– Einhver lokaráð? spurði ég Forsetann kvöldið áður en ég flutti til London.
– Já, svaraði hann brosandi, ljúgðu alveg eins og þú getur!
Daginn eftir kem ég til London og viku seinna vorum við Engillinn byrjuð í leiklistarnámi. Líf okkar tveggja hefur rímað árum saman, kynntumst í MH og endum hvað eftir annað á svipuðum slóðum. Hún er frábær söngkona og enn þá betri leikkona. Þegar við tókum fyrstu leikhúsæfinguna með nýja bekknum sagði kennarinn um hana:
– Þetta var eins og að horfa á engil leika.
Þennan morgun sitjum við Engillinn og sötrum skólakaffið, sem er fínt ef þú ert slæmu vanur og hefur aldrei fengið alvöru kaffi. Það eru ekki nema nokkrar vikur liðnar af skólanum og enn þá smá spenna í loftinu í hvert sinn sem við hittumst. Allir mjög meðvitaðir um að við munum eyða næstu þrem árum í nánu samstarfi.
Ég þarf að skreppa afsíðis en viskuorð Forsetans bergmála í eyrunum á mér. Ég segi við Engilinn að ljúga einhverju að samnemendum okkar meðan ég er í burtu. Hún brosir sínu breiðasta, í henni syngur vitleysingur og hans við hlið er lítill hrekkjalómur.
Þegar ég sný aftur af salerninu stekkur einn samnemandi upp úr sætinu, grípur í mig og spyr með stjörnur í augunum:
– Ertu mörgæsakastari?!
– Vissuð þið það ekki? svara ég og þarf að taka á honum stóra mínum til að brosa ekki.
– En eru þær ekki þungar?
– Nei ekki svo. Þetta er svipað og ungbarn. Fuglar eru með hol bein svo þeir eru léttari en þeir líta út fyrir.
Fyrsta lygalexía: Göbbels hafði rétt fyrir sér um eitt, ef lygin er nógu fáránleg mun fólk trúa henni.
Ekki spyrja mig hvernig mér datt svarið hug, kjafturinn á mér vinnur oftast hraðar en heilinn. Sjálfur vil ég vita úr hvaða ímyndaða heimi Engillinn sótti mörgæsakast, það er örugglega skemmtilegur staður.
Bekkurinn er enn þá að kynnast og margir eru meðvitaðir um að sýna sínar bestu hliðar, ekki vera að fíflast of mikið. Þau eru sem sagt ekki búin að uppgötva hversu miklir vitleysingar Íslendingarnir eru.
Þau láta spurningunum rigna yfir okkur. Ég útskýri að á Þorláksmessu sé Laugarvegurinn frystur og múgur og margmenni komi til að horfa á. Þegar miðnætti nálgast koma mörgæsakastararnir sér fyrir og reyna að fleygja fiðurfénu sem lengst. Kúnstin sé að láta þær skoppa nokkrum sinnum og ef hraðinn er nægur renna þær svo tugi metra. Tækninni svipi til þess að fleyta kerlingar. Við segjum að sportið hafi orðið til á Vestfjörðum og seinna orðið hluti af jólahefðinni.
Engillinn skýtur inn að ef mörgæsin komi ekki hlaupandi til baka sé kastið ógilt. Þessi regla sé til að sanna að mörgæsin sé að skemmta sér, menn sem geti ekki fengið mörgæsina til baka eigi ekki heima í íþróttinni.
Hún segir að ég hafi verið langbestur í mínum árgangi sem ég mótmæli. Ég segi þeim að ég hafi aldrei verið bestur en þótt efnilegur og alltaf verið í topp fimm í mínum aldursflokki. Ég segist hafa hætt þegar hann Maggi minn mörgæs hafi farið upp í sveit. Það hafi bara engin önnur gæs staðist samanburð við hann og kastgleðin hvarf með honum.
Lygalexía II: Ef þú segir eitthvað sem hljómar hógvært eða jafnvel vandræðalegt er líklegra að fólk trúi þér.
Þau halda áfram að spyrja og rétt áður en bjallan hringir segir einn samnemandinn við mig.
– Vá, ég vissi ekki að svona kúl íþrótt væri til.
Við höldum í tíma og þegar ég kem inn lítur kennarinn beint á mig og ranghvolfir augunum. Samnemendurnir reyna hvað þau geta til að sannfæra hana en hún hefur kennt fleiri Íslendingum með þennan húmor og kaupir þetta ekki fyrir fimmaur. Áhrifa Forsetans gætir víða.
Að lokum játum við lygina og hin sjá spaugilegu hliðina á þessu. Þau ganga svo í það næstu vikur að hefna sín rækilega. Meðal annars sannfærði velskur samnemandi mig um að jakkinn hans væri úr kindagæru, sem er næstum trúverðugt, en svo sagðist hann hafa sjálfur húðflétt dýrið í manndómsvígslu. Ég kokgleypti þetta, því ég er kjáni með fordóma og hann þreyttist seint á að minna mig á það.
Lygalexía III: Ef þú ætlar að stunda svona grín er eins gott að þú takir því vel þegar þú ert sjálfur tekinn, annars ertu fífl.
Lygin um mörgæsakastarann lifði góðu lífi en var að lokum lögð í helgan stein. Við Engillinn höfðum verið í partíi og nýr vinur kom með okkur heim í lokabjór. Þegar talið barst að mörgæsunum stóð ég skyndilega upp og öskraði, með tárin í augunum, að ég saknaði Magga og vildi ekki tala um hann. Svo strunsaði ég út og skellti á eftir mér. Við steingleymdum að leiðrétta lygina og mörgum vikum seinna heyrðum við hann segja vini okkar að minnast ekki á mörgæsir við mig þegar ég væri fullur. Sem er reyndar ágætis regla.