Örsögur úr ódýrri íbúð – Beðmál í bænum – Blindur fær sýn

Allir ættu að eiga vin eins og Æskuvininn, sem flestir gera reyndar því hann virðist þekkja alla. Mögulega var það þess vegna sem hann var í smábasli þegar hann flutti til London, fyrir gæja sem var vanur að vera með risavaxið félagslegt net var skrýtið að flytja til borgar þar sem hann þekkti engan nema mig.

Það var gott að fá gamlan vin til London, ég hjálpaði eins og hægt var, benti honum á mögulegt vesen í breska kerfinu og bauð honum á djömm með vinum mínum til að hann kynntist nýju fólki. Þetta föstudagskvöld er slíkt á dagskrá: Nokkrir vinir, góður bar og ef þér finnst það ekki bara fínasta plan er ég ekki viss um að við getum skilið hvor annan.

Kvöldið fer rólega af stað. Hittingurinn er heima hjá Skáldkonunni, í hverfinu Greenwich. Við Æskuvinurinn mætum til hennar og fljótt verður ljóst að þeim leiðist ekki hvort annað. Gott og blessað. Svo kemur vinahópur Skáldkonunar á staðinn og ég tek eftir að vinkona hennar, Dísin, er í hópnum. Mér leiðist hún ekki.

Ég hafði fyrst tekið eftir Dísinni í upphafi skólagöngunar. Hún var brjálæðislega snjöll, kraftmikil og afskaplega sæt. Ég hafði fyrir löngu ákveðið að hún væri alltof nett til að ég ætti séns í hana. Félagar mínir voru pirrandi sammála mér.

Það líður á kvöldið og við gerum okkur ferð á nálægan bar. Staðurinn er fullur af drukknum Írum í sjóræningjabúningum. Þetta hefði kannski verið eðlilegt í Greenwich árið 1716, en 2014 vakti þetta furðu. Sumir þeirra syngja og dansa en flestir virðast ekki vera í partístuði. Milli bjóra spyr ég einn þeirra hver fjandinn sé í gangi.

– Vinur okkar dó nýlega. Hér var steggjunin hans og við ætlum að koma hingað árlega til að heiðra minningu hans. Þessi grátandi í horninu er ekkjan hans.

Ég votta þeim samúð og forðast sjóræningjana það sem eftir er kvöldsins. Þetta er mjög fallegt en ekki stuðið sem ég er að leita að. Við eitt borðið eru Æskuvinurinn og Skáldkonan komin á trúnó en þegar þau taka eftir að ég er einn kalla þau á mig. Dísin sest hjá okkur og við hlæjum saman að vinkonu okkar sem er að kynnast einum sjóræningjanum, mjög náið. Þetta sem þú ert að hugsa er á réttri leið en ekki nógu gróft.

Barinn lokar og við höldum heim til Skáldkonunar eftir stutta leit að stelpunni með sjóræningjanum. Hún fannst daginn eftir, í góðu stuði með ögn særða sjálfsvirðingu en fína sögu að segja. Við erum núna bara fjögur, súpandi rauðvín og borðandi eitthvað sem engum hefði dottið í hug að elda edrú. Frábær félagsskapur og yndisleg samtöl, hvað gæti farið úrskeiðis?

Ég er farinn að hugsa til heimferðar, sérstaklega þar sem ég er ekki með linsubox á mér og er farið að svíða ögn í augun. Ég er nýbyrjaður að ganga með linsur og ekki búinn að venjast þeim. Þar að auki voru þær drulludýrar og ég þurfti að koma þeim í vökva, annars myndu þær skemmast.

En við Dísin höldum áfram að spjalla, um Mad Max, feminisma og sambandið sem hún var að hætta í. Við hlæjum að öllu hvort hjá öðru og skoðanir hennar eru sterkar, skýrar og áhugaverðar. Eitt andartak dettur mér í hug að hún sé að daðra en ég er fljótur að kæfa þá hugsun. Hún er alltof of kúl fyrir mig.

Að lokum fer ég og held í átt að strætóstöðinni. Æskuvinurinn ætlar að gista. Ekki mínútu eftir að ég kveð fæ ég sms frá honum: Vá þú ert blindur. Ég íhuga að snúa við en þrjóskan, kannski með votti af skömm, tekur yfir. Ég ætla að sofa í eigin rúmi í kvöld.

Eftir hálftímalabb þar sem ég blóta sjálfum mér nær linnulaust uppgötva ég að næturstrætó ætti að vera kallaður síðla-kvölds strætó. Helvítið er hætt að ganga. Það væri möguleiki að ganga heim, en nei annars, svoleiðis mistök geri ég ekki aftur.

Þegar ég kem aftur til Skáldkonunar hlæja þau öll að mér, mikið og verðskuldað. Ég reyni að finna aftur stundina með Dísinni en hún er skiljanlega ekki alveg jafn til eftir eina klunnalega höfnun. Linsurnar enda í skotglasi og ég á sófanum, einn og pirraður út í sjálfan mig.

Daginn eftir gerum við Æskuvinurinn okkur klára í heimför á meðan stelpurnar spjalla. Linsurnar eru búnar að þorna í skotglasinu en mig minnir að sjóðandi vatni dugi til að hreinsa þær. Ég er þunnur og ekki alveg að pæla, þannig að rétt áður en við förum sýð ég vatn í hraðsuðukatli, kem annarri linsunni fyrir í lófanum á mér og helli smá vatni á hana. Sérðu gallann við þetta?

Sjóðandi vatnið er alveg sjóðandi heitt og ég öskra af sársauka. Ég skelli hendinni undir kalt vatn og finn sex augu borast í bakið á mér. Mér til varnar þá … nei veistu, ég ætla ekki einu sinni að reyna. Ég veit hversu vitlaus ég er þegar Æskuvinurinn gerir ekki einu sinni grín að því. Skáldkonan og Dísin hrista bara höfuðið. Öll eru þau kjaftstopp yfir þessu og ég óska einskis heitar en að jörðin gleypi mig. Brunablaðran í lófanum var lengi að gróa en svo kurteis að skilja ekki eftir ör.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s