20! stendur á þriggja metra háa rósakransinum og mig langar að skella upp úr, en það væri líklega ekki fagmennska. Þessi listgjörningur er það ljótasta sem ég hef séð og það sem verra er, móðir eigandans er að rifna úr stolti á meðan kransinn er afhjúpaður. Fyrir henni var þetta hápunktur kvöldsins, hún geislar af móðurást og ég skammast mín hálfpartinn fyrir að hlæja að henni. Það er tvítugsafmæli í dýragarðinum, fyrir tvö hundruð manna nemendahóp úr Oxford.
Þegar ég varð tvítugur fóru foreldrar mínir til Hvergerðis og vinir mínir þöktu stofugólfið heima hjá mér með bíópoppi. Þegar þessi gaur varð tvítugur leigði pabbi hans stóra salinn í dýragarðinum (5000 pund), bauð 200 krökkum úr Oxford að mæta í jakkafötum og Arsenal-rauðu í þriggja rétta máltíð (150 pund á haus) og pantaði opinn bar (sem endaði í 7000 punda reikningi). Það voru ekki krakkarnir sem báðu um meira áfengi, gamli var kominn vel í glas löngu fyrir miðnætti og fannst ekkert tiltökumál að hækka drykkjareikninginn nokkrum sinnum.
Það svíður smá að sjá krakka um tvítugt brenna árslaunum þínum í partí. Það er ekki að ég haldi að líf þeirra sé endilega betra en mitt. Líkurnar á að allavega einn þarna endi sem breskur þingmaður eru nánast 100%, en líka líkurnar á að nokkur þeirra upplifi ljóta skilnaði, einhver verði alki, einhver misnoti tækifærið sem Oxford býður og endi miðaldra og bitur. Það er samt erfitt að hafa svoleiðis samhengi í huga þegar þú horfir á skólakrakka skemmta sér konunglega og þú mátt bara brosa og rétta næsta bjór.
– Hvert eru þessir að fara? spyr Spaðinn, sem var nýbyrjaður að vinna á staðnum og bendir mér á tvo stráka sem eru komnir úr salnum og út í garðinn.
– Í átt að mörgæsunum, segi ég og hleyp af stað eins og hasarmyndastjarna. Dýragarðurinn umbar veisluþjónustuna af því að tekjurnar af henni voru fáránlegar en það var algjört skilyrði að dýrin væru ekki trufluð. Næturverðirnir áttu að slútta veislum ef þeir mátu að partíið hefði áhrif á dýrin og þurftu ekki að útskýra slíka ákvörðun.
Þegar ég næ strákunum eru þeir komnir hálfa leið upp grindverkið hjá fiðurfénu og ég öskra á þá að drulla sér niður. Þetta eru líka mörgæsirnar! Hvers konar skrímsli ætlar að eyðileggja nætursvefninn þeirra?
– Fyrirgefðu, segir annar þeirra, við ætluðum að finna tígrisdýrin.
Ég hefði mögulega leyft þeim að klifra þar inn. Sumt er svo vitlaust að maður verður bara að leyfa náttúrunni að sjá um sitt. Ég er að grínast! Held ég.
Það er önnur veisla í gangi hinum megin í garðinum og það var víst búið að biðja mig að sækja glös þangað. Dýragarðurinn er yndislegur á nóttunni. Stöku fugl starir á mig úr búri en annars eru jafnt Simbi, Tímon og Púmba sofandi. Svona friður var sjaldgæfur í stórborginni. Það er sumt sem þú fattar ekki að þú munir sakna þegar þú flytur frá Hafnarfirði til London, til dæmis friðsemdar.
Þegar ég geng hjá tígrisdýrabúrinu bið ég tignarlegar skepnurnar afsökunar á að hafa haft af þeim máltíð, þau hrjóta bara áfram.
Hin veislan gæti ekki verið ólíkari tvítugsafmælinu. Pínulítið og sætt brúðkaup þar sem brúðhjónin eru klædd í strigaskó og salurinn var það eina sem þau áttu fyrir. Þau eru ekki einu sinni með opinn bar, sem þau hálfskammast sín fyrir, þau borguðu meira að segja fyrir eigin drykki á barnum. Veislustjórinn sýnir mér vagninn sem ég á að fara með og réttir mér staup. Við skálum fyrir kvöldinu og verðum vandræðalegir þegar við sjáum að brúðgauminn starir á okkur.
