Sjötta júlí 2020 stóð ég á litla sviðinu í Secret Cellar og fór með einleikinn Guide to Guiding. Þetta kvöld var hápunktur ferli sem stóð yfir í ár, þar sem Guide to Guiding fór úr því að vera fyndin hugmynd, í klárað verk. Það er erfitt að lýsa tilfinningunum á svona stund. Stolt er ein, óstjórnarleg gleði yfir að verkið gangi yfir höfuð upp, þakklæti til þeirra sem hjálpuðu og sigurvíma. Heljarinnar blanda.

Eitt sem ég lærði snemma í ferlinu er að það er merkilega lítið efni til um hvernig svona verk verða til. Reyndar er bara merkilega lítið til um hvernig leiksýningar verða til á netinu. Það er eins og við sem vinnum í leikhúsinu viljum að það sé einhver dularfull blæja yfir því sem við gerum. Eða kannski átta aðrir sig á því sem ég mun uppgötva við skrif þessarar greinar: Að þetta ferli er ekkert sérstaklega spennandi. Kannski. En sjáum til.
Ég mun gera mitt allra besta til að skrifa um ferlið eins og það gerðist en það er náttúrulega sá hængur á að ég veit hvernig þetta fór allt saman, þannig að hætta er á að maður lýti til baka og sjái hlutina í öðru ljósi.
Að fá hugmynd og ákveða að framkvæma hana.
Rithöfundar grínast oft með það að það sé stranglega bannað að spyrja þá hvar þeir fá hugmyndir. Fyrir mörgum er sköpunarferlið ögn heilagt, eitthvað sem menn vilja vernda og eru hræddir um að ef þeir fara ofan í kjölinn á því skemmist það.
Hugmyndir eru að því ég best veit frekar einfalt ferli: Heilinn sér tengingu milli tveggja áður ótengdra fyrirbrigða og búmm, það er komin hugmynd. Ef maður les mikið, og lifir áhugaverðu lífi fær maður hugmyndir. Svo æfist maður í að taka eftir þeim. Stundum malla þær í undirmeðvitundinni lengi og mótast, flestar gleymast sem betur fer jafnóðum því að 99 prósent allra hugmynda eru slæmar.

Guide to Guiding er ein af fáum hugmyndum sem ég hef fengið sem ég get rakið mjög nákvæmlega. Örsögur úr ódýrri íbúð var upphafið. Á meðan ég skrifaði það safn var ég líka í fullri vinnu í ferðaþjónustunni og fór að taka eftir mörgum atvikum, einstaklingum og dögum sem gátu klárlega haldið uppi lítilli smásögu, eða í sumum tilvikum stórri smásögu. Eftir að ég kláraði örsögurnar byrjaði ég að fikta við þessa hugmynd, Örsögur að framlínu ferðaþjónusturnar var titillinn sem hafði í huga. Ég vissi að það var eitthvað þarna svo í dundaði mér við að skrifa fyrstu uppköst af tveimur sagnanna (og efni úr báðum enduðu í leikritinu) og gerði langan lista yfir viðburði sem gætu orðið sögur.
En svo kom töfra augnablikið. Allir sem hafa unnið við skapandi vinnu í einhvern tíma hafa átt þetta augnablik, en þau eru ofboðslega sjaldgæf. Reykjavík Fringe Festival hátíð sem haldin hefur verið árlega síðan 2018 og ég get ekki sagt nógu margt gott um þessa hátíð. Hún er stórskemmtileg, hægt að sjá ótrúlega blöndu af list og leikhúsi, framkvæmd og unninn af fólki í sjálfboðastarfi, knúið af engu nema ástinni.
Fyrstu tvö árin tók ég þátt í fjölleikahúsi sem nefnist Rauða Skáldahúsið á hátíðinni og á laugardeginum var ég á leiðinni heim úr lokapartíinu þegar einn af skipuleggjendunum segir við mig (hún man ekki eftir að hafa sagt þetta): „Svo verður þú með eigin sýningu á næsta ári, er það ekki?“
Tveir hlutir smullu saman og búmm, ég vissi að ég ætlaði að skrifa Guide to Guiding. Það var eins og rafmagn færi um mig allan, ég sá fyrir mér sviðið og efnistökin. Ég held meira að segja að mér hafi dottið titillinn í hug á leiðinni í bílinn. Reyndar var fyrsti titilinn sem ég íhugaði Guide to Iceland, en áhugi minn að keppa við stórfyrirtæki um Google pláss er nákvæmlega engin, fyrir utan að ég hafði ekki áhuga á að fá bréf sem í stóð: Þú ert að nota vörumerkið okkar, vinsamlegast hættu því eða…
Það var samt ein ákvörðun sem varð að taka strax og ég byrjaði: Á að hafa þetta á ensku eða íslensku. Eins og þið hafið kannski giskað að titlinum varð enskan fyrir valinu. Hugsuninn á bakvið það var að ég vildi að sýningin gæti gengið fyrir túrista á sama hátt og How to become Icelandic in 60 minutes gerir.
