Á síðasta ári í háskóla er auðvelt að ofmetast. Maður hefur gert helling, telur sig vera með hlutina á hreinu og heldur að maður geti tekist á við hvað sem er. Þegar fer að glitta í raunveruleikann utan skólans byrja síðustu sýningarnar. Þær skipta auðvitað máli fyrir einkunnir en í leiklistarskóla hafa leikritin sem sett eru upp undir lokin annars konar vægi. Nemar bjóða umboðsmönnum á þær til að reyna að hrífa þá og komast í bækurnar þeirra. Slíkt skiptir ansi miklu fyrir feril á sviðinu í London. Lávarðurinn er að frumsýna á morgun, hann vonast til að nokkrir umbar mæti og er gjörsamlega að fara á taugum.
Stressið nær hámarki um kvöldmatarleytið þegar hann læsir sig inni í herbergi. Ég er í sannleika sagt feginn, hann er búinn að vera óþolandi, tuðar stanslaust yfir leikstjóranum milli þess sem hann útskýrir hversu taugaveiklaður hann er. Fullkomnunarárátta fer ekki saman við að vera í stóru verki með leikstjóra sem þú treystir ekki. Það sem hann þarf meira en nokkuð annað er góður nætursvefn. Stelpurnar eru í vinnunni þannig að það ætti ekki að vera mikið vandamál.
Ég er kominn undir sæng þegar ég heyri þær koma heim. Reyndar heyrir öll gatan þær koma heim. Þær eru að rífast, hátt og ljótt. Hljómar eins og Töffarinn hafi gert eitthvað sem særði Rósina en ég er ekki öruggur með það.
Rósin er brjáluð, sem gerir Töffarann brjálaða. Þú veist rifrildið sem þú lendir í með einhverjum sem þú elskar, sem er svo ljótt að þið viljið helst gleyma því daginn eftir, rifrildið sem þið verðið samt að tala um af því að sum orð er ekki hægt að taka til baka og ef sambandið á að ganga þurfa báðir aðilar að virkilega að gera upp. Þetta er það rifrildi, bókstaflega á spítti.
Þetta á eftir að trufla nætursvefninn minn en mig langar ekkert að blanda mér í þetta, myndi væntanlega bara gera illt verra. Hvern fjandann ætti ég að segja?
Næsta klukkutímann fara þær í hringi. Töffarinn reynir að róa Rósina, sem verður reiðari við það, þangað til Töffarinn tryllist og Rósin reynir að róa hana, sem gerir Töffarann þeim mun reiðari þangað til Rósin brjálast og svo framvegis. Í hvert sinn sem önnur þeirra missir sig verða öskrin hærri og orðin ljótari. Klukkan rúmlega eitt ber Lávarðurinn að dyrum hjá mér.
– Ingimar! hvæsir hann í gegnum hurðina, ég er bara of stressaður! Ég get þetta ekki! Ég trúi þessu ekki! Kvöldið fyrir frumsýningu! Þú verður að gera eitthvað!
Hann skellir herbergishurðinni sinni og pirringur minn beinist allur að honum. Ástandið er sem sagt ólíðandi og ég á að redda því einhvern veginn. Ég hugsa ósanngjarnt helvítis aumingi, ef þetta er svona mikið mál geturðu sjálfur séð um það. En þetta er svo sem rétt hjá honum, þetta getur ekki gengið mikið lengur. Með þessu áframhaldi hringja nágrannarnir á lögregluna.
Á meðan ég klæði mig og reyni að búa til einhvers konar plan öskrar Rósin:
– Ég er þá farin!
Útidyrahurðinn skellur svo glymur um allt húsið. Í herberginu þeirra situr Töffarinn á rúminu, hágrátandi. Hún kippir sér ekki upp við að ég setjist hjá henni, þvert á móti hallar hún sér upp að mér. Töffarinn segist ekki skilja hvað hafi gerst. Rósin hafi brjálast þegar hún sá Töffarann dansa á einum perranum. Töffarinn segist ætla að flytja út, þetta gangi ekki lengur og ólíkt Rósinni eigi hún bakland í London sem hún geti treyst á. Töffarinn ætlar á annan strippstað, hún hefur ekki áhyggjur af að Rósin þéni ekki nóg, perrarnir elski sakleysislegt útlit hennar. Töffarinn segir ekki orð um það hvað hún villgera, Rósin er henni efst í huga.
Ég segi lítið, hvað gæti ég svo sem sagt. Konan sem Töffarinn elskar er væntanlega að reyna að finna sér samastað á götum Sidcup og Töffarinn kennir sjálfri sér um. Sidcup er ekki það hættulegur staður en þetta er samt London, maður sefur ekki rótt vitandi af vini, hvað þá ástvini, á götunni.
