Tíu þúsund kallinn gildir – Hvernig margt smátt verður að einu stóru.

Máltækið segir að margt smátt geri eitt stórt, en hvernig virkar það ná?

Það er eins með þennan málshátt og fleiri. Við vitum að það er einhver viska í honum og látum þar kyrrt við liggja. Þessi grein mun fara í saumana á því hvers vegna forfeður okkar smíðuðu þennan málshátt og hvernig er hægt að nýta hann í lífinu.

Greinin mun á yfirborðinu fjalla um húsnæðislán og regluna sem segir að tíu þúsund kallinn gildi. En hægt er að taka þessa reglu og nýta hana í ólíklegustu hluti, við förum í það í lokin.

Það er augljós spurning sem þarf að afgreiða: Hvaða rétt hef ég til að gefa fjárhagsráð?

Ein af ástæðunum fyrir þessari vefsíðu er að skrifa það sem ég hefði viljað vita fyrir tíu árum (hvort ég hefði hlustað eða skilið er annað mál). Í fyrra keypti ég mína fyrstu íbúð. Bæði fyrir það og síðan þá hef ég eytt ótal stundum í að lesa mér til og pæla í fjármálum. Draumurinn er að þurfa ekki að pæla í peningum þegar fram líða stundir og er ég tilbúin að leggja á mig töluverða vinnu til að komast á þann stað.

Í því grúski og í samtölum við snjalla vini, rakst ég á regluna sem þessi grein fjallar um: tíu þúsund kallinn gildir. Reglan er útfærsla á máltækinu að margt smátt geri eitt stórt. Ástæða þess að hér er talað um tíu þúsund kall er að það er fjárhæð sem flestir gætu séð af mánaðarlega án þess að finna ógurlega fyrir því. Ég ætla að færa rök fyrir að sá tíu þúsund kall geti á lengri tíma sparað stórar risastórar fjárhæðir og verið lykill að þægilegra lífi. Reglan byggir á tveimur atriðum: Hegðun vaxta og að það sé betra að gera litla góða hluti oft en að reyna að gera stóra hluti sjaldan. Skoðum þetta.

Tíu þúsund kallinn gildir

Við tökum flest húsnæðislán. Að ætla að safna sér upp í heila íbúð er óraunhæft og Íslendingar búa ekki við þann lúxus að vera með heilbrigðan leigumarkað. Ég ætla ekki að dýfa mér í umræðuna um verðtryggð og óverðtryggð lán hér. En mig langar að fjalla um góða leið til þess að hugsa þegar lánið er komið í höfn og áratugir af mánaðarlegum afborgunum eru framundan.

Það er þess virði að skoða örstutt hvað lán og vextir eru, svo við séum á sömu blaðsíðu. Lán er peningar sem einn aðili lætur öðrum í hendur, í skiptum fyrir loforð um að fá meira til baka. Upphæðin sem er lánuð er kölluð höfuðstólinn og viðbótinn er kölluð vextir. Um hver mánaðar borgum við ákveðna upphæð af höfuðstólnum og ákveðið magn af vöxtum. Eftir því sem höfuðstólinn lækkar, því lægri er upphæðin sem ber vexti. Það gefur auga leið að lengri tími jafngildir hærri vöxtum sem og að því hraðar sem höfuðstóllinn lækkar því minna ávaxtar hann sér.

Við viljum auðvitað að borga sem minnsta vexti og til þess þarf að borga lánið niður eins hratt og við getum. Styttri lán eru alltaf ódýrari en lengri á sömu vöxtum en sá fylgifiskur er á að mánaðarleg afborgun er hærri. Einn tilgangur greiðslumats er að bankinn vill ekki lána okkur pening með svo hárri greiðslubyrgði að ólíklegt er að við getum borgað til baka.

Við vitum öll að það er skynsamlegt að borga lánið niður hratt, þá hefur höfuðstóllinn minni tíma til að ávaxta sér og við borgum minna í heildina. En hvernig lítur þetta út í krónum?

Vextir og vesen

Algeng setning þegar spjallað er um lán (sem gerist oft þegar einhleypir menn vilja forðast umræðu um börn í partíum) er: „Ég get ekki borgað nóg inn á lánið til að það skipti máli.“ Oft er næsta setning: „Bráðum ætla ég að spara góða fjárhæð og leggja inn á.“

Í samhengi við tíu milljón króna lán hljómar tíu þúsund krónur ekki eins og upphæð sem ætti að skipta máli. Til að vera nákvæmur er tíu þúsund kall núll komma eitt prósent af láninu. En þökk sé mætti vaxta gildir hann helling. Sérstaklega ef hann er endurtekin mánaðarlega.