Það er ákveðin fórnarkostnaður við að nota enskuna. Til dæmis pirrar mig óstjórnarlega að amma muni líklega ekki sjá sýninguna. En markmiðið varð fljótt að eftir að Fringe hátíðin kláraðist myndi Guide to Guiding gæti gengið á litlu sviði í Reykjavík og trekkt að túrista sem langar að sjá gott leikhús. Förum meira út í það seinna í þessari ritgerð.
Hin ástæðan fyrir að ég vildi hafa þetta á ensku er að mig langaði að frumsýna á Reykjavík Fringe Festival. Hátíðin hefur alþjóðablæ og ég vildi að ef hún byrjaði þar myndi hún geta trekkt að sem flesta. En það voru líka praktískar ástæður fyrir að ég vildi sýna á hátíðinni.
Í fyrsta lagi myndi vera ákveðin áhorfenda hópur frétta af sýningunni í gegnum hátíðina. Í öðru lagi þá gaf þetta mér tímapunkt: Þennan dag verður sýningin að verða tilbúin, eða ég þarf að hætta við sem væri vandræðalegt og óþægilegt (hópþrýstingur sem þessi er vanmetið afl).
Í þriðja lagi þá fengi ég frían aðgang að sviði. Þetta síðast er ekki beint sexí ástæða. En hagfræði þess að setja upp litlar sýningar er þannig að rými er verðmæt og takmörkuð auðlind. Bæði æfingar og sýningarrými. Það er auðvitað hægt að leigja sal eða komast að á litlum sviðum, en þá þarftu að vera helvíti öruggur með góða aðsókn til að reikni dæmið gangi upp. Förum líka aðeins meira í þessa hagfræði hér fyrir neðan.
Fyrsta uppkast
Ég ætla ekki að ljúga því að ég hafi farið beint í að skrifa einleikinn um leið og vaknaði daginn eftir lokapartíið. Nei. Ég var að vinna í einhverju öðru og er búin að læra sú lexíu að maður getur bara unnið í einu stóru verki í einu. En hugmyndin var byrjuð að grassera, ég dundaði mér við að punkta niður hitt og þetta og svo nokkrum mánuðum seinna settist ég niður og byrjaði á fyrsta uppkasti.

Ég þurfti að glíma við töluvert óöryggi þegar ég byrjaði á þessu fyrsta uppkasti. Ég var að vinna í verki sem átti að vera komedía og í því efni er ég almennt mjög óöruggir. Ég sagði við sjálfan mig það sem ég segi alltaf við sjálfan mig í fyrsta uppkasti: „Það mun engin lesa þetta nema þú.“ Ég trúi að ritstífla sé ekkert annað en sviðsskrekkur, ef þú segir þér að það séu engir áhorfendur hjálpar það.
Hitt sem ég gerði til að koma mér í gríngírinn var að horfa á öll uppistönd Christopher Titus, á tveim dögum. Hann er eftirlætis starfandi uppistandarinn minn og mér fannst þetta hjálpa við að koma heilanum á réttan. Eini ókosturinn við þetta var að í fyrstu 3-4 uppköstunum voru þó nokkrir brandarar sem voru klárlega ekki mín rödd, heldur hans að skína í gegn.
Besta ákvörðun ferlisins.
Það tók nokkrar vikur að skrifa þetta fyrsta uppkast í stílabók og ég held ég hafi skrifað eitt uppkast í viðbót (þau urðu að endingu 10, þar af þrjú sem voru merkt „Loka uppkast“) og þá þurfti að taka nokkrar ákvarðanir.
