Áramótauppgjör – 2024.

Það eru væntanlega ákvarðanir mínar sem valda því að á nokkurra ára fresti koma ár, þar sem nánast allt gerist. Sem betur fer dreifðust viðburðir ársins ágætlega, en enga síður sit ég hér og spyr mig: Vá, var þetta allt á ekki lengri tíma? Það var sérstaklega á seinni hluta ársins sem eitthvað risastórt virtist dúkka upp á tveggja vikna fresti og þrá mín eftir jólafríi í Eistlandi var orðin ansi sterk dagana áður en við flugum hingað út. En það er þess virði að lýta til baka og  ekki sýst fram veginn.

Hápunktar

  • Daginn sem við settum hópsöfnun fyrir Síðasta bóksalan í gang, var hellingur á dagskrá. Ég vaknaði snemma, setti inn myndir og myndbönd á rétta staði og birti pistil á fésbókinni um það sem framundan var. Eftir að hafa fengið það staðfest að allt væri að birtast og virka kveikti ég á Liverpool leiknum (gegn Crystal Palace) sem ég átti að skrifa um fyrir Kop.is og ætlaði að reyna að opna internetið ekki neitt næstu tvo tíma. Um háftíma síðar, þegar Liverpool voru komnir í álitlega eitt núll stöðu, bankaði konan mín á hurðina og bað mig vinsamlegast að fríka ekki út. Við vorum að fara að eignast kríli. Skyndilega var hvorki leikurinn né bókin svo stór.
  • Að halda á Síðasta bóksalanum/Útgáfuhófið. Vikurnar í desember þar sem ég var á milljón að undirbúa útgáfu bókarinnar renna svolítið saman í eina sælu vímu, en að setjast við borðið í útgáfuhófinu, að afhenda ættingjum mínum bókina, að tæma brettið af bókum inní bíl, að sjá bókina á borðinu í Nexus og fleiri augnalik voru ógleymanleg.
  • Að fagna Íslandsmeistaratitli Fimleikafélagsins í Mossfellsbæ og allt það sem gekk á þar á undan, þá sérstaklega einvígi FH og ÍBV í undanúrslitum.
  • Að klára Laugavegshlaupið og sitja í tjaldinu í Þórsmörk eftir það. Aldrei hefur verið jafn gott að gera ekki neitt í nokkrar mínútur
  • Að taka þátt í að steggja góðvin minn í Dyflinni á febrúar.
  • Brúðkaup sama vinar í Þýskalandi.
  • Að ná bronsi á Íslandsmeistaramótinu í Jitsi og fá bláa beltið mitt skömmu seinna. Ég heimsótti líka Jits æfingar utan Íslands í fyrsta sinn á árinu og var það stórskemmtilegt.
  • Afmælistónleikar Rottweiler í maí og Akrafjall hlaupið morguninn eftir.
  • Að deila helgi með konunni minni í Tartu (Eistlandi), á Snæfellsnesi og Lundúnum. Að ganga ótrúlega fallega gönguleið frá Þakgili að Huldujökli örstuttu áður en veðrið fór til fjandans og bruna svo heim.
  • Matarvagna hátíðin í Reykjavík.
  • Eitt lítið að lokum. Á einu af löngu hlaupunum mínum fauk hvíta heyrnatólið úr eyranu mínu og lenti í snjónum. Þrátt fyrir töluverða leit fann ég það ekki. En ég nánast gargaði úr gleði þrem vikum seinna þegar snjóinn hafði tekið upp og tólið lá enn þá á sínum stað. Svo gargaði ég raunverulega þegar ég hafði hlaðið það og í ljós kom að það virkaði eftir næstum mánuð í snjónum.  

Laugavegurinn

Ég skrifaði nokkur þúsund orð um það að hlaupa Laugaveginn í sumar og hægt er að finna þá pistla hér fyrir neðan. Ég hef litlu við þá að bæta, nema kannski að nokkrum mánuðum seinna er maður mun stoltari af því að hafa klárað hlaupið en þegar ég lauk því.

Leiðin að Laugavegi 2024: Fyrsti hluti

Leiðin að Laugavegi 2024: Annar hluti

Leiðin að Laugavegi 2024: Þriðji hluti

Leiðin að Laugavegi 2024: Fjórði hluti

Atvinnumissir

Að missa vinnuna er aldrei gaman, allavega hef ég ekki verið í nægilega slæmri vinnuu til þess. Nú á haustmánuðum komst ég að því að vinnuveitandi hafði spennt bogan of hátt þegar við vorum ráðin fyrr á árinu og var ég því látin taka pokan minn. Ég bjóst vikum saman við því að finna fyrir högginu, en það kom ekki. Kannski er ástæðan að þetta var í annað árið í röð sem ég ég hef þurft að leita nýrrar vinnu, eða kannski bara að ég hafði ekki verið svo lengi á staðnum að hann væri orðin hluti af sjálfsmyndinni. Líklegast er samt að þegar þetta gerðist voru nokkrir dagar í að söfnunin fyrir bókinni hefðist og ég hafði um nóg annað að hugsa.

Nýrnasteinar

Ég var harkalega myntur á það í haust að hlutir geta breyst hratt þegar ég reyndi að sofna helverkjaður og andvaka. Ég ætla að hlífa þér við smáatriðum næstu klukkutíma, en lokaniðurstaðan var að ég var að senda frá mér nýrnastein. Ég var komin upp á bráðamóttöku um klukkan tvö og gekk heim um tíuleytið um morgun, uppfullur af pirringi yfir hversu lengi allt hafði tekið, en líka gleði að þessu væri lokið. Miðað við sögur sem ég heyrt síðan slapp ég vel, en ætla þó að gera mitt besta til að forðast þetta helvíti í framtíðinni, ef ekki til annars en að sleppa við blöðruspeglunina.

Bestu bækur ársins (endurreisn Andskoti góðra bóka á Substack)

Um mitt sumar stofnuðu vinnufélagar mínir rás á fyrirtækjanetinu þar sem við gátum deilt hugleiðing, umsögnum og gagnrýni um bækur. Ég missti mig örlítið. Ekki nóg með að ég nyti þess í botn að skrifa um þær bækur sem ég var að lesa hverju sinni og hafði ótrúlega gaman að því að fá hrós fyrir litlu textanna sem ég setti saman um þær. Það sem meira var þá fór mig að hlakka til þess að skrifa um bækurnar sem ég var að lesa.

Áður en þetta gerðist áttaði ég mig ekki á hversu mikið ég saknaði þess að halda úti póstlistanum Andskoti góðar bækur. Ég er búin að hafa það bakvið eyrað að endurvekja þennan lista í meira en ár. Það sem ég óttaðist mest var að setja hann aftur í gang og svo ekki halda honum út (eins og ég hafði gert einu sinni). Á meðan ég stússaðist í Síðasta bóksalanum þá skrifaði ég uppköst af þó nokkrum greinum fyrir Andskoti góðar bækur til að með góðan banka. Fyrsta verk næsta árs verður að setja þetta aftur af stað, með einni breytingu. Listinn verður nú hluti af Substack sem ég er búin að stofna. Ég ætla nota þetta fyrir allt sem hefði annars átt heima á þessari síðu. Eftir að hafa gefið út bókina var mér nokkuð ljóst að ég hefði átt að gera þetta fyrir löngu. Fyrsti pósturinn verður þrjár bestu bækur sem ég kláraði á árinu. Þær eru: Nuclear War: A Scenario (eftir Annie Jacobsen), Elon Musk (Eftir Walter Isaacson) og Hyperion (eftir Dan Simmons).

Síðasti bóksalinn

Að gefa út bók var markmið sem ég hef nostrað við síðan ég var barn og án nokkurs vafa stærsta skapandi verkefni sem ég hef ráðist í. Þetta voru í raun fjögur tengd verkefni: Skrif, söfnun, útgáfa og eftirfylgni (sem mun ganga fram á næsta ár).

Fyrsta var að skrifa bókina og sannfæra mig, með hjálp góðra yfirlesara, að hún væri í raun það góð að hún ætti erindi við almennan lesenda. Þessu lauk fyrrir um ári og í janúar hóf ég að senda handritið á útgefendur. Fyrir mörgum árum sagði mér útgefandi að það væri álitin mikill dónaskapur að senda handrit á marga útgefendur í einu. Satt besta segja veit ég ekki hvort það sé rétt, eða bara hennar skoðun, en hvernig sem það var þá sendi handritið á útgefendur og beið þolinmóður. Kannski ekki svo þolinmóður. Það er alltaf leiðinlegt þegar nei berst, en ekki nálægt jafn slæmt og þegar maður hefur beðið í margar vikur og ekkert svar fæst. Eftir að hafa lent í því síðarnefna þrisvar í röð þá ákvað ég að ég nennti þessu ekki lengur og að það væri minna mál að gera þetta sjálfur.

Næsta verkefni var áætlanagerð og fjármögnun. Frá upphafi vissi ég að þetta verkefni yrði fjármagnað með hópsöfnun á Karolina Fund. Það voru nokkrar stórar ákvarðanir sem þurfti að taka. Til dæmis hversu stórt upplag ætti að prenta, hvað væri raunhæft að safna miklu og hvenær væru raunhæft að koma bókinni út. Af ást á íslenska jólabókaflóðinu vildi ég ólmur koma henni út fyrir jól og taldi mig hafa rétt nægan tíma til þess. Líklega var það röng ákvörðun, en að sama skapi þá er ákveðin fókus sem fæst við að gefa sér ekki alveg nægan tíma. Eftir á að hyggja hefði verið best að koma verkinu af stað þremur mánuðum fyrr og haft allt haustið til að kynna það, en kannski hefði þá bókin bara drukknað í hinum bókunum.

Það sem mestu skipti fyrir Karolina Fundinn voru myndböndin, sem náðu fínustu dreifingu og ég skulda Einari Westlund mikið þakklæti fyrir vinnuna sem hann vann. Aðvelt að vera vitur eftir á en við hefðum líklega átt að gera töluvert fleiri, en ég skulda líka tvö tengd söfnuninni sem koma á nýju ári.

Þessir 40 dagar tóku ansi mikið á andlega, þetta var á sama tíma og ég missti vinnuna og komst að því að barn væri á leiðinni. En ég hélt áfram að tikka út efni og þökk sé örlæti rétt rúmlega hundrað manns stóð ég uppi með allan prentkostnað dekkaðan og mesta áhættan við útgáfu bókarinnar kláruð. Þar að auki var búið að selja vel yfir hundrað eintök af bókinni. Þetta var erfitt en ekki óyfirstíganlegt.

Þegar ég og Júlíus Valdimarsson, sem setti upp bókina og hannaði hina frábæru kápu, hittumst fyrst til að ræða verkefnið sagði ég honum að það væri eitt stórt markmið: Að þegar fólk sæi bókina og opnaði hana væri ekki séns að fatta að hún væri sjálfsútgáfa. Hann steingleymdi þessu, en er slíkur fagmaður að þetta markmið tókst hvort eð er. Hann á skilið gífurlegt hrós fyrir vinnu sína við þetta verkefni eins og allt sem hann tekur sér fyrir hendi.

