Örsögur úr ódýrri íbúð: Sósublettir

Töffarinn og Rósin skrækja úr hlátri í herberginu sínu, á sama tíma fagna ég flissandi í stofunni þegar Luis Suarez setur enn eitt markið fyrir Liverpool gegn Norwich. Hann fór alltaf illa með þá, það sem ég sakna að hafa þennan rugludall í rauðu treyjunni. Liverpool er að vinna, Lávarðurinn er í heimsókn hjá kærastanum, engin heimavinna og í kvöld er partí. Dagur í Paradís, ef væntingum til Paradísar hefur verið stillt í hóf. 

– Ingimar, hrópar Töffarinn úr herberginu, komdu og sjáðu!

Hún er greinilega að springa úr spenningi. Ég á að vita betur en að svara þessu, en samt fer ég inn til þeirra. Þær sitja á rúminu sínu og tölvan er opin. Á skjánum er beinstífur, æðaber limur, þakinn einhvers konar rauðri sósu. Þær eru á Skype, þetta er í beinni útsendingu.

Hvernig á að bregðast við svona, er eitthvað sem er eðlilegt að segja, eitthvað sem maður á að gera? Það er að segja annað en að blóta hátt og grípa ósjálfrátt um augun. Rósin segir milli hláturroka.

– Við vorum að segja honum að setja tabasco á typpið á sér, dettur þér eitthvað verra í hug?

Spurningin kemur flatt upp á mig og ég missi út úr mér:

– Í rassinn?

– Frábær hugmynd! svarar Töffarinn og ég fæ samstundis samviskubit. Ég skelli á eftir mér og minni mig á að spyrja næst hvers vegna þær vilji að ég komi inn til þeirra.

Þetta er sem sagt nýja vinnan þeirra. Til eru menn sem njóta þess að vera niðurlægðir og eru tilbúnir að borga háar fjárhæðir fyrir það. Reyndar var greiðslan aðallega varningur, Töffarinn kvartaði seinna undan því að hún ætti lífstíðarbirgðir af Victoriu Secret-nærfötum en væri í basli með að borga leiguna. 

Þær gátu unnið heima og þurftu ekki að umgangast perrana. Held að þetta síðarnefnda hafi verið stærsti kosturinn, töluvert auðveldara að láta eins og þeir væru ekki fólk þegar þeir voru bara mynd á skjá. Svona eins og þegar sumir segja að þeir gætu aldrei farið til vændiskonu en eru samt meira en til í smá klám í lok dags.

Liverpool-leikurinn verður einhvern veginn öðruvísi eftir þessa sjón. Suarez slengir skoti í vinkilinn og ég glotti einn í stofunni. Það hlýtur að svíða að spila á móti svona manni.

Örsögur úr ódýrri íbúð: Kentucky Fried Hafnfirðingur

Hluti af náminu var að taka eina skiptinámsönn í Bandaríkjunum. Við Leikstjórinn tókum hana saman í Centre-háskólanum í smábænum Danville, Kentucky. Það var meira menningarsjokk að koma til Danville en London.

Bærinn er á stærð við Hafnarfjörð en samt bara með ein umferðarljós en átjan kirkjum. Í London er maður maur, í Danville var þessi þægilega smábæjartilfinning, að maður gæti þekkt alla á svæðinu ef maður bara byggi þarna í nokkur ár.

Þegar ég fletti Danville upp á netinu kom í ljós að bærinn var þurr til 2011. Mér fannst skrýtið að veðrið hefði breyst og velti fyrir mér hvort hlýnun jarðar væri orsökin. Í ljós kom að þurr þýddi að það var ólöglegt að selja áfengi þar, til 2011! Hann var reyndar síðasti staðurinn í fimm hundruð kílómetra radíus til að afnema áfengisbannið. Á öllum vegum inn í og út úr bænum, rétt við bæjarmörkin, hafði staðið áfengisbúð með lúgu fyrir ferðalanga. Þegar ég flutti til bæjarins var búið loka þeim en húsin stóðu enn þá við veginn, minnisvarði um þrotaða stefnu stjórnvalda til að bæta hegðun íbúa með boðum og bönnum.

Við Leikstjórinn erum saman í bekk. Hann er fyndinn gaur, frábær leikari og ofan á það góður tónlistarmaður. Svo er hann sjarmakóngur, en fannst ögn vandræðalegt að hreimurinn hans minnti kvenfólk á staðnum á persónu í rómantískri gamanmynd. Mikið.

Innan bæjarins voru í raun tvö samfélög, nánast alveg aðskilin. Verkamannabærinn og háskólinn. Nokkrar verksmiðjur héldu hjólum atvinnulífsins gangandi og þeir sem unnu í kringum þær höfðu ekki mikið álit á háskólanum og nemendum sem sátu þar alla daga með nefið ofan í bók. Centre er  risastór, 25–30 byggingar, nokkur íþróttasvæði og þúsundir nemenda. Miðað við stað í Suðurríkjunum var hann mjög frjálslyndur, en bara miðað við það. Ég sá marga gráta þarna þegar Obama var endurkjörinn, fæstir gleðitárum.

Partíin voru eins og í bíómynd, nánar tiltekið einhverri háskóla djammmynd þar sem allir drekka úr rauðum plastglösum og enda á þakinu. Ástæðan fyrir plastglösunum? Skólareglurnar bönnuðu mjög skýrt að nemar væru með opnar áfengisflöskur á skólalóðinni, en það stóð ekkert um bjór í glasi.

Við Leikstjórinn uppgötvuðum að Bandaríska suðrið féll okkur vel að skapi (og ef það er einhver frá Alabama eða Tennessee að lesa þetta, ég veit að Kentucky er ekki suðurríki frá ykkar bæjardyrum séð en íste er samt þjóðardrykkurinn, börn lesa frekar Biblíuna en Harry Potter og það er ekkert mál að finna djúpsteikt súkkulaðistykki!) Það var eitthvað við andrúmsloftið, það var svo afslappað samanborið við London. Það var ekki bara að maður gæti tekið því rólega dags daglega, endalaust sólskinið og stórar lóðir við öll hús beinlínis heimtuðu að maður slakaði á og nyti augnabliksins.

Við bjuggum hjá breskum kennara sem starfaði við skólann og þar lærði ég allt sem ég kann um gestrisni. Besta hefðin hans var að á hverjum sunnudegi var þriggja rétta kvöldverður með mismunandi gestum og nýju rauðvíni. Óskrifaða reglan var að enginn leit á símann og enginn stóð upp fyrr en eftir að minnsta kosti þrjá tíma. Yndislegar kvöldstundir, suðræn gestrisni með bresku ívafi.

Eitt kvöldið um miðja önn varð minnisstæðara en önnur. Við Leikstjórinn fórum í fámennt partí hjá nýjum félaga, drukkum viskí og ég spilaði FIFA við strákana.  Planið var að fá sér bara einn drykk og halda svo heim. Þeir urðu reyndar aðeins fleiri, í Kentucky er viskíið gott.

Það er meira en nóg af keppnisskapi á staðnum, við öskrum eins og vitleysingar þegar við skorum og blótum enn þá hærra þegar keppinauturinn gerir það. Þess á milli hótum við hver öðrum litríku ofbeldi og útskýrum háum rómi af hverju markið sem við fengum á okkur var augljóslega svindl. Karlmenn að vingast, það verður stundum furðulegt.

Þegar kvöldið er að verða að nótt og ég er orðinn hás af ópum ákveðum við Leikstjórinn að halda heim. Það er þéttskipuð dagskrá daginn eftir. Liverpool á leik við Norwich í fyrramálið, fátt skemmtilegra en að vakna snemma, hella upp á kaffi og fylgjast og  horfa á Suarez skora þrennu. Leikstjórinn er að fara að syngja með kirkjukór um hádegisbil, ég er búinn að lofa að mæta, og svo ætlum við í fjallgöngu. Allt eru þetta fínustu rök fyrir að fara heim að sofa.

Við erum hálfnaðir yfir skólalóðina þegar ég tek eftir stelpu sem hafði áður tekið eftir mér. Þetta er ekki tilviljun, við erum búin að vera að skiptast á vandræðalegum daðurskilaboðum dögum saman og ég er satt best að segja bálskotinn í henni. Allt eru þetta fínustu rök fyrir að bíða með að fara heim að sofa.

Leikstjórinn lætur sig hverfa, eftir að hann sendir mér snöggt félagabros.

Við byrjum að rölta um í tunglsljósinu, ræðum daginn og veginn og fleira klisjukennt. Mig langar ekkert að sitja á einhverjum bekk svo ég sting upp á að við prílum upp í tré í staðinn. Þar komum við okkur fyrir, eins og í klisjukenndri bíómynd, kelum vandræðalega og hegðum okkur eftir bestu getu eins og unglingar í bíómynd sem ég myndi ekki nenna að horfa á. Eftir meira en klukkutíma af spjalli og keli kveðjumst við, bæði rjóð í kinnum og gælandi við draumóra sem munu aldrei rætast.

Þá er komin tími á heimferð, í þetta sinn án truflana. Er ég í alvöru að spyrja mig að þessu eina ferðina enn: Hvar er ég?

Byggingarnar eru ókunnar og það er lítið um lestarstöðvar sem hægt er að nota sem leiðavísa. Litlar götur verða mjög svipaðar hver annarri í myrkri. Ég ákveð að ganga í sömu átt í tíu mínútur og ef ekkert kunnuglegt kemur í ljós sný ég við.