Regnið ber á rúðunni. Ég lít upp og mér dauðbregður. Rósin stendur úti á svölum og starir inn um gluggann. Niður hana alla renna regndropar og tár í bland við þá, þunn skyrtan er klístruð við hana. Dökkt hárið rammar inn náfölt andlitið í daufri birtunni. Einhvers staðar fyrir ofan hana logar ljós sem varpar skuggum yfir andlitið, enginn skuggi er dýpri en þeir sem eru í kringum augun á henni. Augun sjást varla fyrir utan örsmáa glampa á augasteinunum. Hendur hennar hvíla á glugganum. Þrátt fyrir myrkrið sést í fjölda skurða á framhandleggjunum og úr þeim rennur dökkt blóð. Axlirnar kippast taktfast, koma upp um lágt ekkasog.
Ég geng út á svalirnar, það er ískalt.
– Viltu ekki koma inn? spyr ég.
Hún hristir höfuðið.
– Komdu inn, segi ég hvassar.
Hún gengur til mín, ég leiði hana inn í stofu og vef utan um hana handklæði.
– Ég kom bara til að ná í dótið mitt, segir Rósin. Komdu Töffaranum út úr herberginu okkar og ég verð farin eftir korter. Ég get sofið á götunni, það verður ekki í fyrsta sinn.
– Kemur ekki til greina, svara ég, í versta falli tekurðu herbergið mitt og ég sef á sófanum.
Hún stendur upp og reynir að hlaupa. Ég bregst ósjálfrátt við, gríp í hana og held henni, hún berst um, reynir veikum mætti að klóra mig og kýla. Eftir smástund brotnar hún niður og biðst fyrirgefningar. Aftur og aftur segir hún að sér þyki þetta miður, að hún sé ógeðsleg mannvera. Ég staðhæfi að svo sé ekki. Hún heldur áfram lengi og mig grunar að hún þurfi að ná þessu úr kerfinu.
Eftir smástund, eða heila eilífð, missir röddin mátt en hún heldur áfram að lýsa eigin ömurð lágum rómi.
Ég skoða á henni handleggina. Hún er búin að rista langa skurði á þá, þeir eru ójafnir og ljótir. Ekki eftir hníf, heldur stein eða kannski vír. En hún forðaðist slagæðarnar, ég held viljandi, og blóðið er hætt að renna úr sárunum. Í það minnsta er hún ekki í lífshættu.
Í fyrsta sinn tek ég eftir fölum örum á handleggjum hennar. Hún hefur skorið sig áður, að því er virðist nokkrum sinnum.
Aftur segist hún ætla út á götu, nema núna er eins og hún sé að prútta við mig. Það er engin sannfæring í röddinni, er hún að tala við mig eða sjálfa sig?
– Þú ferð ekki fet í kvöld. Skilið?
– Já. Allt í lagi.
– Lofarðu? Ég held augnsambandi og neyði hana til að lofa að fara ekkert, ítrekað.
Eftir smástund kemur Töffarinn inn í stofu. Ég geri mig líklegan til að fara að sofa. Þær segja ekki orð. Á leiðinni út blóta ég og lýg því að ef eitthvað meira rugl gerist í nótt muni ég tryllast. Þær kinka báðar kolli og þegar ég býð góða nótt eru þær grátandi á öxlum hvor annarrar.
Klukkan er að ganga fjögur og ég velti fyrir mér hvort ég eigi að tala við Lávarðinn? Nei, vonandi er hann sofnaður. Ég er líka brjálaður út í hann fyrir að láta mig sjá um þetta einan.
Við Lávarðurinn spjöllum stutt saman morguninn eftir. Ég segi honum að hugsa um sýninguna, hún skipti mestu máli. Ekki viss um að ég trúi því, en segi það samt.
Eftir hádegi banka ég hjá stelpunum og þær bjóða mér inn. Þær liggja saman í rúminu og eru að horfa á teiknimyndir. Eftir eina verstu nótt lífs þeirra vilja þær horfa á Disneymynd. Ætli sumt fullorðið fólk ríghaldi í að horfa á barnaefni til að reyna að komast í samband við einfaldari tíma, áður en allt fór til andskotans hjá þeim.
Það er erfitt að trúa að þetta séu sömu konur og ég þekki, naglarnir tveir sem ég er vanur að tala við eru tímabundið horfnir. Þess í stað eru þarna tvær ungar stelpur sem hafa svo augljóslega gengið í gegnum miklu meira en eðlilegt er. Kannski þurfa þær bara skilning og eyra til að tala við. Því miður kann ég ekki að vera það eyra.
Ég spyr hvað hafi gerst en þær svara engu. Töffarinn bendir á Rósina sem hverfur nánast undir sængina. Ég segi, eins þungróma og ég get:
– Þetta gerist ekki fokking aftur. Eða …
Ég leyfi þögninni að klára setninguna, enda hef ég ekki hugmynd hvert næsta orð ætti að vera. Þær kinka kolli, ögn skelkaðar.
Sýning Lávarðarins gengur eins og í sögu, í ljós kom að áhyggjur hans voru engan veginn á rökum reistar. Það eina sem gekk betur var partíið eftir hana þar sem við tveir drukkum okkur hauslausa. Þegar við komum heim pössuðum við okkur að læðast eins og mýs, ef ekki til annars en að sleppa við ásakanir um fyrsta flokks hræsni.