Þegar söfnunin kláraðist voru innan við tveir mánuðir til jóla. Við þurftum að hafa hraðar hendur. Eftir á að hyggja hefði ég átt að fara mun fyrr af stað með prófarkalestur og uppsetningu, en að ég hafði áhyggjur af því að söfnunin myndi ekki takast og var smá heigull með að fara of snemma af stað.  Fólk sagði við mig að gera þetta fyrr og ég hefði átt að hlusta.

En prófarkalesarinn og uppsetjarinn unnu svakalegt þrekvirki á örfáum dögum og þá var komið að síðasta vafaatriðinu. Hversu hratt myndi prentsmiðjan (Prentmet/Oddi) getað prentað verkið. Það hjálpaði ekki að ég hafði miskilið tímalínuna sem þeir gáfu mér, þannig að þeir lofuðu í raun ekki jafn miklum hraða og ég hélt. En þeir redduðu málinu. Komu þessu frá sér miklu hraðar en ég bjóst við og þeir þurftu mér til gífurlegrar gleði. Næsta mál voru nokkrir dagar í dreifingu, að skipuleggja og halda útgáfuhóf.

Þetta var töluverð vinna á stuttum tíma. Eins og ég skrifaði áðan hefði ég viljað hafa nokkra mánuði í þetta, ég sé núna hversu margt var í raun ekki raunhæft fyrr en ég var komin með bókina í hendurnar. En hún situr heima í nokkur hundruð eintökum og ég lýt á það sem verkefni næsta árs að koma henni í sem flestar hendur.

Ps. Það er hægt að tryggja sér eintak hérna, fyrstu viðbrögð við bókinni hafa verið afar jákvæð.

Horft til 2025

Hluti af því að horfa svona til baka er að ákveða hvað kemur næst. Ég er byrjaður á næstu bók á eftir Síðasta bóksalanum og stefniá að hún komi út 2026. Í millitíðinni er pælingin að herja á alla staði og miðla sem mér dettur í hug og reyna að losa mig kassana sem sitja núna í herberginu. Ef þið eruð með bókaklúbb, hlaðvarp, bókaráðstefnu eða annað slíkt og hafið áhuga á verkefninu megið þið endilega heyra í mér. Eins og ég sagði áðan skyldi ég á meðan ég var að dreifa bókinni að ég hefði átt að halda póstlistanum mínum gangandi. Ég er ekki alveg nógu ánægður með þessa heimasíðu svo ég ætla að færa skrif mín, bæði Andskoti góðar bækur og annað, yfir á Substack. Ef þið viljið skrá ykkur og heyra frá mér þegar ég gef eitthvað út, er það gert hér.

Takk fyrir árið góða fólk, ég hlakka sannarlega til næsta.

Leiðin að Laugavegi 2024: Fjórði hluti – Loka(kíló)metrarnir

Þessi pistill er fjórðií seríu sem um ferðalagið og undirbúning fyrir Laugavegshlaupið 2024. Ef þú vilt meira samhengi þá má finna fyrsta hluta hér, annan hér og þriðja hér.

Vikurnar fyrir

Þegar ég kom heim frá Eistlandi var komin tími á klára undirbúning og heimsækja bæði Úlfarsfell og Esjuna nokkrum sinnum. Ég náði mest að hlaupa 55 kílómetra í einni viku, vissulega ekki jafn mikið og ég hefði viljað, en góður slatti enga síður. Inn í þeirri viku var gott Esjuhlaup.

Úlfarsfell og Esjan gáfu mér töluverðan eldmóð. Í Esjunni Ultra II í fyrra fór ég tvisvar í röð upp að Steini. Vissulega fór ég bara einu sinni upp í þetta sinn, en núna leið mér vel á leiðinni niður og var nánast alveg góður í löppunum daginn eftir. Ferðirnar upp og niður Úlfarsfell voru hressandi, ekki jafn erfiðar og ég bjóst við.

Heilt yfir þá leið mér vel. Mig grunar að sama hversu vel undirbúin maður upplifir sig, þá veit maður ekki fyrr en á keppnisdag hvort maður sé tilbúin. Nánar tiltekið þegar hlaupið er vel rúmlega hálfnað.

Ef einhver hefði boðið mér að hlaupa Laugaveginn fyrr, á hér um bil hvaða degi vikurnar fyrir hlaup hefði ég þegið það. Eftir síðasta langa hlaupið mitt, tveim vikum fyrir keppnisdag, þá langaði mig bara að fara að koma mér af stað. Koma mér af stað og að klára. Þetta var búið að vera í undirbúningi í heilt ár og ég vissi að það var voða fátt til að gera síðustu tvær vikurnar annað en að hvílast og skokka, ef líkaminn væri ekki tilbúin núna væri fátt sem hægt að gera.

Fyrirlestur í Sportvörum um hlaupaleiðina og næringu í henni reyndist afar gagnlegur, bæði til að læra ný atriði og til að fá staðfestingu á að sumt sem maður var að hugsa væri rétt. Sömuleiðis þáttur Út að hlaupa strákana með næringarfræðingi.  Aðeins eitt atriði í þessum kennslustofum fékk mig til að hugsa „ó, ó nei,“ þegar fyrirlesarinn sagði að við hefðum átt að vera að toppa í æfingum tveimur vikum fyrr, en fyrirlesturinn var kvöldið eftir síðasta langa hlaupið mitt.

Flesta daga þessar vikur var ég bara að naga neglurnar og bíða eftir að komast af stað. Ég vildi ekki dæla í mig of miklum upplýsingum svona rétt fyrir hlaup, baslaði við að gera ekkert og beið átekta.

Dagarnir fyrir

Helgina fyrir hlaup naut ég þess að fljúga ásamt góðum vinum til Þýskalands í brúðkaup. Partíið var frábært, aldrei þessu vant fannst moskítóflugum svæðisins ég ekki girnilegasti útlendingurinn og ég náði að stimpla mig andlega frá undirbúningi. Það er að segja eftir að ég tók stutt morgunhlaup á brúðkaupsdeginum og taldi mig þá full undirbúin. Eftir þetta litla hlaup var ég líka extra þakklátur fyrir að Laugavegsleiðinni yrði merkt, svona víst að ég náði að villast í þýskum smábæ.

Síðustu dagana fyrir hlaup var ég stressaður. Ég skoðaði lagalistann aftur og aftur og hæðakortið sömuleiðis. Aftur og aftur endurtók ég planið í hausnum, teygði duglega og svo framvegis. Á þriðjudeginum fór ég á glímuæfingu og fattaði strax að ég var ekki að glíma, ég var bara að passa mig á að meiðast ekki. Reif reyndar helling af skinni af stóru tá á æfingunni, mæli ekki með. Ég hefði séð spaugilegu hliðina á því ef þetta sár hefði háð mér í hlaupinu, á endanum alla vega.

Þegar ég loksins fór og náði í dótið toppaði spennan. Ég át eins og skepna alla vikuna, pasta og kartöflur ofan á venjulegt mataræði, innyflum mínum til lítillar hrifningar. Þegar ég stoppaði við í apóteki sá ég þar þrúgusykur og ákvað að grípa með mér í vestið, sem átti eftir að reynast vel. Á föstudagskvöld var svo komin tími til að misheppnast fullkomlega að sofna, púlsinn var vel yfir meðaltali þar sem ég lá upp í rúmi klukkutímum saman og beið þess að vakna daginn eftir.

Keppnisdagur

Rétt eins og fyrir flug var maður pínu stressaður á að sofa yfir sig þennan blauta laugardagsmorgun. Ég hafði gert allt klárt daginn áður svo ég gat drifið mig í fötin, svolgrað hálfan kaffi í rólegheitum og lesið veðurkortin í rólegheitum áður en ég lagði af stað. Ekkert í veðurspánni vakti svo sem athygli, leit út fyrir að vera bara allt í lagi veður. Meira um það síðar.

 Þetta er loksins að byrja hugsaði ég.

Leiðin upp í Hrauneyjar steinsvaf ég, nema fimm mínútur á Selfossi þar sem einhverjum dreng sem hafði komist drukkinn í rútuna var kastað út. Ekki beint það sem ég átti von á að sjá, vona að það hann hafi skilað sér heill til byggða. Í Hrauneyjum var stoppað í morgunverðarhlaðborð, aldrei þessu vant í rútuferð voru allir komnir aftur um borð á réttum tíma og við keyrðum sátt inn í Landmannalaugar.

Það var rafmagnað andrúmsloft í náttúruperlunni. Hundruð hlaupara, tugir aðstandanda og einhver fjöldi af furðu lostnum ferðamönnum blönduðust undir fjöllunum. Það var ögn vindur en ekkert alvarlegt. Ég ákvað að halda mig við stuttermabolinn, passaði mig rosalega á að slíta ekki reim þegar ég fór í skónna og fékk þessa (allt of borubröttu) mynd tekna af mér, þambaði annan kaffi og kom mér í starthollið.

Þegar í hólfið var komið ákvað ég viljandi að vera aftarlega í hópnum. Hugsunin var svo að þetta væri fólk sem vildi vera á svipuðu róli og ég tímalega og flest þeirra væru reyndari ég. Þar með væri sniðugt að hafa þau fyrir framan mig að bremsa óhjákvæmilegt ofurkapp mitt.

Flautan gall. Við brunuðum af stað í heila 50 metra þar sem við komum að pínulítilli brú og flöskuháls myndaðist. Það að vera aftast hópnum var ekki jafn góð hugmynd og fyrir mínútu. En ég hló og sagði mér að þetta væri nú ástæðan fyrir að ég hefði ákveðið að vera aftast.

Á leiðinni upp í Hrafntinnusker leið mér frábærlega. Ég gekk rösklega upp flestar brekkur og í hvert sinn sem ég gerði það datt púlsinn duglega niður. Ég virtist geta gengið brekkurnar hraðar en flestir í kringum mig og naut þess að taka fram úr einum og einum á hverjum kílómetra, en fór mér þó ekki óðslega. Útsýnið var eins og úr öðrum heimi, eins og hlaupararnir þekkja flestir.

Kæri lesandi, þó þú hlaupir þessa leið aldrei get ég ekki mælt nógu sterkt með að ganga allavega að Hrafntinnuskeri, helst Álftavatni. Ef heimurinn var skapaður, þá nostraði skaparinn við þetta svæði.

Á leiðinni upp eftir var einn náungi sem fór óstjórnlega í taugarnar á mér. Ég bregst venjulega ekki illa við ókunnu fólki, en það var eitthvað við þennan eina hlaupara sem ég ákvað að væri gerpislegt. Ég sór við sjálfan mig að klára á undan þessum gæja. Fyrir mitt litla líf get ég útskýrt hvað kom yfir mig þarna og ég ber manninum enga kala, en keppnisskap mitt ákvað að hann væri erkióvinurinn.

Eftir um klukkutíma eða svo vorum við komin hátt upp í fjöllin og þoka skall á. Ég hugsaði með mér að líklega hefði ég átt að vita að í kringum Hrafntinnusker væri mikið af hrafntinnu, steinarnir glitruðu eins og svartir rýtingar allt í kringum hlaupaleiðina. Gullfallegt. Það var slatti af snjó þarna en hann var að mestu þéttur og góður, þó ég hefði á nokkrum stöðum þurft að stíga varlega til að forðast bláan krapa.

