Örsögur úr ódýrri íbúð: Dýralíf II – Tvær plánetur

20! stendur á þriggja metra háa rósakransinum og mig langar að skella upp úr, en það væri líklega ekki fagmennska. Þessi listgjörningur er það ljótasta sem ég hef séð og það sem verra er, móðir eigandans er að rifna úr stolti á meðan kransinn er afhjúpaður. Fyrir henni var þetta hápunktur kvöldsins, hún geislar af móðurást og ég skammast mín hálfpartinn fyrir að hlæja að henni. Það er tvítugsafmæli í dýragarðinum, fyrir tvö hundruð manna nemendahóp úr Oxford.

Þegar ég varð tvítugur fóru foreldrar mínir til Hvergerðis og vinir mínir þöktu stofugólfið heima hjá mér með bíópoppi. Þegar þessi gaur varð tvítugur leigði pabbi hans stóra salinn í dýragarðinum (5000 pund), bauð 200 krökkum úr Oxford að mæta í jakkafötum og Arsenal-rauðu í þriggja rétta máltíð (150 pund á haus) og pantaði opinn bar (sem endaði í 7000 punda reikningi). Það voru ekki krakkarnir sem báðu um meira áfengi, gamli var kominn vel í glas löngu fyrir miðnætti og fannst ekkert tiltökumál að hækka drykkjareikninginn nokkrum sinnum.

Það svíður smá að sjá krakka um tvítugt brenna árslaunum þínum í partí. Það er ekki að ég haldi að líf þeirra sé endilega betra en mitt. Líkurnar á að allavega einn þarna endi sem breskur þingmaður eru nánast 100%, en líka líkurnar á að nokkur þeirra upplifi ljóta skilnaði, einhver verði alki, einhver misnoti tækifærið sem Oxford býður og endi miðaldra og bitur. Það er samt erfitt að hafa svoleiðis samhengi í huga þegar þú horfir á skólakrakka skemmta sér konunglega og þú mátt bara brosa og rétta næsta bjór.

– Hvert eru þessir að fara? spyr Spaðinn, sem var nýbyrjaður að vinna á staðnum og bendir mér á tvo stráka sem eru komnir úr salnum og út í garðinn.

– Í átt að mörgæsunum, segi ég og hleyp af stað eins og hasarmyndastjarna. Dýragarðurinn umbar veisluþjónustuna af því að tekjurnar af henni voru fáránlegar en það var algjört skilyrði að dýrin væru ekki trufluð. Næturverðirnir áttu að slútta veislum ef þeir mátu að partíið hefði áhrif á dýrin og þurftu ekki að útskýra slíka ákvörðun.

Þegar ég næ strákunum eru þeir komnir hálfa leið upp grindverkið hjá fiðurfénu og ég öskra á þá að drulla sér niður. Þetta eru líka mörgæsirnar! Hvers konar skrímsli ætlar að eyðileggja nætursvefninn þeirra?

– Fyrirgefðu, segir annar þeirra, við ætluðum að finna tígrisdýrin.

Ég hefði mögulega leyft þeim að klifra þar inn. Sumt er svo vitlaust að maður verður bara að leyfa náttúrunni að sjá um sitt. Ég er að grínast! Held ég.

Það er önnur veisla í gangi hinum megin í garðinum og það var víst búið að biðja mig að sækja glös þangað. Dýragarðurinn er yndislegur á nóttunni. Stöku fugl starir á mig úr búri en annars eru jafnt Simbi, Tímon og Púmba sofandi. Svona friður var sjaldgæfur í stórborginni. Það er sumt sem þú fattar ekki að þú munir sakna þegar þú flytur frá Hafnarfirði til London, til dæmis friðsemdar.

Þegar ég geng hjá tígrisdýrabúrinu bið ég tignarlegar skepnurnar afsökunar á að hafa haft af þeim máltíð, þau hrjóta bara áfram.

Hin veislan gæti ekki verið ólíkari tvítugsafmælinu. Pínulítið og sætt brúðkaup þar sem brúðhjónin eru klædd í strigaskó og salurinn var það eina sem þau áttu fyrir. Þau eru ekki einu sinni með opinn bar, sem þau hálfskammast sín fyrir, þau borguðu meira að segja fyrir eigin drykki á barnum. Veislustjórinn sýnir mér vagninn sem ég á að fara með og réttir mér staup. Við skálum fyrir kvöldinu og verðum vandræðalegir þegar við sjáum að brúðgauminn starir á okkur.

– Eruð þið að taka skot? spyr hann og við reynum að neita.

– Ég ætla að fá átta sambuca-skot, segir hann svo. Við hellum í þau í hvelli. Okkur að óvörum kallar hann í hina þjónana og heimtar að við tökum skot með sér.

– Í dag er besti dagur lífs míns, segir hann, takk fyrir að vera hluti af honum, skál!

Við tökum skotin og ég ýti kerrunni til baka, örlítið meyr. Þegar ég er hálfnaður aftur í Oxford-partíið rifjast upp að við gleymdum að rukka brúðgumann, það var alveg óvart. Alveg gjörsamlega óvart. 

Ég kem með kerruna inn í eldhús og Uppvaskarinn öskrar á mig að raða rétt og vera ekki svona seinn. Ég brosi bara. Uppvaskarinn er einstaklega leiðinlegur maður en hefur þann stóra kost að vera með dugnað manns sem heldur uppi stórri fjölskyldu í heimalandinu. Hann á reyndar til að öskra á þjóna, sérstaklega þá sem voru hjá okkur tímabundið, og svo mætti hann oft í vinnu eldsnemma á frídegi, stimplaði sig inn og fékk einhvern félaga til að stimpla sig út um kvöldið. Þetta komst upp þegar launadeildin sendi ábendingu um að einn í uppvaskinu hefði fengið meira útborgað en yfirkokkurinn. En yfirkokkurinn vildi ekki heyra á það minnst að reka besta starfskraftinn sinn. Ég hef kokkinn grunaðan um að finnast þetta fyndið.

Kvöldið er að klárast þegar ég finn sofandi par við lyftuna á starfsmannaganginum. Ég íhuga að skilja þau eftir en hef bara ekki þann kvikindisskap í mér. Ég vek þau með því að hósta hátt, þau hrökkva á fætur og rölta á brott.

Þegar lyftan opnast verður parið í henni töluvert vandræðalegra, hann er búinn að hneppa frá skyrtunni og hún er að leika það eftir. Hann sendir mér vongott augnaráð um hvort ég geti hundsað þetta, ég segi annars hugar:

– Jæja …

Þau klæða sig í hvelli og ég tek eftir að þau kveðja engan á leiðinni að útidyrahurðinni. Voru líklega með önnur plön fyrir eftirpartí.

Við útskýrum að lokum fyrir pabbanum að það þurfi slútta. Hann skilur ekki alveg og býðst til að borga laun starfsmanna áfram. Við bendum á að bjórinn sé að verða búinn, hann kaupir restina og nokkur skot, sem ég skrifa samviskusamlega á reikninginn. Spaðinn stingur síðasta símanúmerinu sem hann fékk í vasann og við höldum heim til okkar.

Vekjaraklukkan vekur mig allt of snemma daginn eftir. Í einhverjum hálfvitaskap, nú eða peningagræðgi, hafði ég samþykkt að mæta til vinnu klukkan tíu til að sjá um barnaafmæli. Ég mun elska börnin mín en ég efa að ég muni skilja að sumu fólki finnist nauðsynlegt að eyða milljón íslenskra króna í afmæli fyrir ómálga barn. Það læðist að mér grunur að það verði jakkaföt og opinn bar í tvítugsafmæli þessa barns líka.

Mér leiðist reyndar ekki að spjalla við leikkonurnar þrjár sem eru mættar í prinsessubúningi. Við getum tuðað endalaust yfir því hversu langt frá draumum okkar þessi dagur er. Ég veit ekki hvað ég væri að gera ef ég hefði farið strax heim til Íslands en mig grunar að ég væri ekki að vinna í barnaafmæli fyrir slikk.

Feðgarnir mæta svo upp úr hádegi, gegnsæir af þynnku báðir tveir. Móðirin hafði ekki tekið í mál að fína þriggja metra blómakransinum yrði hent svo þeir voru sendir að sækja hann.

Ég spyr hvernig þeir hafi það, þeir muldra óljósar óskir um svefn eða afréttara. Þótt þeir séu svona moldríkir fá þeir samt ekki að sofa almennilega út, greyin.

Örsögur úr ódýrri íbúð: Gagnrýnandinn

Síðasta árið í London fékk ég vinnu sem leikhúsgagnrýnandi fyrir litla vefsíðu. Starfið var ekki borgað en ég fékk að fara frítt í leikhús í það minnsta vikulega og sá fjöldann allan af sýningum sem mér hefði aldrei dottið í hug að fara á. Líkurnar á að ég hefði borgað fimmtán þúsund krónur til að sjá Michael Jackson söngleikinn eru nákvæmlega engar, hvað þá að ég myndi fara ítrekað á danssýningar í hæsta gæðaflokki eða eytt hverju kvöldi í heila viku í földu leikhúsi undir lestarstöð.

