Örsögur úr ódýrri íbúð: Kentucky Fried Hafnfirðingur

Hluti af náminu var að taka eina skiptinámsönn í Bandaríkjunum. Við Leikstjórinn tókum hana saman í Centre-háskólanum í smábænum Danville, Kentucky. Það var meira menningarsjokk að koma til Danville en London.

Bærinn er á stærð við Hafnarfjörð en samt bara með ein umferðarljós en átjan kirkjum. Í London er maður maur, í Danville var þessi þægilega smábæjartilfinning, að maður gæti þekkt alla á svæðinu ef maður bara byggi þarna í nokkur ár.

Þegar ég fletti Danville upp á netinu kom í ljós að bærinn var þurr til 2011. Mér fannst skrýtið að veðrið hefði breyst og velti fyrir mér hvort hlýnun jarðar væri orsökin. Í ljós kom að þurr þýddi að það var ólöglegt að selja áfengi þar, til 2011! Hann var reyndar síðasti staðurinn í fimm hundruð kílómetra radíus til að afnema áfengisbannið. Á öllum vegum inn í og út úr bænum, rétt við bæjarmörkin, hafði staðið áfengisbúð með lúgu fyrir ferðalanga. Þegar ég flutti til bæjarins var búið loka þeim en húsin stóðu enn þá við veginn, minnisvarði um þrotaða stefnu stjórnvalda til að bæta hegðun íbúa með boðum og bönnum.

Við Leikstjórinn erum saman í bekk. Hann er fyndinn gaur, frábær leikari og ofan á það góður tónlistarmaður. Svo er hann sjarmakóngur, en fannst ögn vandræðalegt að hreimurinn hans minnti kvenfólk á staðnum á persónu í rómantískri gamanmynd. Mikið.

Innan bæjarins voru í raun tvö samfélög, nánast alveg aðskilin. Verkamannabærinn og háskólinn. Nokkrar verksmiðjur héldu hjólum atvinnulífsins gangandi og þeir sem unnu í kringum þær höfðu ekki mikið álit á háskólanum og nemendum sem sátu þar alla daga með nefið ofan í bók. Centre er  risastór, 25–30 byggingar, nokkur íþróttasvæði og þúsundir nemenda. Miðað við stað í Suðurríkjunum var hann mjög frjálslyndur, en bara miðað við það. Ég sá marga gráta þarna þegar Obama var endurkjörinn, fæstir gleðitárum.

Partíin voru eins og í bíómynd, nánar tiltekið einhverri háskóla djammmynd þar sem allir drekka úr rauðum plastglösum og enda á þakinu. Ástæðan fyrir plastglösunum? Skólareglurnar bönnuðu mjög skýrt að nemar væru með opnar áfengisflöskur á skólalóðinni, en það stóð ekkert um bjór í glasi.

Við Leikstjórinn uppgötvuðum að Bandaríska suðrið féll okkur vel að skapi (og ef það er einhver frá Alabama eða Tennessee að lesa þetta, ég veit að Kentucky er ekki suðurríki frá ykkar bæjardyrum séð en íste er samt þjóðardrykkurinn, börn lesa frekar Biblíuna en Harry Potter og það er ekkert mál að finna djúpsteikt súkkulaðistykki!) Það var eitthvað við andrúmsloftið, það var svo afslappað samanborið við London. Það var ekki bara að maður gæti tekið því rólega dags daglega, endalaust sólskinið og stórar lóðir við öll hús beinlínis heimtuðu að maður slakaði á og nyti augnabliksins.

Við bjuggum hjá breskum kennara sem starfaði við skólann og þar lærði ég allt sem ég kann um gestrisni. Besta hefðin hans var að á hverjum sunnudegi var þriggja rétta kvöldverður með mismunandi gestum og nýju rauðvíni. Óskrifaða reglan var að enginn leit á símann og enginn stóð upp fyrr en eftir að minnsta kosti þrjá tíma. Yndislegar kvöldstundir, suðræn gestrisni með bresku ívafi.

Eitt kvöldið um miðja önn varð minnisstæðara en önnur. Við Leikstjórinn fórum í fámennt partí hjá nýjum félaga, drukkum viskí og ég spilaði FIFA við strákana.  Planið var að fá sér bara einn drykk og halda svo heim. Þeir urðu reyndar aðeins fleiri, í Kentucky er viskíið gott.

