Örsögur úr ódýrri íbúð: Iðavellir Anfield

Ég vaknaði alltof snemma til að ná ódýrri rútu og svaf á meðan hún skrölti yfir England. Mig hefur dreymt um þetta ferðalag hálfa ævina. Áfangastaðurinn: Liverpool. Síðan ég var ellefu ára og fékk Michael Owen-treyju í afmælisgjöf hef ég séð fyrir mér ferð á Anfield, viljað heyra sönginn úr Kop-stúkunni og fagnað með þegar rauðklædd hetja skorar sigurmark.

Fyrirheitna borginn skartar sínu fegursta en fótboltaleikur er ekki á dagskrá, þeim mun betra: Ég er á leið í áheyrnarprufu fyrir atvinnuleikhóp og ég er vægast sagt bjartsýnn. Kjánalega bjartsýnn.

Írskur leikhópur hafði nýlega samband og bauðst til að borga fyrir mig ferð til Liverpool fyrir prufu. Sýningin verður sett á svið víðsvegar á Norður-Englandi, en þau vilja ekki segja mér hvert hlutverkið er. Óvenjulegt en ekki óheyrt.

Ég er brattur á að rúlla þessu upp, fyrst þau höfðu samband við mig að fyrra bragði. Smá stressaður en ekki óbærilega. Ekkert nema eðlilegt, hver treystir leikara sem segist ekki fá sviðsskrekk?

Þetta gæti verið frábært fyrsta skref á leiklistarferlinum. Það hefur ekki gengið sem skyldi að bóka prufur, þær hafa verið fáar og mér gengið illa. Ég er án umboðsmanns en þetta gæti verið tækifæri til að laga það. Að ég nái góðu hlutverki án slíks hlýtur að vera jákvætt skref.

Fundarstaðurinn er lítil krá í verslunarmiðstöð. Hún er svalandi myrk eftir steikjandi hitann úti. Ég íhuga að fá mér bjór til að róa taugarnar en kannski er ekki sniðugt að vera með bjór við hönd þegar ég er að reyna að hrífa mögulegan vinnuveitanda.

Ég panta kaffi, sem ruglar barþjóninn en að lokum framreiðir hann þetta líka frábæra vonda kaffi. Minnir á kaffi í skólamötuneyti, sterkt, bragðmikið og algjörlega laust við að metnaður hafi verið settur í að laga það. Ég sest og bíð heila eilífð, eða korter. Tíminn hagar sér furðulega á svona stundum.

Inn koma tveir nýir gestir, Nornin og Sonurinn. Undan oddmjóum hatti Nornarinnar flæða svartar krullur og hún er í allt of stórum kjól. Á andlitinu er vinalegt bros, á bak við það hryllilega illa hirtar tennur. Sonurinn er andstæða hennar á allan hátt, hávaxinn og slánalegur og með augu sem illgjarnari höfundur en ég myndi kalla flóttaleg. Veit annars einhver hvað það þýðir? Hann forðast allavega augnsamband og kippist við hvað eftir annað. Þetta eru spes mæðgin en ég er ýmsu vanur. 

Þau segjast fara fyrir leikhópnum. Við spjöllum kurteislega í stutta stund og þau hlæja að öllu sem ég segi. Hugsanlega eru þau kvíðnari en ég fyrir þessari prufu, sem róar mig. Þau vilja líklega að mér takist vel til. Þau höfðu samband við mig og halda með mér í prufunni, ég þarf bara að klúðra ekki hrikalega og þá er hlutverkið mitt.

Hann fer afsíðis. Fas hennar breytist samstundis. Brosið og hláturinn hverfur. Hún segir við mig, grafalvarleg:

– Svona er áheyrnaprufan þín. Okkur langar að sjá hvernig þú bregst við óvæntum aðstæðum. Sonur minn er einhverfur en hann rekur lítið verkstæði sem selur leikmuni. Hann heldur að þú sért kvikmyndaleikstjóri að koma að versla við hann, það er hlutverk þitt næstu mínútur. Gjörðu svo vel.

Finnst þér þetta skrýtið? Mér líka.

Fyrsta hlutverkið á ég að innsigla með því að ljúga að strákræfli. Af því að mamma hans sagði mér að gera það. Kannski væri best að segja henni að fokka sér, þetta er ljótt. En mig langar í hlutverkið og siðferði mitt fær ekki að þvælast fyrir því.