Eftir langan dag í dýragarðinum er ég á leið í pöbbaleikhús og veit ekkert hvaða sýningu ég er að fara á, man varla nafnið á henni. Ég er bæði þreyttur og sveittur eftir daginn. Föt til skiptanna gleymdust svo ég er klæddur í leðurjakkann minn, þvala skyrtu og alltof stórar jakkafatabuxur sem voru skylda í veisluþjónustunni. Stærðin var ekki skilyrði, ég kann bara ekki að versla föt. Á tánum eru stórir, ónýtir Air Max, hárið er komið í rugl.

Ég sest niður með bjór, eftir að hafa uppgötvað að vinkona mín er að sviðsstýra. Hún býðst til að kynna mig fyrir leikstjóranum eftir sýningu og ég hlakka til. Ljósin slokkna. Leikkonan stígur á svið og í ljós kemur að sýningin fjallar um heimilislausa stúlku sem vingast við efristéttar strák sem á daglega leið hjá henni á leið í skólann. Sýningin er hjartnæm og fyndin, ég er hrifinn af henni (og leikkonunni).

Svo kemur fyrsta atriðið þar sem hún talar beint við áhorfendur. Nánar til tekið betlar hún af þeim. Allir sem hafa komið til stórborgar þekkja óþægindatilfinninguna þegar ókunnugur reyna að sníkja nokkrar þarfar krónur. Það er ógeðslega ljótt en langflestir, ég sjálfur þar með talinn, setja upp ósýnilegan skjöld ef einhver betlar af þeim.

Ég bregst við betli á sviði á sama hátt og á götunni, hristi höfuðið ákveðið. Nema ég get ekki gengið í burtu og hún starir í augun á mér þangað til samviskubitið er orðið yfirþyrmandi. Ég gef mig ekki og hún leikur vel að vera í uppnámi. Hún snýr sér loks að næsta manni, ég er mjög fegin. Maðurinn er mjög almennilegur en neitar að gefa henni fé. Þá segir hún:

– Ekkert mál, þú ert allavega kurteis. Ólíkt sumum, bætir hún við og horfir hvasst á mig. Ég skælbrosi og áhorfendur hlæja vandræðalega. Sumum finnst ekkert óþægilegra en þegar leikarar ávarpa þá, mér finnst það frábært. Tengist mögulegri athyglissýki og löngun til að vera sviðinu ekki neitt, ég lofa.

Sýningin heldur áfram, strákurinn og stelpan kynnast betur og þegar sýningin fer aftur af stað eftir hlé eru þau að fylgjast með Lundúnabúum ganga framhjá. Það er útfært á skemmtilegan hátt, með því að þau benda á fólk í salnum og segja eitthvað um það. Ég veit ekki hvort leikarinn var að fylgjast með fyrir hlé en hann bendir á mig og segir:

– Þessi lítur út fyrir að vera á leið á stefnumót.

Leikkonan sér á hvern hann er að benda og leiðréttir: 

– Nei, hann lítur út eins og hann sé á leið að láta dömpa sér.

Mér finnst eins og hún sé að mana mig í að vera ósáttur, en ég spring úr hlátri.

Sýningin klárast og ég klappa, ákveðinn í að skrifa jákvæðan dóm um sýninguna. Vinkona mín kynnir mig fyrir leikstjóranum. Hann segir að leikkonan hafi aldrei gengið jafn langt í að hrauna yfir áhorfanda. Áður en ég næ að svara spyr hann mig hvernig ég hafi frétt af sýningunni.

Ég set upp sakleysisbrosið og segi:

– Ég? Ég er gagnrýnandinn.

Örsögur úr ódýrri íbúð: Heimferðin endalausa

01:00: Vaktinni og eftir-vaktar-drykknum er lokið. Í bakpokann fer slatti af bjór, ég skipti um föt og læsi skápnum með lykli. Það væri hræðilegt ef vafasamur aðili stæli fimmtán hundruð króna Primark-skónum úr honum.

01:10: Ég tékka hvort ég sé ekki örugglega með símann og veskið, kveð og stíg upp í leigubílinn sem mun skutla mér að strætóstöðinni. Vinnan borgar leigubíl mestalla leið heim en ég þarf að taka næturstrætó síðasta spölinn. Leigubílstjórinn hneykslast á því að ég vinni svona langt frá heimilinu, segir nautheimskt að eyða svona miklum tíma í samgöngur. Sumu er erfitt að mótmæla.

02:10: Hann skilur mig eftir á röngum stað. Annar næturstrætó bætist við ferð sem var of löng fyrir. Biðin er sem betur fer í styttri kantinum, ekki nema tuttugu mínútur. Ef þú þekkir næturstrætó London veistu að það er kraftaverk.

02:30: Um borð í fyrri strætónum er drukkinn, miðaldra rastafari að reyna við glæsilega, ljóshærða konu. Ég segi reyna við, ég meina áreita. Einhver ætti að vera góður gaur og losa hana við hann. Ætlar í alvöru enginn að segja neitt? Ég geri það þá. Það eina sem mér dettur í hug er að hefja samtal við hana á íslensku til að rugla gaurinn. Hún fattar strax og svarar mér á máli sem er enn þá skrýtnara en mitt eigið. Við tölum saman hvort á sínu málinu þangað til rastafarinn gefst upp og fer að tala við mann nær honum í aldri og kyni.

02:35: Við stelpan skiptum yfir í ensku, hún segist vera lettnesk. Ég spyr hana brosandi hvers vegna hún hafi hafnað svo álitlitlegum manni svo hún fer yfir hans helstu kosti. Talar sérstaklega um þessa fallegu blöndu af svita og graslykt sem stóð af honum og að hann hafi verið nær afa hennar en pabba í aldri, þvílíkur draumprins.

02:45: Við kveðjumst brosandi, mér dettur í hug að spyrja um númerið hennar en hún er stigin út áður en ég næ því. Rastafarinn lítur á mig, skilur ekkert og að lokum öskrar hann með nánást óskiljanlegum jamæskum hreimi:

– The fuck is wrong with you, mate!? She was looking for A BLOODCLOT HUSBAND.

Hann er hreinlega móðgaður, hrópar að ég muni deyja einn, að ég kunni ekki að nýta tækfæri og að ég sé karlkyninu til skammar. Þegar hann er farinn að útlista hvernig allar konur séu að leita að eiginmanni, hvort sem þær viðurkenni það eða ekki, horfi ég beint í augun á honum og set á mig heyrnartól. Það hægir ekki einu sinni á honum og ég heyri hann tuða í gegnum tónlistina þangað til ég slepp út úr vagninum. Ég er vitlaus, en ekki nógu vitlaus til að hlusta á þennan gæja.

03:00: Ég er kominn á rétta strætóstöð, bara einn vagn enn. Ég sest upp á vegg og sötra bjór á meðan ég bíð. Mér er virkilega mál að pissa en það eru aðeins of margir á ferli til að bregða sér á bak við tré. Hópur sótölvaðra enskra stelpna gengur framhjá. Ein þeirra klórar mér á hausnum, segist elska ljóst hár. Ég er of hissa til að svara með einhverju sniðugra en að ég sé íslenskur. Þær eru hrifnar af þeirri staðreynd en halda áfram göngunni. Þegar þær eru næstum komnar fyrir hornið hvíslar vinkona drukknu stelpunnar í áttina að mér …

– Threesome?

Freistandi en ég er of þreyttur og ekki alveg nógu vitlaus til slást í för með þeim. Mín önnur stóru mistök þessa nótt. Ég veit ekki ennþá af þeim fyrstu. Vagninn minn birtist, þetta er næstum komið.

03:15-03:30: Ipodinn minn er batteríslaus, ég þarf virkilega að pissa og það er fólk að hætta saman í næstu sætaröð. Þau gráta bæði og játa syndir sínar  á milli þess sem þau hrauna yfir hvort annað. Mig langar smá að snúa mér við og öskra á þau að vera þakklát fyrir að hafa fundið einhvern, sumir hafi ekkert til að hlakka til við heimkomu nema kodda. Ég stilli mig. Ég er farinn að sjá fyrir endann á ferðinni svo ég opna síðasta bjórinn. Það væri kannski skynsamlegra að geyma hann, svona fyrst mér er mál að pissa, en nei, svo sniðugur er ég ekki.

03:35: Frá síðustu stoppistöð og heim er tíu mínútna labb. Ég sé koddann í hillingum. Síðasti bjórinn reyndist, alveg óvænt, vera mistök og þrýstingurinn í þvagblöðrunni er orðinn óbærilegur. Ég er hræddur um að pissa á mig svo ég teygi mig eftir lyklunum og eyk gönguhraðann.

03:36: Lyklarnir eru í dýragarðinum. Mín fyrstu stóru mistök voru sem sagt að skilja þá eftir í vinnunni. Fokk.

03:37: Þrýstingurinn er kominn yfir hættumörk og ég get varla hugsað fyrir sársauka.

03:38: Refur fylgist með mér merkja svæðið mitt í nálægum almenningsgarði. Ég er ekki stoltur af því sem ég er að gera en finnst eins og hann skilji mig.

