Allir eru að leita að ástinni eða svo segir klisjan. Sumir finna hana með æskuvini, aðrir finna hana í háskóla eða bara á djamminu. Síðustu vikur hefur félagi minn, Ferðalangurinn, gist hjá mér. Hann er í barþjónaskóla og er búinn að finna ástina, nema að það er einn hængur á. Ástin býr í nokkur þúsund kílómetra fjarlægð, í Lissabon.
Það er erfitt að lýsa honum. Hann er vinnuþjarkur, fer í allt sem hann tekur sér fyrir hendur af metnaði og dugnaði (eða vægri vinnufíkn, þú mátt velja). Mikilvægari er eilíf leit hans að góðu gríni. Heima hjá honum er stór innrömmuð ljósmynd sem átti að vera stríðin afmælisgjöf. Myndin er af honum sótölvuðum í heitapotti, skælbrosandi, klæddum í hvítt bikiní.
Flestir hefðu hlegið vandræðalega og hent myndinni daginn eftir. Hann tók gjöfinni ekki bara fagnandi, heldur hengdi hana upp á áberandi stað í stofunni. Hann kveikti eitt sinn í vindli með brennandi fimmþúsundkalli, á meðan hann var fátækur námsmaður, bara til að prófa það, svo tvö dæmi séu tekin.
Hann stundar barþjónanámið með sama krafti og allt sem hann tekur sér fyrir hendur. Sem er kannski ekki sniðugt því að á námsskránni er að klára alla drykki sem þeir blanda í lok dags. Einnig í byrjun dagsins og um miðjan dag. Líka á milli tíma og ef einhver er seinn eða ef einhver var á réttum tíma eða þegar ef einhver mætir snemma. Fyrstu vikuna var sjúklega fyndið að sjá hann skríða heim um kvöldmatarleytið með meiri vínanda en blóð í æðakerfinu. Nú þegar þrjár vikur eru liðnar er hann nánast aumkunarverður af þreytu. Mér skilst að lifrin í honum sé búin að senda stéttarfélaginu kvörtun.
Við Ferðalangurinn sitjum í stofunni, hann er niðursokkinn í spjall við kæró á netinu. Netsambandið er svo lélegt að myndbandssamtal er ómögulegt, þau láta textaspjall duga . Samtalið er daglegur viðburður á meðan þau er aðskilin af fjórtán tíma lestarferð. Ég ætti að kalla þetta rómantískt en er pínu pirraður yfir að vinur minn hafi hvorki tíma né orku til að grallarast með mér.
Það er bankað.
Frændi minn, Forsetinn, er óvænt mættur með góðan hóp. Hann er í nokkurra daga heimsókn í London og tók daginn snemma með vinum sínum. Þau voru öll í skólanum á undan mér. Í hópi stuðbolta er Forsetinn sá mesti, allir eru hressir og stemningin ekki snakk, sjónvarp og snemma að sofa.
Við Forsetinn förum rakleiðis inn í eldhús og vinir hans hefja söng í stofunni. Hann verður fyrir vonbrigðum með ísskápinn, það eina sem er til er Malibu og mjólk. Hann minnir mig á mikilvægi þess að eiga alltaf varabjór, ég lofa að gera betur næst. Malibu og mjólk verður víst að vera drykkur kvöldsins. Veistu, það er betri blanda en þú heldur.
Allt stefnir í skemmtilegt kvöld. Gallinn er að eftir þriggja vikna stífa drykkju er partí um það bil versta hugmynd sem Ferðalangurinn hefur heyrt. En hann vill ekki vera leiðinlegur svo hann situr áfram í stofunni og þykist hafa áhuga á því sem er í gangi.
Forsetinn spyr Ferðalanginn hvað hann sé að gera með tölvu í miðju partíi, Ferðalangurinn segist vera að spjalla við frúna og sé alveg að fara að sofa. Glampi kviknar í augum Forsetans.
– Ferðalangur, segir hann, ef ég má skrifa fimm setningar í spjallið og þú stoppar mig ekki skal ég kaupa handa þér bjórkassa. Ef þú heldur ekki út fimm setningar þarftu bara að kaupa einn bjór handa mér.
Það lifnar yfir Ferðalangum. Örlítið bros gerir vart við sig á meðan hann vegur þetta og metur. Gaurinn montar sig af því að gera hvað sem er fyrir gott grín. Svo ekki sé talað um að það er heill bjórkassi í boði. Hann kynnti mig fyrir frasanum: Slæm ákvörðun er góð saga.