Fyrsta var: Vildi ég leika þetta sjálfur? Ég var engan vegin viss um það. Ég hef gaman af því að leika á sviði og koma fram en ólíkt því að skrifa klæjar mig ekki í neinn vöðva ef ég leik ekki í langan tíma. Ég gældi mikið við að skrifa og leikstýra verkinu sjálfur, sem kitlaði aðeins egóið í mér. En sama hvort ég myndi leika eða leikstýra þurfti ég mann með mér og ég vissi hver ég vildi að það væri. Haustið 2019 hringdi ég þess vegna í Tryggva Rafnsson og sagði honum að ég væri með hugmynd sem ég vildi ræða við hann.
Tryggvi er frændi minn, fór í sama leiklistarskóla og ég (nokkrum árum fyrr) og við höfðum áður byrjað saman á verki sem ekkert varð úr. Hann er líka, að öðrum ólöstuðum, skemmtilegasti maður sem ég þekki. Við fórum yfir uppkastið að handritinu eins og það var þá, hann var strax harður á að ég myndi leika karakterinn. Ég sagði honum sumar sögurnar sem ég var að hugsa um að nota og við vorum sammála um eitt: Þetta verk átti fyrst og fremst að vera skemmtilegt.

Svo var önnur stór ákvörðun. Í fyrsta uppkasti handritsins hét persónan bara Ingimar Bjarni Sverrisson. Það hefur ákveðna kosti að skrifa persónu sem er bara þú en líka ákveðna galla. Ef þetta er eigið nafn muni gestir líklega trúa að allt sem sagt er sé satt og skoðanir séu allar raunverulegar. Gallinn er auðvitað að þá þarftu siðferðislega að standa undir því.
Að lokum ákváðum við að þetta væri karakter, Ríkarður Snæbjörn Snorrason og það gaf okkur töluvert meira frelsi til að ýkja, segja hluti sem ég er kannski ekki alveg sammála og svo framvegis. Þegar ég lýt til baka var þetta fyrsta dæmið um vandamál sem fylgdi verkinu alla leið (og var í raun aldrei 100% leyst), togstreitan milli þess að skrifa sýningu sem er uppistand og leiksýning.
Að finna tíma
Þetta var eins og ég sagði um haustið og þá fór vinnan að stað fyrir alvöru. Ég glímdi samt við sama vandamál og öll skáld sem hafa ekki enn þá ná að gera skrifin að fullri vinnu: Að finna tíma. Ég var í fullri vinnu, sem takmarkar þá klukkutíma í deginum sem geta farið í skrif. Ég er líka þannig týpa að ég á erfitt með að taka stóra daga. Sum skáld geta tekið frá einn dag í viku og legið yfir textanum í átta klukkutíma þann dag. Ég er bara ekki þannig.
Lausnin var einföld: Ég byrjaði að vakna það snemma að ég hafði klukkutíma að skrifa á hverjum morgni. Þegar ég var í vinnunni þýddi það bara þessi klukkutími, þegar ég var heima ílengdisttk ég oft við skrifin. Hægt og rólega fór ég að breytast í hálfgerðan morgunhana, komin í rúmmið 10 og vaknaður 6. Fyrir mig var þetta risabreyting sem gekk ekki til baka (þessi orð eru skrifuð 6:25, rétt áður en ég bruna í vinnu).
Ferlið að skrifa svona handrit er í raun sáraeinfalt. Ég vann eitt uppkast, fór og las það fyrir Tryggva og við ræddum málið fram og til baka. Hann var sérstaklega góður að koma auga á lítil augnablik sem gátu orðið stærri og skemmtilegri og að benda á hvar handritið var full „pirrað.“ Leiðsögumaðurinn sem verkið fjallar um er búin að gera það sem hann gerir allt of oft en það er fín lína milli þessa að skrifa þreyttan og pirraðan karakter og að skrifa þreytt og pirrað og neikvætt verk, sem við vildum ekki gera. Þannig að þó nokkrum sinnum benti Tryggvi á að „hann hljómar svolítið reiður þarna“ og það var leiðrétt jafn óðum.
Umsókn á Fringe.
Á meðan á þessu stóð þurftum við að skrifa umsókn til að vera með sýningu á Fringe. Það reyndist pínu kúnst, því jú verkið var ekki tilbúið. Í fyrstu uppköstunum átti eitt af aðal grínum verksins að vera að Ríkarður væri með skjávarpa á sviði sem væri að „hjálpa“ honum að segja frá ferðamennsku. Þetta átti að vera ægilega fyndið og mikið ofboðslega er ég feginn að við hurfum frá þessu, bara upp á tæknivesenið ef ekkert annað. En þetta er eitt af þó nokkru sem var í umsókninni sem við síðan slepptum. En þegar umsóknin var farin varð ekki aftur snúið, sem var gott.