03:40: Góðu fréttirnar eru að það er ekki búið að laga lásinn að stigaganginum svo ég er allavega ekki fastur úti á götu. Slæmu fréttirnar eru að fjórtán tíma vinnudagurinn og bjórinn er farinn að segja til sín, augnlokin síga ískyggilega. Enn verri fréttir eru að meðleigjendurnir voru á svakalegu djammi svo að líkurnar á að þau vakni við bank eru engar. Næstu klukkutíma ber ég á hurðina, hringi í alla ítrekað, heimsæki refinn aftur, reyni svaladyrnar, endurhugsa líf mitt, hræði líftóruna úr nágranna mínum sem er að koma heim af djamminu og uppgötvar mig hálfsofandi í stigaganginum, sendi sms og skilaboð á Facebook.

06:45: Lestirnar eru loksins byrjaðar að ganga og það er nánast runnið af mér. En lestir ganga hægt og sjaldan á sunnudagsmorgnum. Líklega vegna þess að enginn heilvita maður er á ferðinni í London fyrir hádegi á sunnudegi. Flestir sem eru á ferðinni eru hamingjusamt, hresst fólk sem brosir og er ekki grátt af ölvun. Djammviskubit án þess að hafa farið á djamm er mér ný tilfinning. Þegar ég sé spegilmynd mína í glugga bregður mér, ég er fölur, með dökka bauga, skyrtan er þvöl og hárið stendur í átta mismunandi áttir.

08:00: Gæinn í móttökunni í dýragarðinum hlær að mér þegar hann sér mig. Lyklarnir eru nákvæmlega þar sem ég skildi þá eftir, í lásnum á skápnum. Ég ríf þá úr og nenni ekki að athuga hvort Primark-skórnir séu á sínum stað.

10:00: Koddinn tekur á móti mér, ég gæti grátið af gleði. Ég sofna á hálfri sekúndu.

10:05: Meðleigjandi vekur mig.

– Ingimar, hvað gerðist? Var að sjá allt frá þér á símanum.

Hún er í smá sjokki og ég er varla með meðvitund. Ég safna allri orku sem ég á eftir og svara. Ég man skýrt eftir að hafa sagt: Segi þér það á eftir, leyfðu mér að sofa. En ég hef áreiðanlegar heimildir fyrir að ég hafi í raun sagt: SGfgre þr þá erir lfu mr ð ofa.

Örsögur úr ódýrri íbúð – Beðmál í bænum – Blindur fær sýn

Allir ættu að eiga vin eins og Æskuvininn, sem flestir gera reyndar því hann virðist þekkja alla. Mögulega var það þess vegna sem hann var í smábasli þegar hann flutti til London, fyrir gæja sem var vanur að vera með risavaxið félagslegt net var skrýtið að flytja til borgar þar sem hann þekkti engan nema mig.

Það var gott að fá gamlan vin til London, ég hjálpaði eins og hægt var, benti honum á mögulegt vesen í breska kerfinu og bauð honum á djömm með vinum mínum til að hann kynntist nýju fólki. Þetta föstudagskvöld er slíkt á dagskrá: Nokkrir vinir, góður bar og ef þér finnst það ekki bara fínasta plan er ég ekki viss um að við getum skilið hvor annan.

Kvöldið fer rólega af stað. Hittingurinn er heima hjá Skáldkonunni, í hverfinu Greenwich. Við Æskuvinurinn mætum til hennar og fljótt verður ljóst að þeim leiðist ekki hvort annað. Gott og blessað. Svo kemur vinahópur Skáldkonunar á staðinn og ég tek eftir að vinkona hennar, Dísin, er í hópnum. Mér leiðist hún ekki.

Ég hafði fyrst tekið eftir Dísinni í upphafi skólagöngunar. Hún var brjálæðislega snjöll, kraftmikil og afskaplega sæt. Ég hafði fyrir löngu ákveðið að hún væri alltof nett til að ég ætti séns í hana. Félagar mínir voru pirrandi sammála mér.

Það líður á kvöldið og við gerum okkur ferð á nálægan bar. Staðurinn er fullur af drukknum Írum í sjóræningjabúningum. Þetta hefði kannski verið eðlilegt í Greenwich árið 1716, en 2014 vakti þetta furðu. Sumir þeirra syngja og dansa en flestir virðast ekki vera í partístuði. Milli bjóra spyr ég einn þeirra hver fjandinn sé í gangi.

– Vinur okkar dó nýlega. Hér var steggjunin hans og við ætlum að koma hingað árlega til að heiðra minningu hans. Þessi grátandi í horninu er ekkjan hans.

Ég votta þeim samúð og forðast sjóræningjana það sem eftir er kvöldsins. Þetta er mjög fallegt en ekki stuðið sem ég er að leita að. Við eitt borðið eru Æskuvinurinn og Skáldkonan komin á trúnó en þegar þau taka eftir að ég er einn kalla þau á mig. Dísin sest hjá okkur og við hlæjum saman að vinkonu okkar sem er að kynnast einum sjóræningjanum, mjög náið. Þetta sem þú ert að hugsa er á réttri leið en ekki nógu gróft.

Barinn lokar og við höldum heim til Skáldkonunar eftir stutta leit að stelpunni með sjóræningjanum. Hún fannst daginn eftir, í góðu stuði með ögn særða sjálfsvirðingu en fína sögu að segja. Við erum núna bara fjögur, súpandi rauðvín og borðandi eitthvað sem engum hefði dottið í hug að elda edrú. Frábær félagsskapur og yndisleg samtöl, hvað gæti farið úrskeiðis?

Ég er farinn að hugsa til heimferðar, sérstaklega þar sem ég er ekki með linsubox á mér og er farið að svíða ögn í augun. Ég er nýbyrjaður að ganga með linsur og ekki búinn að venjast þeim. Þar að auki voru þær drulludýrar og ég þurfti að koma þeim í vökva, annars myndu þær skemmast.

En við Dísin höldum áfram að spjalla, um Mad Max, feminisma og sambandið sem hún var að hætta í. Við hlæjum að öllu hvort hjá öðru og skoðanir hennar eru sterkar, skýrar og áhugaverðar. Eitt andartak dettur mér í hug að hún sé að daðra en ég er fljótur að kæfa þá hugsun. Hún er alltof of kúl fyrir mig.

Að lokum fer ég og held í átt að strætóstöðinni. Æskuvinurinn ætlar að gista. Ekki mínútu eftir að ég kveð fæ ég sms frá honum: Vá þú ert blindur. Ég íhuga að snúa við en þrjóskan, kannski með votti af skömm, tekur yfir. Ég ætla að sofa í eigin rúmi í kvöld.

Eftir hálftímalabb þar sem ég blóta sjálfum mér nær linnulaust uppgötva ég að næturstrætó ætti að vera kallaður síðla-kvölds strætó. Helvítið er hætt að ganga. Það væri möguleiki að ganga heim, en nei annars, svoleiðis mistök geri ég ekki aftur.

Þegar ég kem aftur til Skáldkonunar hlæja þau öll að mér, mikið og verðskuldað. Ég reyni að finna aftur stundina með Dísinni en hún er skiljanlega ekki alveg jafn til eftir eina klunnalega höfnun. Linsurnar enda í skotglasi og ég á sófanum, einn og pirraður út í sjálfan mig.

Daginn eftir gerum við Æskuvinurinn okkur klára í heimför á meðan stelpurnar spjalla. Linsurnar eru búnar að þorna í skotglasinu en mig minnir að sjóðandi vatni dugi til að hreinsa þær. Ég er þunnur og ekki alveg að pæla, þannig að rétt áður en við förum sýð ég vatn í hraðsuðukatli, kem annarri linsunni fyrir í lófanum á mér og helli smá vatni á hana. Sérðu gallann við þetta?

Sjóðandi vatnið er alveg sjóðandi heitt og ég öskra af sársauka. Ég skelli hendinni undir kalt vatn og finn sex augu borast í bakið á mér. Mér til varnar þá … nei veistu, ég ætla ekki einu sinni að reyna. Ég veit hversu vitlaus ég er þegar Æskuvinurinn gerir ekki einu sinni grín að því. Skáldkonan og Dísin hrista bara höfuðið. Öll eru þau kjaftstopp yfir þessu og ég óska einskis heitar en að jörðin gleypi mig. Brunablaðran í lófanum var lengi að gróa en svo kurteis að skilja ekki eftir ör.

Örsögur úr ódýrri íbúð: Dýralíf I – Apaspil

Það var skyndiákvörðun að búa áfram í London. Ég var ekki búinn að skipuleggja neitt mánuði fyrir útskrift. Allt í einu fannst mér eins og ég þyrfti að sanna eitthvað í borginni, eins og ég yrði að gera tilraun til að meika það fyrir heimferð. Annars væri að eilífu þessi óþolandi spurning: Hvað ef?