Þegar upp á fjallið var komið og ég fyllti á brúsan leið mér frábærlega. Mér fannst ég hafa nánast engri orku eytt, ég var ekki nema fimm mínútum frá þeim tíma sem ég vildi vera á. Mínar einu áhyggjur á þessum tímapunkti voru að hafa mögulega misst af hliðinu hjá drykkjastöðinni, sem mér datt í hug að yllu konunni minni og foreldrum heima áhyggjum.

Næsti kafli var meira af því sama. Þokan drap auðvitað nautnina af náttúrunni aðeins, ég sá ekki mikið lengra en í rassinn á næsta manni. Þangað til að við komum að Jökultungunum yfir Álftavatni.

Þið sem hafið ekki farið leiðinni, sjáið fyrir ykkur að veggur opnist fyrir framan ykkur. Handan veggsins, eftir klukkutíma í hvítu myrkri, er stöðuvatn sem glitrar fagurblátt, fjöll sem geyma rómantík hálendisisins og þú veist að erfiðasti hjallinn er að baki. Þessi skyndilega fegurð var svo óvænt og mögnuð að ég hreinlega flissaði.

Mynd af http://www.laugavegshlaup.is

Sama hvað kemur næst, þá var þetta þess virði fyrir þetta augnablik, hugsaði ég. Djöfull vissi ég ekki hvað ég var í vændum.

Allir, ég meina allir, sem ég talaði við um þetta hlaup vöruðu mig við að fara of hratt af stað upp að Hrafntinnuskeri og að fara of hratt niður Jökultungurnar. Án þess að vera viss þá held ég að tungurnar séu svona 2 kílómetrar, kannski styttra, af bröttum stíg sem liggur fram og til baka niður fjallið. Ég ofpeppaðist. Á undan mér var skynsamur karl sem sem dempaði hraðan minn til að byrja með (væntanlega án þess að hafa hugmynd um að ég væri þarna). Eftir svona hálfa leiðinni sá ég smá útskot og baunaði fram úr honum. Mér fannst ég vera að fara afar létt og áreynslulaust niður, en líklega hef ég brennt lærin mín meira en ég gerði mér grein fyrir. En ég glotti í aðra tönn þegar ég kom aftur á jafnsléttu, allt of góður með mig. Ég taldi mig hafa framkvæmt hlaupið fullkomlega fram að þessu.

Svo byrjaði vindurinn. Í spánni sem við fengum senda daginn áður stóð að veðrið yrði hæglátt. Ég hef mikla samkennd með þeim sendu út þann tölvupóst. Að spá fyrir um vinda á hálendinu er nánast ógjörningur og veðurguðirnir ákváðu að færa veðrið bara aðeins, sem þýddi að á tug kílómetra kafla vorum við með vindinn beint í smettið. Það, auk alls þess sem á undan gekk, þýddi að það fór að draga af mér.

Í Álftavatni fann ég að gleðin og spennan í mér fór minnkandi og kollurinn fór að verða til vandræða. Nú fylgdi hverju einasta skrefi smá sársauki. Ekki mikill, en smá. Lögin í eyrunum, sem höfðu glatt mig svo mikið á leiðinni upp fjöllin höfðu ekki sömu áhrif. Það var líka lígjandi að líta á úrið á því sem ég hélt að væri þægilegur skokk hraði og sjá að þökk sé vindinum var ég nánast að ganga. Kannski hefði verið skynsamlegast að taka kraftgöngu í versta rokinu, frekar en að djöflast við að reyna að hlaupa. Ég ríghélt í eina hugsun: Ekki. Fokking. Stoppa.

Frá Álftavatni að Bláfjallahvísl eru að ég held tíu kílómetrar. Vindurinn var í trýnið, þetta var erfitt. En það var enn þá smá kraftur í mér. En ég fann hann þverra með hverju skrefinu sem leið. Í versta sandfokinu var eins og að lenda í hagléli á stuttermabol. Ég frestaði því allt of lengi að fara í regnjakka að því að ég laug að sjálfum mér að mér að þetta væri alveg að skána. Einhvers staðar þarna stoppaði ég óvart úrið mitt. Ég veit ekki hversu lengi, allavega tvo kílómetra. Það sem eftir var hlaupsins hafði ég eiginlega ekki hugmynd um hvað ég ætti mikið eftir, né hversu lengi ég hafði hlaupið. Þegar ég fór fram hjá Bláfjallahvísl hugsaði ég: hálfnaður, jess, ég er hálfnaður.

Svo hugsaði ég: Fokk. Ég er bara hálfnaður.

Næsti kafli hlaupsins leið í hálfgerði móki. Ég er ekki góður í að vera jákvæður við sjálfan mig. Á meðan lappirnar báru mig hægt og rólega áfram fór hausinn í niðurrifs gír. Hvað ertu að gera hérna? Afhverju ertu ekki heima með konunni í sófanum? Þetta er ekki einu sinni uppáhalds íþróttin þín! Þetta hentar þér ekki, þú átt að vera að lyfta og glíma, þú komst þér í þetta sjálfur! Hversu góður varstu með þig að halda þú gætir bara rúllað þessu hlaupi með ekki betri undirbúningi, af hverju æfðirðu ekki betur, aldrei aftur gera þetta og svo framvegis og framvegis. Svona fór hugsanir mínar hring eftir hring í örugglega tvo, kannski þrjá tíma. Kannski lengur. Ekki hjálpaði að hver hlauparinn á fætur öðrum tók fram úr mér, þar af margir sem ég hafði verið svo ánægður að marsera fram út snemma í hlaupinu.

Varúð. Ekki lesa þessa málsgrein með mat í hönd: Á þessum kafla var maginn farin að vera með smá vesen. Ég fann öðru hvoru hörku verki í honum og bætti nokkrum sinnum í vindinn bakvið mig ansi hressilega. Satt best að segja voru vindgusurnar aftan úr mér á einum stað slíkar að ég hélt ég hefði hreinlega skitið á mig. Sem betur fer var svo ekki og þrátt fyrir verkina gat ég borðað alveg jafn mikið og ég vildi og ég fór að dæla í mig þrúgusykri með matnum. Hver sem setti þrúgusykur á borðið í apótekinu í Suðurveri, þú ert snillingur.

Nokkrir hlutir náðu að draga mig úr þessu sjálfsvorkunargír. Á leiðinni upp brekku sagði einhver þjáningarbróðir eitthvað um að skórnir mínir væru stórir. Ég svaraði með brandara og fékk gaurinn til að glotta, sem gladdi mig aðeins. Í hægaganginum upp brekkurnar náði ég að hvílast andlega og líkamlega og eftir Emstrur fór ég að reyna að einbeita mér að næstu stiku og næstu stiku í stað þess að hugsa um endamarkið. Líklega var mikilvægast að einn karlinn sem fór fram úr mér spurði hvort ég væri góður og þegar ég laug því að svo væri, sagði hann mér að miðað við stað og stund gæti ég labbað restina af hlaupinu og samt klárað. Það sagði mér að þetta væri virkilega að styttast og bara það að hann athugaði með mér gaf mér einhverja hlýju í hjartað.

Þó maginn væri farin að kvarta hástöfum náði ég að troða í mig snúð og (helling af) þrúgusykri þegar ég kom að Kápunni frægu. Reyndar var ég búin að heyra svo margt um þetta litla fjall að það voru ákveðin vonbrigði þegar ég kom að því. Já það var viðbjóður að fara upp og niður það, en ég bjóst við verru.

Nú bar komið að loka metrunum. Ég óð yfir Þjórsá, eins og áður í hlaupinu fannst mér afar hressandi að finna ískalt vatnið renna um lappirnar. Við árbakkann skildi ég inn við bein að ég var alveg að verða búin, ég var komin í skóg. Ég bað um eina mynd af mér á leiðina upp brekku, vildi fanga hvernig mér leið áður en sigurvíma þess að klára kom yfir mig.

Svo hljóp erkióvinurinn úr upphafi hlaupsins fram hjá mér.

Ég hugsaði nei. Á leiðinni upp næstu brekku náði ég honum og svo þegar ég kom á „jafnsléttu“ tók ég á sprett. Það sem eftir lifði hlaups hljóp ég eins hratt og ég gat, knúin áfram af keppnisskapi, háværri rapptónlist, þrúgusykri og hvatningu frá þeim sem voru þarna í kring. Í smástund leið mér gjörsamlega frábærlega, hrópin og köllin frá fólkinu voru væn innspýting. Eins kjánalega og það hljómar taldi ég sekúndurnar frá því að fólk hvatti mig og þangað til ég heyrði þau fagna næsta manni. Ég ímyndaði mér að erkióvinurinn (sem hafði ekki hugmynd um að við værum í kappi) væri næsti maður og fagnaði að heyra bilið aukast. Þegar ég sá glitta í hellinn milli Húsadals og Bása brosti ég, komin á svæði sem ég þekkti, alveg að klárast.

Í fjarska sá ég glitta í græna hliðið. Alveg að verða búið, köllin í kringum mig breyttust úr einum og einum að hrópa í hávaða og læti. Ég heyrði nafnið mitt kallað og gleymdi mér gjörsamlega á sprettinum, fór í gegnum hliðið og hrundi niður. Ég var örmagna, en einhver setti medalíu um hálsinn á mér og spurði hvort ég væri í lagi. Ég svaraði nei og fjórar sterkar hendur studdu mig í sjúkratjaldið.

Þetta tókst.

Eftirmálar.

Eftir góða hvíld í sjúkrarýminu og langa setu (ótrúlegt hversu gott það getur verið að sitja) baðaði ég mig og hélt heim. Það kitlaði að sjá hamingjuóskir streyma inn á samfélagsmiðlum, að vita að heima beið heit máltíð og að eftir nokkra klukkutíma yrði ég steinsofnaður. Félagsskapurinn í rútunni var líka frábær og ég held að Sómasamlokan á Hvolsvelli verði seint toppuð.  

Hvernig líður mér með þetta eftir á að hyggja? Auðvitað ótrúlega stoltur að hafa klárað, ánægður með að hafa aldrei stoppað og fúll yfir hvernig höfuðið brást mér á löngum kafla. Ég vissi að maður yrði að þjást í svona hlaupi en ég var greinilega ekki tilbúin í það, eða ég kunni ekki að takast á við það. Mér leið aðeins betur þegar ég sá á miðlunum að fólk eins og Mari ofurhlaupari kölluðu þetta hlaup ógeðslegt, kannski voru aðstæður ekki innan eðlilegra marka.

Eftir því sem dagarnir líða er ég ánægðari og ánægðari með hlaupið. Ég get pikkað út ýmislegt sem vel fór: Þó mig langaði af öllu hjarta að hætta þá vissi ég að það væri ekki að fara að gerast, mér leið vel í brekkunum (á uppleið) og ég náði að klára hálfbrosandi á hörku spretti. Ef maður er hreinskilinn þá hefur það hjálpað að fá viðbrögðin og athyglina frá öðru fólki. Ef ég geri þetta aftur mun ég æfa betur, sérstaklega niðurhlaupin og vonandi mun ég ná að halda höfðinu á betri stað.

Mæli ég með þessu? Klárlega. Allavega einu sinni. Virðing mín fyrir þeim sem stunda þetta hefur vaxið um helming og var hún mikil fyrir. Allir sem klára svona hlaup, hvort sem það er á fjórum tímum eða níu, þið eruð mögnuð.