Það er meira en nóg af keppnisskapi á staðnum, við öskrum eins og vitleysingar þegar við skorum og blótum enn þá hærra þegar keppinauturinn gerir það. Þess á milli hótum við hver öðrum litríku ofbeldi og útskýrum háum rómi af hverju markið sem við fengum á okkur var augljóslega svindl. Karlmenn að vingast, það verður stundum furðulegt.

Þegar kvöldið er að verða að nótt og ég er orðinn hás af ópum ákveðum við Leikstjórinn að halda heim. Það er þéttskipuð dagskrá daginn eftir. Liverpool á leik við Norwich í fyrramálið, fátt skemmtilegra en að vakna snemma, hella upp á kaffi og fylgjast og  horfa á Suarez skora þrennu. Leikstjórinn er að fara að syngja með kirkjukór um hádegisbil, ég er búinn að lofa að mæta, og svo ætlum við í fjallgöngu. Allt eru þetta fínustu rök fyrir að fara heim að sofa.

Við erum hálfnaðir yfir skólalóðina þegar ég tek eftir stelpu sem hafði áður tekið eftir mér. Þetta er ekki tilviljun, við erum búin að vera að skiptast á vandræðalegum daðurskilaboðum dögum saman og ég er satt best að segja bálskotinn í henni. Allt eru þetta fínustu rök fyrir að bíða með að fara heim að sofa.

Leikstjórinn lætur sig hverfa, eftir að hann sendir mér snöggt félagabros.

Við byrjum að rölta um í tunglsljósinu, ræðum daginn og veginn og fleira klisjukennt. Mig langar ekkert að sitja á einhverjum bekk svo ég sting upp á að við prílum upp í tré í staðinn. Þar komum við okkur fyrir, eins og í klisjukenndri bíómynd, kelum vandræðalega og hegðum okkur eftir bestu getu eins og unglingar í bíómynd sem ég myndi ekki nenna að horfa á. Eftir meira en klukkutíma af spjalli og keli kveðjumst við, bæði rjóð í kinnum og gælandi við draumóra sem munu aldrei rætast.

Þá er komin tími á heimferð, í þetta sinn án truflana. Er ég í alvöru að spyrja mig að þessu eina ferðina enn: Hvar er ég?

Byggingarnar eru ókunnar og það er lítið um lestarstöðvar sem hægt er að nota sem leiðavísa. Litlar götur verða mjög svipaðar hver annarri í myrkri. Ég ákveð að ganga í sömu átt í tíu mínútur og ef ekkert kunnuglegt kemur í ljós sný ég við.

Á meðan ég rölti niður götuna fara hlauparar framhjá mér. Spandexklæddir, sjálflýsandi, númeraðir hlauparar í tugatali. Stundum hópar, stundum einn eða tveir. Þetta er spes. Það voru einhverjir svipaðir á hlaupum fyrr um daginn og mig rámar í að það sé einhvers konar keppni í gangi, svona „hljóp í sólarhring í hundrað þúsund króna hlaupagalla með vinum mínum og safnaði fimmtán þúsund krónum fyrir langveik börn“-dæmi.

Eftir smástund fer ég að fíla þetta. Þetta er eins og Reykjavíkurmaraþonið, bara miklu lengra og án áhorfenda. Einhver ætti nú að taka að sér að hvetja hlauparana áfram. En hér er enginn nema ég. Kannski ég stofni stuðningssveitina Einn Íslendingur.

 „Koma svo“ og „vel gert!“ hrópar Einn Íslendingur á hlaupara sem fara fram úr mér. Reyndar á íslensku sem er kannski ekki sniðugt. Þetta er ekki beint Silfurskeiðar-stemning, en betra en ekkert.

Tíu mínúturnar eru liðnar fyrir korteri, þetta svæði er ekki á skólalóðinni og ekki leiðin heim. Best að finna umferðarljósin aftur og fara í næstu átt. Viðsnúningurinn hefur þann kost að ég fer nú á móti hlaupaumferðinni, auðveldara að hvetja þannig.