Það að skrifa umsóknina neyddi mig líka til að koma orðum að því sem ég var að reyna að gera og, ef ég man rétt, þurfti ég að skila með henni logoi og plaggati. Hér koma greiða hagkerfið sterkt inn. Ég er svo heppinn að eiga frábæran vin sem er grafískur hönnuður sem er alltaf til í að búa til eitthvað skemmtilegt fyrir biluðu hugmyndirnar mínar.
Covid nálgast.
Ég held við munum öll eftir augnabliki þar sem við hugsuðum „fokk, þetta er að fara að vera stórt dæmi“ í samhengi við Covid. Hjá okkur sem vinnum í ferðaþjónustu kom það fyrr en hjá flestum, af augljósum ástæðum.
Fyrir mig var það á Keflavíkurflugvelli. Ég var á leiðinni á EM í handbolta og þar sem ég sat með vini mínum fékk hann e-mail: Kína búið að banna hópferðir úr landi. Hann vinnur hjá stóru ferðaþjónustufyrirtæki og við sögðum báðir: Fokk.
Allt í einu hljómaði hugmyndinn „skrifum einleik fyrir túrista“ ekki jafn frábærlega. Á sama tíma barst svar við umsókninni og það var staðfest, við yrðum á Reykjavík Fringe. Ég hafði ekki miklar áhyggjur af því að umsókninni yrði hafnað en samt, smá. Tk mostwonderful
Ferbrúar og mars liðu og okkur fannst við vera á ná handritinu á réttan stað. Okkur datt ekki til hugar að það væri tilbúið en það var að komast á þann stað að við þurftum að fá utanaðkomandi til að hlusta á samlestur. Ég hafði sent svona sirka annað hvert uppkast á yfirlesara til að fá punkta, sem hjálpaði mikið og er ég þeim öllum mjög þakklátur. Ég veit ekki hvort aðrir listamenn glíma við þetta en pennar eru ofboðslega háðir yfirlesurum til að sjá verkin okkar í réttu ljósi.
Um þetta leiti varð ljóst að það stefndi í samkomubann á Íslandi. Túristar voru um það bil að hverfa alveg sem þýddi að það var lítið að gera í vinnunni og líkt og eftir að WOW féll þá var alltaf ákveðin spenna yfir farþegalistum. Ég skil vel að fólk sé ekki beint að pæla í að aflýsa öllum túrum þegar það er að reyna að sleppa úr landi, en síðustu vikur fyrir samkomubann vissi maður aldrei hversu margir myndu mæta í túrinn. Man eftir einni ferð þar sem 20 voru bókaðir… og ekki einn einasti maður mætti. Svo fann maður líka að fólki leið ekkert endilega vel í kringum hvort annað, var spurður í síðustu norðurljósaferðinni minni: Hvað ætlarðu að gera ef einhver hóstar? Ég hafði ekkert svar.
Samkomubann, hlutabótaleið, verður hátíðin?
Reykjavík Fringe sendi frá sér yfirlýsingu á einhverjum tímapunkti: „Hátíðinni er ekki aflýst, en…“ Hún yrði augljóslega með mjög minnkuðu sniði í ár. Engum erlendum yrði boðið, mögulega yrðu engir áhorfendur. Allir myndu geta streymt sýningunum sínum. Við Tryggvi ræddum þetta mjög stutt og ákváðum að við myndum halda okkar striki. Augljóslega yrði ekkert úr því að halda sýningunni gangandi strax eftir hátíðina en við ætluðum að vera með hana klára. Mér fannst tilhugsunin að streyma úr tómum sal ekkert sérstaklega sexí, en hún þýddi að við höfðum enn þá þessa „verður að klárast fyrir“ dagsetningu.
