Örsögur úr ódýrri íbúð: Beðmál í bænum – Senjoritan

Vikan var löng, þú varst að háskæla á leiksýningu og ert búinn á því. Skynsemin segir þér að þú ættir að fara heim að sofa. Þú ert í lestinni á leiðinni heim þegar þú færð SMS frá vini þínum, Boltastráknum, þar sem hann spyr hvort þú sért til í djamm. Hvert er svarið? Ef það er „nei“ ertu snjallari en ég. Góð hvíld sem mér veitti ekki af eða góðar stundir? Svarið er augljóst, best að pæla ekkert í ritgerðinni sem ég þyrfti helst að byrja á á morgun.

Metro-barinn, hverfiskráin okkar, er einstakur staður. Á frábæran og fáránlegan hátt. Í fyrsta lagi er þar versta eldhús á Englandi og sama hvenær maður mætir, sama hversu margir eru inni, er megn skúringasápulykt á staðnum. Á karlaklósetinu er sjálfsali sem selur ýmsan misþarfan varning, allt frá blöðrum til smokka og blárra pilla.

Barinn er beint á móti íbúðinni minni. Þegar ég flutti inn hélt ég að það yrði mikill kostur að vera beint á móti Metro. Svo reyndist ekki vera, hávær tónlist og skvaldur reykingamanna fer ekki vel með námi. Svo ekki sé talað um hve auðvelt er að rölta yfir götuna í einn bjór. Það síðastnefnda er kannski kostur og galli, kostur núna og galli í miðjum ritgerðarskrifum.

Hópurinn sem stundar staðinn er fjölbreyttur. Annars vegar heimamenn, ýmist nýorðnir (eða bara ekki orðnir) lögdrykkja eða miðaldra kallar sem voru þarna hvert einasta kvöld. Hins vegar við skólakrakkarnir. Það fer eftir ölvunarstigi hversu mikið þessir hópar tala saman. Stundum halda þeir sig hvor í sínu horni en ef allir eru orðnir hífaðir verður ólíklegasta fólk (tímabundið) bestu vinir.

Við Boltastrákurinn mætum örfáum sekúndum áður en hætt er að hleypa inn. Dyraverðirnir eru í góðu skapi, einu sinni er allt fyrst. Þetta er eins og að sjá djamm-halastjörnu, nóttin fer að stað. Við þurfum að ryðjast gegnum mannmergð til að komast að barnum, þar sem við hefjum verk kvöldsins, að breyta seðlunum okkar í klink, bjóra og góðar minningar.

Ég lék í lítilli sýningu um morguninn. Útlit persónunnar átti að minna á þýskan klámmyndaleikstjóra. Vissulega er ég búinn að skipta um föt en ég hafði ekki tíma til að raka á mig. Á efri vörinni er risavaxið og brilljantínað yfirvaraskegg, sem eingöngu drykkfelldur afi væri stoltur af. Það hefur áhrif á viðbögð fólks við mér.

Áðurnefndir miðaldra fastagestir koma hver af fætur öðrum og lýsa hrifningu sinni. Gamall Skoti króar mig af og rekur fyrir mig sorgarsögu um að konan hans hafi látið hann velja milli þess að vera með henni og að vera með skegg. Hann segist stoltur af því að sjá ungan mann halda í skegghefðirnar og varar mig við konum. Ég er ekki frá að það glitti í titrandi tár á meðan hann segir mér frá mottunni sem var.  

Stelpurnar skiptast hins vegar í tvo hópa. Flestar fela ekki hversu hallærislegt og lummó þeim finnst þetta. Þær eru sem sagt með góðan smekk. En ein og ein, mér að óvörum, virðist fíla þetta. Brasilísk stelpa sem ég hef aldrei þorað að reyna við segir hreint út að þetta minni sig á pabba hennar og henni þyki það geggjað. Þú mátt klára Freud-brandarann, ég ætla ekki að mata þig.

Svo virðist vera að ef þú ferð að djamma í stelpuleit muntu enga finna en ef þú ferð bara og skemmtir þér verður þú allt í einu aðlaðandi. Það er klisja, en hún stenst óformlega skoðun. Eins og margt sem tengist djammi er lykilatriðið að ofhugsa ekki, bara njóta augnabliksins.