Hann birtist aftur rétt eftir að ég hugsa með sjálfum mér: Þetta er svo sem ekki skrýtnasta áheyrnaprufa sem ég hef heyrt um. Eða jú. Þetta er það.

 Norninn brosir með eftirvæntingu í augunum. Ég byrja:

– Svona standa mál, ég tek góðar pásur og tala hægt, ég og dálítið teymi erum að hefja framleiðslu byggða á Íslendingasögunni Njálu, þekkið þið hana?

Þau hrista höfuðið og ég geri mér upp vanþóknun.

– Njála er frægasta Íslendingasagan, gerist á söguöld, svipar til Game of Thrones. Þess vegna erum við búin að fá Hafþór Júlíusson til að leika Njál. Það er fyrsta skrefið í því sem við erum að reyna að gera, hrista aðeins upp í þessu.

Já. Það fyrsta sem mér dettur í hug er að við höfum fengið tveggja metra háan kraftlyftingarmann til að leika vitringinn í sögunni stundum kem ég engum meira á óvart en sjálfum mér.

– Hann er gamli maðurinn sem lætur tannhjólin snúast og okkur langar að koma á óvart, ekki síst upp á markaðsetninguna. Fyrir hann er þetta tækifæri til að sýna að hann geti leikið annað en tröllkalla, svipað og grínleikarar gera þegar þeir vilja skyndilega ekki vera þekktir sem fyndni gaurinn. Þá birtast þeir í grafalvarlegu hlutverki og fá fullt af verðlaunum, það er markmiðið hans í þessu.

Þau kinka kolli og ég held áfram

– Næsti hluti af útlitinu ert mögulega þú.

Ég geri mér upp að ég sé að vega hann og meta.

– Okkur langar að nota vopn sem eru ekki þessi drepleiðinlega víkingaklisja, það er búið að gera hundrað sinnum. Það er kominn tími til að fara í aðra átt og ég hef heyrt góða hluti um þig. Ertu ekki með sýnishorn?

Mig kitlar í aðra höndina, hún veit að stór vindill væri viðeigandi. Ég er að beisla anda allra Hollywood-framleiðenda, þykist algjör stórlax. Fjandinn hafi það, þetta er skemmtilegt.

Hann dregur fram poka og ég skoða gripina. Þetta er dót sem kallast larp-búnaður. Vopn notuð í leiknum hlutverkaspilum, stundum í Öskjuhlíð. Ég vann í Nexus árum saman og þekki þennan heim betur en flestir sem eru ekki hluti af honum. Eru örlögin að brosa til mín?

Í miðjunni er hörð stöng en mestallt vopnið er gert úr frauðplasti. Með mikilli vinnu er hægt að láta þetta líta út eins og fínasta handverk. Sú vinna hefur ekki farið í þessa gripi sem er ekki diss. Þetta er í raun eins gott og flestir nota. Fáir kaupa svona búnað á því verði sem hann kostar í hæsta gæðaflokki. Þess í stað eru notaðar ódýrari græjur. Þær eiga það til að virka teiknimyndalegar sem eykur ef eitthvað er barnslegu leikgleðina sem fylgir þessu. Ekki láta þér detta í hug að þetta sé bara hrikalega kjánalegt nörda-hobbý, þetta er hrikalega skemmtilegt, kjánalegt nörda-hobbý.

– Þetta er fínn grunnur, mér líst ágætlega á þetta. Við þyrftum að fara yfir útlitið og styrkja kjarnann, þetta þarf að þola að vera í tökum við erfiðar aðstæður.

Hann kinkar kolli og ljómar allur við að fara yfir smíðaferlið. Flestir skína eins og stjörnur þegar þeir lýsa einhverju sem þeir hafa einlægan áhuga á, það á enn frekar við um þá sem eru á einhverfurófinu.

Bulldælan gengur í næstum klukkutíma. Við ætlum að skjóta á Englandi og Íslandi til að hafa aðgang að styrktarsjóðum í báðum löndum. Við munum selja myndina sem nýja sýn á klassískt efni, svipað og leikhópar gera allt of oft með Shakespeare. Vonandi verði myndin vinæl á Íslandi en markmiðið er hinn enskumælandi heimur. Andskotinn hafi það, ég er næstum farinn að trúa á verkefnið. Er þetta kannski einhver pæling?

– Allt í lagi, giggið er þitt! hrópar Nornin hæstánægð þegar ég er kominn á fullt að tala um mögulegar útfærslur á brennunni. Hún útskýrir fyrir Syninum að þetta verkefni sé ekki til og ég sé að koma að vinna fyrir leikhópinn þeirra. Hann virðist dálítið sár en jafnar sig fljótt. Mig grunar allt í einu að þetta sé ekki fyrsta svona prufan.

