Það var skyndiákvörðun að búa áfram í London. Ég var ekki búinn að skipuleggja neitt mánuði fyrir útskrift. Allt í einu fannst mér eins og ég þyrfti að sanna eitthvað í borginni, eins og ég yrði að gera tilraun til að meika það fyrir heimferð. Annars væri að eilífu þessi óþolandi spurning: Hvað ef?
Einhver skynsemisrödd hvíslaði að þetta væri kannski ekki ákvörðun til að taka í flýti, alveg laus við sparifé, ekki með umboðsmann og þar að auki ekki í vinnu. Ég sagði þeirri rödd að þetta myndi reddast, yrði smá hark til að byrja með en þannig væri það hjá öllum leikurum. Ég taldi mig líka hafa svo frábæran skilning á bransanum að ég gæti nælt í hlutverk fljótlega, með eða án umboðsmanns.
Að vinna hjá leigumiðlun fyrir þjóna var kannski ekki það sem ég sá fyrir mér, hvað þá að fara þaðan í Dýragarðinn. Ekki sem sýningargripur heldur starfsmaður í veisluþjónustunni. Starfsfólkið var skemmtilegt og launin nokkrum prósentum yfir lágmarkslaunum. Stóri gallinn var staðsetningin, lestarferðirnar í og úr vinnu tóku lágmark klukkutími hvora leið. Ég komst í gegnum margar bækur í illa loftræstum, troðnum lestarvögnum.
Vinnudagarnir í dýragarðinum voru auðveldir en oftast langir og einhæfir. Það besta við að vinna þarna var fríi bjórinn í lok kvöldvaktar og að sjálfsögðu að umgangast dýrin. Allt frá sjaldgæfum fiðrildum til tignarlegra tígrisdýra og uppáhaldanna minna: hressra mörgæsa sem ég fékk því miður aldrei að kasta.
Þetta kvöld er árshátíð dýragarðsvarðanna. Dags daglega er þetta rólegt fólk, manneskjur sem er svo annt um velferð dýra að þau gera hana að ævistarfi sínu, vilja helst bara vera í kringum dýr og hjálpa þeim að eiga sem best líf. En núna eru verðirnir að tínast inn úr fyrirpartíum og eru búnir að fá sér fordrykk(i). Líklega gleymdu flestir að fá sér mat áður en drykkjan hófst. Ölvunin er allavega að nálgast stig slæmrar Þjóðhátíðar á methraða.
Það er leiðindahlutverk en einhver þarf að vera sá drukknasti á staðnum. Gullfalleg stelpa í rauðum kjól hefur tekið það að sér. Hún labbar engan vegin þráðbeint að barborðinu sem ég stend við. Þrisvar sinnum er hún næstum búin að hrasa, ég geri mig tilbúinn að stökkva til og hjálpa henni á fætur eins og sannur herramaður. En hún nær að klára gönguna að barnum. Í stað þess að teygja sig eftir bjór, teygir hún sig yfir borðið og grípur um axlirnar á mér.
Hún starir í augun á mér, það er skemmtileg sjón. Svo ropar hún hátt og hikstar því upp að hún hafi sprengt glas. Ég tek eftir að önnur höndin er rauðari en kjóllinn. Við að segja þetta er eins og það losni um stíflu, hún tárast og hrópar á mig að hjálpa sér. Ég bendi henni að koma á bak við barinn, þríf til sjúkratösku en er umsvifalaust rekinn burt af samstarfsmönnum. Það er meira en nóg að gera á bak við barinn og ekki pláss fyrir tilraun til riddaramennsku.
Við finnum stað og ég þurrka af hendinni. Í ljós kemur að skurðurinn er varla sentimetri á lengd og rauði vökvinn er húsvínið. Hún þakkar mér hvað eftir annað á meðan. Ég set plástur á sárið, hún biður mig að kyssa á bágtið. Ég veit ekki hvort það er í mínum verkahring en ég læt mig hafa það og segi henni að það sé í lagi með hana.
Orð geta gert ótrúlegustu hluti, við að heyra mig segja þetta kemur partíandinn aftur yfir hana. Hún hleypur út á dansgólf og heldur áfram að skemmta sér. Ég fer aftur að sinna vinnunni. Félagarnir segjast sífellt vera sárþjáðir og biðja riddarann að kyssa ímynduð svöðusár. Mér er sama, aldrei þessu vant líður mér eins og ég hafi gert góðverk.