Um það leiti sem það var verið að loka og læsa Íslandi áttum við eina af stóru, mikilvægu, stundunum í ferlinu. Sveinn Óskar og Bjartmar Þórðarson komu og hlustuðu á mig lesa handritið og gáfu nótur. Þeir voru frábærir og bentu á nokkra stóra hnúta sem þurfti að leysa. Til dæmis var verkið allt og langt (minnir að ég hafi verið 1:45 að lesa verkið) og það voru fullt af atriðum sem bara pössuðu ekki inní. En stóra vandamálið, eins og Bjartmar orðaði það svo vel: Hver er vélin í verkinu? Hvað lætur verkið halda áfram. Við Tryggvi vissum hvað við vildum að hún væri, en það kom bara ekki nógu skýrt fram á þessum tímapunkti. Þetta átti að vera leiðsögumaður að enduruppgötva gleðina við vinnuna.
Við tók fyrri stóri niðurskurðurinn, nokkrar síður skornar út og nýjum tengingum bætt við til að bæta flæðið. Það var líka alls konar leikur í textanum sem við þurftum að geta réttlæta, allavega fyrir sjálfum okkur. Til dæmis á þessum tímapunkti var hugmyndin að vera með heilt pub quiz í miðju klukkutíma leikriti, sem hefði verið heljarinnar vesen. Quizið var að lokum skorið niður í nokkrar spurningar og þeim ekki svarað á blaði. Annað sem fór (líklega sem betur fer) á þessum tímapunkti var heil blaðsíða um hnattræna hlýnun. Það skrýtna er að þegar ég lýt til baka var ég alveg handviss um að þetta yrði að vera þarna inni, þó ég hefði ekki neitt sérstakan áhuga á þessu. Nú þegar ég lýt til baka var engin söknuður af þessari senu.
Við ræddum líka tímaáætlun. Við vildum hefja venjulegar æfingar um fyrsta maí og ég vildi vera komin með handritið í kollinn fyrsta júlí. Hvorugt varð að veruleika en við höfðum nægan slaka í planinu til þess að allt gekk upp.
Svo gerðist apríl. Fyrir okkur sem unnum í ferðamennsku á þessum tíma var þetta ógleymanlegur vetur Óvissan hékk yfir okkur og við áttum öll hálf von á að missa vinnuna á morgun eða hinn. Mörg misstu vinnuna og ég var að lokum (þegar ríkisstjórnin kynnti úrræðið) settur á hlutabótarleiðina.
Fyrir mig varð hlutbótarmánuðurinn hálfgerð snilld. Að vera með mánuð þar sem ég hafði í raun ekkert að gera nema skrifa virkaði mjög vel og ég held ég hafi aldrei afkastað jafn miklu í orðum talið og þennan mánuð. En svo gerði ríkisstjórninn það fjárhagslega óábyrgt fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu að halda starfsfólki og þar sem ég vann var öllum sagt upp. Var ég reiður og fúll? Ekkert smá. En það kom í ljós að það var gott að ég var með var með verkið fyrir framan mig. Ég gat sökkt mér í það og vissi að sama hvað gerðist, gat ég allavega hlakkað til að sýna þessa sýningu.
Maí og júní: Aftur og aftur
Maí var svo ofboðslega skrýtin mánuðir. Fyrirtækið sem ég vann hjá vildi fá fulla mætingu frá öllum starfsmönnum þó engir gestir væri á staðnum og því var ráðist í alls konar viðhaldsframkvæmdir á vinnustaðnum. Ég vildi ég gæti sagt að ég hefði brugðist við því að þurfa að mæta í fulla vinnu aftur með ró og þroska en þetta pirraði mig mikið, því ég vildi vera að einbeita mér að sýningunni. Sem betur fer höfðum við Tryggvi unnið vel í Guide to Guiding á meðan við höfðum allt of mikinn frítíma þannig að við þurftum ekki að fara í neina risavinnudaga. Nú var líka spennandi parturinn að byrja: Sjálfar æfingarnar.
Ég sagði hér að ofan að rými væri ein af lykilbreytunum í að setja svona verk upp. Einn af stóru kostunum við að setja upp einleik er að það þarf ekki mikið pláss til að æfa hann. Neyðarplanið mitt var að gera það í stofunni heima og ég var með leyfi frá stjórn húsfélagsins hér til að gera það í herbergi í kjallaranum. En það kom í ljós að bílskúrinn hjá Tryggva var fullkominn. Nei reyndar ekki fullkominn á neinn hátt, en hann var rými og við gátum notað hann.