Ástæðan er augljós. Ef þú ert í örvæntingarfullri kvennaleit sést það langar leiðir. Af hverju ætti nokkur að vilja sofa hjá þér ef það eina sem þú hefur áhuga á er að komast sem allra fyrst í rúmið? Ef, á hinn bóginn, þú reynir bara að skemmta þér og öðrum, þá er einfaldlega betra að vera í kringum þig og þú verður aðlaðandi. Í versta falli er mjög gaman hjá þér, í besta falli leiðir kvöldið á stað sem þú gast ekki séð fyrir.

Ég er svo fáránlegur í útliti að mér finnst hugmyndin um að nokkur vilji fara heim með mér bara fyndin pæling og reyni því ekki að vera með viðreynslur og töffaraskap, skemmti mér bara vel og þá vill fólk vera í kringum mig.ykumgangast Eitt leiðir af öðru og allt í einu er verið að loka og ég og Senjoritan erum komin á einlægt og gott trúnó.

Senjoritan er spænskur skiptinemi, svona vinur vina týpa. Við höfum kannski spjallað tvisvar fyrir þetta en erum núna að smella svona líka duglega saman. Fyrst lélegur brandari sem bæði hlæja að, svo kjánaleg spurning sem leyfir hinum aðilanum að opna sig aðeins og úr verður einlægt samtal um eitthvað sem hvorugt ætlaði að tala um. Allan tímann skjóta báðir inn litlum skrítlum og sögum af sjálfum sér. Eins og að vera í góðri spunaæfingu, ekkert úthugsað, bara verið að bregðast við í núinu á leið sem enginn sá fyrir.

Við Boltastrákurinn og Senjoritan röltum heim til mín í eftirpartí. Flestir nemar myndu þurfa að afsaka ástandið á stofunni, það er hefð við þessar kringumstæður. Ég bý hins vegar með Lávarðinum og hann hefur ekki brugðist mér, stofan er eins og hjá hágæða snyrtipinna. Þau eru bæði hrifin af því hversu snyrtilegt er hjá mér, ég steingleymi að minnast á að Lávarðurinn eigi allan heiðurinn.

Við komum okkur fyrir, þau tvö í stóra sófanum og ég í þeim litla og um leið og við setjumst koma strippararnir heim úr vinnunni. Þær eru vel drukknar og bjóða sér í eftirpartíið. Þær ákveða að leika vængmenn fyrir mig. Þær setjast, leggjast nánast, á sófann minn og eru ekkert nema almennilegheitin. Þær hrósa mér hástert, daðra og þykjast hvísla einhverju að mér.  Eru þær viljandi að reyna að gera Senjorituna öfundsjúka? Já. Eru svona leikir ljótir? Já. Er mér drullusama á þessum tímapunkti? Já.

Boltastrákurinn kveður og sendir mér félagabros, stelpurnar fara inn til sín. Það síðasta sem þær segja við okkur er „skemmtið ykkur vel“ og blikka Senjorituna. Ég færi mig yfir á sófann til hennar, búinn að gleyma mottunni og við byrjum að kyssast. Hún ákveður að gista, enda löng ganga heim til hennar. Þú mátt fylla í eyðurnar.

Lifðum við hamingjusöm til æviloka? Nei, ekki einu sinni til mánaðamóta.

Við hittumst öðru hverju næstu vikur og áttum okkur fljótlega á að við pössum saman eins og olía og vatn. Sjarmi fyrsta kvöldsins hverfur ásamt mottunni en líklega var hún ekki lykilatriði. Fljótlega hættir hún alveg að svara mér þegar ég reyni að hafa samband. Engin sms, engin svör á facebook, bara tómið. Hún vill augljóslega ekki tala við mig.

Það að hún hætti bara að svara fokkar í höfðinu á mér og ég fer að ofhugsa það í döðlur. Ég fer að ímynda mér ýmsar ástæður fyrir að hún vilji ekki bara slíta þessu, sú eina sem mér finnst passa er að hún treysti mér ekki til að taka því eins og fullorðinn maður. Hvort sem það er rétt eða ekki, finnst mér það sárt.

Ég sé hana næst í partíi hjá vinafólki, þar sem ég er með strippurunum. Ég vil ekki vera ágengur en bið Töffarann um að fara og spyrja hana af hverju hún hafi hætt að svara mér. Legg áherslu á að ég sé ekki að reyna koma einhverju aftur af stað en langi að vita ástæðuna, kannski til að gera betur næst.

Töffarinn snýr aftur, mjög vandræðaleg.

Ég spyr hvað sé málið.

– Hún vill ekki hitta þig.

– Ég náði því fyrir löngu, hví?

– Ja, henni fannst þú bara svo svakalega leiðinlegur.

Áts.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s