Á meðan ég rölti niður götuna fara hlauparar framhjá mér. Spandexklæddir, sjálflýsandi, númeraðir hlauparar í tugatali. Stundum hópar, stundum einn eða tveir. Þetta er spes. Það voru einhverjir svipaðir á hlaupum fyrr um daginn og mig rámar í að það sé einhvers konar keppni í gangi, svona „hljóp í sólarhring í hundrað þúsund króna hlaupagalla með vinum mínum og safnaði fimmtán þúsund krónum fyrir langveik börn“-dæmi.

Eftir smástund fer ég að fíla þetta. Þetta er eins og Reykjavíkurmaraþonið, bara miklu lengra og án áhorfenda. Einhver ætti nú að taka að sér að hvetja hlauparana áfram. En hér er enginn nema ég. Kannski ég stofni stuðningssveitina Einn Íslendingur.

 „Koma svo“ og „vel gert!“ hrópar Einn Íslendingur á hlaupara sem fara fram úr mér. Reyndar á íslensku sem er kannski ekki sniðugt. Þetta er ekki beint Silfurskeiðar-stemning, en betra en ekkert.

Tíu mínúturnar eru liðnar fyrir korteri, þetta svæði er ekki á skólalóðinni og ekki leiðin heim. Best að finna umferðarljósin aftur og fara í næstu átt. Viðsnúningurinn hefur þann kost að ég fer nú á móti hlaupaumferðinni, auðveldara að hvetja þannig.

Tilraunir til að gefa fimmur fara úrskeiðis, þessir hlauparar virðast ekki kunna að meta stuðning Eins Íslendings. Mætti halda að það sé munur á að vera hvattur áfram af áhorfendum Reykjavíkurmaraþonsins og fullum gaur í myrkri. Ég læt engan bilbug á mér finna, gleðst bara helmingi meira yfir þeim fáu hlaupurum sem fíla peppið.

Nokkrum mínútum seinna mætir hvítur sendiferðabíll, stoppar og út stekkur fólk. Þau eru brjáluð. Leiðtoginn er froðufellandi. Hann frussar yfir mig allan og forljót sólgleraugu, sem hann er með í bandi um hálsinn, skoppa á bringunni. Hann orgar að borist hafi tilkynning um fyllibyttu sem væri að vanvirða hlaupið og þá sem hefðu skipulagt það, sérstaklega hann sjálfan, aðalskipuleggjara hlaupsins, sem bæri ábyrgð á þessu öllu.

Hér er ágætis lífsregla, ef einhver fer að tala um að þú sért að vanvirða hann er það gott merki um að viðkomandi sé fáviti.

Þótt Aðalskipuleggjandinn sé mér ekki að skapi biðst ég afsökunar, segist vera langhlaupari sjálfur (hálfsatt, hljóp eitt maraþon en læt ekki fylgja að síðan hafi ég ekki farið í meira en fimm kílómetra göngutúr) og muni hvað það var geggjað þegar fólk var að hvetja mig áfram í maraþoninu. Það sé ekkert mál að hætta, ég hafi tekið vitlausa beygju og sé á leið heim.

Aðalskipuleggjandinn tvíeflist við þessa játningu, öskrar aftur að ég sé að skemma fyrir öllum, önnur afsökunarbeiðni hjálpar ekki. Ég lofa að hætta og segi að mig langi bara að komast heim til mín. Hann spyr mig hvort ég geti beðið í fimm mínútur, sem er ekkert mál. Til hvers, hugsa ég samt, ætti hann ekki bara að vilja losna við mig sem fyrst?

Þau ræða málið við bílinn og Aðalskipuleggjandinn dregur fram símann.  Eftir að hann skellir á biður hann mig að bíða rólegan, sem er ekkert mál. Mig langar bara að leysa þetta og komast heim.

Örskömmu síðar blikka blá ljós og þrír lögreglubílar skransa fyrir framan mig. Út úr þeim stökkva fimm risavaxnar, þungvopnaðar suðurríkjalöggur með háa hatta og glansandi barmmerki. Ég er ekki einu sinni hræddur, bara furðu lostinn.

Stærsta löggan, Tröllalögga, tekur sér stöðu beint fyrir framan mig. Hann hlýtur að hafa æft þessa stellingu. Hann krossleggur arma, stendur svo gleytt að hægt væri að keyra snjósleða á milli lappanna og reiðisvipurinn tjáir særða, ofþroskaða réttlætiskennd. Tröllalögga veit greinilega innst inni að ef hann er ekki á varðbergi munu Bjarnabófarnir leggja Danville í rúst. Fyrir honum er það að hrópa á hlauparana augljóslega jafn alvarlegt og að skjóta bæjarstjórann, allir glæpir eru ógn við friðinn.

Ég man allt í einu hverja einustu sögu sem ég hef lesið og heyrt um Bandaríska lögreglumenn og barsmíðar á þeim sem eru með mótþróa. Þetta er ekki lengur sniðugt.

Ég hugga mig við að ég sé hvítur, þeir þurfa líklega tilefni til að lúskra á mér. Þeir eru allir með mikinn suðurríkjahreim. Veistu hvað suðurríkjabúar þola minnst af öllu? Fólk að norðan sem heldur að það sé betra en þeir. Ímyndaðu þér viðhorfið sem íslenskt sveitafólk hefur til sérfræðinga af sunnan. Margfaldaðu það með 200 árum af árekstrum, einu töpuðu borgarastríði og því að norðurríkjabúar líta oftast niður á þá fyrir sunnan. Það veldur ákveðnum, skiljanlegum, pirringi. Ég er ekki einu sinni Kani, hvað þá norðurríkjabúi, en hreimurinn er augljóslega ekki úr suðrinu. Þarna ertu, lafandi ótti, velkominn til leiks.

Tröllalögga fer með sömu rullu og Aðalskipuleggjarinn. Ég reyni að útskýra mig og afsaka: Að ég sé nýfluttur hingað, á heimleið og skilji ekki alveg hvað sé í gangi. Tröllalöggan spyr hvort ég sé í skólanum, ég segi já. Reiðin margfaldast. Hann spyr mig hvort ég hafi verið að drekka, ég segist hafa fengið mér nokkur viskískot en það séu margir tímar síðan. Reiðin nær einhvern veginn nýjum hæðum, Hulk væri stoltur. Hann æpir á mig:

– Ertu að játa að þú sért í glasi?!

– Já.

Hann grípur mig, ekki blíðlega, og snýr mér við. Handjárn læsast um úlnliðina á mér. Hann les mér réttindi mín.  Já, nákvæmlega eins og í öllum löggumyndum sem þú hefur séð.

– Fyrir hvað er verið að handataka mig?

– Að vera ölvaður á almannafæri!

Er það glæpur hérna? Þeir skella mér inn í aftursæti eins bílsins og Tröllalöggan segir út í loftið:

– Við leyfum ykkur skólakrökkunum að komast upp með hvað sem er inni á skólalóðinni, af hverju getið þið ekki haldið ykkur þar?

Fyrir þrem tímum var ég í FIFA, fyrir klukkutíma í sleik og er núna kominn upp í lögreglubíl.  Líklega er óþarfi að óttast barsmíðar, held ég allavega.

Þeir hljóta að hafa mikilvægari málum að sinna en fullum háskólakrökkum. En þeir fengu símhringingu um mig. Vegna þess að ég er utan skólalóðarinnar geta þeir ekki horft fram hjá því. Í þeirra augum er ég utanbæjarmaður sem taldi sig hafinn yfir lögin á staðnum. Það er auðvitað engin afsökun að hafa ekki þekkt regluna. Mig grunar að hún sé svo sjálfsögð að engum kæmi til hugar að segja aðkomumanninum frá henni. Ég er formlega kominn í djúpan skít.

Á lögreglustöðinni eru járnin losuð, þau skilja eftir rauð för. Það er eitthvað óþægilegt við löggurnar, eins og þær séu að hlæja að mér.

Það er komið að skráningu í kerfið. Þau taka af mér veskið, úrið og símann. Konan við skrifborðið grandskoðar skilríkin mín og spyr mig ítrekað hvort þau séu fölsuð. Hvað ætli maður í smábæ í Kentucky hefði að gera við fölsuð íslensk skilríki?

Þau hringja upp í skóla og eftir stutt samtal er mér tilkynnt að það sé enginn Ingimar á nemendaskrá, sem er vissulega óvænt. Þau segja að best væri að játa núna ef ég er að ljúga um að vera nemandi. Ég hristi hausinn, segist vera skiptinemi og búi hjá einum kennaranum. Það vekur ekki hrifningu.

Að lokum er mér hent inn í skærbleikan (það er ekki hægt að skálda sumt), vel lýstan klefa sem er kannski fimm fermetrar og gluggalaus. Í klefanum er kamar, vaskur og tveggja metra hár, áfengisdauður durgur

Á íslensku má alltaf finna svar, hún orðar stórt og smátt sem er og var, og hún á orð sem geyma gleði og sorg. Hún á hins vegar ekki orð sem lýsir týpunni á gólfinu, svo ég nota það enska: maðurinn er augljóslega hillbilly, jafnvel þótt hann liggi steinrotaður á andlitinu. Veðurbarið smetti, varanlega sólbrenndur hnakki, í drullugri, köflóttri skyrtu og kúrekastígvélum. Hann náði meira að sega að hrjóta með afslöppuðum suðurríkjahreim.