En þá er spurningin, geri ég þetta aftur? Satt best að segja veit ég það ekki. Þó það hafi verið mögnuð tilfinning að ljúka hlaupinu og ótrúlega gaman fyrsta þriðjunginn, þá var vanlíðanin mikil á löngum kafla. Það pirrar mig samt að vita að ef ég geri þetta bara einu sinni þá hafi ég ekki notið mín betur, hvort sem það var vegna veðurs eða haussins. Var það veðrinu að kenna? Er þetta bara eðlilegur hluti af svona hlaupum? Ég ætla klárlega að taka mörg fleiri utanvegahlaup, en kannski eru þessar ultra vegalengdir ekki fyrir mig.

En nú er snúa sér að allt öðru stóru verkefni. Að hlaupa Laugaveginn var það erfiðasta sem ég hef gert Ég vona að þú hafir notið lestursins og að þú hafir jafnvel haft smá gagn af, sérstaklega ef þú ert í sömu sporum og ég var í fyrir ári og ert að íhuga að skella þér að ári. Mundu bara, sama hversu erfitt þú heldur að þetta verður, þá verður þetta erfiðara, sama hversu gaman þú heldur að þetta verði þá verður þetta skemmtilegra og sama hversu stoltur þú heldur að þú verður eftir hlaupið, þá verðurðu stoltari.

Sjáumst í brekkunum

Ingimar

Leiðin að Laugarvegi 2024: Þriðji hluti – Sumarið er tíminn

Þessi pistill er sá þriðji í röð pistla sem ég er að skrifa um ferðalagið að Laugavegshlaupinu 2024. Þann fyrsta má finna hér og annan hér.

Leiðindameiðsli.

Þó ég hefði ekki farið til læknis um það leyti sem ég skrifaði síðasta pistil var nokkuð ljóst að einhverskonar álagsmeiðsli voru að myndast undir ilinni á mér. Eins og ég skrifaði um síðast fór þetta illa í skapið á mér og skelfilega með æfingarplanið mitt. Ég gerði nokkrar breytingar til að reyna að vinna með þetta. Ég keypti mér innlegg í skóna sem virtust hjálpa slatta, ég hætti að ganga í vinnuna, fór á hjólinu flesta daga í stað þess að ganga og snarminnkaði hlaupin. Gott fyrir ilina en á engan hátt kjörundirbúningur fyrir ofurhlaup. 

Í maí virtist verkurinn vera að hverfa hægt or rólega. Þá var ég varla búin að hlaupa í tvær vikur og hafði þungar áhyggjur. Ef verkurinn kæmi aftur strax og ég byrjaði að hlaupa á fullu sá ég ekki fram á að geta æft að viti fyrir Laugaveginn. Ég er ansi mikið fyrir að halda áfram þó mig verki, en það eru takmörk fyrir hvað er skynsamlegt.

Um þetta leyti ákvað ég að Akfrafjall hlaupið yrði prófsteinn. Ef ég væri að drepast í ilinni eftir það myndi ég kanna hvort ég gæti selt miðan minn í Laugaveginn, eða frestað hlaupinu um ár. Ef engin verkur gerði vart við sig myndi ég gleyma þessu helvíti, æfa eins og ég gæti síðustu átta vikurnar fram að hlaupi og keyra á dæmið.

Akrafjall Ultra 2024

Vikuna fyrir hlaupið var ég upp og niður. Gallinn við að fylgjast vel með hvort einhver verkur sé að gera vart við sig, er að einbeitingin er gífurleg og maður tekur eftir hverju einasta smátriði þar sem verkurinn ætti að vera. Einn daginn fann ég ekki fyrir neinu, annan var ég stífur og slæmur. En síðustu daga fyrir Akrafjallið var ég allt í lagi.

Kannski vita reyndir hlauparar hvernig kjörið kvöld fyrir hlaup er. Ekki veit ég það. En líklega er kjörin undirbúningur ekki afmælistónleikar XXX Rottweiler. Viðburðurinn var gargandi snilld, en ég og félagi minn mættum allt of snemma á staðinn og enduðum á að standa í tvo-þrjá tíma fyrir tónleikana og svo í gegnum allt þriggja tíma settið sem Erpur og Bent buðu upp á. Stórfenglegir tónleikar, en fæturnir voru vel þreyttir þegar ég kom heim, töluvert eftir áætlaðan svefn tíma.

Aksturinn upp á Akranes var þægilegur og góður og við gátum ekki verið mikið heppnari með veður. Skipuleggjendur höfðu ákveðið að hefja leik við Ultraform stöðina og klára við ÍA völlinn. Ég áttaði mig engan vegin á hversu langt væri þarna á milli en grunaði að það væri betra að ganga vegalengdina fyrir hlaupið en eftir það. Ég var óvart mættur löngu fyrir rástíma, hafði tíma til grípa kaffi á leiðinni niður að Ultraform, fylgjast með hægfara jeppa missa dekkið undan sér og svo sjá fólkið í 27 kílómetra hlaupinu ræsa. Það reyndist happ að mæta svona allt of snemma, þar sem ég óhjákvæmilega gleymdi einhverju í bílnum og þurfti að endurtaka gönguna.

Ég verð að hrósa fólkinu sem skipulagði hlaupið. Þegar maður mætir á íþróttaviðburði er alltaf orka í loftinu. Það er erfitt að lýsa henni, hún er aldrei eins og örruglega eru hún að miklu leyti í höfðinu á manni. Maður skynjar það þegar skipulagið er gott, þegar þáttakendur eru upp til hópa í góðu skapi og maður veit að ekkert óvænt er líklegt til að gerast. Bara smáatriði eins og að það væru auka kamrar fyrir við rásmarkið og það var augljóst hvar maður gæti fyllt á vatnsbrúsa, þetta skiptir hellings máli. Þetta eru smáatriðin sem greina milli góðrar upplifunar og slæmrar.

Einnig hvernig er brugðist við þegar maður biður um hjálp, þó sú beiðni hafi verið fáranleg. Þegar ég var byrjaður að hita upp tókst mér að slíta reimina á skónum mínum. Ég hef aldrei lent í þessu áður og ótrúlegt en satt er lítið um búðir við strandgötu á Akranesi þar sem maður getur gripið reim. Ég spurði við skráningarborðið hvort þeir ættu reimar. Þeir bentu mér á skipuleggjanda, sem gerði sér lítið fyrir og kippti reim úr eigin skó og lét mig hafa. Ótrúlega þakklátur fyrir svona viðbragð (og fyrirgefðu að reimin komst ekki til skila eftir hlaupið, ég lét sjálfboðaliða hafa hana).

Svo var komið að hlaupinu sjálfu. Ein af hetjunum úr bakgarðshlaupinu mikla ræsti okkur af stað. Hann deildi með okkur möntrunni sinni „this is what I trained for, this is what I came for.“ Svo sagði hann orðin sem ómuðu í hausnum á mér út hlaupið: „Muniði þetta þegar þið eruð að drepast á eftir og TUSSISTI ÁFRAM.“ Ég hugsaði mikið um þetta næstu tvo og hálfa tíma.

Byssan gall. Ég reyndi eftir fremsta megni ekki að hugsa um hlauparana í kringum mig, reyndi að halda jöfnum og fínum hraða sem mér leið eins og ég gæti keyrt á í sirka 2-3 tíma. Hlaupaleiðin í þessu hlaupi var frábær. Langur beinn og jafn kafli (eða eins beinn og utanvegahlaup verða), áður en hlaupið var upp á hól í miðri skórækt og svo að Akrafjalli sjálfum.

Eftir tíu mínútur fór ég að finna fyrir ilinni sjálfri. Ég ákvað að njóta þess að hlaupa, ef fóturinn ákveddi að gefa sig eftir þetta hlaup yrði þetta líklega eina stóra hlaupið mitt í sumar og þá væri eins gott að hafa gaman. En þegar leið á hlaupið hvarf þessi verkur alveg og ég hef ekki fundið fyrir honum síðan. Þannig að mögulega ofhugsaði ég þetta eða kannski þurfti ég þessa pásu sem ég tók. Hver veit.

Eftir um það bil tíu flata kílómetra var komið að því að klífa Akrafjall. Það var steikjandi hiti í sólinni og ég þambaði um það bil tvöfalt magn af drykkjum miðað við venjulega. Í fyrstu hlaupunum í mínum í fyrra gerði ég sú mistök að reyna að keyra upp svona brekkur. Ég er orðin aðeins vitrari og reyndi að fara upp þetta fallega fjall á jöfnum og áreynslulausum hraða. Ég var nokkuð sáttur með hvernig gekk upp (og þakklátur fyrir björgunarsveitarkappana sem stóðu rólegir við eina tæpa staðinn á leiðinni, fylgdi mikil ró að vita af þeim). Þegar á brúnina var komið var útsýnið stórfenglegt og freistandi að standa bara og njóta útsýnisins.

Mynd tekin af Akranesidag.wordpress.com

Það eina sem ég get kvartað yfir í þessu hlaupi er að þurfa hlaupa niður sömu leið og tugir manna eru að koma upp. Lang flestir voru vel vakandi og þegar við mættumst var eiginlega alltaf þægileg leið til að fara framhjá en þetta var enga síður böggandi. Ég hef ekki ennþá náð tökum á listinni að fara niður svona langar brekkur, eins og á leiðinni upp reyni ég að gera þetta eins áreynslulaust og ég get, án þess að bremsa og auðvitað aðal málið að detta ekki. Mér leið ansi vel þegar ég kom niður fjallið, tróð í mig nassli á drykkjastöðinni og lagði af stað í átt að bænum.

Leiðin niður að ÍA vellinum var ansi góð, þó ég hafi verið komin á þennan skrýtna stað sem gerist í lok allra hlaupa: Að vilja keyra á fullu gasi, en vilja ekki klára mig of snemma, að reyna að njóta síðustu kílómetrana en ekki þrá neitt nema að ljúka þessu af. Í Tindahlaupinu í fyrra sprakk ég gjörsamlega síðustu þrjá kílómetrana, í þetta sinn leið mér eins og ég gæti vel haldið áfram á góðum hraða. Hjálpar að síðustu fimm voru svo til flatir.

Þegar ÍA heimilið kom í ljós glotti ég upp að eyrum og lauk á fínum tíma. Mér fannst pínu skrýtið að klára inn í æfingarhúsinu en var ánægður með að ljúka á þeim tíma sem ég náði og afar, afar glaður að komast í sturtu í sundlauginni áður en ég keyrði heim með sóló plötuna hans Bent á fóninum.

Næstu vikur og frí erlendis.

Mér til ómældrar gleði fann ég ekkert til í ilinni daginn eftir Akrafjalls hlaupið. Vissulega harðsperrur á þriðja stigi, en engin iljaverkur. Sú gleði breyttist hratt í blöndu af stressi og tilhlökkun. Núna var engin afsökun til að mæta ekki til leiks. Þegar maður setur stór markmið er alltaf einhver rödd sem hvíslar að manni að þetta sé slæm hugmynd og óskar þess að maður þurfi ekki að gera erfiða partinn, sem sagt að klára helvítið. Þessi rödd verður oft hærri þegar maður fer að tala um það sem maður ætlar að gera. En nú þurfti þessi blessaða rödd að gjörusvovel að þegja.

