Örsögur úr ódýrri íbúð: Mikki Refur

Það er partí og ég er að nálgast fötlun af drykkju. Einn bjór verður tveir sem verða níu og skyndilega man ég ekki hvað tungumál eru. Vinir mínir gufuðu upp fyrir löngu og fólkið í kringum mig er leiðinlegt. Falleg stelpa lítur á mig og svipurinn segir mér hversu fáránlega drukkinn og ógeðslegur ég er.

Við þessar aðstæður er aðeins eitt í stöðunni, drulla sér í bólið og kvíða djammviskubits morgundagsins. Ég kveð engan og legg af stað heim. Loftið er kyrrt og svalandi. Íslendingurinn í mér er alltaf jafn hissa þegar það er ekki rok eða í það minnsta gola. Ég tel mig muna í hvaða átt húsið mitt er, þótt ég sé ekki alveg viss.

Eftir fimm mínútna göngu rek ég augun í forljóta blokk sem mig minnir að sé nálægt heimili mínu. Ástæða óvissunnar er að flest öll hús á svæðinu eru eins og teikningarnar að þeim hafi verið ljósritaðar. Þessi bygging er kannski við hliðiná heimili mínu en gæti alveg eins verið í næsta hverfi. Þar að auki er blokkin ekki í gönguleiðinni minni. Til að breyta um stefnu þarf ég að viðurkenna fyrir sjálfum mér að hafa ekki ratað heim.

Báðar starfandi heilasellurnar hefja hörkurifrildi. Þær segja hvor aðra vera drukkna og hafa áttvísi á við höfuðlausa hænu. Sú sem kannast við blokkina sigrar, ég vel götu sem stefnir að henni og held göngunni áfram.

Annað hvert skref er til hliðar, sem lengir ferðalagið. Eftir þó nokkra göngu sé ég hræðilega sjón. Á miðjum veginum, á þessari fáförnu leið, er refur. Hann er steindauður, hefur augljóslega orðið fyrir eða líklegast undir bíl. Heilasellurnar kveðja, nú eru tilfinningarnar við stjórnvölin. Sterkasta tilfinningin er sorg, óstjórnaleg og yfirþyrmandi sorg yfir að hann Mikki muni aldrei aftur veiða dýr í almenningsgarðinum.

Ég tek hann upp, legg höfuð hans á öxlina á mér og klappa honum blíðlega á meðan ég flyt hann niður keimlíkar göturnar. Hvers konar skepna gat keyrt á þennan nýja vin minn?

Ég segi honum að hann hafi líklega átt langa ævi, eigi betra skilið og sé nú kominn í borgina eilífu þar sem hver einasta ruslatunna er full af hálfelduðu kjöti og allir kettir flýi þegar mótar fyrir rauðu skottinu á Mikka. Að maðurinn á bílnum hafi verið skepna, sem skildi ekki að refir ættu líka skilið virðingu. Ég lofa honum viðeigandi jarðarför.

Bíll keyrir framhjá, hægir á sér og stoppar aðeins fyrir framan mig. Vonandi verður mér hrósað fyrir þetta góðverk.

Bílstjórinn öskrar út um gluggan:

– HVER ANDSKOTINN ER AÐ ÞÉR?! ÞÚ HELDUR Á DAUÐUM REF!

Ég svara eins og frekur krakki:

– ÉG ÆTLA AÐ GRAFA HANN!

– ÞETTA ER DAUÐUR REFUR!     

– HANN Á BETRA SKILIÐ!

Bílstjórinn orgar úr hlátri þegar hann setur í gír og brunar í burtu. En gargið hafði þá aukaverkun að vekja nokkrar heilasellur.

Ein þeirra stýrir augljóslega ekki siðferði og spyr mig hvort það ætti ekki að nýta hræið í eitthvað. Hvernig ætli refir smakkist? Eða kannski væri hægt safna nokkrum og sauma feldina í pels. Til þess þyrfti ég að læra fatasaum en í núverandi ástandi hljómar það frekar einfalt.

Önnur heilasella minnir mig á að refir í stórborgum eru, smekklega orðað, viðbjóðslegir. Þetta er heilasellan sem stýrir almennri skynsemi, hún er ekki vön að vera með læti en henni hryllir réttilega við að ég sé að ganga heim með rebba í fanginu. Væntanlega er ég að safna að mér aragrúa sjúkdóma og lyktin er ekki geðsleg. Hún sannfærir mig um að láta þetta mál niður falla. Ég get samt ekki bara kastað Mikka frá mér eftir svona gott spjall, það væri rangt.

Ég finn álitlegt tré í almenningsgarði, tíni nokkur blóm og kem honum fyrir, dapur inn að beini. Vonandi finna aðrir refir hann og votta honum virðingu sína. Áður en ég kveð óska ég honum góðrar veiðar í borginni eilífu og bið hann að minnast mín þar á meðan hann japlar á nýveiddum andarungum.

Ég held áfram inn í nóttina og finn heimili mitt, sem var vissulega hjá blokkinni ljótu alveg eins og mig minnti. Þar bíður svefn og stórfurðulegt djammviskubit.

Nokkrum tímum seinna kemur væntanlega morgunfúll bæjarstarfsmaður og spyr sig hvers vegna það sé dauður refur undir tré í garðinum, með framloppurnar í kross, haldandi um lítinn blómakrans. Það er að segja ef krákurnar finna Mikka ekki fyrst.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s