Það eru væntanlega ákvarðanir mínar sem valda því að á nokkurra ára fresti koma ár, þar sem nánast allt gerist. Sem betur fer dreifðust viðburðir ársins ágætlega, en enga síður sit ég hér og spyr mig: Vá, var þetta allt á ekki lengri tíma? Það var sérstaklega á seinni hluta ársins sem eitthvað risastórt virtist dúkka upp á tveggja vikna fresti og þrá mín eftir jólafríi í Eistlandi var orðin ansi sterk dagana áður en við flugum hingað út. En það er þess virði að lýta til baka og ekki sýst fram veginn.
Hápunktar
- Daginn sem við settum hópsöfnun fyrir Síðasta bóksalan í gang, var hellingur á dagskrá. Ég vaknaði snemma, setti inn myndir og myndbönd á rétta staði og birti pistil á fésbókinni um það sem framundan var. Eftir að hafa fengið það staðfest að allt væri að birtast og virka kveikti ég á Liverpool leiknum (gegn Crystal Palace) sem ég átti að skrifa um fyrir Kop.is og ætlaði að reyna að opna internetið ekki neitt næstu tvo tíma. Um háftíma síðar, þegar Liverpool voru komnir í álitlega eitt núll stöðu, bankaði konan mín á hurðina og bað mig vinsamlegast að fríka ekki út. Við vorum að fara að eignast kríli. Skyndilega var hvorki leikurinn né bókin svo stór.
- Að halda á Síðasta bóksalanum/Útgáfuhófið. Vikurnar í desember þar sem ég var á milljón að undirbúa útgáfu bókarinnar renna svolítið saman í eina sælu vímu, en að setjast við borðið í útgáfuhófinu, að afhenda ættingjum mínum bókina, að tæma brettið af bókum inní bíl, að sjá bókina á borðinu í Nexus og fleiri augnalik voru ógleymanleg.
- Að fagna Íslandsmeistaratitli Fimleikafélagsins í Mossfellsbæ og allt það sem gekk á þar á undan, þá sérstaklega einvígi FH og ÍBV í undanúrslitum.
- Að klára Laugavegshlaupið og sitja í tjaldinu í Þórsmörk eftir það. Aldrei hefur verið jafn gott að gera ekki neitt í nokkrar mínútur
- Að taka þátt í að steggja góðvin minn í Dyflinni á febrúar.
- Brúðkaup sama vinar í Þýskalandi.
- Að ná bronsi á Íslandsmeistaramótinu í Jitsi og fá bláa beltið mitt skömmu seinna. Ég heimsótti líka Jits æfingar utan Íslands í fyrsta sinn á árinu og var það stórskemmtilegt.
- Afmælistónleikar Rottweiler í maí og Akrafjall hlaupið morguninn eftir.
- Að deila helgi með konunni minni í Tartu (Eistlandi), á Snæfellsnesi og Lundúnum. Að ganga ótrúlega fallega gönguleið frá Þakgili að Huldujökli örstuttu áður en veðrið fór til fjandans og bruna svo heim.
- Matarvagna hátíðin í Reykjavík.
- Eitt lítið að lokum. Á einu af löngu hlaupunum mínum fauk hvíta heyrnatólið úr eyranu mínu og lenti í snjónum. Þrátt fyrir töluverða leit fann ég það ekki. En ég nánast gargaði úr gleði þrem vikum seinna þegar snjóinn hafði tekið upp og tólið lá enn þá á sínum stað. Svo gargaði ég raunverulega þegar ég hafði hlaðið það og í ljós kom að það virkaði eftir næstum mánuð í snjónum.
Laugavegurinn
Ég skrifaði nokkur þúsund orð um það að hlaupa Laugaveginn í sumar og hægt er að finna þá pistla hér fyrir neðan. Ég hef litlu við þá að bæta, nema kannski að nokkrum mánuðum seinna er maður mun stoltari af því að hafa klárað hlaupið en þegar ég lauk því.
Leiðin að Laugavegi 2024: Fyrsti hluti
Leiðin að Laugavegi 2024: Annar hluti
Leiðin að Laugavegi 2024: Þriðji hluti
Leiðin að Laugavegi 2024: Fjórði hluti
Atvinnumissir
Að missa vinnuna er aldrei gaman, allavega hef ég ekki verið í nægilega slæmri vinnuu til þess. Nú á haustmánuðum komst ég að því að vinnuveitandi hafði spennt bogan of hátt þegar við vorum ráðin fyrr á árinu og var ég því látin taka pokan minn. Ég bjóst vikum saman við því að finna fyrir högginu, en það kom ekki. Kannski er ástæðan að þetta var í annað árið í röð sem ég ég hef þurft að leita nýrrar vinnu, eða kannski bara að ég hafði ekki verið svo lengi á staðnum að hann væri orðin hluti af sjálfsmyndinni. Líklegast er samt að þegar þetta gerðist voru nokkrir dagar í að söfnunin fyrir bókinni hefðist og ég hafði um nóg annað að hugsa.