Tilraunir til að gefa fimmur fara úrskeiðis, þessir hlauparar virðast ekki kunna að meta stuðning Eins Íslendings. Mætti halda að það sé munur á að vera hvattur áfram af áhorfendum Reykjavíkurmaraþonsins og fullum gaur í myrkri. Ég læt engan bilbug á mér finna, gleðst bara helmingi meira yfir þeim fáu hlaupurum sem fíla peppið.

Nokkrum mínútum seinna mætir hvítur sendiferðabíll, stoppar og út stekkur fólk. Þau eru brjáluð. Leiðtoginn er froðufellandi. Hann frussar yfir mig allan og forljót sólgleraugu, sem hann er með í bandi um hálsinn, skoppa á bringunni. Hann orgar að borist hafi tilkynning um fyllibyttu sem væri að vanvirða hlaupið og þá sem hefðu skipulagt það, sérstaklega hann sjálfan, aðalskipuleggjara hlaupsins, sem bæri ábyrgð á þessu öllu.

Hér er ágætis lífsregla, ef einhver fer að tala um að þú sért að vanvirða hann er það gott merki um að viðkomandi sé fáviti.

Þótt Aðalskipuleggjandinn sé mér ekki að skapi biðst ég afsökunar, segist vera langhlaupari sjálfur (hálfsatt, hljóp eitt maraþon en læt ekki fylgja að síðan hafi ég ekki farið í meira en fimm kílómetra göngutúr) og muni hvað það var geggjað þegar fólk var að hvetja mig áfram í maraþoninu. Það sé ekkert mál að hætta, ég hafi tekið vitlausa beygju og sé á leið heim.

Aðalskipuleggjandinn tvíeflist við þessa játningu, öskrar aftur að ég sé að skemma fyrir öllum, önnur afsökunarbeiðni hjálpar ekki. Ég lofa að hætta og segi að mig langi bara að komast heim til mín. Hann spyr mig hvort ég geti beðið í fimm mínútur, sem er ekkert mál. Til hvers, hugsa ég samt, ætti hann ekki bara að vilja losna við mig sem fyrst?

Þau ræða málið við bílinn og Aðalskipuleggjandinn dregur fram símann.  Eftir að hann skellir á biður hann mig að bíða rólegan, sem er ekkert mál. Mig langar bara að leysa þetta og komast heim.

Örskömmu síðar blikka blá ljós og þrír lögreglubílar skransa fyrir framan mig. Út úr þeim stökkva fimm risavaxnar, þungvopnaðar suðurríkjalöggur með háa hatta og glansandi barmmerki. Ég er ekki einu sinni hræddur, bara furðu lostinn.

Stærsta löggan, Tröllalögga, tekur sér stöðu beint fyrir framan mig. Hann hlýtur að hafa æft þessa stellingu. Hann krossleggur arma, stendur svo gleytt að hægt væri að keyra snjósleða á milli lappanna og reiðisvipurinn tjáir særða, ofþroskaða réttlætiskennd. Tröllalögga veit greinilega innst inni að ef hann er ekki á varðbergi munu Bjarnabófarnir leggja Danville í rúst. Fyrir honum er það að hrópa á hlauparana augljóslega jafn alvarlegt og að skjóta bæjarstjórann, allir glæpir eru ógn við friðinn.

Ég man allt í einu hverja einustu sögu sem ég hef lesið og heyrt um Bandaríska lögreglumenn og barsmíðar á þeim sem eru með mótþróa. Þetta er ekki lengur sniðugt.

Ég hugga mig við að ég sé hvítur, þeir þurfa líklega tilefni til að lúskra á mér. Þeir eru allir með mikinn suðurríkjahreim. Veistu hvað suðurríkjabúar þola minnst af öllu? Fólk að norðan sem heldur að það sé betra en þeir. Ímyndaðu þér viðhorfið sem íslenskt sveitafólk hefur til sérfræðinga af sunnan. Margfaldaðu það með 200 árum af árekstrum, einu töpuðu borgarastríði og því að norðurríkjabúar líta oftast niður á þá fyrir sunnan. Það veldur ákveðnum, skiljanlegum, pirringi. Ég er ekki einu sinni Kani, hvað þá norðurríkjabúi, en hreimurinn er augljóslega ekki úr suðrinu. Þarna ertu, lafandi ótti, velkominn til leiks.