Yfir mig kemur mótþróaþrjóska, ég er ákveðinn að sofna ekki. Til að halda mér vakandi raula ég You‘ll Never Walk Alone, þjóðsöng Liverpool-manna, aftur og aftur. Ég hef aldrei fundið neina hjálp né huggun í bæn en það er eitthvað við orðin í laginu sem hughreystir mig.

– When you walk through the storm / hold your head up high / and don‘t be afraid of the dark. / At the end of the storm there‘s a golden sky/ and the sweet silver song of the lark. / Walk on through the wind, walk on through the rain / though your dreams be tossed and thrown. / Walk on, walk on with hope in your heart / and you‘ll never walk alone / you‘ll never walk alone.

Eftir langa stund hrekk ég við, hef augljóslega dottað. Í dyrunum stendur vörður sem spyr hvort mig vanti eitthvað.

– Bara upplýsingar, hvað þarf ég að vera hérna lengi?

– Reglan er tólf tímar, tíu eftir. Viltu ekki vatn?

– Jú takk.

Hann kemur með glas og bakka af einhverju sem mætti kannski lýsa sem mat, ef kröfur um næringu og bragð eru engar. En hungur er besta kryddið svo ég háma matinn í mig og finnst hann næstum því góður. Þegar hann skellir á eftir sér hrekkur herra Hillbillý upp. Hann á í miklu basli með að setjast upp, nær að detta sitjandi áður en hann hallar sér upp að vegnum og lítur í kringum sig með furðusvip. Hann kannast við sig. Hann blótar hátt, þetta er líklega ekki hans fyrsta nótt hérna.

Þessi náungi er ekki beint traustvekjandi. Ég passa að sýna engin óttamerki, sný mér að honum og hef annan hnefann krepptan við síðuna. En brátt kemur í ljós að það er ekkert að óttast, þótt hann sé búinn að sofa síðan ég kom er hann enn þá drukknari en dauðagámurinn á Þjóðhátíð. Hann á í miklum erfiðleikum með að sitja uppréttur við vegginn og er sífellt við það að detta á andlitið.

Hann segir mér óspurður að þetta sé meira helvítis vesenið, hann hafi verið tekinn fyrir ölvunarakstur í þriðja sinn og muni missa prófið. Hann segist ekki fatta þessar ölvunarakstursreglur, hvernig á hann eiginlega að koma bílnum heim ef hann má ekki keyra? Ég þakka fyrir að vera ekki vitlausari en ég er, sem er reyndar nógu vitlaus til að koma mér í fangelsi í eina nótt.

 Hann fær að hringja og sannfærir systur sína um að koma að sækja sig. Það krefst töluverðar vinnu, hún virðist ekki í skapi til að koma um miðja nótt að sækja hann í fangelsi, skrýtið.

Að lokum kemur lögga og fylgir honum út, ég sit eftir einn.

Þá er kominn tími til að breyta um aðferðir. Einn vörðurinn virðist vinalegur, þegar hann snýr aftur að ná í matarbakkan reyni ég að spjalla við hann. Ég leik meinlausan og slakan gaur, spyr um vinnuna hans og hvernig hversdagurinn sé hjá honum, spyr hvernig ölvunarreglurnar séu í Danville. Hann segir mér að íbúar megi ekki svo mikið sem tala óskýrt út af drykkju, þá eigi að handtaka þá. Ég passa að þræta ekki neitt né minnast á málið mitt, tek undir allt sem hann segir og flissa þegar hann kemur með lélegan brandara.

Stælarnir sem Tröllalöggan og Aðalskipuleggjarinn voru með eru ekki til staðar hjá verðinum. Hann virðist bara vera fínn gaur að vinna vinnuna sína. Hann segist verða að halda mér í tíu tíma, en blikkar mig þegar að hann segir það. Tímatalan er orðin lægri en áðan, litlu sigrarnir.

Þrjóskan hverfur hægt og bítandi og ég steinsofna upp við vegginn.

Hátt bank vekur mig, það er verið að hleypa mér út. Eigum mínum er skilað, þær virðast eitthvað fátæklegar: dauður sími, lyklar og veski. Var ekki peningur í veskinu í gærkvöldi? Ég læt vera að vera með einhvern kjaft. Þeir spyrja mig um heimilisfang fyrir sektina, sú hugmynd kviknar að ljúga til um það en skynsemin fær að ráða för, ég reyni ekkert. Klukkan á veggnum er níu, það eru í mesta lagi sjö tímar síðan ég var handtekinn. Ég brosi og reyni að tjá verðinum þakklæti. Hann kinkar kolli og kollegi hans býður far í bæinn. Ég afþakka, búinn að fá nóg af löggum í bili.

Ég kem út í sólina og upplifi tvær andstæðar tilfinningar. Annars vegar ótrúlega gleði með að vera laus. Hins vegar reiði út í allt og alla, skólann, lögguna, þennan bæ, sjálfan mig og allt annað sem mér dettur í hug. 

Eftir langa göngu kem ég heim og útskýri atburði næturinnar fyrir fólkinu sem leyfði mér að búa hjá sér. Þau eru vægast sagt brjáluð og segja ýmislegt, en mig grunar að ég hafi verið svo aumkunarverður að þau fóru fljótt að vorkenna mér. Reglur um partístand eru hertar, skiljanlega. Þegar við kvöddumst nokkrum mánuðum seinna, gáfu þau okkur Leikstjóranum fallegar heimasaumaðar svuntur. Á hans var gítar, á minni lykill. Þegar Leikstjórinn spurði hvers vegna ég fengi lykil svaraði húsráðandi skellihlæjandi.

– Því hann var læstur inni.

Talandi um Leikstjórann. Hann kom heim úr kirkjunni morguninn eftir handtökuna, í sjokki. Þegar hann sér mig segir hann:

– Þú munt ekki trúa hvað gerðist á tónleikunum.

– Þú munt ekki trúa hvað gerðist hjá mér, svara ég.

– Maður fékk hjartaáfall í miðri athöfn, það er í lagi með hann. Á meðan sjúkraliðarnir unnu var kórinn látinn syngja sálma og hann var borinn út við söng og klapp allra kirkjugesta.

– Ég var handtekinn.

Við störum hvor á annan og svo á nákvæmlega sama tíma, á þennan hátt sem bara sannir vinir geta gert, springum við úr hlátri. Við vorum báðir harðir á að saga hins væri miklu bilaðari.

Ég sendi tölvupósta til kennaranna í Englandi, svörin voru furðu skilningsrík, mér leið betur eftir lesturinn.

Samt skammaðist ég mín og ákvað að hafa ekki hátt um þetta, segja bara Leikstjóranum og Englinum. Hálftíma seinna áttaði ég mig á að ég sagði Leikstjóranum og Englinum frá einhverju sem átti að vera einkamál. Einmitt þegar ég hugsaði það kallar Leikstjórinn á mig úr herberginu sínu, hann var á Skype með nokkrum samnemendum okkar. Einn þeirra sagði glottandi:

– Hvað segirðu, eitthvað sem þú þarft að segja frá?

Þetta var ekki lengi að spyrjast út og stríðnin var mikil, en skemmtileg. Þegar við hittumst aftur eftir skiptinámið leið næstum heil mínúta þangað til einhver heimtaði söguna. En það er staðreynd, að ef þú gerir eitthvað sem þú skammast þín fyrir er best að vinna úr því með hlátri og góðum vinum. Þetta þurfti að benda mér á, nokkrum sinnum.

Ég hugsaði mikið um það sem gerðist næstu vikur, mánuði og jafnvel ár. Þegar þetta gerðist langaði mig að kenna gjörsamlega öllum öðrum um, meðvitað og ómeðvitað. Hvort sem það var skólinn, kennarinn sem ég gisti hjá eða reglan að þú mættir ekki sjást ölvaður á almannafæri. En þegar á leið gerði ég mér grein fyrir að þetta var einum manni að kenna, hann er ljóshærður Hafnfirðingur sem ég hitti daglega, í speglinum.

Ég var að prófa mig áfram í lífinu, hversu mikið ég komst upp með. En ef þú stígur alltaf á línuna kemur að því að dómarinn flauti á þig. Ég áttaði mig líka á að ég var með ákveðin markmið í lífinu og það að vera alltaf fullasti gaurinn var ekki eitt þeirra.  Ég var ekki gaur sem ég var stoltur af, né á braut sem mér líkaði við. Ein afleiðing var að ég fór að taka það að skrifa og lyfta fastari tökum, fattaði hversu miklu máli það skipti mig. Ekki láta þér detta í hug að breytingin hafi orðið á einni nóttu, þetta voru bara fræ.

En áður en það allt gat gerst þurfti ég að svara kærunni og borga sektina.

Hún barst í pósti nokkrum vikum eftir handtökuna. Ég íhugaði að mótmæla, að reyna að fá hana allavega mildaða, en var bent á að dómari hefði vald til að henda mér úr landi. Þannig að ég fór niður í dómshús og borgaði sektina, sem var 200 dalir. Ég fékk kvittun, sem fer einn dag upp á vegg hjá mér.

Dalirnir 200 voru sundurliðaðir á litla miðanaum. Sektin fyrir glæpinn sjálfan ekki nema fjörutíu dalir. Svo voru hlutir eins og handtökugjald, notkun á lögregluaðstöðu, maturinn ógeðslegi og tími réttarkerfisins og svo framvegis. Það er ekki frítt að gista fangageymslur, en ég hef farið á hótel sem voru verri og dýrari.

