Örsögur úr ódýrri íbúð: Upphífingar

– Ingimar, ég er að fara á deit, er þér ekki sama þótt við komum hingað ef vel gengur? spyr Töffarinn mig.

– Ekkert mál, svara ég og tek eftir því að hún stendur yfir mér og það sem meira er, hún er fullklædd.

Það kann að vera augljóst, en fæstir stripparar eru spéhræddir.  Dagsdaglega valsar hún um íbúðina á nærfötunum einum klæða. Hún hefur ekki minnsta áhuga á mér en skemmtir sér við að sjá mig reyna að halda andlitinu þegar hún kemur inn í stofu í nánast engu. Hún er reyndar farin að kvarta yfir að ég sé hættur að líta upp úr tölvunni þegar hún kemur inn í stofu. Sem er rangt hjá henni, ég er bara orðinn miklu lúmskari. 

Þú þarft að vera harður til að vinna fyrir þér sem strippari. Töffarinn er fremur stutt og nett, með sítt dökkt hár. Allt of margir, sérstaklega miðaldra viðskiptavinir, gera þau mistök að halda að hún sé ekkert nema útlitið. Hún á það til að leika með slíka, þangað til viðkomandi segir eitthvað rangt eða vanvirðir hana. Þá rífur hún þá í tætlur með eitruðum athugasemdum.

Fötin þetta kvöld eru ákveðin vísbending um fyrirætlanir hennar. Tælandi er ekki slæmt orð: þröngar leðurbuxur, enn þrengri rauður hlýrabolur og háhælaðir skór sem lofa ökklabroti ef hún misstígur sig.

Hún spyr hvort ég sé með eitthvað á dagskrá, ég bendi á rommflösku og segi að uppistand á Youtube sé fínasta föstudagskvöld, sérstaklega fyrst Lávarðurinn sé hjá kærastanum. Er þetta ekki það sem fólk sér fyrir sér í listnámi: eins manns kojufyllerí og tölvugláp á meðan vinir manns eru á stefnumótum?

Hún fer og kemur aftur klukkutíma síðar með Dyravörðinn í eftirdragi. Dyravörðurinn er andstæða hennar á allan hátt. Enn þá styttri en Töffarinn, mössuð, þungbrýn og reið á svipinn. Eins konar óskeggjaður Gimli úr Hringadróttinssögu. Ef hún stofnaði til slagsmála við mig myndi ég enda á spítala með brotin bein og brostna sjálfsmynd.

Ég býð þeim romm og Dyravörðurinn tekur aðeins of skýrt fram að hún vilji ekkert bland. Eftir smástund erum við farin að skemmta okkur konunglega. Dyravörðurinn hefur sérstaklega gaman af (ýktum!) lýsingum Töffarans á rjóðu andliti mínu þegar hún labbar um á nærfötunum og hversu augljóst sé að ég vilji sofa hjá henni. Ég játa að svo sé, en tjái áhyggjur af því að það myndi flækja samband þeirra ef eitthvað verður, sem Dyraverðinum finnst fyndið.

Dyravörðurinn leggur til að ég kaupi einkadans af Töffaranum, ég segist ekki hafa efni á því. Það finnst henni líka fyndið. Hún reynir sífellt að fá mig til að fara hjá mér, ekki auðvelt verk.

Þegar klukkan er farin að nálgast miðnætti spyr Töffarinn hvort ég sé ekki þreyttur. Svo er ekki. Þá setur hún handlegginn utan um Dyravörðinn og gælir við hálsinn á henni og spyr mig aftur hvort ég þurfi ekki að gera eitthvað. Þetta gæti verið merki um eitthvað en ég er ekki viss hvað.

Að lokum missir Töffarinn þolinmæðina, sest í kjöltuna á Dyraverðinum og bendir á herbergið mitt. Auðvitað! Þær vilja þær næði!

Ég afsaka mig og segi að langt Youtube-myndband þarfnist athygli minnar. Að sjálfsögðu er það haugalygi, þetta var áður en Youtube leyfði meira en tíu mínútna myndbönd.