Tröllalögga fer með sömu rullu og Aðalskipuleggjarinn. Ég reyni að útskýra mig og afsaka: Að ég sé nýfluttur hingað, á heimleið og skilji ekki alveg hvað sé í gangi. Tröllalöggan spyr hvort ég sé í skólanum, ég segi já. Reiðin margfaldast. Hann spyr mig hvort ég hafi verið að drekka, ég segist hafa fengið mér nokkur viskískot en það séu margir tímar síðan. Reiðin nær einhvern veginn nýjum hæðum, Hulk væri stoltur. Hann æpir á mig:

– Ertu að játa að þú sért í glasi?!

– Já.

Hann grípur mig, ekki blíðlega, og snýr mér við. Handjárn læsast um úlnliðina á mér. Hann les mér réttindi mín.  Já, nákvæmlega eins og í öllum löggumyndum sem þú hefur séð.

– Fyrir hvað er verið að handataka mig?

– Að vera ölvaður á almannafæri!

Er það glæpur hérna? Þeir skella mér inn í aftursæti eins bílsins og Tröllalöggan segir út í loftið:

– Við leyfum ykkur skólakrökkunum að komast upp með hvað sem er inni á skólalóðinni, af hverju getið þið ekki haldið ykkur þar?

Fyrir þrem tímum var ég í FIFA, fyrir klukkutíma í sleik og er núna kominn upp í lögreglubíl.  Líklega er óþarfi að óttast barsmíðar, held ég allavega.

Þeir hljóta að hafa mikilvægari málum að sinna en fullum háskólakrökkum. En þeir fengu símhringingu um mig. Vegna þess að ég er utan skólalóðarinnar geta þeir ekki horft fram hjá því. Í þeirra augum er ég utanbæjarmaður sem taldi sig hafinn yfir lögin á staðnum. Það er auðvitað engin afsökun að hafa ekki þekkt regluna. Mig grunar að hún sé svo sjálfsögð að engum kæmi til hugar að segja aðkomumanninum frá henni. Ég er formlega kominn í djúpan skít.

Á lögreglustöðinni eru járnin losuð, þau skilja eftir rauð för. Það er eitthvað óþægilegt við löggurnar, eins og þær séu að hlæja að mér.

Það er komið að skráningu í kerfið. Þau taka af mér veskið, úrið og símann. Konan við skrifborðið grandskoðar skilríkin mín og spyr mig ítrekað hvort þau séu fölsuð. Hvað ætli maður í smábæ í Kentucky hefði að gera við fölsuð íslensk skilríki?

Þau hringja upp í skóla og eftir stutt samtal er mér tilkynnt að það sé enginn Ingimar á nemendaskrá, sem er vissulega óvænt. Þau segja að best væri að játa núna ef ég er að ljúga um að vera nemandi. Ég hristi hausinn, segist vera skiptinemi og búi hjá einum kennaranum. Það vekur ekki hrifningu.

Að lokum er mér hent inn í skærbleikan (það er ekki hægt að skálda sumt), vel lýstan klefa sem er kannski fimm fermetrar og gluggalaus. Í klefanum er kamar, vaskur og tveggja metra hár, áfengisdauður durgur

Á íslensku má alltaf finna svar, hún orðar stórt og smátt sem er og var, og hún á orð sem geyma gleði og sorg. Hún á hins vegar ekki orð sem lýsir týpunni á gólfinu, svo ég nota það enska: maðurinn er augljóslega hillbilly, jafnvel þótt hann liggi steinrotaður á andlitinu. Veðurbarið smetti, varanlega sólbrenndur hnakki, í drullugri, köflóttri skyrtu og kúrekastígvélum. Hann náði meira að sega að hrjóta með afslöppuðum suðurríkjahreim.

Yfir mig kemur mótþróaþrjóska, ég er ákveðinn að sofna ekki. Til að halda mér vakandi raula ég You‘ll Never Walk Alone, þjóðsöng Liverpool-manna, aftur og aftur. Ég hef aldrei fundið neina hjálp né huggun í bæn en það er eitthvað við orðin í laginu sem hughreystir mig.

– When you walk through the storm / hold your head up high / and don‘t be afraid of the dark. / At the end of the storm there‘s a golden sky/ and the sweet silver song of the lark. / Walk on through the wind, walk on through the rain / though your dreams be tossed and thrown. / Walk on, walk on with hope in your heart / and you‘ll never walk alone / you‘ll never walk alone.