Þar sem ég stend í sólinni fyrir utan dómshúsið og les litla miðann get ég ekki annað en skellt upp úr. Neðst á kvittuninn er eitt atriði sem passar ekki inn. Í ljós kemur að í Danville er mikill metnaður fyrir ákveðinni stofnun, sem ég hef sjálfur notað víðsvegar um heim og mér þykir vænt um. Stofnun sem passaði mig dögum saman í Hafnarfirði þegar ég var krakki. Ein mikilvægasta menningarstofnun í siðmenntuðu samfélagi.

Í Danville fer prósent af öllum opinberum gjöldum til þessarar stofnunar. Það síðasta á listanum er tveggja dollara bókasafnsgjald.

Ég vil ekki skilja við Bandaríkin á neikvæðum nótum. Fyrir utan eitt kvöld var ferðin þangað frábær og fólkið yndislegt.

Á þakkargjörðarhátíðinni fékk ég heimboð, frá vini mínum Kananum, til Michigan. Þegar við keyrðum í gegnum 8 Mile, Detroit, var Eminem settur í botn og við öskruðum hvert einasta orð við Lose Yourself, skælbrosandi. Hvítari hef ég aldrei verið.

Þakkargjörð gengur í garð. Mamma Kani fór á fætur klukkan fjögur um morguninn til að setja kalkúninn í ofninn. Hví? Jú, það varð að borða áður en háskólaleikurinn byrjaði í hádeginu. Fjölskylda að mínu skapi.

Í hálfleik reis Pabbi Kani úr sófanum. Hann horfði á mig drykklanga stund og sagði:

– Kani, náðu í byssurnar.

Ég skildi ekkert hvað var í gangi. Við fórum út á svalir og mér var rétt byssa í fyrsta sinn. Þeim fannst bara ekki hægt að ég hefði aldrei skotið. Ég fann nákvæmlega sömu spennuna og þegar ég kveiki í flugeldi.

Heimilið var í úthverfi smábæjar, margir kílómetrar í næsta veg eða hús. Hver þarf skotsvæði þegar góður garður er á staðnum? Við komum okkur fyrir á svölunum, Kani kenndi mér undirstöðuatriðin á meðan Pabbi Kani hengdi upp skotmörk á trén í bakgarðinum.

Ég hélt að þetta yrði eins og í bíómynd, ég tæki bara riffilin upp og baunaði niður skotmörk. Svo var ekki, áður en ég fékk að svo mikið sem snerta byssuna var langur öryggisfyrirlestur. Maður fattar ekki hversu þungur riffill er fyrr en maður stendur með slíkan í höndunum eða hve óhugnanleg valdatilfinning það er að þurfa bara að gera ein mistök til að senda einhvern óvart inn í eilífðina. Né hversu hrikalega gaman er að taka í gikkinn, heyra hvellinn glymja og sjá risagat birtast á (réttu!) tré!

Þarna stóð ég umkringdur yndislegu fólki, með magafylli af kalkún og vopn í hendi. Þeim fannst ekki mikið til skothæfni minnar koma en ég sá strax hvernig menn fá dellu fyrir skitteríi. Þetta snertir einhverja taug í innsta eðli manns, taug sem er jafn frumstæð og hún er heillandi.

Svo æpti Mamma Kani á okkur að koma aftur inn, við máttum ekki missa af mínútu af þessu risatapi sem var í gangi á skjánum. Já og afgangar borða sig ekki sjálfir.

Það er margt skrýtið við Bandaríkin en drottinn minn hvað þau eru skemmtileg. Einhvern tímann mun ég hósta upp hugrekki til að spyrja sendiráðið hvort smámál eins og handtaka komi í veg fyrir nýja ferð þangað.

Örsögur úr ódýrri íbúð: Slæmar sögur

Íslendingar, saman í skóla í erlendri stórborg, auðvitað höldum við hópinn. Í bjartsýniskasti mætti kalla okkur lítið samfélag. Hópurinn stækkar og minnkar til skiptis, fólk innan hans byrjar og hættir saman, verða bestu vinir og svarnir óvinir, vinna, djamma og blóta þynnku saman.

Einn sunnudag er ég á leið inn í miðborg með hluta hópsins, meðal annars Englinum og Boltastráknum.  Við Engillinn erum búin að þekkjast í mörg ár en við erum nýbúin að kynnast Boltastráknum. Hann er á annarri braut í skólanum og var meðal annars í efnilegri rapphljómsveitt áður en fyrsta rappbólan sprakk. Skemmtilegur gaur, með frábæran skotfót í fótbolta og eini maðurinn undir fimmtugu sem er raunverulega töff með yfirvaraskegg.

Kvöldið áður var óvænt og langt djamm. Núna erum við skítþunn í lestinni umkringd Bretum. Ég man ekki hver byrjaði, líklega ég, en við erum að skiptast á okkar verstu ælu- og þynnkusögum. Þetta er álíka geðslegt og það hljómar.

Sögurnar eru blanda af því sem við höfum sjálf gert og sögur af vinum. Ég segi frá því að vakna við hliðina á stelpu í útilegu sem hafði einhvern veginn náð að æla, bókstaflega, upp fyrir haus og breytt hárinu á sér í harðan hjálm með ælulími.  Mín saga var ekki subbulegust og við skemmtum okkur konunglega við að toppa hvert annað. Saga um að stoppa samfarir í miðjum klíðum til að fara að æla tekur sigurbikarinn.

Það er líka eitthvað skemmtilegt við að vera að tala um svona í miðjum lestarvagni þar sem enginn skilur okkur. Englendingarnir líta okkur hornauga í hvert sinn sem einhver klárar sögu og við springum úr hlátri. Þau eru kannski að velta fyrir sér hvað sé í gangi en skilja sem betur fer ekkert í hrognamálinu okkar.

Þegar við nálgumst miðborgina komum við Boltastrákurinn auga á tröllvaxinn fótboltavöll. Ég spyr hann hvort hann þekki völlinn og hann neitar, en dettur nokkur lið í hug. Okkur langar að skella okkur á leik. Hann spyr mig hvort hann eigi að spyrja gaurinn í næsta sæti og ég hvet hann til þess. Hann segir við manninn, sem kom inn rétt á eftir okkur og hefur setið pollrólegur við hlið okkar síðan:

– Excuse me mate, you know which team plays at that stadium?

– Veistu ég er bara ekki viss, svarar farþeginn á óaðfinnanlegri íslensku.

Við springum úr hlátri og verðum vandræðaleg, höldum kjafti það sem eftir er ferðarinnar. Aldrei gleyma, sama hvar þú ert í heiminum, ef þú heldur að þú sért að tala á einkamáli er einhver einn sem skilur íslensku í kringum þig. Það er fokking lögmál.

Örsögur úr ódýrri íbúð: Öl, bros, hróp og köll

Ég, Ferðalangurinn og Forsetinn erum komnir á stjá og höfum takmarkaða hugmynd um hvað sé á dagskrá. Þarna er krá, við erum í miðbænum og það er alveg nógu gott plan í bili.

Við byrjuðum snemma og fengum okkur nokkra bjóra í fyrir-partíi. Síðan fengum við okkur nokkra bjóra í lestinni og svo nokkra bjóra á göngunni frá lestarstöðinni á skemmtistaðinn. Ólíkt sumum í hópnum var ég ekki tilbúinn að nota ruslatunnu í lest sem salerni. Það voru mistök.

Ég finn salerni skemmtistaðarins á mettíma. Um mig hríslast hrein sæluvíma þegar ég sé hvíta pissuskálina og litla gula kubbinn sem reynir veikum mætti að halda lykt staðarins smekklegri.

Við hliðina á mér stendur maður í hrikalega töff fjólubláum pleðurjakka. Er í lagi að hrósa jakkanum? Jú, samkvæmt einni mikilvægustu reglu pissuskála er í lagi að hrósa jakka, ekki úri. Þar að auki erum við drukknir, þannig að félagslegir þröskuldar eiga ekki við. Ég segi honum að jakkinn sé töff, hann þakkar. Er áfengi ekki sniðugt?

Við störum á vegginn, finnum lítið til að spjalla um. Hvor okkar ætli verði fljótari að tæma? Hið íslenska keppnisskap streymir um mig og öll einbeiting fer í að ljúka mér af eins hratt og mögulegt er.

Sigur! Þvagblaðran mín er skilvirkari og kraftmeiri en blaðra Pleðurmannsins, sem hlýtur að gera mig að meiri manni. Keppninni er lokið, hvað er rökrétt næsta skref?

Nú, að hvetja næsta mann áfram, það skiptir næstum jafn miklu máli að vera með og að vinna. Næstum, sama hvað tómir frasar um að gott silfur sé gulli betra segja. Íþróttaandinn kemur yfir mig og ég hrópa:

– Þetta að koma, hann er að ná að endasprettinum! Koma svo!

Pleðurmaðurinn reynir að halda niðri hlátrinum, sem heppnast ekki.

– Þetta er ótrúlegur kraftur, hann gæti verið að detta í met! Við höfum ekki séð annað eins hérna í mörg herrans ár!!!

Þar sem hann hristist allur af hlátri endar vökvinn um alla veggi, lýsanda til miklar gremju.