Nýrnasteinar
Ég var harkalega myntur á það í haust að hlutir geta breyst hratt þegar ég reyndi að sofna helverkjaður og andvaka. Ég ætla að hlífa þér við smáatriðum næstu klukkutíma, en lokaniðurstaðan var að ég var að senda frá mér nýrnastein. Ég var komin upp á bráðamóttöku um klukkan tvö og gekk heim um tíuleytið um morgun, uppfullur af pirringi yfir hversu lengi allt hafði tekið, en líka gleði að þessu væri lokið. Miðað við sögur sem ég heyrt síðan slapp ég vel, en ætla þó að gera mitt besta til að forðast þetta helvíti í framtíðinni, ef ekki til annars en að sleppa við blöðruspeglunina.
Bestu bækur ársins (endurreisn Andskoti góðra bóka á Substack)
Um mitt sumar stofnuðu vinnufélagar mínir rás á fyrirtækjanetinu þar sem við gátum deilt hugleiðing, umsögnum og gagnrýni um bækur. Ég missti mig örlítið. Ekki nóg með að ég nyti þess í botn að skrifa um þær bækur sem ég var að lesa hverju sinni og hafði ótrúlega gaman að því að fá hrós fyrir litlu textanna sem ég setti saman um þær. Það sem meira var þá fór mig að hlakka til þess að skrifa um bækurnar sem ég var að lesa.
Áður en þetta gerðist áttaði ég mig ekki á hversu mikið ég saknaði þess að halda úti póstlistanum Andskoti góðar bækur. Ég er búin að hafa það bakvið eyrað að endurvekja þennan lista í meira en ár. Það sem ég óttaðist mest var að setja hann aftur í gang og svo ekki halda honum út (eins og ég hafði gert einu sinni). Á meðan ég stússaðist í Síðasta bóksalanum þá skrifaði ég uppköst af þó nokkrum greinum fyrir Andskoti góðar bækur til að með góðan banka. Fyrsta verk næsta árs verður að setja þetta aftur af stað, með einni breytingu. Listinn verður nú hluti af Substack sem ég er búin að stofna. Ég ætla nota þetta fyrir allt sem hefði annars átt heima á þessari síðu. Eftir að hafa gefið út bókina var mér nokkuð ljóst að ég hefði átt að gera þetta fyrir löngu. Fyrsti pósturinn verður þrjár bestu bækur sem ég kláraði á árinu. Þær eru: Nuclear War: A Scenario (eftir Annie Jacobsen), Elon Musk (Eftir Walter Isaacson) og Hyperion (eftir Dan Simmons).
Síðasti bóksalinn
Að gefa út bók var markmið sem ég hef nostrað við síðan ég var barn og án nokkurs vafa stærsta skapandi verkefni sem ég hef ráðist í. Þetta voru í raun fjögur tengd verkefni: Skrif, söfnun, útgáfa og eftirfylgni (sem mun ganga fram á næsta ár).
Fyrsta var að skrifa bókina og sannfæra mig, með hjálp góðra yfirlesara, að hún væri í raun það góð að hún ætti erindi við almennan lesenda. Þessu lauk fyrrir um ári og í janúar hóf ég að senda handritið á útgefendur. Fyrir mörgum árum sagði mér útgefandi að það væri álitin mikill dónaskapur að senda handrit á marga útgefendur í einu. Satt besta segja veit ég ekki hvort það sé rétt, eða bara hennar skoðun, en hvernig sem það var þá sendi handritið á útgefendur og beið þolinmóður. Kannski ekki svo þolinmóður. Það er alltaf leiðinlegt þegar nei berst, en ekki nálægt jafn slæmt og þegar maður hefur beðið í margar vikur og ekkert svar fæst. Eftir að hafa lent í því síðarnefna þrisvar í röð þá ákvað ég að ég nennti þessu ekki lengur og að það væri minna mál að gera þetta sjálfur.
Næsta verkefni var áætlanagerð og fjármögnun. Frá upphafi vissi ég að þetta verkefni yrði fjármagnað með hópsöfnun á Karolina Fund. Það voru nokkrar stórar ákvarðanir sem þurfti að taka. Til dæmis hversu stórt upplag ætti að prenta, hvað væri raunhæft að safna miklu og hvenær væru raunhæft að koma bókinni út. Af ást á íslenska jólabókaflóðinu vildi ég ólmur koma henni út fyrir jól og taldi mig hafa rétt nægan tíma til þess. Líklega var það röng ákvörðun, en að sama skapi þá er ákveðin fókus sem fæst við að gefa sér ekki alveg nægan tíma. Eftir á að hyggja hefði verið best að koma verkinu af stað þremur mánuðum fyrr og haft allt haustið til að kynna það, en kannski hefði þá bókin bara drukknað í hinum bókunum.
