Örsögur úr ódýrri íbúð: Íþróttaaðstaða

Dyravörðurinn hvarf á braut og nokkrum vikum síðar kom Rósin til sögunnar. Þær Töffarinn byrjuðu saman daginn sem þær kynntust og Rósin flutti inn skömmu síðar.  Full skömmu síðar. Þær voru báðar hvatvísar og hressar, sem færði meira líf í íbúðina. Við Lávarðurinn erum báðir meira fyrir góð bók, þær voru alltaf að leita að næsta ævintýri.

 Rósin leit út eins og unglingur, þó að við værum jafnaldrar. Þegar maður kynntist henni áttaði maður sig á að hún hafði ekki átt auðvelda ævi. Ekki leið á löngu þangað til Rósin var farin að vinna fyrir sér með að strippa, ef eitthvað var hún vinsælli á súlunni en Töffarinn. Töffarinn útskýrði það fyrir mér.

– Rósin er saklaus í útliti, sagði hún, sumir perrar elska það. Sérstaklega þegar hún klæðir sig eins og skólastelpa.

Þær kölluðu viðskiptavini aldrei annað en perra, skiljanlega. Okkur fannst fínt að hafa Rósina á heimilinu, en það var þegjandi samkomulag um að við myndum segja leigusalanum að hún væri að gista í nokkrar nætur ef hann tæki eftir henni. Hann hefði seint fúlsað við að rukka einn leigjanda í viðbót. Þar að auki höfðum við rökstuddan grun um að viðhorf hans til samkynhneigðar væri, kurteislega orðað, gamaldags.

Áhugaverður karl. Leigan var borguð mánaðarlega í ómerktan póstkassa, í ómerktu umslagi. Hann var alltaf á leiðinni að laga litlu gallana á húsinu, eins og bilaða lásinn á stigaganginum og myglublettina í stofunni. Svo var hann ekki mikið fyrir að fela andúð sína á útlendingum. Reyndar þýddi „útlendingur“ fyrir honum bara fólk sem var ekki hvítt, þannig að ég var í lagi. Ef minnst var á nálæg innflytjendahverfi varð hann ákaflega sorgmæddur á svipinn og sagði út í loftið:

– Já. Sá staður. Ofboðslega mikið brúnt þar núna.

Nóg um hann. Rósin og Töffarinn voru eins og krakkar á jólum þegar þær uppgötvuðu eitthvað sem þeim fannst sniðugt, oftast á netinu. Til dæmis heimsendingu Dominos. Eftir að þær föttuðu að hægt væri að panta pizzur á netinu voru tvennutilboð send heim til okkar tvisvar í viku. Þótt við byggjum í næsta húsi við pizzastaðinn og heimsending kostaði auka.

Mánuðum saman voru tvennutilboð Dominos það eina sem þær borðuðu, skömmtuðu sér bara pizzunum og létu þær duga dögum saman. Eitt skipti benti ég þeim á að flatbaka væri kannski ekki það hollasta í öll mál og Töffarinn svaraði

– Við erum alveg meðvitaðar um að halda línunum í lagi, vinnum fyrir okkur með þeim. Við sveltum okkur fyrir utan þessar pizzur.

Þetta fannst henni fullkomlega sjálfsagt og stórfurðulegt að mig hryllti við svarinu. Svo voru það stærri hlutir.

– Ingimar, hvernig þætti þér að hafa súlu í stofunni? spurði Töffarinn mig einn daginn. Þær höfðu verið að vafra á netinu og fundið heimsendingu á súlum, ætlaðar fyrir fólk sem æfir súludans.

– Súlu? Meinarðu strippsúlu? svara ég og þykist vera djúpt hugsi.

– Já, svo við getum æft okkur heima og svoleiðis. Svo er súludans frábær líkamsrækt, þú ættir að prófa.

Ég fer yfir kosti og galla þess að tveir stripparar séu að nota súlu í stofunni til að æfa sig. Ég er fljótur að ákveða að kostirnir (til dæmis að tveir stripparar æfi súludans í stofunni) vegi þyngra en gallarnir (sem væru væntanlega að ég kæmi ekki miklu í verk meðan á æfingum stóð).

– Já já, það er svo sem ekkert mál. Kannski ég prófi, svara ég og geri mitt allra besta til að fela glottið, sem misheppnast gjörsamlega. Ég er bara ekki nógu góður leikari.

Næstu daga spyrja þær á hverjum einasta degi hvað ætli sé langt í að súlan komi og eru hundfúlar þegar ljóst er að biðin lengist um að minnsta kosti einn dag. Loksins berst tölvupóstur um að pakkinn verði afhentur seinna um daginn.  Þegar það er bankað hrópa þær af gleði og ryðja næstum sendlinum um koll þegar þær rífa til sín pakkann.

Ég átti einhvern veginn von á að súlan kæmi í  löngum og mjóum pakka. Þvert á móti er kassinn flatur og ferhyrndur, kannski fjörutíu sentímetra langur og breiður. Þær rífa hann í tætlur og í ljós kemur þungur grunnflötur ásamt nokkrum holum stálrörum sem hægt er að smella saman.

Þær festa fyrsta rörið í grunnflötinn og ég glotti. Næstu tvö fylgja á eftir en eitthvað er klárlega að. Þegar það næsta er komið á sinn stað er bara eitt eftir. Þær eru ekki lengur spenntar. Stálsúlan er næstum fullkláruð og það fer ekkert á milli mála hvað er að fara að gerast. Töffarinn þarf að standa uppi á stól til að koma síðasta rörinu í.

Þær stíga til baka, setjast báðar á gólfið og vonbrigðin eru algjör. Enginn segir neitt. Þær eru á svipinn eins og barn sem átti von á Playstation í jólagjöf en fékk peysu, sem passar ekki einu sinni.

Frá toppi súlurnar og upp í loft er breitt bil. Ef einhver grípur í hana og sveiflar sér mun viðkomandi enda með andlitið inni í vegg og súlu ofan á sér. Pakkningarnar eru rifnar í frumeindir en það er ekkert auka rör. 

Þær eyddu sem sagt nokkur hundruð pundum í súlu og pældu ekkert í hvort hún passaði í stofuna. Mér tekst að fela pirringinn, leiklistarnámið farið að skila einhverju.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s