Örsögur úr ódýrri íbúð: Hvað er klukkan?

Seint um kvöld í milljónaborg. Ég er á heimleið með tónlist í eyrunum en heyri einhvern öskra á mig. Hann vill vita hvað klukkan er. Ég hundsa hann og eyk gönguhraðann. Hann kallar aftur, hrópin færast nær.

Hugur minn flýgur af stað. Nýlega gekk ránsbylgja um hverfið. Tveir gaurar sem fóru alltaf eins að. Þeir spurðu fólk úti á götu hvað klukkan var. Fórnarlambið dró fram símann, sem þeir ýmist gripu og hlupu með á brott eða hótuðu viðkomandi þar til tækið og veski var afhent. Ein stelpa var svo óheppin að vera í flegnum bol þegar þeir gripu hana, þeir lykluðu á henni bringuna, örið var hrikalegt. Ferðalangurinn lenti í þeim en náði að stinga sér inn í búð og beið eftir að þeir færu. Það er engin búð nálægt mér, en ég er ekki tilbúinn að afhenda neitt.

Ég sný mér við og reyni að virðast sultuslakur á meðan ég tek heyrnatólin af mér. Hjartað hamast, það er enginn annar sjáanlegur. Hann er bara einn og hann er lágvaxinn, sem gefur mér smá kjark. En ég man að þó byssuglæpir eru sjaldgæfir í London en hnífaglæpir eru faraldur. Já og hann er líka með þessa stóru vasa á jakkanum, hvað sem er gæti verið í þeim.

Adrenalín tekur yfir alla hugsun. Það er einhver fífldirfska í mér. Ef ég þarf að segja að ég hafi verið rændur, ætla ég að segjast hafa barið frá mér.

Við horfumst í augu, ég kreppi hægri hnefann og spenni bakvöðvana. Kannski mun hann hugsa: Ó nei, þessi er greinilega fær um að gera nokkrar upphífingar, það sést á fallega mótuðum Latsimus Dorsi-vöðvunum (sem gaurinn sér væntanlega í gegnum peysuna og jakkan) best að taka ekki upp hnífinn. Þetta er ekki gott plan, en skárra en ekkert. Eins og dýr á sléttunni reyni ég að gera mig stóran, stend þráðbeinn á meðan ég lyfti vinstri hendinni. Án þess að rjúfa augnsambandið les ég á úrið.

-Hún er næstum tólf, félagi.

Hann vegur mig og metur. Mér líður eins og ég sé að stara í augu rándýrs. Andartökin líða, löturhægt. Bringan á honum lyftist og hik kemur á hann. Ég geri mig ennþá breiðari, kreppi hinn hnefann og læt hendurnar standa aðeins út frá líkamanum. Innra með mér öskrar rödd á mig að hlaupa, það tekur á að hundsa hana. Sama hvað gerist, mun ég ekki rjúfa augnsambandið.

Hver einasti vöðvi er spenntur, ef hann stekkur á mig mun ég annaðhvort reka upp stríðsöskur eða snúa mér við og reyna að komast undan, hef ekki hugmynd um hvort það verður. 

– Takk. Óþarfi að vera svona hræddur, fáviti, segir hann og snýr sér við.

Hjartað tekur lokasprett. Þetta var fáránleg áhætta.

 Ég stend grafkyrr og bíð eftir að hann fari fyrir hornið. Um leið og hann hverfur úr augsýn hleyp ég heim eins hratt og ég fætur toga, þótt ferðin sé stutt er ég lafmóður þegar dyrnar lokast á eftir mér. Það er eins og losni um stíflu því óttinn margfaldast um leið og ég sest niður. Tilfinningarnar, sem voru bældar niður í hita augnabliksins, heimta að eftir þeim sé tekið. Það tekur á að ná aftur stjórn á andadrættinum og hendur skjálfa um stund.

Ég hringi í Spaðann, segi honum hvað hafi gerst og að ég þurfi bara að heyra vinalega rödd. Hann róar mig, hrósar mér fyrir viðbrögðin og segir mér að fara að sofa.

Eftir þetta ég lít ég betur í kringum mig að nóttu til og hætti alveg að stytta mér leið í gegnum óupplýsta garða. Á sama tíma finnst mér eins og ég væri aðeins öruggari með mig, ég lenti í hættu og brást vel við. Svoleiðis sjálfstraust er ekki hægt að kaupa, það verður bara til við að gera eitthvað hættulegt og ganga heill frá því.

Svo er líka mögulegt að gaurinn hafi í alvörunni viljað vita hvað klukkan væri og ekki skilið neitt í hvers vegna ég var svona tilbúinn í slagsmál.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s