Það sem mestu skipti fyrir Karolina Fundinn voru myndböndin, sem náðu fínustu dreifingu og ég skulda Einari Westlund mikið þakklæti fyrir vinnuna sem hann vann. Aðvelt að vera vitur eftir á en við hefðum líklega átt að gera töluvert fleiri, en ég skulda líka tvö tengd söfnuninni sem koma á nýju ári.
Þessir 40 dagar tóku ansi mikið á andlega, þetta var á sama tíma og ég missti vinnuna og komst að því að barn væri á leiðinni. En ég hélt áfram að tikka út efni og þökk sé örlæti rétt rúmlega hundrað manns stóð ég uppi með allan prentkostnað dekkaðan og mesta áhættan við útgáfu bókarinnar kláruð. Þar að auki var búið að selja vel yfir hundrað eintök af bókinni. Þetta var erfitt en ekki óyfirstíganlegt.
Þegar ég og Júlíus Valdimarsson, sem setti upp bókina og hannaði hina frábæru kápu, hittumst fyrst til að ræða verkefnið sagði ég honum að það væri eitt stórt markmið: Að þegar fólk sæi bókina og opnaði hana væri ekki séns að fatta að hún væri sjálfsútgáfa. Hann steingleymdi þessu, en er slíkur fagmaður að þetta markmið tókst hvort eð er. Hann á skilið gífurlegt hrós fyrir vinnu sína við þetta verkefni eins og allt sem hann tekur sér fyrir hendi.
Þegar söfnunin kláraðist voru innan við tveir mánuðir til jóla. Við þurftum að hafa hraðar hendur. Eftir á að hyggja hefði ég átt að fara mun fyrr af stað með prófarkalestur og uppsetningu, en að ég hafði áhyggjur af því að söfnunin myndi ekki takast og var smá heigull með að fara of snemma af stað. Fólk sagði við mig að gera þetta fyrr og ég hefði átt að hlusta.
En prófarkalesarinn og uppsetjarinn unnu svakalegt þrekvirki á örfáum dögum og þá var komið að síðasta vafaatriðinu. Hversu hratt myndi prentsmiðjan (Prentmet/Oddi) getað prentað verkið. Það hjálpaði ekki að ég hafði miskilið tímalínuna sem þeir gáfu mér, þannig að þeir lofuðu í raun ekki jafn miklum hraða og ég hélt. En þeir redduðu málinu. Komu þessu frá sér miklu hraðar en ég bjóst við og þeir þurftu mér til gífurlegrar gleði. Næsta mál voru nokkrir dagar í dreifingu, að skipuleggja og halda útgáfuhóf.
Þetta var töluverð vinna á stuttum tíma. Eins og ég skrifaði áðan hefði ég viljað hafa nokkra mánuði í þetta, ég sé núna hversu margt var í raun ekki raunhæft fyrr en ég var komin með bókina í hendurnar. En hún situr heima í nokkur hundruð eintökum og ég lýt á það sem verkefni næsta árs að koma henni í sem flestar hendur.
Ps. Það er hægt að tryggja sér eintak hérna, fyrstu viðbrögð við bókinni hafa verið afar jákvæð.
Horft til 2025
Hluti af því að horfa svona til baka er að ákveða hvað kemur næst. Ég er byrjaður á næstu bók á eftir Síðasta bóksalanum og stefniá að hún komi út 2026. Í millitíðinni er pælingin að herja á alla staði og miðla sem mér dettur í hug og reyna að losa mig kassana sem sitja núna í herberginu. Ef þið eruð með bókaklúbb, hlaðvarp, bókaráðstefnu eða annað slíkt og hafið áhuga á verkefninu megið þið endilega heyra í mér. Eins og ég sagði áðan skyldi ég á meðan ég var að dreifa bókinni að ég hefði átt að halda póstlistanum mínum gangandi. Ég er ekki alveg nógu ánægður með þessa heimasíðu svo ég ætla að færa skrif mín, bæði Andskoti góðar bækur og annað, yfir á Substack. Ef þið viljið skrá ykkur og heyra frá mér þegar ég gef eitthvað út, er það gert hér.
Takk fyrir árið góða fólk, ég hlakka sannarlega til næsta.