Meðan á þessu stendur er partíið virkilega að fara úr böndunum. Ein af köngulóarkonunum er víst fyrrverandi mannsins sem sér um lamadýrin og hann er byrjaður með einni stelpunni sem sér um apana. Köngulóarkonunni finnst viðeigandi svar að berja apastelpuna, í andlitið, með rauðvínsglasi. Ég hvet þig til að lesa þessar setningar aftur. Svo einu sinni í viðbót. Nærðu þessu? Því ég geri það varla. Skurðirnir voru ekki litlir og krúttlegir, þetta endaði sem lögreglumál og á forsíðum blaða. Dýragarðsverðirnir fá ekki lengur frítt áfengi í veislum.
Fyrir utan smáatriði eins og fólskulega líkamsárás fer veislan vel fram, þangað til kemur að því að slútta henni. Fólk er almennt ekki hrifið af því að vera rekið út af vinnustaðnum sínum, sama hversu vel þjónarnir leika að vera kurteisir og skilningsríkir.
Sumir gestanna eru með háværar yfirlýsingar um að þeir fari þegar þeir vilji fara, aðrir reyna að prútta um lengri tíma og einn og einn býður okkur í eftirpartí. Það tekur langa stund að koma gestunum burt, að endingu byrjum við þjónarnir bara að pakka saman í kringum þá sem eftir eru. Nóg er af verkum, bæði að hreinsa upp eftir þessa veislu og að undirbúa þá sem er á morgun.
Þegar glittir í vaktarlok verð ég var við hreyfingu óþægilega nálægt mér. Ég hrekk við. Nánast upp við mig er stelpan í rauða kjólnum. Hún er á sneplunum, að hún haldist upprétt er magnað. Hvernig í ósköpunum komst hún svona nálægt mér án þess að ég tæki eftir henni? Kannski er hún vön að nálgast dýr af varfærni.
Við störum hvort á annað andartak. Hvern fjandann á ég að segja? Hún verður fyrri til, spurningin kemur vægast sagt flatt upp á mig. Svo sannarlega ekki spurning sem maður á von á í starfsmannapartíi, sérstaklega ekki þegar maður er nýi gaurinn á staðnum og spyrjandi er kona sem hefur verið hér árum saman:
– Hvar er útgangurinn?
Það er bara ein hurð í salnum! Ég bendi henni á dyrnar, hún tekur smástund í að hugsa sig vandlega um, kinkar kolli og gengur á brott. Af hverju líður mér eins og það sé eitthvað sem ég er ekki að fatta. Gæti verið að hún vilji eitthvað annað en útganginn? Drukkið fólk er skrýtið. Félagar mínir flissa.
Aftur heyri ég þrusk, aftur hrekk ég við, aftur stendur hún alveg upp við mig.
– Þessi hurð fer ekki út … segir hún.
– Nei, útgangurinn er fyrir neðan stigann.
– Er stigi? Ég sá hann ekki, segir hún.
Það er pínulítið erfitt að vera ekki dónalegur. Stiginn er heilum metra frá hurðinni. Ég býðst, í nafni þess að losna við hana og þess að halda áfram að vera herramaður, til að fylgja henni út.
Það þarf að styðja hana niður tröppurnar og hún misstígur sig í sífellu, tvisvar er hún á leið niður stigann með andlitið á undan þegar ég næ að grípa hana. Kannski ætti ég hreinlega að bera hana niður en það væri líklega of langt gengið. Þegar hún sér útidyrahurðina ljómar hún, hún virðist hafa haldið að hún væri föst í völundarhúsi. Það sem meira er, við útidyrnar eru tveir vinir hennar, þó að þeir séu vant við látnir.
Þau eru í líflegasta sleik sem ég hef séð. Allir heimsins busaballssleikir virðast komnir saman í þessari áras tveggja einstaklinga á andlit hvor annars. Ef þau hefðu ekki bæði verið jafn brjálæðislega áköf héldi ég að þetta væri líkamsárás. Ef hægt er að fá marbletti á munninn, verða þau með þá á morgun.
Ég ræski mig hátt og segi þeim (ekkert sérstaklega) kurteislega að koma sér út. Þau blóta og taka stefnuna á eftirpartí í næsta húsi. Stelpan í kjólnum gerir sig líklega til að elta og fyrst gangan er bara einn stígur geri ég ráð fyrir að hún nái ekki að fara sér að voða. Áður en hún stígur út grípur hún um mig og segir:
– Þú ert næs.
Svo kyssir hún mig á kinnina og ég roðna alla leið niður í hæla. Þó að ég sé ekki kominn í hlutverk riddara á sviði líður mér eins og ég hafi verið að bjarga prinsessu og það er ljúf tilfinning.