Næstu tvær vikur vann ég vikulega kílómetrafjöldan aftur upp, ásamt afar gleðilegu glímu móti og að fá bláa beltið í jitsi. Í athöfninni þurfti ég að glíma í næstum klukkutíma viðstöðulaust við andstæðinga og vini sem skiptust á að pína mig. Ég mun hafa verstu mínúturnar í athöfninni þegar ég er að bugast í hlaupinu, sama hversu vont hlaupið er efa ég að það verði verra en að vera með hnéið á nítíu kílóa kick-box þjálfara á maganum (ég veit, fleyg lokaorð).

Á síðasta degi maí flugum við í frí til Eistlands. Tvær vikur af engu að gera nema að borða, njóta og hlaupa. Fullkomin tími til að ná að koma fullt af kílómetrum í lappirnir og vonandi vinna upp aðeins af töpuðum tíma.  Ilin var svo gott til friðs allan tíman, mér til áframhaldandi gleði.

Í öryggisleitinni í Keflavík afrekaði ég að gleyma úrinu mínu á bakkanum. Ég vona að hver sá sem stakk úrinu í vasann njóti þess að eiga þetta úr. Nema náttúrulega að það sitji enn þá á botni bakkans sem ég setti það í og fari hring eftir hring í öryggisleitinni, dag eftir dag og vonar að eigandinn snúi aftur.

Þó ég sé ágætlega kunnugur staðháttum í Eistlandi ákvað ég að skynsmalegast væri að hlaupa bara í beina línu fram og til baka og nota símann til að halda utan um hlaupinn. Það reyndist afar sterkur leikur, því í eina skiptið sem ég hljóp á svæði sem ég þekkti ekki og reyndi að hlaupa hring, þá missti ég af afleggjara og áður en ég vissi af var ég komin að einhverjum akri, á vegi sem ég þekkti ekki. Gerði hlaupið þeim ennþá skemmtilegra að í fyrsta sinn klikkaði GPS-ið á símanum og mér tókst samkvæmt símanum að ferðast kílómeter á 90 sekúndum. Leyfi ykkur að dæma mig fyrir þetta ofurhlaup:

Að hlaupa án úrsins var furðu frelsandi. Ég hef hlaupið mikið eftir púlsi síðustu mánuði en ég gerði mér enga grein fyrir hversu oft ég var farin að kíkja á púlsinn til að sjá hvernig ég væri. Með símann fastann í rassvasanum hljóp ég bara eftir tilfinningunni, vissulega alltaf aðeins hraðar en ég hefði átt að gera en leið oft mun betur en ég hefði haldið. Þetta var næstum eins og hlaupa útgáfa af því að skilja símann eftir heima þegar maður fer í göngutúr, bara það að möguleikinn á truflun væri á ekki á úlliðnum jók góðu tilfinninguna og fókusinn.

Það hjálpar líka núvitund að hlaupa í svona umhverfi, þó hitinn hafi verið mun meiri en ég vil venjast.

Lokametrarnir – Fjórar vikur í hlaup

Þegar þetta er skrifað er mánuður í stóra hlaupið. Ég er afar stressaður, þar sem undirbúningur hefur ekki verið jafn góður og ég hefði viljað. En það er eins og það er, MMA strákarnir sem ég æfi með segja oft að engin fari inn í búrið á keppnisdag eins góður og hann vill vera, verð að taka mér það til fyrirmyndar.

Ég skráði áætlaðan lokatíma 7 klukkutíma, kemur í ljós hvort það var gífurleg bjartsýni eða ekki. Markmiðið er enn þá að koma brosandi í mark.

Næstu þrjár vikur er bara að hlaupa og hlaupa og svo verður síðasta vikan tekin rólega fyrir aðalhlaupið. Ég hugsa að ég láti vera að skrifa annan svona pistil fyrir hlaupið, skrifa frekar um þennan mánuð rétt fyrir hlaupið og láti það svo fylgja þegar ég geri hlaupið upp.

Leiðin að Laugarvegi 2024: Upplýsingaofgnótt og skapsveiflur

Þessi pistill er annar í seríu sem um ferðalagið og undirbúning fyrir Laugavegshlaupið 2024. Ef þú vilt meira samhengi þá má finna fyrsta hluta hér.

Þegar ég skrifaði síðasta pistil var næst á dagskrá að gera alvöru áætlun fyrir næstu fjóra mánuði og finna jafnvægi milli hlaupaæfinga, ju-jitsu og lífsins.

Örlögin kváðu að vandamál jafnvægis í æfingum skyldi leyst tímabundið. Í annað sinn í vetur blossaði upp væg húðsýking hjá mér og þurfti ég því að taka mér smá pásu frá glímunni, þar sem smitandi húðsýkingar fara illa saman við íþrótt sem mætti lýsa sem árásargjörnu knúsi. Þetta fór vissulega í taugarnar á mér en ég bjóst að jafna mig hratt. Hjálpaði að í þetta sinn var sýkingin lítill blettur og ekki „versta sýking sem ég hef séð,“ eins og þjálfarinn minn orðaði það pent. 

Að semja æfingarplan

Fyrir fjórtán árum hljóp ég maraþon og rétt eins og þá reyndi ég núna að finna mér gott æfingarplan á veraldarvefnum. Þá fann ég einn sérfræðing, Hal Higdon. Ef ég man rétt þá mældi vinur mömmu með honum.Það gæti vel verið að hann hafi verið sá eini sem var með svona plön gefins á þeim tíma. Þetta var áður en samkeppnin um athygli var slík að ein áhrifaríkasta leiðin til að fanga viðskipti er að gefa helling af góðu (eða lélegu) efni. Svo er ekki lengur.

Full margar niðurstöður(?)

Eftir um það bil klukkutíma leit að góðu hlaupaplani árið 2024 var ég hér um bil að missa vitið. Möguleikarnir voru ekki nokkrir heldur hundruð. Myndböndin voru nánast óteljandi og þau töluðu þvers á kruss við hvort annað. Ofan á þau bættust bloggfærslur og hlaðvörp. Hver var rauði þráðurinn? Bara það að maður skyldi hlaupa helling, helst lengi í einu. Örfá plön mældu meira að sé gegn því, eða skilgreindu hugtakið „hlaupa mikið“ skringilega.

Það er skiljanlegt að það ríki ákveðin upplýsingaóreiða á þessu. Ultra-hlaup eru fremur ung íþrótt. Það virðist líka vera ákveðin eðlismunur á „styttri“ ultra-hlaupum annars vegar, sem eru í kringum 50 kílómetra og svo hins vegar þeim hlaupum sem eru norðan við hundrað kílómetrana. Mér fannst kómískt að sumir vilja að hlaup í kringum 50 kílómetra að séu skilgreind sem létt-ultra. Í þessum svokölluðu létt-ultra hlaupum geta þeir bestu keyrt á nær fullu gasi allan tíman á meðan „alvöru“ ultra eru mun hægari. Um allt er víst hægt að rífast á netinu, en þetta er útúrdúr.

Að lokum fann ég fínan mann á Youtube sem virtist traustvekjandi. Eins og flestir aðrir lagði hann áherslu á að ná heildar kílómetrafjöldanum upp og hann sýndi vel hvernig ætti að reikna út heildarfjöldan fyrir hverja viku, hversu mikið ætti að hvíla og svo framvegis. Það höfðaði til mín að hann var meira að kenna manni að gera eigin plan en að setja upp plan fyrir alla. Svo hljómaði hann skynsamur og skír, við sjáum til eftir nokkra mánuði hvort dómgreind mín hafi verið rétt.

Ég fyllti samviskusamlega út Excel skjalið, fjölgaði vikulegu hlaupum úr tveim í þrjú, nýtti tíman á meðan ég komst ekki glímu í styrktaræfingar og meiddi mig tveimur vikum seinna. Meira um það hér fyrir neðan.

Góður sprettur og langur dagur.

Síðan ég festi markmiðið um Laugavegshlaup í huga mér hef ég lítið hlaupið hratt. Líklega ekki oftar en á þriggja vikna fresti að meðaltali, kannski 10% af heildar kílómetrunum mínum hafa verið í stuttum, hröðum hlaupum. Nýlega gekk eitt langhlaupið mitt mun betur en venjulega. Þá meina ég allt við hlaupið, hraðinn var fínn, ég skemmti mér betur en oft og þegar ég kom heim langaði mig virkilega að halda áfram. Eitthvað kitlaði líka í mér, löngun til að prófa að fara styttri vegalengd og virkilega sjá hvað ég gæti komist hratt yfir. 

Nokkrum dögum seinna reimaði ég á mig skónna eftir vinnu og hitaði upp. Ég var búin að ákveða að setja á háværa tónlist, hundsa úrið og fara fimm kílómetra hring í kringum Öskjuhlíðina eins hratt og ég mögulega gæti. Ég ætlaði að reyna að líta sem minnst á úrið í hlaupinu og markmiðið var ekki að hlakka til að mæta næst, heldur að gjörsamlega klára mig.

Eftir fimm hundruð metra var mér aðeins illt í fætinum en ég sagði sjálfum mér að ef verkurinn versnaði á næsta kílómetra myndi ég hætta við, ef ekki héldi ég áfram. Við miðpunkt hlaupsins leið mér eins og hlypi á bleiku skýi. Þegar ég kom að ógeðslegu brekkunni upp Suðurhlíðina fann ég að ég ætti ekki mikið eftir í tankinum, hægði á mér eins og ég þurfti og hef örugglega litið skemmtilega fnæsandi út fyrir strákana sem voru að leika sér við götuna. Eftir brekkuna leyfði ég mér að líta á úrið og sá að ég átti bara nokkur hundruð metra eftir og var á betri tíma en ég þorði að vona.

Síðustu tvö hundruð metrana langaði mig að öskra á úrið að hristast til að segja mér að ég væri komin fimm kílómetra, sem það loksins gerði og ég leyfði mér að haltra móður að einhverju húsi, setjast og sjá árangurinn á úrinu. Ég trúði ekki mínum eigin augun.

Það kom mér svo sem ekki á óvart að ég hafði bætt eigið met í fimm kílómetrum, en að ég hefði bætt það um meira en mínútu, það var óvænt.

Auðvitað er fimm kílómetrar á 24 mínútum ekkert rosalegt afrek í stóra samhenginu en ég átti fyrr á dauða mínum von en að ég myndi hlaupa svo hratt. 25 mínútna múrinn alltaf verið stór í mínum huga, óyfirstíganlegur veggur sem bara alvöru hlauparar rjúfa.

Það sem mér finnst áhugaverðast er að ég hef ekkert sérstaklega verið að æfa upp á hraða. Lang flest hlaup mín síðustu mánuði hafa verið hæg. Það var gaman að sjá að hægu hlaupin geri mann hraðari, sem ég hef aldrei raunverulega trúað. Þetta hef ég kannski vitað, en ekki trúað. Sama hversu oft maður heyrir svona þá er ekkert eins og að finna það á eigin skinni.

Í kjölfarið fékk ég smá spennufall gagnvart hlaupum. Hálf fáránlegt í byrjun formlegra æfinga. Spennufallið náði hámarki helgina eftir þegar ég ákvað að taka langa hlaupið mitt út á Seltjarnarnes og í fyrsta sinn lengi dauðleiddist mér í hlaupinu.