Einhver skynsemisrödd hvíslaði að þetta væri kannski ekki ákvörðun til að taka í flýti, alveg laus við sparifé, ekki með umboðsmann og þar að auki ekki í vinnu. Ég sagði þeirri rödd að þetta myndi reddast, yrði smá hark til að byrja með en þannig væri það hjá öllum leikurum. Ég taldi mig líka hafa svo frábæran skilning á bransanum að ég gæti nælt í hlutverk fljótlega, með eða án umboðsmanns.

Að vinna hjá leigumiðlun fyrir þjóna var kannski ekki það sem ég sá fyrir mér, hvað þá að fara þaðan í Dýragarðinn. Ekki sem sýningargripur heldur starfsmaður í veisluþjónustunni. Starfsfólkið var skemmtilegt og launin nokkrum prósentum yfir lágmarkslaunum. Stóri gallinn var staðsetningin, lestarferðirnar í og úr vinnu tóku lágmark klukkutími hvora leið. Ég komst í gegnum margar bækur í illa loftræstum, troðnum lestarvögnum.

Vinnudagarnir í dýragarðinum voru auðveldir en oftast langir og einhæfir. Það besta við að vinna þarna var fríi bjórinn í lok kvöldvaktar og að sjálfsögðu að umgangast dýrin. Allt frá sjaldgæfum fiðrildum til tignarlegra tígrisdýra og uppáhaldanna minna: hressra mörgæsa sem ég fékk því miður aldrei að kasta.

Þetta kvöld er árshátíð dýragarðsvarðanna. Dags daglega er þetta rólegt fólk, manneskjur sem er svo annt um velferð dýra að þau gera hana að ævistarfi sínu, vilja helst bara vera í kringum dýr og hjálpa þeim að eiga sem best líf.  En núna eru verðirnir að tínast inn úr fyrirpartíum og eru búnir að fá sér fordrykk(i). Líklega gleymdu flestir að fá sér mat áður en drykkjan hófst. Ölvunin er allavega að nálgast stig slæmrar Þjóðhátíðar á methraða.

Það er leiðindahlutverk en einhver þarf að vera sá drukknasti á staðnum. Gullfalleg stelpa í rauðum kjól hefur tekið það að sér. Hún labbar engan vegin þráðbeint að barborðinu sem ég stend við. Þrisvar sinnum er hún næstum búin að hrasa, ég geri mig tilbúinn að stökkva til og hjálpa henni á fætur eins og sannur herramaður. En hún nær að klára gönguna að barnum. Í stað þess að teygja sig eftir bjór, teygir hún sig yfir borðið og grípur um axlirnar á mér.

Hún starir í augun á mér, það er skemmtileg sjón. Svo ropar hún hátt og hikstar því upp að hún hafi sprengt glas. Ég tek eftir að önnur höndin er rauðari en kjóllinn. Við að segja þetta er eins og það losni um stíflu, hún tárast og hrópar á mig að hjálpa sér. Ég bendi henni að koma á bak við barinn, þríf til sjúkratösku en er umsvifalaust rekinn burt af samstarfsmönnum. Það er meira en nóg að gera á bak við barinn og ekki pláss fyrir tilraun til riddaramennsku.

Við finnum stað og ég þurrka af hendinni. Í ljós kemur að skurðurinn er varla sentimetri á lengd og rauði vökvinn er húsvínið. Hún þakkar mér hvað eftir annað á meðan. Ég set plástur á sárið, hún biður mig að kyssa á bágtið. Ég veit ekki hvort það er í mínum verkahring en ég læt mig hafa það og segi henni að það sé í lagi með hana.

Orð geta gert ótrúlegustu hluti, við að heyra mig segja þetta kemur partíandinn aftur yfir hana. Hún hleypur út á dansgólf og heldur áfram að skemmta sér. Ég fer aftur að sinna vinnunni. Félagarnir segjast sífellt vera sárþjáðir og biðja riddarann að kyssa ímynduð svöðusár. Mér er sama, aldrei þessu vant líður mér eins og ég hafi gert góðverk.

Meðan á þessu stendur er partíið virkilega að fara úr böndunum. Ein af köngulóarkonunum er víst fyrrverandi mannsins sem sér um lamadýrin og hann er byrjaður með einni stelpunni sem sér um apana. Köngulóarkonunni finnst viðeigandi svar að berja apastelpuna, í andlitið, með rauðvínsglasi. Ég hvet þig til að lesa þessar setningar aftur. Svo einu sinni í viðbót. Nærðu þessu? Því ég geri það varla. Skurðirnir voru ekki litlir og krúttlegir, þetta endaði sem lögreglumál og á forsíðum blaða. Dýragarðsverðirnir fá ekki lengur frítt áfengi í veislum.

Fyrir utan smáatriði eins og fólskulega líkamsárás fer veislan vel fram, þangað til kemur að því að slútta henni. Fólk er almennt ekki hrifið af því að vera rekið út af vinnustaðnum sínum, sama hversu vel þjónarnir leika að vera kurteisir og skilningsríkir.

Sumir gestanna eru með háværar yfirlýsingar um að þeir fari þegar þeir vilji fara, aðrir reyna að prútta um lengri tíma og einn og einn býður okkur í eftirpartí. Það tekur langa stund að koma gestunum burt, að endingu byrjum við þjónarnir bara að pakka saman í kringum þá sem eftir eru. Nóg er af verkum, bæði að hreinsa upp eftir þessa veislu og að undirbúa þá sem er á morgun.

Þegar glittir í vaktarlok verð ég var við hreyfingu óþægilega nálægt mér. Ég hrekk við. Nánast upp við mig er stelpan í rauða kjólnum. Hún er á sneplunum, að hún haldist upprétt er magnað. Hvernig í ósköpunum komst hún svona nálægt mér án þess að ég tæki eftir henni? Kannski er hún vön að nálgast dýr af varfærni.

Við störum hvort á annað andartak. Hvern fjandann á ég að segja? Hún verður fyrri til, spurningin kemur vægast sagt flatt upp á mig. Svo sannarlega ekki spurning sem maður á von á í starfsmannapartíi, sérstaklega ekki þegar maður er nýi gaurinn á staðnum og spyrjandi er kona sem hefur verið hér árum saman:      

– Hvar er útgangurinn?

Það er bara ein hurð í salnum! Ég bendi henni á dyrnar, hún tekur smástund í að hugsa sig vandlega um, kinkar kolli og gengur á brott. Af hverju líður mér eins og það sé eitthvað sem ég er ekki að fatta. Gæti verið að hún vilji eitthvað annað en útganginn? Drukkið fólk er skrýtið. Félagar mínir flissa.  

Aftur heyri ég þrusk, aftur hrekk ég við, aftur stendur hún alveg upp við mig.

– Þessi hurð fer ekki út … segir hún.

– Nei, útgangurinn er fyrir neðan stigann.

– Er stigi? Ég sá hann ekki, segir hún.

Það er pínulítið erfitt að vera ekki dónalegur. Stiginn er heilum metra frá hurðinni. Ég býðst, í nafni þess að losna við hana og þess að halda áfram að vera herramaður, til að fylgja henni út.

Það þarf að styðja hana niður tröppurnar og hún misstígur sig í sífellu, tvisvar er hún á leið niður stigann með andlitið á undan þegar ég næ að grípa hana. Kannski ætti ég hreinlega að bera hana niður en það væri líklega of langt gengið. Þegar hún sér útidyrahurðina ljómar hún, hún virðist hafa haldið að hún væri föst í völundarhúsi. Það sem meira er, við útidyrnar eru tveir vinir hennar, þó að þeir séu vant við látnir.

Þau eru í líflegasta sleik sem ég hef séð. Allir heimsins busaballssleikir virðast komnir saman í þessari áras tveggja einstaklinga á andlit hvor annars. Ef þau hefðu ekki bæði verið jafn brjálæðislega áköf héldi ég að þetta væri líkamsárás. Ef hægt er að fá marbletti á munninn, verða þau með þá á morgun.

Ég ræski mig hátt og segi þeim (ekkert sérstaklega) kurteislega að koma sér út. Þau blóta og taka stefnuna á eftirpartí í næsta húsi. Stelpan í kjólnum gerir sig líklega til að elta og fyrst gangan er bara einn stígur geri ég ráð fyrir að hún nái ekki að fara sér að voða. Áður en hún stígur út grípur hún um mig og segir:

 – Þú ert næs.

Svo kyssir hún mig á kinnina og ég roðna alla leið niður í hæla. Þó að ég sé ekki kominn í hlutverk riddara á sviði líður mér eins og ég hafi verið að bjarga prinsessu og það er ljúf tilfinning.

Örsögur úr ódýrri íbúð – Sá skrýtni og Fjölskyldufundir

Sá skrýtni

Ég kem heim úr skólanum og heyri að Lávarðurinn er í símanum í stofunni. Það er ekki fréttnæmt. Ég geng inn til að heilsa, hann er að strauja í uppáhaldssloppnum sínum. Það er heldur ekki fréttnæmt, það væri frekar glötuð saga. Þessi dagur sker sig úr vegna þess sem hann er að segja í símann.

– Já, ég er að fara úr bolnum …

Þetta er vissulega nýtt, svo er hann líka að ljúga, er ekki einu sinni í bol til að fara úr. 

