Örsögur úr ódýrri íbúð: Tekjuskerðing

Stofan er grenið mitt. Kosturinn við að vera í minnsta herberginu er að borga lægstu leiguna, gallinn er að í herberginu er ekki einu sinni pláss fyrir auka stól. Einbreitt rúmmið þekur meira en helming gólfflatarins, bókahrúgur og hrútalyktandi þvottakarfa restina. Þess vegna er ég oftast í stofunni, ef ekki með nefið ofan í námsbók þá liggjandi eins og skata á sófanum að horfa á fótbolta.

Eini gallinn við stofuna er ónotuð stálsúla á miðju gólfi og svo dökkir myglublettir í loftinu. Þennan dag sem aðra hundsa ég það á meðan ég blunda á sófanum. Ég get ekki staðhæft að ég hrjóti, en það er líklegt. Útidyrahurðin opnast og Töffarann öskrar á mig.

– Haltu kjafti og lofaðu mér að þú farir aldrei í klippingu til nema.

Ég hrekk við. Líður eins og þegar mamma notar allt nafnið mitt. Hvað gerðist og af hverju er ég sekur?

Töffarinn kemur inn í stofu og mér léttir, þessi óvænta gremja er líklega ekki mér að kenna. Hún hefur breyst síðan í morgun. Glæsilega hárið hefur verið klippt stutt, meira að segja mjög stutt. Hún kastar jakkanum í mig og kallar mig öllum illum nöfnum, ég get ekki annað hlegið að þessari sjóðandi reiði.

Hún er harðari en hún lítur út fyrir að vera og stutta klippingin dregur fram þá hlið. Ég prófa að hrósa henni, segi henni að hún sé algjör nagli svona. Það virkar ekki, fólkið í næsta hverfi heyrir hana öskra á mig:

– Þú skilur ekki, hálfvitinn þinn, þetta mun kosta mig nánast allar tekjur og ég enda á götunni! Með síða hárið gat ég tekið inn mörg hundruð pund á einu kvöldi en helvítis perrarnir eru ekki hrifnir af trukkalessum!

– Ég skil, lýg ég, en af hverju í baðstu um stutt hár?

Bingó! Ég fann einu orðin sem gátu reitt hana til enn meiri reiði. 

– Ég gerði það ekki!!! Helvítis andskotans nemaskíturinn klúðraði og var að reyna að laga og laga og laga og laga og svo var þetta allt í einu svona!

Ég á allt eins von á að hún byrji að berja mig með súlunni svo ég lyfti höndum og hætti að hlæja. Best að spyrja ekki hvað hún var að pæla að fara í nemaklippingu fyrst hárið skiptir svona miklu í vinnunni.

Seinna átta ég mig á klikkun þess sem hún er að segja. Töffarinn er heit, sjóðandi heit. Hún vinnur fyrir sér með útliti sínu, með því að selja perrum aðgang að því og láta eins og athygli þeirra sé ekki ógeðfeld. Þetta er skítugt starf en þeir sem endast í því geta haft heilmiklar tekjur. Tekjurnar eru merkilega stöðugar, auðveldlega 150–250 þúsund íslenskar á viku, meira eða minna allt undir borðið.

Ekki þannig undir borðið. Bara svart og sykurlaust. Hún gekk aldrei lengra en að dansa á perrunum. Eins og aðrar fatafellur með þau mörk leit hún niður á þær sem voru til í að ganga lengra í bak- og hóteherbergjum.

En vegna þess að hárið styttist var hún komin neðst í röðina hjá perrunum. Af því að það er ekki nóg að vera flott, þú þarft að vera flott á nákvæmlega þann hátt sem perra í slæmu hjónabandi dreymir um. Kynlífsiðnaðurinn er ekki bara ógeðslegur, hann er stórskrýtinn.

Samt er eitthvað sem passar ekki alveg. Hún ætlaði í upphafi vetrar að hætta að vinna, var ákaflega montin af því hvað hún var vel stæð. Hún átti sparnað og það er ekki eins og hún eyði fúlgum fjár í mat og leigu. Ég bara verð að spyrja:

– Þú átt mörg þúsund pund í krukku inni hjá þér, segi ég, það hlýtur að geta brúað bilið þangað til hárið vex aftur, ekki satt?

Reiðin rennur af henni á andartaki og hún verður skömmustuleg.

– Ja sko, ég átti mörg þúsund pund en ég er búin að eyða nánast öllu.

– Búin að brenna þig í gegnum árslaun meðalmanns á tveim mánuðum? Hvernig?

– Ég verð gjafmild þegar ég er full. Í þessari vinnu þarf maður eiginlega alltaf að vera fullur, eða helst aðeins meira en það. Annars fer maður að hugsa um það sem maður er að gera. Áfengi og dóp er því miður ekki ókeypis.

Ég spurði hana ekki aftur út í fjármál. Hárið óx aftur, eins og það gerir hjá flestum, en í millitíðinni vann hún ansi litrík störf til eiga fyrir leigunni.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s