– Nákvæmni! Þetta er alveg að verða búið! Haltu fókus, maður! Haltu fókus og kláraðu málið! Hann er á barmi sögubókanna! ÞVÍLÍKUR SIGUR! ÞETTA VAR ÓTRÚLEG FRAMMISTAÐA!

Hann lýkur keppni, þvær sér um hendurnar og þakkar mér fyrir. Næsta manni í röðinni að skálunum finnst þetta svo fyndið að þegar ég ætla út heimtar hann eins lýsingu og svo sá þriðji líka.

– Hér er komið að næsta riðli, á vellinum eru keppendur, vel vökvaðir og hressir. Við fyrstu skál er herra þröngar buxur, sem hefur hitað upp með tveim stellum og vodkaskoti …

Í fimm mínútur lýsi ég mönnum í bókstaflegri pissukeppni, með ákafa sem Gummi Ben væri stoltur af, eins og ég sé í beinni útsendingu frá Ölympíuleikunum í þvaglosi. Áfengi er greinilega sniðugt.

Þegar þetta er komið gott geng ég út. Þar er Pleðurmaðurinn að spjalla við Ferðalanginn. Þeir þekktust ekki fyrir fimm mínútum en eru núna eins og æskuvinir. Ég blanda mér í talið og hrósa aftur jakkanum. Hann spyr mig hvort ég vilji ekki prófa hann, sem ég þigg með þökkum og lána minn eigin í skiptum.

Pleðurjakkinn er allt of þröngur, sérstaklega um upphandleggina sem gleður mig, en mér finnst jakkinn fullkomna mig. Já, hann er ögn fáránlegur en hann vekur athygli og ég get grínast með hann það sem eftir lifir kvölds. Enginn dregur mig inn í skáp til að ræða dýpri tilfinningar sem jakkar standa fyrir, en það hefði svo sem ekki komið á óvart. Ég ætti kannski að kaupa mér svona flík, verða einn af þessum gaurum sem er í aðeins og fínum jakka fyrir aðstæðum og setur upp smá yfirlætissvip.

Það líður að lokun og Pleðurmaðurinn finnur mig fyrir utan. Hann heimtar að við skiptum aftur í eigin flíkur. Mér finnst eins og ég sé að afhenda hluta af sjálfum mér. Vonbrigðin eru algjör. Þetta hefði getað verið upphafið að frábærri vináttu við jakkann en í staðinn stend ég í lok kvölds í sama leiðinlega svarta jakkanum og ferðin hófst í.

Ferðalangurinn og Forsetinn gera sig tilbúna í að halda kvöldinu áfram í nálægu spilavíti. Þegar Forsetinn ætlar að leggja af stað sér hann að ég er sestur á gangstéttina og stari stjarfur út í loftið. Pirringurinn yfir jakkanum kom af stað tilfinningaflóði innra með mér. Ég er bæði sár og reiður, ekki út í Pleðurmanninn heldur út í sjálfan mig. Ég er ekki einu sinni viss af hverju ég er reiður, ég er það bara. Áfengi er kannski ekki sniðugt.

Forsetinn spyr mig hvort ég vilji ekki fara heim með kunningjum hans í næturstrætó. Hann kann á mér lagið og sannfærir mig um að þetta sé allt í lagi, reynir að hughreysta mig. Hann minnir mig á að við höfum allir gert eitthvað svona. Ég samþykki það og  hann kemur mér á heimleið. Þeir halda á vit ævintýranna með nokkrum nýjum félögum. Eitthvað ævintýri hefur það verið. 

Morguninn eftir vaknar fólk heima í misslæmu ástandi . Ég er með svíðandi djammviskubit. Eftir að atburðir kvöldsins hafa verið rifjaðir upp kemur upp milljón króna spurning. Hvar er Ferðalangurinn?

Í símanum eru engin skilaboð frá honum.  London er ekki Reykjavík og það er ekki alveg jafn sjálfsagt að skila sér heim, láttu mig þekkja það.

Þegar við erum alveg að fara að hringja áhyggjufull símtöl hingað og þangað er bankað. Ég opna og léttir við að sjá Ferðalanginn, en hann segir aldrei þessu vant ekki orð. Í augunum er kunnulegur glampi. Hann var að gera eitthvað virkilega heimskulegt, sem honum finnst fyndið. Hann réttir mér hvítan miða, smá glottandi og smá skömmustulegur.

Miðinn er kvittun fyrir áttatíu þúsund króna nótt á hóteli. Áfengi er alveg klárlega ekki sniðugt.

Ferðalangurinn segir að drykkjan hafi skollið á honum eins og veggur stuttu eftir að þeir hafi mætt í spilavítið og hann hafi látið sig hverfa. Um leið og hann var kominn út mundi hann að hann var í borg sem hann þekkti ekki, símalaus og á síðustu metrunum. Reyndi hann að finna leigubíl eða lestarstöð? Reyndi hann að ganga heim? Nei.

Hann fann lítið hostel og reyndi að tékka sig inn. Þau voru ekki til í að taka við drukknum Íslendingi klukkan 4 um nótt. Síðan hvenær eru hostel svona snobbuð?

Hann lét ekki höfnunina á sig fá heldur gekk inn á fjögurra stjörnu hótel eins og hann ætti staðinn. Þar var tekið á móti honum eins og stórstjörnu, hann fékk herbergi og morgunmat með. Hann þurfti reyndar að vera búin að koma sér út fyrir hádegi, þannig að klukkutímaverðið hefur verið um tíuþúsund kall.

Við verðum væntanlega aldrei sammála hvor okkar var vitlausari þegar hann ákvað að ganga heim í London. Hann mun líklega aldrei fyrirgefa mér fyrir að benda á að leigubíll hefði kostað að hámarki fimmtán þúsund krónur.

Örsögur úr ódýrri íbúð: Tekjuskerðing

Stofan er grenið mitt. Kosturinn við að vera í minnsta herberginu er að borga lægstu leiguna, gallinn er að í herberginu er ekki einu sinni pláss fyrir auka stól. Einbreitt rúmmið þekur meira en helming gólfflatarins, bókahrúgur og hrútalyktandi þvottakarfa restina. Þess vegna er ég oftast í stofunni, ef ekki með nefið ofan í námsbók þá liggjandi eins og skata á sófanum að horfa á fótbolta.

Eini gallinn við stofuna er ónotuð stálsúla á miðju gólfi og svo dökkir myglublettir í loftinu. Þennan dag sem aðra hundsa ég það á meðan ég blunda á sófanum. Ég get ekki staðhæft að ég hrjóti, en það er líklegt. Útidyrahurðin opnast og Töffarann öskrar á mig.

– Haltu kjafti og lofaðu mér að þú farir aldrei í klippingu til nema.

Ég hrekk við. Líður eins og þegar mamma notar allt nafnið mitt. Hvað gerðist og af hverju er ég sekur?

Töffarinn kemur inn í stofu og mér léttir, þessi óvænta gremja er líklega ekki mér að kenna. Hún hefur breyst síðan í morgun. Glæsilega hárið hefur verið klippt stutt, meira að segja mjög stutt. Hún kastar jakkanum í mig og kallar mig öllum illum nöfnum, ég get ekki annað hlegið að þessari sjóðandi reiði.

Hún er harðari en hún lítur út fyrir að vera og stutta klippingin dregur fram þá hlið. Ég prófa að hrósa henni, segi henni að hún sé algjör nagli svona. Það virkar ekki, fólkið í næsta hverfi heyrir hana öskra á mig:

– Þú skilur ekki, hálfvitinn þinn, þetta mun kosta mig nánast allar tekjur og ég enda á götunni! Með síða hárið gat ég tekið inn mörg hundruð pund á einu kvöldi en helvítis perrarnir eru ekki hrifnir af trukkalessum!

– Ég skil, lýg ég, en af hverju í baðstu um stutt hár?

Bingó! Ég fann einu orðin sem gátu reitt hana til enn meiri reiði. 

– Ég gerði það ekki!!! Helvítis andskotans nemaskíturinn klúðraði og var að reyna að laga og laga og laga og laga og svo var þetta allt í einu svona!

Ég á allt eins von á að hún byrji að berja mig með súlunni svo ég lyfti höndum og hætti að hlæja. Best að spyrja ekki hvað hún var að pæla að fara í nemaklippingu fyrst hárið skiptir svona miklu í vinnunni.

Seinna átta ég mig á klikkun þess sem hún er að segja. Töffarinn er heit, sjóðandi heit. Hún vinnur fyrir sér með útliti sínu, með því að selja perrum aðgang að því og láta eins og athygli þeirra sé ekki ógeðfeld. Þetta er skítugt starf en þeir sem endast í því geta haft heilmiklar tekjur. Tekjurnar eru merkilega stöðugar, auðveldlega 150–250 þúsund íslenskar á viku, meira eða minna allt undir borðið.

Ekki þannig undir borðið. Bara svart og sykurlaust. Hún gekk aldrei lengra en að dansa á perrunum. Eins og aðrar fatafellur með þau mörk leit hún niður á þær sem voru til í að ganga lengra í bak- og hóteherbergjum.

En vegna þess að hárið styttist var hún komin neðst í röðina hjá perrunum. Af því að það er ekki nóg að vera flott, þú þarft að vera flott á nákvæmlega þann hátt sem perra í slæmu hjónabandi dreymir um. Kynlífsiðnaðurinn er ekki bara ógeðslegur, hann er stórskrýtinn.