Innra með mér gjósa upp tilfinningar. Fyrst og fremst gleði. Ég er búinn að landa fyrsta alvöru hlutverkinu! LOKSINS!

Það virðist ætla að borga sig að hafa ákveðið að búa áfram í London. Hverju er ég svo sem búinn að fórna? Einu ári til að harka á harðasta leikaramarkaði í heimi. Kannski er ég ekki alvitlaus, kannski mun þetta virka. Árið er að verða búið en hér er sterk vísbending um að þolinmæðin borgi sig og ég sé á réttri leið. Fyrsta hlutverkið er erfiðast, næsta á að vera auðveldara, kannski ég gefi þessu annað ár.

Svo kemur smá tilhlökkun eftir að kynnast þessum stórfurðulega leikhópi og vinna með þeim. Sama hvernig sýningarnar ganga veit ég að úr þessu verða góðar og skemmtilegar sögur. Mig hefur alltaf langað í sýningarferðalag, bara til að prófa ævintýrið.

Að lokum er smákvíði, ég þarf að standa mig í þessu og ná að nýta það sem einhvers konar stökkpall. Það þýðir ekki að landa fyrsta gigginu og klúðra því. Nú er að fara heim og drekka í mig handritið. Ætla að mæta fullkomlega undirbúinn á fyrstu æfingu.

Ég vildi að ég gæti klárað söguna hérna, skælbrosandi í Liverpoolsólinni á leið að skoða Evrópubikarinn á Anfield. Í einhverjum alheimi er útgáfa af mér þar sem þetta gekk upp eins og ég sá fyrir mér. Leikhópurinn reyndist vera óslípaður demantur, sýningin fór um Norður-England og varð upphafið að farsælum ferli á sviðinu í London. Mig langar að hitta þá útgáfu af mér, fá mér bjór með honum og bera saman bækur okkar. Við myndum samt líklega enda á að tala bara um íþróttir og Grant Morrison.

Í mínum raunveruleika heldur sagan áfram. Ég tek lestina heim til London og fljótlega fara rauðu fánarnir að láta á sér kræla. Ekki Liverpoolrauðir fánar heldur eldrauðir viðvörunarfánar.

Ég fæ sent handrit en þau vilja ekki að ég komi á æfingar, ég á bara að mæta undirbúinn á sýningardag. Spes, en ókei, áskorun. Persónan er ekkert ógurlega spennandi, illur hermaður í stríði sem gengur ekki einu sinni af göflunum. Í náminu lék ég ekkert nema vonda kalla, ýmist hermenn, nasista, drauga eða klámmyndaleikstjóra. Ég gæti gert það í svefni, en maður verður víst að þekkja styrkleika sína. Er leikritið gott? Nei, fullkomin meðalmennska, en það er allavega ekki leiðinlegt. Á þessum stað á ferlinum biður maður ekki um meira en það.

Ég fletti hópnum upp á netinu, hefði líklega átt að gera það fyrir prufuna. Þau eru með heimasíðu en það var ekki eitt einasta verk á henni, bara háleit markmið og draumar um framtíðarsýningar. Hæ, viðvörunarbjalla, ertu búin að vera að klingja lengi? Tók bara ekki eftir þér.

Svona atriði hrannast upp. Þau sögðust ætla að borga mér miðana sem ég hafði keypt til Liverpool, það frestast og frestast. Furðulegast af öllu er að þegar ég er í bjór með vinum mínum rekst ég á mann sem hafði búið í smábænum þar sem fyrsta sýningin á að vera. Hann blótar því skítapleisi í sand og ösku, segir mér að forðast staðinn eins og heitan eldinn, þar sé ekki einu sinni pöbba-leikhús. Ég spyr Nornina út í sýningarstaðinn, svarið er loðið.

Sýningardagur breytist, túrnum er frestað og í staðinn gerður að nokkrum sýningum með löngum pásum á milli. Ég ætti að ganga frá borði en langar allt of mikið að þetta gangi upp. Ég ákveð að gefa þessu séns fram að frumsýningu.