Við rákum okkur á skemmtilegan menningarmun. Þó við hefðum lært í sama leiklistarskóla þá vorum við á mismunandi brautum með mismunandi áherslum. Hjá mér var textavinnu í algjörum forgangi, vera með hvert einasta orð og atkvæði rétt. Hans braut lagði ekki sömu áherslu á þetta og því kom upp sú staða að leikarinn var miklu stressaðri og harðari á því að vera með hvert orð rétt en leikstjórinn. Þessi dýnamík var mein holl. Mér fannst hann aldrei vera að þrýsta á mig með þetta en vildi samt vera með allt rétt.
Ég gerði hins vegar sömu mistök og allt of oft áður með texta vinnslu. Það gekk nefnilega svo sjúklega vel fyrstu vikuna að læra textann að ég slakaði aðeins á. Í stað þess að reyna að læra hálfa síðu eða meira á dag lét ég mér stundum nægja eina setningu eða hálfa málsgrein þegar ég var að vinna löngu dagana upp á hálendinu. Svo voru allt í einu bara nokkrir dagar í dagsetninguna sem ég hafði sett sjálfum mér og hálft handritið eftir. Tryggvi stríddi mér aðeins með þetta en þetta gekk að lokum, ekki nema viku seinn.
Að læra texta er einn af þessum hlutum sem fólk spyr eitthvað í áttina að „hvernig ferðu að þessu?“ Það fyndna er að innan leikhúsheimsins er þetta ekki álitið neitt merkilegt, að geta munað texta er jú skilyrði fyrir að standa á sviði. Ég er viss um að aðrir heimar eiga sína útgáfu af þessu, eitthvað sem allir gera svo oft innan heimsins að það er bara sjálfsagt en fólk utan hans klóra sér í hausnum yfir. En svarið „maður gerir þetta bara“ er bæði pínu hrokafullt og hjálpar ekki neitt.
Það eru margar aðferðir við læra texta. Ég þekki leikara sem hlusta á sjálfan sig lesa textann aftur og aftur, sumir tengja setningar saman á einhvern hátt í huganum og aðrir æfa alltaf með einhverjum öðrum (algengari í verki sem er ekki einleikur). Það sem ég geri er að ég brýt textann niður í litlar einingar, ein setning er venjulega nóg. Svo endurtek ég hana nokkrum sinnum. Svo bætir maður við næstu og næstu. Þegar einingin er orðin ákveðið stór fer maður yfir hana nokkrum sinnum og svo endurtekur maður ferlið, aftur og aftur og aftur. Eins og með að endurskrifa handrit þá er ekkert sexí eða spennandi við þetta ferli, þetta eru bara endurtekningar. Það eru takmörk hvað maður getur náð miklu á dag, í þessu verki var góður dagur sirka ein síða af texta. Ég segi í þessu verki því mér gekk töluvert betur að læra þennan texta en flesta aðra sem ég hef lært, mögulega hjálpaði að þetta var bara ein löng einræða. Líklega hjálpaði líka að hafa legið yfir textanum og skrifað hann mánuðum saman.
Við æfingar ferlið byrjaði að við fórum einu til tvisvar sinnum yfir hvert atrið fyrir sig. Það hjálpaði hversu mikið Tryggvi hafði tekið þátt í skrif ferlinu, leikstjórinn vissi meira eða minna hvað hann vildi úr hverju atriði. Okkur til mikillar skemmtunar í fyrsta rennsli þá föttuðum við að ein af stærri senum verksins hafði hreinlega gleymst þannig að í fyrsta rennsli þá var sú sena áberandi (og skiljanlega) svolítið út um allt. En frá miðjum maí til miðs júní var vinnan bara þannig að við renndum verkinu aftur og aftur. Hlutir slípuðust til, urðu mýkri og við vorum bara nokkuð sáttir við stöðuna. Við vissum samt báðir að þetta væri ekki jafn gott og þetta gat verið. Hér vorum við aftur komnir í sama bobba og áður, við vorum búnir að sjá (og framkvæma) hlutina svo oft að við vorum gjörsamlega ófærir um að sjá verkið eins og áhorfandi myndi sjá þá. Þannig að aftur fengum við mann inn til að horfa á, einn besta leikstjóra/leiklistarskaparatk á Íslandi, Kára Viðarson.