Samt er eitthvað sem passar ekki alveg. Hún ætlaði í upphafi vetrar að hætta að vinna, var ákaflega montin af því hvað hún var vel stæð. Hún átti sparnað og það er ekki eins og hún eyði fúlgum fjár í mat og leigu. Ég bara verð að spyrja:

– Þú átt mörg þúsund pund í krukku inni hjá þér, segi ég, það hlýtur að geta brúað bilið þangað til hárið vex aftur, ekki satt?

Reiðin rennur af henni á andartaki og hún verður skömmustuleg.

– Ja sko, ég átti mörg þúsund pund en ég er búin að eyða nánast öllu.

– Búin að brenna þig í gegnum árslaun meðalmanns á tveim mánuðum? Hvernig?

– Ég verð gjafmild þegar ég er full. Í þessari vinnu þarf maður eiginlega alltaf að vera fullur, eða helst aðeins meira en það. Annars fer maður að hugsa um það sem maður er að gera. Áfengi og dóp er því miður ekki ókeypis.

Ég spurði hana ekki aftur út í fjármál. Hárið óx aftur, eins og það gerir hjá flestum, en í millitíðinni vann hún ansi litrík störf til eiga fyrir leigunni.

Örsögur úr ódýrri íbúð: Mikki Refur

Það er partí og ég er að nálgast fötlun af drykkju. Einn bjór verður tveir sem verða níu og skyndilega man ég ekki hvað tungumál eru. Vinir mínir gufuðu upp fyrir löngu og fólkið í kringum mig er leiðinlegt. Falleg stelpa lítur á mig og svipurinn segir mér hversu fáránlega drukkinn og ógeðslegur ég er.

Við þessar aðstæður er aðeins eitt í stöðunni, drulla sér í bólið og kvíða djammviskubits morgundagsins. Ég kveð engan og legg af stað heim. Loftið er kyrrt og svalandi. Íslendingurinn í mér er alltaf jafn hissa þegar það er ekki rok eða í það minnsta gola. Ég tel mig muna í hvaða átt húsið mitt er, þótt ég sé ekki alveg viss.

Eftir fimm mínútna göngu rek ég augun í forljóta blokk sem mig minnir að sé nálægt heimili mínu. Ástæða óvissunnar er að flest öll hús á svæðinu eru eins og teikningarnar að þeim hafi verið ljósritaðar. Þessi bygging er kannski við hliðiná heimili mínu en gæti alveg eins verið í næsta hverfi. Þar að auki er blokkin ekki í gönguleiðinni minni. Til að breyta um stefnu þarf ég að viðurkenna fyrir sjálfum mér að hafa ekki ratað heim.

Báðar starfandi heilasellurnar hefja hörkurifrildi. Þær segja hvor aðra vera drukkna og hafa áttvísi á við höfuðlausa hænu. Sú sem kannast við blokkina sigrar, ég vel götu sem stefnir að henni og held göngunni áfram.

Annað hvert skref er til hliðar, sem lengir ferðalagið. Eftir þó nokkra göngu sé ég hræðilega sjón. Á miðjum veginum, á þessari fáförnu leið, er refur. Hann er steindauður, hefur augljóslega orðið fyrir eða líklegast undir bíl. Heilasellurnar kveðja, nú eru tilfinningarnar við stjórnvölin. Sterkasta tilfinningin er sorg, óstjórnaleg og yfirþyrmandi sorg yfir að hann Mikki muni aldrei aftur veiða dýr í almenningsgarðinum.

Ég tek hann upp, legg höfuð hans á öxlina á mér og klappa honum blíðlega á meðan ég flyt hann niður keimlíkar göturnar. Hvers konar skepna gat keyrt á þennan nýja vin minn?

Ég segi honum að hann hafi líklega átt langa ævi, eigi betra skilið og sé nú kominn í borgina eilífu þar sem hver einasta ruslatunna er full af hálfelduðu kjöti og allir kettir flýi þegar mótar fyrir rauðu skottinu á Mikka. Að maðurinn á bílnum hafi verið skepna, sem skildi ekki að refir ættu líka skilið virðingu. Ég lofa honum viðeigandi jarðarför.

Bíll keyrir framhjá, hægir á sér og stoppar aðeins fyrir framan mig. Vonandi verður mér hrósað fyrir þetta góðverk.

Bílstjórinn öskrar út um gluggan:

– HVER ANDSKOTINN ER AÐ ÞÉR?! ÞÚ HELDUR Á DAUÐUM REF!

Ég svara eins og frekur krakki:

– ÉG ÆTLA AÐ GRAFA HANN!

– ÞETTA ER DAUÐUR REFUR!     

– HANN Á BETRA SKILIÐ!

Bílstjórinn orgar úr hlátri þegar hann setur í gír og brunar í burtu. En gargið hafði þá aukaverkun að vekja nokkrar heilasellur.

Ein þeirra stýrir augljóslega ekki siðferði og spyr mig hvort það ætti ekki að nýta hræið í eitthvað. Hvernig ætli refir smakkist? Eða kannski væri hægt safna nokkrum og sauma feldina í pels. Til þess þyrfti ég að læra fatasaum en í núverandi ástandi hljómar það frekar einfalt.

Önnur heilasella minnir mig á að refir í stórborgum eru, smekklega orðað, viðbjóðslegir. Þetta er heilasellan sem stýrir almennri skynsemi, hún er ekki vön að vera með læti en henni hryllir réttilega við að ég sé að ganga heim með rebba í fanginu. Væntanlega er ég að safna að mér aragrúa sjúkdóma og lyktin er ekki geðsleg. Hún sannfærir mig um að láta þetta mál niður falla. Ég get samt ekki bara kastað Mikka frá mér eftir svona gott spjall, það væri rangt.

Ég finn álitlegt tré í almenningsgarði, tíni nokkur blóm og kem honum fyrir, dapur inn að beini. Vonandi finna aðrir refir hann og votta honum virðingu sína. Áður en ég kveð óska ég honum góðrar veiðar í borginni eilífu og bið hann að minnast mín þar á meðan hann japlar á nýveiddum andarungum.

Ég held áfram inn í nóttina og finn heimili mitt, sem var vissulega hjá blokkinni ljótu alveg eins og mig minnti. Þar bíður svefn og stórfurðulegt djammviskubit.

Nokkrum tímum seinna kemur væntanlega morgunfúll bæjarstarfsmaður og spyr sig hvers vegna það sé dauður refur undir tré í garðinum, með framloppurnar í kross, haldandi um lítinn blómakrans. Það er að segja ef krákurnar finna Mikka ekki fyrst.

Örsögur úr ódýrri íbúð: Hvað er klukkan?

Seint um kvöld í milljónaborg. Ég er á heimleið með tónlist í eyrunum en heyri einhvern öskra á mig. Hann vill vita hvað klukkan er. Ég hundsa hann og eyk gönguhraðann. Hann kallar aftur, hrópin færast nær.

Hugur minn flýgur af stað. Nýlega gekk ránsbylgja um hverfið. Tveir gaurar sem fóru alltaf eins að. Þeir spurðu fólk úti á götu hvað klukkan var. Fórnarlambið dró fram símann, sem þeir ýmist gripu og hlupu með á brott eða hótuðu viðkomandi þar til tækið og veski var afhent. Ein stelpa var svo óheppin að vera í flegnum bol þegar þeir gripu hana, þeir lykluðu á henni bringuna, örið var hrikalegt. Ferðalangurinn lenti í þeim en náði að stinga sér inn í búð og beið eftir að þeir færu. Það er engin búð nálægt mér, en ég er ekki tilbúinn að afhenda neitt.

Ég sný mér við og reyni að virðast sultuslakur á meðan ég tek heyrnatólin af mér. Hjartað hamast, það er enginn annar sjáanlegur. Hann er bara einn og hann er lágvaxinn, sem gefur mér smá kjark. En ég man að þó byssuglæpir eru sjaldgæfir í London en hnífaglæpir eru faraldur. Já og hann er líka með þessa stóru vasa á jakkanum, hvað sem er gæti verið í þeim.

Adrenalín tekur yfir alla hugsun. Það er einhver fífldirfska í mér. Ef ég þarf að segja að ég hafi verið rændur, ætla ég að segjast hafa barið frá mér.

Við horfumst í augu, ég kreppi hægri hnefann og spenni bakvöðvana. Kannski mun hann hugsa: Ó nei, þessi er greinilega fær um að gera nokkrar upphífingar, það sést á fallega mótuðum Latsimus Dorsi-vöðvunum (sem gaurinn sér væntanlega í gegnum peysuna og jakkan) best að taka ekki upp hnífinn. Þetta er ekki gott plan, en skárra en ekkert. Eins og dýr á sléttunni reyni ég að gera mig stóran, stend þráðbeinn á meðan ég lyfti vinstri hendinni. Án þess að rjúfa augnsambandið les ég á úrið.

-Hún er næstum tólf, félagi.

Hann vegur mig og metur. Mér líður eins og ég sé að stara í augu rándýrs. Andartökin líða, löturhægt. Bringan á honum lyftist og hik kemur á hann. Ég geri mig ennþá breiðari, kreppi hinn hnefann og læt hendurnar standa aðeins út frá líkamanum. Innra með mér öskrar rödd á mig að hlaupa, það tekur á að hundsa hana. Sama hvað gerist, mun ég ekki rjúfa augnsambandið.

