Örsögur úr ódýrri íbúð – Sá skrýtni og Fjölskyldufundir

Sá skrýtni

Ég kem heim úr skólanum og heyri að Lávarðurinn er í símanum í stofunni. Það er ekki fréttnæmt. Ég geng inn til að heilsa, hann er að strauja í uppáhaldssloppnum sínum. Það er heldur ekki fréttnæmt, það væri frekar glötuð saga. Þessi dagur sker sig úr vegna þess sem hann er að segja í símann.

– Já, ég er að fara úr bolnum …

Þetta er vissulega nýtt, svo er hann líka að ljúga, er ekki einu sinni í bol til að fara úr. 

– Já, er það … ég er viss um að þú ert stór …

Hann sér mig og glottir. Þetta getur ekki verið það sem þetta hljómar eins og:

– Hvað ætlarðu svo að gera við mig, já, það er svo heitt, ég mun svo …

Þetta þarf ég ekki að heyra. Hann er á kafi í símakynlífi. Það er nýlunda, sérstaklega þar sem hann er að stunda kynlífið á meðan hann er að byggja upp myndarlegan bunka af nýstraujuðum skyrtum.

Ég læt mig hverfa og skýt aftur inn kollinum miklu, miklu síðar um daginn.

– Hvað segirðu, Lávarður, spyr ég, eruð þið tveir að prófa ykkur áfram með símakynlíf?

– Nei, svarar hann með skítaglotti, mig vantaði smá aukapening svo ég réð mig hjá rauðu línunum. Þú ættir að prófa, borgar vel.

– Kannski seinna. Ég er sem sagt ekki bara sá eini gagnkynhneigði í íbúðinni, heldur líka sá eini sem vinnur ekki í kynlífsiðnaðinum?

– Það má nú lækna þá galla í þér, segir hann og blikkar mig.          

Fjölskyldufundir

Síðasta vikan í skólanum er runnin upp, það eina sem er eftir er lokaleikritið. Fyrstu þrjár sýningar þess gengu vonum framar, nú er bara lokakvöldið eftir. Í kvöld stígum við á svið saman, sem bekkur, í hinsta sinn. Við erum búin að vera í okkar eigin heimi í þrjú ár, þar sem það eina sem skipti máli var næsta ritgerð, næsta leikrit og hvort kunningi sé að vinna á skólabarnum um kvöldið. Raunveruleikinn: áheyrnarprufur, reikningar og að vinna fyrir sér er handan við hornið.

Fjölskyldan ætlar að koma á lokasýninguna. Nokkrum tímum fyrir hana mæta Bróðirinn, mamma og pabbi niður í skóla. Dagurinn er þægilegur. Pabbi er með myndavélina á lofti, mamma og Bróðirinn njóta sólarinnar. Við gáfum pabba þessa myndavél í jólagjöf og síðan þá hefur hann að meðaltali tekið tvö hundruð myndir á dag, talan hækkar mikið á ferðalögum. Þrátt fyrir hversu vel heppnuð gjöf þetta var er eins og hann hafi aldrei farið með fjölskyldunni í frí, ef myndirnar eru skoðaðar. Hann er ekki á einni einustu.

Bróðirinn glímir við smávægilegt vandamál. Það er tuttugu og fimm gráðu hiti og hann er farinn að svitna eins og Finni í gufubaði. Hann langar ekkert sérstaklega að sitja í svölu, myrkruðu leikhúsi í rennblautum bol.

Ég læt þau hafa lykilinn að íbúðinni minni og segi þeim að fara heim til mín að sækja hreinan bol. Mamma þykist rata, búin að heimsækja íbúðina áður, þegar hún var í umsjá Forsetans fjórum árum fyrr. Þess má geta að íbúðin gekk á milli Íslendinga sem lærðu í skólanum í allavega sjö ár.

Fjölskylda mín finnur húsið og svo stigaganginn. Lásinn á útdyrahurðinni er enn þá bilaður þannig að þau komast þar beint inn og finna svo íbúðina. Mamma stingur lyklinum í skráargatið en á erfitt með að opna. Hún djöflast aðeins og reynir að snúa honum en það reynist þrautin þyngri. Sem er skiljanlegt því hún er að reyna að opna íbúðina á móti minni.

Það tekst samt að lokum, eftir heilmikinn hamagang. Húslyklarnir ganga sem sagt, með smá djöflagangi, að öðrum íbúðum í húsinu. Ef ske kynni að það væri ekki nóg að kvarta yfir, eins og myglunni, kuldanum og hávaðanum frá Metro bar.

Þau opna dyrnar og ganga inn hjá nágrönnum mínum. Á móti þeim tekur þýsk stelpa sem er nýflutt inn. Hún skilur ekkert hvað er í gangi og það sem verra er, hún talar varla neina ensku. Þau segjast vera foreldrar Ingimars, hún kannast ekki við það nafn en segist reyndar ekki vera búin að læra nöfnin á öllum sem hún býr með.

Eftir nokkuð brenglaðar samræður átta allir aðilar á sig á því að fjölskyldan er á vitlausum stað, þau biðjast afsökunar og kveðja.

Næstu dyr opnast án vandræða og leiða þau inn á heimili mitt. Þau opna fyrstu dyrnar sem þau koma að og ganga inn í stofu.

Þar eru meðleigjendur mínir, þá meina ég strippararnir, á sófanum. Þær eru undir teppi að gera það sem pör gera á sófum, sannfærðar um einveru og næði. Töffarinn hrópar eitthvað, mamma verður vandræðaleg en strákarnir tveir eru ekki komnir inn í stofu og skilja ekki hvers vegna mamma stansaði.

Ef ég ætti tímavél myndi ég fara aftur til þessarar stundar til að sjá svipinn á mömmu. Hún reynir vandræðalega að útskýra að þau séu fjölskyldan mín, að þau séu að leita að bol og að henni þyki leitt að hafa truflað þær. Hún reynir að bakka út úr stofunni en rekst á pabba og Bróðurinn. Þeir hafa ekki hugmynd um hvað er í gangi, langar bara að heilsa upp á stelpurnar sem þeir hafa heyrt ýmislegt um. Bróðirinn treður sér framhjá mömmu, sér hvað er í gangi og skellir upp úr.

Stelpurnar ljúga því að þær séu bara að kúra og mamma rekur strákana á dyr. Einhverra hluta vegna finnst þeim þetta minna mál en henni. Bróðir minn slær botninn, eftir að þeir pabbi eru búnir að ná andanum eftir hláturskastið og þau hafa fundið eina hreina bolinn minn.

– Pabbi, segir hann, þú ert búinn að taka fimm hundruð myndir á tveim dögum, hvar var myndavélin núna!?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s