Örsögur úr ódýrri íbúð: Bara eitt glas enn …

– Gaur! Fáðu þér bara einn bjór í viðbót, segir Boltastrákurinn við mig.

– Ég á flug í fyrramálið!

– Bara einn!

– Allt í lagi, bara einn.

Það þarf ekki mikinn félagslegan þrýsting til að sannfæra mig. Hvað þá á svona góðum degi. Vorönn í háskólanum lokið, við félagarnir saman í Lundúnablíðunni að fagna árinu sem var og ræða árið sem verður. Í fyrramálið er svo flug til Danmerkur til að slaka á með frændfólki og njóta lífsins.

Svona er stutta útgáfan af því sem gerist næst: Bjór, annar bjór, þriðji bjór, já ég er til í partí, skemmtilegt í partíi, bjór, leigubíll á bensínstöð til að kaupa meiri bjór, dansað í eftirpartíi, minntist ég á bjór og svo að lokum langur göngutúr í morgunsólinni heim.

Ég þarf að ná lest eftir klukkutíma til að mæta tímanlega á flugvöllinn. Ég ákveð að blunda stutt, henda svo í tösku og fara í sturtu og þá er ég góður. Ég stilli klukkuna og loka augunum.

Þremur tímum seinna hrekk ég upp. Fokk. Flugið er eftir tvo tíma, hinum megin í borginni. Hvaða möguleikar eru í boði?

Það er í raun bara um eitt að velja. Ef ég næ lestinni héðan eftir tíu mínútur, splæsi í hraðlest út á völl og er heppinn mun ég komast þangað kannski tuttugu mínútum fyrir flug. Þetta er langsótt en það er von. Ég treð tveimur sokkapörum, nokkrum bolum og passanum mínum í bakpoka og hleyp af stað.

Prófaðu að taka sprett með bakpoka, það er ekki gaman. Enginn maður hefur nokkurn tímann verið kúl á hlaupum með bakpoka. Á þessari stundu hef ég hef bara ekki tíma til að pæla í misheppnuðum töffaraskap eða sjálfvirðingu. Þrátt fyrir dúndrandi hausverk og skoppandi bakpoka set ég persónulegt met í kílómetrahlaupi.

 Ég kem á lestarstöðina í Sidcup móður og másandi en get fagnað fyrsta sigri dagsins, það eru ekki nema nokkrar sekúndur í næstu lest. Í henni fer ég yfir stöðuna í huganum, ekki í síðasta sinn. Það er smá von og ég er ekki tilbúinn að hringja og útskýra að ég komi ekki í heimsókn til frændfólksins vegna þess að ég svaf yfir mig. Hvað þá að ástæðan fyrir því sé að ég hafi ákveðið að fá mér bara einn bjór í viðbót.

Fyrir eitthvert kraftaverk er ekki ein einasta töf. Lestin stoppar í miðbænum, hálftíma frá heimahögunum, og ég tek næsta sprett niður í neðanjarðarlestakerfið. Þar þarf ég að ná einni tengilest og svo hraðlestinni. Ský áfengislyktar eltir mig í gegnum stöðina en lánið leikur aftur við mig, mín bíður neðanjarðarlest og hún brunar af stað um leið og ég stíg um borð.

Alvarlegar spurningar vakna þegar ég kem í lestina, fyrst og fremst: Er mig að dreyma?

Í vagninum er heill herskari af ofurhetjum. Bláklæddur Kafteinn Ameríka ræðir við Superman, tveir Deadpoolar flissa að eigin fyndni og heill hópur af X-mönnum er að hnakkrífast um hvaða X-men mynd sé verst.

Þetta er of mikið fyrir mig í núverandi ástandi svo ég sný mér við. Hinum megin í vagninum eru um það bil tuttugu Þjóðverjar á öllum aldri í skærgulum fótboltatreyjum Borussia Dortmund. Það væri kannski fínt að vakna núna. Nei annars, þá er ég búin að missa af fluginu.

Svona í alvöru talað, hvað er í gangi? Er undirmeðvitundin að hrekkja mig? Hvað segir það um mig að ef ég þarf að sjá ofsjónir birtist myndasögupersónur og fótboltatreyjur. Það skemmtilegasta við lestakerfið er að maður veit aldrei hvort maður rekist á hóp manna í strumpabúningum eða gamlan prest að boða heimsendi. Sama hver þú ert og hvert þú ert að fara í London, endarðu líklega í neðanjarðarlest, það þarf enga vökudrauma til þess að sjá sýnir hér.

Það hlýtur að vera rökrétt skýring, eins og til dæmis að í dag eru tveir stórir viðburðir í London. Myndasöguhátíðin London-Con og úrslitaleikur Meistaradeildarinnar í fótbolta, þar sem Dortmund mætir Bayern München. Ég ætlaði einmitt að horfa á leikinn með frænda í kvöld, í Danmörku. Það er eitthvað við líkindi þessara hópa sem er áhugavert, efni í ritgerð. Kannski gæti ég …

Áður en ég sú hugsun klárast stoppar lestin og ég tek næsta hlaup, upp að hraðlestinni.

Það kostar um það bil allan peninginn sem ég hafði áætlað fyrir ferðina að kaupa mér miða í hraðlestina. Það er samt skárra að fara blankur í flug en að fara ekki í flug. Ég kem á Stansted, langversta flugvöll borgarinnar, þrátt fyrir harða samkeppni um þann titil. Ópersónulegur, ofvaxinn og illa skipulagður. Sjáðu fyrir þér þrefalt stærri útgáfu af Kefölavíkurvelli með miklu leiðinlegra starfsfólki.

Ég lít á upplýsingaspjaldið. LOKAKALL stendur stórum, rauðum stöfum.

Fyrsta viðbragð er vantrú, það getur ekki verið að þetta klúðrist úr þessu. Kannski get ég kallað fram einhvern ómennskan sjarma og sannfært starfsmann Ryan Air um að gefa mér miða í næsta flug. Ef þú hefur flogið með Ryan Air veistu hversu bjartsýnt það er að halda að ég finni samvinnuþýðan þjónustufulltrúa. En fyrst ég er kominn þetta langt verð ég að reyna að klára dæmið. Í versta falli geng ég út með skottið á milli lappanna.

Ég tékka mig inn með miðavél. Næsta kraftaverk gerist, tollskoðun tekur enga stund. Þegar vörðurinn sér flugmiðan minn bendir hann niður næsta gang og hrópar á mig að hlaupa!

Lokaspretturinn, ég dýfi mér á milli búða, úrillra ferðamanna á fimmta kaffibolla og pirraðra starfsmanna. Svona átta sinnum er ég næstum búinn að hlaupa niður saklausan ferðalang, svitaperlur spretta fram á enninu og ég er farinn að ofanda þegar brottfararhliðið kemur í ljós í fjarska.

Ég get ég ekki annað en hlegið þegar ég stansa og halla mér að frískandi svölum vegg.

Milli þess sem ég næ andanum eftir mestu hlaup mín í mörg ár rennur upp fyrir mér að ég gleymdi einni breytu í jöfnunni. Já já, það var komið lokakall í vélina en flugið er með Ryan Air. Eftir allan hamaganginn þarf ég að bíða í röð í þrjú korter eftir að komast um borð í vélina.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s