Hvort sem það var skortur á góðu hlaðvarpi, grátt veðrið, slæmur svefn, eða þetta var bara einn af þessum dögum, þá var ég farin um að hugsa um að hætta eftir fyrsta þriðjung af hlaupinu. Líklega er þetta eðlilegur hluti af ferlinu, blanda spennufalls og því að hafa ekki fengið fjölbreytni í gegnum glímuæfingar í nokkrar vikur. Svo meiddist ég.

Ég veit ekki hvort ilin á mér var búin að vera slæm og ég hundsaði hana eða hvort þetta gerðist bara. En á þriðjudeginum tók ég nokkuð harða styrktaræfingu, daginn eftir rólegt hlaup heim og um kvöldið var ég haltrandi af verki undir fætinum. Verkur sem rímaði ansi vel við meiðsli sem konan mín hefur glímt við í marga mánuði.

Þetta fór hroðalega í skapið á mér. Ekki hjálpaði að ég fann sérstaklega illa fyrir verknum eftir einn lélegasta handboltaleik sem ég hef farið á.  Satt best að segja panikkaði ég gjörsamlega. Um kvöldið sá ég fyrir mér margra vikna fjarveru frá hlaupum og jafnvel glímu og styrktaræfingum, og að þurfa að taka eitthvað prógram á síðustu stundu til að lifa af Laugarvegshlaupið og svo framvegis.

Mér fannst svo sem augljóst að skapið myndi batna daginn eftir, en ég var samt lafhræddur um að ég væri að horfa á alvöru leiðindarmeiðsli (leiðindarmeiðsli skilgreinist hér sem öll meiðsli sem læknast bara með hvíld). Þetta var eitt af þessum skiptum þar sem konan mín var frábær. Hún leyfði mér að taka þann tuð pistil sem ég þurfti, fór yfir hvað hún gerði vitlaust þegar hún fann fyrir þessum einkennum og hvatti mig til að hvíla mig í tvo-þrjá daga áður en ég færi yfir um.

Síðan þá eru nokkrir dagar liðnir. Ég fann fyrir smá verkjum daginn eftir að ég panikkaði, engan daginn eftir það og prufaði létta fjallgöngu með fjölskyldunni um páskahelgina. Á morgun (þegar þetta er skrifað) ætla ég að taka af varfærnislegt hlaup eftir vinnu, sjáum hvað setur með það. Ef ég finn engan verk ætti ég að geta náð mér upp á fyrri stað í hlaupamagni á svona tveim vikum, ef ég finn fyrir einkennum mun ég væntanlega þurfa að endurhanna planið frá grunni.  

Markmið sumarsins.

Það er nokkuð auðvelt að segja að stóra markmiðið sé að taka Laugaveginn á undir sex tímum og eða eitthvað slíkt. Málið er að ég hef ekkert fyrir mér í þessum málum. Ég átta mig engan vegin á hversu erfitt þetta er í samhengi við fyrri hlaupareynslu mína, ég átta mig heldur engan vegin á því hversu vel styrktar æfingar vetrarins hafa skilað sér, hvað þá hversu gott æfingarplanið mitt verðu.

Í bili er eina markmið mitt í stór hlaupinu að klára brosandi. Ég er búin að skrá mig í Akrafjall Ultra og mun líka skrá mig í Snæfellsneshlaupið. Í þessum tveimur hlaupum mun tek ég stöðuna á skrokknum, hvað ég þoli mikinn kraft og svo framvegis.

Sjáumst eftir mánuð kæra fjall.

Næstu skref.

Ég hélt að þessi tímapunktur myndi sá sem myndi auka vikulega kílómetrafjöldann og fyndi taktinn í æfingum. Næstu skref virðast frekar vera biðin eftir að fóturinn sé pottþétt í lagi og svo að vinna sig aftur upp í kílómetrafjölda. Pirrandi, en skárra en að vera alveg frá í margar vikur. Björtu hliðarnar og allt það…

Leiðin að Laugarvegi 2024 – Forsaga og upphaf.

Það eru um tvö ár síðan hugmyndin að hlaupa Laugaveginn fór að grafa sig í höfuðið á mér. Í fyrstu reyndi ég að kasta hugmyndinni til hliðar, sem tókst ekki. Fyrir fimmtán árum tók ég þátt í Reykjavíkurmaraþoninu, deginum fyrir tvítugsafmælið. Það var skemmtilegur og frábær dagur og mettaði mig svo af hlaupum að ég hljóp ekki meira en fimm kílómetra í mörg ár.

 Af hverju er ég að þessu?

Ég byrjaði aftur að hlaupa reglulega þegar ég starfaði í Húsafelli, mörg verri svæði til að hlaupa um og mikill skortur á líkamsræktarstöðvum til að lyfta í. Í veirufárinu var það svo annað hvort hlaup í Elliðarárdalnum eða líkamsæfingar heima til að halda sér við. Ég fór að hafa aftur gaman af hlaupum, þó einkum utan malbiks. Þegar ég hóf að æfa glímu eftir Covid, fór ég líka að vilja hlaupa til að auka þolið og fannst það góð tilbreyting við sveittar glímur að skokka einn í rólegheitum.   

En það er stórt skref að fara úr mér finnst gaman að hlaupa 5-10 kílómetra, yfir í mig langar að hlaupa 55 kílómetra upp á hálendi. Hvernig gerðist það? Það réði miklu að í rúmt ár var ég að vinna með mörgum sem ýmist höfðu farið Laugaveginn margoft eða voru að fara hann reglulega yfir sumarið sem leiðsögumenn. Samtölin við þetta fólk sveipuðu leiðina rómantískum hjúp sem kallaði meira og meira í mig. Ævintýrasögur af bæði frábærum og skelfilegum ferðum þarna yfir með ferðamenn juku áhugann enn þá meira. Þegar ég fór sjálfur út að hlaupa þá fór ég að sjá Þórsmörk fyrir mér og líka staðina sem ég hef aldrei heimsótt: Emstrur, jökultungurnar og Álftavatn.

Ef ég er hreinskilinn við mig þá var egó líka þáttur í þessu. Að hlaupa á hálfum degi það sem flestir taka á tveim til fjórum hljómaði geggjað. Erfitt, en geggjað. Ein lífsspeki er að gjörðir séu góðar í hlutfalli við hversu erfiðir þeir eru, ekki þrátt fyrir að þeir séu erfiðir heldur af því að þeir eru erfiðir. Ég trúi þessu kannski ekki alveg 100 prósent, en allavega 70 prósent.

Síðasta sumar (2023), var hugmyndin um að taka þetta hlaup búin að bögga mig í að verða ár og ég ákvað að skoða hvort þetta væri bara heimskuleg hugmynd eða eitthvað sem ég vildi fara í af alvöru. Ég skráði mig í 10 kílómetra Mýrdalshlaup í byrjun sumars til að prufa utanvegahlaup.

Líklega skrifa ég meira um þetta algjörlega frábæra hlaup seinna. Í bili er nóg að segja að ég kolféll fyrir hlaupinu og fyrir sportinu. Það er efni í heilan pistil að mæra Mýrdalshlaupið eins og það á skilið, en um leið og ég kom upp á Reynisfjall og sá Suðurland blasa við mér var ég viss um að ég vildi taka þátt í fleiri svona hlaupum.

Photo credit: Ferdalag.is

Sem betur fer fyrir mig, þá var allt of seint að skrá sig í Laugaveginn 2023. Þetta kom mér á óvart, þar sem ég hélt í einfeldni að hægt væri að skrá sig nokkrum vikum fyrir hlaupið. Mér datt ekki í hug að það gæti orðið uppselt. Ég segi „sem betur fer“ því miðað við hvernig skrokkurinn var eftir hálf-maraþon utanvegahlaup í fyrra, átti ég ekkert erindi að fara heilan Laugaveg síðasta júlí. En ég hefði mögulega verið nógu vitlaus til að skrá mig. Á þessum tímapunkti vissi ég ekki heldur hvað ITRA stig voru (ELO stig fyrir utanvegahlaup sem nokkurn vegin segja hversu góður þú ert) og ég þurfti að ná í nokkur svoleiðis til að geta yfir höfuð skrá mig í Laugavegshlaupið mikla.

Algjörlega ótengt draumnum um að hlaupa þetta mikla hlaup fór ég líka tvisvar í Þórsmörk síðasta sumar, í fyrsta sinn síðan í grunnskóla. Báðir dagar voru algjörir paradísadagar og létu mig hlakka til að koma í mark að ári liðnu.

Í lok sumars hafði í hlaupið fjögur hlaup við mismunandi aðstæður og var mis vel á mig komin eftir þau. Ansi margir lærdómar voru dregnir af þessum hlaupum og eftir síðasta hlaupið, þriggja tinda Tindahlaup, var ég mátulega bjartsýnn að ég gæti komið mér í stand til að klára það stóra. Um miðjan nóvember var það svo staðfest að ég hefði fengið miða og alvaran tók við.

Af hverju er ég að skrifa um þetta? Að skrifa hjálpar til við að hugsa skýrt og það er von mín að með því að skrifa um æfingarferlið sjái ég betur hvað ég er að gera vel og illa. Þeim mun betra ef reynslumeira fólk les eitthvað af þessu og bendir mér á þær kjánalegu villur sem ég er að gera og með því að hafa skrifin opinber þá get ég sett jákvæða pressu á sjálfan mig. Ef vel gengur að skrifa verð ég með einskonar dagbók eftir hlaupið og vonandi hafa einhverjir gagn af henni, ef ekki gagn þá gaman.

Eins og þú sérð kæri lesandi er ég byrjandi í þessu sporti og kannski verð ég aldrei meira en það. Það fer líklega eftir hvernig mér líður þegar ég kem í mark þrettánda júli. Ég er mikið fyrir að búast við því versta í svona stórum verkefnum, en fjárinn hafi það ég ætla að gera ráð fyrir að ég komist allavega í mark. Kannski er einhver sem er í sömu stöðu og ég var fyrir ári og vonandi getur lesturinn hjálpað þeim.

Þar að auki er ég að byrja frá grunni í svo löngum hlaup og það mun vonandi hjálpa mér að sjá hvar hugsun mín er léleg að sjá hana á „prenti.“ Ef einhver reyndari hlaupari er að lesa þetta og sér barnalegar rangfærslur í hugmyndum mínum um hvernig á að æfa, tek ég allri gagnrýni opnum örmum.

Veturinn

Það var ekki þannig að ég væri með nákvæmt plan fyrir æfingar yfir veturinn. Ég er þeim ókosti búin að ef æfingaráætlun er of nákvæm og ströng hætti ég að nenna að sinna henni, hratt. Í byrjun september voru tíu mánuðir í hlaupið. Það er langur tími til að æfa, en líka langur tíma til að missa áhugann. Ekki að ég héldi að ég myndi missa löngunina til að hlaupa hlaupið, heldur bara að æfa fyrir það, sem væri mun verra.

Ég ákvað að æfa eftir eftirfarandi prinsippum:

A)      Æfa þannig að ég hlakkaði alltaf til næstu æfingar.

