Örsögur úr ódýrri íbúð: Beðmál í bænum – Guð minn góður

Sjáðu fyrir þér ungan gaur, í meðallagi myndarlegan og skemmtilegan, nörd og íþróttafíkil. Hann hittir fólk, kynnist því og hefur gaman af. Reynir kannski full mikið að fá aðra til að hlægja en er með svo hvolpa orku sem fólk nýtur.

Sjáðu svo fyrir þér að í hvert sinn sem hann sjái stelpu sem honum finnst áhugaverð, gleymi hann hvernig eðlileg samskipti virka og bæti upp fyrir það með því að drekka burtu feimnina, vera með stæla og segja óviðeigandi brandara til að hljóma kúl. Hæ, ég heiti Ingimar, gaman að kynnast þér.

Ein af ástæðunum fyrir að mér finnst djamm jafn spennandi og raun ber vitni er að eftir þó nokkra bjóra get ég spjallað við spennandi stelpu án þess að fara í hnút. Ekki að ég sé feiminn dags daglega, þvert á móti. Það er bara ef ég er skotinn sem ég gleymi hvernig á að mynda setningar. Bakkus var þá til í að bjóða fram aðstoð sína, gegn vægu gjaldi að hans sögn.

Það er flöskudagur og við Spaðinn erum mættir í partí. Við þekkjum aðeins húsráðanda, ákváðum að mæta og erum í óðaönn að kynnast nýju fólki. Stemningin er lýsandi fyrir upphaf skólaárs. Allir á staðnum vilja ólmir eignast sem flesta nýja vini, þeir óöruggari í hópnum eru aðeins of vel klæddir og aðeins of ákafir í að fólk hlæi með sér. Á meðan virðist svala fólkið fljóta um í stemningunni og skemmtir sér fyrir vikið betur.

Þegar hlé verður á spjalli við Spaðann tek ég eftir stelpu, Skvísunni. Hún er svakalega sæt. Það sem meira er, hún heilsar mér og ég heilsa á móti. Þetta kemur ögn á óvart en svo man ég að ég er í glasi og þar með ekki feiminn. Takk Bakkus!

Hvað á ég að segja? Hún er fyrri til, spyr hvort silfurkrossinn minn sé merki um að ég sé trúaður. Svo er ekki, ég segi að hann hafi verið útskriftargjöf frá ömmu og snúist meira um fjölskyldutenginguna en Guð. Hún segir að það sé sætt, spyr mig svo hvað mér finnist um Guð, þetta samtal er óvænt í miðju leiklistarpartí.

Ég segist ekki vera viss með Guð. Hún spyr mig hvort ég sé til í að fara afsíðis ræða þetta nánar. Gæti þetta verið upphaf að ástarævintýri? Ætli samtalið fari úr krossi í koss og hver veit hvert svo?

Við Skvísan læsum okkur inni í stórum skáp og hún opnar sig um eigin trú og hvað henni finnist skrýtið að vera í háskóla þar sem enginn deilir henni. Bakkus hvíslar að mér að ljúga að ég skilji til að auka líkurnar á að þetta leiði að einhverju líkamlegu, ég ákveð að hlusta ekki, hann kallar mig aumingja.

Ég spyr hvað hún meini og hún lýsir því að hún hafi verið í söfnuði alla ævi, ekki þekkt neinn sem deildi ekki trúnni. Nú er hún í háskóla þar sem flestir eru ekki bara trúlausir heldur sjái ekki hverju þau missa af með því að þekkja ekki Guð. Samtalið verður sífellt flóknara, við ræðum eðli guðs og ástar hans á mannkyninu. Satt best að segja á ég ekki marga (neina) heittrúaða vini og þetta er forvitnileg innsýn í heim fólks sem ég er almennt ósammála og hef mikla fordóma gagnvart. Ekki það sem ég sá fyrir mér, en bestu hlutirnir eru það sjaldnast.

Að lokum fáum við nóg af þessu spjalli og förum út. Eins og sönnum vini sæmir kemur Spaðinn samstundis auga á mig. Hann fær stoltglampa í augun og brosir félaga-brosinu. Þetta er háþróuð líkamstjáning sem félagar beita þegar þeir halda að einhver afrek í kvennamálum hafi unnist. Fyrri félaginn brosir þá út í annað munnvikið, augun lokast um helming og hann lyftir höfðinu hægt til að sýna virðingu. Ef brosið er verðskuldað svarar seinni félaginn í sömu mynt en brosir aðeins breiðar og lyftir höfðinu örlítið hærra.

Ég hristi hins vegar höfuðið. Hann þarf ekki að segja orð, tjáir með púkalegu glotti: Gengur betur næst.

Við Skvísan spjöllum reglulega eftir þetta en úr því verður aldrei meira en léttvæg vinátta, hugsanlega vegna þess að Bakkus rukkaði fyrir þjónustu sína með því að láta mig gleyma því hvað hún hét. Tvisvar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s