Ég renndi verkinu fyrir Kára og svo tók við mjög erfiður hálftími þar sem hann benti á hvern einasta galla. Ef hann hefði ekki verið að tala um verk sem ég hafði skrifað og var að leika hefði ég líklega dáðst að því hvernig leikhúsheilinn í honum virkar, því hann er magnaður. En það er aldrei gaman að heyra verkin manns rifin í tætlur, sama þó Tryggvi hefði hringd í hann vegna þess að hann vissi að verkið yrði rifið í tætlur. Vandamálið var svo sem ekki gæði efnisins. En það var alltof mikið efni og við höfðum aðeins misst þráðinn um hvaða listform við vorum að vinna með.
Fyrr í greininni minntist ég á að ég hefði horft á mikið uppistand til að koma mér í gírinn. En sýninginn átti að vera einleikur ekki uppistand og handritið endurspeglaði það ekki nógu vel. Listformin eru öðruvísi og ég kann annað þeirra og hitt (þeas uppistand) ekki. Vissulega hefði efnið sem við vorum með getað orðið grunnurinn af uppistandi en það hefði aldrei verið jafn gott, ja nema kannski ef ég hefði tekið mig á og æft efnið sem slíkt.
Hinn stóri gallinn var uppröðuninn á efninu. Það var (og er) ekki mikið sem viðkemur innri manni Ríkarðs í sýningunni og það var mjög aftarlega í sýningunni. Þetta olli því að fyrri hluti sýningarinnar virkaði hann sem bara töffari og asni, ekki persóna sem áhorfendi vildi kynnast.
Lausnin var að nú var komið að Tryggva að taka upp hnífinn og skera úr og endurraða. Þetta var síðasta stóra breytingin á handritinu, þrem vikum frumsýningu og það var heljarinnar áskorun að læra handritið „upp á nýtt.“ En þarna náðist nánast öll fita úr því, eftir þetta var mjög lítið ef nokkuð sem mátti skera út. Sem er góður staður fyrir handrit að vera.
Markaðsetning.
Þegar það leit út fyrir að sýningunni yrði bara streymt ákváðum við að vera ekki með mikla markaðsetningu. En við gerðum samt plan. Hér er vesenið með að markaðsetja litla sýningu með engum pening: Þetta er lítil sýning sem þú hefur engan pening til að auglýsa. Uppistandarinn Jono Duffy orðaði vesenið við að markaðsetja sýningu í þessum stærðarflokki meistaralega: Þetta er eins og að halda partí sem engin bað um og biðja fólkið sem mætir að borga.

Besta lausninn var að okkar mati að reyna að byggja upp Facebook síðu og reyna að trekkja þar inn. En hvernig? Myndbönd fá mesta dreifingu í dag í dularfullum forritum Mark Zuckerberg en til að gera gott myndband þarftu reynslu og þekkingu, sem við höfðum ekki. Fringe vildi fá trailer frá okkur sem ég byrjaði að gera en kláraði ekki. Ætla ekki að koma með neina afsökun, gaf mér bara ekki nægan tíma í þetta.
Eftir nokkrar rökræður ákváðum við að taka röð af myndum sem litu út eins og póstkort með hlutum sem tengdust sýningunni. Hugmyndin að útlitið myndi minna fólk á sýninguna, að þeir sem hefðu áhuga myndu ýta á „Líkar“ takkann og svo gæti sú síða orðið grunnur að frekari markaðsetningu. Svo heppnir vorum við að pabbi er með myndadellu og einn frábær vinur minn er grafískur hönnuður sem er alltaf til í að hjálpa. Við vorum með bíl fullan af skrýtnu dóti upp í bláfjöll (þar sem við gátum fundið snjó) og tókum myndirnar, sem var virkilega skemmtilegur dagur. Svo bjó Júlli til rammana um þær og vann myndirnar aðeins. Síðasta mánuðinn fyrir sýningu birtum við þessar myndir einu til þrisvar sinnum í viku og þær fengu alltaf svipaða dreifingu. Reyndar fengu þær grunnsamlega svipaða dreifingu.
Tvennt annað gerðum við. Facebook leikir hafa ógurlegan mátt og við vildum reyna að nýta það. Mér tókst að fá eitt gjafabréf sem við gerðum að verðlaunum og sá póstur fékk hörkudreifingu (hefur líka hjálpað að ég póstaði honum inn á vinnustaðahópa) og ég er viss um að það hefur hjálpað.
