– Getur ekki skaðað, segi ég.
Spaðinn glottir eyrnanna á milli og réttir mér jónuna. Þetta er fyrsta skipti sem ég prófa grænt. Ef maður ætlar að fara út í svona vitleysu er alveg eins gott að gera það með góðum vini, gaur sem maður treystir.
Ég dreg djúpt andann. Staðráðinn í að vera svalur reyni ég að halda reyknum inni jafn lengi og Spaðinn. Reyknum líst ekki á það, hann brýtur sér leið út og veldur hrikalegu hóstakasti. Spaðinn hlær að mér og sýnir mér aftur. Ég endurtek leikinn, er í þetta sinn hógværari og anda frá mér tímalega.
Víman er góð, allt öðruvísi en áhrif áfengis. Slakandi. Við látum jónuna ganga á milli okkar. Hann er ekki stórreykingarmaður en í samanburði við mig er hann Snoop Dogg reyki klæddur. Hann tekur inn þrefalt magn af reyk og finnur fyrir svona helmingi áhrifanna. Innan skamms erum við orðnir ákaflega afslappaðir og ég skil loksins af hverju mönnum finnst Family Guy fyndnir þættir.
Spaðinn er einn besti vinur minn, þótt við séum eins og svart og hvítt. Ég segi það ekki bara að því að ég lít út eins og óskabarn þriðja ríkisins og hann er svartur, með rætur að rekja til karabíska hafsins. Hann er töffari í húð og hár, ég meiri bókanörd. Hann er Lundúnagaur, nærist á stórborgarorkunni og ég er Hafnfirðingur, finnst asinn í miðborg Lundúna óþægilegur. Hann þarf varla að smella fingri til að komast á séns með stelpu, ég … tölum um það seinna.
Við kynntumst á fyrsta degi í náminu og höfum verið félagar síðan. Við getum rætt ýmislegt sem enginn annar í bekknum hefur áhuga á. Heilu kvöldstundirnar fara í pælingar um hverjir eru fimm bestu rappararnir eða hvaða Vin Diesel-mynd sé flottasta blandan af meðalgóðum leik og frábærum hasar. Það er minna um slíkt með hinum strákunum í bekknum, þeir telja flestir söngleik og rauðvín vera fullkomna kvöldstund.
Líklega var þetta örlítið of mikill reykur, svona í fyrsta sinn. Það að opna munninn er eins og að vera ekki hræddur þegar LÍN hefur óvænt samband, það er að segja ómögulegt. Sem er fínt, aldrei þessu vant er ég frábær í að hlusta og Spaðinn þarf að pústa.
Spaðinn og hinir svörtu krakkarnir í skólanum passa ekki beint inn í Sidcup. Hverfið var lengi þekkt sem höfuðvígi enskra þjóðernissinna. Margir á svæðinu vilja meina að England hafi toppað um það bil fimm mínútum áður en fyrstu innflytjendurnir komu til eyjarinnar. Svona gaurar sem kusu með Brexit af slæmu ástæðunum og átta sig ekki alveg á því af hverju nýlenduþjóðirnar vildu sleppa undan bresku krúnunni. Er ég að vinna með ósanngjarna steríótýpu og er það kaldhæðnislegt vegna þess að ég er að gagnrýna þessa menn fyrir að vera fordómafullir? Já.
En ég er útlendingur, ætti ég ekki að vera með allavega eina sögu af svona mönnum að hrópa á mig að drulla mér úr landi? Neibb, ég er hvítur hvítur þannig að ég verð aldrei fyrir barðinu á neinu, en hann lendir reglulega í því að fólk skrúfar niður rúður á bílum og hrópar á eftir honum „FOKK OFF NIGGER“. Sú staðreynd að hann er tveir metrar á hæð útskýrir kannski af hverju flestir gera það bara á ferð.
Það sagði mér enginn frá þessum áhrifum grass, hugsa ég á meðan ég virði fyrir mér dansandi stjörnur. Staður og stund hverfur, þetta er fallegt mynstur. Ætli það sé gluggi inn í eilífðina, handahófskennd mynstur sem birtist til að sýna mér heim sem ég get aðeins heimsótt í huganum.
Alveg rétt, það er verið að tala við mig.
Ég einbeiti mér að því sem Spaðinn er að segja. Hann útskýrir að hann hafi verið í myndatöku fyrr um daginn og ljósmyndarinn hafi spurt hvaða glæpamynd væri uppáhaldið hans og hvert væri draumahlutverkið hans í slíkri. Af hverju ætti viðkomandi að halda að hann elski glæpamyndir? Þú mátt giska þrisvar.
Málið með svona rasisma er að þegar hann birtist er hann bæði lúmskari og óþægilegri en fúkyrði frá fíflum. Spaðinn segir að gaurinn hafi ekki einu sinni meint þetta illa. En að ljósmyndarinn hafi bara gert ráð fyrir að Spaðinn vildi leika í glæpamyndum, því hann væri svartur, það var eins og kjaftshögg.
Ég skildi smá, bara agnarkorn, af þessari tilfinningu seinna. Áður en ég fór heim frá London bjó ég um tíma í hverfi þar sem ég var einn af sirka átta hvítum. Þegar þú lítur í kringum þig og sérð engan þinn líka ferðu sjálfkrafa í vörn. Það er bara óþægilegt, því miður. Eru þetta jafnar tilfinningar, nei. Þetta er eins og munurinn á pilsner og vodka og ég var að drekka pilsnerinn. En þetta gaf mér meiri samkennd með félaga mínum.
– Ertu með einhverja skoðun á þessu, segir Spaðinn að lokum. Mér að óvörum er munnurinn á mér farinn að virka. Ég þarf að velja orðin varlega, hér er tækifæri til að segja eitthvað viturt og kannski hjálpa vini. Ég hugsa vandlega um stöðuna, fer yfir hana í huganum og reyni að finna einhvern vinkil sem mun láta félaga mínum líða betur, án þess að gera á nokkurn hátt lítið úr tilfinningum hans. Ég segi:
– Á ég að vera að sjá stjörnumynstur dansa fyrir augunum á mér?
Spaðinn springur úr hlátri.
– Æ já, segir hann, ég gleymdi að segja þér. Það eru kristalar í þessu sem geta valdið mildum ofskynjunum. Steingleymdi að segja þér það. Alveg óvart.
Við hlæjum saman í myrkrinu og raunir dagsins hverfa inn í reyk og hlátur.