Þá komum við að reglu 69.3. Ef þú villt reikna út ávöxtun er þumalputta regla að deila 69.3 með vaxtatölunni og þá færðu út hversu lengi upphæðin er að tvöfalda sig í árum (73 ef ekki er um vaxtavexti er að ræða). Segjum að ég eigi milljón inn á bankabók með 5% vöxtum. 69.3/5 eru 13.86 þannig að eftir rétt tæplega 14 ár á ég tvær milljónir. Að því gefnu að ég taki peninginn ekki út er upphæðin orðin fjórar eftir 28 og átta eftir 42 ár. Þessi flýtileið er flott til að þess að fá góða mynd af hegðun vaxta en ef þú er seðlabankastjóri á leið á fund með fjármálaráðherra myndi ég nota nákvæmari formúlur.

Ef þú leggur auka tíuþúsund kall inn á lánið með fyrstu afborgun þá ertu búin að tryggja að þær tíu þúsund krónur af láninu ávaxti sér aldrei.  Næsti tíu þúsund kall sömuleiðis ávaxtar sér aðeins í mánuð og svo framvegis og framvegis. Eftir eitt-tvö ár þá ertu komin með góða upphæð af láninu sem er horfin og ferð að sjá muninn í afborgunum þínum og heildar upphæðinni. Við skulum skoða hvernig það myndi þróast með meiri nákvæmni:

Dæmi – Tíu milljón króna lánið

Á heimasíðu Excel má finna nokkur nördaleg og skemmtileg skjöl þar sem hægt er að reikna út gróflega hvað lánin okkar kosta á ýmsa vegu og með ýmsum skilyrðum. Þar getur maður séð hvernig góð nýting á tíu þúsund kalla reglunni getur sparað okkur fúlgufjár þegar upp er staðið. (Tekið skal fram að myndirnar eru gerðar í öðru forriti, sem kallast “R”).

Stillum upp tveimur eins lánum, A og B. Þau eru bæði lán upp á tíu milljónir króna, þau eru bæði verðtryggð, og bæði á 3.5% vöxtum. Það þarf að velja inn eitthvað mat á verðbólgu, notumst við 2.5% á ári. Það er aðeins hærra en verðbólga hefur verið síðustu ár. Verðbólga hefur í raun ekki áhrif á hvort 10-þúsund-kalla reglan virkar eða ekki, hún endar alltaf með sparnaði. Við miðum við 40 ára jafngreiðslulán með mánaðarlegum afborgunum. Þessar er ekki ætlað að endurspegla meðal húsnæðislán heldur eru þær valdar til þæginda og til að sýna hvernig reglan virkar. 

Lánin eru því alveg eins en munurinn liggur í hvernig við borgum af þeim. Afborgunum verður hagað svona:

Lán A: Borgum venjulega af þessu láni í hverjum mánuði í 40 ár, ekkert aukalega og ekkert minna en kemur fram í greiðsluáætlun. 

Lán B: Borgum venjulega af þessu láni eins og fyrir lán A en beitum líka tíu þúsund kalla reglunni og borgum 10 þúsund krónur aukalega inn á lánið í hverjum mánuði þangað til lánið er fullgreitt. 

Nú getum við notað excel skjalið til þess að draga fram áhugaverðan mun á þessum tveimur nálgunum. Í fyrsta lagi, þá mun lán A enda með að kosta okkur 31.756.073 þegar allar greiðslur eru lagðar saman. Ef við leggjum saman allar greiðslur og aukagreiðslur fyrir lán B á sama hátt þá mun það kosta um 27.462.562 krónur. Það er munur upp á næstum 4.3 milljónir þegar upp er staðið. 

Hér einnig mikilvægt að átta sig á að 10-þúsund kallinn sem maður leggur inn aukalega er ekki tapaður. Þú hefðir þurft að borga hann hvort eð er, bara seinna. Þetta verður enn ljósara þegar við skoðum hvernig afborganir þróast fyrir lánin. 

Hér sjáum við (vinstra megin) að þó svo að lán A kallist “jafngreiðslulán” þá verða þetta ekki jafnar greiðslur að neinu leyti. Greiðslurnar byrja í rétt rúmlega 38 þúsund krónum og hækka síðan, þremur árum seinna eru þær orðnar rétt tæplega 42 þúsund. Þegar 5 ár eru eftir þá eru greiðslurnar í kringum 93 þúsund og síðustu greiðslurnar eru rúmlega 100 þúsund. Ástæðan fyrir þessu er verðbólga.  