Hitt var svo að ég tók að mér að framleiða Reykjavík Fringe Festival hlaðvarpið. Ég gerði þetta ekki bara til að auglýsa sýninguna, mig langaði að gera þetta almennt til að sjá hvort mér líkaði vel við hlaðvarp gerð. En það hjálpaði að geta sagt í byrjun hvers þáttar að ég væri með Guide to Guiding. Síðan vorum við svo heppnir að Reykjavík Grapevine fjallaði um hátíðina og við vorum ein af þeim sýningum sem þeir tóku viðtal fyrir. Svo skrifuðum við líka báðir langa pósta um sýninguna á eigin Facebook veggi sem hefur klárlega hjálpað eitthvað.
Hvað af þessu virkaði best? Ekki hugmynd. Henry Ford sagði eitt sinn um markaðsetningu að Ford Motor gæti líklega sleppt helmingnum af því sem þeir gerðu, þeir vissu bara ekki hvorum helmingnum. Þegar við setjum sýninguna upp aftur verður margt af þessu endurtekið (og við getum svo sannarlega ekki kvartað yfir mætingu á sýninguna) og sumu bætt við. En þetta var góð lexía um hversu mikið er hægt að gera með nánast ekkert í höndunum.
Síðustu vikurnar – frumsýning.
Síðustu 10 dagana fyrir sýningu var ég í fríi frá vinnu og við gátum æft að fullum krafti. Þessi hluti ferilsins snerist bara um fínpússun, að finna rétt viðhorfið til að labba inn á svið með. Fjórum dögum fyrir sýningu vorum við en og aftur komnir á þennan stað sem ég hef lýst tvisvar fyrir ofan: Verkið þurfti ferska áhorfendur. Svo við létum það gerast. General prufan, lokaæfingin, var haldinn á sviðinu í Secret Cellar á föstudeginum, hátíðin var sett á laugardegi og við frumsýndum á mánudegi.
En það var eitt smá mál þarna á milli. Á sunnudeginum var kvöld þar sem allar sýningarnar fengu að sýna tveggja mínútna innslag fyrir aðra þátttakendur og fjölmiðla. Þetta hafði nokkuð óvænt áhrif, eins og að fara í bólusetningu fyrir frumsýningar stressinu. Ég var nánast grár að stressi á leiðinni upp að taka vel valdar tvær mínútur. Um leið og ég steig upp á sviðið og náði að taka fyrstu setninguna án vesens hvarf það eins og dögg fyrir sólu. Þetta gekk mjög vel.
Daginn eftir var svo frumsýning. Ég er mjög rútíneraður á frumsýningardag: sofa út, fara í ræktina og sund, fara á staðinn svona einum og hálfum tíma fyrir sýningu, hita upp og mæta á staðinn. Ég ætla ekki að ljúga öðru en að ég hafi verið skíthræddur þarna, en á sama tíma hef ég oft verið verri. Held að mínúturnar tvær kvöldið áður hafi hjálpað mikið.
Frumsýningin gekk síðan frábærlega. Það er vanmetið hversu mikil áhrif áhorfendur hafa á sýningar í litlum sal og við fengum góðan hóp sem hló í raun miklu meira en við bjuggumst við. En á engri stund þá kláraðist þetta og víman tók við, spennufallið og sigurtilfinningin að hafa klárað ferli sem hófst næstum ári áður. Við skáluðum ítrekað með góðum kunningjum og héldum heim, brosandi eyrnanna á milli.
Seinni sýningar og framhaldið.
Það var pínu fyndið að finna muninn milli sýninga. Fyrir fyrstu sýningu var maður taugabúnt, númer tvö þá var maður smá stressaður. Þriðju þá mætti ég, horfði á aðra sýningu og fór svo beint upp á svið. Allar þrjár gengu vel, líklega var þriðja best svona ef ég reyni að vera hlutlaus. Óvænt gleði fyrir mig var að eftir allar sýningarnar komu leiðsögumenn sem sögðust hafa haft gaman af og tengt mikið við efnið. Á öllum var líka fullt af fólki sem ég þekkti ekki neitt og margir góðir vinir mættu líka.
Hvað tekur við? Nú fer Guide to Guiding í dvala í nokkra mánuði. Við ætlum að reyna að láta hana ganga fyrir ferðamenn á einhverjum tímapunkti en það er einhverjir mánuðir í að það verði mögulegt. Þangað til er bara að bíða, gera næsta markaðplan og vonandi komið þið öll og sjáið litla barnið okkar, við erum mjög stoltir af því.