Ég, Ferðalangurinn og Forsetinn erum komnir á stjá og höfum takmarkaða hugmynd um hvað sé á dagskrá. Þarna er krá, við erum í miðbænum og það er alveg nógu gott plan í bili.
Við byrjuðum snemma og fengum okkur nokkra bjóra í fyrir-partíi. Síðan fengum við okkur nokkra bjóra í lestinni og svo nokkra bjóra á göngunni frá lestarstöðinni á skemmtistaðinn. Ólíkt sumum í hópnum var ég ekki tilbúinn að nota ruslatunnu í lest sem salerni. Það voru mistök.
Ég finn salerni skemmtistaðarins á mettíma. Um mig hríslast hrein sæluvíma þegar ég sé hvíta pissuskálina og litla gula kubbinn sem reynir veikum mætti að halda lykt staðarins smekklegri.
Við hliðina á mér stendur maður í hrikalega töff fjólubláum pleðurjakka. Er í lagi að hrósa jakkanum? Jú, samkvæmt einni mikilvægustu reglu pissuskála er í lagi að hrósa jakka, ekki úri. Þar að auki erum við drukknir, þannig að félagslegir þröskuldar eiga ekki við. Ég segi honum að jakkinn sé töff, hann þakkar. Er áfengi ekki sniðugt?
Við störum á vegginn, finnum lítið til að spjalla um. Hvor okkar ætli verði fljótari að tæma? Hið íslenska keppnisskap streymir um mig og öll einbeiting fer í að ljúka mér af eins hratt og mögulegt er.
Sigur! Þvagblaðran mín er skilvirkari og kraftmeiri en blaðra Pleðurmannsins, sem hlýtur að gera mig að meiri manni. Keppninni er lokið, hvað er rökrétt næsta skref?
Nú, að hvetja næsta mann áfram, það skiptir næstum jafn miklu máli að vera með og að vinna. Næstum, sama hvað tómir frasar um að gott silfur sé gulli betra segja. Íþróttaandinn kemur yfir mig og ég hrópa:
– Þetta að koma, hann er að ná að endasprettinum! Koma svo!
Pleðurmaðurinn reynir að halda niðri hlátrinum, sem heppnast ekki.
– Þetta er ótrúlegur kraftur, hann gæti verið að detta í met! Við höfum ekki séð annað eins hérna í mörg herrans ár!!!
Þar sem hann hristist allur af hlátri endar vökvinn um alla veggi, lýsanda til miklar gremju.
– Nákvæmni! Þetta er alveg að verða búið! Haltu fókus, maður! Haltu fókus og kláraðu málið! Hann er á barmi sögubókanna! ÞVÍLÍKUR SIGUR! ÞETTA VAR ÓTRÚLEG FRAMMISTAÐA!
Hann lýkur keppni, þvær sér um hendurnar og þakkar mér fyrir. Næsta manni í röðinni að skálunum finnst þetta svo fyndið að þegar ég ætla út heimtar hann eins lýsingu og svo sá þriðji líka.
– Hér er komið að næsta riðli, á vellinum eru keppendur, vel vökvaðir og hressir. Við fyrstu skál er herra þröngar buxur, sem hefur hitað upp með tveim stellum og vodkaskoti …
Í fimm mínútur lýsi ég mönnum í bókstaflegri pissukeppni, með ákafa sem Gummi Ben væri stoltur af, eins og ég sé í beinni útsendingu frá Ölympíuleikunum í þvaglosi. Áfengi er greinilega sniðugt.
Þegar þetta er komið gott geng ég út. Þar er Pleðurmaðurinn að spjalla við Ferðalanginn. Þeir þekktust ekki fyrir fimm mínútum en eru núna eins og æskuvinir. Ég blanda mér í talið og hrósa aftur jakkanum. Hann spyr mig hvort ég vilji ekki prófa hann, sem ég þigg með þökkum og lána minn eigin í skiptum.