Eftir langa stund hrekk ég við, hef augljóslega dottað. Í dyrunum stendur vörður sem spyr hvort mig vanti eitthvað.

– Bara upplýsingar, hvað þarf ég að vera hérna lengi?

– Reglan er tólf tímar, tíu eftir. Viltu ekki vatn?

– Jú takk.

Hann kemur með glas og bakka af einhverju sem mætti kannski lýsa sem mat, ef kröfur um næringu og bragð eru engar. En hungur er besta kryddið svo ég háma matinn í mig og finnst hann næstum því góður. Þegar hann skellir á eftir sér hrekkur herra Hillbillý upp. Hann á í miklu basli með að setjast upp, nær að detta sitjandi áður en hann hallar sér upp að vegnum og lítur í kringum sig með furðusvip. Hann kannast við sig. Hann blótar hátt, þetta er líklega ekki hans fyrsta nótt hérna.

Þessi náungi er ekki beint traustvekjandi. Ég passa að sýna engin óttamerki, sný mér að honum og hef annan hnefann krepptan við síðuna. En brátt kemur í ljós að það er ekkert að óttast, þótt hann sé búinn að sofa síðan ég kom er hann enn þá drukknari en dauðagámurinn á Þjóðhátíð. Hann á í miklum erfiðleikum með að sitja uppréttur við vegginn og er sífellt við það að detta á andlitið.

Hann segir mér óspurður að þetta sé meira helvítis vesenið, hann hafi verið tekinn fyrir ölvunarakstur í þriðja sinn og muni missa prófið. Hann segist ekki fatta þessar ölvunarakstursreglur, hvernig á hann eiginlega að koma bílnum heim ef hann má ekki keyra? Ég þakka fyrir að vera ekki vitlausari en ég er, sem er reyndar nógu vitlaus til að koma mér í fangelsi í eina nótt.

 Hann fær að hringja og sannfærir systur sína um að koma að sækja sig. Það krefst töluverðar vinnu, hún virðist ekki í skapi til að koma um miðja nótt að sækja hann í fangelsi, skrýtið.

Að lokum kemur lögga og fylgir honum út, ég sit eftir einn.

Þá er kominn tími til að breyta um aðferðir. Einn vörðurinn virðist vinalegur, þegar hann snýr aftur að ná í matarbakkan reyni ég að spjalla við hann. Ég leik meinlausan og slakan gaur, spyr um vinnuna hans og hvernig hversdagurinn sé hjá honum, spyr hvernig ölvunarreglurnar séu í Danville. Hann segir mér að íbúar megi ekki svo mikið sem tala óskýrt út af drykkju, þá eigi að handtaka þá. Ég passa að þræta ekki neitt né minnast á málið mitt, tek undir allt sem hann segir og flissa þegar hann kemur með lélegan brandara.

Stælarnir sem Tröllalöggan og Aðalskipuleggjarinn voru með eru ekki til staðar hjá verðinum. Hann virðist bara vera fínn gaur að vinna vinnuna sína. Hann segist verða að halda mér í tíu tíma, en blikkar mig þegar að hann segir það. Tímatalan er orðin lægri en áðan, litlu sigrarnir.

Þrjóskan hverfur hægt og bítandi og ég steinsofna upp við vegginn.

Hátt bank vekur mig, það er verið að hleypa mér út. Eigum mínum er skilað, þær virðast eitthvað fátæklegar: dauður sími, lyklar og veski. Var ekki peningur í veskinu í gærkvöldi? Ég læt vera að vera með einhvern kjaft. Þeir spyrja mig um heimilisfang fyrir sektina, sú hugmynd kviknar að ljúga til um það en skynsemin fær að ráða för, ég reyni ekkert. Klukkan á veggnum er níu, það eru í mesta lagi sjö tímar síðan ég var handtekinn. Ég brosi og reyni að tjá verðinum þakklæti. Hann kinkar kolli og kollegi hans býður far í bæinn. Ég afþakka, búinn að fá nóg af löggum í bili.