– Já, er það … ég er viss um að þú ert stór …

Hann sér mig og glottir. Þetta getur ekki verið það sem þetta hljómar eins og:

– Hvað ætlarðu svo að gera við mig, já, það er svo heitt, ég mun svo …

Þetta þarf ég ekki að heyra. Hann er á kafi í símakynlífi. Það er nýlunda, sérstaklega þar sem hann er að stunda kynlífið á meðan hann er að byggja upp myndarlegan bunka af nýstraujuðum skyrtum.

Ég læt mig hverfa og skýt aftur inn kollinum miklu, miklu síðar um daginn.

– Hvað segirðu, Lávarður, spyr ég, eruð þið tveir að prófa ykkur áfram með símakynlíf?

– Nei, svarar hann með skítaglotti, mig vantaði smá aukapening svo ég réð mig hjá rauðu línunum. Þú ættir að prófa, borgar vel.

– Kannski seinna. Ég er sem sagt ekki bara sá eini gagnkynhneigði í íbúðinni, heldur líka sá eini sem vinnur ekki í kynlífsiðnaðinum?

– Það má nú lækna þá galla í þér, segir hann og blikkar mig.          

Fjölskyldufundir

Síðasta vikan í skólanum er runnin upp, það eina sem er eftir er lokaleikritið. Fyrstu þrjár sýningar þess gengu vonum framar, nú er bara lokakvöldið eftir. Í kvöld stígum við á svið saman, sem bekkur, í hinsta sinn. Við erum búin að vera í okkar eigin heimi í þrjú ár, þar sem það eina sem skipti máli var næsta ritgerð, næsta leikrit og hvort kunningi sé að vinna á skólabarnum um kvöldið. Raunveruleikinn: áheyrnarprufur, reikningar og að vinna fyrir sér er handan við hornið.

Fjölskyldan ætlar að koma á lokasýninguna. Nokkrum tímum fyrir hana mæta Bróðirinn, mamma og pabbi niður í skóla. Dagurinn er þægilegur. Pabbi er með myndavélina á lofti, mamma og Bróðirinn njóta sólarinnar. Við gáfum pabba þessa myndavél í jólagjöf og síðan þá hefur hann að meðaltali tekið tvö hundruð myndir á dag, talan hækkar mikið á ferðalögum. Þrátt fyrir hversu vel heppnuð gjöf þetta var er eins og hann hafi aldrei farið með fjölskyldunni í frí, ef myndirnar eru skoðaðar. Hann er ekki á einni einustu.

Bróðirinn glímir við smávægilegt vandamál. Það er tuttugu og fimm gráðu hiti og hann er farinn að svitna eins og Finni í gufubaði. Hann langar ekkert sérstaklega að sitja í svölu, myrkruðu leikhúsi í rennblautum bol.

Ég læt þau hafa lykilinn að íbúðinni minni og segi þeim að fara heim til mín að sækja hreinan bol. Mamma þykist rata, búin að heimsækja íbúðina áður, þegar hún var í umsjá Forsetans fjórum árum fyrr. Þess má geta að íbúðin gekk á milli Íslendinga sem lærðu í skólanum í allavega sjö ár.

Fjölskylda mín finnur húsið og svo stigaganginn. Lásinn á útdyrahurðinni er enn þá bilaður þannig að þau komast þar beint inn og finna svo íbúðina. Mamma stingur lyklinum í skráargatið en á erfitt með að opna. Hún djöflast aðeins og reynir að snúa honum en það reynist þrautin þyngri. Sem er skiljanlegt því hún er að reyna að opna íbúðina á móti minni.

Það tekst samt að lokum, eftir heilmikinn hamagang. Húslyklarnir ganga sem sagt, með smá djöflagangi, að öðrum íbúðum í húsinu. Ef ske kynni að það væri ekki nóg að kvarta yfir, eins og myglunni, kuldanum og hávaðanum frá Metro bar.

Þau opna dyrnar og ganga inn hjá nágrönnum mínum. Á móti þeim tekur þýsk stelpa sem er nýflutt inn. Hún skilur ekkert hvað er í gangi og það sem verra er, hún talar varla neina ensku. Þau segjast vera foreldrar Ingimars, hún kannast ekki við það nafn en segist reyndar ekki vera búin að læra nöfnin á öllum sem hún býr með.

Eftir nokkuð brenglaðar samræður átta allir aðilar á sig á því að fjölskyldan er á vitlausum stað, þau biðjast afsökunar og kveðja.

Næstu dyr opnast án vandræða og leiða þau inn á heimili mitt. Þau opna fyrstu dyrnar sem þau koma að og ganga inn í stofu.

Þar eru meðleigjendur mínir, þá meina ég strippararnir, á sófanum. Þær eru undir teppi að gera það sem pör gera á sófum, sannfærðar um einveru og næði. Töffarinn hrópar eitthvað, mamma verður vandræðaleg en strákarnir tveir eru ekki komnir inn í stofu og skilja ekki hvers vegna mamma stansaði.

Ef ég ætti tímavél myndi ég fara aftur til þessarar stundar til að sjá svipinn á mömmu. Hún reynir vandræðalega að útskýra að þau séu fjölskyldan mín, að þau séu að leita að bol og að henni þyki leitt að hafa truflað þær. Hún reynir að bakka út úr stofunni en rekst á pabba og Bróðurinn. Þeir hafa ekki hugmynd um hvað er í gangi, langar bara að heilsa upp á stelpurnar sem þeir hafa heyrt ýmislegt um. Bróðirinn treður sér framhjá mömmu, sér hvað er í gangi og skellir upp úr.

Stelpurnar ljúga því að þær séu bara að kúra og mamma rekur strákana á dyr. Einhverra hluta vegna finnst þeim þetta minna mál en henni. Bróðir minn slær botninn, eftir að þeir pabbi eru búnir að ná andanum eftir hláturskastið og þau hafa fundið eina hreina bolinn minn.

– Pabbi, segir hann, þú ert búinn að taka fimm hundruð myndir á tveim dögum, hvar var myndavélin núna!?

Örsögur úr ódýrri íbúð: Beðmál í Bænum – Stundarfriður

Þetta er alltof einfalt, er það ekki? hugsa ég þegar Heimsborgarinn hlær hátt að mínum versta brandara í kvöld. Ég bíð eftir að sjá merki um að ég sé að mislesa aðstæður, annað eins hefur nú skeð. Hún er skiptinemi og þetta er kveðjupartíið hennar og fleiri skiptinema við skólann. Við erum ein í stofunni. Hún stendur nálægt mér, alltof nálægt mér. Við snúum hvort að öðru, var hún alltaf svona sæt?

Við ræðum kveðjustundir, þá staðreynd að líklega hittumst við aldrei aftur. Hún talar um að það sé mikilvægt að skilja hlutina ekki eftir ókláraða. Annaðhvort er hún að reyna við mig eða ég er að lesa alltof mikið í vinalegt spjall og daðrandi viðmótið.

Við skálum fyrir góðum stundum, hún horfir beint í augun á mér á meðan við smellum glösum saman. Hvorugt er tilbúið að rjúfa augnasambandið. Skyndilega birtast strákarnir aftur í stofunni og okkur bregður. Spaðinn sendir mér félaga-brosið. Hann sér væntanlega það sama og ég vil sjá.

Best að  taka sénsinn, í versta falli fæ ég vandræðaleg höfnun. Ég hvísla að Heimsborgaranum að við ættum að finna okkur næði til að kveðjast almennilega. Ég býst allt eins við að hún hlægi að mér en hún ranghvolfir augunum, muldrar „það var mikið“ og dregur mig inn í herbergi. Líklega var ég að lesa þetta rétt.

Við stökkvum upp í rúmmið hennar, köstum af því úlpum, jökkum og sænginni og byrjum að hafa gaman. Þegar við erum orðin fáklædd og búin að gleyma partíinu er bankað. Hún segir mér að pæla ekki í því en það er bankað aftur, fast. Hinum megin við hurðina hrópar Djammarinn að hún þurfi jakkann sinn. 

Við dæsum í takt, klæðum okkur í hvelli og hleypum Djammaranum inn. Hún grípur jakkann sinn, brosir til okkar og hleypur öskrandi út.

– ÉG ER FARIN TIL IBIZA, BITCHES!

Flugið hennar fór klukkan sex um morgun og hún var ekki týpan til að sleppa partíi vegna smámuna eins og svefns. Við Heimsborgarinn komum okkur aftur að verki, glottandi, og þegar við erum komin vel á veg er bankað aftur.         

Ég get ekki annað en hlegið. Við klæðum okkur í boli, breiðum yfir okkur sæng og segjum þeim að koma inn. Engillinn, Leikstjórinn og Spaðinn opna skælbrosandi. Það er komin smá óreiða á herbergið, það tekur þau langa stund að finna flíkurnar og merkilegt nokk virðast þau ekkert vera að flýta sér. Meira að segja gott og kaldhæðið jæja dugar ekki til að fá þau hraðar út. Spaðinn blikkar mig á leiðinni út og Engillinn hvíslar aðeins of hátt að Heimsborgaranum:

– Vel gert.