Hver einasti vöðvi er spenntur, ef hann stekkur á mig mun ég annaðhvort reka upp stríðsöskur eða snúa mér við og reyna að komast undan, hef ekki hugmynd um hvort það verður. 

– Takk. Óþarfi að vera svona hræddur, fáviti, segir hann og snýr sér við.

Hjartað tekur lokasprett. Þetta var fáránleg áhætta.

 Ég stend grafkyrr og bíð eftir að hann fari fyrir hornið. Um leið og hann hverfur úr augsýn hleyp ég heim eins hratt og ég fætur toga, þótt ferðin sé stutt er ég lafmóður þegar dyrnar lokast á eftir mér. Það er eins og losni um stíflu því óttinn margfaldast um leið og ég sest niður. Tilfinningarnar, sem voru bældar niður í hita augnabliksins, heimta að eftir þeim sé tekið. Það tekur á að ná aftur stjórn á andadrættinum og hendur skjálfa um stund.

Ég hringi í Spaðann, segi honum hvað hafi gerst og að ég þurfi bara að heyra vinalega rödd. Hann róar mig, hrósar mér fyrir viðbrögðin og segir mér að fara að sofa.

Eftir þetta ég lít ég betur í kringum mig að nóttu til og hætti alveg að stytta mér leið í gegnum óupplýsta garða. Á sama tíma finnst mér eins og ég væri aðeins öruggari með mig, ég lenti í hættu og brást vel við. Svoleiðis sjálfstraust er ekki hægt að kaupa, það verður bara til við að gera eitthvað hættulegt og ganga heill frá því.

Svo er líka mögulegt að gaurinn hafi í alvörunni viljað vita hvað klukkan væri og ekki skilið neitt í hvers vegna ég var svona tilbúinn í slagsmál.

Örsögur úr ódýrri íbúð: Beðmál í bænum – Guð minn góður

Sjáðu fyrir þér ungan gaur, í meðallagi myndarlegan og skemmtilegan, nörd og íþróttafíkil. Hann hittir fólk, kynnist því og hefur gaman af. Reynir kannski full mikið að fá aðra til að hlægja en er með svo hvolpa orku sem fólk nýtur.

Sjáðu svo fyrir þér að í hvert sinn sem hann sjái stelpu sem honum finnst áhugaverð, gleymi hann hvernig eðlileg samskipti virka og bæti upp fyrir það með því að drekka burtu feimnina, vera með stæla og segja óviðeigandi brandara til að hljóma kúl. Hæ, ég heiti Ingimar, gaman að kynnast þér.

Ein af ástæðunum fyrir að mér finnst djamm jafn spennandi og raun ber vitni er að eftir þó nokkra bjóra get ég spjallað við spennandi stelpu án þess að fara í hnút. Ekki að ég sé feiminn dags daglega, þvert á móti. Það er bara ef ég er skotinn sem ég gleymi hvernig á að mynda setningar. Bakkus var þá til í að bjóða fram aðstoð sína, gegn vægu gjaldi að hans sögn.

Það er flöskudagur og við Spaðinn erum mættir í partí. Við þekkjum aðeins húsráðanda, ákváðum að mæta og erum í óðaönn að kynnast nýju fólki. Stemningin er lýsandi fyrir upphaf skólaárs. Allir á staðnum vilja ólmir eignast sem flesta nýja vini, þeir óöruggari í hópnum eru aðeins of vel klæddir og aðeins of ákafir í að fólk hlæi með sér. Á meðan virðist svala fólkið fljóta um í stemningunni og skemmtir sér fyrir vikið betur.

Þegar hlé verður á spjalli við Spaðann tek ég eftir stelpu, Skvísunni. Hún er svakalega sæt. Það sem meira er, hún heilsar mér og ég heilsa á móti. Þetta kemur ögn á óvart en svo man ég að ég er í glasi og þar með ekki feiminn. Takk Bakkus!

Hvað á ég að segja? Hún er fyrri til, spyr hvort silfurkrossinn minn sé merki um að ég sé trúaður. Svo er ekki, ég segi að hann hafi verið útskriftargjöf frá ömmu og snúist meira um fjölskyldutenginguna en Guð. Hún segir að það sé sætt, spyr mig svo hvað mér finnist um Guð, þetta samtal er óvænt í miðju leiklistarpartí.

Ég segist ekki vera viss með Guð. Hún spyr mig hvort ég sé til í að fara afsíðis ræða þetta nánar. Gæti þetta verið upphaf að ástarævintýri? Ætli samtalið fari úr krossi í koss og hver veit hvert svo?

Við Skvísan læsum okkur inni í stórum skáp og hún opnar sig um eigin trú og hvað henni finnist skrýtið að vera í háskóla þar sem enginn deilir henni. Bakkus hvíslar að mér að ljúga að ég skilji til að auka líkurnar á að þetta leiði að einhverju líkamlegu, ég ákveð að hlusta ekki, hann kallar mig aumingja.

Ég spyr hvað hún meini og hún lýsir því að hún hafi verið í söfnuði alla ævi, ekki þekkt neinn sem deildi ekki trúnni. Nú er hún í háskóla þar sem flestir eru ekki bara trúlausir heldur sjái ekki hverju þau missa af með því að þekkja ekki Guð. Samtalið verður sífellt flóknara, við ræðum eðli guðs og ástar hans á mannkyninu. Satt best að segja á ég ekki marga (neina) heittrúaða vini og þetta er forvitnileg innsýn í heim fólks sem ég er almennt ósammála og hef mikla fordóma gagnvart. Ekki það sem ég sá fyrir mér, en bestu hlutirnir eru það sjaldnast.

Að lokum fáum við nóg af þessu spjalli og förum út. Eins og sönnum vini sæmir kemur Spaðinn samstundis auga á mig. Hann fær stoltglampa í augun og brosir félaga-brosinu. Þetta er háþróuð líkamstjáning sem félagar beita þegar þeir halda að einhver afrek í kvennamálum hafi unnist. Fyrri félaginn brosir þá út í annað munnvikið, augun lokast um helming og hann lyftir höfðinu hægt til að sýna virðingu. Ef brosið er verðskuldað svarar seinni félaginn í sömu mynt en brosir aðeins breiðar og lyftir höfðinu örlítið hærra.

Ég hristi hins vegar höfuðið. Hann þarf ekki að segja orð, tjáir með púkalegu glotti: Gengur betur næst.

Við Skvísan spjöllum reglulega eftir þetta en úr því verður aldrei meira en léttvæg vinátta, hugsanlega vegna þess að Bakkus rukkaði fyrir þjónustu sína með því að láta mig gleyma því hvað hún hét. Tvisvar.

Örsögur úr ódýrri íbúð: Svart og hvítt

– Getur ekki skaðað, segi ég. 

Spaðinn glottir eyrnanna á milli og réttir mér jónuna. Þetta er fyrsta skipti sem ég prófa grænt. Ef maður ætlar að fara út í svona vitleysu er alveg eins gott að gera það með góðum vini, gaur sem maður treystir.

Ég dreg djúpt andann. Staðráðinn í að vera svalur reyni ég að halda reyknum inni jafn lengi og Spaðinn. Reyknum líst ekki á það, hann brýtur sér leið út og veldur hrikalegu hóstakasti. Spaðinn hlær að mér og sýnir mér aftur. Ég endurtek leikinn, er í þetta sinn hógværari og anda frá mér tímalega.

Víman er góð, allt öðruvísi en áhrif áfengis. Slakandi. Við látum jónuna ganga á milli okkar. Hann er ekki stórreykingarmaður en í samanburði við mig er hann Snoop Dogg reyki klæddur. Hann tekur inn þrefalt magn af reyk og finnur fyrir svona helmingi áhrifanna. Innan skamms erum við orðnir ákaflega afslappaðir og ég skil loksins af hverju mönnum finnst Family Guy fyndnir þættir.

Spaðinn er einn besti vinur minn, þótt við séum eins og svart og hvítt. Ég segi það ekki bara að því að ég lít út eins og óskabarn þriðja ríkisins og hann er svartur, með rætur að rekja til karabíska hafsins. Hann er töffari í húð og hár, ég meiri bókanörd. Hann er Lundúnagaur, nærist á stórborgarorkunni og ég er Hafnfirðingur, finnst asinn í miðborg Lundúna óþægilegur. Hann þarf varla að smella fingri til að komast á séns með stelpu, ég … tölum um það seinna.

Við kynntumst á fyrsta degi í náminu og höfum verið félagar síðan. Við getum rætt ýmislegt sem enginn annar í bekknum hefur áhuga á. Heilu kvöldstundirnar fara í pælingar um hverjir eru fimm bestu rappararnir eða hvaða Vin Diesel-mynd sé flottasta blandan af meðalgóðum leik og frábærum hasar. Það er minna um slíkt með hinum strákunum í bekknum, þeir telja flestir söngleik og rauðvín vera fullkomna kvöldstund.

Líklega var þetta örlítið of mikill reykur, svona í fyrsta sinn. Það að opna munninn er eins og að vera ekki hræddur þegar LÍN hefur óvænt samband, það er að segja ómögulegt. Sem er fínt, aldrei þessu vant er ég frábær í að hlusta og Spaðinn þarf að pústa.