Ég kem út í sólina og upplifi tvær andstæðar tilfinningar. Annars vegar ótrúlega gleði með að vera laus. Hins vegar reiði út í allt og alla, skólann, lögguna, þennan bæ, sjálfan mig og allt annað sem mér dettur í hug. 

Eftir langa göngu kem ég heim og útskýri atburði næturinnar fyrir fólkinu sem leyfði mér að búa hjá sér. Þau eru vægast sagt brjáluð og segja ýmislegt, en mig grunar að ég hafi verið svo aumkunarverður að þau fóru fljótt að vorkenna mér. Reglur um partístand eru hertar, skiljanlega. Þegar við kvöddumst nokkrum mánuðum seinna, gáfu þau okkur Leikstjóranum fallegar heimasaumaðar svuntur. Á hans var gítar, á minni lykill. Þegar Leikstjórinn spurði hvers vegna ég fengi lykil svaraði húsráðandi skellihlæjandi.

– Því hann var læstur inni.

Talandi um Leikstjórann. Hann kom heim úr kirkjunni morguninn eftir handtökuna, í sjokki. Þegar hann sér mig segir hann:

– Þú munt ekki trúa hvað gerðist á tónleikunum.

– Þú munt ekki trúa hvað gerðist hjá mér, svara ég.

– Maður fékk hjartaáfall í miðri athöfn, það er í lagi með hann. Á meðan sjúkraliðarnir unnu var kórinn látinn syngja sálma og hann var borinn út við söng og klapp allra kirkjugesta.

– Ég var handtekinn.

Við störum hvor á annan og svo á nákvæmlega sama tíma, á þennan hátt sem bara sannir vinir geta gert, springum við úr hlátri. Við vorum báðir harðir á að saga hins væri miklu bilaðari.

Ég sendi tölvupósta til kennaranna í Englandi, svörin voru furðu skilningsrík, mér leið betur eftir lesturinn.

Samt skammaðist ég mín og ákvað að hafa ekki hátt um þetta, segja bara Leikstjóranum og Englinum. Hálftíma seinna áttaði ég mig á að ég sagði Leikstjóranum og Englinum frá einhverju sem átti að vera einkamál. Einmitt þegar ég hugsaði það kallar Leikstjórinn á mig úr herberginu sínu, hann var á Skype með nokkrum samnemendum okkar. Einn þeirra sagði glottandi:

– Hvað segirðu, eitthvað sem þú þarft að segja frá?

Þetta var ekki lengi að spyrjast út og stríðnin var mikil, en skemmtileg. Þegar við hittumst aftur eftir skiptinámið leið næstum heil mínúta þangað til einhver heimtaði söguna. En það er staðreynd, að ef þú gerir eitthvað sem þú skammast þín fyrir er best að vinna úr því með hlátri og góðum vinum. Þetta þurfti að benda mér á, nokkrum sinnum.

Ég hugsaði mikið um það sem gerðist næstu vikur, mánuði og jafnvel ár. Þegar þetta gerðist langaði mig að kenna gjörsamlega öllum öðrum um, meðvitað og ómeðvitað. Hvort sem það var skólinn, kennarinn sem ég gisti hjá eða reglan að þú mættir ekki sjást ölvaður á almannafæri. En þegar á leið gerði ég mér grein fyrir að þetta var einum manni að kenna, hann er ljóshærður Hafnfirðingur sem ég hitti daglega, í speglinum.

Ég var að prófa mig áfram í lífinu, hversu mikið ég komst upp með. En ef þú stígur alltaf á línuna kemur að því að dómarinn flauti á þig. Ég áttaði mig líka á að ég var með ákveðin markmið í lífinu og það að vera alltaf fullasti gaurinn var ekki eitt þeirra.  Ég var ekki gaur sem ég var stoltur af, né á braut sem mér líkaði við. Ein afleiðing var að ég fór að taka það að skrifa og lyfta fastari tökum, fattaði hversu miklu máli það skipti mig. Ekki láta þér detta í hug að breytingin hafi orðið á einni nóttu, þetta voru bara fræ.

En áður en það allt gat gerst þurfti ég að svara kærunni og borga sektina.

Hún barst í pósti nokkrum vikum eftir handtökuna. Ég íhugaði að mótmæla, að reyna að fá hana allavega mildaða, en var bent á að dómari hefði vald til að henda mér úr landi. Þannig að ég fór niður í dómshús og borgaði sektina, sem var 200 dalir. Ég fékk kvittun, sem fer einn dag upp á vegg hjá mér.