– Við erum ekki þetta forvitnileg, er það? spyr ég þegar þau skella.

– Nei, tautar Heimsborgarinn virkilega pirruð, við sögðum öllum að geyma yfirhafnir í herberginu mínu. Hér.

Við snúum okkur að efninu, með þessu áframhaldi fer hún beint héðan út á flugvöll. Þegar hlutirnir eru farnir að vera virkilega áhugaverðir er bankað á ný, í þetta sinn springum við bæði úr hlátri. Þetta er orðið fáránlegt. Við nennum ekki einu sinni að klæða okkur, förum bara undir sæng og hrópum „kom inn“. Skáldkonan, sem er á góðum degi aðeins of vandræðaleg, skýlir augunum og hleypur svo hratt út með síðustu úlpuna. Allan tímann sem hún er inni segir hún aftur og aftur:

– Sorry sorry sorry. Sorry sorry SORRY.

Þegar hún kemur sér loksins út springum við Heimsborgarinn aftur úr hlátri og snúum okkur svo að því sem við vorum að gera, brosandi og alveg laus við yfirhafnir.

Örsögur úr ódýrri íbúð: Góða nótt

Á síðasta ári í háskóla er auðvelt að ofmetast. Maður hefur gert helling, telur sig vera með hlutina á hreinu og heldur að maður geti tekist á við hvað sem er. Þegar fer að glitta í raunveruleikann utan skólans byrja síðustu sýningarnar. Þær skipta auðvitað máli fyrir einkunnir en í leiklistarskóla hafa leikritin sem sett eru upp undir lokin annars konar vægi. Nemar bjóða umboðsmönnum á þær til að reyna að hrífa þá og komast í bækurnar þeirra. Slíkt skiptir ansi miklu fyrir feril á sviðinu í London. Lávarðurinn er að frumsýna á morgun, hann vonast til að nokkrir umbar mæti og er gjörsamlega að fara á taugum.

Stressið nær hámarki um kvöldmatarleytið þegar hann læsir sig inni í herbergi. Ég er í sannleika sagt feginn, hann er búinn að vera óþolandi, tuðar stanslaust yfir leikstjóranum milli þess sem hann útskýrir hversu taugaveiklaður hann er. Fullkomnunarárátta fer ekki saman við að vera í stóru verki með leikstjóra sem þú treystir ekki. Það sem hann þarf meira en nokkuð annað er góður nætursvefn. Stelpurnar eru í vinnunni þannig að það ætti ekki að vera mikið vandamál.

Ég er kominn undir sæng þegar ég heyri þær koma heim. Reyndar heyrir öll gatan þær koma heim. Þær eru að rífast, hátt og ljótt. Hljómar eins og Töffarinn hafi gert eitthvað sem særði Rósina en ég er ekki öruggur með það.

Rósin er brjáluð, sem gerir Töffarann brjálaða. Þú veist rifrildið sem þú lendir í með einhverjum sem þú elskar, sem er svo ljótt að þið viljið helst gleyma því daginn eftir, rifrildið sem þið verðið samt að tala um af því að sum orð er ekki hægt að taka til baka og ef sambandið á að ganga þurfa báðir aðilar að virkilega að gera upp. Þetta er það rifrildi, bókstaflega á spítti.

Þetta á eftir að trufla nætursvefninn minn en mig langar ekkert að blanda mér í þetta, myndi væntanlega bara gera illt verra. Hvern fjandann ætti ég að segja?

Næsta klukkutímann fara þær í hringi. Töffarinn reynir að róa Rósina, sem verður reiðari við það, þangað til Töffarinn tryllist og Rósin reynir að róa hana, sem gerir Töffarann þeim mun reiðari þangað til Rósin brjálast og svo framvegis. Í hvert sinn sem önnur þeirra missir sig verða öskrin hærri og orðin ljótari. Klukkan rúmlega eitt ber Lávarðurinn að dyrum hjá mér.

– Ingimar! hvæsir hann í gegnum hurðina, ég er bara of stressaður! Ég get þetta ekki! Ég trúi þessu ekki! Kvöldið fyrir frumsýningu! Þú verður að gera eitthvað!

Hann skellir herbergishurðinni sinni og pirringur minn beinist allur að honum. Ástandið er sem sagt ólíðandi og ég á að redda því einhvern veginn. Ég hugsa ósanngjarnt helvítis aumingi, ef þetta er svona mikið mál geturðu sjálfur séð um það. En þetta er svo sem rétt hjá honum, þetta getur ekki gengið mikið lengur. Með þessu áframhaldi hringja nágrannarnir á lögregluna.

Á meðan ég klæði mig og reyni að búa til einhvers konar plan öskrar Rósin:

– Ég er þá farin!

Útidyrahurðinn skellur svo glymur um allt húsið. Í herberginu þeirra situr Töffarinn á rúminu, hágrátandi. Hún kippir sér ekki upp við að ég setjist hjá henni, þvert á móti hallar hún sér upp að mér. Töffarinn segist ekki skilja hvað hafi gerst. Rósin hafi brjálast þegar hún sá Töffarann dansa á einum perranum. Töffarinn segist ætla að flytja út, þetta gangi ekki lengur og ólíkt Rósinni eigi hún bakland í London sem hún geti treyst á. Töffarinn ætlar á annan strippstað, hún hefur ekki áhyggjur af að Rósin þéni ekki nóg, perrarnir elski sakleysislegt útlit hennar. Töffarinn segir ekki orð um það hvað hún villgera, Rósin er henni efst í huga. 

Ég segi lítið, hvað gæti ég svo sem sagt. Konan sem Töffarinn elskar er væntanlega að reyna að finna sér samastað á götum Sidcup og Töffarinn kennir sjálfri sér um. Sidcup er ekki það hættulegur staður en þetta er samt London, maður sefur ekki rótt vitandi af vini, hvað þá ástvini, á götunni.

Regnið ber á rúðunni. Ég lít upp og mér dauðbregður. Rósin stendur úti á svölum og starir inn um gluggann. Niður hana alla renna regndropar og tár í bland við þá, þunn skyrtan er klístruð við hana. Dökkt hárið rammar inn náfölt andlitið í daufri birtunni. Einhvers staðar fyrir ofan hana logar ljós sem varpar skuggum yfir andlitið, enginn skuggi er dýpri en þeir sem eru í kringum augun á henni. Augun sjást varla fyrir utan örsmáa glampa á augasteinunum. Hendur hennar hvíla á glugganum. Þrátt fyrir myrkrið sést í fjölda skurða á framhandleggjunum og úr þeim rennur dökkt blóð. Axlirnar kippast taktfast, koma upp um lágt ekkasog.

Ég geng út á svalirnar, það er ískalt.

– Viltu ekki koma inn? spyr ég.

Hún hristir höfuðið.

– Komdu inn, segi ég hvassar.

Hún gengur til mín, ég leiði hana inn í stofu og vef utan um hana handklæði.

– Ég kom bara til að ná í dótið mitt, segir Rósin. Komdu Töffaranum út úr herberginu okkar og ég verð farin eftir korter. Ég get sofið á götunni, það verður ekki í fyrsta sinn.

– Kemur ekki til greina, svara ég, í versta falli tekurðu herbergið mitt og ég sef á sófanum.

Hún stendur upp og reynir að hlaupa. Ég bregst ósjálfrátt við, gríp í hana og held henni, hún berst um, reynir veikum mætti að klóra mig og kýla. Eftir smástund brotnar hún niður og biðst fyrirgefningar. Aftur og aftur segir hún að sér þyki þetta miður, að hún sé ógeðsleg mannvera. Ég staðhæfi að svo sé ekki. Hún heldur áfram lengi og mig grunar að hún þurfi að ná þessu úr kerfinu.

Eftir smástund, eða heila eilífð, missir röddin mátt en hún heldur áfram að lýsa eigin ömurð lágum rómi.

Ég skoða á henni handleggina. Hún er búin að rista langa skurði á þá, þeir eru ójafnir og ljótir. Ekki eftir hníf, heldur stein eða kannski vír. En hún forðaðist slagæðarnar, ég held viljandi, og blóðið er hætt að renna úr sárunum. Í það minnsta er hún ekki í lífshættu.

Í fyrsta sinn tek ég eftir fölum örum á handleggjum hennar. Hún hefur skorið sig áður, að því er virðist nokkrum sinnum.

Aftur segist hún ætla út á götu, nema núna er eins og hún sé að prútta við mig. Það er engin sannfæring í röddinni, er hún að tala við mig eða sjálfa sig?

– Þú ferð ekki fet í kvöld. Skilið?

– Já. Allt í lagi.

– Lofarðu? Ég held augnsambandi og neyði hana til að lofa að fara ekkert, ítrekað.

Eftir smástund kemur Töffarinn inn í stofu. Ég geri mig líklegan til að fara að sofa. Þær segja ekki orð. Á leiðinni út blóta ég og lýg því að ef eitthvað meira rugl gerist í nótt muni ég tryllast. Þær kinka báðar kolli og þegar ég býð góða nótt eru þær grátandi á öxlum hvor annarrar.