Spaðinn og hinir svörtu krakkarnir í skólanum passa ekki beint inn í Sidcup. Hverfið var lengi þekkt sem höfuðvígi enskra þjóðernissinna. Margir á svæðinu vilja meina að England hafi toppað um það bil fimm mínútum áður en fyrstu innflytjendurnir komu til eyjarinnar. Svona gaurar sem kusu með Brexit af slæmu ástæðunum og átta sig ekki alveg á því af hverju nýlenduþjóðirnar vildu sleppa undan bresku krúnunni. Er ég að vinna með ósanngjarna steríótýpu og er það kaldhæðnislegt vegna þess að ég er að gagnrýna þessa menn fyrir að vera fordómafullir? Já.

En ég er útlendingur, ætti ég ekki að vera með allavega eina sögu af svona mönnum að hrópa á mig að drulla mér úr landi? Neibb, ég er hvítur hvítur þannig að ég verð aldrei fyrir barðinu á neinu, en hann lendir reglulega í því að fólk skrúfar niður rúður á bílum og hrópar á eftir honum „FOKK OFF NIGGER“. Sú staðreynd að hann er tveir metrar á hæð útskýrir kannski af hverju flestir gera það bara á ferð.

Það sagði mér enginn frá þessum áhrifum grass, hugsa ég á meðan ég virði fyrir mér dansandi stjörnur. Staður og stund hverfur, þetta er fallegt mynstur. Ætli það sé gluggi inn í eilífðina, handahófskennd mynstur sem birtist til að sýna mér heim sem ég get aðeins heimsótt í huganum.

Alveg rétt, það er verið að tala við mig. 

Ég einbeiti mér að því sem Spaðinn er að segja. Hann útskýrir að hann hafi verið í myndatöku fyrr um daginn og ljósmyndarinn hafi spurt hvaða glæpamynd væri uppáhaldið hans og hvert væri draumahlutverkið hans í slíkri. Af hverju ætti viðkomandi að halda að hann elski glæpamyndir? Þú mátt giska þrisvar.

Málið með svona rasisma er að þegar hann birtist er hann bæði lúmskari og óþægilegri en fúkyrði frá fíflum. Spaðinn segir að gaurinn hafi ekki einu sinni meint þetta illa. En að ljósmyndarinn hafi bara gert ráð fyrir að Spaðinn vildi leika í glæpamyndum, því hann væri svartur, það var eins og kjaftshögg.

Ég skildi smá, bara agnarkorn, af þessari tilfinningu seinna. Áður en ég fór heim frá London bjó ég um tíma í hverfi þar sem ég var einn af sirka átta hvítum. Þegar þú lítur í kringum þig og sérð engan þinn líka ferðu sjálfkrafa í vörn. Það er bara óþægilegt, því miður. Eru þetta jafnar tilfinningar, nei. Þetta er eins og munurinn á pilsner og vodka og ég var að drekka pilsnerinn. En þetta gaf mér meiri samkennd með félaga mínum.

– Ertu með einhverja skoðun á þessu, segir Spaðinn að lokum. Mér að óvörum er munnurinn á mér farinn að virka. Ég þarf að velja orðin varlega, hér er tækifæri til að segja eitthvað viturt og kannski hjálpa vini. Ég hugsa vandlega um stöðuna, fer yfir hana í huganum og reyni að finna einhvern vinkil sem mun láta félaga mínum líða betur, án þess að gera á nokkurn hátt lítið úr tilfinningum hans.  Ég segi:

– Á ég að vera að sjá stjörnumynstur dansa fyrir augunum á mér?

 Spaðinn springur úr hlátri.

– Æ já, segir hann, ég gleymdi að segja þér. Það eru kristalar í þessu sem geta valdið mildum ofskynjunum. Steingleymdi að segja þér það.  Alveg óvart.

Við hlæjum saman í myrkrinu og raunir dagsins hverfa inn í reyk og hlátur. 

Örsögur úr ódýrri íbúð: Gott kast

– Einhver lokaráð? spurði ég Forsetann kvöldið áður en ég flutti til London.

– Já, svaraði hann brosandi, ljúgðu alveg eins og þú getur!

Daginn eftir kem ég til London og viku seinna vorum við Engillinn byrjuð í leiklistarnámi. Líf okkar tveggja hefur rímað árum saman, kynntumst í MH og endum hvað eftir annað á svipuðum slóðum. Hún er frábær söngkona og enn þá betri leikkona. Þegar við tókum fyrstu leikhúsæfinguna með nýja bekknum sagði kennarinn um hana:

– Þetta var eins og að horfa á engil leika.

Þennan morgun sitjum við Engillinn og sötrum skólakaffið, sem er fínt ef þú ert slæmu vanur og hefur aldrei fengið alvöru kaffi. Það eru ekki nema nokkrar vikur liðnar af skólanum og enn þá smá spenna í loftinu í hvert sinn sem við hittumst. Allir mjög meðvitaðir um að við munum eyða næstu þrem árum í nánu samstarfi.

Ég þarf að skreppa afsíðis en viskuorð Forsetans bergmála í eyrunum á mér. Ég segi við Engilinn að ljúga einhverju að samnemendum okkar meðan ég er í burtu. Hún brosir sínu breiðasta, í henni syngur vitleysingur og hans við hlið er lítill hrekkjalómur.

Þegar ég sný aftur af salerninu stekkur einn samnemandi upp úr sætinu, grípur í mig og spyr með stjörnur í augunum:

– Ertu mörgæsakastari?!

– Vissuð þið það ekki? svara ég og þarf að taka á honum stóra mínum til að brosa ekki.

– En eru þær ekki þungar?

– Nei ekki svo. Þetta er svipað og ungbarn. Fuglar eru með hol bein svo þeir eru léttari en þeir líta út fyrir.

Fyrsta lygalexía: Göbbels hafði rétt fyrir sér um eitt, ef lygin er nógu fáránleg mun fólk trúa henni.

Ekki spyrja mig hvernig mér datt svarið hug, kjafturinn á mér vinnur oftast hraðar en heilinn. Sjálfur vil ég vita úr hvaða ímyndaða heimi Engillinn sótti mörgæsakast, það er örugglega skemmtilegur staður.

Bekkurinn er enn þá að kynnast og margir eru meðvitaðir um að sýna sínar bestu hliðar, ekki vera að fíflast of mikið. Þau eru sem sagt ekki búin að uppgötva hversu miklir vitleysingar Íslendingarnir eru.

Þau láta spurningunum rigna yfir okkur. Ég útskýri að á Þorláksmessu sé Laugarvegurinn frystur og múgur og margmenni komi til að horfa á. Þegar miðnætti nálgast koma mörgæsakastararnir sér fyrir og reyna að fleygja fiðurfénu sem lengst. Kúnstin sé að láta þær skoppa nokkrum sinnum og ef hraðinn er nægur renna þær svo tugi metra. Tækninni svipi til þess að fleyta kerlingar. Við segjum að sportið hafi orðið til á Vestfjörðum og seinna orðið hluti af jólahefðinni.

Engillinn skýtur inn að ef mörgæsin komi ekki hlaupandi til baka sé kastið ógilt. Þessi regla sé til að sanna að mörgæsin sé að skemmta sér, menn sem geti ekki fengið mörgæsina til baka eigi ekki heima í íþróttinni.

Hún segir að ég hafi verið langbestur í mínum árgangi sem ég mótmæli. Ég segi þeim að ég hafi aldrei verið bestur en þótt efnilegur og alltaf verið í topp fimm í mínum aldursflokki. Ég segist hafa hætt þegar hann Maggi minn mörgæs hafi farið upp í sveit. Það hafi bara engin önnur gæs staðist samanburð við hann og kastgleðin hvarf með honum.

Lygalexía II: Ef þú segir eitthvað sem hljómar hógvært eða jafnvel vandræðalegt er líklegra að fólk trúi þér.

Þau halda áfram að spyrja og rétt áður en bjallan hringir segir einn samnemandinn við mig.

            – Vá, ég vissi ekki að svona kúl íþrótt væri til.

Við höldum í tíma og þegar ég kem inn lítur kennarinn beint á mig og ranghvolfir augunum. Samnemendurnir reyna hvað þau geta til að sannfæra hana en hún hefur kennt fleiri Íslendingum með þennan húmor og kaupir þetta ekki fyrir fimmaur. Áhrifa Forsetans gætir víða.

Að lokum játum við lygina og hin sjá spaugilegu hliðina á þessu. Þau ganga svo í það næstu vikur að hefna sín rækilega. Meðal annars sannfærði velskur samnemandi mig um að jakkinn hans væri úr kindagæru, sem er næstum trúverðugt, en svo sagðist hann hafa sjálfur húðflétt dýrið í manndómsvígslu. Ég kokgleypti þetta, því ég er kjáni með fordóma og hann þreyttist seint á að minna mig á það.

Lygalexía III: Ef þú ætlar að stunda svona grín er eins gott að þú takir því vel þegar þú ert sjálfur tekinn, annars ertu fífl.

Lygin um mörgæsakastarann lifði góðu lífi en var að lokum lögð í helgan stein. Við Engillinn höfðum verið í partíi og nýr vinur kom með okkur heim í lokabjór. Þegar talið barst að mörgæsunum stóð ég skyndilega upp og öskraði, með tárin í augunum, að ég saknaði Magga og vildi ekki tala um hann. Svo strunsaði ég út og skellti á eftir mér. Við steingleymdum að leiðrétta lygina og mörgum vikum seinna heyrðum við hann segja vini okkar að minnast ekki á mörgæsir við mig þegar ég væri fullur. Sem er reyndar ágætis regla.