– Eruð þið að taka skot? spyr hann og við reynum að neita.
– Ég ætla að fá átta sambuca-skot, segir hann svo. Við hellum í þau í hvelli. Okkur að óvörum kallar hann í hina þjónana og heimtar að við tökum skot með sér.
– Í dag er besti dagur lífs míns, segir hann, takk fyrir að vera hluti af honum, skál!
Við tökum skotin og ég ýti kerrunni til baka, örlítið meyr. Þegar ég er hálfnaður aftur í Oxford-partíið rifjast upp að við gleymdum að rukka brúðgumann, það var alveg óvart. Alveg gjörsamlega óvart.
Ég kem með kerruna inn í eldhús og Uppvaskarinn öskrar á mig að raða rétt og vera ekki svona seinn. Ég brosi bara. Uppvaskarinn er einstaklega leiðinlegur maður en hefur þann stóra kost að vera með dugnað manns sem heldur uppi stórri fjölskyldu í heimalandinu. Hann á reyndar til að öskra á þjóna, sérstaklega þá sem voru hjá okkur tímabundið, og svo mætti hann oft í vinnu eldsnemma á frídegi, stimplaði sig inn og fékk einhvern félaga til að stimpla sig út um kvöldið. Þetta komst upp þegar launadeildin sendi ábendingu um að einn í uppvaskinu hefði fengið meira útborgað en yfirkokkurinn. En yfirkokkurinn vildi ekki heyra á það minnst að reka besta starfskraftinn sinn. Ég hef kokkinn grunaðan um að finnast þetta fyndið.
Kvöldið er að klárast þegar ég finn sofandi par við lyftuna á starfsmannaganginum. Ég íhuga að skilja þau eftir en hef bara ekki þann kvikindisskap í mér. Ég vek þau með því að hósta hátt, þau hrökkva á fætur og rölta á brott.
Þegar lyftan opnast verður parið í henni töluvert vandræðalegra, hann er búinn að hneppa frá skyrtunni og hún er að leika það eftir. Hann sendir mér vongott augnaráð um hvort ég geti hundsað þetta, ég segi annars hugar:
– Jæja …
Þau klæða sig í hvelli og ég tek eftir að þau kveðja engan á leiðinni að útidyrahurðinni. Voru líklega með önnur plön fyrir eftirpartí.
Við útskýrum að lokum fyrir pabbanum að það þurfi slútta. Hann skilur ekki alveg og býðst til að borga laun starfsmanna áfram. Við bendum á að bjórinn sé að verða búinn, hann kaupir restina og nokkur skot, sem ég skrifa samviskusamlega á reikninginn. Spaðinn stingur síðasta símanúmerinu sem hann fékk í vasann og við höldum heim til okkar.
Vekjaraklukkan vekur mig allt of snemma daginn eftir. Í einhverjum hálfvitaskap, nú eða peningagræðgi, hafði ég samþykkt að mæta til vinnu klukkan tíu til að sjá um barnaafmæli. Ég mun elska börnin mín en ég efa að ég muni skilja að sumu fólki finnist nauðsynlegt að eyða milljón íslenskra króna í afmæli fyrir ómálga barn. Það læðist að mér grunur að það verði jakkaföt og opinn bar í tvítugsafmæli þessa barns líka.
Mér leiðist reyndar ekki að spjalla við leikkonurnar þrjár sem eru mættar í prinsessubúningi. Við getum tuðað endalaust yfir því hversu langt frá draumum okkar þessi dagur er. Ég veit ekki hvað ég væri að gera ef ég hefði farið strax heim til Íslands en mig grunar að ég væri ekki að vinna í barnaafmæli fyrir slikk.
Feðgarnir mæta svo upp úr hádegi, gegnsæir af þynnku báðir tveir. Móðirin hafði ekki tekið í mál að fína þriggja metra blómakransinum yrði hent svo þeir voru sendir að sækja hann.
Ég spyr hvernig þeir hafi það, þeir muldra óljósar óskir um svefn eða afréttara. Þótt þeir séu svona moldríkir fá þeir samt ekki að sofa almennilega út, greyin.