Klukkan er að ganga fjögur og ég velti fyrir mér hvort ég eigi að tala við Lávarðinn? Nei, vonandi er hann sofnaður. Ég er líka brjálaður út í hann fyrir að láta mig sjá um þetta einan.

Við Lávarðurinn spjöllum stutt saman morguninn eftir. Ég segi honum að hugsa um sýninguna, hún skipti mestu máli. Ekki viss um að ég trúi því, en segi það samt.

Eftir hádegi banka ég hjá stelpunum og þær bjóða mér inn. Þær liggja saman í rúminu og eru að horfa á teiknimyndir. Eftir eina verstu nótt lífs þeirra vilja þær horfa á Disneymynd. Ætli sumt fullorðið fólk ríghaldi í að horfa á barnaefni til að reyna að komast í samband við einfaldari tíma, áður en allt fór til andskotans hjá þeim.

Það er erfitt að trúa að þetta séu sömu konur og ég þekki, naglarnir tveir sem ég er vanur að tala við eru tímabundið horfnir. Þess í stað eru þarna tvær ungar stelpur sem hafa svo augljóslega gengið í gegnum miklu meira en eðlilegt er. Kannski þurfa þær bara skilning og eyra til að tala við. Því miður kann ég ekki að vera það eyra.

Ég spyr hvað hafi gerst en þær svara engu. Töffarinn bendir á Rósina sem hverfur nánast undir sængina. Ég segi, eins þungróma og ég get:

– Þetta gerist ekki fokking aftur. Eða …

Ég leyfi þögninni að klára setninguna, enda hef ég ekki hugmynd hvert næsta orð ætti að vera. Þær kinka kolli, ögn skelkaðar.

Sýning Lávarðarins gengur eins og í sögu, í ljós kom að áhyggjur hans voru engan veginn á rökum reistar. Það eina sem gekk betur var partíið eftir hana þar sem við tveir drukkum okkur hauslausa. Þegar við komum heim pössuðum við okkur að læðast eins og mýs, ef ekki til annars en að sleppa við ásakanir um fyrsta flokks hræsni.

Örsögur úr ódýrri íbúð: Bara eitt glas enn …

– Gaur! Fáðu þér bara einn bjór í viðbót, segir Boltastrákurinn við mig.

– Ég á flug í fyrramálið!

– Bara einn!

– Allt í lagi, bara einn.

Það þarf ekki mikinn félagslegan þrýsting til að sannfæra mig. Hvað þá á svona góðum degi. Vorönn í háskólanum lokið, við félagarnir saman í Lundúnablíðunni að fagna árinu sem var og ræða árið sem verður. Í fyrramálið er svo flug til Danmerkur til að slaka á með frændfólki og njóta lífsins.

Svona er stutta útgáfan af því sem gerist næst: Bjór, annar bjór, þriðji bjór, já ég er til í partí, skemmtilegt í partíi, bjór, leigubíll á bensínstöð til að kaupa meiri bjór, dansað í eftirpartíi, minntist ég á bjór og svo að lokum langur göngutúr í morgunsólinni heim.

Ég þarf að ná lest eftir klukkutíma til að mæta tímanlega á flugvöllinn. Ég ákveð að blunda stutt, henda svo í tösku og fara í sturtu og þá er ég góður. Ég stilli klukkuna og loka augunum.

Þremur tímum seinna hrekk ég upp. Fokk. Flugið er eftir tvo tíma, hinum megin í borginni. Hvaða möguleikar eru í boði?

Það er í raun bara um eitt að velja. Ef ég næ lestinni héðan eftir tíu mínútur, splæsi í hraðlest út á völl og er heppinn mun ég komast þangað kannski tuttugu mínútum fyrir flug. Þetta er langsótt en það er von. Ég treð tveimur sokkapörum, nokkrum bolum og passanum mínum í bakpoka og hleyp af stað.

Prófaðu að taka sprett með bakpoka, það er ekki gaman. Enginn maður hefur nokkurn tímann verið kúl á hlaupum með bakpoka. Á þessari stundu hef ég hef bara ekki tíma til að pæla í misheppnuðum töffaraskap eða sjálfvirðingu. Þrátt fyrir dúndrandi hausverk og skoppandi bakpoka set ég persónulegt met í kílómetrahlaupi.

 Ég kem á lestarstöðina í Sidcup móður og másandi en get fagnað fyrsta sigri dagsins, það eru ekki nema nokkrar sekúndur í næstu lest. Í henni fer ég yfir stöðuna í huganum, ekki í síðasta sinn. Það er smá von og ég er ekki tilbúinn að hringja og útskýra að ég komi ekki í heimsókn til frændfólksins vegna þess að ég svaf yfir mig. Hvað þá að ástæðan fyrir því sé að ég hafi ákveðið að fá mér bara einn bjór í viðbót.

Fyrir eitthvert kraftaverk er ekki ein einasta töf. Lestin stoppar í miðbænum, hálftíma frá heimahögunum, og ég tek næsta sprett niður í neðanjarðarlestakerfið. Þar þarf ég að ná einni tengilest og svo hraðlestinni. Ský áfengislyktar eltir mig í gegnum stöðina en lánið leikur aftur við mig, mín bíður neðanjarðarlest og hún brunar af stað um leið og ég stíg um borð.

Alvarlegar spurningar vakna þegar ég kem í lestina, fyrst og fremst: Er mig að dreyma?

Í vagninum er heill herskari af ofurhetjum. Bláklæddur Kafteinn Ameríka ræðir við Superman, tveir Deadpoolar flissa að eigin fyndni og heill hópur af X-mönnum er að hnakkrífast um hvaða X-men mynd sé verst.

Þetta er of mikið fyrir mig í núverandi ástandi svo ég sný mér við. Hinum megin í vagninum eru um það bil tuttugu Þjóðverjar á öllum aldri í skærgulum fótboltatreyjum Borussia Dortmund. Það væri kannski fínt að vakna núna. Nei annars, þá er ég búin að missa af fluginu.

Svona í alvöru talað, hvað er í gangi? Er undirmeðvitundin að hrekkja mig? Hvað segir það um mig að ef ég þarf að sjá ofsjónir birtist myndasögupersónur og fótboltatreyjur. Það skemmtilegasta við lestakerfið er að maður veit aldrei hvort maður rekist á hóp manna í strumpabúningum eða gamlan prest að boða heimsendi. Sama hver þú ert og hvert þú ert að fara í London, endarðu líklega í neðanjarðarlest, það þarf enga vökudrauma til þess að sjá sýnir hér.

Það hlýtur að vera rökrétt skýring, eins og til dæmis að í dag eru tveir stórir viðburðir í London. Myndasöguhátíðin London-Con og úrslitaleikur Meistaradeildarinnar í fótbolta, þar sem Dortmund mætir Bayern München. Ég ætlaði einmitt að horfa á leikinn með frænda í kvöld, í Danmörku. Það er eitthvað við líkindi þessara hópa sem er áhugavert, efni í ritgerð. Kannski gæti ég …

Áður en ég sú hugsun klárast stoppar lestin og ég tek næsta hlaup, upp að hraðlestinni.

Það kostar um það bil allan peninginn sem ég hafði áætlað fyrir ferðina að kaupa mér miða í hraðlestina. Það er samt skárra að fara blankur í flug en að fara ekki í flug. Ég kem á Stansted, langversta flugvöll borgarinnar, þrátt fyrir harða samkeppni um þann titil. Ópersónulegur, ofvaxinn og illa skipulagður. Sjáðu fyrir þér þrefalt stærri útgáfu af Kefölavíkurvelli með miklu leiðinlegra starfsfólki.

Ég lít á upplýsingaspjaldið. LOKAKALL stendur stórum, rauðum stöfum.

Fyrsta viðbragð er vantrú, það getur ekki verið að þetta klúðrist úr þessu. Kannski get ég kallað fram einhvern ómennskan sjarma og sannfært starfsmann Ryan Air um að gefa mér miða í næsta flug. Ef þú hefur flogið með Ryan Air veistu hversu bjartsýnt það er að halda að ég finni samvinnuþýðan þjónustufulltrúa. En fyrst ég er kominn þetta langt verð ég að reyna að klára dæmið. Í versta falli geng ég út með skottið á milli lappanna.

Ég tékka mig inn með miðavél. Næsta kraftaverk gerist, tollskoðun tekur enga stund. Þegar vörðurinn sér flugmiðan minn bendir hann niður næsta gang og hrópar á mig að hlaupa!

Lokaspretturinn, ég dýfi mér á milli búða, úrillra ferðamanna á fimmta kaffibolla og pirraðra starfsmanna. Svona átta sinnum er ég næstum búinn að hlaupa niður saklausan ferðalang, svitaperlur spretta fram á enninu og ég er farinn að ofanda þegar brottfararhliðið kemur í ljós í fjarska.

Ég get ég ekki annað en hlegið þegar ég stansa og halla mér að frískandi svölum vegg.