En hann þekkir ekki húmorinn hjá Forsetanum. Hvað er svo sem það versta sem getur gerst? Að Forsetinn skrifi eitthvað klúrt og Ferðalangurinn segi kæró að einhver fáviti hafi komist í tölvuna hans? Varla mun þessi nýi vinur geta það sem engum hefur tekist, að ganga fram af Ferðalangnum?
Hann veit líka að ef hann tekur þessu ekki verður honum strítt fyrir það næstu mánuði. Eftir smástund segir Ferðalangurinn einfaldlega.
– Samþykkt.
Maður með keppnisskap og hrekkjalómur, þetta er gullin blanda. Forsetinn tekur fartölvuna, þögn slær á stofuna. Hann tekur sér langa stund til að velja fyrstu orðin. Ég halla mér aftur í sófanum.
Fyrsta setning: Það er svolítið sem ég þarf að játa.
Ferðalangurinn byrjar strax að iða. Hún svarar eftir óvenjulanga bið.
Kæró: Hvað ertu að tala um?
Önnur setning: Ég er búin að hugsa um okkur síðustu daga.
Kæró: Ef þetta er eitthvað grín er það ekki fyndið!
Ég er henni hjartanlega ósammála.
Þriðja setning: Ég er búinn að vera að uppgötva ákveðnar tilfinningar gagnvart ákveðinni manneskju.
Kæró: HVAÐ ERTU AÐ SEGJA?!
Forsetinn er að fá bakþanka. Hann elskar gott grín en vill ekki vera vondur. Hann hefur augljóslega áhyggjur af því að vera að fara yfir strikið.
Það má lesa innra stríð Ferðalangsins af andlitinu á honum. Það er eldrautt og þakið áhyggjuhrukkum. Hann vill alls ekki tapa veðmáli og alls, alls ekki játa sig sigraðan, en hefur áhyggjur af því sem er í gangi. Frír bjór og gott grín eða framtíð sambandsins? Hvort verður yfirsterkara, ég er að ærast úr spennu.
Fjórða setning: Síðustu vikur höfum við Ingimar eytt miklum tíma saman …
Þrípunkturinn gerir útslagið. Ferðalangurinn stekkur upp og segir að Forsetinn sé búinn að vinna veðmálið. Við springum úr hlátri. Hann rífur til sín tölvuna og forsetanum er létt. Ætli hann hefði getað skrifað næstu setningu. Hvernig hefði hann náð að toppa einfalda fegurð þeirrar síðustu. Frá ákveðnu sjónarhorni var hún listræn, hann leyfði hugsuninni að fljóta út og hver einasti maður kláraði hana á sinn hátt.
Þegar við náum andanum á ný tek ég eftir að Ferðalangurinn er ekki að skrifa neitt. Svo er hann ekki farinn að brosa, óvenjulegt. Hann ætti að vera búinn að biðja Kæró afsökunar og byrjaður að blóta því að þurfa að splæsa bjór á Forsetann. Í stað þess situr hann, svo náfölur að ljósið af tölvunni endurvarpast af andlitinu, og hóstar upp:
– Netið er hrunið.
Það er ljótt, en við springum aftur úr hlátri. Netið er gjörsamlega farið, jafnt á tölvum og símum. Tímasetningin er mögnuð, í fyrsta sinn er ég ekki brjálaður yfir því að símafyrirtækið skuli sameina þjónustulund einokunarkaupmanns við metnað gjaldkera hjá slæmum sýslumanni.
Ferðalangurinn dregur andann djúpt nokkrum sinnum, horfir á okkur með skelfingu í augunum. Þetta er hætt að vera fyndið. Forsetinn biður hann afsökunar og þeir fara saman í að reyna að laga netið.
Við erum allir með inneignarkerfi á símunum okkar, svo það er ekki einu sinni í boði að hringja til Lissabon, enginn okkar er með nóg á kortinu. Þeir rífa allt úr sambandi og tengja aftur, þegar það virkar ekki endurtaka þeir leikinn og svo aftur og aftur og aftur. Ég stoppa þá ekki, en mig grunar að það eina sem dugar sé að bíða og kannski biðja til guðanna Google og Facebook.
Eftir næstum klukkutíma hrekkur kerfið aftur í gang, væntanlega búið að taka sinn samningsbundna kaffitíma. Ferðalangurinn segir milli samanbitinna tanna að hann muni hlæja að þessu þegar hann er búinn að ná í Kæró og biðja um fyrirgefningu, nokkur hundruð sinnum. Það stendur hann við og sambandið lifði þetta af, en ég veit hins vegar ekki til þess að Ferðalangurinn hafi nokkurn tímann borgað bjórinn.