Rúmið í herberginu mínu er þægilegt, ofboðslega náði ég að mála vel yfir skærgula litinn sem var á veggjunum. Það þurfti ekki nema átta umferðir. Bækur liggja í hrúgum um öll gólf og á hurðinni er forláta plakat með mynd af Prúðuleikurunum. Það er arfur frá síðasta leigjanda. Ég hef bara ekki í mér að rífa niður Kermit, þótt mér dauðbregði reglulega þegar ég vakna og sé móta fyrir andlitunum í myrkrinu. Glugginn sem veit út í götu er svo lítill að í stað gluggatjalda dugði að hengja upp FH-treyju. Hún skýlir mér fyrir augum fasteignasalans í húsinu á móti, ég bið ekki um meira.

Fljótlega kemur í ljós að veggir íbúðarinnar, sama hversu vel málaðir þeir kunna að vera, eru álíka hljóðeinangrandi og dagblað. Þær vinkonur skemmta sér vel, mjög vel. Ég hækka duglega í uppistandinu og reyni að hugsa ekki um að ég sé að súpa vondan Cuba Libre með George Carlin í stað þess að vera að skemmta mér með vinum. 

Þegar glasið klárast tek ég eftir að frammi er þögn. Líklega er óhætt að álykta að þær séu að kúra og leiðin sé greið á klósettið. Ég geng fram og uppgötva að framvegis verði erfitt að koma mér á óvart.

Töffarinn er í dyragættinni á herberginu sínu, búin að skipta yfir í rauð Victoriu Secret-nærföt og háhæluð leðurstígvél sem ná henni upp að mitti. Hún heldur efst í dyragættina og er að gera upphífingar.

Tæknin er frábær. Hreyfinginn upp og niður er jöfn, engir óþarfa kippir eða sveiflur til að auðvelda verkið. Það er augljóst að hún kann að koma spennu á allt bakið, sem er erfiðara en það virðist. Menn borga fyrir þessa sýningu, eina sem ég tek eftir eru gæði lyftingaformsins.

– SJÁÐU MIG! hrópar hún milli hífinga, kippir sér ekkert upp við að ég standi þarna og stari, kjaftstopp og of hissa til að hugsa eitthvað klúrt. Ég fer bara á klósetið og býð ekki einu sinni góða nótt þegar ég er búinn að bursta tennurnar. Rétt áður en ég steinrotast velti ég fyrir mér hvort þetta furðulega kvöld verði toppað. Þú mátt giska á svarið.

Dyravörðurinn varð samt ekki að einhverri aðalpersónu í lífi okkar. Hún hvarf af sviði jafn skyndilega og hún birtist, þó með meiri látum. 

Þegar ég kem heim úr skólanum, kannski mánuði seinna, tek ég eftir að fyrir utan innganginn á blokkinni er sjúkrabíll. Ég hugsa með mér að kannski sé hann þarna út af annarri íbúð, en það er ekki beint sjokk að sjá íbúðardyrnar.

Inni í stofu standa tveir sjúkraflutningarmenn. Á sófanum er Dyravörðurinn, heldur um höfuðið og veinar af sársauka. Þetta lítur út eins og virkilega slæmt mígreni.  Samt virðast hvorki sjúkraflutningarmennirnir né Töffarinn hafa áhyggjur. Henni virðist þvert á móti leiðast.

Ég set upp svip sem á að segja: Hvað er í gangi?

– Vesen, svarar hún lágt.

Ætli það sé ekki best að skipta sér ekkert af, enda er Oreo-pakki og fyndið myndband búið að panta óskipta athygli mína.

Nokkru seinna spyr ég Töffarann hvað hafi verið að Dyraverðinum. Hún svarar mér flissandi: – Æ, ég reyndi að hætta með henni nokkrum sinnum en hún gerði sér alltaf upp eitthvert kast. Sambandsslitin gengu loksins þegar ég framkvæmdi þau heima hjá henni og gekk burt frá vandamálinu. Þú hittir hana ekki aftur.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s