Gagnstætt við þessa hegðun, þá er lán B (hægra megin) miklu líkara því sem við myndum halda að jafngreiðslulán ætti að vera. Það er ekki fullkomið, en það er betra.  Afborgarnir byrja í rétt rúmlega 48 þúsund (sem er 38 þúsund + 10 þúsund auka) og hækka síðan lítilega. Hæsta afborgun á láni B verður eftir um það bil 32 ár og er upp á 63.530 krónur. Á sama tíma þyrftum við að sætta okkur við afborgun upp á sirka 85.000 af láni A. Eftir þennan hápunkt eftir 32 ár fara síðan afborganir af láni B að minnka aftur þegar endamarkið nálgast (afborganir af láni A halda áfram að hækka alveg þangað til síðasta afborgun er greidd). 

Ég nefndi áðan að við spörum okkur tæplega 4.3 milljónir ef við byrjum að nota 10-þúsund kalla regluna strax. Hvað ef við höfum ekki haft tök á því, en getum gert það núna nokkrum árum eftir að lánið var tekið? Hér má sjá hversu mikið er sparað eftir því hversu snemma við byrjum að beita reglunni.

Það er óhætt að segja að það sé ekki of seint að beita reglunni þó einhver tími sé liðinn frá því að við tókum lánið. Ef við byrjum eftir 1 ár sparast rétt rúmlega 4 milljónir, ef við byrjum eftir 2 ár þá sparast uþb 3.8 milljónir og svo framvegis. Eina tilfellið sem mætti teljast of seint til þess að byrja að beita reglunni er ef það er bókstaflega ein greiðsla eftir, þeas ef 39 ár og 11 mánuðir eru liðnir. 

Að lokum þá skulum við skoða stuttlega hver munurinn er á að greiða 10 þúsund inn reglulega eða safna þeim peningum saman og greiða meira á t.d. eins árs fresti. Ef við greiðum 10 þúsund aukalega í hverjum mánuði þá kostar lánið samtals 27.462.562 krónur eins og kom fram áðan. Ef við núna skiptum um aðferð og borgum frekar 120 þúsund hver áramót þá mun slíkt lán kosta 27.581.775 krónur, sem er meira 140 þúsund krónum meira.

Lífið og vaninn.

Væri betra að leggja fimmtán þúsund kall inn? Auðvitað. Tuttugu? Þeim mun betra. En það er ástæða fyrir að við tölum um tíu þúsund kall í þessari grein. Ef markmiðið er að halda áfram að borga mánaðarlega, gera það að vana (sumir bankar bjóða þér að gera þetta sjálfvirkt) þá er best að velja upphæð sem þú tekur nánast ekki eftir. Það er þá hægt að hækka hana síðar, ef fjárhagurinn vænkar.

Flestir geta fundið í byrjun mánaðar tíu þúsund krónur til að borga inn á lánið, án þess að það hafi teljandi áhrif. Það er mikilvægt þegar við ætlum að temja okkur svona ávana að byrja smátt, ef í ljós kemur að upphæðin gæti verið hærri er alltaf hægt að bæta við seinna.

Svo má spyrja sig hvar annars staðar í lífinu er hægt að finna tíu þúsund kalla. Það er að segja litla hluti sem hægt er að gera reglulega en vinda upp á sig og vaxa í mikinn gróða. 10 armbeygjur á hverjum morgni? Læra á hljóðfæri? Fimm mínútna hugleiðsla? Að leggja þúsund kall til hliðar daglega til að spara sér fyrir einhverju sturluðu fríi? Eða taka frá korter á hverjum einasta degi til að liggja með bók og læra eitthvað nýtt?

Við eigum það öll til að láta okkur dreyma um eitthvað stórt sem við ætlum að gera í óljósri framtíð. Í lok desember tölum við hlæjandi um áramótaheitinn okkar, lyklana að nýju lífi. Við hlæjum auðvitað vegna þess að við vitum að engin stendur við sú heit, prófaðu að kíkja í World Class Laugum fimmta janúar og svo fimmta mars til að sjá hversu mörg stór markmið haldast. Það er auðveldara og raunhæfara að setja sér lítil markmið, gera þau að vana og bæta svo við nýjum vana.

Það eru til þúsund greinar, myndbönd og greinar á netinu sem segja þér hvernig á að gera hlutina hratt. En ég legg til að við reynum frekar að gera hlutina hægt, byggjum einn múrstein í einu og njótum þess að sjá húsið sem verður til við það.

Eitt að lokum: Mig langar að þakka Ólafi Birgi Davíðssyni sérstaklega fyrir hjálpina við tölu hlutan á þessari grein, sem hann endurskrifaði því til næst frá grunni.

Fyrir þá sem vilja kynna sér þetta frekar mæli ég með bókunum Slight Edge og Power of Habit.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s