Örsögur úr ódýrri íbúð: Beðmál í Bænum – Stundarfriður

Þetta er alltof einfalt, er það ekki? hugsa ég þegar Heimsborgarinn hlær hátt að mínum versta brandara í kvöld. Ég bíð eftir að sjá merki um að ég sé að mislesa aðstæður, annað eins hefur nú skeð. Hún er skiptinemi og þetta er kveðjupartíið hennar og fleiri skiptinema við skólann. Við erum ein í stofunni. Hún stendur nálægt mér, alltof nálægt mér. Við snúum hvort að öðru, var hún alltaf svona sæt?

Við ræðum kveðjustundir, þá staðreynd að líklega hittumst við aldrei aftur. Hún talar um að það sé mikilvægt að skilja hlutina ekki eftir ókláraða. Annaðhvort er hún að reyna við mig eða ég er að lesa alltof mikið í vinalegt spjall og daðrandi viðmótið.

Við skálum fyrir góðum stundum, hún horfir beint í augun á mér á meðan við smellum glösum saman. Hvorugt er tilbúið að rjúfa augnasambandið. Skyndilega birtast strákarnir aftur í stofunni og okkur bregður. Spaðinn sendir mér félaga-brosið. Hann sér væntanlega það sama og ég vil sjá.

Best að  taka sénsinn, í versta falli fæ ég vandræðaleg höfnun. Ég hvísla að Heimsborgaranum að við ættum að finna okkur næði til að kveðjast almennilega. Ég býst allt eins við að hún hlægi að mér en hún ranghvolfir augunum, muldrar „það var mikið“ og dregur mig inn í herbergi. Líklega var ég að lesa þetta rétt.

Við stökkvum upp í rúmmið hennar, köstum af því úlpum, jökkum og sænginni og byrjum að hafa gaman. Þegar við erum orðin fáklædd og búin að gleyma partíinu er bankað. Hún segir mér að pæla ekki í því en það er bankað aftur, fast. Hinum megin við hurðina hrópar Djammarinn að hún þurfi jakkann sinn. 

Við dæsum í takt, klæðum okkur í hvelli og hleypum Djammaranum inn. Hún grípur jakkann sinn, brosir til okkar og hleypur öskrandi út.

– ÉG ER FARIN TIL IBIZA, BITCHES!

Flugið hennar fór klukkan sex um morgun og hún var ekki týpan til að sleppa partíi vegna smámuna eins og svefns. Við Heimsborgarinn komum okkur aftur að verki, glottandi, og þegar við erum komin vel á veg er bankað aftur.         

Ég get ekki annað en hlegið. Við klæðum okkur í boli, breiðum yfir okkur sæng og segjum þeim að koma inn. Engillinn, Leikstjórinn og Spaðinn opna skælbrosandi. Það er komin smá óreiða á herbergið, það tekur þau langa stund að finna flíkurnar og merkilegt nokk virðast þau ekkert vera að flýta sér. Meira að segja gott og kaldhæðið jæja dugar ekki til að fá þau hraðar út. Spaðinn blikkar mig á leiðinni út og Engillinn hvíslar aðeins of hátt að Heimsborgaranum:

– Vel gert.

– Við erum ekki þetta forvitnileg, er það? spyr ég þegar þau skella.

– Nei, tautar Heimsborgarinn virkilega pirruð, við sögðum öllum að geyma yfirhafnir í herberginu mínu. Hér.

Við snúum okkur að efninu, með þessu áframhaldi fer hún beint héðan út á flugvöll. Þegar hlutirnir eru farnir að vera virkilega áhugaverðir er bankað á ný, í þetta sinn springum við bæði úr hlátri. Þetta er orðið fáránlegt. Við nennum ekki einu sinni að klæða okkur, förum bara undir sæng og hrópum „kom inn“. Skáldkonan, sem er á góðum degi aðeins of vandræðaleg, skýlir augunum og hleypur svo hratt út með síðustu úlpuna. Allan tímann sem hún er inni segir hún aftur og aftur:

– Sorry sorry sorry. Sorry sorry SORRY.

Þegar hún kemur sér loksins út springum við Heimsborgarinn aftur úr hlátri og snúum okkur svo að því sem við vorum að gera, brosandi og alveg laus við yfirhafnir.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s