Örsögur úr ódýrri íbúð: Slæmar sögur

Íslendingar, saman í skóla í erlendri stórborg, auðvitað höldum við hópinn. Í bjartsýniskasti mætti kalla okkur lítið samfélag. Hópurinn stækkar og minnkar til skiptis, fólk innan hans byrjar og hættir saman, verða bestu vinir og svarnir óvinir, vinna, djamma og blóta þynnku saman.

Einn sunnudag er ég á leið inn í miðborg með hluta hópsins, meðal annars Englinum og Boltastráknum.  Við Engillinn erum búin að þekkjast í mörg ár en við erum nýbúin að kynnast Boltastráknum. Hann er á annarri braut í skólanum og var meðal annars í efnilegri rapphljómsveitt áður en fyrsta rappbólan sprakk. Skemmtilegur gaur, með frábæran skotfót í fótbolta og eini maðurinn undir fimmtugu sem er raunverulega töff með yfirvaraskegg.

Kvöldið áður var óvænt og langt djamm. Núna erum við skítþunn í lestinni umkringd Bretum. Ég man ekki hver byrjaði, líklega ég, en við erum að skiptast á okkar verstu ælu- og þynnkusögum. Þetta er álíka geðslegt og það hljómar.

Sögurnar eru blanda af því sem við höfum sjálf gert og sögur af vinum. Ég segi frá því að vakna við hliðina á stelpu í útilegu sem hafði einhvern veginn náð að æla, bókstaflega, upp fyrir haus og breytt hárinu á sér í harðan hjálm með ælulími.  Mín saga var ekki subbulegust og við skemmtum okkur konunglega við að toppa hvert annað. Saga um að stoppa samfarir í miðjum klíðum til að fara að æla tekur sigurbikarinn.

Það er líka eitthvað skemmtilegt við að vera að tala um svona í miðjum lestarvagni þar sem enginn skilur okkur. Englendingarnir líta okkur hornauga í hvert sinn sem einhver klárar sögu og við springum úr hlátri. Þau eru kannski að velta fyrir sér hvað sé í gangi en skilja sem betur fer ekkert í hrognamálinu okkar.

Þegar við nálgumst miðborgina komum við Boltastrákurinn auga á tröllvaxinn fótboltavöll. Ég spyr hann hvort hann þekki völlinn og hann neitar, en dettur nokkur lið í hug. Okkur langar að skella okkur á leik. Hann spyr mig hvort hann eigi að spyrja gaurinn í næsta sæti og ég hvet hann til þess. Hann segir við manninn, sem kom inn rétt á eftir okkur og hefur setið pollrólegur við hlið okkar síðan:

– Excuse me mate, you know which team plays at that stadium?

– Veistu ég er bara ekki viss, svarar farþeginn á óaðfinnanlegri íslensku.

Við springum úr hlátri og verðum vandræðaleg, höldum kjafti það sem eftir er ferðarinnar. Aldrei gleyma, sama hvar þú ert í heiminum, ef þú heldur að þú sért að tala á einkamáli er einhver einn sem skilur íslensku í kringum þig. Það er fokking lögmál.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s