Örsögur úr ódýrri íbúð: Ferðalok(og Eftirmáli)

Ferðalok

Aðeins viku fyrir heimferð kemur besti vinur minn, Vöðvabúnt, loksins í heimsókn. Fyndið þetta með vinina heima, maður býr erlendis í fjögur ár og sumir eru alveg á leiðinni í heimsókn allan tímann en mæta svo viku fyrir heimferð.

 Við njótum þess að ferðast um London, ég kynni hann fyrir bresku vinunum og tala um hversu helvíti fínt það verður að komast heim í Hafnarfjörð. Ég segi honum sögur af því að búa með litríku fólki, Mikka ref, mörgæsalygum og gamaldags ræktinni í Sidcup, frá því að flengja yfirmann á fyllerí, rífa mig úr að ofan á miðju djammi og neita að tala ensku það sem eftir lifði kvölds, að vakna á svölum eftir partí og að vera kallaður rasisti fyrir taka ekki eftir stelpu á lestarstöð. Flestar sögurnar enduðu á hlátri og honum að spyrja:

– Og þetta finnst þér bara eðlilegt?

Það eina sem við gerum af okkur er að stríða ákaflega þreytandi sölumanni. Hann er að reyna að selja okkur rándýra bátsferð niður litla á í Norður-London, nálægt dýragarðinum. Þegar við losnum ekki við hann með kurteisi gerum við okkur upp áhuga og spyrjum spurninga í ætt við:

– Verða sætar stelpur?

– Nei en ég get lofað að …

– Vodka? Þú getur lofað vodka?

– Sko, þið megið koma með …

– En hvað með heitar gellur? Við komum ef það eru heitar gellur!

– Hver veit, kannski, en …

– BRENNIVÍN! Þú ert með brennivín í bátnum!

Svona hélt þetta áfram hring eftir hring þangað til hann gafst loksins upp. Við snerum okkur aftur að því að sleikja sólina og fylgdumst með honum halda áfram að ganga um og reyna að selja túristum ferðina sína.

Seinasta kvöldið mitt í bænum býð ég nokkrum félögum á kunnuglegan bar, í þetta sinn voru engir sjóræningjar. Við eigum einfalt og gott kvöld. Spaðinn, Skáldkonan og Leikstjórinn mæta en ég bauð ekki með nema þriggja vikna fyrirvara þannig að Lávarðurinn er með annað á prjónunum. Engillinn og Boltastrákurinn eru flutt heim, Töffarinn og Rósin eru að vinna. Vöðvabúntið spyr hvort við eigum ekki bara að mæta til þeirra, ég þykist ekki vita hvar vinnustaðurinn er.

Um mitt kvöld spyr hann upp úr þurru:

– Jæja, hvernig var þetta allt saman? Leiklistarskólinn, djammið, þessir félagar, að búa með strippurum, reyna að harka það hérna?

– Ja. Það var aldrei nokkurn tímann leiðinlegt.

Eftirmáli. (Nokkrum árum seinna)

Það er spes að renna í gegnum þessar sögur fimm til átta árum eftir að atburðir þeirra gerðust og þremur árum eftir að þær væru skrifaðar. Án þess að fara í einhverja ógurlega naflaskoðun þá var ég augljóslega ekki sama manneskja og ég er í dag. Myndi ég gera margt öðruvísi í dag? Auðvitað. En hefði ég lært það sem ég lærði án þess að gera sum mistökin sem ég gerði? Auðvitað.

Hugmyndin á bakvið þessar sögur var alltaf að skemmta fólki. Þær voru skrifaðar sem lokaverkefni í ritlist í HÍ. Mig langar að þakka leiðbeinanda mínum Sigþrúði Silju Gunnarsdóttir og öllum yfirlesurunum fyrir þeirra framlag. Eins og með allar góðar bækur er aldrei hægt að þakka fólkinu bakvið tjöldin nóg.  

Það er ekkert leyndarmál að mig langaði að fá þetta útgefið sem bók og sú löngun minnkaði ekkert við að birta þetta á netinu. En eftir ár af höfnunum frá útgefendum missti ég þolinmæðina og ákvað að henda þessu bara á netið. Kannski var það (eins og svo margt sem ég gerði í sögunum) full mikil skyndiákvörðun, ég var með alls konar hugmyndir sem ég nennti ekki að framkvæma því ég vildi bara koma þessu fyrir augu lesenda.

Hugsuninn var samt að vonandi fengi þetta einhverja lesningu (og að þeir sem læsu yrðu spenntir fyrir næstu verkefnum mínum, hvort sem það væri Guide to Guiding eða fyrsta bókin mín, hvenær sem hún svo kemur út)  og ég myndi læra eitt og annað um útgáfu efnis á netinu. Það tókst svo sannarlega og planið er að nýta þessar lexíur í framtíðinni. Kannski það stærsta sem ég lærði: Það er ekki hollt að skoða lesningartölur fyrir efni á netinu átta sinnum á dag, bara ekki á neinn hátt.

Einn daginn verða svo þessar sögur bundnar í fallega litla bók, það kemur að því. En nóg komið að lokaorðum. Til allra sem kíktu á þessar sögur síðustu mánuði: Takk fyrir lesturinn, vonandi skemmtuð þið ykkur vel.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s