Ég segi Norninni að hún þurfi að leggja út fyrir lestarmiðum svo ég komist á frumsýninguna. Hún segir að það sé sjálfsagt að þau borgi miðana, hún muni annaðhvort millifæra á mig eða bara senda mér þá með tölvupósti. Ég minni á að því fyrr sem hún borgi, því betra. Verð á lestarmiðum hækkar þegar nær dregur ferðadegi. Hún segist ætla að ganga frá þessu á morgun. Svo daginn eftir það. Svo daginn fyrir sýninguna. Svo á sýningardag …

Hann rennur upp, ég er búinn að redda mér fríi í vinnunni, sem dýragarðurinn er ekki hrifinn af.

Geturðu þóst vera hissa á að hvorki miðarnir né peningur fyrir þeim barst? Ekkert lengi, bara í smástund, það lætur mér líða betur. Takk.

Þegar ég opna heimabankann að morgni sýningardags sé ég að ekkert fé hefur borist og pósthólfið er tómt. Engir miðar þar.

Ég bókstaflega kýli vegg. Ekki til að vera með töffarastæla, reiðin blossar bara upp og ég verð annað hvort að kasta fartölvunni í gólfið eða slá frá mér. Hljóðið glymur í litla herberginu mínu og sársaukinn er yndislegur. Réttsýn reiði flæðir um mig allan og satt best að segja nýt ég þess að leyfa henni að flæða um mig.

Þau lugu að mér, þau gerðu mig að fífli. Mig langar að öskra á einhvern, taka þetta út á bara einhverjum. Sem betur fer er enginn nálægur.

Ég tek lyklana mína og fer í langan göngutúr, það eina sem mér dettur í hug að gera áður en ég hringi í Dýragarðinn og segist geta tekið aukavakt. Það sýður enn þá á mér daginn eftir þegar ég mæti til vinnu.

Það sem verra er, það berst ekki svo mikið sem tölvupóstur með útskýringu og afsökunarbeiðni. Eftir nokkra daga fer reiðin að beinast inn á við. Það var nóg af viðvörunum, ég hefði aldrei átt að leyfa þessu að ganga svona langt. Hvað var ég að pæla að láta þetta skipta mig svona miklu máli?

Útskýring berst að lokum og hún er kjaftæði. Það tekur á að bæla niður löngunina til að senda fúkyrði til baka. Þegar maður er virkilega reiður og hefur góða ástæðu til, þá langar mann að hella sér yfir einhvern. Skrifa póst eða öskra framan í þann sem braut á manni. Ég bæli þetta viðbragði niður , vitandi að ekkert gott komi af því. Nornin fær aldrei svar frá mér, þótt mér hefði liðið betur við að skrifa það.

Að lokum rennur mér reiðin og ég fer að sjá spaugilegu hliðina. Ég hélt sem sagt í alvöru að kveikjan að farsælum leiklistarferil yrði að ljúga einhverfum gaur á bar í Liverpool. Ég hélt að ég væri sniðugur að geta reddað mér á erfiðasta leikaramarkað Evrópu á engu nema meðalmiklum sjarma. Ég hélt að umboðsmenn væru óþarfir. Ég hélt að ég gæti verið í stanslausu partíi og tækifærin myndu detta í hendurnar mér, þannig er lífið víst ekki. Það eina sem ég hef afrekað síðustu mánuði er að skrifa gagnrýni, rækta yfirdráttinn og byggja upp bjórbumbu.

Ég held að ég hafi aðeins ofmetið sjálfan mig. Kannski væri sniðugast að fara að huga almennilega að heimferð ef ekkert stórt kemur upp á borð. London er og verður frábær en hún er ekki staðurinn fyrir mig.

Á meðan þessar pælingar eru í gangi biður vinkona mig að leikstýra sér í litlum einleik. Hann er stuttur, fyndinn og það er æðislegt að vinna með henni. Hann gæti verið nóg til að réttlæta veru mína í borginni. Verkefnið fer hratt af stað og svo enn þá hraðar ofan í dýpstu skúffu. Þessa í skrifborði Þjóðleikhúss himnaríkis fyrir leiksýningar sem aldrei komast á svið.

Mér fer að líða eins og ég sé á göngu í stórri borg, viti ekki hvert ég stefni. Ég leita að kennileiti en göturnar eru allar litlar og svipaðar og þokan færist í aukana. Það var rétt ákvörðun að vera í þessari borg í ár, sjá hvernig það gengi og finna takmörk sín. Það ár er liðið, næsta ár væru mistökin.

Ég held að það sé kominn tími á að finna leigubíl og fara í hraðbanka þegar ég kem heim, í stóra smábænum við fjörðinn.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s