Dalirnir 200 voru sundurliðaðir á litla miðanaum. Sektin fyrir glæpinn sjálfan ekki nema fjörutíu dalir. Svo voru hlutir eins og handtökugjald, notkun á lögregluaðstöðu, maturinn ógeðslegi og tími réttarkerfisins og svo framvegis. Það er ekki frítt að gista fangageymslur, en ég hef farið á hótel sem voru verri og dýrari.

Þar sem ég stend í sólinni fyrir utan dómshúsið og les litla miðann get ég ekki annað en skellt upp úr. Neðst á kvittuninn er eitt atriði sem passar ekki inn. Í ljós kemur að í Danville er mikill metnaður fyrir ákveðinni stofnun, sem ég hef sjálfur notað víðsvegar um heim og mér þykir vænt um. Stofnun sem passaði mig dögum saman í Hafnarfirði þegar ég var krakki. Ein mikilvægasta menningarstofnun í siðmenntuðu samfélagi.

Í Danville fer prósent af öllum opinberum gjöldum til þessarar stofnunar. Það síðasta á listanum er tveggja dollara bókasafnsgjald.

Ég vil ekki skilja við Bandaríkin á neikvæðum nótum. Fyrir utan eitt kvöld var ferðin þangað frábær og fólkið yndislegt.

Á þakkargjörðarhátíðinni fékk ég heimboð, frá vini mínum Kananum, til Michigan. Þegar við keyrðum í gegnum 8 Mile, Detroit, var Eminem settur í botn og við öskruðum hvert einasta orð við Lose Yourself, skælbrosandi. Hvítari hef ég aldrei verið.

Þakkargjörð gengur í garð. Mamma Kani fór á fætur klukkan fjögur um morguninn til að setja kalkúninn í ofninn. Hví? Jú, það varð að borða áður en háskólaleikurinn byrjaði í hádeginu. Fjölskylda að mínu skapi.

Í hálfleik reis Pabbi Kani úr sófanum. Hann horfði á mig drykklanga stund og sagði:

– Kani, náðu í byssurnar.

Ég skildi ekkert hvað var í gangi. Við fórum út á svalir og mér var rétt byssa í fyrsta sinn. Þeim fannst bara ekki hægt að ég hefði aldrei skotið. Ég fann nákvæmlega sömu spennuna og þegar ég kveiki í flugeldi.

Heimilið var í úthverfi smábæjar, margir kílómetrar í næsta veg eða hús. Hver þarf skotsvæði þegar góður garður er á staðnum? Við komum okkur fyrir á svölunum, Kani kenndi mér undirstöðuatriðin á meðan Pabbi Kani hengdi upp skotmörk á trén í bakgarðinum.

Ég hélt að þetta yrði eins og í bíómynd, ég tæki bara riffilin upp og baunaði niður skotmörk. Svo var ekki, áður en ég fékk að svo mikið sem snerta byssuna var langur öryggisfyrirlestur. Maður fattar ekki hversu þungur riffill er fyrr en maður stendur með slíkan í höndunum eða hve óhugnanleg valdatilfinning það er að þurfa bara að gera ein mistök til að senda einhvern óvart inn í eilífðina. Né hversu hrikalega gaman er að taka í gikkinn, heyra hvellinn glymja og sjá risagat birtast á (réttu!) tré!

Þarna stóð ég umkringdur yndislegu fólki, með magafylli af kalkún og vopn í hendi. Þeim fannst ekki mikið til skothæfni minnar koma en ég sá strax hvernig menn fá dellu fyrir skitteríi. Þetta snertir einhverja taug í innsta eðli manns, taug sem er jafn frumstæð og hún er heillandi.

Svo æpti Mamma Kani á okkur að koma aftur inn, við máttum ekki missa af mínútu af þessu risatapi sem var í gangi á skjánum. Já og afgangar borða sig ekki sjálfir.

Það er margt skrýtið við Bandaríkin en drottinn minn hvað þau eru skemmtileg. Einhvern tímann mun ég hósta upp hugrekki til að spyrja sendiráðið hvort smámál eins og handtaka komi í veg fyrir nýja ferð þangað.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s