B)      Langt hlaup (hér um bil) hverja helgi. Eins og ég skil það sem ég hef lesið mér til um þessar æfingar er langa hlaupið um helga það mikilvægasta í æfingum fyrir lengri vegalengdir. Ég byrjaði í að fara 12-16 kílómetra hverja helgi og jók vegalengdina hægt og rólega. Á ákveðnum tímapunkti las ég töluvert magn af efni um Zone 2 þjálfun og í framhaldinu hægði ég mjög á þessum hlaupum. Nú eru þau að á bilinu 20-25 kílómetrar og ég held púlsinum um 145 slög á mínútu. Líkaminn virðist ráða við að hreinsa mjólkursýrurnar við þessa ákefð og ég er ekki frá því að ég sé að bætingu laumast inn.  

C)     Nóg af styrktaræfingum fyrir lappirnar. Eitt besta hlaðvarpið sem ég hlustaði á í undirbúningnum var Villi í Steve Dagskrá að gera upp sitt Laugavegshlaup í þættinum Út að hlaupa. Flestir sem nenna að framleiða efni um langhlaup eru fólk sem lifir fyrir þau (skiljanlega). Villi var mun nær mér í getustigi þegar hann tók Laugaveginn fyrir nokkrum árum, það er að segja í fínu formi en ekki langhlaupari. Þátturinn þar sem hann lýsir hvernig það gekk er sprenghlægilegur og afar lærdómsríkur. Eftir að hafa hlustað á þáttinn (og eftir að hafa tekið þátt í Esjan Ultra hlaupinu) var ég sannfærðum um að það væri nánast ekki hægt að setja of mikla vinnu í að styrkja lappirnar.

D)     15-16 vikum fyrir Laugaveginn færi ég að taka hlaup alvarlega og fylgja einhverskonar plani sem ég þyrfti að finna. Sá tími er í þessari viku.

Þessu hef ég verið að æfa eftir í vetur og það gengið ágætlega. Ein áskorun var að fatta að ef ég vildi fara þessi löngu helgarhlaup var betra að klára þau á laugardagsmorgni, það er alltaf eitthvað meira spennandi að gera um helgar en að fara út að hlaupa í hálfan vinnudag. Fyrir utan að uppáhalds glímuæfingarnar mínar eru á mánudögum, að mæta þangað með lappir sem fóru á þriðja tug kílómetra daginn áður reyndist ekki skynsamlegt.

Hin áskorunin var líka að við búum á Íslandi og það veðrar ekki beint til útihlaupa alla daga. Þó hefur það bara einu sinni gerst að ég „þurfti“ að fara út í einhverju leiðinda veðri, en þessu vetur hefur verið blessunarlega mildari en sá sá síðasti.

Vandamál

Nokkrar áskoranir eru fyrirsjáanlegar og/eða hafa þegar gert vart um sig. Ég er ekki enn þá búin að finna út hversu mikið ég þarf og hversu mikið ég get innbyrt af næringu á svo löngu hlaupi. Það er skrýtið að segja það en eftir nokkuð mörg hlaup þar sem ég hef verið að borða aðeins meira af „mat“ í hverju hlaupi, þá er ég hálf farin að vonast eftir að fá verk í magan. Verkurinn myndi segja mér hvar mörkin mín eru. Síðan veit ég að það er eitt að fá sér x mikið af næringu á 25 kílómetra hlaupi, allt annað að fá sér 2 – 3 x í 50 kílómetrahlaupi.

Hitt er að hvað skrokkurinn, og lífið, leyfir manni að æfa mikið. Eftir löngu hlaupin hefur lítill verkur við í ökla oft gert var við sig, sem tekur 1-2 daga að jafna sig. Ég ég er nokkuð viss um að um vanþroskaða vöðva og/eða vöðvafestingu er að ræða, en það hefur gengið bölvanlega að þjálfa þessa tilteknu staði upp. Núna um helgina hafði ég samband við lækni sem ég þekki að reyna að fatta hvað nákvæmleg staðurinn heitir, vonandi get ég fundið leiðir til að styrkja hann í framhaldinu. Til langs tíma litið er þessi sami ökli veikasti punktur á líkamanum, væri líklega skynsamlegt að styrkja og liðka hann, hvað sem hlaupinu líður.

Hitt er að mér sýnist þurfa 8-12 klukkutíma á viku í hlaup þegar æfingaprógröm er að toppa, til þess að geta klárað af góðum krafti. Það er fjandi mikið, sérstaklega þegar æfingarnar sem mig hlakkar mest að fara á er glíman. Svo er maður líka í vinnu, vill sinna fjölskyldu og vinum og svo framvegis. Mér finnst ekki ólíklegt að ég reyni að nýta ferðina í og úr vinnu til að tikka kílómetrum í fæturna. Á einhverjum punkti þarf ég að minnka aðrar æfingar, en það geri ég á síðustu mögulegu stundu.

Þegar að kemur að hlaupdegi eru síðan heill her af áskorunum fyrirsjáanlegur. Ég hef lang mestar áhyggjur af því að ég fari of geyst af stað, væri ekki í fyrsta sinn. Fyrir mörgum árum hljóp ég eitt Reykjavíkurmaraþon og ég man hvernig var að skella á líkamlega veggnum fræga í kringum 35 kílómetra, hvernig ég höndla það á hálendinu í þeim mun lengra hlaupi veit ég ekki. En ég hlakka til að komast að því.

Næstu vikur.

Ég veit ekki hversu oft svona pistlar verða viðeigandi, því engin nennir að lesa „í þessari viku hljóp ég X kílómetra og það var fínt“ vikulega. En þegar andinn grípur mig mun ég grípa penna og þegar sumarið skellur á og keppnirnar fara að detta inn mun pistlunum fjölga. Næst ætla ég að taka fyrir hvað það æfingarplan sem ég lenda á og markmiðin fyrir Laugavegshlaupið.

Á morgun (þegar þetta er skrifað) eru sléttir fjórir mánuðir í hlaupið. Ég þessari viku ætla ég að finna prógramm sem ég get fylgt næstu mánuði og formlegur undirbúningur hefst. Ég er spenntur.

Góðar fréttir: Risaeðlurass!

Stundum veit maður ekki að eitthvað er ráðgáta fyrr en internetið bendir manni á það. Vissuð þið að þangað til nýlega var mikil óvissa um það hvernig meltingarfæri risaeðlna virkuðu? Ástæðan er nokkuð augljós þegar maður pælir í því: Hold rotnar. Nánast allt sem við vitum, eða þykjumst vita, um hvernig risaeðlur er byggt á beinum þeirra. Þau eru mun líklegri til að varðveitast í jörðu og þess vegna höfum við fundið mun fleiri bein en vefi.

File:Psittacosaurus model.jpg - Wikimedia Commons
Ok. Hann er semí krútt.

En það eru ákveðnar aðstæður sem varðveita risaeðluhold. Í stuttu máli þarf heimurinn að gera dýrið að múmíu. Ein risaeðla sem eitt sinn vafraði um jörðina var Psittacosaurus, um eins og hálfs metra löng kvikindi sem lifðu í Asíu fyrir um 100-125 milljón árum. Af einhverri ástæðu hafa fundist þó nokkrar múmíur af þessum verum. Sem er ástæðan fyrir að litirnir í myndinni hér fyrir ofan er ekki ágiskanir eins og oftast, lík af einni svona fannst sem var svo vel varveitt að liturinn sást.

Nú nýlega fannst svo múmía sem var með varðveittan rass. Sú uppgötvun staðfestir það sem risaeðlufræðingum hefur lengi grunað: Að meltingarfæri risaeðlna voru svipuð og í fuglum. Næsta stóra ráðgáta er hvort þær hafi fjölgað sér eins og fuglar, en til þess að það sé staðfest þarf að finna grey sem er jafn vel varðveitt að framan og það síðasta var að aftan.

Annars hvet ég ykkur til að lesa fréttina um þetta, ég næ engan vegin utan um húmorinn og þekkinguna í henni.

Góðar fréttir: Geimfar klukkar smástirni

Mér var hent á hlutabótarleiðina aftur nýlega. Til að reyna að gera eitthvað uppbyggilegt ákvað ég að birta hér á síðunni eina góða frétt hvern dag sem ég er heima. Það er alveg nóg af slæmum fréttum þetta ár, alveg eins gott að birta einhverja gleði.

Þegar kemur að vísindum í geimnum er stundum magnað hversu langur tími þykir eðlilegur. Eða kannski eru það vísindin almennt og ég er bara ofur óþolinmóður nútímamaður. Allavega. Síðustu tvö ár hefur geimfarið Osiris-Rex (dramatísk nöfn eru afar mikilvæg í gemferðum, eða allavega afar skemmtileg) verið að elta smástirnið Bennu (sem heitir fullu nafni 101955 Bennu). Tilgangurinn var að ná að klukka Benna og stela af því ögn af ryki.

Að klukka stirnið hljómar einfalt en er það alls ekki. Bennu ferðast í kringum sólina á 28 kílómetra hraða á sekúndu. Það tekur 18 mínútur að fyrir merki frá jörðinni þannig að ekki var hægt að láta mann um að stýra. Það þurfti að forrita sjálfstýringu í farið og senda það af stað. Já og gemfarið kostaði jafn mikið og rúmlega þrettán þúsund Teslur. Langar þig að vera gaurinn sem forritar geimfarið, sendir það af stað og býður svo eftir því að frétta hvort Osiris brotlendir.

Bennu kallinn

En þeim tókst að klukka Benna og nú tekur við nokkura daga bið. Það þarf að athuga hvort klukkið hafi skilað nægu ryki um borð í farið. Svo tekur við löng ferð heim til jarðar. Rykið sem var safnað (sandur væri líklega betra orð) er frá þeim tíma þegar pláneturnar voru að myndast svo það gæti gefið ýmsar vísbendingar um fyrstu ár(milljarða) sólkerfisins.

Heimild

Góðar fréttir: 2000 ára köttur sýnilegur á ný í Perú

Mér var hent á hlutabótarleiðina aftur nýlega. Til að reyna að gera eitthvað uppbyggilegt ákvað ég að birta hér á síðunni eina góða frétt hvern dag sem ég er heima. Það er alveg nóg af slæmum fréttum þetta ár, alveg eins gott að birta einhverja gleði.

Fyrir um 2000 árum voru nokkrir Naszcar. Þetta voru íbúar svæðis sem í dag tilheyrir Perú, um það bil 350 kílómetrum frá höfuðborginni Lima. Þessir nú gleymdu einstaklingar skáru í bergið risavaxinn kött, um það bil 37 metra langan. Hver skurður hefur verið ágætis vinna, en línurnar eru á bilinu 30-40 sentímetra breiðar í eyðimerkurklett.

Fólkið sem skar út þessa skemmtilegu mynd hefur ekki órað fyrir því að tveimur árþúsundum síðar myndi kall á svæðinu fljúga dróna yfir svæðið og taka yfir daufum útlínum kattarins. Hann tilkynnti köttinn til yfirvalda og fornleifafræðingar hófust handa við að gera hann sýnilegan á ný. Því verki lauk núna í október og þegar Perú byrjar að trekkja að sér ferðamenn á ný mun þessi skemmtilega skepna líklega vekja mikla gleði. Eins og við vitum öll þá eru aldrei of margir kettir á netinu, svo hér fylgir myndin af þessum skemmtilega forngrip:

Er hann ekki krútt?

Heimild

Þrjátíu pælingar á þrítugsafmæli.

