er að hann er svolítið spes. Gífurlegur snyrtipinni, sem ég er ekki, svakalega skipulagður, sem ég er ekki, og áhugamaður um að hafa kósý, sem ég er en hann tekur á hærra plan. Á meðan við bjuggum saman sá ég hann aldrei í öðru en slopp heima, nema hann væri á leiðinni út eða inn.

Ég drösla mér á lappir á sunnudagsmorgni og hann er eins og alla daga vaknaður á undan mér. Í eldhúsinu eru svaladyr og þar situr hann, eins og alla morgna, sötrandi fyrsta kaffibolla dagsins með sígarettu í hendi.

Hann lítur út eins og hann ætti að vera á óðali. Fullkomlega afslappaður með yfirlætissvip sem er ekki hægt að kenna. Svip sem segir að hann sé yfir umhverfið hafinn. Svip sem hefði sómt sér á hefðarfólki. Svipurinn á manni sem pantar dýrasta vín hússins og segir að það verði að láta þennan draslárgang duga.

Það er eins og hann dæmi mig á meðan ég treð í mig samloku með sultu og þamba kaffi yfir vaskinum. Mylsnunni úr ögn útrunna brauðinu rignir yfir allt, kaffið er skelfing, bragðið rétt norðan við mótorolíu.

Lávarðurinn er með sjötta skilningarvitið. Það segir honum nákvæmlega hvenær á að bjóða góðan daginn að hans sið.

– Gooooooood morning, cunt.

Bara Bretar geta tekið orðið kunta og gert það heimilislegt. Sama hvað ég reyni finn ég ekkert hnytið tilsvar. 

 – Daginn drusla, svara ég og skammast mín fyrir að vera ekki snjallari. Hann ranghvolfir augunum. Þetta er klárlega fáránlegt svar, hann er sá eini í íbúðinni sem er í löngu og góðu sambandi, við gaur sem er ef eitthvað er enn þá snyrtilegri og skipulagðari en hann.

– Ertu að fara í bolta? spyr hann.

– Að sjálfsögðu.

 Á hverjum sunnudegi hittist hópur stráka úr skólanum og æfir fótbolta. Ég segi æfir, meina hleypur um  og reynir að stemma stigu við sameiginlegri mittisþróun okkar, oftast með smá höfuðverk. Það er takmarkað hversu lengi hægt er að djamma um hverja helgi og líta á örbylgjupizzu sem mat áður en það fer að sjást á þér.

– Ég ætla að þrífa, segir hann.

Það kemur ekki á óvart. Hann er með væga kvíðaröskun og þrifáráttu. Ekki svona „hann er svo ógeðslega snyrtilegur að það er ekki eðlilegt.“  Þetta er meira „hann tekur lyf við þessu og dagurinn gengur stundum út á að halda kvíðanum niðri.“

Reglusemi er eitt helsta vopn hans í baráttunni við taugarnar. Einn fastinn er að þrífa hátt og lágt á hverjum sunnudegi. Hann nær einhverri innri ró við það. Þetta kemur fínt út fyrir mig. Ég vaska upp og er þá búinn að leggja mitt af mörkum fyrir fullkomlega snyrtilega íbúð. Á maður ekki að umgangast fólk sem bætir upp gallana í manni?

Á fótboltavellinum eru aðstæður fullkomnar. Það er hlýtt en nýbúið að rigna þannig að völlurinn er eins og forarpyttur. Í hvert sinn sem við köstum okkur á eftir boltanum eða reynum að tækla menn rennum við í gegnum drullusvaðið eins og tundurskeyti.

Ég er ekki góður í fótbolta. Þegar ég var krakki var ég alltaf settur í markið en í seinni tíð hef ég oftast spilað leiðinlegan varnarmann. Týpan sem á bara að hlaupa eins og óður maður, djöflast í sóknarmönnum og gera sitt allra besta til að skemma fyrir hæfileikaríkari andstæðingum. Þetta er Ingimar: Hans hlutverk í íþróttum er að vera fyrir.

Við þessar aðstæður er ég í essinu mínu, rétt eins og félagarnir. Æfingin er svo skemmtileg að tíminn hverfur og skyndilega eru þrír tímar horfnir og við erum gjörsamlega búnir á því. Því miður þarf að slútta þessu, fara heim og opna einn kaldan og horfa á útsendingu frá leik þar sem enginn leikmanna er þunnur, enginn þeirra er með væga bjórbumbu og alls enginn hefur áhyggjur af skólagjöldum.

Best að reyna að vera góður meðleigjandi og koma inn bakdyramegin. Þetta finnst mér góð hugmynd: Í stað þess að koma inn um aðaldyrnar mun ég fara í gegnum eldhúsið sem lá að svölunum og þar með þyrma anddyrinu við drullunni á mér.

Í gegnum svaladyrnar sé ég Lávarðurinn standa við eldavélina, syngjandi kátan með gott dagsverk. Eldhúsið er eins og það verði notað í auglýsingu fyrir hreinsiefni. Hver einasti flötur gljáir, gólfið er nýbónað og hann er búinn að vaska upp hvern einasta hníf og gaffal. Rúðan á svalahurðinni er eins og ný og þar sé ég spegilmynd mína.

Bolurinn minn var rauður þegar ég fór en er orðinn leðjubrúnn. Það eina sem er drullugra en bolurinn eru skórnir, kálfarnir, stuttbuxurnar, andlitið og hárið.

Þegar við Lávarðurinn byrjuðum að leigja saman lofaði ég að gera mitt besta til að vera snyrtilegur en við værum bara ekki í sömu deild þegar kæmi að þrifum. Ég er á góðum degi um miðja Pepsi-deild, hann keppir í meistaradeildinni í snyrtimennsku. Hann sýnir því skilning, nema þegar hann er nýbúinn að þrífa. Eins og til dæmis núna.

Ég banka og brosi til hans, hann snýr sér við og sér einhverja kuntu vera um það bil að ganga inn í gljáandi eldhúsið, drullugri en meðal mýrarboltakeppandi. Ég sé blóðþrýstinginn bruna yfir hættumörk á því hvernig æðar verða skyndilega sýnilegar á enninu, varirnar þrýstast saman og hnúarnir hvítna af spennu. Hann er mögulega ekki sáttur. Ætli það sé mér að kenna?

 Hann opnar fyrir mér en meinar mér að komast inn. Milli samanbitinna tanna hvæsir hann:

– Ingimar. Hvað. ER. AÐ. ÞÉR?!

 Ég reyni að halda niðri í mér hlátrinum og svara:

– Sorry með mig. Má ég komast í sturtu?

– NEI! ÚR FÖTUNUM ÞÚ FERÐ EKKI HÉRNA INN SVONA!

Ég bið hann að sækja fyrir mig föt til skiptanna og hann þverneitar. Það er enginn nágranni sjáanlegur svo flíkurnar fljúga af mér og beint ofan í svartan ruslapoka sem Lávarðurinn töfrar fram. Hann ætlar að henda þeim en ég stoppa það, þær þurfa bara þrjár umferðir í þvottavél til að vera jafn fínar og eldhúsið. Þegar ég rölti í gegnum íbúðina og inn á bað eltir hann mig með sópinn á lofti, blótar litríkt og yrðir svo ekki á mig það sem eftir lifir dags.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s