Milli þess sem ég næ andanum eftir mestu hlaup mín í mörg ár rennur upp fyrir mér að ég gleymdi einni breytu í jöfnunni. Já já, það var komið lokakall í vélina en flugið er með Ryan Air. Eftir allan hamaganginn þarf ég að bíða í röð í þrjú korter eftir að komast um borð í vélina.

Örsögur úr ódýrri íbúð: Beðmál í bænum – Senjoritan

Vikan var löng, þú varst að háskæla á leiksýningu og ert búinn á því. Skynsemin segir þér að þú ættir að fara heim að sofa. Þú ert í lestinni á leiðinni heim þegar þú færð SMS frá vini þínum, Boltastráknum, þar sem hann spyr hvort þú sért til í djamm. Hvert er svarið? Ef það er „nei“ ertu snjallari en ég. Góð hvíld sem mér veitti ekki af eða góðar stundir? Svarið er augljóst, best að pæla ekkert í ritgerðinni sem ég þyrfti helst að byrja á á morgun.

Metro-barinn, hverfiskráin okkar, er einstakur staður. Á frábæran og fáránlegan hátt. Í fyrsta lagi er þar versta eldhús á Englandi og sama hvenær maður mætir, sama hversu margir eru inni, er megn skúringasápulykt á staðnum. Á karlaklósetinu er sjálfsali sem selur ýmsan misþarfan varning, allt frá blöðrum til smokka og blárra pilla.

Barinn er beint á móti íbúðinni minni. Þegar ég flutti inn hélt ég að það yrði mikill kostur að vera beint á móti Metro. Svo reyndist ekki vera, hávær tónlist og skvaldur reykingamanna fer ekki vel með námi. Svo ekki sé talað um hve auðvelt er að rölta yfir götuna í einn bjór. Það síðastnefnda er kannski kostur og galli, kostur núna og galli í miðjum ritgerðarskrifum.

Hópurinn sem stundar staðinn er fjölbreyttur. Annars vegar heimamenn, ýmist nýorðnir (eða bara ekki orðnir) lögdrykkja eða miðaldra kallar sem voru þarna hvert einasta kvöld. Hins vegar við skólakrakkarnir. Það fer eftir ölvunarstigi hversu mikið þessir hópar tala saman. Stundum halda þeir sig hvor í sínu horni en ef allir eru orðnir hífaðir verður ólíklegasta fólk (tímabundið) bestu vinir.

Við Boltastrákurinn mætum örfáum sekúndum áður en hætt er að hleypa inn. Dyraverðirnir eru í góðu skapi, einu sinni er allt fyrst. Þetta er eins og að sjá djamm-halastjörnu, nóttin fer að stað. Við þurfum að ryðjast gegnum mannmergð til að komast að barnum, þar sem við hefjum verk kvöldsins, að breyta seðlunum okkar í klink, bjóra og góðar minningar.

Ég lék í lítilli sýningu um morguninn. Útlit persónunnar átti að minna á þýskan klámmyndaleikstjóra. Vissulega er ég búinn að skipta um föt en ég hafði ekki tíma til að raka á mig. Á efri vörinni er risavaxið og brilljantínað yfirvaraskegg, sem eingöngu drykkfelldur afi væri stoltur af. Það hefur áhrif á viðbögð fólks við mér.

Áðurnefndir miðaldra fastagestir koma hver af fætur öðrum og lýsa hrifningu sinni. Gamall Skoti króar mig af og rekur fyrir mig sorgarsögu um að konan hans hafi látið hann velja milli þess að vera með henni og að vera með skegg. Hann segist stoltur af því að sjá ungan mann halda í skegghefðirnar og varar mig við konum. Ég er ekki frá að það glitti í titrandi tár á meðan hann segir mér frá mottunni sem var.  

Stelpurnar skiptast hins vegar í tvo hópa. Flestar fela ekki hversu hallærislegt og lummó þeim finnst þetta. Þær eru sem sagt með góðan smekk. En ein og ein, mér að óvörum, virðist fíla þetta. Brasilísk stelpa sem ég hef aldrei þorað að reyna við segir hreint út að þetta minni sig á pabba hennar og henni þyki það geggjað. Þú mátt klára Freud-brandarann, ég ætla ekki að mata þig.

Svo virðist vera að ef þú ferð að djamma í stelpuleit muntu enga finna en ef þú ferð bara og skemmtir þér verður þú allt í einu aðlaðandi. Það er klisja, en hún stenst óformlega skoðun. Eins og margt sem tengist djammi er lykilatriðið að ofhugsa ekki, bara njóta augnabliksins.

Ástæðan er augljós. Ef þú ert í örvæntingarfullri kvennaleit sést það langar leiðir. Af hverju ætti nokkur að vilja sofa hjá þér ef það eina sem þú hefur áhuga á er að komast sem allra fyrst í rúmið? Ef, á hinn bóginn, þú reynir bara að skemmta þér og öðrum, þá er einfaldlega betra að vera í kringum þig og þú verður aðlaðandi. Í versta falli er mjög gaman hjá þér, í besta falli leiðir kvöldið á stað sem þú gast ekki séð fyrir.

Ég er svo fáránlegur í útliti að mér finnst hugmyndin um að nokkur vilji fara heim með mér bara fyndin pæling og reyni því ekki að vera með viðreynslur og töffaraskap, skemmti mér bara vel og þá vill fólk vera í kringum mig.ykumgangast Eitt leiðir af öðru og allt í einu er verið að loka og ég og Senjoritan erum komin á einlægt og gott trúnó.

Senjoritan er spænskur skiptinemi, svona vinur vina týpa. Við höfum kannski spjallað tvisvar fyrir þetta en erum núna að smella svona líka duglega saman. Fyrst lélegur brandari sem bæði hlæja að, svo kjánaleg spurning sem leyfir hinum aðilanum að opna sig aðeins og úr verður einlægt samtal um eitthvað sem hvorugt ætlaði að tala um. Allan tímann skjóta báðir inn litlum skrítlum og sögum af sjálfum sér. Eins og að vera í góðri spunaæfingu, ekkert úthugsað, bara verið að bregðast við í núinu á leið sem enginn sá fyrir.

Við Boltastrákurinn og Senjoritan röltum heim til mín í eftirpartí. Flestir nemar myndu þurfa að afsaka ástandið á stofunni, það er hefð við þessar kringumstæður. Ég bý hins vegar með Lávarðinum og hann hefur ekki brugðist mér, stofan er eins og hjá hágæða snyrtipinna. Þau eru bæði hrifin af því hversu snyrtilegt er hjá mér, ég steingleymi að minnast á að Lávarðurinn eigi allan heiðurinn.

Við komum okkur fyrir, þau tvö í stóra sófanum og ég í þeim litla og um leið og við setjumst koma strippararnir heim úr vinnunni. Þær eru vel drukknar og bjóða sér í eftirpartíið. Þær ákveða að leika vængmenn fyrir mig. Þær setjast, leggjast nánast, á sófann minn og eru ekkert nema almennilegheitin. Þær hrósa mér hástert, daðra og þykjast hvísla einhverju að mér.  Eru þær viljandi að reyna að gera Senjorituna öfundsjúka? Já. Eru svona leikir ljótir? Já. Er mér drullusama á þessum tímapunkti? Já.

Boltastrákurinn kveður og sendir mér félagabros, stelpurnar fara inn til sín. Það síðasta sem þær segja við okkur er „skemmtið ykkur vel“ og blikka Senjorituna. Ég færi mig yfir á sófann til hennar, búinn að gleyma mottunni og við byrjum að kyssast. Hún ákveður að gista, enda löng ganga heim til hennar. Þú mátt fylla í eyðurnar.

Lifðum við hamingjusöm til æviloka? Nei, ekki einu sinni til mánaðamóta.

Við hittumst öðru hverju næstu vikur og áttum okkur fljótlega á að við pössum saman eins og olía og vatn. Sjarmi fyrsta kvöldsins hverfur ásamt mottunni en líklega var hún ekki lykilatriði. Fljótlega hættir hún alveg að svara mér þegar ég reyni að hafa samband. Engin sms, engin svör á facebook, bara tómið. Hún vill augljóslega ekki tala við mig.

Það að hún hætti bara að svara fokkar í höfðinu á mér og ég fer að ofhugsa það í döðlur. Ég fer að ímynda mér ýmsar ástæður fyrir að hún vilji ekki bara slíta þessu, sú eina sem mér finnst passa er að hún treysti mér ekki til að taka því eins og fullorðinn maður. Hvort sem það er rétt eða ekki, finnst mér það sárt.

Ég sé hana næst í partíi hjá vinafólki, þar sem ég er með strippurunum. Ég vil ekki vera ágengur en bið Töffarann um að fara og spyrja hana af hverju hún hafi hætt að svara mér. Legg áherslu á að ég sé ekki að reyna koma einhverju aftur af stað en langi að vita ástæðuna, kannski til að gera betur næst.

Töffarinn snýr aftur, mjög vandræðaleg.

Ég spyr hvað sé málið.

– Hún vill ekki hitta þig.

– Ég náði því fyrir löngu, hví?

– Ja, henni fannst þú bara svo svakalega leiðinlegur.

Áts.