Pleðurjakkinn er allt of þröngur, sérstaklega um upphandleggina sem gleður mig, en mér finnst jakkinn fullkomna mig. Já, hann er ögn fáránlegur en hann vekur athygli og ég get grínast með hann það sem eftir lifir kvölds. Enginn dregur mig inn í skáp til að ræða dýpri tilfinningar sem jakkar standa fyrir, en það hefði svo sem ekki komið á óvart. Ég ætti kannski að kaupa mér svona flík, verða einn af þessum gaurum sem er í aðeins og fínum jakka fyrir aðstæðum og setur upp smá yfirlætissvip.
Það líður að lokun og Pleðurmaðurinn finnur mig fyrir utan. Hann heimtar að við skiptum aftur í eigin flíkur. Mér finnst eins og ég sé að afhenda hluta af sjálfum mér. Vonbrigðin eru algjör. Þetta hefði getað verið upphafið að frábærri vináttu við jakkann en í staðinn stend ég í lok kvölds í sama leiðinlega svarta jakkanum og ferðin hófst í.
Ferðalangurinn og Forsetinn gera sig tilbúna í að halda kvöldinu áfram í nálægu spilavíti. Þegar Forsetinn ætlar að leggja af stað sér hann að ég er sestur á gangstéttina og stari stjarfur út í loftið. Pirringurinn yfir jakkanum kom af stað tilfinningaflóði innra með mér. Ég er bæði sár og reiður, ekki út í Pleðurmanninn heldur út í sjálfan mig. Ég er ekki einu sinni viss af hverju ég er reiður, ég er það bara. Áfengi er kannski ekki sniðugt.
Forsetinn spyr mig hvort ég vilji ekki fara heim með kunningjum hans í næturstrætó. Hann kann á mér lagið og sannfærir mig um að þetta sé allt í lagi, reynir að hughreysta mig. Hann minnir mig á að við höfum allir gert eitthvað svona. Ég samþykki það og hann kemur mér á heimleið. Þeir halda á vit ævintýranna með nokkrum nýjum félögum. Eitthvað ævintýri hefur það verið.
Morguninn eftir vaknar fólk heima í misslæmu ástandi . Ég er með svíðandi djammviskubit. Eftir að atburðir kvöldsins hafa verið rifjaðir upp kemur upp milljón króna spurning. Hvar er Ferðalangurinn?
Í símanum eru engin skilaboð frá honum. London er ekki Reykjavík og það er ekki alveg jafn sjálfsagt að skila sér heim, láttu mig þekkja það.
Þegar við erum alveg að fara að hringja áhyggjufull símtöl hingað og þangað er bankað. Ég opna og léttir við að sjá Ferðalanginn, en hann segir aldrei þessu vant ekki orð. Í augunum er kunnulegur glampi. Hann var að gera eitthvað virkilega heimskulegt, sem honum finnst fyndið. Hann réttir mér hvítan miða, smá glottandi og smá skömmustulegur.
Miðinn er kvittun fyrir áttatíu þúsund króna nótt á hóteli. Áfengi er alveg klárlega ekki sniðugt.
Ferðalangurinn segir að drykkjan hafi skollið á honum eins og veggur stuttu eftir að þeir hafi mætt í spilavítið og hann hafi látið sig hverfa. Um leið og hann var kominn út mundi hann að hann var í borg sem hann þekkti ekki, símalaus og á síðustu metrunum. Reyndi hann að finna leigubíl eða lestarstöð? Reyndi hann að ganga heim? Nei.
Hann fann lítið hostel og reyndi að tékka sig inn. Þau voru ekki til í að taka við drukknum Íslendingi klukkan 4 um nótt. Síðan hvenær eru hostel svona snobbuð?
Hann lét ekki höfnunina á sig fá heldur gekk inn á fjögurra stjörnu hótel eins og hann ætti staðinn. Þar var tekið á móti honum eins og stórstjörnu, hann fékk herbergi og morgunmat með. Hann þurfti reyndar að vera búin að koma sér út fyrir hádegi, þannig að klukkutímaverðið hefur verið um tíuþúsund kall.
Við verðum væntanlega aldrei sammála hvor okkar var vitlausari þegar hann ákvað að ganga heim í London. Hann mun líklega aldrei fyrirgefa mér fyrir að benda á að leigubíll hefði kostað að hámarki fimmtán þúsund krónur.