Ég skrifaði svona grein í fyrra og sé enga ástæðu til að endurtaka ekki leikinn. Þetta eru ekkert endilega fullmótaðar hugmyndir, bara hlutir og spurningar sem ég er búin að vera að pæla í eða lærði á þessu ári sem er að líða.

  1. Byrjaðu greinar á að vista skjalið. Var rúmlega hálfnaður með þessa grein í gær en gleymdi að vista áður en ég lokaði tölvunni. Ó jæja.
  2. Ekkert toppar gleðina að frumsýna. Nema kannski að frumsýna einleik sem maður skrifaði sjálfur og vann með frænda sínum, á hátíð sem var engan vegin viss um yrði haldin. Guide to Guiding var einn af hápunktum lífs míns.
  3. Sparnaður er gull. Ég var einn af þeim sem sáu atvinnu mína sökkva í óvissu þegar Covid gerðist. En að eiga sparnað fleyta mér í gegnum einhverjar mánuði var svo hollt við geðheilsuna að það er nánast ólýsanlegt.
  4. Maður æfist í köldu pottum og getur dottið úr æfingu. Laugarnar lokuðu í um mánuð og það var lengsti tími sem ég hef sleppt þeim í svona tvö ár. Kom mér á óvart hvað þetta var orðið miklu erfiðara.
  5. Við erum bara að klára byrjunina. Mér finnst allir sem tala um bóluefni fyrir áramót hljóma bjartsýnir. Finnst þetta óþægileg tilhugsun. Þetta er líklega önnur bylgja sem við erum í, ekki seinni.
  6. Samstaða er ekkert mál, í sex vikur. Samstaða Íslendinga var ofboðslega falleg í apríl. Nú er þetta erfiðara, því núna sitjum við ekki öll í sömu súpu og þá er þetta erfiðara.
  7. Ég vildi óska að handboltinn og leikhúsið myndi berjast eins og fótboltinn. Ég er ekki endilega sammála því hvernig fótboltafólk er búið að berjast með kjafti og klóm að fá að láta eins og ekkert hafi í skorist. Dáist af baráttunni, ekki endilega sammála henni.
  8. Maður er manns gaman.
  9. Ljúft er að minnast liðins böls. Fékk þennan málshátt um páskana, fannst hann eiga ansi vel við.
  10. Hvernig verður svona tími góður? Heyrði þessa spurningu þegar við vorum um það bil að læsa okkur inni. Mjög stoltur af því hvað ég gerði með allan þennan auka tíma.
  11. Það sem við innbyrðum er mikilvægt, andlega og líkamlega.
  12. Þegar faraldurinn er gerður upp munum við annað hvort segja að við brugðumst allt of harkalega við, eða ekki nógu. Það er ekki séns að við munum segja: Þetta var hæfilegt.
  13. Í byrjun faraldursins stóð ríkisstjórnin sé mjög vel… í að vera ekki fyrir. Núna þarf líklega að taka erfiðari ákvarðanir.
  14. Að vera launþegi hefur sína kosti. Eins og til dæmis uppsagnarfrest.
  15. Plönturnar mínar eru en á lífi!
  16. Ekkert segir mér að mér líði illa eins og þegar mig langar að starta rifrildi á twitter. Gerist ekki oft, en þegar það gerist veit ég að það er eitthvað að angra mig, sem ég er ekki að viðurkenna.
  17. Í covid sjáum við þolinmæði náttúrunnar berjast við hraða nútímans.
  18. Sjónvarp hefur breyst rosalega fram á 30 árum. Ég er að horfa á Star Trek Deep Space 9 hægt og rólega. Maður gerði sér ekki grein fyrir hversu margt hefur breyst í gerð sjónvarps á ekki lengri tíma.
  19. Byrjaði aftur að fara út að hlaupa í ár. Og hugsa ég hætti því aftur. Bara ekki mín tegund æfingar.
  20. Lokadraft er ekki síðasta draft. Ég merkti fjögur uppköst af Guide To Guiding „loka.“ Meinti það í öll skiptin.
  21. Alltaf sama sagan á afmælum: Manni finnst alltaf að það eigi að koma einhver uppljómum. En þetta er bara næsti dagur. Með kökum.
  22. Sambandslit eru aldrei skemmtileg.
  23. Húsfélög eru á núlli þegar þau eiga fyrir neyðarviðgerð. Uppgötvaði þetta þegar ég tók við sem formaður húsfélagsins.
  24. Hvað ætli fyrrverandi eigendum WOW finnist um meðferðina sem Icelandair er að fá núna?
  25. Við hefðum líklega getað sleppt helmingnum af markaðsetningunni fyrir Guide to Guiding. Hef bara ekki hugmynd um hvaða helming. Tengt því:
  26. Plaggöt eru tímasóun.
  27. Það eru 330 miljónir manns í Bandaríkjunum. Og Trump og Biden eru þeir sem eru í framboði. Það er eitthvað kerfinu.
  28. Það er gaman að gera hlaðvarp. Hafði ofboðslega gaman að því að taka viðtöl við áhugavert fólk fyrir Fringe hlaðvarpið. Ætla að gera meira af því, ekki viss hvenær og hvernig.
  29. Ég þarf að læra hver takmörk mín eru tíma og orkulega. Ég er of gjarn að segja bara já við hlutum. Það getur verið kostur en líka galli þegar ég er komin með allt of mikið í dagatalið og sinni engu vel.
  30. Þetta ár fer í sögubækurnar. Ætli þær muni ná utan um hvað hlutirnir gerðust bæði ótrúlega hratt suma daga og svo hægt á meðan við vorum að bíða.

Þegar forritið forritar mann

Mesti tímaþjófur minn er Youtube. Ég get og hef eytt heilu dögunum í að gleypa í mig efni þar. Sumt að þessu er eitthvað sem ég hef raunverulega gaman af, sé sjálfur ekki mikinn mun á að horfa á heila seríu af Star Trek og að horfa á umfjöllun um Star Trek á Youtube. En allt er gott í hófi og ég velti stundum fyrir mér hvort það sé sniðugt að sitja klukkan þrjú að nóttu að horfa á greiningu á hvort Kafteinn Kirk hafi í raun og veru verið kvennabósi. Sérstaklega þegar ég hef eitthvað að gera daginn eftir.

James T. Kirk | Memory Alpha | Fandom
Niðurstaðan var óvænt

En það er minn löstur. Hins vegar tók ég nýlega eftir dálitlu sem mér fannst magnað. Við vitum öll að það eru forrit sem stýra því sem við sjáum á stóru samfélagsmiðlunum. Ein af þessum staðreyndum sem við vitum öll en pælum lítið í. En ég fékk tækifæri nýlega til að sjá þetta gerast á nokkrum dögum.

Einn af mínum uppáhalds persónum á Youtube er kall sem nefnist True Geordie. Ég kynntist rásinni hans í kringum EM 2016 þegar þórðargleðin var ósvikinn og maður naut þess að horfa á enska fótboltaspekinga missa það vegna stærsta afreks íslenskrar knattspyrnu fyrr og síðar. Hans myndband um leikinn var með þeim skemmtilegri. Ég ætlaði að setja hlekk á það myndband en hann virðist hafa tekið það niður.

En ég hafði gaman af honum og hef síðan haft auga með því sem hann gefur út. Podcastið hans kom mér skemmtilega á óvart og hann er orðin ofboðslega góður í að búa til fjölbreytt og skemmtilegt efni, bæði fyndið og alvarlegt. En þessi pistill er ekki um hann, ekki beint.

Where did poker originate? - HISTORY

Hann ákvað að læra póker. Hann fékk einn af þeim bestu í heiminum til að kenna sér og styrktaraðila til að borga sig inn á risapókermót á netinu. Mér fannst þetta skemmtileg pæling og kveikti á á sunnudagskvöldi. Ætlaði kannski að horfa á klukkutíma eða svo… einmitt. Ég var vakandi til tvö að horfa á hann og steytti hnefanum í loftið þegar ljóst var að hann hafði náð að vinna sér inn pening á mótinu. Þið verðið að treysta mér með að það var magnað afrek.  

Svo gerði ég það sama viku seinna og aftur viku eftir það. Í millitíðinni fór ég að gúggla hinu og þessu um póker og var farinn að pæla í að opna reikning á síðu styrktaraðilans til að prufa mig áfram. Þangað til þarna um kvöldið var mér skítsama um þetta spil sem ég spilaði síðast í menntaskóla. En allt í einu var ég farin að hugsa um hvernig væri best að leika ákveðnum höndum, hvernig væri að blöffa, hvort viský félagar mínir væru til í að prufa póker í stað Dungeons and Dragons næst þegar við hittumst.

Það hjálpaði þessari dellu að í hvert sinn sem ég opnaði Youtube mældi algoriðminn frægi með nýjum myndböndum um póker. Gaurum að streyma spilinu, greiningu og svo framvegis. Stundum klikkaði ég á, oftast meira að segja. Ég fattaði hvað var í gangi þegar ég var farinn að horfa á tuttugu ára klippur af stórmótum. Það var pínu eins og að horfa í spegil og hugsa: Hvern fjandann er ég að gera?

Bara svo ég segi það: Ég hef ekkert á móti póker sem slíkum. Þetta er skemmtilegt spil og svo lengi sem fólk er ekki að vera fávitar og veðja pening sem það má ekki missa þá segi ég bara gangi þér vel. Það sem gaf mér smá sjokk var að nánast finna hvernig net forritinn voru að endurforrita mig til að hafa meiri áhuga póker. Auðvitað var undirliggjandi einhver áhugi. En forritið sá að það var hægt að fá mig til að eyða tíma í þetta og nýtti sér það.

Þá fór ég að hugsa um allt sem maður er að gleypa í sig á netinu. Hjá mér eru það tattú fólk, loftfimleikar og ræktarfólk á instagram, allt fótbolta og töluleikja dótið á Youtube, pólitíska draslið á Twitter og svo framvegis og framvegis. Hversu margt er þarna á bara vegna þess að maður hafði smá áhuga á þessu á einhverjum tímapunkti og heldur áfram að tikka inn vegna þess að forritið veit að maður sýnir þessu smá áhuga. Athygli okkar er gjaldmiðill á netinu og allir að keppast um hana, maður ætti kannski að vera ögn meðvitaður um hvernig maður eyðir henni.

Svo var það hitt, það er hægt að nýta sér þetta. Tökum sem dæmi eftir þér ræktarmyndir á Instagram innblástur frekar en óþolandi. Ef maður fylgir bara nokkrum einstaklingum sem eru í þeim heimi byrjar forritið að dæla í því efni sem blæs manni eldmóð. Sama er hægt að gera með til dæmis málverk, jafnvel tónlist og svo framvegis. Á móti kemur að í smá stund varð ég meðvitaður um allt ruslið sem ég innbyrði á þessum miðlum. Hversu mikil áhrifin eru á hugsun mína eru veit ég ekki, en þau eru einhver. Við vitum öll að það að borða hollt hefur áhrif á líkamann. Hlýtur það ekki að vera að lesa og horfa á hollt hafi áhrif á hugsunina?

Ég er ekki með neina djúpa pælingu til að klára þennan pistil. En kannski smá áskorun, ef þú tekur eftir einhverju á samfélagsmiðlum, spurðu þig af hverju það er verið að sýna þér það og hvort þú viljir vera að sjá þetta. Ef ekki er blokk takkinn besta uppfinning net aldarinnar.